main image

Æskuslóðirnar mínar

 

Niður í eyrar – út í hólma.  Minningabrot

Ég er fæddur og uppalinn frammi í firði – eins og við Eyfirðingar segjum, um það bil í miðri byggðinni, þar sem kallað er Grundarpláss. Austan árinnar, þar sem ég átti heima er ekki mikið flatlendi, það er allt Grundarmegin, Grundarnesið sjálft.  Að austanverðu var þó hólminn, u.þ.b. 6-7 hektara spilda þegar best lét, en Eyjafjarðaráin braut jafnt og þétt af honum.

            Dálítil kvísl úr Eyjafjarðaránni myndaði þennan hólma og eyrar talsvert miklar sunnan við hann. Kvíslin var stundum nokkur farartálmi, oftast mátti þó komast yfir hana með því að vaða og nógu smávaxinn kúasmali stalst stundum til að klifra á bak síðustu kúnni þegar kýrnar voru sóttar niður í eyrar. Í kvíslinni voru dálitlir hyljir á tveim stöðum. Á allra heitustu sumardögum var hægt að baða sig í hyljunum, einkum þeim norðari þar sem vatnið hafði hlýnað heldur meir á leið sinni eftir kvíslinni. Samt var betra að busla í Sílapollinum sem var sunnar á nesinu, þar var líka hægt að veiða hornsíli, kvótalaust. Rétt hjá var Síkið, oft hlýtt og hálffullt af fergini – en bæði við systkinin og kýrnar vissum að það var botnlaust og því fékk ferginið að vaxa í friði fyrir baðgestum og gráðugum nautgripum.

            Á þessum slóðum var mikið af fuglum og daglegt brauð að finna hreiður. Þarna verptu lóa og spói, stelkur og hrossagaukur, grænhöfði og rauðhöfðiog grátittlingur uppi í brekkunum. Á eyrunum var sandlóan sem kveinkaði sér svo mikið ef komið var nærri hreiðrinu. Í hólmanum og þó meir í Kríuhólmanum, sem var norðurendi stóra hólmans, var gæsavarp og þar var líka krían. Það var í senn spennandi og hættulegt að fara um kríuvarpið en gaman að sjá stóru gæsareggin.

            Hólminn var oftast nær sleginn eftir túnaslátt, þótt hann væri svo sem eitt af túnunum. Það var lengi gert að slá alla þessa hektara með gamla W4, Ferguson eða álíka vél og ekki var til að flýta fyrir að margar spóafjölskyldur voru gjarna að þvælast með unga sína í óslægjunni. Talsvert var á sig leggjandi til að forða þeim öllum frá ljánum en spóar eru erfiðir í smölun og rekstri, það veit ég af reynslu.

            Að sama skapi var tímafrekt að þurrka og taka saman, þarna var mikil spretta og völlurinn stór. En það var samt ævinlega gaman. Þegar komið var fram á síðsumarið voru oftast góðir þurrkar – eins og reyndar oftast í Grundarplássinu – og hvað er skemmtilegra en heyskapur á flötu túni í góðu veðri?

            Þótt ekki væri engjavegurinn langur, líklega innan við 2 km, var lengi siður að færa engjakaffi í hólmann, því fylgdi sérstakur hátíðarbragur. Það gat líka verið ljómandi tilbreyting að spenna hest frá rakstrarvél og fara á honum yfir kvíslina, suður allt nesið og upp gamla bæjarhólinn til að sækja kaffið og allt sem því fylgdi. Aðeins þurfti að varast eitt á þessu slóðum, það var áin sem oft var holbekkt því hún sló sér frá Grundarnesinu norðaustur og gróf sífellt úr hólmabakkanum. Reyndar minnist ég þess að hafa séð hálfslegnar torfur sem höfðu fallið í ána milli sláttar og hirðingar, þetta minnti á að engu var að treysta.

            Þessi á sýnist vera heldur meinleysisleg en oft varð hún býsna hrikaleg í vorleysingum. Í Grundarplássinu fellur hún frá austurlandinu vestur að Grundarnesinu og síðan frá því austur að Bringuhólma og Stórhamarshólma og loks norðan við hinn síðarnefnda alveg upp undir bæina á Stóra-Hamri áður en hún tekur aftur strikið til vesturs langa leið undir brekkurnar vestan ár. Þessir sífelldu krókar töfðu mikið fyrir jakaburði þegar áin var að hreinsa sig á vorin og stundum mynduðust gríðarmiklar jakastíflur í henni. Þá gat svo farið að hún flæddi upp á eyrarnar og hólmana með öllum þeim leirburði sem vorleysingum fylgja. Þá var stundum talsvert ryk í heyinu og jafnvel stóð mökkurinn upp af snúningsvélinni.

