main image

Rangt að vekja falskar vonir um nýtt lyf

Í upphafi árs 1952 birtust fréttir þess efnis að von væri á nýju lyfi til landsins. Miklar vonir voru bundnar við lyfið í stríði gegn alvarlegum sjúkdómi sem hafði herjað á heimsbyggðina með hörmulegum afleiðingum. Almenningur sá fyrir endann á berklafaraldrinum á meðan læknar reyndu að stilla væntingum um virkni lyfsins í hóf. Í apríl 1952 var sagt frá því í Degi að fyrstu sjuklingarnir á Kristneshæli og Vífilsstöðum hefðu fengið hið nýja lyf, Rimifon.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli

Rimifon, nýja berklalyfið sem mest hefur verið umtalað síðustu mánuðina, var tekið í notkun á Kristnesi nú nýlega og um svipað leyti á Vífilsstöðum. „Við erum rétt að byrja með þetta“, sagði Jónas Rafnar yfirlæknir á Kristnesi í viðtali við blaðið, „fengum smáskammt, handa 5—6 manns, en meira mun væntanlegt á næstunni. Og um árangur er að sjálfsögðu ekkert hægt að segja. Það eitt er víst, að lyfið er ekki skaðlegt ef það er tekið í hæfilegum skömmtum, en um áhrif þess á sjúkdóminn get ég ekkert sagt að svo stöddu. Fólk virðist vera ákaflega spennt að fá fregnir af því, sem vonlegt er, en rangt væri að vekja falskar vonir í brjóstum hinna sjúku.“

Ummæli erlendra lækna

Þessi ummæli yfirlæknisins hníga mjög í sömu átt og erlendra lækna, er rætt hafa þetta nýja lyf. Nokkrar vonir tengdar við það, en allt of snemma að fagna sigri. Bezt að búast við vonbrigðum, því miður. Einn kunnasti berklalæknir Dana, dr. Tage Hyge, yfirlæknir við berklahælið í Lyngby, sagði t.d. á þessa leið í viðtali við Berlingske Tidende í vikunni sem leið: „Rimifon er efni – töflur sem við vitum ekkert um ennþá. Fyrstu fregnir um lyf þetta bárust bingað frá Ameríku fyrir tveim mánuðum og síðan höfum við hér og fleiri berklahæli fengið nokkrar töflur til reynslu. Maður sér nú til hvað kemur út úr þessu.“

Þekkt þegar 1912

Sjálft efnið hefur verið þekkt síðan 1912, en tilraunir í berklarannsóknum eru nýjar. Rimifon drepur berklabakteríuna. Önnur kunn efni – Streptomycin og PAS – verka öðruvísi, en takmarkið er hið sama: að reyna að stöðva berklana. Fyrir liggur reynsla, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss, snotur árangur að sjá á blaði, en enn er ekki hægt að byggja á honum að því marki, að unnt sé að segja að nýja lyfið sé betra en þau gömlu. Enn segir þessi danski yfirlæknir: „Gamli yfirmaðurinn minn, dr. Permin yfirlæknir, sagði eitt sinn við mig: „Maður getur gefið hvaða efni sem er út fyrir að vera berklalyf og náð mikilli frægð um hálfs árs skeið, því að það tekur svo langan tíma að sannreyna að efnið sé einskis nýtt.“ Dr. Permin hafði rétt fyrir sér. Ég lít með eftirvæntingu til nýja lyfsins Rimifon, en reynsla áranna hefur kennt mér varúð í þessum efnum. Versta, sem hægt er að gera gagnvart sjúklingum, er að vekja hjá þeim falskar vonir.

Rimifon bættist í hóp berklalyfjanna Streptomycin sem hafði verið í notkun í nokkur ár og PAS sem var nýrra af nálinni. Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara lyfja markaði endalok berklafaraldursins. Þau hins vegar flýttu fyrir bata og áttu stóran þátt í að kveða niður berkladrauginn í lok sjötta áratugarins og í upphafi þess sjöunda.

 

Heimildir:

Helgi Ingvarsson. (1953). Nýju berklalyfin. Reykjalundur, 7. árgangur(1), 30-31.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli. (1952, 17. apríl). Dagur, bls. 1.

