main image

Af hverju ekki?

Af hverju opnum við ekki  vaxmyndasafn á Dalvík með þekktum heimamönnum? Svona nokkurs konar Madame Tussauds. Enn eitt safnið? Er þetta ekki komið gott? Nú þegar eru um 100 söfn á Íslandi og þau eru vægast sagt ólík eins og þau eru mörg!  Sum endurspegla sögu og menningu heimabyggðar. Sjáið bara Síldarminjasafnið á Siglufirði. Þar er merkilegum kafla í sögu Siglufjarðar gert hátt undir höfði. Fáskrúðsfjörður. Safn um veru franskra skútusjómanna á Íslandi. Reykjavík. Hið íslenzka reðasafn. Já, eða allavega þá eru mörg athyglisverð söfn þarna úti. Myndi vaxmyndasafn á Dalvík ekki sóma sér vel innan um flott söfn eins og Fuglasafnið í Mývatnssveit, Fiskasafnið í Vestmannaeyjum og svo aftur önnur söfn sem eru hvorki fugl né fiskur? Ég meina, Dalvíkurbyggð telur ekki nema u.þ.b. 2000 manns en samt „framleiða“ Dalvíkingar ógrynni af frægðarfólki. Hægt væri að skipta safninu í tvo hluta; frægir Dalvíkingar (Svarfdælingar) – lífs eða liðnir. Meðal lifenda mætti svo skipta niður í hópa eftir því fyrir hvað viðkomandi er þekktur. Fjölmennasti flokkurinn yrði sennilega flokkur listamanna: Eyþór Ingi, Hjálmar Hjálmarsson, Matti Matt, Friðrik Ómar, Þórarinn Eldjárn o.fl. Í hópi íþróttamanna má nefna skíðakappana Björgvin Björvinsson og Daníel Hilmarsson og svo auðvitað fótboltamennina Heiðar Helguson og Sigurbjörn Hreiðarsson. Ekki eru nú minni nöfn hjá þeim sem farnir eru yfir móðuna miklu: Freymóður Jóhannsson, Jóhann risi, Kristján Eldjárn og þeir Ljótólfur goði og Þorsteinn svörfuður söguhetjur úr Svarfdælu. Já það er með eindæmum hvernig svona lítið samfélag fer að því að gefa af sér svona mikið af þekktu og vinsælu fólki. Dalvíkingar eiga líka mikið af duglegum og skapandi einstaklingum sem þora að láta drauma sína rætast. Með hóp af slíku fólki og Júlíus fiskikóng þar fremstan í flokki er allt hægt. Logi Bergmann yrði án efa til í að beita sínum áhrifum í fjölmiðlaheiminum við að koma hinu nýja og glæsilega safni á framfæri. Spurning reyndar hvað jafnréttissinnar segja við hugmyndinni. Hér hallar nokkuð á hlut kvenna og það er eitthvað sem gera þyrfti úrbætur á. Mikill styrkur yrði fólginn í því fyrir Júlíus að fá duglegan kvenskörung með sér í hugstormun og til að leiða vinnuna. Hvað með Svanhildi Hólm? Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Af hverju ekki?

Af hverju bjóðum við ekki upp á kaffihús á Akureyri þar sem nemendur koma saman til að læra? Akureyri er örugglega einn flottasti skólabær landsins. Öll lífsins gæði og allt það. Við höfum ekki enn rekist á þann leikskóla í bænum sem ekki hefur öfluga skólastefnu, grunnskóla sem er ekki með a.m.k. eitt skólaþróunarverkefni í gangi og í framhaldsskólanum er deigla sem við heyrum alltof lítið af. Við getum stutt við skólabraginn í bænum okkar á margvíslegan hátt. Hugmyndin er sú að búa til miðpunkt. Við vitum að sumir framhaldsskólanemar sjá hag sinn í að læra á kaffihúsi. Flestum grunnskólanemum finnst notalegast að læra við eldhúsborðið. Háskólanemum finnst ómissandi að fá kaffisopann sinn á löngum dögum. Þarna er óplægður akur. Mannauðshaf. Af hverju ekki lexíukaffihús á Akureyri? Staður þar sem nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla koma saman til að læra. Á staðnum yrði góð kaffivél og lítill djúsbar. Vinalegt starfsfólk og gestir skapa í sameiningu stemningu fyrir námi, hópavinnu, aukatímum og eflingu. Eldri nemendur aðstoða yngri nemendur. Nemendur sækja aukatíma til háskólanema. Stór auglýsingatafla með alls konar hagnýtum upplýsingum fyrir leitandi námsmenn. Vettvangur fyrir unga tónlistarmenn til að buska svolítið. Ljóðskáld framtíðarinnar troða upp. Örfyrirlestrar um allt milli himins og jarðar. Frítt net en lokað á niðurhal. Opið frá 11 til 20 alla virka daga. Rauði krossinn hefur boðið upp á heimanámsaðstoð fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu með dyggri aðstoð sjálfboðaliða. Sú góða hugmynd er hér færð nokkuð í stílinn. Hugsunin er sú sama. Að hjálpa hvert öðru að styðja við skólabæinn Akureyri á skemmtilegan og lifandi hátt. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Af hverju ekki?

