main image

Lokaspretturinn er hafinn!!!!!!

Senn lýkur Leitinni að Grenndargralinu 2017

Löng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á Gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar föstudaginn 11. nóvember kl. 18:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut nr. 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á Gralið. Það lið sem finnur Gralið sigrar í Leitinni að Grenndargralinu 2017. Sigurvegararnir taka Gralið með sér en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á Gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið.
Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa.

Gangi ykkur vel.

Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Leitarinnar

Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út

Bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Vinna við bókina hófst árið 2000 þegar heimildaöflun vegna lokaritgerðar til B.-ed prófs við Kennaraháskóla Íslands fór af stað. Ritgerð var skilað fullunninni vorið 2001 en heimildaöflun hélt áfram til ársins 2004. Þá var gert hlé á vinnunni en unnið áfram með hléum allt til ársins 2016 þegar vinna hófst af fullum krafti aftur. Mikið magn upplýsinga hefur verið safnað saman og er áhersla lögð á sögu sjúklinganna og daglegt líf þeirra.

Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Stuðst er við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin hefur að geyma fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.

Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Grenndargralið gefur út. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Næstsíðasta vika Leitarinnar 2017 farin af stað!

Í 9. þraut eiga þátttakendur að finna tveggja stafa tölur á tveimur stöðum á Akureyri og leggja þær hlið við hlið þannig að út komi fjögurra stafa tala. Í ljós kemur merkilegt ártal í sögu Akureyrar.

Sjón er sögu ríkari.

Elmar Dagur fann Karamellukrukkuna

Leitinni að Karamellukrukkunni er lokið. Það var Elmar Dagur Stefánsson úr Síðuskóla sem fann Krukkuna. Hópur krakka, sem hafði uppfyllt skilyrði til að taka þátt í leitinni, fékk afhenda vísbendingu klukkan 16:00 föstudaginn 13. október. 

Alls 15 krakkar og aðstoðarmenn þeirra lögðu af stað í leiðangurinn í fallegu haustveðri. Vísbendingin, sem var einskonar kort af Akureyri með myndagátum, leiddi þátttakendur og aðstoðarmenn þeirra að Lögmannshlíðarkirkju. Það tók Elmar og aðstoðarfólk hans ekki langan tíma að átta sig á kortinu og myndagátunum. Elmar var kominn með Krukkuna í hendur u.þ.b. 45 mínútum eftir að hópurinn lagði af stað frá Giljaskóla.  Glæsilegur árangur hjá Elmari Degi og aðstoðarfólki hans.

Að launum fyrir sigurinn fær Elmar hamborgaramáltíð og drykki fyrir tvo á Hamborgarafabrikkunni. Aðstandendur Leitarinnar kunna Fabrikkunni bestu þakkir fyrir um leið og þeir óska sigurvegaranum til hamingju. Nú tekur alvaran við því innan fárra vikna hefst kapphlaupið um Grenndargralið!

Karamellukrukkan er fundin!

Nánar síðar.

Leitin að Karamellukrukkunni

Nú þegar Leitin að Grenndargralinu 2017 er hálfnuð er við hæfi að hita upp fyrir lokaátökin. Það gerum við með því að leita að Karamellukrukkunni.

Þeir sem skila inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst (fyrir föstudaginn 13. október) öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu.

Hvað er í Karamellukrukkunni? Hvar er hún? Hverjir finna krukkuna og hljóta þann óvænta glaðning sem hún inniheldur?

Vísbending, sem leiðir til fundar Karamellukrukkunnar, verður afhend þátttakendum föstudaginn 13. október í stofu 302 í Giljaskóla kl. 16:00.

Hollvinir Kristneshælis bindast samtökum

 

 

 

Stofnfundur Hollvina Hælisins var haldinn að kvöldi fimmtudagsins 21. september sl. í húsnæði Verk-Smiðjunnar að Glerárgötu 34.  Hugmyndin að baki samtökunum er að mynda hóp áhugasamra einstaklinga og fyrirtækja/stofnana sem ætlað er að styðja við uppsetningu og rekstur á setri um sögu berklanna að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, kaffihúsi og mögulega gistiaðstöðu. Kristneshæli var vígt þann 1. nóvember árið 1927 og fagnar því 90 ára afmæli í ár. Hælið varð heimili fjölda einstaklinga á öllum aldri næstu áratugina. María Pálsdóttir leik- og athafnakona hefur unnið ötullega að því um nokkurt skeið að draumurinn um berklasafn á æskuslóðum hennar verði að veruleika. Hún hefur setið að samningaborðinu í því skyni að fá húsnæði á Kristnesi undir fyrirhugað safn. Samhliða þeirri vinnu hefur hún sankað að sér munum og öðrum heimildum sem tengjast sögu berklanna.

Tilgangur nýju samtakanna verður að styðja og styrkja stofnun og starfsemi setursins undir merkjum HÆLISINS  t.a.m. með fjárhagslegum og faglegum stuðningi og myndun tengslanets. Stefnt verður að því að efla tengsl við samfélagið og sérstaklega þá sem tengjast sögu berklanna með einum eða öðrum hætti. Samtökin eru hugsuð sem vettvangur fyrir kynningu á setrinu. Aðild að samtökunum er opin öllum sem vilja vinna að markmiðum þeirra enda greiði þeir árlegt félagsgjald, krónur 2.500 pr. einstakling.

Á fundinum skýrði María frá því hvernig hugmyndin varð til og með hvaða hætti mál hafa þróast síðan. Hún kynnti hugmyndir sínar um framsetningu á setrinu og lagði áherslu á að ekki yrði um „hefðbundið“ safn að ræða með myndum og texta á veggjum og munum á borðum eingöngu. Hún nefndi m.a. leikræna útfærslu þar sem hún og mögulega aðrir starfsmenn setursins klæddust búningum og færu í hlutverk vistmanna og starfsfólks Hælisins.

Á þriðja tug mættu á stofnfundinn. Sköpuðust nokkrar umræður um berklana og Kristneshæli. Regína Torfadóttir sagði frá reynslu sinni af dvöl á Hælinu en hún dvaldist þar um tveggja og hálfs árs skeið sem barn í byrjun sjötta áratugarins. Fleiri tóku til máls og sögðu reynslusögur.

Í lok fundarins var kosin stjórn Hollvina Hælisins. Kosningu hlutu Hildur Hauksdóttir framhaldsskólakennari, Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld, Jón Már Héðinsson skólameistari, Kristjana Aðalgeirsdóttir arkitekt og María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri. Ef allt gengur að óskum standa vonir til þess að setur um sögu berklanna að Kristnesi opni vorið 2018.

Önnur vika Leitarinnar 2017

Hér má nálgast þraut nr. 2.

Leitin að Grenndargralinu 2017 er farin af stað!!!

Fyrsta þraut er komin í loftið. Sjón er sögu ríkari.