main image

Sagan á bak við gripina

Rétt rúmlega ár er nú liðið frá því að fimm hlaðvarpsþættir af Leyndardómum Hlíðarfjalls fóru í loftið. Í þáttunum er athyglinni beint að dvöl setuliðsmanna í Hlíðarfjalli á hernámsárunum og æfingbúðum sem þeir settu upp þar. Þessa dagana leggur Sagnalist, í samstarfi við Grenndargralið, lokahönd á fjóra framhaldsþætti sem fara í loftið næstkomandi föstudag.

Þættirnir eru að miklu leyti byggðir á frásögnum af leiðöngrum Varðveislumanna minjanna í Hlíðarfjall undanfarin ár og stríðsminjum sem þar hafa fundist. Í nýju þáttunum er reynt að varpa frekara ljósi á minjarnar, uppruna þeirra og notagildi. Hver og einn gripur hefur sögu að segja.

Með því að smella hér má sjá sýnishorn af þeim stríðsminjum sem VM hafa fundið í Hlíðarfjalli undir nýrómantískum tónum bresku sveitarinnar Duran Duran.

Setuliðsmenn við leik og störf í Glerárgili

Glerá er samofin sögu setuliðsins á Akureyri á stríðsárunum frá Glerárdal, um Glerárgil og niður á Gleráreyrar. Setuliðsmenn stunduðu skot- og sprengjuæfingar í Dalnum. Efra- og Neðra-Glerárgil geyma sögur um dvöl þeirra við leik og störf í gilbörmum og klettum Gilsins. Stór kampur var þar sem Glerártorg er í dag.

Skemmtilegar ljósmyndir frá stríðsárunum koma upp í hugann þegar gengið er yfir rauðu stálbrúna við Glerá sunnan Glerárskóla. Myndirnar sem eru af breskum setuliðsmönnum eru teknar seinni hluta sumars eða haustið 1940. Á myndunum má sjá setuliðsmenn leggja rafmagnskapal í gilinu, sjóða vatn og fylla vatnstank á trukki. Þá er greinilegt að hermennirnir hafa þvegið sér í Gleránni. Á einni myndinni má sjá þá hálfnakta með skilti fyrir framan sig sem á stendur washing to be done here.

Auk þess að hafa tekið myndir á Íslandi, festi ljósmyndarinn sem tók myndirnar í Glerárgili atburði seinni heimsstyrjaldarinnar á filmu fyrir breska herinn í Frakklandi, Egyptalandi og Þýskalandi. Hann kemur við sögu í nýjum þætti í hlaðvarpsþáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fer í loftið föstudaginn 3. desember. Sagnalist framleiðir þættina í samstarfi við Grenndargralið.

 

 

 

Svarthvítar myndir: Imperial War Museum

Litmynd: Grenndargralið

Frá Hlíðarfjalli til Normandí

„Norðmenn kenndu okkur ýmsar aðferðir við vetrarhernað, mæla hæð fjallanna og slíka hluti. Skíðin voru ósköp látlaus og venjuleg. Við notuðum bara það sem okkur var fengið, notuð skíði frá almenningi í Englandi og ekki í miklu magni. Svo vorum við með norskar og kanadískar snjóþrúgur. Já, þetta var mikil þjálfun og mikil leiðindi. Ég meina, það er ekkert leiðinlegra en eyða nótt saman gamlir karlar á norðurhjara veraldar, í loftlausum bragga sem maður þurfti að grafa sig út úr á hverjum morgni því það hafði snjóað svo mikið um nóttina. Já, þetta var ekki einfalt. Eitt var það sem einkenndi Ísland á þessum árum, ekki kannski það skemmtilegasta en fullkomlega eðlilegt, en það var fiskilyktin sem var alls staðar. Ef þú fórst í leigubíl þá fannstu fiskilykt. Því allir Íslendingar borða mikinn fisk. Og þeir taka fisk fram yfir allt annað. Ef maður fór inn á heimili fólks þá var það þannig að eftir því sem heimilið var þrifalegra, þeim mun meiri fiskilykt. Það var vegna þess að olíurnar sem þeir báru á húsgögnin sín voru fiskiolíur. Og ekki var minni lyktin úti í garði þar sem þeir hengdu upp fisk til þerris. Til að toppa þetta þá báru bændur skemmdan fisk á túnin sín. Það snérist allt um fisk.“