Af hverju bjóðum við ekki listhneigðum Eyfirðingum, sem eiga af einhverjum ástæðum erfitt með að koma sér á framfæri, að troða upp endurgjaldslaust í Hofi? Er ekki Hof hús okkar allra óháð kynþætti, kynferði, trúarbrögðum (og aðgengi að fjármagni)? Skiljanlega verða peningar að ráða för í þessum rekstri eins og öðrum en er ekki hægt að búa þannig um hnútana að allir sitji við sama borð, ja svona eins og eitt kvöld í mánuði? Skapa aðstæður fyrir óuppgötvaðar eyfirskar stjörnur með ótvíræða listhæfileika sem hafa ekki yfir miklu kapítali að ráða, tilheyra ekki ákveðnum hópum innan listasamfélagsins og öðlast fá tækifæri til að freista gæfunnar á stóra sviðinu? Hver veit nema í einhverjum bílskúrnum á Brekkunni leynist önnur Of Monsters And Men? Já eða annar Ásgeir Trausti í lítilli þakíbúð í Þorpinu? Við eigum að nota hið mikla Hof okkar á sem fjölbreyttastan hátt og í þágu eins margra og mögulegt er. Bygging þess var umdeild á sínum tíma. Almenningur (sem á húsið) þarf að finna að hann eigi hlutdeild í því. Kannski gerir hann það. Kannski ekki. Í það minnsta getum við stuðlað að slíkri hlutdeild með ýmsum hætti. Opnum Hofið meira fyrir þá sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða en þeim mun meira af hlutum eins og tónlist, leiklist, myndlist og ljóðalestri. Þetta tvennt, þ.e. list og peningar, geta sjálfsagt farið ágætlega saman en eigum við ekki að nota tækin og tólin sem við búum yfir og styðja „týnda“ hæfileikafólkið okkar?  Við sláum tvær flugur í einu höggi. Við bjóðum líka þeim sem vilja koma í Hof til að njóta að gera það án endurgjalds. Viðleitni í þá átt er vissulega til staðar nú þegar. Má þar t.d. nefna Gesti út um allt með Margréti Blöndal og Felix Bergssyni þar sem gestum og gangandi er boðið að njóta dagskrárinnar án þess að greiða fyrir. Hugmyndin um greiðara aðgengi lítt þekktra listamanna úr heimabyggð er hugsuð sem viðbót við það sem þegar er í boði. Frír fimmtudagur, Stjörnuleit í heimabyggð eða einfaldlega Opið hús í Hofi. Minni peningar, meiri list. Hverjir eiga svo að nýta sér tækifærið og troða upp fyrsta fimmtudag í mánuði?  Áhugaleikfélög í heimabyggð sem og leikklúbbar framhalds- og grunnskólanna. Bílskúrsbönd, söngvarar og aðrir tónlistarmenn. Upprennandi myndlistarmenn, rithöfundar og ljóðskáld. Fleiri má nefna en látum hér staðar numið. Peningalega arðbær viðskiptahugmynd á krepputímum? Kannski ekki.  Menningarlegur ávinningur er í boði ef hann er einhvers virði. Þess virði að láta á þetta reyna? Af hverju ekki?

Af hverju ekki?