Einstakar peysur frá Bergdísdesign

Víða vinnur fólk verkin sín í hljóði, jafnvel þó þau eigi erindi við almenning. Dæmi um vandaðan heimilisiðnað í heimabyggð sem lítið fer fyrir en verðskuldar athygli eru prjónaafurðir Bergdísar Kristmundsdóttur. Bergdís er menntaður kjólameistari og kennari. Hún lauk sveinsprófi í kjólasaumi árið 1984 eftir þriggja ára nám við fataiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík og öðlaðist meistararéttindi í greininni árið 1990. Í millitíðinni starfaði hún um nokkurra ára skeið á hönnunardeild ullariðnaðar SÍS á Akureyri.

Bergdís er búsett á Akureyri þaðan sem hún stjórnar prjónasprotanum sínum Bergdísdesign. Hún hannar og prjónar flíkur úr íslenskri ull í öllum stærðum og gerðum – peysur og tátiljur jafnt sem eyrnabönd og vettlinga. Viðskiptin fara að miklu leyti í gegnum facebook-síðu Bergdísdesign. Einnig hefur Bergdís verið með vörurnar sínar í umboðssölu í ullarvöruversluninni Fold-Önnu og fleiri verslunum.

Grenndargralið sló á þráðinn til Bergdísar og spurði hana út í prjónaskapinn í jólavertíðinni og hvaða valkostir standa áhugasömum viðskiptavinum Bergdísdesign til boða. „Það hefur verið einhver sala núna fyrir þessi jól en þó ekki svo mikið. Valkostir, ja það eru t.d. engar tvær peysur eins og því má segja að hver og ein peysa sé einstök. Þá er hægt að panta tátiljur, eyrnabönd og vettlinga í öllum mögulegum litum, allt eftir smekk hvers og eins. Áhugasamir geta haft samband við mig í gegnum síðuna mína.“

Fleiri myndir af hönnun og prjónaafurðum Bergdísar má nálgast á facebook-síðu Bergdísdesign.

Hver getur treyst á smokkinn ef hann er settur á hausinn?

Orðin „eyðni“ og „smokkur“ voru mikið á milli tannanna á fólki árið 1987. Litið var á smokkinn sem helsta vopnið í baráttunni gegn HIV-sjúkdómnum þó sumir hefðu efasemdir um ágæti verjunnar.

Fullorðinn maður á Eyrinni, eins og hann var titlaður í Degi, hafði samband við blaðið í ársbyrjun 1987 vegna ummæla Reynis Valdimarssonar læknis um smokkinn nokkrum dögum fyrr. Í grein sem ber yfirskriftina Smokkurinn er ekki afgerandi vörn varar Reynir fólk við að leggja allt sitt traust á ílangan gúmmípokann. Þó vissulega væri hann liður í vörninni þyrfti fleira að koma til, t.a.m. breytt kynferðishegðun. „Hann [smokkurinn] nær nú tiltölulega skammt því það er vitað mál að undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður“ segir Reynir í viðtali við Dag þann 28. janúar 1987.

Fullorðna manninum á Eyrinni var ekki alveg rótt og sá ástæðu til að koma athugasemdum á framfæri vegna greinarinnar. Þær birtust í Lesendahorni Dags þann 2. febrúar. Þó hann segðist ekki sjálfur hafa mikla reynslu af notkun smokksins hefði hann fram að þessu talið hann vera sæmilega örugga getnaðarvörn.

„Mér brá því nokkuð þegar ég las fyrirsögnina á fréttinni: „Smokkurinn er ekki afgerandi vörn“ hafða eftir Reyni Valdimarssyni lækni. í fréttinni kemur síðan skýringin, sem sagt að smokkurinn er ekki örugg getnaðarvörn vegna þess að „undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður.“ Þykir nokkrum skrítið. Hver ætli geti svo sem treyst á smokkinn ef hann á engan smokk eða setur hann á hausinn á sér „þegar á hólminn er komið“ eins og stóð í fréttinni. Ég vildi bara koma þessu á framfæri þannig að menn hættu ekki að treysta á þetta verkfæri,” sagði maðurinn og vildi benda á að yfirleitt er að finna notkunarleiðbeiningar.“

Heimildir:

Stefán Þór Sæmundsson. (1987, 28. janúar). Smokkurinn er ekki afgerandi vörn. Dagur, bls. 12.