            En oftast var áin kyrrlát, átti að vísu nokkrar raddir, einkum á kvöldin, Suður af eyrunum var dálítið brot og þar mátti heyra niðinn – misjafnan eftir veðri og vindum. Þarna á brotinu var einatt silungur á ferðinni, allt upp í 6 punda sjóbirting. Slíkan fisk er ótrúlega gaman að draga á land og fátt smakkast betur. Ofan við brotið var hylur í ánni, afskaplega veiðilegur, en þar held ég hafi verið hvíldarheimili fiskanna – ef þeir voru þá nokkurn tíma þar. Áin er meiri en svo að menn geri sér að leik að vaða hana enda var sjaldan farið milli bæja austan og vestan ár. Þó átti Bringa kirkjusókn að Grund fyrr á árum en þangað var aldrei farið – nema þegar fermt var í eitt skipti.

            Þegar ég var lítill var ég frekar hræddur við ána, einkum bakkana, enda þótti mér nógu hræðilegt að detta í kvíslina þótt ekki væri meira vatnsfall. Samt var þetta svæði að mörgu leyti lokkandi, kílarnir og pollarnir í Nesinu, hólminn með öllum sínum fuglum. Eftir vöxt í ánni var líka hægt að fara í rannsóknarleiðangra og finna ýmislegt dót sem áin hafði borið upp á eyrarnar. Stundum hafði landslagið líka breyst í vatnavöxtunum, þannig var hver ferð ný á sinn hátt og landið ókunnugt að einhverju leyti en alltaf uppspretta ævintýra og gleði.

                                                                                              Valdimar Gunnarsson frá Bringu

 

Æskuslóðirnar mínar

 

Í Hrísey

Ég ólst upp í Hrísey á sjöunda og áttunda áratugnum. Það var að sönnu ævintýralegt – eins og ég býst við að umhverfi flestra barna á flestum tímum sé. Uppeldisárin mörkuðust töluvert af sérstöðu eyjasamfélagsins; nokkurri einangrun og fremur einhæfum starfsháttum heimamanna. Líf barnanna var þó aldrei einhæft, þar ríkti sjálfræði og frelsi. Leikvöllurinn var stór og margt við að vera: Landaparís niðri á Sandi, draugagangur undir Plani, feluleikur í risastórri og yfirgefinni Síldarverksmiðjunni. Það var skottast í eggjatöku upp á ey, krækiber seld í bréfpokum á tröppum Gamla hússins, kanínu- og dúfnakofar byggðir og sullast um á gonnum í höfninni. Sundlaugin var opin á sumrin og þá var farið í skyldusund að morgni, leiksund síðdegis og sundæfingu eftir kvöldmat. Á veturna var yfirleitt snjóþungt og börnin byggðu margra herbergja snjóhús og lýstu upp hvern kima með logandi kertum. Skemmtilegast var að stökkva ofan af húsum í snjóskaflana. Öll hlökkuðum við líka til þess að slá köttinn úr tunnunni á Öskudaginn („kötturinn“ var nú reyndar hrafn eða jafnvel múkki). Allir komu saman vestan við frystihús í heimagerðum búningum og hengdu öskupoka aftan á þá sem ekki uggðu að sér.  Loks gengu skólabörnin öll saman í hvert einasta hús í eynni og sungu „Nú er frost á fróni“ og fleiri napra vetrarsöngva. Í ferð með var baukur sem áheyrendur lögðu smápeninga í til söfnunar fyrir skólaferðalag vorsins. Í lok sönggöngunnar fengu börnin lítinn poka af gotti hjá Ottó í búðinni. Þar lágu dísætar grænar Freyju-karamellur, perubrjóstsykur, súkkulaðivindlar, möndlur og krembrauð. Kannski Lindubuff eða Rjómatoffí. Namm.