„Þetta var eiginlega alveg yndislegt. Ég var upp í fjalli við æfingar í vetrarhernaði, með herdeildinni minni. Við vorum ákaflega vel á okkur komnir líkamlega, hlaupandi um í fjöllunum, þegar birtist okkur þessi dásamlega sýn í firðinum langt fyrir neðan þar sem við vorum staddir. Stórt herskip með tveimur reykháfum sigldi virðulega inn fjörðinn í átt að Akureyri. Um borð í skipinu var stór hópur amerískra hermanna. Þeir komu og tóku við kampinum okkar og 2-3 dögum síðar vorum við komnir um borð í skipið, á leið heim til Englands. Þetta var líflegur hópur bandarískra hermanna. Það virtist engin stjórn vera á því sem þeir voru að gera, þeir voru ekki með nauðsynjar eins og sápu eða klósettpappír. Þeir höfðu enga bílstjóra til að taka við þeim fjórum farartækjum sem við höfðum yfir að ráða. Einhver heyrði einn ameríska foringjann öskra yfir hópinn í einni marseringunni „strákar, við tökum við fjórum farartækjum af Bretunum, þremur breyttum bílum og einum jeppa. Kann einhver ykkar að keyra?“ Og enginn kunni það. „Vill einhver ykkar keyra?“ Þá fóru fjórar eða fimm hendur á loft. Svona var ástandið á þeim þegar við yfirgáfum Akureyri.“

Svona hljóma brot úr frásögnum tveggja breskra setuliðsmanna sem gegndu herþjónustu á Íslandi á stríðsárunum. Þeir voru í Hallamshires-herdeildinni frá Sheffield. Annar tók þátt í hættulegum fjallaleiðangri til að finna týnda setuliðsmenn áður en hann yfirgaf höfuðstað Norðurlands. Hinn varð heimsfrægur í listgrein sinni sjö árum eftir dvölina á Akureyri. Báðir voru sendir til Frakklands þar sem þeir tóku þátt í innrásinni í Normandí 6. júní 1944. Þar voru þeir lykilmenn í einni örlagaríkustu aðgerð innrásarinnar. Þeir segja frá dvölinni á Akureyri í nýjum þætti af Leyndardómum Hlíðarfjalls sem fara í loftið í nóvember. Þættirnir eru samstarfsverkefni Sagnalistar og Grenndargralsins.

Skotfærasöfnun er heill heimur

Sem ungur drengur fann hann byssukúlur í gömlum ruslahaug frá stríðsárunum. Áhugi hans á seinni heimsstyrjöldinni var vakinn. Á rúmum fjórum áratugum sem liðnir eru hefur Sigfús Tryggvi Blumenstein komið sér upp einu því stærsta og merkilegasta stríðsminjasafni sem til er í einkaeigu á Íslandi. Í fyrstu safnaði hann öllu sem snéri að heimsstyrjöldinni en hefur hin seinni ár einbeitt sér að stríðsminjum sem tengjast Íslandi. Markmið Tryggva er að gripirnir komist á endanum á safn, almenningi til fræðslu og skemmtunar.

Sennilega eru þeir ekki margir núlifandi Íslendingar sem eru jafnfróðir og Tryggvi um þann útbúnað sem setuliðið notaðist við hér á landi á stríðsárunum. Skotfæri eru stór hluti af þeim útbúnaði og finnast alltaf annað slagið skothylki (patrónur) eftir þá á víðavangi. Ekki er víst að allir átti sig á því að á enda skothylkjanna má greina nokkurs konar stimpla. Þeir kunna að virka sem dulmál á meðaljóninn en þegar betur er að gáð, gefa þeir upplýsingar um gerð patrónunnar, framleiðsluland, framleiðsluár o.s.frv. Á annað þúsund skothylkja hið minnsta og blýkúlna af ýmsum stærðum og gerðum hafa fundist í Hlíðarfjalli undanfarin ár. Tryggvi rýndi í nokkur sýnishorn frá Hlíðarfjalli á dögunum.