Rétt notkun á smokkum [Lesendahornið]. (1987, 2. febrúar). Dagur, bls. 5.

Vísukorn lífskúnstnersins Elmars Sindra

Samkvæmt nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er lífskúnstner „einstaklingur, t.d. listamaður eða menntamaður, sem lifir frjálsu lífi óbundinn af reglufestu vinnandi manna“. Lýsingin á ágætlega við grunnskólakennarann og tónlistarmanninn Elmar Sindra Eiríksson.

Elmar Sindri tilkynnti á facebook þann 2. nóvember sl. að hann ætlaði sér að birta frumsamin vísukorn daglega út árið, þrátt fyrir enga eftirspurn. 60 dagar eftir af þér einstaka og eftirminnilega 2020. Vegna engrar áskorunar ætla ég að telja niður til áramóta og setja inn vísnasnöpp eða vísnamyndir sem ég hef hnoðað saman undanfarin ár.

Tveir þriðjungar daganna 60 eru nú liðnir og Elmar hefur staðið skil á 40 skömmtum í bundnu máli á fésbókinni sinni. Kennir ýmissa grasa í ljóðum Elmars og óhætt er að segja að þau fylli allan tilfinningaskalann, allt frá sorginni yfir dauða Diego Maradona til gleðinnar sem fylgir því að gæða sér á góðum sviðakjamma. Ljóðin eru myndskreytt.

Hér getur að líta nokkur vel valin sýnishorn af ljóðum Elmars Sindra.

 

Myndir:

Atli Rúnar Halldórsson. (2016). Elmar Sindri spilar á gítar fyrir Guðna Th. Jóhannesson og Elizu Reid á göngu þeirra um Dalvík á Fiskidaginn mikla 6. ágúst 2016. Myndin birtist í Morgunblaðinu. Svarfdælasýsl – um Svarfdælinga í blíðu og stríðu. https://svarfdaelasysl.com/2016/08/11/herra-rokk-forsetahjon-og-senuthjofur-a-asvegi/

Aðrar myndir eru í eigu Elmars Sindra Eiríkssonar.

Þegar Stekkjastaur var stolið og Bjúgnakrækir brotinn

Það eru ekki alltaf jólin hjá kaupmönnum í desember. Allavega var það ekki tilfellið um aldamótin síðustu. Eigendur verslana í miðbæ Akureyrar voru rasandi yfir níðingsverkum sem framin voru í Jólabænum, sem svo var kallaður, eftir næturbrölt skemmtanaglaðra skemmdarvarga á aðventu árið 1999. Kaupmenn þurftu að takast á við síendurtekin skemmdarverk á jólaskrauti þar sem vargarnir eyrðu engu. Stekkjastaur stóð styrkum fótum í Hafnarstræti, stinnur eins og tré en var engu að síður rifinn upp með rótum. Honum var stolið í skjóli nætur. Þrátt fyrir að vera brögðóttur og snar náði Bjúgnakrækir ekki að forða sér undan skemmdarvörgunum sem brutu hann í mél og grýttu líkamspörtunum í nærliggjandi hús.

Dagur Akureyri-Norðurland ræddi við starfsfólk Jólabæjarins og Borgarsölunnar Turninum, þau Ólaf Hilmarsson og Jónu Margréti Sighvatsdóttur um ástandið í miðbænum.

Ólafur lét hafa eftir sér að brottnám vesalings Stekkjastaurs hefði ekki átt að fara framhjá neinum þar sem hann stóð utan gáttar húsnæðis Landssímans í Hafnarstræti. Ekki minna en pallbíl hefði þurft til að fjarlægja Sveinka. „Hann var bara tekinn í heilu lagi. Ef hann hefði verið skemmdur þá hefðu sést þarna flísar og annað. Það er mjög leiðinlegt að fólk skuli ekki geta látið þetta í friði“ sagði Ólafur við blaðamann Dags.

