main image

Einum gripnum færra að greina

Sprengjubrot sem orðið hafa á vegi VM hafa nær undantekningarlaust fundist upp til fjalla. Þó er ein undantekning. Þessi botn af handsprengju fannst nýlega á gömlu braggasvæði setuliðsins. Hann er merktur Thomas Glover & Co., Edmunton, London.

Illa farin mortar-askja glædd lífi

Sumt af því sem VM hafa fundið og tekið til handargagns frá setuliðinu er illa farið eftir 80 ára veðrun í íslenskri náttúru. Dæmi um þetta eru hlutar af „öskjum“ fyrir breskar mortar-sprengjur (British 2 Inch Mortar Bomb Carrier). Eftir púsningar og þrif á nokkrum ryðguðum gripum sem tilheyra slíkum mortar-hirslum koma þrjú handföng og tvö lok í ljós. Á öðru lokinu sést glitta í ártalið 1941. Á hinu má enn greina ljósgræna litinn sem prýddi lokin þegar setuliðsmenn spígsporuðu hér um slóðir. Á erlendri sölusíðu þar sem mortar-askja í ágætu ástandi frá 1941 er til sölu segir: „The carrier is nicely dated 1941/1942. This is one of the hardest of the Infantry company accessories to find.“

Smágripirnir hluti af fallhlíf og fluggleraugum John Kassos

Grenndargralið greindi á dögunum frá tilgátu sem snéri að mögulegu notagildi tveggja smágripa sem fundust á Melgerðismelum. Þeir koma úr flugvél sem fórst á stríðsárunum (sjá Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa flugvélarinnar?). P-39 Airacobra orrustuvél bandaríska flughersins brotlenti á Melunum með þeim afleiðingum að flugmaður vélarinnar, John Kassos lét lífið.

Stuttu eftir að tilgátan fór í loftið bárust Grenndargralinu nýjar upplýsingar í málinu. Þær sýna svo ekki verður um villst hvaða hlutverki gripirnir tveir þjónuðu í hinu örlagaríka eftirlitsflugi John Kassos þann 25. ágúst 1942. Og það hefur ekkert með sjúkrakassa vélarinnar að gera eins og tilgátan fól í sér. Upplýsingarnar varpa jafnframt ljósi á hlutverk annarra torkennilegra smágripa frá brotlendingarstaðnum sem hingað til hefur ekki tekist að bera kennsl á. Þar til nú.

Allir gripirnir sem um ræðir, utan einn, eru hluti af fallhlífarbúnaði John Kassos. Líklega er um sætisfallhlíf að ræða (seat parachute) þar sem flugmaðurinn hefur setið á einhvers konar bala fyrir hlífina. Af einhverjum ástæðum hafa þessir smáhlutir sem nú eru að finnast 80 árum síðar orðið eftir þar sem vélin skall niður. Umræddir gripir eru sylgjur, krækja, smellur, kósar og keilulaga smáhlutur með gati sem samkvæmt heimildum Grenndargralsins er fyrir svokallaðan „Rip cord“ streng. Einn hlutur passar ekki inn í „fallhlífarmyndina“ en það er smágerð sylgja. Leiða má líkum að því að hún hafi verið hluti af hlífðargleraugum flugmannsins (WW2 Aviator Goggles) n.t.t. teygjunni sem fer utan um höfuð hans.

Grenndargralið hefur áður greint frá persónulegum smámunum sem fundust á sama stað og þeir sem fyrr eru nefndir svo sem smámyntum, greiðu og lyklum. Allir gripirnir, jafnt fallhlífarbúnaður sem persónulegar eigur, fundust þar sem flugstjórnarklefi vélarinnar hefur líkast til endað för sína eftir brotlendinguna. Allir á sama blettinum. Þar með hafa allir þeir gripir sem fundust „í flugstjórnarklefa“ John George Kassos verið greindir.