Svo var það Barnaskólinn. Þar fengu börnin að kynnast nýjum, skrítnum kennurum á hverju skólaári. Þeir héldust aldrei lengi við í starfinu – þetta voru oft ungmenni með ævintýraþrá, í mesta lagi nýskriðin úr menntaskóla, nú eða undarlegir kvistir sem fengu hvergi annars staðar vinnu. Sennilega hefur ekki þótt fýsilegt að eyða vetrum á svona stað, í fámenni og jafnvel rafmagnsleysi svo dögum skipti. Sæstrengurinn átti til að fara í sundur í vetrarveðrum. Fyrir börnin var það nú bara spennandi tími. Í ljósleysinu var ýmislegt brasað. Ég átti forláta lukt (vasaljós) sem gagnaðist mér ágætlega  við bóklestur í myrkrinu. Þannig las ég Mein Kampf eftir sjálfan Adolf Hitler. Nei, nei, ég var ekkert lítill nasisti enda fannst mér bókin atarna alveg þrautleiðinleg. Málið var að Lestrarfélag Hríseyjar var til húsa í litla skólanum okkar og þar var hægt að skoða bækur á hverjum degi. Satt best að segja var ég bara búin að lesa allar barnabækurnar í safninu (Enid Blyton-bækurnar ótal sinnum) og þá tóku fullorðinsbókahillurnar við. 

En aftur að kennurum (kennarar hafa svo gaman af skólasögum). Ekki voru allir lærifeðurnir undarlegir aðkomumenn. Og þó, kannski þegar vel er að gáð. Sá allra skemmtilegasti var einmitt presturinn, séra Kári Valsson. Hann kom upprunalega frá Tékkóslóvakíu og átti ótrúlega sögu að baki þegar hann hóf prestsstörf í Hrísey, t.d. úr fangabúðum í seinni heimsstyrjöldinni. Kári vildi endilega að bráðung einkadóttirin lærði dönsku löngu áður en að því kom í skólanum en hún var nú ekki ýkja hrifin af þeirri hugmynd. Hann sannfærði því jafnaldrana um að takast á við verkefnið með henni. Kári hafði framúrstefnulegar aðferðir við dönskukennsluna. Löngu síðar fór ég í máladeild í menntaskóla og lagði stund á ein fimm tungumál en ekkert í þeim skóla líktist aðferðum Kára. Hann hefur kannski komist í skrif snillingsins Dewey þó sá merki kennimaður yrði ekki vinsæll meðal Íslendinga fyrr en áratugum síðar. Málið var að hann kenndi í verki og gegnum leik. Við börnin fengum að leika með orðin, þreifa og bragða á tungumálinu; bókstaflega! Eftirminnilegastir eru tímarnir þegar við lærðum orðaforðann um mat því þá fengum við að smakka ýmislegt framandi – Kári borðaði fífla og hvítlauk sem þá þótti stórfurðulegt – við supum á límonaði úr gostappa sem gekk á milli og sögðum flissandi til skiptis „limonade“. Við lærðum hvað „spøgelse“ þýddi þegar hann sveif um og baulaði draugalega undir hvítu laki. Einu sinni dró hann upp gömlu gleraugun sín til kenna okkur orðatiltækið „gå i stykker“. Án þess að orðlengja það frekar fleygði hann „brillerne“ í gólfið og stappaði kröftuglega ofan á þeim! Mest hlógum við þó þegar presturinn mætti með risastórar blúndunærbuxur af eiginkonunni og kenndi okkur að segja „trusser“. Það var mér nánast um megn. Orðið var eiginlega of líkt orði sem var harðbannað að láta sér um munn fara. Við lyppuðumst bara niður í hláturkasti.  Kári var samt glaðastur allra og greinilega hefur kennslufræðin hans virkað því orðin man ég enn.

Árný Helga Reynisdóttir

Æskuslóðirnar mínar

Ég var staddur í ljóðagöngu í Kristnesskógi fyrir nokkrum árum og spurður hvort mér hefði ekki fundist yndislegt að alast upp við Kristnes. Ég gat ekki svarað spurningunni enda hafði ég ekki leitt hugann að þessu. Ég ólst náttúrulega bara upp þarna og veit ekki hvort þetta eru yndislegri æskuslóðir en aðrar. Eru ekki allar æskuslóðir þær bestu svo framarlega sem æskuárin hafi verið það líka? Þar fyrir utan getur maður að takmörkuðu leyti borið æskustöðvar sínar saman við æskustöðvar annarra. Þær bara eru einhvern veginn þarna: æskustöðvarnar, þangað til þær hætta að vera manns eigin æskustöðvar.

Þegar ég fékk þessa spurningu voru æskustöðvarnar reyndar nær mér í tíma og rúmi en þessa dagana. Ég bjó á Akureyri og gat keyrt á 10 mínútum að Kristnesi. Þar fyrir utan fannst mér svo stutt síðan ég bjó þar og ólst þar upp, að ég átti ekki til vott af nostalgíu til að mála þá mynd af svæðinu að það væri yndislegra en eitthvað annað sem ég hafði kynnst eða mun kynnast. En málin horfa að nokkru leyti öðruvísi við.