Mikill áhugi á skotfærasöfnun

Tryggvi, sem hefur umtalsverða reynslu þegar kemur að því að greina upplýsingar á skothylkjum úr seinni heimsstyrjöldinni, segir skotfærasöfnun vel þekkt fyrirbrigði. Margir safni mismunandi stimplum af skothylkjum þar sem ólík skothylki gangi kaupum og sölum á netinu. Hann segir skotfærasöfnun vera heim út af fyrir sig og að áhugi erlendis sé gríðarlegur.

Gaman að spá í stimplana

Bandaríkjamenn sem gegndu herþjónustu hér notuðu 45 kalibera skammbyssur. Norðmenn gerðu það einnig eftir að hafa fengið leyfi hjá framleiðandanum Colt. Tryggvi kemur auga á 45 kalibera skothylki úr Hlíðarfjalli sem við fyrstu sýn er ómögulegt að sjá hvort sé frá Bandaríkjamönnum eða Norðmönnum. „Þessi hylki sem eru 45 kalibera, þau bera ekki þessa venjulegu herstimpla. Það styrkir mig í þeirri trú að þetta sé frá norsku herdeildinni því ég held að Ameríkaninn hafi ekki verið með þessa stimpla á sínum 45. Það er þá spurning hvort þeir hafi verið að kaupa þetta sjálfir. Þetta er útlagastjórn í Bretlandi. Hvort að þeir séu að kaupa þetta eða breska ríkisstjórnin fyrir þá. Ég myndi ekki halda að ameríski herinn hafi notað þessi. Það er nefnilega oft gaman að spá í þessa stimpla á skothylkjunum.“

Skot í Hlíðarfjalli frá árinu 1926

Herskot eru framleidd í gríðarlegu magni og því mikið til af því sama. Sum skotfæri eru þó sjaldgæfari en önnur t.d. vegna aldurs. „Eins og við sáum hérna áðan, þá var eitt frá árinu 1926. Þetta eru bara gamlar birgðir. Þegar þeir [setuliðsmennirnir] koma hingað fyrst þá eru þeir oft að nota elstu skotin. Þeir eru að nota þetta í æfingar og þess háttar. Kannski verið með nýrri skot í bardaga.“

Ekki algengt að heil skot finnist

Tryggvi segir það ekki algengt á Íslandi að heil skot finnist úti í náttúrunni eins og þau sem fundist hafa í Hlíðarfjalli, þó vissulega séu þess dæmi. Sjálfur hafi hann fundið heil skot en í þeim tilfellum hafi verið um svokölluð æfingaskot að ræða. „Þá er ekki púður í þeim og þau aðeins notuð til að æfa hleðslu. Þá eru þau oft krumpuð en það er kúla í þeim. Það getur verið hvellhetta en þarf ekki að vera og það er hægt að taka í gikkinn en ekkert gerist.“

Tryggvi kemur við sögu í nýjum hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fer í loftið í nóvember.

Hvað varð um leikstjórann á Akureyri sem lék í James Bond?

James Bond er kominn í bíó – í 25. skipti. Hetjan 007 birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 1962 svo framundan er virðulegt stórafmæli hjá hinum síunga njósnara hennar hátignar. Líklega er á fárra vitorði sú skemmtilega staðreynd að fyrrverandi leikara og leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar má sjá bregða fyrir í Bond-mynd, þeirri átjándu í röðinni.

James Bond hefur ferðast víða á þeim tæpu 60 árum sem liðin eru frá frumraun Sean Connery í Dr. No. Þó breskur sé og starfsmaður MI6 er Bond fyrir löngu orðinn alþjóðlegur og almenningseign. Elskaður og dáður á Íslandi og Íslandsvinur í huga sumra eftir að hafa barist við illmenni á Íslandi í myndunum A Wiew to a Kill frá árinu 1985 og Die Another Day frá 2002. En eins og áðurnefnd fullyrðing gefur til kynna eru Íslandstengingarnar víðar.