Jóna Margrét kvaðst vera orðin langþreytt á ódæðisverkunum. Raddir þess efnis að Jólabærinn stæði ekki undir nafni vegna fátæklegra jólaskreytinga ætti sér skýringar í skemmdarverkunum. Eftir að endurtekið hafði verið fiktað við jólaseríur utan á Turninum var gripið til þeirra örþrifaráða að taka þær niður. Til að kóróna framgöngu skemmdarvarganna var hönnunarverk myndlistarnema brotið þegar Bjúgnakrækir fékk að finna til tevatnsins. Það var þó lán í óláni að nokkrir úr hópi myndlistarnemanna voru staddir í miðbænum og urðu vitni að því þegar Bjúgnakrækir varð fyrir líkamsárás. Í þetta skiptið náðust skemmdarvargarnir.

Af afdrifum Stekkjastaurs er það að segja að hann fannst eftir mikla leit. Kom í ljós að tveir menn í leit að afmælisgjöf handa sameiginlegri vinkonu höfðu fengið þá hugmynd að gefa henni jólasvein, sem og þeir gerðu – og höfðu býsna mikið fyrir því.

Heimild:

HI. (1999, 7. desember). Stekkjastaur stolið á Akureyri. Dagur Akureyri-Norðurland, bls. 1.

Stóri Íslendingurinn með stóru stjörnunum í Hollywood

Ein af hátíðarmyndum kvikmyndahúsanna hér á landi jólin 1953 var stórmyndin Davíð og Batseba. Myndin sækir efnivið í Biblíuna en hún segir frá ástum Davíðs konungs og Batsebu hinnar fögru. Golíat kemur einnig við sögu. Darryl F. Zanuck framleiddi myndina og um tónlist sá Alfred Newman. Með hlutverk Davíðs og Batsebu fóru stórleikararnir Gregory Peck og Susan Hayward. Myndin var sýnd Nýja Bíói í Reykjavík og stóðu sýningar yfir fram í janúar 1954. Hún var tekin til sýninga í Nýja Bíói á Akureyri í mars sama ár.

Tveimur árum áður en Íslendingar sáu þríeykið Davíð, Batsebu og Golíat á hvíta tjaldinu, birtust viðtöl við Jóhann K. Pétursson í tveimur staðarblöðum í Bandaríkjunum. Jóhann Svarfdælingur starfaði á þessum tíma í fjölleikaflokki í Texas og hafði nýlega lokið við að leika í Hollywood-kvikmyndinni Prehistoric Women með lítt þekktum leikurum. Kannski blunduðu draumar í Jóhanni um að vinna með heimsþekktum stjörnum úr draumasmiðjunni í Hollywood. Því ekki? Ef Davíð gat sigrað Golíat, gat þá ekki stóri maðurinn frá litla Íslandi alveg eins sigrað heiminn?

Í viðtali sem blaðamaður tímaritsins El Paso Times tók við Jóhann og birtist í blaðinu 20. nóvember árið 1951, upplýsir Jóhann að búið hafi verið að taka ákvörðun um að hann fengi hlutverk Golíats í kvikmyndinni. Þegar svo í ljós hafi komið að hann þyrfti að ferðast með fjölleikaflokknum til Suður-Ameríku á sama tíma og tökur á myndinni stæðu yfir, hafi hann þurft að gefa hlutverkið frá sér. Til að fylla í skarð Jóhanns var Lithái að nafni Walter Talun fenginn til að leika ofurmennið Golíat.

Í ársbyrjun 1952 birtist annað viðtal við Jóhann í El Paso Herald-Post. Í inngangsorðum segir blaðamaður frá hinum 38 ára hávaxna Íslendingi sem langtímum saman hafi hvergi átt höfði sínu að halla vegna hæðarinnar. Nú væri hann hins vegar kominn með þak yfir höfuðið þar sem búið væri að útvega honum sérútbúið hjólhýsi (trailer). „Þetta er yndislegt. Allavega er ég kominn með dyr sem ég get núna gengið um án þess að meiða mig í höfðinu“ segir Jóhann í viðtalinu við blaðamann El Paso Herald-Post (lausleg þýðing; Grenndargralið).

Vegna skuldbindinga við fjölleikaflokkinn, missti Jóhann af tækifæri til að vinna með hæfileikaríkum Hollywood-leikurum, þeim Gregory Peck og Susan Hayward. Tæpum þremur áratugum síðar fékk Jóhann annað tækifæri til að vinna með þekktum leikurum úr draumasmiðjunni og ekki síður hæfileikaríkum. Í þetta skiptið greip hann tækifærið. Árið 1980, sama ár og Walter Talum lést, lék Jóhann í kvikmyndinni Carny með Jodie Foster og Gary Busey. Golíat var sigraður.