Þetta er nefnilega nokkuð sérstakur staður, Kristnes við Eyjafjörð. Kristnes er vissulega landnámsjörð Helga Magra en þar fyrir utan er nafn staðarins í hugum margra órofa tengt nafni Kristnesshælis og Kristnessskógar. Þetta er kyrrlátur rólegheitastaður og þar gerast sjaldan tíðindi. Það eftirminnilegasta, sögulega séð, er væntanlega að þar sigruðust menn hægt og bítandi á Hvíta dauðanum, berklum – auk þess sem Vigdís Finnbogadóttir kom þar í opinbera heimsókn á níunda áratugnum.

Kristnesþorp samanstendur af allnokkrum húsum, bæði einbýlis- og fjölbýlishúsum. Þegar ég ólst þar upp bjó þar fjöldi fólks en þegar ég flutti þaðan stóðu þar fyrst og fremst tóm hús. Kristneshæli var enda lagt niður á uppvaxtarárum mínum og sameinað Fjórðungssjúkrahúsi Akureyri. Fyrir vikið var viðbygging hælisins, sem m.a. hýsir sundlaug og heitan pott í dag, lengi vel draugabygging. Þar voru nokkrar hæðir af nöktum óunnum steinsteypuveggjum og staflar af steinull sem ekki var notuð.

Skógurinn var ræktaður af vistmönnum hælisins í áföngum. Hann var frá stofnun hælisins 1927 hugsaður til að efla heilsu berklasjúklinga og annarra sem þar hafa dvalist. Á árunum 1994-1999 voru þar lagðir nokkrir göngustígar sem gaman er að fara um nú til dags, en á uppvaxtarárum mínum var í minningunni aðeins ein leið inn í skóginn. Þannig hefur nærumhverfi Kristneshælisins, þorpið og skógurinn, breyst talsvert á undanförnum áratugum.

En þó ég nefni Kristnes sem æskuslóðir mínar í þessari grein, þá er þar með ekki nema hálfur sannleikurinn sagður. Staðreyndin er flóknari en svo. Ég ólst nefnilega upp í húsinu Reykhúsum I eða Syðri-Reykhúsum í Eyjafirði, en húsið stendur á jörð Reykhúsa. Kristnes og Reykhús eru aðliggjandi jarðir.

Á bænum Kristnesi ólst móðir mín, Rósa Sigríður Aðalsteinsdóttir, upp. Á bænum Reykhúsum dvaldist faðir minn, Brynjólfur Ingvarsson, mörg sumur á uppvaxtarárum sínum, en annars ólst hann upp í Reykjavík. En það er ekki nóg með að foreldrar mínir hafi verið nágrannar á sumrin og alist upp saman að vissu leyti. Báðar ömmur mínar, Sigríður Hallgrímsdóttir og Aðalbjörg Stefánsdóttir, voru líka nágrannar og leiksystur. Þær deildu líka þeirri reynslu að eignast báðar fjögur börn, þar af þrjá stráka hvor og eina dóttur hvor. Enn fremur átti föðuramma mín þrjá bræður og af þeim eignaðist einungis einn afkvæmi. Móðuramma mín átti þrjár systur og af þeim eignaðist einungis ein afkvæmi. Bróðir pabba tók við búinu og varð bóndi í Reykhúsum, bróðir mömmu tók við búinu og varð bóndi í Kristnesi. Það er því margt sameiginlegt í sögum þessara tveggja fjölskylda sem voru og eru nágrannar. Foreldrar mínir bundu þær svo endanlega saman 17. júní 1966 þegar þau giftu sig, sex mánuðum áður en elsti bróðir minn, Ingvar Guðni, fæddist.

Eftir að þau tóku saman og eignuðust börn reistu þau hús í Reykhúsum, stundum nefnt Reykhús I og stundum nefnt Syðri-Reykhús. Fyrir utan mig áttu þau fjóra stráka, semsagt alls fimm stráka. Þeir eru allir miklu eldri en ég, það munar 10 árum á mér og yngsta bróður mínum Brynjólfi. Ég tók því við öllu dótinu þeirra og ógrynni sagna af krökkunum úr þorpinu. Fékk í arf margar sögur af leikjum þeirra og frændfólki af næstu Reykhúsabæjum eða Kristnesbænum. Allt svæðið var sagnaþorpið þeirra og undirlagt fortíðinni. Pleimóland, strumpaland, limmóland og tröllaland voru örnefni fyrir einstaka leiki þessa hóps. Ég rétt náði að upplifa kvöldleikina, þ.e. þegar krakkar fóru í leiki í þorpinu: eina krónu og tvítví. Þetta var algengt á árunum 1985-1990. Svo dó það út með vídeói, sjónvarpi og tölvuleikjum, held ég.

