main image

Æskuvinirnir horfðu á Hælið brenna

Eftirfarandi umfjöllun er byggð á frásögnum tveggja æskuvina  sem ólust upp saman í Kristnesi í Eyjafirði á fyrri hluta 20. aldar. Bjarni Jónasson Rafnar var sonur Jónasar Rafnar en hann var yfirlæknir á Kristneshæli. Bjarni bjó á meðal berklasjúklinga með foreldrum sínum og systkinum þar til hann flutti í sérstakan læknisbústað sem reistur var í kjölfar bruna sem varð á Hælinu í janúar árið 1931. Þormóður Helgason var fæddur og uppalinn á sveitabænum Kristnesi þar sem hann bjó með móður sinni og afa. Þeir félagarnir urðu vitni að brunanum. Frásögn þeirra má finna í bókinni Lífið í Kristnesþorpi – Frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu sem og frásagnir fleiri sem búið hafa á landnámsjörð Helga magra síðustu 90 árin. Grenndargralið gaf bókina út árið 2016.

Að kvöldi miðvikudagsins 7. janúar 1931 varð bruni á þaki Kristneshælis. Slökkviliði frá Akureyri tókst að koma í veg fyrir að eldurinn teygði sig niður á neðri hæðir byggingarinnar auk þess sem steypt gólfplatan hélt aftur af eldinum. Þegar slökkvistarfi lauk hafði eldurinn kraumað í u.þ.b. fjórar klukkustundir. Engum varð meint af brunanum nema hjúkrunarkonu einni sem freistaði þess að bjarga eigum sínum. Hún brenndist illa. Þormóður og Bjarni segja svo frá:

Þrátt fyrir ungan aldur man ég vel eftir brunanum á Hælinu 1931. Þá sátum við heima í rólegheitum. Ég var þriggja eða fjögurra ára. Allt í einu birtist Grímsi gamli afabróður minn. Við vorum að hlusta á grammafón hjá afa, á nýjar plötur sem voru teknar af karlakórnum Geysi árið 1930. Þær voru að koma út um þetta leyti. Við vorum að trufla þarna samsæti, við krakkarnir. Við strákarnir vorum algjörlega snar að hlusta á þessar plötur. Það var verið að spila þær þegar Grímur kom í dyrnar og sagði Hælið vera að brenna! Við hlupum í norðurherbergið og þar blasti þetta við manni. Annar endinn var alelda en svo færðist eldurinn yfir. Menn héldu að hann myndi stöðvast við stafninn í miðjunni en það var ekki aldeilis. Hann hélt áfram hægt og rólega. (Þormóður)

Ég man svo vel eftir hælisbrunanum. Þegar allt þakið logaði. Fólk var ekki beint í hættu. Það voru allir fluttir af efstu hæðinni, eða efri hæðinni, og niður. Jú auðvitað var í sjálfu sér hætta, þetta var í norðangolu að vetri til í myrkri. Ég man eftir því að við krakkarnir fórum út fyrir Hælið til að sjá þetta. Ég gerði mér nú eiginlega ekki alveg grein fyrir því hversu voðalegt ástand þetta var. Þá logaði allt þakið, á allri byggingunni. Þarna brann bara allt sem brunnið gat. Þetta var voðalegt að sjá þetta. En svo var þetta bara byggt upp mjög fljótt eftir það. (Bjarni Rafnar)

 

Sagt er frá brunanum í Morgunblaðinu 8. janúar 1931. Þar kemur fram að þrjátíu slökkviliðsmenn voru á staðnum með útbúnað til slökkvistarfa. Vegna erfiðleika við að tengja stærri slöngur við vatnslása urðu slökkviliðsmenn að notast við kraftlitlar garðslöngur sem hægði umtalsvert á slökkvistarfinu.

Það voru ábyggilega allir verkfærir menn komnir þangað til að hjálpa til. Ábyggilega ekki staðið á því að bera fólkið niður, að færa það niður af efstu hæðinni. Ég sofnaði út frá þessu. Það var mikið gert grín að slökkvibílnum. Hann var sagður svo lélegur að hann hefði ekki haft sig upp hælisveginn. Ég veit ekki hvort sagan var login eða sönn. Vegirnir voru náttúrulega ekki merkilegir. En þetta gekk. (Þormóður)

Skemmdir urðu töluverðar. Þak og ris brann til kaldra kola og allir innanstokksmunir. Persónulegir munir sjúklinga og starfsfólks svo sem fatnaður og peningaseðlar sem voru geymdir í koffortum, urðu eldinum að bráð. Nokkurt tjón varð á 2. hæð, sprungur í veggjum og skemmdir á sængurfatnaði.

Svo var verið að gera sér grein fyrir því hvað þakið hefði þolað. Hvort það þyrfti að steypa nýja plötu. Það var prófað þannig að fyrst var það mælt hvað mikið af sandi var hægt að setja upp á loftið. Þetta var ótrúlegt. Fötur voru hífðar þarna upp og settar sandhrúgur hér og þar á þakið og mælt svo hvort það hefði sigið nokkuð. Það sýndi sig að það var hvergi neinn veikleiki í því. Þetta er mér afskaplega minnisstætt. (Bjarni Rafnar)

 

Þakhæðin var endurreist á vordögum og í kjölfar brunans var hafist handa við að byggja læknisbústað norðan  við Hælið. Miklar vangaveltur urðu um orsök eldsvoðans. Opinber skýring var biluð rafmagnsleiðsla. Fleiri möguleikar voru þó nefndir til sögunnar.

Mikið var talað um hvað olli brunanum og einhver þóttist  vita að það hefði einhver í ógætni hent sígarettustúf í ruslafötu þarna uppi á loftinu. Það var mikið um þetta rætt og talað og það var ein kona sem brann dálítið mikð hár af. Ég held að hún hafi nú samt ekki verið þarna uppi á þakinu. En þarna misstu sjúklingarnir…þarna voru geymslur, dótið þeirra og þarna var mikið af dóti sem pabbi átti, bækur og annað. Það brann allt saman. (Bjarni Rafnar)

Um mitt sumar 1931 birtist auglýsing í Verkamanninum þar sem óskað var eftir tilboðum vegna byggingar læknisbústaðarins. Hafist var handa og unnið hratt og örugglega þannig að byggingu bústaðarins var svo gott sem lokið um áramótin. Læknisbústaðurinn reis í landi Reykhúsa, nokkrum metrum norðan við landamerki Reykhúsa og Kristness. Kristneshæli fékk landspilduna til umráða árið 1933. Íbúð yfirlæknis á Hælinu var nú ætlað nýtt hlutverk, að hýsa sjúklinga og þannig draga úr þrengslum. Í dagbók Jónasar Rafnar, frá febrúar 1932, má finna færslu þar sem segir frá vistaskiptum hans, Ingibjargar konu hans og barnanna yfir í nýja læknisbústaðinn. Með þeim flutti hluti af starfsfólki Hælisins.