Jóhann Kristinn Pétursson lést á Dalvík árið 1984. Hann var 71 árs að aldri.

 

Heimildir:

Davíð konungur og Batseba í skrautlegri mynd. (1953, 24. desember). Tíminn, bls. 2.

Internet Movie Database. (e.d.). Walter Talun.

https://www.imdb.com/name/nm0848322/?ref_=fn_al_nm_1

Internet Movie Database. (e.d.). Johann Petursson.

https://www.imdb.com/name/nm0678842/?ref_=nv_sr_srsg_1

Tallest man in the world. (1951, 20. nóvember). El Paso Times, bls. 13.

Tall man from carnival gets special high trailer. (1952, 14. janúar). El Paso Herald-Post, bls. 8.

 

Sagan á bak við fallega jólamynd

Hver skyldi vera eftirminnilegasta íslenska ljósmyndin sem tekin er um jól? Mynd Kristjáns Hallgrímssonar ljósmyndara sem hann tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum kemur líklega upp í huga einhverra. Myndin sýnir mann með hatt sem stendur við bílinn sinn í snævi þaktri göngugötunni. Fáir eru á ferli og jólaljósin lýsa upp skammdegið. Andstæðurnar takast á í ljósmyndinni. Umhverfið er fallegt, mikill friður ríkir og birta jólaljósanna minnir á gleðina sem hátíðinni fylgir. En myndin er einnig sveipuð depurð og einmanaleika. Maðurinn með hattinn er einn á ferð í skammdeginu og það eru jól. Fátt stingur meira í hjartastað en villuráfandi sál á hátíð ljóss og friðar.

Hver ætli sagan sé á bak við ljósmyndina? Grenndargralið leitaði álits Harðar Geirssonar safnvarðar ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri. Að sögn Harðar tók Kristján myndina árið 1962. Ólíkt því sem einhverjir kunna að halda segir Hörður ýmislegt benda til þess að Kristján hafi komið myndavélinni fyrir á þrífæti og að um uppstillingu sé að ræða. Hér sé ekki á ferðinni tækifærismynd heldur myndataka, gerð með vitund og aðstoð mannsins með hattinn og fólksins sem stendur við búðargluggann. Kannski er maðurinn með hattinn ekki svo einsamall eftir allt.

Grenndargralið minnist þess að hafa fyrir margt löngu séð ljósmyndina í gömlu dagblaði. Eftir samtalið við Hörð var forvitnin vakin. Ef myndin er tekin árið 1962, er þá hugsanlegt að hún hafi birst í dagblaði í desember það ár? Og ef svo, geymir dagblaðið þá kannski einhverjar frekari upplýsingar um myndina? Grenndargralið fór á stúfana og fletti í gegnum dagblöð sem gefin voru út á Akureyri á þessum tíma. Fljótlega hljóp á snærið því á forsíðu Íslendings föstudaginn 14. desember 1962 blasti mynd andstæðnanna við með grein sem ber yfirskriftina Fögur jólaskreyting í bænum.

Þar með er ekki öll sagan sögð. Á öðrum stað í blaðinu er mynd sem líkir mjög til ljósmyndarinnar sem hér er til umfjöllunar. Sýnir hún einnig jólaskreytingar í myrkvuðum bænum – Jólaskreyting á Oddeyri. Þegar myndunum tveimur er flett upp á síðunni sarpur.is kemur í ljós að fleiri myndir hafa verið teknar í miðbæ Akureyrar við þetta sama tækifæri. Svo virðist sem Kristján hafi farið milli staða og tekið myndir, fest á filmu nokkurs konar myndaseríu og gert það á þeim tíma sólarhringsins þegar bæjarbúar héldu sig heima við.

