main image

Leitin að Grenndargralinu

 

 

 

 

Hugmyndafræði

 

Markmið með Leitinni að Grenndargralinu er:

 • að auka grenndarvitund með áherslu á sögu og menningu

 • að kynna sögu og menningu heimabyggðar með vettvangsferðum og rannsóknarleiðangrum

 • að skapa aðstæður fyrir aukinni þekkingu á sögulegum atburðum úr nærumhverfinu á vettvangi atburðanna sjálfra

 • að brjóta upp hefðbundið fyrirkomulag skyldunáms með frjálsri þátttöku og sveigjanlegum vinnutíma

 • að fá sem flesta til þátttöku á eigin forsendum án utanaðkomandi þrýstings en virkja þess í stað innri námshvöt

 • að ýta undir frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð

 • að skapa jákvætt viðmót gagnvart námi í gegnum leik

 • að efla samtakamátt og samskiptatækni með keppnisfyrirkomulagi

   

   

Leitin að Grenndargralinu stendur elstu nemendum grunnskóla til boða (8.-10. bekk). Takmark þátttakenda er að finna bikar, hið svokallaða Grenndargral, sem búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Leitin að Gralinu tekur 10 vikur og hún fer þannig fram að nemendur, ýmist einir eða tveir saman, fá eina þraut (verkefni) til lausnar í viku hverri. Þraut sem tengist sögu eða menningu Akureyrar og/eða Eyjafjarðar.Við lausn hverrar þrautar fá nemendur bókstaf. Markmiðið er að safna að lágmarki tíu bókstöfum sem fást við úrlausn þrautanna sem þeir svo nota til að mynda ákveðið orð. Orðið er nokkurs konar lykilorð og er þekkt úr sögu heimabyggðar. Þegar krakkarnir ná að raða saman bókstöfunum og mynda sjálft lykilorðið öðlast þeir rétt til að hefja leit að Grenndargralinu. Til þess fá þeir eina lokavísbendingu sem vísar þeim á fundarstaðinn. Sá eða þeir sem finna Gralið standa uppi sem sigurvegarar. Þeir fá Gralið afhent til varðveislu í eitt ár við hátíðlega athöfn á sal þess skóla sem sigurvegararnir koma úr. Þá fá þeir verðlaunapeninga til eignar. Allir sem klára þrautirnar tíu fá viðurkenningarskjal fyrir góða frammistöðu eftir langa og stranga leit.

Menntastefna sú sem grunnskólar landsins vinna eftir er byggð á sex grunnþáttum. Í Aðalnámskrá grunnskóla (almennur hluti) frá 2011 segir: Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það (bls. 16). Í Leitinni að Grenndargralinu er áherslan á sögu og menningu heimabyggðar þar sem lykillinn að árangri felst í dugnaði og góðri samvinnu.

Hugtakið námshæfni kemur reglulega fyrir í Aðalnámskránni. Talað er um námshæfni sem undirstöðuþátt í öllu skólastarfi (bls. 26). Meðal annars er vísað í hæfni nemenda til að afla sér þekkingar og leikni eftir margvíslegum leiðum. Dæmi um leiðir eru heimildaleit á söfnum, vinna úti í náttúrunni og nánasta umhverfi og nýting mannauðs nærsamfélagsins t.d. reynsla og þekking foreldra og fjölskyldu (bls. 38). Í Leitinni að Grenndargralinu felst viðleitni til að færa nám nemenda í auknum mæli út fyrir kennslustofuna inn á vettvang þeirra sögulegu atburða sem þeir eru að kynna sér hverju sinni. Þar með minnkar vægi kennslubókarinnar en aðrir miðlar fá aukið vægi svo ekki sé talað um fræðslugildi vettvangsferðanna. Með þessu vaknar vonandi áhugi á samfélagsfræði þannig að nemendur upplifi námið merkingarbært, eitthvað sem komi þeim að gagni en umfram allt veki hjá þeim áhuga og virðingu fyrir því hvar rætur þeirra liggja.

Í Aðalnámskrá (2011) segir: Mikilvægt er að halda við eðlislægri forvitni barnsins, hún er ein mikilvægasta forsenda alls náms. Leikurinn er leið ungra barna til að læra á heiminn og læra um heiminn. Miklu skiptir að leiknum sem námsaðferð sé gert hátt undir höfði í grunnskóla og sú áhersla einskorðist ekki við yngstu nemendurna (bls. 44). Samhliða því námi sem á sér stað við úrlausn þrautanna fer fram keppni milli nemenda um að finna Grenndargralið auk þess sem allt ferlið er eins og einn stór leikur. Þannig upplifa þátttakendur tvöfaldan ávinning af þátttöku. Fyrir utan ánægjuna sem fylgir því að læra nýja hluti virkar keppnis- og leikjafyrirkomulagið ekki síður sem gulrót við að ná árangri. Jafnframt fer fram keppni milli skóla. Ekki er nauðsynlegt að taka þátt í Leitinni á keppnisgrundvelli.

Þeir sem koma að kennslu barna og unglinga standa nú sem fyrr frammi fyrir klassískum spurningum á borð við: Hvernig virkjum við innri námshvöt nemandans svo hann sjái tilgang með náminu, að námið verði honum merkingarbært? Hvernig framreiðum við kennsluna þannig að nemandinn hafi bæði gagn og gaman af? Aðalnámskráin hittir naglann á höfuðið þegar hún tilgreinir í almenna hluta hennar í kaflanum Inntak og skipulag náms að Í skóla án aðgreiningar á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á að velja árangursríkustu leiðirnar til að ná sem bestum árangri í samræmi við hæfniviðmið sem stefnt er að hverju sinni […] Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með nemendum áhuga og vinnugleði (bls. 48). Þá segir jafnframt í Greinasviðahluta námskrárinnar frá 2013, í kaflanum Samfélagsgreinar, að Hlutverk kennara í samfélagsgreinum er að gefa nemendum tækifæri til að þroska hæfni sína, til að eiga í innihaldsríkum samskiptum við aðra, veita þeim leiðsögn í lýðræðislegum vinnubrögðum og ljá þeim verkfæri, til þess að þróa skilning sinn á sjálfum sér, öðru fólki og því umhverfi og samfélagi sem þeir hrærast í (bls. 203). Þar með er þó aðeins hálfur sigur unninn. Það þarf að fylgja fögrum fyrirheitum eftir í verki og til þess þarf stundum að fara óhefðbundnar leiðir eins og gert er í Leitinni að Grenndargralinu. Hér er sumpart um nýja nálgun að ræða í kennslu nemenda á skólaskyldualdri. Gerð er tilraun til að færa framkvæmd kennslunnar/námsins út fyrir hefðbundinn vinnuramma nemandans. Þar sem nemandanum ber engin skylda til að taka þátt þarf að vanda vel til verka við framkvæmd verkefnisins og leggja mikinn metnað í þrautirnar. Að öðrum kosti kýs nemandinn að eyða frítíma sínum með öðrum hætti.

