main image

Er Kristneshæli vettvangur glæpsins?

 

Í október kemur út ný bók eftir rithöfundinn Ragnar Jónasson. Bókin ber nafnið Hvítidauði og fjallar hún um morð á tveimur starfsmönnum á berklahæli rétt innan við Akureyri árið 1983. Þremur áratugum síðar rannsakar ungur afbrotafræðingur málið og kemur þá ýmislegt óvænt í ljós.

Enn sem komið er fást litlar fréttir af bókinni. Gaman verður að fylgjast með framvindunni og heyra frá höfundi hver sé kveikjan að söguþræði og sögusviði bókarinnar.

Morð á Kristneshæli hljómar spennandi lesning yfir heitum kakóbolla á aðventunni.

 

Önnur gömul smámynt finnst í Hlíðarfjalli

Grenndargralið sagði í ágúst frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls. Áhugaverðir munir fundust svo sem skothylki, leifar af sprengjum, flöskur, eldhúsáhöld o.fl.

Einn hlutur skar sig nokkuð úr en það er gömul íslensk mynt sem sennilega er slegin árið 1926. Peningurinn (2 aurar) lá á miðjum sléttum steini, eins og honum hafi verið komið þar haganlega fyrir líklegast fyrir tæpum 80 árum síðan.

Í rannsóknarleiðangri sem farinn var nú á dögunum á slóðir setuliðsins fannst önnur gömul smámynt. Peningurinn er nokkuð minni en sá sem fannst fyrr í sumar. Um er að ræða 10 aura en erfitt er að sjá hvaða ár myntin er slegin vegna þess hversu máð bakhliðin er.

Athyglisvert er að aurarnir tíu fundust aðeins nokkrum sentimetrum frá þeim stað sem fyrri myntin fannst í sumar. Vegna erfiðra veðurskilyrða reyndist ekki mögulegt að rannsaka svæðið nánar þar sem peningarnir tveir fundust. Án nokkurs vafa fer Grenndargralið á stúfana þegar tækifæri gefst. Hver veit nema meira klink eða aðrar gersemar úr eigu setuliðsmanna leynist í hlíðum Hlíðarfjalls?

Grenndargralið á haustráðstefnu KSA og SKAUST

Grenndargralið tók þátt í haustráðstefnu Kennarasambands Austurlands (KSA) og Skólastjórafélags Austurlands (SKAUST) föstudaginn 13. september síðastliðinn. Tilefni heimsóknarinnar var kynning á Leitinni að Grenndargralinu fyrir grunnskólakennara og skólastjóra á Austurlandi.

Mikill fjöldi skólafólks var samankominn í blíðunni á Egilsstöðum en ráðstefnan fór fram í Egilsstaðaskóla. Fyrir hádegi voru aðalerindi í aðalsal skólans og málstofur seinni partinn í kennslustofum.

Undirritaður, sem hafði veg og vanda af Leitinni fyrir grunnskólanemendur á Akureyri á árunum 2008-2017, sagði frá upphafi verkefnisins, þróun þess og möguleikum við grenndarkennslu. Góður rómur var gerður að Leitinni og lýstu kennarar yfir áhuga á að nýta sér fyrirkomulag hennar við grenndarkennslu.

Gaman var að hitta kennara á Austurlandi og finna fyrir áhuga þeirra á hugmyndafræði Leitarinnar að Grenndargralinu. Ekki síst þótti mér gaman að hitta Viðar Jónsson, gamlan félaga frá árunum í Kennaraháskólanum og Baldur Þór Finnsson gamlan umsjónarnemanda úr Giljaskóla sem nú kennir við Grunnskóla Reyðarfjarðar. Kærar þakkir fyrir góðar móttökur Egisstaðaskóli.

Brynjar Karl Óttarsson.

Nemendur Hrafnagilsskóla fræðast um Kristneshæli

Brynjar Karl Óttarsson, höfundur bókanna Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli og Lífið í Kristnesþorpi sem Grenndargralið gaf út árin 2016 og 2017 heimsótti Hrafnagilsskóla á dögunum. Tilefni heimsóknarinnar er þemaverkefni sem nemendur í 8. – 10. bekk vinna að þessa dagana í tengslum við sögu Kristneshælis og líf vistmanna á Hælinu á ,,berklatímanum”. 