Pierce Brosnan fer með hlutverk James Bond í myndinni Tomorrow Never Dies frá árinu 1997. Í einu atriðanna ræðir M – leikin af Judi Dench – við aðmírálinn Roebuck og skipherra fylgist með samtali þeirra tveggja án þess að mæla orð af munni. Skipherrann er í svo agnarsmáu hlutverki og vel falinn að hann minnir einna helst á sögupersónu í bókunum Hvar er Valli. Með hlutverk skipherrans fer Íslandsvinurinn David Ashton. En hvað varð um þennan fyrrverandi leikstjóra hjá LA? Litlar upplýsingar er að finna um hann á netinu. Hvar er Valli? Er hann lífs eða liðinn?

David Ashton er/var Skoti, skírður David Scott. Hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta síðustu áratugi en er auk þess þekktur í heimalandinu sem rithöfundur. Meðal þekktra mynda hans má nefna The Eye of the Needle (1981) og The Last King of Scotland (2006) auk hlutverka í sjónvarpsþáttum á níunda og tíunda áratugnum eins og Monarch of the Glen, Brass og Sharpe.

David kom til Akureyrar í lok árs 1973 ásamt íslenskri eiginkonu sinni, Jónínu Ólafsdóttur og dóttur þeirra Sonju. Þau hjónin kynntust þegar þau voru við nám í Central School of Speech and Drama í London. David leikstýrði og lék í leikritinu Haninn háttprúði eftir írska skáldið Sean O´Casey sem sýnt var hjá LA. Hann dvaldist hér um sjö vikna skeið en sýningar stóðu yfir frá áramótum og fram í febrúar 1974. Meðal annarra leikara í sýningunni má nefna Aðalstein Bergdal, Arnar Jónsson og Þráin Karlsson. David talaði um samstarfið við LA og dvölina á Íslandi í samtali við blaðamann Tímans í janúar 1974.

Það er mjög skemmtilegt leikhús og ágætur vinnuhópur, sem þarna hefur myndazt. Þetta er annars mjög takmarkaður æfingartími, sem við höfðum og ekki sízt með tilliti til þess, að leikararnir smíða allt sjálfir, að heita má. Þeir smíða og mála, því að annars væri ekki hægt að sýna, því það myndi kosta of mikið. En þetta er duglegt á áhugasamt fólk og leikurinn var frumsýndur við ágætar undirtektir […] Já, ég er afskaplega ánægður með þessa Íslandsferð og vona að þetta verði ekki seinasta verkefni mitt hér á landi.

En er David á meðal vor? Þegar leiða þarf í ljós hvort þekktur einstaklingur er á lífi eða ekki er gott að fara inn á síðuna livingordead.com. Ef nafn David Ashton er slegið inn kemur í ljós að hann er sprelllifandi. „David Ashton is alive, born 10 Nov 1941, 79 years, 11 months“. Og rétt eins og James Bond á næsta ári, fagnar David stórum áfanga núna þegar sýningar á nýjustu Bond-myndinni standa yfir – No Time To Die. Hann verður áttræður í næsta mánuði.

David Ashton ásamt leikkonunni Gail Harrison í þáttaröðinni Brass frá árinu 1983

David Ashton (tv) sem skipherra í Tomorrow Never Dies frá árinu 1997 ásamt Geoffrey Palmer

David Ashton í kvikmyndinni The Last King of Scotland frá árinu 2006. Með honum eru leikararnir Barbara Raferty og James McAvoy.

Dularfullur kopargripur finnst í Eyjafirði

Varðveislumönnum minjanna brá heldur betur í brún þegar þeir voru við störf á Melgerðismelum um síðastliðna helgi. Við uppgröft á stríðsminjum við einn melinn, leit forvitnilegur kopargripur dagsins ljós. Strax vöknuðu spurningar um notagildi gripsins meðal þeirra sem voru viðstaddir uppgröftinn en ekki síður aldur hans. Samdóma álit var að líklega tengdist hann ekki veru setuliðsins á Melunum í seinni heimsstyrjöldinni.