 Í Aðalnámskrá er áhersla lögð á getu nemenda til að sækja sér nýja þekkingu og leikni auk þess að vera ábyrgir og skapandi í þekkingarleit sinni. Til að ná þessu markmiði þurfa þeir að fá tækifæri til að fást við ólík viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins, umhverfi þeirra og daglegu lífi (bls. 25). Ennfremur er fjallað um mikilvægi þess að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi. Til að stuðla að ábyrgðarkennd nemenda er mikilvægt að þeim gefist kostur á að velja sér viðfangsefni og þeir fái að koma að ákvarðanatöku í tengslum við eigið nám. Þannig upplifa þeir námið merkingarbært (bls.68). Nemendur þurfa að sýna mikið frumkvæði við lausn þrautanna þar sem þeir hafa ekki sama aðgang að kennaranum og inni í kennslustofunni. Þá þurfa nemendur oft á tíðum góðan tíma til að leysa þær á fullnægjandi hátt. Vegna erfiðleika við að koma slíkri vinnu fyrir m.t.t. stundaskrár, rútuferða og annarra hamlandi þátta í skólastarfi fer öll vinna nemenda fram utan skólatíma og því er jafnframt um frjálsa þátttöku að ræða.

Mikilvægt er að skólar byggi upp virk tengsl við nærsamfélag sitt og stuðli þannig að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Þetta er mikilvægt til að auka fjölbreytni í námi, t.d. í valgreinum á unglingastigi og til þess að tengja nám nemenda veruleikanum í nærumhverfi þeirra svo það verði merkingarbærara. Þessi tenging snýr t.d. að umhverfi, menningu, listum, íþróttum, félags- og tómstundastarfi og atvinnulífi. Skólinn er oft hjarta byggðarlags þar sem kynslóðir mætast og má líkja við mannlífstorg borga og mikilvægt að skólar nýti möguleika sem bjóðast til að tengja saman ólíkar kynslóðir í samfélaginu (bls. 46). Ein stök þraut í Leitinni getur kallað á ferðir á nokkra staði í heimabyggð. Meðal þess sem nemendur hafa aflað sér upplýsinga um eru tengsl Jóns Sigurðssonar, frelsishetju Íslendinga, við fyrstu prentsmiðju Akureyringa og tengsl árása nasista á Coventry 1940 við eitt helsta kennileiti Akureyrarbæjar. Þar sem heimildavinnan og upplýsingaöflunin fer fram að langmestu leyti annarsstaðar en í skólanum koma þátttakendur sér milli staða ýmist fótagangandi, hjólandi eða með strætó. Í einhverjum tilfellum keyra foreldrar krakkana og taka jafnvel beinan þátt í verkefninu með þeim. Dæmi eru um að öll fjölskyldan taki þátt saman og hafi jafnvel eitt sjónvarpslaust kvöld í viku til að hjálpast að við að leysa þraut vikunnar.

Hver einn og einasti þátttakandi er með á eigin forsendum og er á engan hátt undir þrýstingi frá skólanum eða kennurum hans. Hver nemandi sem bætist í hópinn ber því með sér góð tíðindi. Tíðindi um að verkefnið sé raunverulegur valkostur í heimi þar sem áreiti er mikið á börn og unglinga, ýmist jákvætt eða neikvætt. Tölvur, ljósvakamiðlar, íþrótta- og tómstundaiðkun eru allt stór hluti af raunheimi unglingsins í dag. Því er mikil áskorun fólgin í verkefni sem þessu, ýta því úr vör og fylgja því eftir.

Hingað til hefur Leitin að Grenndargralinu einungis verið í boði fyrir nemendur í 8.-10. bekk grunnskóla. Öll sú vinna sem að baki er, hugmyndavinnan í aðdraganda verkefnisins og sjálf framkvæmdin á því hefur allan tímann miðast við það. Ekki skal þó útiloka möguleikann á að útfæra hugmyndina fyrir aðra aldurshópa. Vaxandi áhugi er meðal skólafólks nú um mundir að finna leiðir til að rjúfa með einhverjum hætti skil milli skólastiga. Gera námið meira fljótandi þannig að viðbrigðin verði minni þegar farið er af einu skólastigi yfir á annað. Velta má fyrir sér hvort verkefni eins og Leitin að Grenndargralinu sé ákjósanlegur valkostur í þeirri viðleitni. Skotið hafa upp kollinum hugmyndir þess efnis að skoða beri kosti þess að færa verkefnið upp á framhaldsskólastig. Þannig mætti bjóða upp á viðfangsefni sem nemendur grunn- og framhaldsskólans ynnu samtímis og hefðu jafnframt sameiginleg markmið. Allar slíkar vangaveltur eru þó enn á algjöru frumstigi. Tíminn mun leiða í ljós hvort hugmyndir sem þessar teljist raunhæfar

Leitin að Grenndargralinu er fyrst og fremst mikilvægur valkostur fyrir nemendurna sjálfa. Þátttakendur þurfa að sýna frumkvæði við úrlausn þrautanna og temja sér sjálfstæð vinnubrögð. Þeim gefst tækifæri til að læra sitt lítið af hverju um sögu og menningu heimabyggðar sem þeir að öðrum kosti fara á mis við. Þekkinguna, sem þátttökunni fylgir, öðlast nemendur utan kennslustofunnar og utan hefðbundins kennslutíma á vettvangi atburðanna sem þeir eru að læra um. Með jafn virkri þátttöku nemenda (meðvirkt nám (active learning)) og Leitin felur í sér vaknar vonandi aukinn áhugi á námi. Með frjálsri þátttöku fæst hópur áhugasamra nemenda sem hafa raunverulegan áhuga á að læra meira um heimabyggð sína. Innri námshvöt nemandans ræður för og sker úr um hvort hann tekur þátt eður ei. Sá sem vill ekki læra gerir það ekki. Sá sem vill læra gerir það. Þannig er kjarninn greindur frá hisminu. Eftir standa nemendur sem með dugnaði sínum, virkni og ástundun smita út frá sér og hvetja aðra áhugaminni nemendur til góðra verka í námi. Útkoman verður því öllum aðilum hagstæð.

