main image

Sagan

 

Í Aðalnámskrár grunnskóla (Greinasvið 2013) koma orð eins og nærsamfélag og heimabyggð reglulega fyrir við upptalningu á hæfniviðmiðum samfélagsgreina. Í einu slíku viðmiði segir; við lok 10. bekkjar getur nemandi sýnt fram á skilning á heimabyggð sinni og útskýrt samhengi hennar við umhverfi, sögu, menningu, listir, félagsstarf og atvinnulíf (bls. 198).

Upphafið

Haustið 2008 fór Giljaskóli á Akureyri af stað með tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum í 8.-10. bekk. Tilgangurinn með verkefninu var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Síðuskóli tók þátt í verkefninu haustið 2009 ásamt Giljaskóla. Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010, Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli haustið 2011 og að lokum Naustaskóli haustið 2012.

Leitin að Grenndargralinu

Leitin að Grenndargralinu hófst sem þróunarverkefni á unglingastigi með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð. Upphaf verkefnisins má rekja til Brynjars Karls Óttarssonar verkefnisstjóra þess og reynslu hans af vinnu með börnum og unglingum í samfélagsgreinum í grunnskóla. Sjálfur hafði hann ekki lagt sérstaka áherslu á grenndarkennslu áður en til nýja verkefnisins kom enda bæði skort tíma og kennsluefni við hæfi. Fyrir vikið var grenndarvitund nemenda við lok grunnskólanáms í mörgum tilfellum ábótavant að hans mati. Þá vantaði áþreifanlegri tengingu samfélagsfræðinnar við hið daglega líf nemenda og of lítið lagt upp úr því að færa kennsluna og námið út fyrir sjálfa kennslustofuna (Learning by doing e. John Dewey). Í Aðalnámskrá (Greinassvið 2013) segir orðrétt í kaflanum Samfélagsgreinar: Leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl (bls. 204). Vissulega má ná slíkum markmiðum fram að einhverju leyti innan kennslustofunnar. Þau öðlast þó fyrst líf þegar viðfangsefnið er fært út fyrir hana, á vettvang atburðanna sem nemendur læra um hverju sinni. Með vangaveltur sem þessar hóf Brynjar undirbúningsvinnu að verkefninu sumarið 2008. Fór af stað ákveðin hugstormun sem miðaðist að því að svara nokkrum lykilspurningum. Ein þeirra var þessi: Hvaða leiðir eru færar við að auka áherslu á grenndarkennslu með virkri þátttöku nemenda og það á vettvangi þeirra sögulegu atburða sem kennslan nær yfir? Niðurstaðan varð Leitin að Grenndargralinu.

Í kjölfarið hófst mikil vinna við að koma verkefninu í framkvæmd. Ófáar vinnustundir fóru í öflun heimilda svo sem á internetinu og bókasöfnum, lestur, yfirferð og úrvinnslu þeirra og loks að semja þrautirnar sem verkefnið byggir á. Eftir að verkefnið fór af stað í lok ágúst tóku við annasamar 10 vikur. Ferðir vítt og breitt um bæinn (Akureyri) til að koma fyrir skilaboðum og fjarlægja eftir notkun, almennt utanumhald á meðan leit stóð svo sem yfirferð lausna, skráningar og endurgjöf auk símtala og tölvupóstsskrifa. Þar sem sami nemandinn getur tekið þátt í Leitinni þrjú ár í röð (8.-10. bekk) er aðeins hægt að nota hverja þraut á þriggja ára fresti. Því var undirbúningur og utanumhald við Leitina árið eftir (2009) með sama hætti í flestum meginatriðum. Við bættist sú vinna sem fylgdi aukinni kynningarstarfsemi á verkefninu og þátttakendum innan veggja skólanna tveggja sem tóku þátt. Útbúnar voru kynningar á þátttakendum á rafrænu formi, nokkurs konar liðsspjöld, sem birtar voru á heimasíðum og upplýsingaskjám skólanna. Reglulega birtust tilkynningar og fréttir af þróun mála í Leitinni á heimasíðum og í upplýsingakerfi skólanna (Mentor). Þá er ótalin kynningarstarfsemi á verkefninu útávið svo sem fyrirlestrar, skrif í dagblöð og eða vefrit og útgáfa fréttablaðs.

Umfang Leitarinnar vex

Sumarið 2010 urðu tímamót í sögu Leitarinnar að Grenndargralinu. Þrennt kemur þar til. Við lok skólaárs var tilkynnt um viðurkenningu skólanefndar Akureyrarbæjar til handa Brynjari fyrir metnaðarfulla framkvæmd á verkefninu eins og segir í úrskurði dómnefndar. Ennfremur segir þar: Brynjar hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkefnið um Grenndargralið sem hann hefur fengið nemendur til að taka þátt í utan skólatíma. Í verkefninu felst mikil fræðsla m.a. grenndarfræðsla og saga. Leitin að grenndargralinu er byggt upp sem nokkurs konar ratleikur og er allur bærinn undir. Verkefni sem þessi efla skapandi og gagnrýna hugsun hjá nemendum auk þess sem reynir á þolinmæði og úthald þar sem leikurinn tekur nokkrar vikur. Frábært og metnaðarfullt framtak hjá Brynjari. Þá hlaut verkefnið styrk frá Sprotasjóði en sjóðurinn er á vegum Menntamálaráðuneytisins. Hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Styrkurinn var mikilvæg vítamínssprauta á tímum sívaxandi álags. Mikil viðurkenning felst í styrk sem þessum og hvatning til þeirra sem koma að verkefninu. Að lokum var heimasíðan tekin í notkun en ekki þarf að fjölyrða um þá möguleika sem hún hefur fært umsjónarmönnum verkefnisins við þróun þess.