Gripurinn sem um ræðir er ferhyrndur, 4,6 – 4,7 cm að þvermáli og úr kopar. Kassalaga umgjörðin er skreytt að utanverðu, einu mynstri á hverri hlið og skákrossi að innanverðu. Frumrannsóknir á gripnum bentu til þess að þarna væri um svokallaðan eyrnaádrátt að ræða. Það hefur nú verið staðfest. Eyrnaádráttur var hluti af beisli fyrr á öldum, ádráttur sem kinnól og ennisól gengu um, undir eyrum hestsins.

Grenndargralið hafði samband við fornleifafræðing sem sagði að allmargir eyrnaádrættir væru til á íslenskum söfnum og væru fleiri dæmi um að þeir hefðu fundist fyrir tilviljun úti í náttúrunni eins og í tilfelli þess sem fannst um helgina á Melgerðismelum. Þar sem að um handsmíðaðan ádrátt væri að ræða gæti hann tæpast verið yngri en frá 19. öld en að saga þeirra næði langt aftur á miðaldir og því gæti hann verið eldri.

Samkvæmt janúarhefti Árbókar Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 1985 samanstóð svokallað „búið beisli af ákveðnum koparbúnaði eins og ennislaufi og eyrnaádráttum. Heimilt er að fullyrða að eyrnaádrættir hafi ekki verið smíðaðir einir sér til sölu heldur sem hluti af samstæðu. Ekki var á færi nema fremur efnaðra manna að eignast slíkt beisli, enda voru reiðtygi nokkurskonar stöðutákn hjá fyrri tíma mönnum. Búin beisli gerðust sjaldséð um aldamótin 1900.“  

Starfsmaður Minjastofnunar hefur nú kannað vettvang á Melunum í fylgd Varðveislumanna minjanna. Í spjalli  eftir lauslega athugun á svæðinu kom fram tilgáta um að ádrátturinn væri frá 19. öld.  Ómögulegt er þó að segja til um aldur fyrr en frekari rannsóknir hafa farið fram. Gripurinn verður því líklega sendur suður yfir heiðar til athugunar á næstu dögum.

Á slóðum hins dularfulla kopargrips á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Rýnt í gögn á staðnum þar sem eyrnaádrátturinn fannst.

Churchill vildi fá upplýsingar um Melgerðismela

Sama dag og breskir hermenn gengu á land í Reykjavík í maí 1940 tók Winston Churchill við embætti forsætisráðherra Bretlands. Rúmu ári síðar heimsótti hann bresku setuliðsmennina þegar hann kom til Íslands í stutta heimsókn. Aðdragandinn að heimsókninni var fundur sem Churchill átti í ágústmánuði 1941 með Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta um borð í herskipi á ónefndum stað á Atlantshafi.

Eftir fundinn með Roosevelt hélt Churchill áleiðis til Íslands. Hann steig á land í Reykjavík þann 16. ágúst. Eins og öllum er kunnugt flutti Churchill ávarp til íslensku þjóðarinnar af svölum Alþingishússins. Eftir það var hann viðstaddur hersýningu á vegum bandarískra, breskra og norskra herflokka.

Setuliðsmaður að nafni C. R. Wampach var staddur í Reykjavík þegar Churchill bar að garði. Wampach rifjaði upp heimsókn forsætisráðherrans í endurminningum sínum árið 2004. Þar lýsir hann m.a. hvernig Churchill kom inn á skrifstofu hersins í fylgd háttsettra embættismanna og herforingja, púandi stóran vindil. Hann staldraði stutt við en eitt var það öðru fremur sem fangaði athygli breska forsætisráðherrans inni á skrifstofunni.

Hann ræddi við starfsmenn en varð svo starsýnt á risastóru töfluna á skrifstofunni þar sem fylgjast mátti með gangi mála í framkvæmdum við flugvelli landsins – þessi tafla var á mína ábyrgð – barnið mitt. Hann sýndi þeim stöðum á kortinu sérstakan áhuga sem merktir voru með lituðum nálum. Allt í einu bendir hann á töfluna og segir: „Dill, hver er staðan á flugvellinum á Melgerðismelum (Melgerdi airfield)?“

Dill hafði ekki svör á reiðum höndum fyrir forsætisráðherrann og vísaði því á næsta embættismann. Sá gerði slíkt hið sama. Þannig gekk þetta í einhvern tíma þar til Wampach var fenginn til að upplýsa Churchill um stöðuna á Melgerðismelum.

