main image

Dularfullur kopargripur finnst í Eyjafirði

Varðveislumönnum minjanna brá heldur betur í brún þegar þeir voru við störf á Melgerðismelum um síðastliðna helgi. Við uppgröft á stríðsminjum við einn melinn, leit forvitnilegur kopargripur dagsins ljós. Strax vöknuðu spurningar um notagildi gripsins meðal þeirra sem voru viðstaddir uppgröftinn en ekki síður aldur hans. Samdóma álit var að líklega tengdist hann ekki veru setuliðsins á Melunum í seinni heimsstyrjöldinni.

Gripurinn sem um ræðir er ferhyrndur, 4,6 – 4,7 cm að þvermáli og úr kopar. Kassalaga umgjörðin er skreytt að utanverðu, einu mynstri á hverri hlið og skákrossi að innanverðu. Frumrannsóknir á gripnum bentu til þess að þarna væri um svokallaðan eyrnaádrátt að ræða. Það hefur nú verið staðfest. Eyrnaádráttur var hluti af beisli fyrr á öldum, ádráttur sem kinnól og ennisól gengu um, undir eyrum hestsins.

Grenndargralið hafði samband við fornleifafræðing sem sagði að allmargir eyrnaádrættir væru til á íslenskum söfnum og væru fleiri dæmi um að þeir hefðu fundist fyrir tilviljun úti í náttúrunni eins og í tilfelli þess sem fannst um helgina á Melgerðismelum. Þar sem að um handsmíðaðan ádrátt væri að ræða gæti hann tæpast verið yngri en frá 19. öld en að saga þeirra næði langt aftur á miðaldir og því gæti hann verið eldri.

Samkvæmt janúarhefti Árbókar Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 1985 samanstóð svokallað „búið beisli af ákveðnum koparbúnaði eins og ennislaufi og eyrnaádráttum. Heimilt er að fullyrða að eyrnaádrættir hafi ekki verið smíðaðir einir sér til sölu heldur sem hluti af samstæðu. Ekki var á færi nema fremur efnaðra manna að eignast slíkt beisli, enda voru reiðtygi nokkurskonar stöðutákn hjá fyrri tíma mönnum. Búin beisli gerðust sjaldséð um aldamótin 1900.“  

Starfsmaður Minjastofnunar hefur nú kannað vettvang á Melunum í fylgd Varðveislumanna minjanna. Í spjalli  eftir lauslega athugun á svæðinu kom fram tilgáta um að ádrátturinn væri frá 19. öld.  Ómögulegt er þó að segja til um aldur fyrr en frekari rannsóknir hafa farið fram. Gripurinn verður því líklega sendur suður yfir heiðar til athugunar á næstu dögum.

Á slóðum hins dularfulla kopargrips á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Rýnt í gögn á staðnum þar sem eyrnaádrátturinn fannst.