Rúsínan í pylsuendanum er myndatextinn sem fylgir Oddeyrar-myndinni en þar segir: „Jólaskreytingar í bænum eru í fullum gangi og hafa aldrei verið meiri en  nú. Kr. Hallgr. tók þessa mynd á Oddeyri í fyrrakvöld.“ Þar með er það skjalfest. Myndin sem Kristján Hallgrímsson ljósmyndari tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum af manninum með hattinn var tekin að kvöldi miðvikudagsins 12. desember árið 1962. Eftir stendur spurningin – hver er maðurinn með hattinn?

Heimildir:

Fögur jólaskreyting í bænum. (1962, 14. desember). Íslendingur, bls. 1.

Jólaskreyting á Oddeyri. (1962, 14. desember). Íslendingur 2, bls. 1

Myndir:

Mynd 1) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Jól í miðbæ Akureyrar. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630317

Mynd 2) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Gatnamót Glerárgötu og Gránufélagsgötu. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630297

Mynd 3) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Ráðhústorg, Brekkugata 1 (Kjörbúð KEA og Sparisjóður Ak.). Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630300

Mynd 4) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Sýslumannshúsið (Hafnarstræti 107), Matvöruverslun KEA og Sparisjóður Ak. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630650

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fullveldisdagurinn fyrir 100 árum

Grenndargralið sendir góðar kveðjur til lesenda í tilefni fullveldisdagsins. Eftirtaldar fréttir og tilkynningar birtust í Degi, fullveldisdaginn 1. desember árið 1920.

Fullveldisdagurinn er í dag. Búðum lokað og almennur frídagur. Hálsbrot eiga þeir í vændum, sem ganga um götur bæjarins. Í fyrrakvöld steyptust margir fram af bakkanum utan við gamla pósthúsið. Kona datt á brunahana og skaðaði sig. Myrkrið á götunum er háskalegt bænum og stjórn hans til skammar. Á ekki bærinn eða getur veitt sér ódýrar olíuluktir, sem hægt væri að hengja á staura, svo hægt væri að gizka á rétta stefnu á götunum í Höfuðstað Norðurlands?

Veikindi eru allmikil hér í bænum. Inflúenzan gengur um með sömu hægð og tekur einn og einn. Stefán skólameistari hefir legið mjög þungt haldinn, en er nú í afturbata. V. Steffensen læknir hefir sömuleiðis verið mjög veikur af völdum inflúenzu og fleiri eru veikir.

Þeir, sem hugsa sér að gefa kransa á kistu Matthíasar Jochumssonar, eru beðnir að gefa heldur minningargjafir í Matthíasarsjóðinn (til styrktar ungum skáldum og listamönnum) eða Heilsuhælissjóð Norðurlands. Upplýsingar á skrifstofu Ragnars Ólafssonar kaupm. og hjá Hallgr. Davíðssyni kaupm. Þetta hafa þeir, sem standa fyrir útförinni, beðið blaðið að birta.

Frá bæjarstjórnarfundi 23. f. m. Ágreiningur varð um það, hvort kirkjan væri eign bæjarins eða safnaðarins, og er óútkljáð. Tillaga kom fram, um að hækka sóknargjöld og er það sömuleiðis óútkljáð.

Gáta. Bændur kvarta um það, að háa kaupið lami landbúnaðinn stórlega. Sjávarútvegsmenn kvarta um það, að atvinnuvegur þeirra þoli ekki háa kaupið. Verkalýðurinn kvartar um það, að atvinna sé þrotin og sumarkaupið komist ekki í hálfkvisti við greipilega dýrtíð. Allir hafa satt að mæla. Hver er ráðningin? Sendið blaðinu ráðningar skýrar, en svo stuttar sem unt er.

Þjófnaði linnir ekki í Reykjavík. Nýlega var stolið frá manni fjárhæð nokkurri og hann gerði lögreglunni aðvart. Þjófurinn var gripinn og var það þá sonur mannsins. Sunnan blöð herma, að til og frá sé stolið um allan bæ ýmsu smávegis. Eru þetta ein af sporum dýrtíðarinnar og peningagræðginnar, sem hún hefir magnað. Guðm. Friðjónsson segir í »Austurlandi« að fólk streymi nú suður í menninguna þá, sem vanti einn lið á hálsinn, en hafi einni kjúku ofaukið í fingrunum, og er það vel sagt.

Heimild: Dagur, 32. tölublað, 1. desember 1920.

