Bækur
Grenndargralið er alhliða vöru- og þjónustusproti á sviði menningarmála í heimabyggð. Rætur Gralsins liggja í þeirri skemmtilegu flóru sögu og menningar sem heimabyggð býr yfir og viðleitni til að matreiða hana á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning. Grenndargralið reynir eftir bestu getu að hafa þessi atriði til hliðsjónar í öllum verkefnum á sínum vegum, stórum sem smáum. Tvö meginviðfangsefni Grenndargralsins eru þjónusta og varningur undir nafni Grenndargralsins.
Grenndargralið hefur gefið út þrjár bækur og eina samantekt á sviði skólaþróunar.
~~~~~~
Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli
Bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Vinna við bókina hófst árið 2000 þegar heimildaöflun vegna lokaritgerðar til B.-ed prófs við Kennaraháskóla Íslands fór af stað. Ritgerð var skilað fullunninni vorið 2001 en heimildaöflun hélt áfram til ársins 2004. Þá var gert hlé á vinnunni en unnið áfram með hléum allt til ársins 2016 þegar vinna hófst af fullum krafti aftur. Mikið magn upplýsinga hefur verið safnað saman og er áhersla lögð á sögu sjúklinganna og daglegt líf þeirra.
Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Stuðst er við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin hefur að geyma fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.
Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Grenndargralið gefur út. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.
Hér má nálgast uppfærða heimildaskrá.
~~~~~~
Lífið í Kristnesþorpi
Bókin Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út fyrir jólin 2016. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson. Grenndargralið tekur hér saman sögur af upplifunum fólks sem bjó/býr í starfsmannabústöðunum í Kristnesi og á sveitabæjunum í nánasta nágrenni Kristneshælis. Rakin er 90 ára saga búsetuþróunar, saga fasteigna og umhverfis í bland við daglegt líf þorpsbúa. Bókin byggir á viðtölum við 8 einstaklinga sem búið hafa á Kristnestorfunni á mismunandi tímabilum frá vígslu Kristneshælis árið 1927 til dagsins í dag. Bókin inniheldur eitt og annað sem veitir innsýn í lífið í Kristnesþorpi. Má í því sambandi nefna minningabrot eða nokkurs konar örsögur þar sem íbúar Kristness deila með lesandanum einni minningu eða sögu af skemmtilegu atviki eða eftirminnilegu fólki. Þá hefur bókin að geyma efni úr dagblöðum, tímaritum og bókum auk áður óbirts efnis úr fórum fyrrverandi íbúa svo ekki sé minnst á mikinn fjölda ljósmynda. Gerð er tilraun til að taka saman frásagnir af ýmsu tagi, í máli og myndum og blanda þeim saman þannig að útkoman verði aðgengilegt uppflettirit um viðfangsefnið – bók um upplifanir fólks af lífinu í Kristnesþorpi fyrir íbúa Kristness í fortíð, nútíð og framtíð sem og aðra áhugasama. Ófá ævintýrin leynast í hugum þeirra sem búið hafa í Kristnesi. Hér gefst tækifæri til að skyggnast inn í samfélag sem á sér fáar hliðstæður. Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.
~~~~~~
Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt
Bókin Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út fyrir jólin 2015. Höfundur er Hildur Hauksdóttir. Bókin er ígrundun og tilraun til skilja betur ömmu höfundar, konurnar í lífi hennar og fólkið sem kom fótunum undir þjóðina á 20. öldinni. Helga Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Eyjafirði árið 1927. Hún missti móður sína og seinna fósturmóður ung að árum og var sett í fóstur. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur. Helga Guðrún er rauði þráðurinn í þessari sögu og speglar hún tíðarandann, bæjarbraginn á Akureyri og ekki síst uppvaxtarskilyrði alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun. Sagan er skrifuð fyrir fjölskyldu Helgu Guðrúnar en líka aðra sem vilja setja sig inn í hugarheim þeirra sem fá sjaldan rödd í sögubókum. Síðast en ekki síst er sagan skrifuð af þakklæti og þrá til að skilja betur hvaðan við komum og hvað mótar okkur sem manneskjur. Um umbrot sá Herdís Björk Þórðardóttir. Bókin var prentuð hjá Svansprent í Kópavogi.
~~~~~~
Giljaskólaleiðin
Undanfarin ár hafa nokkrir íslenskukennarar á unglingastigi í Giljaskóla unnið eftir hugmyndafræði sem gengur undir nafninu Giljaskólaleiðin. Stoðirnar eru þrjár og einkenna þær að miklu leyti þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í íslensku frá 8. bekk og þar til grunnskólagöngu lýkur. Áherslan er á framsögn, lestur og ritun í gegnum raunveruleg, merkingarbær viðfangsefni sem endurspegla veruleikann eins og hann blasir við utan veggja skólans. Reynt er eftir fremsta megni að koma afurðum nemenda, hvort sem þær er í ræðu eða riti, fyrir augu og eyru almennings. Samantektin hefur að geyma áherslur Giljaskólaleiðarinnar. Auk sérstakrar umfjöllunar um stoðirnar þrjár; framsögn, lestur og ritun er fjallað um samspil þeirra og grunnþátta menntunar eins og þeir birtast í aðalnámskrá. Boðið er upp á sýnishorn af verkefnislýsingum Giljaskólaleiðarinnar, leiðir skoðaðar við námsmat og vöngum velt yfir hvað framtíðin ber í skauti sér. Grenndargralið gefur út.
~~~~~~
Tölvugerð mynd af Akureyri 1862
Tölvugerð mynd af Akureyri 1862 var gerð í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar.
Myndin var unnin í samvinnu við Akureyrarkaupstað en Minjasafnið á Akureyri og Héraðsskjalasafnið á Akureyri aðstoðuðu við heimildaleit.
Hér má sjá nánari upplýsingar um verkefnið.
Veg og vanda af myndinni hafði Arnar Birgir Ólafsson í samstarfi við Grenndargralið.
Sigrún Helga
Ja það er ekki að spyrja að því.
Nýfluttir tilbaka verða að eignast svona fínerí.
Comment — June 11, 2013 @ 08:15
Bóksala stúdenta
Góðan daginn.
Okkur í Bóksölu stúdenta vantar 3 stk af hvorri bók
Í fjarlægð ISBN: 9789935242471 og Lífið í Kristnesþorpi ISBN: 9789935240934
Kær kveðja
Kristín Jóna, vefstjóri
S: 5700789
Comment — March 1, 2018 @ 16:29