Ég var mjög stressaður þegar ég gekk upp að Churchill. „Number 2 runway excavated sir, number 2 ready for concreting, number 3 fully operational.“ Churchill brosti og lagði hönd sína á öxlina mína. „Þakka þér undirliðþjálfi.“ Síðan sagði hann með sinni rámu rödd: „Guði sé lof að einhver veit hvernig ástandið er á Íslandi.“

 

Heimild:

Mike Grobbel. (2020, 23. ágúst). Churchill, Iceland and the “Polar Bears”. Sótt af v https://grobbel.org/misc/Churchill_Iceland_and_Polar_Bears.htm

Hér má sjá nokkra muni úr fórum setuliðsmanna sem Varðveislumenn minjanna fundu á Melgerðismelum fyrr í sumar.

Eignaðist sorgmæddi kirkjusmiðurinn gral sýslumanns?

Ólafur Briem var fæddur árið 1808. Faðir hans Gunnlaugur Briem sýslumaður á Grund – eigandi Grundargralisins – sá alltaf fyrir sér að sonurinn myndi taka við búskapnum á Grund og því lærði hann ekki til bókar eins og bræður hans. Ólafur hóf nám í húsasmíði í Kaupmannahöfn árið 1825. Hann lauk náminu með stæl og dvaldi næstu árin í Kaupmannahöfn þar sem hann smíðaði hús og naut trausts og vinsælda samverkamanna. Ólafur kom heim til Íslands árið 1831. Hann bjó með foreldrum sínum á Grund þar sem hann var með smíðaverkstæði. Hann vann við smíðar ásamt lærlingum hans hvar sem meiri háttar byggingar voru reistar í nærliggjandi sveitum eða þorpum.

Þegar Ólafur snéri aftur heim, fékk hann nóg að gera í sýslunni. Hann var yfirsmiður við allmargar kirkjur. Má þar nefna Hvanneyrarkirkju á Siglufirði, kirkju á Draflastöðum í Fnjóskadal og Þóroddstað í Kinn. Ennfremur kirkjur í heimasveit hans, Hrafngilskirkju, Grundarkirkju, Miklagarðskirkju, Hólakirkju og Saurbæjarkirkju sem jafnframt var hans seinasta húsasmíði síðasta vorið sem hann lifði.

Eftir lát Gunnlaugs var Ólafur talinn fyrir búinu þó hann hafi aðallega unnið við smíðar áfram. Árið 1838 giftist hann Dómhildi Þorsteinsdóttur frá Stokkahlöðum og saman tóku þau við búinu að fullu árið 1844. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið svo kærleiksríkt og fagurt að naumast hafi þau mátt hvort af öðru sjá. Þau eignuðust fjórtán börn.

Hjónin ungu á Grund féllu sviplega frá á besta aldri. Dómhildur andaðist af barnsförum fertug að aldri árið 1858. „það er í fréttum að í fyrradag varð ég ekkjumaður. Kona mín deyði þá, strax af afstöðnum burði andvana barns“ skrifaði Ólafur í bréfi til vinar. Söknuðurinn var sár. Hinn ungi timburmeistari var nú orðinn einstæður faðir, yfirbugaður af sorg og með stóran hóp barna til að sjá fyrir. Hann vildi vera til staðar fyrir börnin en óskaði þess jafnframt að fá að flýta för sinni á fund nýlátinnar eiginkonu sem hann elskaði meira en lífið sjálft. Guð mundi í eilífri miskunn sinni greiða veg barnanna þeirra. Ólafur lést í ársbyrjun 1859 eftir stutt en erfið veikindi.