Stríðsminjar og dægurmenning

Hér að neðan má sjá gripi sem Varðveislumenn minjanna hafa fundið í heimabyggð og sambærilega gripi sem komið hafa fyrir í frægum bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

Masters of the Air (2024)

Catch-22 (2019)

The Pacific (2010)

Blackadder (1983-1989)

Went the Day well? (1942)

Hart´s War (2002)

The Hasty Heart (1949)

1917 (2019)

Saving Private Ryan (1998)

Masters of the Air (2024)

Dunkirk (1958)

The Longest Day (1962)

Flags of our Fathers (2006)

Band of Brothers (2001)

A Brigde Too Far (1977)

The Brigde on the River Kwai (1957)

The Thin Red Line (1998)

Battle of Britain (1969)

The Heroes of Telemark (1965)

Hacksaw Ridge (2016)

The Monuments Men (2014)

The Big Red One (1980)

Dad´s Army (2016)

Tobruk (2008)

Band of Brothers (2001)

Dunkirk (2017)

The Thin Red Line (1998)

Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa vélarinnar?

ATHUGIÐ. NÝJAR UPPLÝSINGAR HAFA KOMIÐ FRAM EFTIR AÐ EFTIRFARANDI FRÁSÖGN FÓR Í LOFIР SEM SÝNA MEÐ ÓYGGJANDI HÆTTI HVAÐA HLUTVERKI SMELLURNAR GEGNDU. ÞÆR HAFA EKKERT MEÐ SJÚKRAKASSA VÉLARINNAR AÐ GERA. UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ ER VÆNTANLEG.

Grenndargralið hefur fjallað töluvert um John G. Kassos, amerískan orrustuflugmann sem fórst í flugslysi á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1942 og rannsóknir Varðveislumanna minjanna á vettvangi slyssins. Fjöldinn allur af smáhlutum sem tilheyrðu flugmanninum unga og vélinni hans P-39 Airacobra fannst síðastliðið sumar á staðnum þar sem vélin brotlenti. Um suma munina leikur enginn vafi á hvaða hlutverki þeir þjónuðu. Aðrir eru sveipaðir meiri dulúð. Tveir smágerðir málmgripir, sömu gerðar, sem minna á einhvers konar smellur hafa valdið nokkrum heilabrotum.

Varðveislumenn sem hafa stundað athuganir á Melgerðismelum hafa klórað sig nokkuð í höfðinu yfir þessum tveimur litlu málmhlutum. Þeir fundust á sama stað og nokkrir persónulegir munir John Kassos og raunar hluti af flugstjórnarklefa vélarinnar. Ýmsar tilgátur hafa komið fram um eðli og gagnsemi þeirra. Eru þeir hluti af fatnaði flugmannsins? Eða kannski smellur af dúk til að hlífa stjórnbúnaði í flugstjórnarklefa vélarinnar? Hingað til hafa fáar sem engar vísbendingar komið fram sem segja af eða á um notagildið.

Nýjar upplýsingar gætu þó mögulega varpað ljósi á málið. Mynd sem sýnir stjórnklefa P-39 kom Varðveislumönnum á sporið. Myndin varð kveikjan að frekari leit að upplýsingum á netinu. Í kjölfarið hefur komið fram tilgáta um hvaða hlutverk gripirnir tveir höfðu í flugvélinni í hinu afdrifaríka eftirlitsflugi John George Kassos þann 25. ágúst 1942. Ef tilgátan stenst athuganir er hér um festingar að ræða til að festa sjúkrakassa flugvélarinnar á vísum stað, n.t.t. á vinstri hurð vélarinnar.

Margar útgáfur af P-39 voru framleiddar fyrir stríð og á stríðsárunum sem og vélar af gerðinni P-63 Kingcobra sem voru um margt líkar P-39. Breytingar urðu á hönnun og útliti vélanna á milli ára og því ekki á vísan að róa þegar kemur að því að bera saman ólíkar árgerðir. Hlutir úr P-39D-2 geta tekið breytingum frá eldri gerð P-39D-1 svo dæmi sé tekið. Eftir sem áður eru gripirnir tveir á myndinni hér að neðan og sambærilegir gripir á myndinni þar fyrir neðan sláandi líkir og því ekki svo fjarri lagi að velta upp þeirri hugmynd að þeir hafi verið hluti af sjúkrakassa vélarinnar (The First Aid Kit). Sjón er sögu ríkari.