 

Þekking, leikni og hæfni nemenda að loknu verkefninu birtist fyrst og fremst í:

 • Aukinni grenndarvitund
 • Jákvæðari sýn á nám.
 • Aukinni samvinnufærni.
 • Auknu frumkvæði og sjálfstæðari vinnubrögðum.
 • Ánægðari nemendum

 


 

Þraut 10 (10. nóvember) – Lokaþraut!!!

Hér að neðan má sjá sex myndir af mannvirkjum í heimabyggð. Búið er að afmynda myndirnar. Þegar þú hefur áttað þig á um hvaða mannvirki er að ræða skaltu koma svörunum til umsjónarmanns Leitarinnar.

Ef svörin eru rétt færðu síðasta bókstafinn til að finna út hvert lykilorðið er. Þegar lykilorðið er í höfn skaltu koma því til umsjónarmanns Leitarinnar. Í kjölfarið færðu eina lokavísbendingu sem vísar þér á Grenndargralið.

Mundu að nú skiptir öllu máli að vinna hratt og örugglega. Gangi þér vel!

Mynd 1

 

Mynd 2

 

Mynd 3

 

Mynd 4

 

Mynd 5

 

Mynd 6

 

 

Þraut 9 (3. – 9. nóvember) – Næstsíðasta þraut!!!

Á tveimur stöðum á Akureyri bíða þín tölur. Farðu á staðina og þú munt finna tveggja stafa tölur, eina á hvorum stað. Leggðu tölurnar hlið við hlið þannig að þú hafir fyrir framan þig fjögurra stafa tölu. Þar með ert þú komin(n) með ártal sem spurt er um.

Hér að neðan eru vísbendingar sem leiða þig á staðina tvo. Þú skalt safna tölunum saman í sömu röð og fyrirmælin og skrá þær jafnóðum niður á blað.

Sunnan Menntaskólans er stór garður. Sérstakt félag um garðinn var stofnað árið 1909 en garðurinn var opnaður almenningi formlega árið 1912. Margrethe Schiöth vann hvað lengst allra við garðinn eða í rúmlega 30 ár. Á áttræðisafmæli  Margrethe var hún gerð að heiðursborgara Akureyrar. Við það tækifæri var henni reistur minnisvarði í garðinum sem á stendur: Margrethe Schiöth – hún gerði garðinn frægan. Á öðrum stað í garðinum er mynd í steini af konu sem er að gróðursetja plöntu. Hvað eru bókstafirnir margir fyrir neðan myndina af konunni? Skráðu töluna niður.

Í ár eru liðin 161 ár síðan fyrsta skurðaðgerð í svæfingu var gerð á Íslandi. Þetta var aðeins 10 árum eftir að fyrsta svæfingin í heiminum var framkvæmd á Massachusets General sjúkrahúsinu í Boston í Bandaríkjunum. Þessi merki atburður átti sér stað í litlu húsi í Aðalstræti 14. Í húsinu var rekinn spítali frá árinu 1873. Á húsinu er áletruð álplata. Á plötunni er ártal. Dragðu fyrstu töluna í ártalinu frá annarri tölunni. Leggðu þriðju töluna í ártalinu við þá fjórðu. Skráðu niður töluna sem kemur út úr þessum útreikningi.

Eftir að hafa heimsótt þessa tvo staði og leyst verkefnin sem fylgja stendur þú uppi með merkilegt ártal í sögu Akureyrar. 

* Hvert er ártalið sem spurt er um og af hverju er það merkilegt í sögu bæjarins?

Komdu svörunum til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir rétt svör færðu níunda bókstafinn.

Svarið leynist á heimasíðu Akureyrarstofu, www.visitakureyri.is.

 

 

Þraut 8 (27. – 2. nóvember)

Vissir þú að í gamla daga var fólk í Eyjafirði dæmt til dauða ef það braut alvarlega af sér? Talið er að síðasta aftakan í firðinum hafi farið fram fyrir meira en 250 árum síðan. Sú aftaka var í tengslum við morðmál þar sem þrír bræður komu við sögu. Bræðurinir, Jón yngri og Helgi Sigurðssynir, myrtu þriðja bróðurinn, Jón eldri Sigurðsson. Við verknaðinn nutu þeir aðstoðar manns að nafni Bjarni Árnason. Aftaka bræðranna tveggja og Bjarna fór fram hjá Efri-Klofasteinum í Möðrufellshrauni við bæinn Möðrufell í Eyjafjarðarsveit.

Snemma árs 1751 hvarf fórnarlambið, Jón eldri. Nokkrum dögum áður höfðu bræðurnir og nafnarnir Jón eldri og Jón yngri ætlað sér að ræna bóndann á bænum Hrísum. Þeim tókst ekki ætlunarverkið og voru handsamaðir. Jón eldri komst þó undan nokkru síðar og ekkert spurðist til hans fyrr en viku seinna þegar lík hans fannst í Eyjafjarðará. Af ummerkjum á líkinu að dæma mátti sjá að Jón hafði verið ráðinn bani. Grunur beindist fljótt að bræðrum hans, Helga 17 ára og Jóni yngri 19 ára.

Fleiri dauðadómum var framfylgt hjá Efri-Klofasteinum í Möðrufellshrauni fyrr á öldum. Fræg er sagan af tveimur systkinum sem tekin voru þar af lífi. Þau voru dæmd fyrir sifjaspell en héldu fram sakleysi sínu allt fram á síðustu stundu. Á dánarbeðinu báðu þau Guð um að sanna sakleysi þeirra um leið og blóðið rann niður í sprungur í hrauninu. Þar óx síðar mikið og stórt reynitré sem stóð af sér veður og vind í hundruðir ára. Hér er sennilega um eitt frægasta reynitré landsins að ræða.

Sögurnar um bræðurna og systkinin tengjast órjúfanlegum böndum þar sem dauðarefsingu var framfylgt í báðum málum í Möðrufellshrauni. Eftir að reynitréð var fellt árið 1551 var sverasti hluti stofnsins notaður sem höggstokkur við aftökur í hrauninu m.a. á bræðrunum Jóni yngri, Helga og vitorðsmanni þeirra Bjarna Árnasyni!