Ólafur tók við búinu á Grund þegar hann kom heim frá Danmörku. Eftir það liðu þrjú ár áður en faðir hans andaðist. Ólafur og Dómhildur bjuggu á Grund þar til þau létust árin 1858 og 1859 og Valgerður, móðir Ólafs, bjó undir sama þaki áfram næstu árin eftir að Gunnlaugur lést. Er hugsanlegt að hún hafi setið í óskiptu búi og að eignir hennar og Gunnlaugs sýslumanns þ.m.t. Grundargralið hafi verið áfram á Grund eftir fráfall hans, á búskaparárum Ólafs Briem og Dómhildar?

Ólafur Briem og Dómhildur koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Útskýringar með mynd: Efri tvær kirkjurnar eru Draflastaðarkirkja í Fnjóskadal, byggð árið 1926 og Þóroddsstaðarkirkja í Köldukinn, vígð árið 1988. Neðri tvær eru Hólakirkja (1853) og Saurbæjarkirkja (1858) í Eyjafirði. Legsteinn Ólafs og Dómhildar er í Grundarkirkjugarði.

Jóhanna yngri dó í faðmi barna sinna

Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem var fædd árið 1813, yngri dóttir Gunnlaugs Briem sýslumanns á Grund og Valgerðar Árnadóttur. Eldri systir Jóhönnu Kristjönu var Jóhanna fagra en auk þess átti hún fimm bræður. Tvítug að aldri giftist hún Gunnari Gunnarssyni, presti í Laufási. Þau eignuðust fimm börn. Síðar giftist Jóhanna Kristjana, Þorsteini Pálssyni presti á Hálsi í Fnjóskadal. Þeim varð ekki barna auðið.

Eitt barna Jóhönnu Kristjönu og Gunnars var Eggert, fæddur árið 1840. Eggert var 13 ára þegar faðir hans dó. Hann hóf búskap á bænum Espihóli í Eyjafjarðarsveit árið 1866 en brá búi þremur árum síðar þegar eiginkona hans, Elín Sigríður Magnúsdóttur féll frá langt fyrir aldur fram. Eggert var umsvifamikill, hann var kaupstjóri á Akureyri um skeið, sýslumaður í Skagafirði og átti þátt í stofnun kvennaskóla á Laugalandi. Eggert var bróðir Tryggva sem stofnaði Gránufélagið árið 1870 og Katrínar Kristjönu, móður Hannesar Hafstein ráðherra. Árið 1875 var Eggert kosinn á þing. Hann gegndi þingmennsku í fimm ár. Þann tíma bjó hann á Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit.

Eftir fráfall séra Þorsteins 1873, flakkaði Jóhanna Kristjana milli staða þar til hún flutti að Laugalandi til sonar síns 1876. Þar bjó einnig á þeim tíma dóttir hennar og systir Eggerts, amtmannsfrúin Kristjana Katrín. Jóhanna Kristjana andaðist í faðmi barna sinna á Syðra-Laugalandi í október 1878. Séra Daníel Halldórsson prófastur á Hrafnagili hélt húskveðju yfir hinni látnu áður en hún var flutt að Grund þar sem hún var borin til grafar. Þar hvíla foreldrar hennar, bróðir hennar Ólafur Briem timburmeistari og líklega fleiri af Briem-ættinni.

Af Katrínu Kristjönu og Eggerti er það að segja að hún lést í Reykjavík, rúmlega níræð. Þegar hún lést var hún ein elsta konan í bænum. Eggert sigldi til Bretlands sex árum eftir andlát móður sinnar. Það síðasta sem vitað er um afdrif hans nær til fyrri hluta ársins 1886. Þá er eins og jörðin gleypi hann. Engar heimildir eru til sem staðfesta nokkuð um dvalarstað hans eða yfir höfuð hver afdrif hans urðu. 

Tvo „minnisvarða“ um Gunnlaug Briem, Valgerði konu hans og börnin þeirra sjö má skoða þegar gengið er um kirkjugarðinn á Grund í dag. Legsteinar systkinanna Jóhönnu Kristjönu Briem og Ólafs Briem standa hlið við hlið og vekja nokkra athygli. Þeir mega þó muna fífil sinn fegurri.

Þættir sex og sjö af Leitinni að Grundargralinu komnir í loftið