En leikirnir eru mér ekki minnisstæðastir af uppvaxtarárunum. Ekki heldur þegar ég var bitinn í hendina af mús í Reykhúsafjósinu og þurfti að fara í stífkrampasprautu. Og ekki þegar ég skar mig á löppinni í indjánaleik með því að stíga ofan á fiskabúrið hans Jonna bróður og þurfti að fara á spítalann í aðra sprautu. Eða þegar ég hljóp svo hratt niður brekkuna við Reykhúsafjósið að ég gat ekki stoppað mig og endaði í fjóshaugnum, fastur upp að hné í mykju þar til bróðir minn togaði upp úr sjálfheldunni.

Mér er af einhverjum ástæðum minnisstæðast þegar krakkarnir á næstu bæjum veiddu hornsíli í Eyjafjarðará með krukkum og litlum netum í kringum 1990-1992. Smám saman varð til góður forði af hornsílum í plasttunnu við eitt húsið og þar syntu sílin eins og dálítið glitlausir litlir gullfiskar um einhverja tíð. Þetta endaði líklega með því að þau drápust. Ég man bara eftir orðaskiptum á milli mín og veiðimannanna um það hvar gjöfulustu hornsílamiðin lágu. Mér finnst eitthvað svo skemmtileg tilhugsun um að nokkrir krakkar úr þorpinu og af Reykhúsabæjunum hafi verið búin að kortleggja Eyjafjarðarána svo vel að þau vissu hvar hægt var að moka upp hornsílum.

Svo reyndar á ég aðra sambærilega draumkennda minningu. Á árunum 1996-1999 lenti ég í því aftur og aftur að finna fjögurralaufasmárabeð. Ég held að það séu um það bil 6 staðir sem ég get nefnt, annars vegar í Kristnesi eða við Kristneshæli og hins vegar á Reykhúsalóðinni þar sem ég fann sumar eftir sumar fjögurralaufasmára. Þeir uxu alltaf á sama stað og af því ég vissi hvar staðirnir voru gat ég týnt upp smára, ár eftir ár. Þetta uppátæki vatt upp á sig og brátt átti ég heilu hirslurnar af fjögurralaufasmárum, pressaða og þurrkaða í bókum. Þeir skiptu hundruðum og með mér vaknaði von um að komast kannski í heimsmetabók Guinness fyrir þetta fjögurralaufasmárasafn. Sú von varð að engu þegar ég komst að því að fangi í Indiana í Bandaríkjunum átti stærsta staðfesta fjögurralaufasmárasafn í heiminum, en safnið taldi nokkur þúsund smára. Hann hafði fundið sín beð í fangelsisgarðinum og safnað þessu upp á nokkrum áratugum. Ég taldi mig eiga við ofurefli að etja og pakkaði því safninu í litla kassa sem ég á einhvers staðar ennþá. Hef einu sinni eða tvisvar reynt að leita uppi þessi sex beð sem ég fann á sínum tíma en hef ekki endurheimt þau ennþá.

Þarna bjó ég mín uppvaxtarár, þar liggja mínar æskuslóðir. Ég var lengst af í næstsyðsta herberginu í Reykhúsum, við hliðina á eldhúsinu. Þegar ég vaknaði á sumrin á unglingsárunum blasti við mér þessi lagskipta mynd út um gluggann: Efst tróna Súlur, svo Kristnesskógurinn, þá koma byggingar hælisins og loks bílarnir á hlaðinu. Svo fylgja minningunni þung spor á fætur til að fá sér hunangshnetuseríós og mjólk.

 

 

 

Reykjavík, 13. maí 2013.