Umfang Leitarinnar hefur vaxið og er það vel. Fjöldi þátttakenda jókst jafnt og þétt fyrstu árin samhliða þátttöku nýrra skóla. Þeir krakkar sem taka þátt eru áberandi í skólastarfinu á meðan verkefninu stendur. Með áhugann að vopni kveikja þeir vonandi áhuga annarra nemenda á sögu heimabyggðar og námi yfirhöfuð.

Greinaskrif grunnskólanemenda

Frá árinu 2011 hefur Grenndargralið flutt fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda og sama ár hófst samstarf við Akureyri vikublað um birtingar á greinum nemenda. Unnið er eftir hugmyndafræði Giljaskólaleiðarinnar um merkingarbært nám og að koma gagnrýninni hugsun á framfæri á opinberum vettvangi. Nemendur á grunnskólastigi á Akureyri setja sig í spor fréttamanna, fara á stúfana og leita uppi athyglisverð viðfangsefni. Nemendur tjá eigin tilfinningar og skoðanir á nánasta umhverfi og málefnum líðandi stundar. Með skrifum sínum leggja þeir sitt af mörkum til uppbyggingar grenndarsamfélagsins á lýðræðislegan hátt. Nemendum gefst tækifæri til að láta rödd sína heyrast með því að beita rökhugsun og gagnrýninni hugsun. Þannig  fá þeir tækifæri til að vekja athygli á hagsmunamálum sínum.

Frekari landvinningar

Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Gekk hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar. Tilraunir með þróun og sölu á varningi undir merkjum Grenndargralsins fóru af stað á árinu þegar Grenndargralið vann tölvugerða mynd af Akureyri eins og hún leit út árið 1862. Myndin var unnin í tilefni af afmæli kaupstaðarins í samvinnu við Akureyrarkaupstað. Minjasafnið á Akureyri og Héraðsskjalasafnið á Akureyri aðstoðuðu við heimildaleit. Vinnan var samstarfsverkefni Grenndargralsins og Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts. Í kjölfarið spruttu fram nýjar og spennandi hugmyndir um frekari landvinninga Leitarinnar. Drög að framtíðarsýn spruttu fram á haustdögum:

Rætur Gralsins liggja í þeirri skemmtilegu flóru sögu og menningar sem heimabyggð býr yfir. Að Grenndargralið sýni viðleitni til að matreiða hana á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning. Grenndargralið verði alhliða vöru- og þjónustusproti á sviði menningarmála í heimabyggð. Grenndargralið reyni eftir bestu getu að hafa þessi atriði til hliðsjónar í öllum verkefnum á sínum vegum, stórum sem smáum. Tvö meginviðfangsefni Grenndargralsins verði þannig þjónusta og varningur undir nafni Grenndargralsins.

Þann 1. janúar árið 2013 varð Leitin að Grenndargralinu ekki lengur yfirheiti eins og hafði verið frá stofnun árið 2008. Nú skyldi siglt undir fána Grenndargralsins þar sem Leitin yrði áfram í boði fyrir grunnskólanemendur á Akureyri auk fleiri menningar- og sögutengdra verkefna á vegum Grenndargralsins í þágu almennings. Skrif af ýmsu tagi urðu meira áberandi en áður á heimasíðunni sbr. Af hverju ekki?, Æskuslóðirnar mínar og Gral vikunnar. Samningar tókust við Akureyri vikublað um regluleg greinaskrif í blaðinu á vegum Grenndargralsins, samstarf sem varaði næstu rúmu tvö árin. Allar götur síðan hefur Grenndargralið birt sögulegan fróðleik úr heimabyggð, ýmist í Akureyri vikublaði eða í Norðurlandi, efni sem þekur síður á fjórða tug tölublaða samtals. Frekari þreifingar urðu með varning undir merkjum Grenndargralsins þegar 227 krukkur af svokölluðu Grenndargralsmúslí voru settar á markað. Haustið 2013 var fyrirkomulagi Leitarinnar breytt þar sem boðið var upp á hana sem valgrein í fyrsta skipti.

Bókaforlagið

Árið 2015 hófst mikil ritunar- og útgáfuvinna hjá Grenndargralinu – vinna sem átti eftir að standa yfir sleitulaust í meira en tvö ár. Afraksturinn var þrjár bækur og ein samantekt/skýrsla. Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út árið 2015. Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út ári seinni sem og samantekt um Giljaskólaleiðina. Árið 2017 kom svo út bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli. Á 10 ára afmæli Grenndargralsins árið 2018 er ljóst að Gralið hefur slitið barnsskónum. 

Horft til framtíðar

Auk reglulegra skrifa fyrir staðardagblöð fór Grenndargralið að skrifa fyrir vefmiðla svo sem Skólavörðuna, akureyri.net, kaffið.is og ma.is. Efnistök voru fjölbreytt þar sem einkunnarorð Grenndargralsins voru höfð að leiðarljósi; gersemar í sögu og menningu heimabyggðar. Markmiðið var ávallt að matreiða viðfangsefnið á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning. En frekari landvinninga var að vænta. Árið 2018 sameinuðu Grenndargralið og Teiknistofa Norðurlands krafta sína í því skyni að þjónusta áhugasama um sögu og menningu heimabyggðar, og það á persónulegri hátt en áður hefur þekkst. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 2008 þegar tilraunaverkefni í grenndarkennslu var lagt fyrir nemendur eins grunnskóla. Á tímamótum sem þessum er eðlilegt að líta yfir farinn veg og skoða hvað hefur áunnist. Hitt er þó mikilvægara, að horfa til framtíðar og takast á við nýjar áskoranir. Grenndargralinu og Teiknistofu Norðurlands er sönn ánægja að tilkynna um nýjustu afurðina; Sagnalist – skráning og miðlun sf.