Þú getur séð með berum augum reynitré á Akureyri sem er talið vera komið af reynitrénu fræga í Möðrufellshrauni! Það var gróðursett á 19. öld og margoft hefur verið reynt að höggva það – það vex alltaf upp að nýju!

Leystu eftirfarandi verkefni. Komdu lausnunum til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir réttar lausnir færðu áttunda bókstafinn.

 

 • Frá hvaða bæ í Eyjafirði voru bræðurnir? Finndu bæinn á landakorti. Hvorum megin Eyjafjarðarárinnar er hann (austan eða vestan)?
 • Hver var ástæða morðsins?
 • Hvernig var Jón eldri myrtur?
 • Finndu Möðrufell á landakorti. Hvorum megin Eyjafjarðarárinnar er bærinn (austan eða vestan)?
 • Farðu og skoðaðu reynitréð sem talið er vera komið af reynitrénu í Möðrufellshrauni. Það stendur hjá svörtu timburhúsi í Hafnarstræti 11. Framan við tréð er hvít súla með tveimur skiltum. Hvað stendur á skiltunum?

Svör við spurningum 1-3 finnurðu í bókinni Öldin okkar 1701-1760, bls. 179.

Heimildir: Öldin okkar og Líf í Eyjafirði.

 

 

Þraut 7 (20. – 26. október)

Eins og kom fram í þraut síðustu viku var KEA Stofnað á bæ einum í Eyjafirði seint á 19. öld. Nokkru fyrr, eða á árunum 1870 – 1871, var ónefnt félag hið fyrsta til að hefja verslun Íslendinga við aðrar þjóðir frá Akureyri. Félagið hóf rekstur með einu skipi og einum farmi. Er jafnan talað um að félagið hafi í raun verið fyrirrennari KEA.  

Á vissum stað á Oddeyri stendur hús þar sem félagið hafði bækistöðvar. Finndu húsið og taktu mynd af þér við húsið. Svaraðu eftirfarandi spurningum og komdu svörunum og myndinni til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir réttar lausnir færðu bókstaf nr. 7. 

1) Húsið gengur undir ákveðnu nafni og er nafnið eftir félaginu. Hvert er nafn hússins? Hvert var nafn félagsins? 

2) Maðurinn á peningaseðlinum (sjá mynd) var stofnandi félagsins og stjóri þess 1871-1893. Hvað heitir maðurinn? 

3) Á hvaða tveimur bæjum í Eyjafirði bjó maðurinn fram á unglingsár?

 

 

 

Þraut 6 (13. – 19. október)

Í þraut vikunnar og þeirrar næstu er spurt um tvö eyfirsk verslunarfélög. Þau unnu mikið frumkvöðlastarf eftir að Íslendingar fengu verslunarfrelsi árið1855 frá Dönum og fóru sjálfir að versla við önnur lönd. Hið fyrra var stofnað á bóndabæ í Eyjafjarðarsveit á 19. öld. Upphaflegt markmið þess var að útvega félagsmönnum vörur á hagstæðu verði. Seinna félagið sem spurt er um rak um tíma eina stærstu verslun á Íslandi. 

Með því að fylgja eftirfarandi vísbendingum stendur þú uppi með 3 stafi. Þú skalt raða þeim saman en þá færðu skammstöfun á nafni fyrra félagsins sem spurt er um. Þegar þú hefur áttað þig á hvert félagið er skaltu svara meðfylgjandi spurningum og koma svörunum til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir réttar lausnir færðu bókstaf nr. 6. 

 

Landnámabók greinir frá því að fyrsti landneminn á svæðinu hafi verið Eyvindarson. Hann kom þangað á 9. öld. Á svæðinu myndaðist síðar kaupstaður. Elstu heimildir um nafnið á kaupstaðnum eru frá 1526 en þá féll dómur á staðnum yfir konu fyrir að hafa sængað hjá karli án þess að hafa giftingarvottorð.  Taktu fyrsta bókstafinn úr nafninu á fyrrnefndum kaupstað. 

 

 

Sveitarfélag sem varð til 1. janúar 1991 með sameiningu Hrafnagilshrepps, Öngulsstaðahrepps og Saurbæjarhrepps. Taktu fyrsta bókstafinn úr nafninu á fyrrnefndu sveitarfélagi. 

 

 

Staður þar sem stórt hvítt hús var byggt á fyrri hluta 20. aldar. Notað var heitt vatn úr jörðu til að hita upp húsið, til hreingerninga og við matargerð svo eitthvað sé nefnt. Húsið var fyrsta stórhýsið á Íslandi þar sem heita vatnið var  nýtt með fyrrnefndum hætti. Taktu fyrsta stafinn úr nafninu á fyrrnefndum stað. 

 

 

1) Hver er skammstöfunin og fyrir hvað stóð hún? 

2) Á hvaða bæ í Eyjafjarðarsveit var félagið stofnað?

3) Hvaða ár var félagið stofnað? 

 

 

Þraut 5 (6. – 12. október)

Talið er að berklar hafi borist til landsins á landnámsöld. Það er þó ekki fyrr en seint á 19. öld sem einhver þekking verður til á sjúkdómnum og meðhöndlun hans. Um aldamótin 1900 eru berklar orðnir mjög útbreiddir hér á landi og dánartíðni fer hækkandi vegna þeirra. Sem dæmi má nefna að um 150-200 manns dóu úr berklum árlega á árunum 1912-1920. Ástandið var mjög slæmt í Eyjafirði.  

Árið 1918 var kosin nefnd á fundi Sambands norðlenskra kvenna á Akureyri til að hefja fjársöfnun til styrktar heilsuhælis fyrir berklasjúka í Eyjafirði. Söfnunin gekk vel þrátt fyrir að fjárhagur fólks væri erfiður eftir fyrri heimsstyrjöldina. Tekin var ákvörðun um að heilsuhælið skyldi reist á landnámsjörð Helga magra að Kristnesi 

Þann 1. nóvember árið 1927 var Heilsuhæli Norðurlands vígt og komu um 400 manns á vígsluhátíðina. Húsið var mjög vandað að allri gerð, úr steinsteypu, tvær hæðir, kjallari og ris. Húsbúnaður var allur vandaður, gólf vel gerð, stigar úr hvítum marmara og borðstofu- og dagstofuhúsgögn voru úr bónuðu birki. Það sem veitti hinu nýbyggða húsi ákveðna sérstöðu var nýting jarðvarma og var þetta fyrsta stórhýsið  á landinu sem fékk notið hans.  Vatnið var notað á ýmsa vegu t.d til upphitunar hússins, í böð og til hreingerninga og við matargerð og þvotta.  Rafmagn var leitt um 10 km. leið frá Akureyri.  