Brynjar fræddi krakkana um berklana, aðdragandann að byggingu Kristneshælis, líf vistmanna og endalok Hælisins sem berklahælis. Sögustundin markaði upphaf verkefnisins sem kennarar krakkanna hafa undirbúið um nokkurt skeið. Munu krakkarnir m.a. búa til líkan af hælisbyggingunni og heimsækja Hælið – setur um sögu berklanna svo eitthvað sé nefnt.

Krakkarnir voru einstaklega áhugasamir um sögurnar hans Brynjars og spenntir fyrir því að halda áfram að kynnast þessari miklu sögu úr heimabyggð. Meðfylgjandi myndir tók Páll Þ. Pálsson kennari í Hrafnagilsskóla.

Fleiri munir frá setuliðinu finnast í Hlíðarfjalli

Fyrir ekki svo löngu birti Grenndargralið fréttir af fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls ofan Akureyrar. Grenndargralið hefur farið ófáar ferðir síðan þá og hafa nýjar minjar litið dagsins ljós. Ólíkt fyrra skiptinu þar sem æfingasvæði setuliðsins fannst virðist sem bækistöðvarnar sjálfar séu nú komnar fram þar sem tjöld hafa risið og eldstæði verið útbúin. Ýmis tæki og tól í tengslum við eldamennsku liggja á víð og dreif á svæðinu auk persónulegri muna svo sem rakakremstúbu, tölu úr flík og síðast en ekki síst gömul íslensk mynt. Hér getur að líta nokkrar myndir af nokkrum munanna auk skýringarmynda.

Sagnalist leitar að sjálfboðaliðum í viðtöl

Hefur þú áhuga á að skrásetja ævisögu þína eða vel valda æviþætti? Býr kannski ættingi þinn eða vinur yfir sögu sem er þess virði að skrá  og varðveita fyrir komandi kynslóðir? Sagnalist leitar að sjálfboðaliðum til að prufukeyra svokallaða grunn– og vinnslupakka.

Að lokinni úrvinnslu viðtals fá viðmælendur viðtalið til eignar án endurgjalds í formi hljóðskrár á USB-lykli auk innsláttar og þriggja útprentaðra eintaka af viðtalinu í sérmerktum möppum.

Allar nánari upplýsingar um framkvæmd viðtala Sagnalistar má finna á heimasíðunni www.sagnalist.is undir liðnum Sagan þín.

 

Vinsamlegast sendu tölvupóst á sagnalist@sagnalist.is ef þú hefur áhuga á að taka þátt.

 

Starfsfólk Sagnalistar.

Hjálparhellur fögnuðu opnun seturs um sögu berklanna

Sýningin Hælið setur um sögu berklanna opnar sunnudaginn 30. júní kl. 11:00. Sýningin verður opin daglega frá kl. 11-18 samhliða kaffihúsinu. Mikil vinna liggur að baki því að setja upp setrið sem og kaffihús að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit og hafa ófáir sjálfboðaliðar lagt hönd á plóg.

María Pálsdóttir hefur veg og vanda af uppbyggingunni í gömlu starfsmannahúsnæði sem áður tilheyrði Kristneshæli. Í tilefni af opnuninni bauð María til opnunateitis þar sem helstu hjálparhellur komu saman, nutu veitinga og skoðuðu sig um á sýningunni. 

Radio Grenndargral

Gleðilegt ár

Vetrarnótt

Sé eg inn frá Súlutindi

silfurkrýndan fjallahring,

eins og til að verjast vindi

verðir standa fjörðinn kring.

Sína mynd í sænum skoða

svanhvít Vaðlaheiðarlönd,

vestari álinn reifa roða

rjóð í austri skýa-bönd.

Blærinn þegir, blunda vogar.-

Breiða yfir land og sæ

norðurljósa nætur-logar

náttúrunnar helgiblæ.

Friður hvílir foldu yfir,

faðmar nóttin skygðan lög;

að eins heyrir alt sem lifir

andardrátt og hjartaslög.

Dýrðlegt er að sjá á sveimi

segulljósið stilt og rótt:

yfir landi út í geimi

undursýn er skreytir nótt.