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur

Aðventan er skollin á með tilheyrandi ys og þys. Desember er jafnan annasamur tími hjá fólki sem starfar við verslun. Þrátt fyrir Covid-ástand mun sjálfsagt nú sem fyrr mæða mikið á afgreiðslufólki verslana allt þar til hátíð ljóss og friðar gengur í garð.

Blaðamaður Íslendings leit inn í Blómabúðina Laufás í Hafnarstræti á aðventu 1974. Þar hitti hann fyrir afgreiðslustúlkuna Kolbrúnu Ingu Sæmundsdóttur sem svaraði spurningu hans um það hvernig hún færi að því að undirbúa jólin samhliða því að vinna fullan starfsdag.

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur.

Minn jólaundirbúningur fer aðallega fram á síðkvöldum og nóttunni. Annars lofa ég sjálfri mér á hverju hausti, að í ár skuli ég undirbúa jólin í nóvember. Enn sem komið er hefur þetta aldrei orðið meira en svikið loforð. Ég baka að vísu snemma smákökur, steiki laufabrauð og geri jólasælgæti með börnunum. En ég tek það ekki nærri mér þó ekki sé skúrað út í hvert horn og börnin ekki klædd nýjum fötum innst sem yst. Ef ég ætlaði mér að baka, skúra, sauma og föndra fyrir jólin með allri vinnunni, er ég hrædd um að lítið væri eftir af mér um jól. Maður er nógu þreyttur samt, þegar blessuð jólin koma, sagði Kolbrún.

Aðspurð sagði hún, að sér þætti annars gaman að vinna í búð fyrir jólin. Það fylgdi því sérstök stemming og galsi þrátt fyrir þreytta og sára fætur.  

Það er Iíka einhvern veginn öðru vísi að afgreiða fólk, sem er að kaupa gjafir til jólanna. Sérstaklega er gaman að afgreiða lítil börn og gamalmenni. Börnin Ieita oft vandlega í búðinni hjá okkur, sérstaklega þau sem hafa takmörkuð peningaráð, og andlitin á þeim ljóma þegar þau detta loks niður á eitthvað sem þeim líkar, heldur Kolbrún áfram. En þrátt fyrir allt kvíði ég alltaf svolítið fyrir hverri jólatörn.

Síðan vék Kolbrún að því að afgreiðslufólkið í blómabúð yrði sérstaklega mikið vart við jólaverslunina. Þá þarf að búa til aðventukransa, pakka jólaskrauti í poka, skreyta greni og ótal margt annað. Hefst þessi undirbúningur gjarnan um miðjan nóvember. Jólaösinni lýkur síðan ekki fyrr en um kl. 3 á aðfangadag, en þá er verslunin búin að senda út síðustu pantanirnar.

Þegar ég kem heim á aðfangadag eru börnin mín búin að skreyta jólatréð og eina sem eftir er að gera er að elda matinn. Ég geri það alltaf sjálf, en að því loknu get ég loksins sest niður. Því miður eru jóladagarnir allt of fljótir að Iíða og þegar maður mætir til vinnu á þriðja í jólum get ég ekki komist hjá því að spyrja sjálfa mig, hvort öll þessi læti fyrir jólin séu virkilega þess virði að þau séu lögð á sig, sagði Kolbrún að lokum.

Heimildir:

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls. 12.

Samsett mynd:

a) Gunnlaugur P. Kristinsson. (1964-1966). Blómabúðin Laufás. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1530442

b) Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls 12. [Kolbrún Inga Sæmundsdóttir við afgreiðsluborðið í blómabúðinni Laufás]

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri

Myndbandstæki og VHS-spólur voru Netflix níunda áratugarins. Ánægjan sem fylgdi því að geta horft á bíómynd eða annað skemmtiefni um hábjartan dag þegar ekkert var sjónvarpið er mörgum eftirminnileg. Í byrjun áratugarins voru myndbandstæki munaðarvara fárra. Þá tóku gjarnan margir sig saman um kaup á einu tæki sem gekk á milli húsa. Einnig var útleiga á videotækjum og spólum mikil á tímabili hjá myndbandaleigum áður en tækjaeign varð almenn.