Fljótlega eftir vígsluna var hælið orðið fullsetið af sjúklingum og komust færri að en vildu.  Á seinni hluta 6. áratugarins fór verulega að draga úr komu berklasjúklinga og á 8. áratugnum var hælinu breytt í vistheimili fyrir aldraða. Árið 1984 var nafni hælisins breytt úr Kristneshæli í Kristnesspítali og  í upphafi 9. áratugarins tók svo Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri við rekstri spítalans.  Þar eru nú tvær deildir Sjúkrahússins á Akureyri til húsa, endurhæfingadeild og öldrunardeild. 

Í kirkjugarðinum á Naustahöfðanum (kirkjugarður Akureyrar) hvílir maður sem öðrum fremur hlúði að berklasjúklingum á Kristneshæli fyrstu starfsár þess. Finndu leiði mannsins. Þegar þú hefur fundið það skaltu svara spurningunum hér að neðan. Fyrir réttar lausnir færðu bókstaf. 

Hér eru leiðbeiningar til að komast á áfangastað: 

Þegar þú kemur suður Þórunnarstrætið beygir þú til vinstri í átt að kirkjugarðinum. Fylgdu götunni, farðu framhjá fyrsta hliðinu og að því næsta. Fylgdu eftirfarandi fyrirmælum. 

† Taktu þér stöðu við hliðið. Farðu í austur eftir gangstígnum að skilti sem merkt er með E3. 

† Farðu u.þ.b. 45 metra í norður eftir gangstígnum. 

†  Þér á vinstri hönd er hvítur legsteinn. Á honum eru nöfn hjóna sem bera ættarnafn. Maðurinn sem þarna hvílir er maðurinn sem spurt er um. Svaraðu eftirfarandi spurningum 

 • Hvað hét maðurinn sem um er rætt og hvaða ár dó hann?
 • Hvaða stöðu gegndi hann á Kristneshæli? 
 • Hvaða atburður átti sér stað á Kristneshæli snemma árs árið 1931 og fjallað er um í bókaflokknum Öldin okkar
 • Hvað voru margir sjúklingar á Hælinu þegar umræddur atburður átti sér stað?

 

 

 

Þraut 4 (29. – 5. október)

Í síðustu þraut var því haldið fram að sköpun Kalla kanínu og annarra heimsfrægra teiknimyndapersóna mætti rekja alla leið til Íslands, jafnvel Eyjafjarðar. Hvernig má það vera? Eins og kom fram í þrautinni var það Charles Thorson (Karl Gústaf Stefánsson) sem skapaði þessar heimsþekktu persónur. Hann átti íslenska foreldra sem fluttu til Kanada árið 1887 en Karl Gústaf fæddist þremur árum síðar. 

Því leikur enginn vafi á því að Kalli kanína og Mjallhvít eiga ættir að rekja til Íslands. Hvað þá með tengslin við Akureyri? Taktu nú vel eftir!

Á uppvaxtarárum Charles Thorson í Kanada, þegar listrænir hæfileikar hans voru að koma í ljós, var einn maður sem hann leit sérstaklega á sem fyrirmynd við listsköpun sína. Sá var málari en vann einnig að listsköpun ýmiskonar. Hann var nokkurs konar lærimeistari Charles og sá einstaklingur sem mótaði hann hvað mest sem listamann. Er hann þannig talinn eiga sinn þátt í að Charles nýtti hæfileika sína í þágu teiknimynda. Maðurinn sem um er rætt bjó í Aðalstræti á Akureyri um nokkurra ára skeið áður en hann flutti til Kanada.

Reynum aðeins að átta okkur á því af hverju svo margir Íslendingar fluttu vestur um haf á þessum árum. Vesturferðirnar voru mestar á tímabilinu 1870-1914 þegar um 15.000 manns settust að í Norður-Ameríku. Þær voru hluti af stórfelldum þjóðflutningum sem áttu sér stað frá Evrópu til Ameríku en talið er að um 52 milljónir hafi flust yfir hafið frá 1846 til 1914. Ástæður vesturferða Evrópumanna voru margar, svo sem fátækt, þröngbýli, ófrelsi og jafnvel hungur. Ameríka hafði orð á sér fyrir að vera staður tækifæranna þar sem hvorki væri spurt um ætt né stöðu heldur dugnað og áræðni. Langflestir Evrópubúar komu sér fyrir í Bandaríkjunum en Íslendingar lögðu einkum leið sína til Kanada

                                                                                                                               Heimild: Vísindavefurinn

Fyrsti stóri Íslendingahópurinn sem fór með skipi vestur um haf frá Akureyri lagði af stað þann 4. ágúst árið 1873.  Þar er því um nokkuð merkilega siglingu að ræða. Skoskt gufuskip, Queen að nafni, sem flutti aðallega hross hélt úr Akureyrarhöfn með 165 manns innanborðs. Einn af farþegunum var Ólafur bóndi á Espihóli í Eyjafjarðarsveit. Hann hafði dreymt lengi um betra líf handa sér og fjölskyldu sinni í Ameríku og ákvað því að freista gæfunnar. Með honum í för var eiginkona hans og tveir fóstursynir. Hópurinn kom til Kanada í lok mánaðarins. Annar fóstursona Ólafs var maðurinn sem síðar átti eftir að verða lærimeistari Charles Thorson.

Hver er maðurinn sem átti heima í Aðalstræti og átti þátt í því að Charles Thorson varð höfundur frægra teiknimyndapersóna í Hollywood? Svarið er innan seilingar. Ekki er ósennilegt að vísbendingu megi finna á æskuslóðum huldumannsins.

Fyrir framan Aðalstræti (Minjasafnið, Nonnahús o.fl.) er tjörn. Við tjörnina er bekkur sem hægt er að setjast á. Farðu þangað en fyrst skaltu fara og hitta ritara Giljaskóla. Hjá honum færðu umslag sem þú skalt taka með þér. Sestu á bekkinn, opnaðu umslagið og lestu bréfið. Þú skalt ekki opna umslagið fyrr en þú ert komin(n) að bekknum.