Hjálmar Stefán Brynjólfsson

 

Æskuslóðirnar mínar

 

Svarfaðardalur

Ég er heimaalið barn og hleypti vart heimdraganum út fyrir Eyjafjörðinn að nokkru ráði fyrr en 19 ára gömul.  Fyrstu fjórtán árin var ég nánast algerlega innilokuð og varin af fjöllunum í Svarfaðardal. Það er erfitt að horfa ósnortinn á það umhverfi sem ég ólst upp í án þess að hrífast. Fjallasýnin er einstök, ég skora á ykkur að reyna á hrifnæmi ykkar og líta dalinn augum, ég held að allir hljóti að vera sammála mér! Lengi eftir að ég flutti úr sveitinni saknaði ég útsýnisins, fjallanna, lækjanna. Æskuslóðirnar voru náttúran og árstíðabundið stúss við skepnur, sauðburður að vori, heyskapur að sumri, göngur að hausti, fjós og fjárhús að vetri. Náttúran var oft býsna harðneskjuleg. Vetur voru snjóþungir, vegir vondir, bílar lélegir og þess vegna var bara lítið farið. Á Dalvík var kaupfélagið, bókabúðin, það þurfti ekki að fara lengra.

Ferðalag til Akureyrar var ekki einfalt mál. Tók langan tíma, á vondum vegi og kostaði bílveiki og óþolinmæði. Hvílík dýrð að komast á malbikið sem byrjaði við Hlíðarbæ. Hlíðarbær hefur alltaf skipað sérstakan heiðurssess í mínum huga. Ferðir til Akureyrar voru eins fáar og hægt var fram að því að ég fór í Menntaskólann á Akureyri og Akureyri takmarkaðist við Einilund hjá ömmusystur minni, Teríuna með smurbrauðssneiðum, rúllustigann í kaupfélaginu og búðina hjá Sigga Gúmm.

Ég ólst upp í gamla daga, í orðsins fyllstu merkingu. Dráttarvélar án  grindar eða húss, litlu stærri en fólksbílar, heyblásara sem þurfti að moka í, beðjur sem heyinu var ýtt í.  Þegar nálgaðist unglingsárin fór maður að upplifa að sveitin væri að færast í átt til einhvers nútíma, heyhleðsluvagn og heybindivél, stærri dráttarvélar með útvarpi og allt og mjólkurtankur bættist smátt og smátt við tæknilítinn búskap. Jafnvel henti það að einhver brygði búi og aðrar jarðir stækkuðu. Fram að því voru öll bú lítil. Og svo var meira að segja keypt litasjónvarp.

Það var samt ekki tæknin í búskapnum sem ég tengdi við innreið nútímans. Árið 1979 var kaldasta vor og sumar í manna minnum. Norðanáttin stöðug allt sumarið, með þeirri köldu þokusúld sem henni fylgir. Það var vart að sæi til sólar allt sumarið. En þetta sumar var kvikmyndin Land og synir tekin upp í sveitinni. Myndin sem markaði upphaf íslenska kvikmyndavorsins.  Seinnipart sumars og haustið, sem var kalt og blautt, var hópur kvikmyndatökumanna og leikara í sveitinni að fást við eitthvað sem maður vissi eiginlega ekkert hvað var. Aðeins elsta kynslóðin á heimilinu tók þó einhvern þátt í myndinni, afi og amma dönsuðu á Þinghúsinu ásamt fjölda sveitunga þegar tekið var upp ball og þeim bregður aðeins fyrir í þeirri senu. Svo hljóp afi undir bagga ásamt hestinum Blakki sem var geðgóður hestur frænda míns þegar þurfti að taka upp senu þar sem maður teymir hest með kerru yfir brú. Hesturinn sem átti að nota trylltist við tökur en afi og Blakkur björguðu senunni.  Þeir héldu báðir ró sinni við kvikmyndatökuna og högguðust ekki þótt þeir smökkuðu á heimsfrægðinni.

Sumarið eftir var sólríkara og hlýrra og þá var sjálfvirkur sími lagður í sveitina og sveitasíminn kvaddur. Því miður held ég að svarta símtækinu sem til var heima hafi verið hent. Það hékk upp á vegg, tólið níðþungt en stundum stalst maður til að lyfta því hljóðlega upp og hleraði en fékk skammir fyrir, ef ekki frá mömmu þá frá konunum á línunni sem heyrðu í manni. „Farðu af línunni krakki!” En þetta sumar kom vinnuflokkur frá Símanum og í minningunni var hann margar vikur við verkið. Það voru kornungir strákar í hópnum, ég var 13 ára og hafði aldrei áður séð svona fallega karlmenn. Ég er lítið fyrir hesta en stundaði reiðtúra grimmt þetta sumar með vinkonum mínum enda var símalínan lögð við veginn þannig að við þurftum alltaf að vera á ferðinni nálægt þeim.