Af hverju komum við ekki Akureyri á kortið með hjálp Jóns Sveinssonar? Áttar yngri kynslóðin sig á því  hvað Nonni var frægur í Evrópu og víðar á fyrri hluta 20. aldar? Kannski er eldri kynslóðin farin að gleyma. Hefur Arnaldur Indriðason ekki selt yfir sex milljónir eintaka og bækur hans verið þýddar á tugi tungumála? Bækur Nonna hafa verið gefnar út í milljónum eintaka og verið þýddar á yfir 30 tungumál. Við erum allavega ekkert að bera saman epli og appelsínur. Í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta bókin hans Nonna (Nonni) kom út í Þýskalandi. Það er fullt af öldnum Þjóðverjum sem elska Nonna. Hey, hér er hugmynd. Við heiðrum minningu Nonna og bjóðum upp á pílagrímsför á norðurhjara veraldar. Auglýsum grimmt erlendis. Yfirskriftin: Riðið um heimahaga Nonna (þýsk þýðing óskast). Markhópurinn: Þýskir aðdáendur á eftirlaunum og aðrir áhugasamir. Svona förum við að: Við keyrum ferðamennina frá Akureyri að Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem förin hefst. Þar tekur Nonni sjálfur á móti þeim ásamt öðrum meðlimum fjölskyldunnar. Sveinn og Sigríður bjóða upp á hressingu að hætti hússins auk þess sem ferðamennirnir fá klæðnað við hæfi, íslenska ullarpeysu, sokka og annað í þeim dúr (séra Hannes Blandon yrði flottur sem Sveinn Þórarinsson með alla sína leikreynslu og þýskukunnáttu). Því næst stíga allir á bak, þýskir ferðalangar og heimilisfólk  á bænum og ríða til Akureyrar þar sem vegleg akureyrsk garðveisla í anda 19. aldar bíður þreyttra ferðalanganna við Nonnahús. Ekki verður það til að draga úr áhuga Þjóðverjanna þegar þeir átta sig á  að pakkinn sameinar Nonna og íslenska hestinn og tækifæri til að sjá og upplifa hvoru tveggja á vettvangi. Þegar þarna er komið sögu deyr Sveinn. Eftir hressilegt „garden party“ gengur svo Nonni með hópinn upp höfðann ofan við Nonnahús og inn í kirkjugarðinn þar sem Nonni fer að leiði föður síns. Þaðan leiðir hann hópinn að steininum fræga þar sem hann horfir yfir Pollinn og hugsar um útlönd og fyrirhugaðan aðskilnað frá móður sinni. Að lokum fer hópurinn niður að höfn þar sem árabátur bíður þess að flytja Nonna um borð í skip sem flytur hann í burtu frá heimahögunum. Sigríður horfir á eftir syninum í hinsta sinn. Upplifun ferðalanganna er lokið. Eftir stendur virðingarvottur við Nonna og fjölskyldu hans, krydd í tilveruna og fullt af gjaldeyri. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Af hverju ekki?

Af hverju er ekki þriðja kvikmyndahúsið á Akureyri? Eins og tvö sé ekki nóg. Jú kannski þar sem nýjustu myndirnar eru sýndar. En hvað með að grafa upp gamlar gersemar úr kvikmyndaheiminum? Sko…sumt af því sem er gamalt er ekki kúl, inni, vinsælt o.s.frv. Til dæmis gamlar borðtölvur með floppy-drifi. Þær eru ekki líklegar til að slá í gegn á markaðnum ef einhverjum skyldi detta í hug að koma þeim aftur í sölu. Annað heldur sínu striki þrátt fyrir ellikerlingu. Dæmi um þetta eru klassískar bíómyndir. Myndir sem hreyfa við fólki kynslóð eftir kynslóð. Myndir sem vekja upp hlýjar minningar frá bernskuárum eða úr tilhugalífinu og kveikja jafnvel í gömlum glæðum. Vissulega er margt gott í boði í bíóhúsunum en það er líka margt ekki eins gott. Fólk sem komið er af léttasta skeiði ákveður ekkert sisvona að drífa sig í bíó án þess að vita hvað er á boðstólnum. Við verðum kröfuharðari eftir því sem árin líða og við erum einfaldlega ekki „að kaupa“ fólk eins og Miley Cyrus og Chris Brown (step up o.fl.). Með fullri virðingu og allt það. Er ekki markaður fyrir lítið og notalegt kvikmyndahús í bænum þar sem stemningin er heimilisleg, myndirnar gamlar og miðaverðið kannski eftir því. Íburðurinn þarf ekki að vera í hámarki þegar manni langar bara að setjast niður í rólegheitum með popp og Coke og gleyma sér með Tom Cruise og Kelly McGillis í háloftunum. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?