Læknisbústaðurinn er fyrsta íbúðarhúsnæðið sem byggt er samfara starfsemi Kristneshælis. Þar með hefst þéttbýlismyndun á landnámsjörð Helga magra í tengslum við þá þjónustu sem Kristneshæli var ætlað að veita hinum sjúku.

Gekk yfir hálendið í vikutíma blautur og hrakinn

Aldamótin 1900, samgöngur erfiðar og fjarskipti með öðrum hætti en nú þekkist. Er hægt að lifa af heila viku að hausti uppi á hálendi Íslands, villt(ur), fáklædd(ur) og matarlaus við slíkar aðstæður? Slíkt yrði álitið mikið þrekvirki. Svarið við spurningunni er já því við lok 19. aldar vakti saga ungs Eyfirðings mikla athygli þegar hann villtist á hálendinu en lifði af við mjög erfiðar aðstæður.

Kristinn Jónsson var 22 ára þegar hann, ásamt félögum sínum, lagði af stað í göngur frá heimili sínu í Eyjafirði seint í septembermánuði árið 1898. Kristinn bjó að bænum Tjörnum sem er innsti bær í Eyjafirði, u.þ.b. 45 km frá Akureyri. Ferðinni var heitið skammt upp fyrir búfjárhaga og síðan beinustu leið heim aftur. Kristinn var því frekar illa klæddur, í þunnum jakka og ekki með trefil um hálsinn. Fjótlega skall á þoka og þar með hófst raunasaga þessa unga manns. Þokan stóð yfir í nokkra daga og þegar henni loks létti var Kristinn kominn upp á hálendi Íslands. Sjálfur gerði hann sér ekki grein fyrir því hvert hann var kominn. Næstu daga gekk hann um, jafnt að degi sem nóttu, í leit að einhverju sem gæti vísað honum leiðina til byggða. Aldrei snjóaði á hann og aðeins frysti eina nóttina. Hins vegar rigndi töluvert og oft varð Kristinn gegndrepa. Þá nærðist hann nánast eingöngu á vatni. Á fimmta eða sjötta degi kom hann að á og ákvað að ganga meðfram henni og reyna þannig að komast til byggða.

Á sjöunda degi var Kristinn orðinn svo örmagna og aðframkominn að hann ákvað að leggja sig í skógarrjóðri í Búrfelli við Þjórsá. Hann reiknaði ekki með að vakna aftur og horfðist í augu við þá staðreynd að þarna myndi hann sennilega bera beinin. Daginn eftir fór bóndi einn úr Gnúpverjahreppi í Árnessýslu ríðandi á hesti sínum í skógarferð í Búrfell. Hann staldraði við á einum stað en þegar hann ætlaði að halda för sinni áfram sá hann eitthvað hreyfast í rjóðrinu. Hann athugaði hvers kyns var og sá þá Kristin, fáklæddan, hrakinn og aðframkominn af hungri. Bóndinn gaf honum að borða, klæddi hann í föt af sér og flutti hann á hestinum að bænum Ásólfsstöðum þar sem hann dvaldist meðan hann náði aftur heilsu. Hrakningarsaga Kristins Jónssonar vakti svo mikla athygli að dagblaðið Ísafold hóf söfnun fyrir hann m.a. til að standa undir lækniskostnaði og kostnaði við að flytja hann aftur heim í Tjarnir.

Já, allt er gott sem endar vel.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í janúar 2014.

Vissi héraðshöfðingi Eyfirðinga um hið heilaga gral Krists?

Allir þekkja söguna um hið heilaga gral. Bikarinn sem Jesús drakk af þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum. Bikarinn sem geymdi blóð hins krossfesta Krists. Ekki hefur tekist að sanna tilvist gralsins en ljóst er að trúin á sannleiksgildi sögunnar, og að gralið sé til enn þann dag í dag, á sér fylgjendur um allan heim. Allt frá miðöldum hafa komið fram tilgátur um hugsanlega felustaði gralsins og hafa staðir eins og London og Pýreneafjöll gjarnan verið nefndir í því sambandi. Ljóst er að fundur gralsins yrði stórkostleg uppgötvun og í raun ekki sambærilegur við aðra fornleifafundi, hvorki fyrr né síðar. Ísland er nú komið á kortið yfir líklega staði þar sem gralið er geymt og teygir sagan anga sína til Eyjafjarðar.

Blóðbaðið í Jerúsalem 7. júní 1099

Til að átta sig á mögulegum flutningi gralsins til Íslands þurfum við að fara rúm 900 ár aftur í tímann. Þann 7. júní árið 1099 réðust þúsundir kristinna riddara inn í Jerúsalem. Ætlun þeirra var að ná aftur borginni úr höndum múslima sem þá höfðu safnast þar saman. Í rúman mánuð börðust þessar tvær fylkingar í borginni þar sem riddararnir myrtu 40.000 manns. Fjöldamorðin í Jerúsalem eru talin meðal grimmilegustu hermdarverka veraldarsögunnar. Þau marka upphaf Krossferðanna en svo kallaðist stríðið milli kristinna manna í Evrópu og múslima í Austurlöndum nær. Stríðið stóð yfir í tvær aldir og gætir jafnvel áhrifa þess enn í dag. Tuttugu árum eftir atburðina í Jerúsalem varð til kristin riddararegla í Frakklandi sem kallaðist Musterisriddarar. Verkefni hennar voru margvísleg en öll þó í þágu kristinnar trúar. Eitt af því sem Musterisriddararnir gerðu var að koma dýrgripum úr musterinu í Jerúsalem í öruggt skjól en þeir höfðu verið teknir frá eftir blóðbaðið mikla. Í hugum kristinna manna var um ómetanleg menningarverðmæti að ræða og þar á meðal hið heilaga gral.

Gralið flutt til Íslands 1217

Ítalskur verkfræðingur og dulmálssérfræðingur að nafni Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur manna hafi komið til Íslands árið 1217 og haft gralið með sér. Gralið hafi þeir falið á hálendi Íslands með aðstoð heimamanna. Mörgum kann að þykja kenningin fjarstæðukennd en Gianazza hefur ásamt teymi fræðimanna eytt miklum tíma í rannsóknir á þessum ævintýralega möguleika. Í þeim rannsóknum hefur margt áhugavert komið fram. Sumt af því má frekar búast við að sjá í bíómyndum en í raunveruleikanum og sem dæmi um það má nefna Síðustu kvöldmáltíðina, eitt frægasta málverk Leonardo da Vinci (1452-1519). Gianazza vill meina að í málverkinu megi sjá falið kort sem sýni felustað gralsins á Íslandi. Ef kenning hans er rétt var í það minnsta einn maður í Eyjafirði sem vissi hvar hið heilaga gral Jesú Krists var falið.