Hjartað fyllir himins friður

hylling þegar fyrir ber,

og hinn mikli myndasmiður.

málverk fagurt sýnir þér.

                       B.E.

 

Ljóðið birtist í mánaðarriti sem gefið var út á Akureyri í upphafi síðustu aldar. Ritið hét Nýjar Kvöldvökur, útgefandi var Félag á Akureyri.  Ljóðið birtist í ritinu árið 1909 og því liðin 110 ár um þessar mundir frá birtingu þess. 

100 ára gömul jólahugvekja talar til þín

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Þetta stóð á einu brjefspjaldi, sem mjer var sent um jól. Mjer varð oftar en einusinni starsýnt á þessar línur, aðfangadagskvöldið það. Jeg fór að rifja upp hugsanir mínar og hvernig mjer hefði liðið ýms undanfarin jól. — Jólin geta verið svo margvísleg. — Stundum höfum við þá verið veik, eða staðið við sjúkrabeð eða dánarbeð vina okkar, stundum fjarri ættingjum og heimilum og pínst af heimþrá, stundum verið í miklu fjölmenni, stundum of einmana, — stundum glöð, stundum hrygg.  —

   En altaf höfum við reynt að setja einhvern jólablæ á umhverfið. Altaf hafa komið fram á varir okkar þá daga þessi sömu orð: Gleðileg jól! Hvar, sem menn mætast, er þetta ávarp á allra vörum. Það er skrifað, prentað eða skrautritað á hvert jólakort. Það blasir við okkur í auglýsingum blaðanna.

GLEÐILEG JÓL!

En finst ykkur það ekki stundum varhugavert, þegar sumt það besta, sem mannssálin geymir og fegurstu orðin sem komið geta fram á varir mannanna, þegar það alt verður næstum hljómlaust, bragðlaust, andlaust, — ekkert nema venja. Það verður svo oft, — því miður. Gleðileg jól! Aðeins að við gætum altaf sagt þessi orð þannig, að þau væru þrungin af sál, af andríki og af ástúð. Ef friður og hátíðablær jólanna fylti hug okkar allan, ef sál okkar væri á þeim augnablikum lognblíð lá, ljósanna föður skuggasjá, þá gæti líka hjartnæm ósk um góð og gleðileg jól risið eins og heit bylgja á hyldýpi hugans, liðið sem öflugur, hlýr straumur inn í hugskot vina okkar bæði nær og fjær.

   Það er oft gaman að fá sendibrjef, hamingjuósk, símskeyti, loftskeyti o. s. frv., en alt er það kalt og dautt, ef þessar bylgjur hugans rísa ekki á bak við og gefa því líf. Áreiðanlega verða þau, hugskeytin, tryggustu sambandsskeyti framtíðarinnar, skeytin sem okkur þyrstir mest eftir. Og áreiðanlega eru það hræringarnar í djúpi hugans, sem gefa öllu, sem umhverfis okkur er, sitt gildi. Það eru þær, þær einar, sem geta gert jólin gleðileg jól.              

   Viðhöfnin, skrautið, ljósadýrðin, jólagjafirnar, söngurinn, gleðskapurinn, kræsingarnar, jólasumblið alt, þessa getum við alls notið í ríkum mæli, en þó fari jólin framhjá, án þess að hræra nokkurn viðkvæman streng í hjörtum okkar, án þess að vera sönn jól. Sál okkar er samt ósnortin. Jeg veit það vel, að öll viðhöfnin og hátíðabrigðin á jólunum á að vera vegur til mannshjartans til að leiða þangað sannan jólafögnuð, fagrar jólahugsanir. En tekst það nú æfinlega? Verður það ekki stundum vegur fyrir alt aðrar hugsanir? Vekur það ekki upp ýms áhyggjuefni, margvíslegt umstang, sem stundum skilur lítið eftir, nema þreytu og sljóleika.              

   Einhver mesti kennimaður þessa lands byrjaði einu sinni jólaræðu sína eitthvað á þessa leið: „Ef við ættum vog, sem við gætum mælt með fagnaðartitring mannlegs hjarta, þá fyndum við hversu óumræðanlegan fögnuð boðskapur jólanna hefir vakið í brjóstum mannanna, kynslóð eftir kynslóð, nú í 19 aldir.“              

   Það er þessi fagnaðartitringur mannlegs hjarta, sem er insti kjarni jólanna. Þar sem hann býr, þar eru jól. Hafi hann ekkert snortið okkur höfum við ekki lifað nein jól. Og ef þú hefir glatt einhvern á jólunum þá er það þannig, að þjer hefir tekist að leiða þennan fagnaðartitring inn í sál hans. Á annan hátt er ekki hægt að gleðja á jólunum.              