 

 

 

Þraut 3 (22. – 28. september)

Getur verið að Mjallhvít og Kalli kanína séu Íslendingar (eða eigi í það minnsta ættir að rekja til Íslands)? Í þraut vikunnar og þeirri næstu muntu komast að raun um að svo sé. Ekki nóg með að tengslin við Ísland séu sterk heldur má með nokkrum sanni segja að sköpun Kalla kanínu og annarra þekktra teiknimyndapersóna megi rekja alla leið til Eyjafjarðar.

Við hefjum leiðangurinn að þessu sinni árið 1887. Þá ákváðu hjónin Stefán Þórðarson og Sigríður Þórarinsdóttir að flytja burt úr Biskupstungunum vestur um haf. Þau héldu af stað með vesturfaraskipinu SS Camoens frá Reykjavík, ásamt Jóni þriggja ára syni þeirra, áleiðis til Winnipeg í Kanada. Skipið sigldi reglulega frá Íslandi á þessum árum með fólk í leit að betra lífi í Ameríku. Fór það m.a. þónokkrar ferðir frá Akureyri, þá fyrstu árið 1879. Í Kanada eignuðust hjónin þrjá drengi til viðbótar. Einn þeirra fæddist árið 1890 og var skírður Karl Gústaf.

Listrænir hæfileikar Karls komu fljótt í ljós og þóttu hæfileikar hans miklir þegar kom að teikningum. Eftir að myndir hans fóru að birtast opinberlega tók hann sér upp nafnið Charles Thorson (eftir föðurnafni pabba hans, Þórsson). Fyrsta teikning hans á opinberum vettvangi birtist á forsíðu fréttablaðsins Heimskringla árið 1909, þegar hann var 19 ára gamall. Á myndinni (sjá hér að neðan) standa tveir menn þétt saman. Annar þeirra er maður að nafni Fred Swanson en hann átti síðar eftir að verða tengdafaðir Charles.

 

Í október árið 1914 giftist Charles dóttur fyrrnefnds Fred Swanson. Hún hét Rannveig en var oftast kölluð Ranka. Þau eignuðust son sem fæddist í ágúst sama ár. Hann var skírður í höfuðið á pabba sínum, Karl en var kallaður Charlie. Sorgin knúði dyra árið 1916 þegar Rannveig dó úr berklum og aftur árið 1917 þegar Charlie litli dó úr barnaveiki.

Árið 1932 hitti Charles unga íslenska stúlku á kaffihúsi í Winnipeg. Hún hét Kristín Sölvadóttir, fædd á Siglufirði en ættuð úr Skagafirði. Charles féll fyrir hinni 22 ára gömlu Kristínu en sjálfur var hann 42 ára. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Charles til að heilla hana upp úr skónum skildu leiðir árið 1934 þegar hann hélt til Hollywood þar sem hann hóf störf hjá Disney (já hinu eina og sanna)! Eitt af hans aðalverkum var vinna við gerð teiknimyndarinnar Mjallhvít og dvergarnir sjö en hún var frumsýnd árið1937. Charles var í hópi manna sem sköpuðu útlit persóna myndarinnar, þar með talið dverganna og Mjallhvítar. Reyndar segir sagan að útlit þeirra, sem hefur allar götur síðan verið notað til að túlka persónurnar í myndum og bókum, sé að mestu eða öllu leyti skapað af okkar manni, Charles Thorson. Hver heldur þú að Charles hafi haft sem fyrirmynd að Mjallhvíti?

Eftir ágreining við stjórann sjálfan, Walt Disney, árið 1937 hætti Charles störfum hjá fyrirtækinu. Hann réði sig síðar hjá þremur teiknimyndaverum, m.a. Warner Brothers þar sem hann starfaði í tvö ár. Hjá WB var honum fengið það hlutverk að kenna ungum leikstjóra rétt handverk við gerð teiknimynda. Sá var að hefja sinn feril í heimi teiknimyndanna og hét Chuck Jones. Hann átti eftir að verða eitt stærsta og þekktasta nafn teiknimyndaheimsins. Einhver þekktasta teiknimyndapersóna Charles Thorson, var engin önnur en Bugs Bunny eða Kalli kanína. Hana skapaði hann árin sem hann vann fyrir Warner Brothers.

Á 10 ára starfsferli sínum hjá teiknimyndafyrirtækjum í Ameríku skapaði Charles Thorson meira en 100 teiknimyndapersónur.

Karl Gústaf Stefánsson eða Charles Thorson dó í Vancouver í Kanada árið 1966.

Í næstu viku komumst við að því hvernig Charles Thorson (og allur sá fjöldi teiknimyndapersóna sem hann skapaði) hefur bein tengsl við mann sem bjó á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit á seinni hluta 19. aldar.

 

Í lokin skaltu fylgja eftirfarandi leiðbeiningum og í kjölfarið færðu þriðja bókstafinn:

 • Finndu dagblað sem kom út á árum áður og hét Þjóðviljinn (23. desember 1988, 275. tölublað, bls. 16-18). Þú getur farið á Amtsbókasafnið og fengið að skoða blaðið á staðnum. Eins getur þú flett blaðinu á netinu (www.timarit.is – Titlar – Þjóðviljinn 1936-1992). Neðarlega til vinstri er hægt að velja að lesa blaðagreinina í betri gæðum (skoða hágæðaútgáfu í nýjum glugga.
 • Lestu grein sem heitir Mjallhvít en hún segir frá kynnum Charles Thorson og Kristínar Sölvadóttur.
 • Leystu eftirfarandi verkefni og komdu úrlausnunum til umsjónarmanns Leitarinnar.

 

 

 • Lýstu teikningunni sem Charles Thorson gaf Kristínu þegar hann bað hennar. Hvað sagði hann við hana um leið og hann afhenti henni teikninguna?

 

 • Af hverju hætti Charles störfum hjá Disney árið 1937 að mati sonar hans Steven sem rætt er við í greininni?

 

 • Í niðurlagi greinarinnar segir: “Þótt Charles hafi ekki fengið Kristínu fyrir konu, hefur hann greinilega ekki gleymt henni.” Skrifaðu næstu málsgrein.