Eftir þessa nútímavæðingu var ekki aftur snúið, það var til veröld utan fjallanna háu. Hvorki bíó né sími bar þó reyndar ábyrgð á því, það beið allra unglinga í sveitinni að fara burt í skóla eða vinnu.

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir

Æskuslóðirnar mínar

 Af bökkum Eyjafjarðarár

Minningar eru skrýtinn hlutur. Því lengra sem líður því betur man maður það sem liðið er.

Þegar ég var barn fór ég oft að renna fyrir silung í Eyjafjarðará. Þar var hægt að fá veiðileyfi á viðráðanlegu verði og þar var og er alltaf gott veður. Ég man vel þegar við bræðurnir vorum að veiða stuttu neðan við ármynni Núpár. Þetta var um miðjan ágúst og veður hið besta sól og stilla. Þar fundum við nokkrar bleikjur og mig minnir að ég fengi þá fyrstu á maðk en svo fengi Halldór bróðir minn sjö á flugu. Þá var mér misboðið og kastaði eins langt út og ég gat og gekk niður í strauminn með færið og þar með yfir allar bleikjurnar. Halldóri fannst þetta víst ekki gáfuleg veiðiaðferð en stuttu eftir að straumurinn greip færið þá greip vænn sjóbirtingur maðkinn og ég landaði honum. Hann vó rúm sex pund. Bleikjurnar voru allar eitt og hálft til tvö pund. Það lyftist á mér brúnin og við fórum heim með góðan afla eftir hálfan dag. Seinni partinn hófum við veiðar á sama stað og náðum nokkrum fiskum til. Mig minnir að ég fengi tvo minni sjóbirtinga og Halldór eitthvað af bleikju.

Eftir þetta fékk ég oft fiska þarna. Mikið oftar settist ég þó þarna niður með nesti og horfði yfir Möðruvallaplássið og langt upp í Sölvadalinn. Þarna sagði faðir minn mér síðar að Sölvadalur héti eftir gelti sem Helgi magri hefði misst í land við Galtarhamar/Festarhamar, ekki langt frá Kaupangi, ásamt einni gyltu og hann fann þau síðar fram í Sölvadal en þá voru þar 70 svín saman.

Nú liðu mörg ár og þá fór ég að ræða þennan veiðistað við Halldór og þá sagði hann að hann hefði eiginlega ekki ætlað eftir hádegi því veðrið var svo leiðinlegt, sunnan hvassviður og rigning.

Þegar ég fluttist aftur norður þá átti ég dreng sem hafði gaman af að fara og veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Ég nýtti þá tækifærið til að troða á hann staðarþekkingu, þeirri hinni sömu og ég lærði þar einum mannsaldri fyrr. Það var einu sinni að við vorum að veiða skömmu fyrir hádegi lítið eitt neðan við Espihól. Þarna er djúpur hylur og grynningar með töluverðu straumköstum neðan við. Ég var að kasta flugu og þetta var seinni hluta ágústmánaðar. Drengurinn var farinn að kvarta um kulda og ég sagði honum að kasta um stund og sest sjálfur niður. Hann kastar en verður ekki var og kvartar áfram enda höfðum bæði ég og Sigurður sem var með hina stöngina fengið tvær bleikjur hvor. Ég greip af honum stöngina og gekk nokkuð uppeftir ánni með hann með mér. Ég beitti nýjum maðki og setti flotholt á áður en ég kastaði út í miðjan hylinn og rétti honum stöngina og sagði honum að lappa með flotholtinu niður að bíl og þá mætti hann fara inn í bílinn og ylja sér. Ég stökk nú niður eftir og hellti kaffi í bollann og greip kexköku. Ég ræddi nú við Sigurð sem kastaði flugunni vilt og galið. Við spjölluðum um fjöllin og bæina þar til drengurinn var kominn niður á grynningar og strauminn með færið. Þá sagði Sigurður: “Flotið er löngu sokkið”. Ég svaraði að bragði: “Þetta er búið að vera fast í botni lengi.” Þá tók stærðarfiskur sig upp út í miðri á með flotholtið í eftirdragi. Mér varð nokkuð um og kastaði bollanum og kexinu frá mér í grasið og tók nokkur stökk niður að drengnum sem var þá búinn að ná sambandi við fiskinn. Eftir nokkra stund  landaði hann 9 punda sjóbirting. Ég rölti uppeftir og tók saman kaffidótið en ekki fann ég kexkökuna þrátt fyrir mikla leit og leið ekki vel með að skilja hana eftir en þó varð svo að vera. Þegar við nálguðumst Akureyri þrífur Sigurður aftan í úlpuna mína og kemur með hálfa kexköku en ég hafi hent henni ofan í hettuna í flýtinum.