Smágripirnir tveir sem fundust á brotlendingarstaðnum og um er rætt.

Þegar rýnt er í vinstri hurð vélarinnar á myndinni sjást fjórir hlutir standa út úr hliðinni sem líkjast smágripunum tveimur sem fundust á Melgerðismelum.

Tölvugerð mynd af flugstjórnarklefa P-39 Airacobra.

Mynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Skýringarmynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Hér er hægt að hlusta á tvo hlaðvarpsþætti um John Kassos og P-39 Airacobra.

Kopargripurinn verður varðveittur á Þjóðminjasafninu

Haustið 2021 sögðum við frá fundi kopargrips á Melgerðismelum í Eyjafirði. Frumrannsókn benti til að um handsmíðaðan eyrnaádrátt væri að ræða. Eftir vettvangsferð starfsmanns Minjastofnunar og Varðveislumanna minjanna á Melana þá um haustið var tekin ákvörðun um að senda gripinn til Reykjavíkur til að fá álit málsmetandi fólks á mögulegum aldri hans.  

Sérfræðingur í fornminjum á Þjóðminjasafninu hefur nú lokið athugun á gripnum. Í stuttu máli er niðurstaða hans sú að erfitt sé að aldursgreina grip sem þennan, fornfræðilegt samhengi hans geri greininguna erfiða þar sem um lausafund hafi verið að ræða. Því sé einungis við svokallaða gerðfræði að styðjast sem sé öflugt tæki til aldursgreiningar en þá frekar á hlutum sem sýna mikinn gerðfræðilegan breytileika yfir tíma. Látlausir hlutir sem breytast minna yfir tíma verði alltaf erfiðara að greina.

Í ljósi þess sem að ofan greinir er mat sérfræðingsins að rétt sé að láta gripinn á Melunum njóta vafans. Reikna skuli með að hann sé eldri en 100 ára og teljist hann því forngripur í lagalegum skilningi. Á þeim grundvelli óskar Þjóðminjasafnið eftir því að taka eyrnaádráttinn á Melgerðismelum inn í Safnið í samræmi við lög um menningarminjar.

Hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni finnst á Akureyri

Varðveislumenn minjanna fundu merkilegan grip nú á dögunum. Bandarískt hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni eða „Dog tag“ eins og gjarnan er talað um, leit dagsins ljós eftir 80 ára dvöl í jörðu á Akureyri. Óhætt er að segja að þessi fundur VM sé afar áhugaverður í ljósi þess að slíkir gripir finnast sjaldan hér á landi.

Hálsmerkið fannst á athafnasvæði bandaríska hernámsliðsins sem staðsett var rétt utan Akureyrar á stríðsárunum. Svæðið er innan bæjarmarkanna í dag. Eigandi hálsmerkisins var Harold G. Everett frá Massachusetts, fæddur árið 1919. Hann var skráður í bandaríska herinn í febrúar 1941 og dvaldist á Akureyri í hernámsárunum, óljóst hversu lengi. Hann starfaði við pípulagningar.

Meðal upplýsinga sem lesa má úr hálsmerki Harold G. Everett er númerið 31015175 sem hann bar sem óbreyttur dáti og að hann var í blóðflokki O. Harold var bólusettur fyrir stífkrampa og var mótmælandi (Protestant). Nánasti ættingi hans var Harold F. Powers til heimilist á 32 Forest Avenue í bænum Everett í Massachusetts.

Hægt er að fylgjast með verkefnum Varðveislumanna minjanna á fésbókarsíðu þeirra.