 

 

Þraut 2 (15. – 21. september)

Jón

Hann skrifaði 12 barnabækur sem þýddar hafa verið á 40 tungumál, m.a. á japönsku og esperanto. Bækur hans hafa verið gefnar út í milljónum eintaka og eru því vel þekktar víða um Evrópu. Hann er án efa einn þekktasti Eyfirðingurinn fyrr og síðar, jafnt innan lands sem utan. Veist þú hver maðurinn er?

Jón Sveinsson, eða Nonni eins og hann er oftast kallaður, fæddist þann 16. nóvember árið 1857 að Möðruvöllum í Hörgárdal. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir (1826-1910) og Sveinn Þórarinsson (1821-1869). Sigríður og Sveinn eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860. Þau börn sem komust á legg voru Björg (Bogga) (1854-1882), Jón (Nonni) (1857-1944), Sigríður Guðlaug (1858-1916), Friðrik (1864-1942) og Ármann (Manni) (1861-1885).

Árið 1865 flutti fjölskylda Nonna til Akureyrar þar sem hún settist að í húsi sem síðar var kallað Nonnahús. Sveinn, faðir Nonna, lést 1869 úr sullaveiki. Stóð þá ekkjan ein uppi með börnin auk þess sem fjárhagsleg staða heimilisins var erfið. Sigríður varð að láta öll börnin frá sér nema Ármann (Manna). Hún flutti síðar til Kanada og gekk í hjónaband þar.

Árið 1870 bauð franskur aðalsmaður tveimur íslenskum drengjum til náms. Nonni var annar þessara drengja. Í lok ágúst árið 1870 yfirgaf Nonni fósturjörðina tæplega 13 ára gamall. Næstu 77 árin voru einstaklega viðburðarík þar sem Nonni bjó, starfaði og stundaði nám vítt og breitt um heiminn. Nonni kom aðeins tvisvar sinnum til Íslands eftir brottförina 1870. Fyrra skiptið var 1894 en seinna skiptið var 1930 þegar ríkisstjórn Íslands bauð honum að koma á Alþingishátíðina. Í þeirri ferð var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar.

Getur þú ímyndað þér hvernig Nonna hefur liðið þegar hann stóð frammi fyrir því að þurfa að flytja burt frá móður sinni og systkinum 13 ára gamall? Vitandi að hugsanlega ætti hann ekki eftir að sameinast fjölskyldunni aftur? Í þraut vikunnar ætlum við að kynna okkur lífsferil þekktasta listamanns Íslendinga erlendis á fyrri hluta 20. aldar. Við förum á slóðir Nonna hér á Akureyri, skoðum heimili hans og umhverfið sem hann lék sér í sem ungur drengur. Við byrjum hins vegar á því að kynna okkur örlítið eina af bókum Nonna. Hún hefur að geyma mikilvægar upplýsingar fyrir framhald þrautarinnar.

Fyrsta bókin hans Nonna bar nafnið hans þ.e. Nonni. Hún segir frá því þegar Nonni yfirgefur fjölskyldu sína heima á Akureyri 13 ára gamall til að fara erlendis í nám. Á leiðinni yfir hafið lendir hann í ýmsum ævintýrum þar sem m.a. ísbirnir koma við sögu.

Bókaútgáfan Hólar gaf út bókina árið 2006 í endursögn Brynhildar Pétursdóttur. Þú skalt verða þér út um eintak af bókinni. Lestu bls. 3-6 (veittu bls. 6 sérstaka athygli).

Um hvað fjalla þessar blaðsíður? Svaraðu í stuttu máli. Komdu svarinu til umsjónarmanns Leitarinnar. Í kjölfarið færðu framhald þrautarinnar. Gangi þér vel.

 

 

Þraut 1 (8. – 14. september)

Trúir þú á forlög? Að örlög fólks séu fyrirfram ákveðin af æðri máttarvöldum? Þegar farþegaskip sekkur komast sumir lífs af meðan aðrir deyja drottni sínum. Er tilviljun hver lifir og hver deyr? Atburðirnir sem hér verður sagt frá gerðust árið 1944, um það leyti sem seinni heimsstyrjöldinni var að ljúka. 

 

Goðafoss (mynd) var skip Eimskipafélags Íslands og hafði siglt reglulega með vörur og fólk milli Íslands og Bandaríkjanna þegar kom að hinstu för þess þann 10. nóvember árið 1944. Um borð var fólk á öllum aldri þ.á.m. ung læknishjón með þrjú börn. Þegar skipið var statt skammt undan Garðskaga í Faxaflóa varð það fyrir tundurskeyti þýska kafbátsins U-300. Goðafoss sökk á fáum mínútum.  Á myndinni má sjá áhöfn kafbátsins U-300.

 

Arnar Örlygur Jónsson var fæddur árið 1918. Hann var því 26 ára þegar hann, ásamt 42 öðrum Íslendingum, fann tundurskeytið skella á skipsskrokknum. Arnar var einn af starfsmönnum skipsins en hann sigldi með því öll stríðsárin utan einnar ferðar sem hann var í landi sumarið 1943. Þá notaði hann tækifærið og fór ásamt móður sinni í heimsókn í Laufás í Eyjafirði (mynd) að hitta ættingja og vini. Eitt kvöldið fór hann í andaglas með heimilisfólkinu á bænum. Eftir stutta stund kom andi í glasið sem sagðist hafa mikilvæg skilaboð. Samkvæmt þeim átti Arnar að hætta öllum siglingum því annars myndi hann lenda í hræðilegum skipsskaða árið eftir, n.t.t. 10. nóvember 1944. Kom jafnframt fram að hann myndi þó lifa þennan hræðilega atburð af.  

 

Einn Akureyringur var um borð í Goðafossi þennan örlagaríka dag. Hann hét Steinþór Loftsson. Hann var fæddur 1923 og var því 21 árs þegar skipið sökk. Steinþór var flugvirki að mennt en hann hafði nýlega lokið námi í Bandaríkjunum. 

Hér er um að ræða mesta manntjón Íslendinga á einum og sama deginum í seinni heimsstyrjöldinni og mörgum spurningum ósvarað. Hver urðu örlög þeirra Arnars, sem fékk skilaboðin að handan, og Steinþórs, unga flugvirkjans á Akureyri? Hvað varð um læknishjónin og börnin þeirra þrjú? Hvað fórust margir með Goðafossi? Hverjir voru yfirmennirnir á U-300 sem tóku ákvörðun um að sökkva Goðafossi (mynd)?

