Jæja krakkar. Þá styttist í að Leitin að grenndargralinu árið 2010 hefjist. Þetta er í þriðja skiptið sem nemendur á unglingastigi (8.-10. bekk) gera tilraun til að finna gralið. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá ykkur sem ætlið að vera með. Núna munu þrír skólar taka þátt en það eru Giljaskóli, Glerárskóli og Síðuskóli. Því er til mikils að vinna. Þrautirnar eru fjölbreyttar og ættu allir að finna eitthvað áhugavert við sitt hæfi. Allt er að verða klárt og fyrsta þraut mun birtast á
heimasíðunni eftir hádegi mánudaginn 6. september. Hún mun einnig fara upp á vegg í skólunum og þar munu þið geta fengið eintak af þrautinni til að taka með ykkur heim. Grenndargralið er enn sem komið er í Síðuskóla. Senn líður þó að því að það verði fært á felustaðinn. Það verður gert í skjóli nætur af ónafngreindum aðilum. Karamellukrukkan verður á sínum stað um miðbik Leitarinnar. Hvað leynist í krukkunni? Munið krakkar að vera duglegir að nýta ykkur heimasíðuna. Þar verður hægt að finna mikilvægar upplýsingar í tengslum við Leitina. Gangi ykkur vel og góða skemmtun.
Með kveðju,
Brynjar, Helga og Sigrún.
Glerárskóli tekur nú þátt í Leitinni að grenndargralinu í fyrsta skipti. Ég vil bjóða Glerárskóla velkominn til leiks og vona að nemendur og starfsmenn skólans hafi gagn og gaman af.
Brynjar Karl Óttarsson, verkefnisstjóri Leitarinnar að grenndargralinu.
Nú þegar þriðja ár Leitarinnar er gengið í garð er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá fyrsta ári 2008. Þátttaka þriggja skóla, viðurkenning skólanefndar Akureyrarbæjar og styrkur frá Menntamálaráðuneyti. Allt eru þetta hlutir sem verkefnið getur státað af þrátt fyrir ungan aldur. Leitin hefur vaxið jafnt og þétt frá því Giljaskóli einn tók þátt fyrsta árið. Hún er farin að vekja nokkra athygli og nú bætist enn ein skrautfjöðurin í hattinn með tilkomu heimasíðunnar. Heimasíðan mun þjóna þátttakendum Leitarinnar sem upplýsingamiðill sem og öðrum áhugasömum um verkefnið. Þrautirnar og fróðleikur sem þeim tengjast má sjá á síðunni. Þá verður hægt að lesa skemmtilega fróðleiksmola um sögu heimabyggðar, aðra en þá sem gagnast við lausn þrautanna.
Ekki má gleyma skemmtanagildinu. Það er von okkar sem stöndum að verkefninu að gestir heimasíðunnar hafi gaman af því sem þar verður boðið upp á. Myndir verða fyrirferðamiklar á síðunni t.d. af þáttakendum og sögufrægum stöðum í Eyjafirði. Sagðar verða fréttir af gangi mála og liðin kynnt til sögunnar eftir að Leitin er hálfnuð.
Fjölmargir spennandi möguleikar felast í notkun heimasíðunnar. Nú geta foreldrar, systkini, ömmur og afar eða aðrir sem tengjast þátttakendum Leitarinnar tekið fullan þátt með börnunum. Aðstandendur Leitarinnar að grenndargralinu vilja nota
þetta tækifæri og hvetja fjölskyldumeðlimi og/eða vini þeirra sem taka þátt í Leitinni árið 2010 að vera virkir þátttakendur í þeirri vinnu sem framundan er. Hvort sem það er aðstoð við upplýsingaöflun, akstur milli staða eða hvatning, þá veitir það vind í segl þeirra sem leita að grenndargralinu.
Við sem stöndum að baki verkefninu rennum nokkuð blint í sjóinn með þessu nýjasta útspili. Enn er ákveðin hugmyndavinna í gangi varðandi notkunargildi og útlit síðunnar og má búast við þreifingum því samfara næstu daga og vikur.Við vonum innilega að heimasíðan eigi eftir að ýta undir enn frekari landvinninga verkefnisins og gera okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu nemenda.