Glerárfoss fyrirmynd að atriði úr frægri kvikmynd

Í nýjasta hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Sagnalist með Adda og Binna ræða þeir félagar Arnar Birgir og Brynjar Karl um leikritaskáldið Jóhann Sigurjónsson og tengsl hans við Akureyri. Þekktasta leikverk skáldsins er án efa Fjalla-Eyvindur – leikrit í fjórum þáttum sem hann gaf út árið 1911. Leikritið vakti strax mikla athygli og var sett á fjalirnar víða um heim á næstu árum og áratugum. Nafn skáldsins var á allra vörum og stjarna Jóhanns skein skært. Ekki dró úr vinsældum þeirra Jóhanns, Fjalla-Eyvindar og Höllu nokkrum árum seinna þegar sænski leikstjórinn Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir leikritinu og lék sjálfur aðalhlutverkið. Kvikmyndin Berg-Ejvind och hans hustru er flokki tímamótaverka í kvikmyndasögunni.

Í þættinum Upp til fjalla um sumarbjarta nótt rekja Arnar og Brynjar hvernig  Jóhann háttaði undirbúningi sínum fyrir leikritaskrifin sumarið 1908 á meðan hann bjó hjá foreldrum sínum á Akureyri. Þeir félagar feta í fótspor skáldsins á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit þar sem hugmyndir kviknuðu hjá skáldinu sem svo áttu eftir að rata í leikritið um Fjalla-Eyvind og Höllu.

Eitt eftirminnilega atriði leikritsins er þegar Halla syngur Tótu, þriggja ára stúlkubarn þeirra skötuhjúa, í svefn. Um það leyti sem leitarflokkur nálgast útilegufólkið á hálendinu, kastar Halla barninu í foss frekar en að missa það í hendur yfirvalda. Ljóðið sem Halla syngur fyrir Tótu er hin kunna vögguvísa „Sofðu unga ástin mín.“ Atriðið í kvikmynd Sjöström er ekki síður eftirminnilegt þar sem finnska leikkonan Edith Erastoff er í hlutverki Höllu.

Á meðan Jóhann dvaldist á Akureyri sumarið 1908, fór hann reglulega í gönguferðir að á sem rann utan við bæinn. Þar kom hann auga á foss sem átti eftir að reynast örlagaríkur við leikritagerðina. Gönguferðir skáldsins að fossinum í Glerá þetta sumar urðu fjölmargar en tilgangur þeirra var öðru fremur að fá innblástur að fossaatriðinu í Fjalla-Eyvindi. Jóhann hafði fastmótaða hugmynd um hvernig atriðið ætti að líta út á sviði. Í því sambandi sá hann fyrir sér dæmigerðan íslenskan smáfoss eins og þann sem hann vitjaði reglulega í Glerá.

Glerárfoss er þannig fyrirmynd að frægu fossatriði í sígildu leikriti og kvikmynd sem fóru sigurför um heiminn á fyrri hluta 20. aldar.

Hægt er að hlusta á þáttinn – Upp til fjalla um sumarbjarta nótt – á Spotify-síðu Sagnalistar með því að smella á slóðina hér að neðan.

https://open.spotify.com/episode/4lvPBoLyDuUQTOzweyJdDz?si=0e9206155e9040b7

Til hamingju með daginn Gunnlaugur

Kjarni var eitt sinn konungsjörð. Upp úr aldamótunum 1800 flutti Gunnlaugur Briem heim til Íslands frá Kaupmannahöfn eftir að hafa stundað nám í höggmyndalist með vini sínum Bertel Thorvaldsen. Sýslumaðurinn flutti í Kjarna árið 1807 ásamt Valgerði eiginkonu sinni og barnahópi sem stækkaði ört á þessum árum. Hjónin bjuggu þar til ársins 1815 þegar þau fluttu að Grund í Eyjafirði.

Á þessu átta ára tímabili sem heiðurshjónin bjuggu í Kjarna, gerðu þau bæjarstæðið í Kjarna prýðilegt, stækkuðu bæinn og fegruðu nánasta umhverfi. Kjarni varð stórbýli í tíð Gunnlaugs og Valgerðar og margar eftirminnilegar persónur urðu á vegi þeirra hjóna á þeim tíma; landmælingamennirnir Frisak og Scheel, Biblíumaðurinn Ebenezer Henderson og hundadagakonungurinn Jörundur.