Drengurinn minn sem nú er 19 ára er sjálfsagt af síðustu kynslóð þeirra sem læra að þekkja staðhætti í Eyjafirði af föður sínum meðan þeir veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Nú er búið að banna alla maðkveiði af því að vitrir menn telja að börn veiði meira á maðk en fullorðnir á flugu.

Sigfús Aðalsteinsson

Æskuslóðirnar mínar

Eyjafjarðarsveitin mín

 Ég á margar yndislegar minningar af Eyjafjarðarsvæðinu. Þar bjó ég á aldrinum  5 – 25 ára, mikilvæg mótunarár í lífi hvers manns. Á þessum tíma sótti ég grunn – framhalds – og háskóla á Akureyri. Fann ástina og stofnaði fjölskyldu. Grunnskólarnir voru Glerárskóli í þorpinu og Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðasveit, framhaldsskólinn minn var MA og svo HA. Það má því segja að litla persónan sem flutti norður með mömmu sinni, pabba og bræðrum hafi á þessum tíma breyst í fullorðna konu; móður, sambýliskonu, fjölskyldukonu, kennara –  það er því ekki óeðlilegt að margt hafi á dagana drifið þessi 20 ár. Hvað á hins vegar að velja til að segja frá? Ætti það að vera þegar við krakkarnir í þorpinu söfnuðumst saman á köldum vetrarkvöldum niðri á Þórsvelli til að fara á skauta? Eða þegar skógurinn fyrir ofan Kristnes breyttist í ævintýraskóg, þangað sem farið var með nesti og nýja skó. Eins væri hægt að lýsa heilu og hálfu dögunum í Hlíðarfjalli á skíðum eða í sundlauginni, en þangað var yfirleitt farið til að eyða heilum degi, með aukahandklæði og nesti. En nei, þó þessar sögur séu allar algerlega frábærar þá langar mig til að láta allt aðra flakka.

Ég er stödd í Kjarnaskógi, við vinkonurnar, allar skátar og stoltar af því. Hingað erum við mættar með tjald, dýnur, svefnpoka og nesti. Við vitum að það er ekki leyfilegt að tjalda í skóginum en okkur rekur nú samt minni til þess að hér hafi fjöldinn allur af skátum tjaldað á einhverju landsmóti, og þar sem við erum allar í skátunum þá hlýtur þetta nú að vera í lagi. Við finnum okkur laut sem hentar vel, sést ekki frá stígnum og því ættum við að geta verið hér óáreittar. Spennan er mikil að koma tjaldinu upp og ekki laust við að útilegukonurnar séu orðnar svangar eftir umstangið. Þá er bara að taka upp nestið og gæða sér á gómsætum bitunum. Allar erum við með kínaskó til að hafa á fótunum þegar við vöðum í læknum. Veðrið er svo gott að eftir fyrstu gæsahúð finnum við ekki fyrir kulda og við vöðum alla leið niður á þjóðveg, í gegnum rörin meira að segja. Þarna erum við eins og landshöfðingjar, eigum þetta land með manni og mús. Dagurinn var yndislegur en eitthvað voru nú hetjurnar hnípnar þegar einn pabbinn kíkti á flokkinn um eða eftir kvöldmat.  Stuttu síðar sitjum við allar í Saab bifreið á leið í bæinn. Sannfærðar um að næst þegar þetta verði gert, þá munum við sofa!

Ég vildi að ég myndi muna meira úr þessari ferð, man bara það að við vorum algerlega sjálfstæðar og sjálfum okkur nógar. Merkilegt að í dag er þetta ein svalasta minning sem ég á um æskuna mína. Eitthvað sem myndi líta öðruvísi út í ævintýrum nútímans, þar sem börn eru með síma og annan búnað svo hægt sé að heyra í þeim hvenær sem er.

Svona hafa tímarnir breyst og mennirnir með. Þessi saga lýsir vel því frelsi sem ég ólst upp við á Akureyri. Dagarnir snerust mikið um að finna sér eitthvað að gera, sumir urðu meira spennandi en aðrir, fór allt eftir því hversu frjór hugurinn var í það og það skiptið. Hvergi hefði ég viljað alast annars staðar upp en í Eyjafirðinum. Þar var alltaf sól á sumrum og alltaf skíðafæri á vetrum … eða var það ekki?

 

Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir

Neskaupstað

Æskuslóðirnar mínar

Í vinnslu