Eimskipafélag Íslands, sem gerði út Goðafoss, er ennþá til og í fullum rekstri. Félagið var stofnað árið 1914 og er því 100 ára gamalt og jafnframt elsta skipafélag á Íslandi. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík en á Akureyri er Eimskip með starfsemi undir nafninu Eimskip Flytjandi. Félagið siglir með vörur til og frá Akureyri. 

Til að fá fyrsta bókstafinn þarftu að kynna þér Goðafossmálið og svara nokkrum spurningum.  Þú þarft líka að taka eina mynd. Lestu fyrirmælin hér að neðan vel!

 

A) Náðu þér í bókina Ísland í aldanna rás 1900-2000. Notaðu bls. 370-371 til að svara eftirfarandi spurningum.

 1. Hvað fórust margir Íslendingar með Goðafossi? 
 2.  Hver urðu örlög Arnars Örlygs Jónssonar
 3.  Hver urðu örlög Steinþórs Loftssonar?
 4. Hver urðu örlög læknishjónanna og ungu barnanna þeirra þriggja? 
 5. Hvað leið langur tími frá því að tundurskeytið rakst á skipið og þangað til það sökk? 
 6. Lestu litlu svörtu greinina á bls. 371. Þar segir frá því þegar forseti Alþingis minnist hinna látnu á þingfundi. Skráðu niður fyrstu málsgreinina sem höfð er eftir forsetanum. 
 7. Forsetinn sagði jafnframt: ,,Þess er vísu eigi vænta, oss Íslendingum ætlað baða í rósum allskostar meðan öðrum blæðir út, enda verðleikar vorir eigi slíkir…” Hvað á forseti Alþingis við?

 

B) Finndu þjónustumiðstöð Eimskipafélagsins á Akureyri. Taktu mynd af þér, liðsfélaga þínum eða ykkur báðum á staðnum. Komdu svörunum og myndinni til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir réttar úrlausnir færðu fyrsta bókstafinn í Leitinni að Grenndargralinu 2017:) Gangi þér vel!

 

 

Þraut 1 (22. – 28. október) Háskólinn á Akureyri 22. október 2021

Vonandi ertu búin(n) að hlusta á fyrri hlaðvarpsþáttinn Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra – fyrri hluti. Þá veistu að bandarískur rithöfundur að nafni James Norman Hall skrifaði bók sem átti eftir að verða ein þekktasta og frægasta skáldsaga sögunnar. Bókin hét Mutiny on the Bounty eða Uppreisnin á Bounty. Eins og kom fram í þættinum kom James til Akureyrar og dvaldist á hóteli á Oddeyri í lok sumars árið 1922 þar sem hann vann að bók sem hann hugðist skrifa um Ísland. Á meðan á dvöl þessa heimsfræga rithöfundar stóð á Akureyri varð hann vitni að stórviðburði í sögu bæjarins. Meira um það síðar. En yfir í allt annað.

 

Getur þú reynt að ímynda þér hvernig það væri ef við hefðum ekkert rafmagn? Eða hvernig það hefur verið að búa á Akureyri og upplifa það sem íbúi í bænum að geta kveikt á ljósaperu í fyrsta skipti? Akureyringar hafa nefnilega ekki alltaf haft rafmagn, ekkert frekar en aðrir Íslendingar í gamla daga. Okkur sem búum hér núna finnst erfitt að setja okkur í spor fólksins sem hafði búið við rafmagnsleysi og varð svo vitni að því á einu augnabliki þegar ljós upplýstu bæinn. Í ár eru 100 ár liðin frá því að stífla var byggð á Akureyri sem ætluð var til raforkuframleiðslu svo hægt væri að kveikja ljós og hita upp hús í bænum. Árið 1922 var sjálf virkjunin byggð ásamt litlu rafstöðvarhúsi og þann 30. september það ár var rafstöðin opnuð. Akureyringar voru loksins komnir með rafmagn.  

Glerárvirkjun framleiddi rafmagn í 38 ár eða til ársins 1960. Rafstöðin og rafstöðvarhúsið voru rifin árið 1978 en sjálf stíflan var látin í friði. Glerárvirkjun var endurreist árið 2005 í tilefni 100 ára afmælis rafvæðingar á Íslandi og nýtt stöðvarhús byggt á grunni þess gamla. Virkjunin er því aftur farin að framleiða rafmagn fyrir Akureyringa rétt eins og hún gerði fyrir hundrað árum.

Í þraut vikunnar lærir þú um upphaf rafmagns á Akureyri og hvernig erlendur ferðamaður sem staddur var hér þegar rafmagni var hleypt á bæinn, upplifði þennan merkilega atburð. Við hefjum leik við Glerárvirkjun. Farðu á staðinn og skoðaðu þig um í kringum nýja stöðvarhúsið. Farðu varlega, hætturnar geta leynst í hrikalegu Glerárgilinu. Á nokkrum stöðum á og við stöðvarhúsið eru söguskilti með upplýsingum um sögu rafmagns á Íslandi, Glerárvirkjunar og rauðu stálbrúarinnar yfir Glerá. Lestu textana og finndu svörin við eftirfarandi spurningum:

 • Hver fann upp ljósaperuna og hvaða ár var það?
 • Hvaða ár er talið að fyrst hafi verið kveikt á peru á Íslandi?
 • Hvað hét Vestur-Íslendingurinn sem kom með hugmyndir um að virkja Glerá í lok 19. aldar?
 • Hvaða framkvæmdir fóru fram á svæðinu árið 1986?
 • Hvaða ár var rauða stálbrúin yfir Glerá reist?

Þegar þú er búin(n) að skoða Glerárvirkjun og svara spurningunum skaltu hlusta á seinni hlaðvarpsþáttinn Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra. Hlustaðu á lýsingu James Norman Hall á því hvernig hann upplifði það þegar bærinn fékk rafmagn 30. september 1922. Svaraðu spurningunni hér að neðan og komdu svarinu auk þeirra sem þú skráðir hjá þér við Glerárvirkjun til umsjónarmanns Leitarinnar. Fyrir rétt svör færðu bókstaf.

Góða ferð og gangi þér vel.

Hvað gerðu börnin á Akureyri þegar bæjarbúar fengu rafmagn samkvæmt lýsingu James Norman Hall?