   „Hvernig hefir þú skemt þjer um jólin?“ spyrja menn venjulega að aflíðandi jólum. En samviskuspurning hvers og eins, til sjálfs sín, ætti að vera eitthvað á þá leið, hvort fagnaðartitringur mannlegs hjarta hefði nokkurntíma gagntekið okkur um jólin. Það er enginn hjegómi. Dýpsta nautnin í lífinu, eina nautnin er þó sú, að geta orðið snortinn, hrifinn.     

         

   Jólahaldið í kaupstöðunum, veislurnar, heimboðin, dansinn, spilin og næturvökurnar á oft svo undarlega litið skilt við sanna jólagleði. Einstaka mönnum tekst þó að halda fullu jafnvægi, mitt í öllu því skvaldri. En stundum eru umræðuefnin valin svo innihaldslaus, ljettúðug og jafnvel spilt og óholl, að það eins og fennir í hug okkar yfir alt það hlýjasta, besta og næmasta, sem við eigum til í eðli okkar. En einmitt það hefði þó átt að geta sprungið út eins og blóm, sprungið út við jólaylinn og jólaljósin.               

   Ef til vill er hátíðahaldið sjálfa jóladagana í raun og veru vottur um takmörkun á okkar andlega þroska. Við erum þar að fjötra jólagleðina við vissa daga. En koma Krists í heiminn ætti að vera minnisstæð lengur en þá daga. Við þurfum altaf að eiga þau jól í sál okkar.              

   Og hvenær sem samúðaröldur frá sálum annara manna snerta okkur, hvenær sem okkur líður vel að einhverju leyti, — hvenær sem hugsunin um Krist, og þá, sem ásamt honum hafa göfgað heiminn, vekur fagnaðartitring í sál okkar, og einhver glampi af  dýrð hinnar helgu nætur leikur um hugskot vort, þá eru jól, hvað sem tímatalinu líður.              

   En hve mikill hátíðablær og viðhöfn, sem er í heimahúsum þínum og alstaðar, ef sál þín er ósnortin, þá eru engin jól. Ef þú vilt gera eitthvað vel, þá verður þú að leggja sál þína inn í það, líka inn í jólagleðina, sem þú veitir sjálfum þjer og öðrum.              

   Nú eru jólin að ganga í garð. 

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Ýmsra jóla, sem hafa auðgað okkur, og annara, sem hafa skilið okkur eftir jafn snauð og við vorum. Jólahaldið í þetta sinn verður eigi síður margvíslegt. Kjörin eru svo margháttuð og hugarþel okkar svo ólíkt. Víða á landi okkar, eigi hvað síst í höfuðstaðnum, eru nú svo mörg opin sár og blæðandi, sem koma jólanna gerir máske enn tilfinnanlegri. Það er svo víða skarð í vinahópinn, sem enn síður getur dulist, þegar búið er að tendra jólaljósin.         

   Og út í ófriðarlöndunum vitum við, að jörðin flýtur í blóði og tárum. Það er eins og við þorum varla að trúa því, að jólin geti, nema í einstöku stað, orðið gleðileg jól. Jú, við vonum að friðarboðskapur jólanna veki hreinna bergmál og fegurra samræmi í veröldinni nú, en þessi síðustu ár. Við vonum að nú loks sje alheimsfriður í nánd. Við vonum, að þessi jól geti í anda og sannleika lýst friði yfir blóði stokkna jörðina. Þessar friðarvonir hljóta að snerta hvert mannshjarta á þessum jólum, fylla okkur þakklæti og öruggri trú á nýja tíma. 

   Þrátt fyrir alt það umliðna og öll ógróin sár, getur það, betur en öll viðhöfn, gert okkur jólin þessi gleðileg jól.

1. B.

Hugvekjan, sem bar yfirskriftina Gleðileg jól!, birtist í Degi þann 23. desember árið 1918.