Sturlunga geymir mikilvægar upplýsingar

Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254) Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.

Musterisriddarar á Íslandi?

Norðmenn sem heimsóttu Ísland á miðöldum gengu gjarnan undir nafninu Austmenn sem og aðrir sem sigldu til landsins úr austri. Snorri Sturluson var vissulega mikill höfðingi og naut mikillar virðingar en velta má fyrir sér hvers vegna hann var með 80 manna erlendan her með sér auk nokkurra hundruða íslenskra reiðmanna sem honum fylgdu á Alþingi sumarið 1217. Hvaða erlendi her var þetta? Hvaðan kom hann? Hvað var hann að gera hér á landi? Gianazza telur að þarna sé um 80 menn úr hópi Musterisriddaranna að ræða og að þeir hafi komið hingað fyrst og fremst til að fela verðmæti úr frumkristni, þ.á.m. hinn heilaga kaleik Krists. Að för þeirra með Snorra á Alþingi vegna deilumála hans við Magnús goða hafi einungis verið sett á svið til að beina athygli manna að öðru en því sem þeir voru raunverulega að gera hér. Var það tilviljun að Skotinn Herburt kom þessari atburðarás af stað þegar hann hóf deilurnar við Hjaltinn árið áður? Ekki verður þessum spurningum svarað hér frekar en öllum þeim spurningum sem Giancarlo Gianazza hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár vegna rannsókna hans á tengslum Íslands og bikars Krists.

 

Hvílir leyndarmálið í vígðri mold í Eyjafjarðarsveit?

Einn úr fylgdarliði Snorra á Alþingi sumarið 1217, þegar 80 erlendir vopnaðir menn voru með í för, bjó á Grund í Eyjafirði um 23 ára skeið (1215-1238). Hann var einn helsti höfðingi Sturlunga á fyrri hluta 13. aldar og var jafnframt héraðshöfðingi Eyfirðinga og Þingeyinga um tíma. Leiða má líkur að því að maðurinn hafi verið í hópi fárra Íslendinga sem vissu um raunverulegar fyrirætlanir huldumannanna 80. Hér er að sjálfsögðu átt við Sighvat Sturluson, bróður Snorra. Sighvatur féll í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Hann er talinn hvíla í sérstökum Sturlungareit í kirkjugarðinum að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Ef kenning Gianazza er byggð á sandi má í það minnsta hafa gaman af henni. Ef hún er á rökum reist er gaman til þess að vita að í heimabyggð hvíli maður sem mögulega vissi um hið heilaga gral Krists. Sennilega fáum við aldrei úr því skorið hvort Sighvatur vissi um gralið. Hann tók leyndarmálið með sér í gröfina fyrir 780 árum síðan.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í september 2013.

Mennirnir sem sigldu yfir hafið til að deyja

Það var um jól fyrir margt löngu að Sigríður Eyjafjarðarsól yfirgaf þann heim sem hún þekkti og settist að á framandi slóðum. Rétt eins og Sigríður, yfirgáfu þeir heimaslóðir og settust að í öðru landi. Annar var þingmaður, hinn uppfinningamaður og báðir nutu þeir mikillar virðingar sem slíkir. Þeir virtust lifa hinu fullkomna lífi með fullar hendur fjár. Síðustu æviárunum eyddu þeir þó með djöfulinn í eftirdragi líkt og Sigríður gerði þegar hún reið í fylgd illra vætta í átt til nýrra heimkynna. Fjarri fjölskyldu og vinum dóu þeir drottni sínum; annar endaði ævina í sjónum og jörðin virðist hafa gleypt hinn. Mennirnir sem um er rætt bjuggu báðir í Eyjafirði.

Árið 1840 fæddist drengur að bænum Laufási í Grýtubakkahreppi. Hann var sonur Gunnars, prestsins á staðnum. Drengurinn fékk nafnið Eggert. Sama ár sigldi maður að nafni August Schrader frá Hannover í Þýskalandi til Bandaríkjanna. Hann átti sér draum um að öðlast betra líf í Ameríku eins og svo margir Evrópubúar á þessum tíma. Árið 1853 dó faðir Eggerts sem þá var nýorðinn 13 ára. Fimm árum seinna, árið 1858, eignaðist August Schrader son en sá var skírður George H. F. Schrader.

August gamli stofnaði fyrirtæki fjórum árum eftir komuna til Bandaríkjanna. Fyrirtækið framleiddi m.a. köfunarútbúnað og var leiðandi í þróun á gúmmívörum ýmiss konar. Fyrirtækið þróaði vörur fyrir hinn heimsþekkta dekkjaframleiðanda Goodyear. Árið 1890 gekk Schrader, þá 32 ára gamall, til liðs við föður sinn. Varð hann fljótt aðalmaðurinn í fyrirtækinu og átti stærstan þátt í að gera það að einu fremsta fyrirtæki heimsins á sínu sviði. Einn er sá hlutur sem Schrader fann upp og hefur, öðrum fremur, haft áhrif á daglegt líf fólks víða um heim allar götur síðan. Schrader kynnti ventilinn til sögunnar árið 1893 og í kjölfarið  fór vegur fyrirtækisins og Schrader vaxandi í Bandaríkjunum og víðar. Schrader mokaði inn peningum, varð þekktur maður vestra og umgekkst suma af helstu viðskiptajöfrum Bandaríkjanna í kringum aldamótin 1900.

Nítján árum eftir þessa merkilegu uppfinningu og tímabil frægðar og frama sigldi Schrader til lítils bæjar á norðanverðu Íslandi. Áfangastaður hans var Akureyri. Schrader dvaldist í bænum frá júlí 1912 til nóvember 1915 og hélt til á Hótel Akureyri í Aðalstræti. Akureyringar voru mjög forvitnir um þennan nýja íbúa, auðjöfurinn sem hafði byrjað með tvær hendur tómar í Ameríku og grætt fúlgur fjár í viðskiptum. Hann hafði látið til sín taka á sviði mannúðar- og dýraverndunarmála í heimalandinu og átti eftir að halda því starfi áfram á Akureyri. Hann stuðlaði að bættu bæjarsamfélagi fyrir menn og málleysingja með fjárframlögum til handa mannúðarsamtökum á staðnum. Schrader þótti Akureyringar hirðulausir um hag sinn. Hann kenndi þeim að hugsa betur um tennurnar og að fara úr skítugum vinnugallanum eftir vinnu. Þá hafði hann gaman af því að gleðja börnin í bænum. Hann bauð upp á jólaball í Samkomuhúsinu, bauð þeim í útreiðartúra og dreifði til þeirra sælgæti. Schrader var mjög svo umhugað um velferð hrossa. Hann gaf út bækur sem miðuðu að því að bæta velferð manna og hesta. Hann gagnrýndi meðferð Íslendinga á hrossum og þótti umgengni þeirra við dýrin slæm. Úr því vildi hann bæta. Um þessar mundir eru liðin rétt rúm 100 ár frá því Schrader hóf byggingu á hesthúsi og gisitheimili á Akureyri sem hann hugsaði fyrst og fremst fyrir þá sem höfðu lítið milli handanna. Í desember 1914 lauk verkinu og afraksturinn var aðstaða fyrir 130 hross og gistirými fyrir 30 manns. Með framtakinu vildi Schrader leggja sitt af mörkum við að bæta skilyrði hestanna en um leið koma til móts við efnalitla einstaklinga sem vildu nýta sér slíka þjónustu. Schrader nefndi húsið Caroline Rest eftir móður sinni en það stóð við Kaupvangsstræti, í miðju Grófargili.

Eggert Gunnarsson gerðist bóndi á bænum Espihóli í Eyjafjarðarsveit árið 1866 og ári síðar giftist hann Elínu Sigríði Magnúsdóttur. Elín dó árið 1869 og sama ár hætti Eggert búskap. Eggert fékkst við hin ýmsu störf um ævina. Hann var m.a. kaupstjóri á Akureyri um skeið og sýslumaður í Skagafjarðarsýslu. Hann stofnaði Framfarafélag Eyjafjarðar og átti þátt í stofnun kvennaskóla á Laugalandi. Eggert var bróðir Tryggva Gunnarssonar sem m.a. stofnaði hið fræga Gránufélag árið 1870. Systir Eggerts og Tryggva var Kristjana, móðir Hannesar Hafstein ráðherra. Árið 1875 var Eggert kosinn á þing. Hann var þingmaður í fimm ár. Eggert bjó á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit þann tíma sem hann gegndi þingmennsku.

Eggert var mikill hæfileikamaður og átti auðvelt með að ávinna sér traust annarra. Hann var vel liðinn af samferðamönnum sínum og vildi allt fyrir þá gera sem til hans leituðu. Svo virðist sem hann hafi staðið í skugga bróður síns og átt erfitt með að sætta sig við alla þá athygli sem Tryggvi fékk. Eftir setu á þingi flutti Eggert til Reykjavíkur. Þar hóf hann að stunda viðskipti og verslunarstörf og ætlaði sér stóra hluti. Hann stofnaði m.a. Bresk-íslenska verslunarfélagið og útgerðarfélag. Vera kann að hann hafi ætlað að sýna að hann gæti rétt eins og Tryggvi staðið sig vel í viðskiptalífinu. En eitthvað mikið fór úrskeiðis. Eggert átti erfitt með að standa við skuldbindingar sínar. Hann stóð ekki í skilum og fór svo að hann greip til örþrifaráða. Hann skildi eftir sig skuldahala á Íslandi, flýði land og sigldi til Bretlands árið 1884. Þar hélt hann áfram að safna skuldum. Tryggvi, sem hafði gjarnan hlaupið undir bagga með bróður sínum og reynt að styðja hans málstað gagnvart skuldunautunum, var nú farinn að að efast um heilindi Eggerts. Hann lagði því til við bróður sinn að skynsamlegast væri fyrir hann að fara til Bandaríkjanna og hefja nýtt líf.

Örlög þeirra Eggerts og Schrader eru sveipuð dulúðlegum blæ. Í nóvember árið 1915 ákvað Schrader að stíga um borð í síldarbátinn Helga magra sem lá við höfnina á Akureyri og sigla af landi brott. Akureyringum var orðið ljóst að Schrader hlyti að vera haldinn illvægum sjúkdómi, slíkar voru aðfarirnar þegar hann gekk um borð. Eftir að hafa fleygt persónulegum skjölum í hafið og skipt peningum á milli áhafnarinnar mætti Schrader örlögum sínum. Þriðju nótt siglingarinnar vöknuðu áhafnarmeðlimir við skothvell en svo virðist sem Schrader hafi beitt skotvopni og síðan látið sig falla í Atlantshafið.

Af Eggert er það að segja að það síðasta sem vitað er um afdrif hans nær til fyrri hluta ársins 1886. Þá er eins og jörðin gleypi hann. Engar heimildir eru til sem staðfesta nokkuð um dvalarstað hans eða yfir höfuð hvort hann var lífs eða liðinn. Næstu ár gengu sögusagnir um að sést hefði til hans í Bandaríkjunum og að lífsstíll hans þar bæri síður en svo vott um erfiða fjárhagsstöðu. Hugsanlega dó hann slyppur og snauður í Bretlandi. Hvað sem vangaveltum um afdrif þeirra Schrader og Eggerts líður minnir saga þeirra okkur á að auðævi og völd tryggja ekki eilífa hamingju. Hamingjan er ekki föl fyrir fé. Þetta vissi Sigríður Eyjafjarðarsól þegar hún mælti hin fleygu orð við komuna til nýju heimkynnanna: „Betra er yndi en auður.“

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í desember 2013.

De Beauvoir og Sartre flugu til hinnar drungalegu Akureyrar

Hún hafði nýlega gefið út eina áhrifamestu bók 20. aldar þegar hún kom til Akureyrar. Bókin hét Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) en í henni vakti umrædd kona athygli á kúgun kvenna. Hún kom út árið 1949. Bókin varð strax umdeild en hefur að sama skapi skipað sérstakan sess í kvennabaráttu og femínískum fræðum. Höfundur bókarinnar, Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur og rithöfundur sem hafði um skeið stundað nám við Sorbonne-háskólann í París.

Hann er af mörgum álitinn merkasti hugsuður 20. aldarinnar. Jean Paul Sartre (1905-1980) er höfundur hinnar svokölluðu tilvistarstefnu eða existensíalismans sem var ein helsta heimspekistefna aldarinnar. Hann var, rétt eins og Beauvoir, heimspekingur og rithöfundur. Sartre ávann sé frægð fyrir skáld- og leikverk sín. Má nefna bók hans Les Jeux sont faits (Teningunum er kastað) sem kom út árið 1947 og leikverkið Les séquestrés d’Altona (Fangarnir í Altona) frá árinu 1953. Kvikmynd var gerð eftir leikritinu árið 1962 með hinni ítölsku Sophiu Loren í aðalhlutverki. Árið 1964 var Sartre veitt bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann afþakkaði pent af persónulegum ástæðum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þau Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre kynntust á námsárunum í París og felldu þau hugi saman. Ástarsamband þeirra olli umtalsverðu fjaðrafoki á sínum tíma. Þótti mörgum sambandið fullfrjálslyndislegt þar sem aðrir elskhugar komu við sögu og af sama kyni – í það minnsta í tilfelli de Beauvoir.

Simone de Beauvoir gaf út æviminningar sínar á sjöunda áratugnum (La force des choses). Þar segir hún frá eftirminnilegri tíu daga ferð til Íslands árið 1951 þar sem hún lýsir landi og þjóð með ákaflega skemmtilegum og lifandi hætti. Koma þar m.a. við sögu tveir „huldumenn“ á Akureyri sem hittu frönsku maddömuna. Hér á eftir fer lausleg þýðing úr æviminningum  Simone de Beauvoir sem birtist í Dagblaðinu Vísi-DV árið 1984.

„Engar járnbrautir var að finna þarna [á Íslandi] og ákaflega fáa vegi; í flugvélum var maður ekki bara samferða bændum með kjúklingabúr í fanginu heldur og íslensku sauðfé sem skipti um haga eftir árstíðum loftleiðis. Bændurnir líktust meira amerískum kúrekum en hinum venjulegu evrópsku bændum: vel klæddir og vel skæddir, búa i húsum með öllum nútímaþægindum og ferðast um á hestbaki.“

Skötuhjúin dvöldust á Hótel Borg. Á hótelinu voru fleiri erlendir gestir sem eðlilega veittu hinu heimsfræga pari athygli. Á meðan dvöl þeirra stóð í Reykjavík urðu ýmsir minna þekktir einstaklingar á vegi þeirra, t.a.m. franski landkönnuðurinn Paul-Emile Victor:

 „Hann sagði okkur frá eskimóunum, frá leiðöngrum sínum og reynslu sinni af fallhlífarstökki. Þarna voru líka tveir kvikmyndagerðarmenn — annan þeirra hafði ég hitt í Hollywood en hinn var fastagestur á Flore—sem voru að gera heimildarmynd. Við hittum líka son landkönnuðarins Scotts sem var að veiða villt dýr og Íslending sem var að safna steinum.“

Eftir að hafa dvalist í Reykjavík um nokkurra daga skeið fóru að kvisast út sögur um að þau Simone og Jean-Paul myndu heimsækja höfuðstað Norðurlands. Dagblaðið Dagur á Akureyri birti frétt á forsíðu þar sem spurt var hvort Sartre og Beauvoir væru væntanleg til bæjarins. Sennilega hefur blaðið ekki fengið fregnir af komu þeirra til Akureyrar því frekari skrif urðu ekki um málið af hálfu blaðsins. Engum blöðum er þó um það að fletta að hin franska de Beauvoir kom til Akureyrar ásamt Sartre. Skyldu þau hafa komið í myrkri?

 „Við fórum í flugvél til hinnar drungalegu Akureyrar og þaðan fór ég með flugbáti eftir hinni yndislegu norðurströnd allt til lítillar hafnar sem er alveg nyrst á eynni. Einu ferðafélagar mínir voru tveir skeggjaðir strákar: „Við erum á puttaferðalagi kringum Ísland,” sögðu þeir mér.“

Hverjir voru hinir skeggjuðu strákar sem ferðuðust með Madame de Beauvoir á flugbáti frá Akureyri?

Krufði fórnarlambið í heimahúsi í viðurvist morðingjans

Guðfinna Jónsdóttir fannst látin í Svartá við bæinn Svartárkot í Bárðardal. Hún var fertug að aldri og var vinnukona á bænum. Guðfinna hafði orðið ófrísk eftir mann að nafni Jón Sigurðsson sem var vinnumaður á öðrum bæ í nágrenninu. Jón var rúmlega tvítugur.

Tildrög málsins voru með þeim hætti að Guðfinna fékk leyfi húsmóðurinnar á bænum til að skreppa frá í stutta stund. Jón var þá nýlega farinn frá Svartárkoti eftir að hafa dvalist þar um nóttina. Ástæða fararinnar var fundur sem hún átti við Jón. Þegar ljóst var að Guðfinna myndi ekki skila sér heim á kristilegum tíma var farið að leita hennar. Fjölmennur hópur leitaði og bar leitin árangur þremur dögum síðar, þann 16. september 1891. Lík hennar fannst liggjandi á grúfu í ánni.

Líkið var flutt heim að bænum þar sem því var þegar komið fyrir í kistu. Grunsemdir voru uppi um að einhver hefði eitthvað á samviskunni og lét sýslumaður Benedikt Sveinsson, sem kominn var á vettvang, senda eftir héraðslækninum á Akureyri, Þorgrími Johnsen. Grunur beindist strax að hinum unga Jóni Sigurðssyni. Viku eftir að Guðfinna fannst látin kom Þorgrímur ríðandi að bænum og var hlutverk hans að kryfja líkið og komast til botns um hvað olli dauða Guðfinnu.

Þeim Benedikt og Þorgrími kom saman um að Jón skyldi verða viðstaddur krufninguna og var því sent eftir honum. Nú var allt til reiðu og sýslumaður afhenti Þorgrími líkið, þvegið og kistulagt. Var það síðan tekið upp úr kistunni, lagt á fjalir og líkskurðurinn framkvæmdur í viðurvist hins grunaða Jóns. Honum brá við því sem við honum blasti en sat þó hinn rólegasti á meðan krufningunni stóð. Öll þrjú hol líkamans voru opnuð, höfuð, brjóst og kviður. Niðurstaða héraðslæknis lá fyrir. Guðfinna dó köfnunardauða og hafði kafnað áður en hún féll í ána. Hún hafði því ekki drukknað eins og allt benti til á vettvangi atburðarins.

Sýslumaður fór nú ríðandi að þeim stað sem Guðfinna fannst og fann þar fótspor í jarðveginum. Hann stakk upp hnaus með sporinu, kom því haganlega fyrir í kassa og hafði með sér í Svartárkot. Hinn grunaði var beðinn um að afhenda skóna sem hann hafði klæðst daginn sem Guðfinna lést. Nú féllu öll vötn til Dýrafjarðar. Vinstri skór Jóns smellpassaði við fótsporið. Jón Sigurðsson var handtekinn, grunaður um morðið á Guðfinnu Jónsdóttur.

Jón játaði á sig morðið. Hann viðurkenndi að þegar hann kom að fundarstað þeirra Guðfinnu við ána hefði hún kastað á hann kveðju en hann hins vegar gengið upp að henni og látið til skarar skríða án þess að mæla orð. Hann tróð upp í hana vettlingum sínum og hélt fyrir vit hennar þar til hún hætti að anda. Hann henti líkinu í ána og reið aftur til vinnu.

Að játningu lokinni var Jón fluttur í varðhald til Húsavíkur. Þaðan var hann fluttur til fangavistar á Akureyri. Jón var dæmdur til dauða. Hann var síðar sendur til Kaupmannahafnar þar sem aftakan átti að fara fram. Heimildum ber þó ekki saman um hver örlög Jóns urðu eftir að hann kom til Kaupmannahafnar. Í ársbyrjun 1893 bárust þær fréttir að utan að Jón hefði fyrirfarið sér í fangaklefa sínum. Í einu af dagblöðum þessa tíma segir um sjálfsvígið; „hann renndi af alefli höfðinu á múrinn í varðhaldsklefanum, svo að hausinn molaðist og heilasletturnar fóru út um allt herbergið.“ Samkvæmt öðrum heimildum bjó Jón á Húsavík löngu eftir atburðina í Bárðardal og lést þegar langt var komið fram á 20. öldina.

Þorgrímur Johnsen héraðslæknir var fyrsti starfandi læknirinn við fyrsta sjúkrahús Akureyringa, Gamla spítala (Gudmanns Minde). Hann lést árið 1917.

Benedikt Sveinsson sýslumaður var faðir hins kunna skálds Einars Benediktssonar. Hann sat á Alþingi í 38 ár, frá árinu 1861 til dauðadags. Hann lést árið 1899.

Ekki fundust upplýsingar við gerð þessarar samantektar um hvar Guðfinna Jónsdóttir hvílir.

 

Þöndu netmöskvana á Akureyri og Wembley

Eins og mörgum er kunnugt léku knattspyrnustórveldin Manchester City og Manchester United á Akureyri í upphafi 9. áratugarins. Svo skemmtilega vill til að liðin tvö komust í úrslit ensku bikarkeppninnar, sitt hvort árið, um svipað leyti og þau sóttu Akureyri heim. Enn fremur skoruðu leikmenn knattspyrnufélaganna tveggja, sem sprikluðu á Akureyri, í bikarúrslitaleikjunum á Wembley. Annað liðið hampaði bikarmeistaratitlinum meðan hitt varð að lúta í gras gegn andstæðingnum.

Manchester City spilaði í úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 9. maí 1981 gegn Tottenham. Leikurinn endaði með janftefli 1-1 fyrir framan 100 þúsund áhorfendur. Tommy Hutchison skoraði í fyrri hálfleik fyrir City. Hann bætti við öðru marki í seinni hálfleik. Því miður fyrir hann var um sjálfsmark að ræða. Því varð að spila annan leik fimm dögum síðar og endaði hann með sigri Tottenham 3-2. Um það bil 92 þúsund áhorfendur sáu Steve McKenzie og Kevin Reeves skora mörk Manchester-liðsins.

Þremur mánuðum síðar voru markaskorararnir frá Wembley, þeir Hutchison og Reeves, mættir fyrir framan 3000 áhorfendur á Akureyri. Þór Akureyri gegn Manchester City. Leikurinn endaði með sigri City 5-0.

 

Síðla sumars 1982 kom Manchester United til Akureyrar til að spila vináttuleik gegn KA. Leikurinn endaði með sigri United 7-1. Í liði United á Akureyrarvelli voru meðal annarra hetjur eins og Bryan Robson, Norman Whiteside, Frank Stapleton og Ray Wilkins. Þeir skoruðu allir í úrslitaleikjum ensku bikarkeppninnar tæpu ári síðar þegar lið United lagði Brighton í tveimur leikjum á Wembley.

Þeir eru ekki margir Íslendingarnir sem hafa spilað gegn báðum stórliðunum frá Manchester, hvað þá hér á Fróni. Nokkuð óhætt er að fullyrða að Siglfirðingurinn Ásbjörn Björnsson er sá eini úr heimabyggð sem hefur afrekað að taka þátt í kappleikjum gegn United og City á Íslandi. Ásbjörn, sem þá lék með KA, var í landsliðshópnum sem tapaði 1-2 gegn Manchester City í Reykjavík, daginn eftir leikinn gegn Þór á Akureyri. Ásbjörn var og leikmaður KA þegar liðið spilaði leikinn fræga gegn Manchester United. Hann fiskaði víti seint í leiknum sem gaf eina markið sem Akureyrarliðin skoruðu í leikjunum tveimur. Manchesterliðin skoruðu tólf mörk gegn Akureyrarstórveldunum, Þór og KA. Til gamans má geta þess að Ásbjörn er faðir landsliðskonunnar í knattspyrnu, Katrínar Ásbjörnsdóttur.

 

 

 

 

Akureyringur varð vitni að blóðbaðinu í Batoche

Jón Júlíus Jónsson var fæddur á Akureyri 19. júlí árið 1858, sonur hjónanna Jóns Jónssonar járnsmiðs og Þórunnar Kristjánsdóttur. Jón Júlíus ólst upp í hópi systkina en yngri bróðir hans var hið kunna skáld Kristján Níels Júlíus Jónsson (Káinn). Jón Júlíus upplifði róstusama tíma á uppvaxtarárum sínum á Akureyri. Fjögurra ára gamall varð hann vitni að því þegar langþráður draumur margra samferðamanna hans á Akureyri varð að veruleika þegar bærinn fagnaði kaupstaðarréttindum árið 1862. Hver veit nema Jón litli hafi verið í grenndinni ári síðar þegar frú Vilhelmina Lever verslunarkona á Akureyri kaus fyrst allra kvenna á landinu í sveitarstjórnarkosningum? Á unglingsaldri missti hann móður sína og stuttu síðar (1876) sigldi hann yfir hafið til að hefja nýtt líf í Kanada. Þegar til Vesturheims var komið hóf Jón að starfa við járnbrautarlagningu. Árið 1880 giftist hann Jónínu Kernested frá Gimli. Þau eignuðust fimm börn.

Tæpum áratug eftir að Jón flutti erlendis gerðu indíánar uppreisn gegn yfirráðum hvíta mannsins á svæðum í Kanada þar sem Íslendingar höfðu tekið sér bólfestu. Jón Júlíus skráði sig í 95. herdeildina í Winnipeg sem ásamt öðrum herdeildum var send til að bæla niður uppreisnina. Jón Júlíus hélt ásamt u.þ.b. 20 öðrum Íslendingum á vígvöllinn undir forystu hershöfðingjans Frederick D. Middleton. Jón og herflokkur hans var í hópi þeirra fyrstu sem mættu indíánunum við Fish Creek föstudaginn 24. apríl.

Eftir að hersveitin hafði haldið fimm mílur vegar um morguninn af og til gegnum dálitla skógarrunna, heyrði hún skothríð framundan sér. Voru uppreistarmenn þar þá fyrir og sendu hersveitinni fyrstu kveðju sína. Hvatti Middleton herforingi sveitina þá til öruggrar framgöngu og var þá hlaupið fram all-langa leið. En þar kom, að hún stóð í dæld nokkurri með knédjúpu vatni, en skógar og hæðir umhverfis. Var þar allmargt af Indíánum og gægðust þeir fram undan trjánum og skutu hver í kapp við annan á hersveitina, sem stóð í pollinum, þreytt og móð eftir hlaupin. Engu síðar veitti hún hraustlega viðnám og sendi Indíánum kúlnahríð all-harða inn í skóginn. Stóð orusta þessi í þrjár eða fjórar klukkustundir. Hörfuðu þá Indíánarnir lengra inn í skóginn, en hermennirnir sóttu á eftir þeim með ópi og eggjunarorðum, þangað til herlúðurinn var þeyttur og þeir kallaðir til baka aftur, en þá sóttu Indíánar aftur á eftir þeim. Skeytti hersveitin þeim þá ekki, en færði sig upp úr dældinni og vatninu út á sléttur nokkurar lengra frá skóginum og nam þar staðar, þegar hún var svo langt komin, að kúlur óvinanna náðu henni ekki. Fjórir eða fimm menn féllu en 40 særðust og sumir til ólífis. Enginn Íslendinganna varð sár. (Almanak Ólafs S. Thorgeirsson, 1905, bls. 98-99)

Jón Júlíus og félagar hans dvöldust við Fish Creek í hálfan mánuð í herbúðum. Middleton hershöfðingi beið eftir hríðskotabyssu (Gatling Gun) en von var á henni frá Bandaríkjunum. Hægt var að skjóta 100 skotum á mínútu úr byssunni. Þegar stríðstólið barst skipaði Middleton hermönnum sínum að halda til Batoche í Saskatchewan þar sem Louis Riel, foringi uppreisnarmanna hélt sig. Laugardaginn 9. maí braust út bardagi mikill þar sem munaði um hríðskotabyssu Middleton.  Áfram var barist næstu daga. Úr röðum indíána féllu yfir 60 manns og nálægt 100 manns særðust. Jón Júlíus og félagar sluppu betur úr þessum mikla hildarleik. Átta af mönnum Middletons féllu og 42 særðust. Eftir orustuna við Batoche gáfust margir uppreisnarmenn upp og foringinn Riel var handtekinn þann 15. maí. Nokkrir úr röðum uppreisnarmanna neituðu þó að gefast upp og fór þar fremstur í flokki indíáninn Big Bear (Mistahi-maskwa). Hann gafst þó upp að lokum. Þann 14. júlí kom Jón Júlíus aftur heim til Winnipeg úr þessari miklu svaðilför ásamt öðrum úr her Middleton. Mikil hátíðarhöld brutust út í borginni og var hermönnunum fagnað sem hetjum. Íslendingar á svæðinu voru með sérstaka samkomu til heiðurs samlöndum sínum sem tóku þátt í leiðangrinum. Við það tilefni hélt Jón Júlíus ræðu þar sem hann deildi reynslu sinni af stríðsátökunum með samkomugestum. Af foringja uppreisnarmanna, Louis Riel, er það það að segja að hann var fundinn sekur um uppreist og dæmdur til hengingar.  

Jón Júlíus Jónsson lést að heimili dóttur sinnar í Winnipeg þann 9. september árið 1933. Hann var 75 ára gamall.

Flutti Haraldur frá Espihóli Englandsdrottningu yfir Atlantshafið?

Maður er nefndur Haraldur Sigurðsson. Hann fæddist á Espihóli í Eyjafjarðarsveit þann 8. nóvember árið 1843. Faðir hans var Sigurður Sigurðsson timbursmiður, móðir hans hét Sigríður Hallgrímsdóttir. Um miðja öldina fluttu hjónin til Akureyrar þar sem þau bjuggu í allmörg ár ásamt þremur sonum og þremur dætrum.

Haraldur var mikill ævintýramaður. Hann sigldi utan um tvítugt og var meira og minna á hafi úti næstu 28 árin. Árið 1886 dvaldist hann í Mexíkó þar sem hann tók þátt í að reka gripahjörð alla leið norður til Manitoba-fylkis. Svo skemmtilega vildi til að þegar ferðalaginu lauk í Kanada hitti hann bróður sinn Sigurð sem hann hafði ekki séð frá því hann sigldi frá Akureyri. Haraldur settist að í smábænum Kenora ásamt eiginkonu sinni og syni. Næstu áratugina smíðaði Haraldur 30 stór skip auk fjölda smærri báta. Hann tók þátt í kappsiglingum og var sigursæll á því sviði.

Árið 1864 var Haraldur háseti á dönsku freygátunni Jylland sem smíðuð hafði verið fjórum árum áður. Hann tók þátt í frægri sjóorustu hennar við eyna Helgoland í Norðursjó í stríði Dana við Prússland og Austurríki þar sem Danir sigruðu á eftirminnilegan hátt.  

Í tilefni af 90 ára afmæli sínu árið 1933 fór Haraldur yfir farinn veg og rifjaði upp eftirminnileg augnablik frá langri ævi. Auk orustunnar við Helgoland minntist hann siglingar sem hann fór með Jylland þann 7. mars árið 1863, fyrir nákvæmlega 155 árum. Siglt var frá Danmörku til Englands. Um borð, ásamt Haraldi háseta frá Espihóli, var ung dönsk prinsessa, Alexandra að nafni. Hún var á leið til London að hitta tilvonandi eiginmann sinn, Edward VII prins af Wales. Þau giftust þremur dögum síðar og að nokkrum árum liðnum var Alexandra orðin Englandsdrottning. 

Heimildum ber ekki saman með hvaða skipi Alexandra fór frá Danmörku þennan örlagaríka dag fyrir 155 árum. Ólíkt frásögn Haraldar virðist sem mörgum heimildum á veraldarvefnum beri saman um að fleyið sem flutti tilvonandi drottningu hafi ekki verið danska freygátan Jylland heldur enska konungssnekkjan Victoria and Albert II. Enginn vafi leikur þó á því að Jylland flutti konungsborna manneskju frá Danmörku árið 1874 og það til Íslands þegar Kristján 9. Danakonungur kom í heimsókn í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Hann hafði skjal meðferðis.

Ef þú getur stutt frásögn Haraldar um siglingu með dönsku prinsessunni Alexöndru um borð í Jylland árið 1863 máttu gjarnan hafa samband við Grenndargralið. Skrifa má athugasemd hérna við greinina, senda línu á facebook-síðu Grenndargralsins eða póst á póstfangið brynjar@akmennt.is.

 

Eftirfarandi facebook-færsla frá Nelson Gerrard birtist í kjölfar greinarinnar að ofan.

Haraldur became a ship Wright in Keewatin, Ontario, and built many large boats that plied the waters of the Lake of the Woods. He married late in life and had one adopted son, Edward Sigurdson, whose widow, Elizabeth, I visited in the 1970’s. They had an adopted daughter, who I believe is still living in Winnipeg. Haraldur had two brothers in North America, Sigtryggur, who was also a sailor for many years and settled in Dakota, and Sigurdur, last of Blaine, Washington. These brothers had two sisters who went to Denmark. One later moved to Norway, where she married and had family. The father of these siblings was Sigurdur Sigurdsson ‘timburmadur’ of Akureyri, whose brother Jónas was the father of Sigtryggur Jonasson and those siblings, most of whom settled in Canada. Another brother was Sigtryggur ‘Sterki’ of Husavik. They were the children of Sigurdur Jonsson, a farmer and gifted poet at Nedstaland in Oxnadalur, and his wife, Ingibjorg Benediktsdottir, whose mother was Gudrun Jonasdottir from Hvassafell, aunt and foster mother to the poet Jonas Hallgrimsson.

Grenndargralið 10 ára – stiklað á stóru í sögunni

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli í ár. Haustið 2008 fór Giljaskóli á Akureyri af stað með tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum í 8.-10. bekk. Tilgangurinn með verkefninu var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra utan skólatíma. Boltinn var farinn að rúlla. Síðuskóli tók þátt í verkefninu haustið 2009 ásamt Giljaskóla. Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010, Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli haustið 2011 og að lokum Naustaskóli haustið 2012. Haustið 2013 var fyrirkomulagi Leitarinnar breytt þegar boðið var upp á hana sem valgrein. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðastliðinn áratug og hefur Grenndargralið fært út kvíarnar jafnt og þétt á tímabilinu. Fleiri egg eru nú í sögu- og menningarkörfunni og fjölbreytnin eykst ár frá ári. Allt byrjaði þetta þó með leit grunnskólanemenda að hinu svokallaða Grenndargrali.

Leitin að Grenndargralinu

Leitin að Grenndargralinu hófst sem þróunarverkefni á unglingastigi með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð. Upphaf verkefnisins má rekja til Brynjars Karls Óttarssonar kennara og reynslu hans af vinnu með börnum og unglingum í samfélagsgreinum í grunnskóla. Sjálfur hafði hann ekki lagt sérstaka áherslu á grenndarkennslu áður en til nýja verkefnisins kom enda bæði skort tíma og kennsluefni við hæfi. Fyrir vikið var grenndarvitund nemenda við lok grunnskólanáms í mörgum tilfellum ábótavant að hans mati. Þá vantaði áþreifanlegri tengingu samfélagsfræðinnar við hið daglega líf nemenda og of lítið lagt upp úr því að færa kennsluna og námið út fyrir sjálfa kennslustofuna (Learning by doing e. John Dewey). Í Aðalnámskrá grunnskóla segir orðrétt: Leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl (bls. 204). Vissulega má ná slíkum markmiðum fram að einhverju leyti innan kennslustofunnar. Þau öðlast þó fyrst líf þegar viðfangsefnið er fært út fyrir hana, á vettvang atburðanna sem nemendur læra um hverju sinni. Með vangaveltur sem þessar hóf Brynjar undirbúningsvinnu að verkefninu sumarið 2008. Fór af stað ákveðin hugstormun sem miðaðist að því að svara nokkrum lykilspurningum. Ein þeirra var þessi: Hvaða leiðir eru færar við að auka áherslu á grenndarkennslu með virkri þátttöku nemenda og það á vettvangi þeirra sögulegu atburða sem kennslan nær yfir? Niðurstaðan varð Leitin að Grenndargralinu.

Hvað er Grenndargralið?

Annars vegar vísar heitið í þann fjársjóð sem leynist í heimabyggð í formi ævintýraríkrar sögu og fjölbreyttrar menningar. Hins vegar er um bikar að ræða sem þátttakendur Leitarinnar að Grenndargralinu keppast við að finna en hann er staðsettur á Akureyri.

Orðið er samsett, sett saman úr orðunum grennd og gral. Grennd er kvenkynsorð og hefur sömu merkingu og orðin nágrenni og/eða umhverfi. Orðið gral er ýmist notað í karlkyni eða hvorugkyni. Upphaf þess má rekja til notkunar á enska orðinu grail sem þýðir kaleikur og/eða heilagur bikar.

Grenndargralið dregur fram í sviðsljósið leyndar gersemar í sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt. Markmið þeirra sem taka þátt í Leitinni að Grenndargralinu er að finna Gralið. Þátttakendur þurfa að leysa hin og þessi verkefni, ráðgátur og þrautir. Með því öðlast þeir rétt til að leita að Gralinu sem er falið innan bæjarmarkanna. Verkefnið og nafn bikarsins eru tilvísun í hina klassísku goðsögu um hið heilaga gral Krists. Segir sagan að Jesús hafi drukkið af gralinu þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum.

Öldum saman hafa menn leitað gralsins. Ýmsar áhugaverðar kenningar um dvalarstað þess hafa verið settar fram t.d. í bókum og kvikmyndum. Þrátt fyrir mikla leit ævintýramanna víða um heim gegnum aldirnar hefur hvorki tekist að draga gralið fram í dagsljósið né sanna tilvist þess. Er sagan um hið heilaga gral uppspuni frá rótum eða leynist það einhversstaðar og bíður þess að líta dagsins ljós? Erfitt er um slíkt að spá. Grenndargralið er hins vegar enginn lygasaga. Það leynist á vísum stað í heimabyggð og bíður þess að ungir ævintýrarmenn leiti það uppi.

Umfang Leitarinnar vex

Sumarið 2010 urðu tímamót í sögu Leitarinnar. Þrennt kemur þar til. Við lok skólaárs var tilkynnt um viðurkenningu skólanefndar Akureyrarbæjar til handa Brynjari fyrir metnaðarfulla framkvæmd á verkefninu eins og segir í úrskurði dómnefndar. Ennfremur segir þar: Brynjar hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkefnið um Grenndargralið sem hann hefur fengið nemendur til að taka þátt í utan skólatíma. Í verkefninu felst mikil fræðsla m.a. grenndarfræðsla og saga. Leitin að grenndargralinu er byggt upp sem nokkurs konar ratleikur og er allur bærinn undir. Verkefni sem þessi efla skapandi og gagnrýna hugsun hjá nemendum auk þess sem reynir á þolinmæði og úthald þar sem leikurinn tekur nokkrar vikur. Frábært og metnaðarfullt framtak hjá Brynjari. Þá hlaut verkefnið styrk frá Sprotasjóði en sjóðurinn er á vegum Menntamálaráðuneytisins. Hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Styrkurinn var mikilvæg vítamínssprauta á þessum tímapunkti sem og viðurkenningin þegar staðið var frammi fyrir ákvörðun um að ýmist halda áfram þróun verkefnsins eða draga saman seglin. Að lokum var heimasíða tekin í notkun (www.grenndargral.is) en ekki þarf að fjölyrða um þá möguleika sem hún hefur fært umsjónarmönnum verkefnisins við þróun þess.

Árið 2011 hófst nýr kafli í sögu Grenndargralsins með greinaskrifum grunnskólanemenda. Meira um það seinna.