Vorið 1981 fjallaði Dagur um videoæðið sem þá hafði gripið landann í greininni Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. Í greininni gefa þrír verslunarmenn álit sitt á sölu myndbandstækja í bænum. Það eru þeir Rafn Sveinsson hjá Hljómdeild KEA, Róbert Friðriksson hjá Akurvík og Stefán Hallgrímsson í Hljómveri.

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri

Myndsegulbönd ryðja sér æ meira til rúms hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík er algengt að fjölskyldur í fjölbýlishúsum sameinist um kaup á einu tæki og að einn íbúðareigandinn sjái um að setja tækið af stað þegar dagskrá íslenska sjónvarpsins lýkur. Deilt hefur verið um gæði þess efnis sem fólki stendur til boða, en Ijóst er að mikið af því er í lélegum gæðaflokki. Má t.d. nefna að klámmyndir eru mikið framleiddar fyrir myndsegulbandstæki og hefur slíkt efni sjaldan verið talið menningaraukandi.

Nú eru í gangi þrjú mismunandi kerfi og ekki hægt að nota spólur sem framleiddar eru fyrir eitt kerfanna í annað. Hér á landi er hægt að fá nýjar kvikmyndir, sem ekki eru komnar í kvikmyndahús, og sem íslensk kvikmyndahús hafa fengið einkaumboð fyrir. Að vonum þykir forráðamönnum þeirra hart ef hundruð manna hafa séð myndina. Fyrir nokkru var ein slík mynd, með Robert Redford, sýnd á skemmtistað á Akureyri.

Rafn Sveinsson, hjá Hljómdeild KEA, sagði að sala á myndsegulböndum væri öll að lifna við og hann sagði að a.m.k. eigendur eins fjölbýlishúss hefðu sameinast um kaup á myndsegulbandi. Innan skamms verður lokið uppsetningu á búnaði í öðru fjölbýlishúsi. Hljómdeild KEA hefur í hyggju að gerast umboðsaðili fyrir áteknar myndsegulbandsspólur. Rafn sagði að lögð yrði áhersla á „orginala“ enda eru myndgæði þeirra mun meiri en þeirra mynda sem teknar eru upp úr sjónvarpi.

Myndsegulbandstæki eru einnig til sölu í Akurvík og sagði Róbert Friðriksson, verslunarstjóri, að það færðist í vöxt að einstaklingar fjárfestu í myndsegulbandstækjum, þrátt fyrir hátt verð, sem er frá ellefu og allt upp í 20 þúsund krónur. Akurvík hefur ekki hafið reglulega útleigu á áteknum spólum, en ætlar að gera svipaða hluti og Hljómdeild KEA. Róbert sagði að Akurvík gerði eigendum fjölbýlishúsa tilboð í uppsetningu á myndsegulbandskerfum.

Stefán Hallgrímsson, í Hljómveri, sagði að hans fyrirtæki hefði ekki haft myndsegulbandstæki á lager, en að sjálfsögðu væri hverjum sem hafa vildi útvegað slíkt tæki. Hann benti á að þróun í gerð myndsegulbandstækja væri ákaflega ör og erfitt að segja nokkuð til um hvaða kerfi sigraði að lokum. „Við höfum viljað bíða þar til við gætum boðið eitthvað sem yrði ekki úrelt innan skamms.“ Og Stefán sagði að svo undarlega vildi til að fólk leitaði heldur til Reykjavíkur og keypti sín tæki þar – hins vegar kæmu hinir sömu með tækin á viðgerðarstofuna á Akureyri þegar þau biluðu.

Á sömu síðu, undir liðnum Smátt og stórt segir:

Í frétt hér á síðunni er sagt frá myndsegulböndum sem eflaust eiga eftir að komast í almenningseign innan tíðar. Ýmsar vafasamar myndir er hægt að kaupa í þessi tæki og auðvelt að komast yfir þær eins og eftirfarandi saga, sem er sönn, sýnir Ijóslega. Akureyringur kom inn í verslun í Reykjavík og bað um spólu í myndsegulband. Afgreiðslumaðurinn leit á viðskiptavininn og sagði: „Sex“. Bláeygður Akureyringurinn hélt að afgreiðslumaðurinn ætti við heyrnarvandamál að stríða og svaraði: „Nei, ég ætla bara að fá eina spólu.“

Heimild: Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. (1981, 21. maí). Dagur, bls. 8.