Í dag er fátt sem minnir á dvöl Gunnlaugs Briem, Valgerðar og barnanna þegar gengið er um á útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi. Ritaðar heimildir gefa þó von um að einhver ummerki um veru þeirra þar leynist enn á milli trjánna eða við lækjarsprænur. Hvar skyldi myllan hafa staðið sem Henderson minnist á í ferðabók sinni? Kannski lék Ólafur litli Briem sér við mylluna, sá er síðar varð timburmeistari. Hvar er vatnslindin sem talin var hafa lækningamátt? Drakk Jóhanna fagra úr lindinni sem barn – lindinni sem heimilisfólk í Kjarna vissi um fram á 20. öldina þegar hún hvarf skyndilega! Svo er það steinninn á bæjarstæðinu, svokallaður hestasteinn, sem gestir í Kjarna notuðu til að binda hesta sína við á meðan þeir ræddu við sýslumannshjónin og nutu veitinga. Hvað varð um hann?

Áhugasöm um sögu Gunnlaugs Briem fagna 250 ára fæðingarafmæli hans um þessar mundir. Gunnlaugur fæddist 13. janúar árið 1773. Hann lést árið 1834.

Fyrir þá sem vilja kynna sér sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar og barnanna má benda á hlaðvarpsþætti Grenndargralsins Leitin að Grundargralinu.

Gátan um Akureyrarmeyna í faðmi forsetans er leyst

Grenndargralið hefur síðustu daga reynt að komast að því hver unga stúlkan á myndinni til vinstri er. Myndin birtist í Morgunblaðinu 16. júlí 1981 en frú Vigdís Finnbogadóttir var þá að ljúka nokkurra daga ferðalagi um Norðurland. Sverrir Pálsson fjallaði um heimsókn Vigdísar til Akureyrar í blaðinu. Myndin fylgdi með umfjöllun hans ásamt nokkrum til viðbótar en ekki kemur fram hver myndasmiðurinn er. Í myndatexta segir: „Lítil Akureyrarmær í faðmi forsetans“.

Akureyri er lítill bær og ekki svo langt um liðið. Ætti því ekki að reynast flókið að leysa gátuna. Annað kom á daginn. Málið komst ekki á hreyfingu fyrr en ábending barst frá Ástríði Magnúsdóttur þess efnis að stúlkan sem um ræðir væri að öllum líkindum Hildur Katrín Rafnsdóttir. Í samtali við Grenndargralið staðfesti Hildur að myndin væri af henni og að myndin hefði verið tekin á Ólafsfirði þegar Vigdís kom þar við á fyrrnefndu ferðalagi sínu norðan heiða. Hildur bjó á Ólafsfirði á þeim tíma ásamt foreldrum og systrum. Grenndargralið fékk leyfi Hildar til að birta myndina til hægri en hún er tekin við sama tækifæri eins og glöggir lesendur sjá. Myndirnar tók Svavar Berg Magnússon.

„Foreldrar mínir voru ráðsfólk Vigdísar þegar hún var leikhússtjóri og var mitt fyrsta heimili Aragata 2. Frá því hefur hún alltaf verið auka mamma mín og hjartahlýtt samband okkar á milli. Við göntumst með það og segjum að hún sé „akademíska“ mamma mín…enda kom hún mér í gegnum frönskuna á sínum tíma“ segir Hildur í samtali við Grenndargralið.

Þá er einni ráðgátunni færra að leysa. Nú vitum við hver unga stúlkan í fanginu á Vigdísi er og við vitum einnig að myndin er hvorki tekin á Akureyri né er myndefnið Akureyrarmær í faðmi forsetans. Myndin er tekin af Ólafsfjarðarmey á Ólafsfirði.

Ferðalög forseta íslenska lýðveldisins til Akureyrar eru umfjöllunarefni í tveimur hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna.