main image

Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon

Séra Hannes Örn Blandon hóf störf sem sóknarprestur í Eyjafjarðarsveit árið 1986. Hann lét af störfum í upphafi árs 2019. Jólahugvekja Hannesar birtist í Morgunblaðinu þann 24. desember árið 1983.

Ég vildi óska, að ég fengi eitt augnablik að verða aftur sem lítið barn, fá að gleðjast með börnum mínum, geta fundið það sama og þau, spenninginn, tilhlökkunina, gleðina. Ég óska þess að ég fengi að gleyma því stundarkorn að ég er fullorðinn maður í heimi angurs ótta og kvíða.

Hugurinn leitar aftur í litla sumarbústaðinn í Kópavogi, sem mamma og pabbi keyptu handa okkur til að dveljast í meðan þau byggðu íbúðarhúsið. Á þeim tíma var Kópavogur varla þorp, það var langt til næstu nágranna og það voru engin götuljós. Þá áttum við drauga, huldufólk og jólasveina og það var auðvelt að komast í stemmningu þegar myrkrið grúfði yfir. Og á jólaföstu þegar æ erfiðara reyndist að koma litlum börnum í háttinn dugði vanalega að benda suður á Reykjanesfjallgarðinn þar sem Keili bar tígulega við næsturhimininn baðaður tunglsljósi og segja: „Nei, sjáiði hverjir þarna eru á ferð.“ Við rýndum suður á fjöllin, sáum ekkert en trúðum samt og drógum sængina upp yfir höfuð pínulítið titrandi i hjartanu.

Þorláksmessa var ægilega erfiður dagur. Hugurinn var blátt áfram að springa af huldufólki, jólasveinum og jólagjöfum svo varla var rúm fyrir jólabarn, við skildum ekki jólin.

Það var einmitt á Þorláksmessu fyrir hartnær 19 árum. Vindurinn nauðaði úti og hangikjötsilm lagði um húsið og það snarkaði vinalega í gömlum kolaofni í stofuhorninu og eitthvað vorum við systkinin hæg í leik okkar. Skyndilega hrukku allir í kút. Einhvers staðar úti í náttmyrkrinu var rekið upp nístandi vein og svo varð dauðakyrrð. Lengi og vel sagði enginn eitt einasta orð fyrr en einhver kvað uppúr: „Hamingjan hjálpi mér, hvað skyldi þetta hafa verið.“ Enn var kyrrt um stund. Þá var sem bankað væri lauslega á útidyrnar eitt eða tvö högg og síðan ekki meir. Pabbi hikaði andartak en gekk svo til dyra og leit út en þar var ekki nokkur sála. Nú var okkur öllum lokið. Skjálfandi af hræðslu skriðum við systkinin undir rúm og æptum: „Það er Kjötkrókur, það er Kjötkrókur, ekki lát’ann tak okkur.“ Og við höfðum ekki fyrr sleppt orðinu þegar enn var bankað eða öllu heldur klórað og nú var það mamma, sem tók af skarið og opnaði dyrnar. Og viti menn, inn stekkur stór grábröndótt kisa og tekur stefnuna beint að kolaofninum og leggst þar niður malandi. Við störðum á dýrið dolfallin. „Það er jólakötturinn,“ hvíslaði systir, og við gripum fastar í pilsfaldinn á mömmu. Nú varð lítill atburður. Kisa fór að baða út öllum öngum, hvæsti og mjálmaði á víxl, lá svo kyrr um stund og mældi á okkur bænaraugum. „Hún hlýtur að vera eitthvað lasin vesalingurinn,“ sagði stóri bróðir og kraup niður að henni. „Snertu hana þá ekki,“ hrópaði mamma. „Nei, sko, hún er kettlingafull,“ sagði stóri bróðir. Hvílík undur og stórmerki í augum barns. Kisa gaut þarna á stofugólfinu sjö fallegum kettlingum og fór að þvo þeim í gríð og erg. Það var seint farið að sofa þessa nótt. En næsta dag, er við vöknuðum, þá skildum við jólin, þegar okkur var sagt frá jólabarninu sem fæddist i Betlehem, sú frásögn birtist okkur í nýju ljósi.

Enn er runninn upp aðfangadagur, dagurinn, er ljósið kom í heiminn. „Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós (Jes. 9:2)“. Ný von hefur kviknað og ný veröld í fæðingu barnsins. En sums staðar ríkir ekki gleði heldur sorg. Einhvers staðar grætur barn móður sína og föður og annars staðar foreldrar börn sín. Myrkur örbirgðar, ofbeldis og einmanaleika leggst að mannkyni og hin illu öfl myrkranna fara hamförum við að slökkva þetta ljós vonarinnar en það mun aldrei takast.. . „Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ Og hann kemur til þín, sem syrgir látinn ástvin og einnig til þín, sem telur dagana sem eftir eru og hann kemur til þín, sem ert einmana og yfirgefinn. Og hann ber þjáningu okkar með gleði, ekkert mannlegt er honum óviðkomandi. Við erum hvött til að gera þessi jól að hátíð friðar og farsældar.

Við erum hvött til að taka höndum saman kristnir menn um víða veröld og efla einingu og sáttfýsi meðal þjóða og það gerum við ekki með sverði í hönd heldur með kærleikann að vopni. Því skulum við taka undir kveðju biskupsins okkar og halda á lifandi ljósi út við glugga í kvöld, sem tákn um vináttu og frið við alla menn nær og fjær.

Ég sendi kveðju mína öllum þeim sem eru fjarri heimilum sínum í dag. Og ég bið Guð að blessa þá, er sinna verða vandastörfum í þágu almenningsheilla, lögreglumönnum og hjúkrunarfólki.

Guð gefi öllum landsmönnum gleðileg jól.

 

Hannes Örn Blandon. (1983, 24. desember). Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon. Morgunblaðið, bls. 7.

Konan sem skuggi föðurins faldi – inngangsorð

Aðsend grein frá Ameríku 

„Vegna snjóþyngsla höfum við verið innilokuð í fimm daga. Okkar stutta blindgata bíður á meðan stærri götur eru hreinsaðar. Þetta hefur sína kosti, t.d. vilja nágrannar ólmir hjálpa hver öðrum og inni er notalegt og nógur tími til að lesa og hlusta á tónlist. Áðan hljómaði Vor (Thrush of Spring) eftir Sinding af geisladiski en einmitt það lag minnir mig á, þegar það með kátínu ruddist út um opna glugga verkamannabústaðanna á góðviðrisdögum þegar ég flýtti mér heim eftir Ásvallagötunni til að borða hádegismat. Elsta minning mín er þegar ég horfði á marga karlmannsfætur sparka logandi kleinupotti út dimm göng og út í snjó. Sú næstelsta er að ég horfði á konu í aðskornum, ljósköflóttum reiðfötum tala hratt og ákveðið skrítið mál við sína fylgdarmenn, sem lögðu á marga hesta í tröðunum á Hallgeirseyjarhjáleigu.“

Svo skrifar hálfáttræð kona í aðsendri grein í víðlesnu dagblaði í lok 20. aldar. Greinina skrifaði hún á heimili sínu í Bandaríkjunum þar sem hún hafði búið frá árinu 1949 þegar hún flutti frá Íslandi með eiginmanni sínum. Hafði hann gegnt herþjónustu hér á landi, þau fellt hugi saman og gengið í hjónaband á stríðsárunum.

Í greininni hugsar Adda, eins og hún var kölluð í vinahópi sínum í Ameríku, hlýlega til heimahaganna á Suðurlandi og uppvaxtaráranna þar. Í niðurlagi greinarinnar víkur hún aftur að minningunni um konuna í aðskornu, ljósköflóttu reiðfötunum sem talaði framandi tungumál. Konan, sem var erlendur ferðamaður, hafði dvalist næturlangt hjá fjölskyldu Öddu á ferðalagi sínu um Ísland á þriðja áratugnum. Þrátt fyrir ungan aldur mundi Adda eftir kynnum sínum af konunni sem hún gat nafngreint en vissi þó lengi vel engin frekari deili á.

Um það bil 74 árum síðar komst Adda yfir ævisögu „eins af merkilegustu Englendingum síðustu aldar“. Nafn mannsins (sem var hið sama og „huldukonunnar“ á Suðurlandi) og vitneskjan um að dóttir hans hafði sótt Ísland heim á millistríðsárunum vakti forvitni Öddu. Forvitninni var svalað á bls. 679. „Nú er ég þakklát fyrir að hafa lesið þessa prýðilegu bók og um leið uppgötvað að ég sá Miss Morris 1924, 62 ára gamla.“

Grenndargralið heldur áfram að grafa upp sögu konunnar sem um langt skeið féll í skuggann á föður sínum en hefur hin seinni ár öðlast þá athygli á heimsvísu sem hún á skilið. Um tíma dvaldist hún á Akureyri, á heimili hjóna sem héldu sambandi við hana allt til dauðadags. Sagan er spennandi eins og margar gleymdar gersemar í sögu heimabyggðar. Adda, eða Hallfríður Guðbrandsdóttir Schneider eins og hún hét fullu nafni, kom Grenndargralinu á sporið. Hún lést á jólanótt 2009. Greinina endar hún á þessum orðum.

„Það bólar ekkert á snjóýtum, svo nú hlusta ég á diskinn Vikivaki og byrja á nýrri bók.“

Snjómoksturstækin eru komin í Þorpið. Allt horfir til betri vegar á götunum og rétt að byrja á fyrsta kafla um konuna sem skuggi föðurins faldi.

 

Prófessor við HÍ segir klumpana í Hlíðarfjalli líkjast bræðslugjalli

Við söfnun stríðsminja í Hlíðarfjalli í sumar fundu varðveislumenn minjanna ummerki um mögulegar mannvistarleyfar í hlíðum fjallsins sem rekja má svo langt aftur sem til miðalda. Fjöldi grunsamlegra gjallklumpa vakti athygli leiðangursmanna og vöknuðu strax upp spurningar um hugsanlega járnvinnslu á svæðinu.

Prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands hefur verið í sambandi við varðveislumenn minjanna og skoðað myndir af vettvangi. Hann álítur myndirnar benda til þess að þarna hafi járnvinnsla farið fram fyrr á öldum og hefur óskað eftir að fá að skoða aðstæður í fylgd leiðangursmanna næsta sumar.

„Það er laukrétt að þetta lítur út eins og bræðslugjall og væri áhugavert að skoða staðinn sem er ekki síst áhugaverður út af því hvað þetta virðist vera hátt uppi. Ég myndi nú ramba á staðinn eftir loftmyndinni en ef þú hefur tök á að sýna mér ummerkin næsta sumar þá væri það gaman“

Sjá einnig Býr Hlíðarfjall yfir ævafornu leyndarmáli?

 

Sprengjusérfræðingar við hættumat í Hlíðarfjalli

30. 09. 2019. Í gær fann Grenndargralið torkennilegan hlut í hlíðinni ofan skíðahótelsins í Hlíðarfjalli sem minnti á framhluta sprengju. Myndir voru teknar á vettvangi en hluturinn látinn afskiptalaus með öllu ef ske kynni að um virka sprengju væri að ræða.

Herði Geirssyni, sérlegum ráðgjafa Grenndargralsins um stríðsminjar, var tilkynnt um fundinn. Eftir að hafa skoðað mynd af hlutnum hafði Hörður samband við sprengjusérfræðing hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem var staddur á Akureyri. Ekki var hægt að meta aðstæður á staðnum hættulausar og var því mat hans að rétt væri að kanna vettvanginn nánar.

Í dag héldu tveir sprengjusérfræðingar frá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar upp fjallið í fylgd Grenndargralsins og Lögreglunnar til móts við hinn dularfulla hlut. Eftir að sérfræðingarnir höfðu grafið varlega frá hlutnum og ráðið ráðum sínum lá niðurstaða fyrir. Kveikibúnaður fyrir sprengikúlu úr loftvarnarbyssu frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar, óvirkur og engin hætta á ferð.

Mat sprengjusérfræðinganna var að líklegast væri sjálf sprengikúlan í grennd við þann stað þar sem kveikibúnaðurinn fannst. Hún gæti þó hafa grafið sig niður í jörðina þegar hún skall niður. Að sögn sérfræðinganna voru sprengjur sem þessar með tímastilli. Hægt var að reikna út tímann sem það tók sprengjuna að svífa og stilla hana þannig að hún springi á ákveðnum tíma eftir flugtak.

 

Sprengjusérfræðingarnir gerðu kveikibúnaðinn upptækan en þeir munu hafa hann með sér suður yfir heiðar. Þar munu þeir yfirfara hann frekar áður en „varðveislumenn minjanna“ fá hann í safn stríðsminjanna sem þeir hafa safnað saman í sumar við rætur Hlíðarfjalls.

Á leið niður hlíðina komu sprengjusérfræðingarnir auga á gýg sem þeir töldu af ummerkjum að dæma að væri eftir sprengju frá seinni heimsstyrjöldinni. Þeir skoðuðu hann og töldu að áhugavert gæti orðið að renna yfir hann með málmleitartæki. Sennilega myndi þó tækið væla meira og minna allan tímann í hlíðunum ofan skíðahótelsins vegna fjölda mögulegra sprengjubrota á víð og dreif á svæðinu eftir setuliðið. Mest eru það hættulausir gripir sem engum stafar hætta af. Ljóst er þó að fara skal að öllu með gát þegar gengið er á slóðum setuliðsmanna þar sem sprengju- og skotæfingar fóru fram og torkennilegir hlutir finnast á göngunni. Virkar sprengjur finnast enn í jörðu vítt og breitt um landið.

Þriðja smámyntin finnst við lækjarsprænu í Hlíðarfjalli

28.09. 2019.

Grenndargralið hefur á undanförnum misserum skýrt frá fundi tveggja smámynta við rætur Hlíðarfjalls, á slóðum setuliðsmanna á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Varðveislumenn minjanna fundu þriðju smámyntina í dag, 5 aura pening, sleginn árið 1931.

Myntirnar tvær sem komu í leitirnar í sumar fundust nálægt hvorri annarri á stað í fjallinu þar sem herinn hafði bækistöðvar meðan stórskotaliðsæfingar fóru þar fram. Það sem er óvenjulegt við fund dagsins er staðsetningin. Peningurinn fannst við lækjarsprænu nálægt bækistöðvunum en þó ekki innan þess svæðis sem flestar minjarnar hafa fundist. Kannski enn ein vísbendingin um hið víðfeðma svæði sem herinn lagði undir sig ofan Akureyrar á stríðsárunum.

Annað sem vakti athygli var fundur tveggja skothylkja neðarlega í hlíðinni nálægt skíðahótelinu. Fyrr í sumar fannst skothylki á þessum slóðum þar sem það lá makindalega á jörðinni eins og því hafi verið komið haganlega fyrir eða einhver göngumaðurinn misst það úr malpokanum sínum á leið niður úr fjallgöngu. Leiðangur dagsins tekur af allan vafa um það að skothylkin hafa legið þarna um langt skeið því önnur patrónan var að miklu leyti neðanjarðar, aðeins efsti hlutinn stóð upp úr jörðinni.

Meðal minja sem varðveislumenn höfðu með sér til byggða í dag voru fleiri skothylki, glerbrot, járnstykki og forláta keðja. Nú styttist í snjóalög í hlíðum Hlíðarfjalls. Ljóst er að næsta vor bíður varðveislumanna minjanna vinna við að bjarga gersemum úr sögu og menningu heimabyggðar eftir frostlyftingar vetrarins. Öruggt má telja að ekki sé allt komið fram. Þetta skilar sér þó allt til baka á endanum.

Býr Hlíðarfjall yfir ævafornu leyndarmáli?

Grenndargralið hefur í sumar greint frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls og varðveislu þeirra. Óhætt er að segja að sagan af stríðsminjunum í Hlíðarfjalli haldi áfram að vinda upp á sig.

Við nánari athugun í fjallinu hafa komið fram vísbendingar um athafnir manna á svæðinu sem um ræðir, mun fyrr en á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Er nú til athugunar hvort jafnvel megi rekja aðstæður á vettvangi til járnvinnslu fyrri alda.

Enn sem komið er verða allar slíkar hugmyndir að teljast vangaveltur einar. Ljóst er þó að rannsókna á svæðinu er þörf. Ekki eru öll kurl komin til grafar. Grenndargralið mun fylgja málinu allt til enda.

Leiðangur til bjargar stríðsminjum í Hlíðarfjalli

Þrír leiðangursmenn á vegum Grenndargralsins og Sagnalistar, þeir Arnar Birgir Ólafsson, Brynjar Karl Óttarsson og Níels Ómarsson, hafa lokið störfum í haust við að bjarga stríðsminjum frá seinni heimsstyrjöldinni úr hlíðum Hlíðarfjalls. Þeir félagar lögðu af stað í leiðangur fimmtudaginn 19. september, vopnaðir myndavélum, korti, skóflu og öðrum verkfærum, bakpokum og sérútbúnum kössum fyrir smáhluti og ýmsa viðkvæmari muni. Að höfðu samráði við Minjastofnun og Minjasafnið á Akureyri var ákveðið að koma minjunum sem Brynjar fann fyrr í sumar í öruggt skjól, með varðveislu í huga.

Mikið magn smámuna fannst í leiðangrinum sem nú bætist við þá sem áður höfðu komið fram í dagsljósið. Myndin af dvöl setuliðsmannanna við rætur Hlíðarfjalls skýrist smám saman með nýjum munum og svæðið þrengist. Þó er mörgum spurningum ennþá ósvarað. Leiðangurinn fann t.a.m. skothylki á mun stærra svæði en fyrri leiðangrar. Þónokkur hylki fundust hátt upp í sjálfri fjallshlíðinni, töluvert ofan við þann stað sem flest hylkin hafa hingað til fundist á. Þá vekur mikill fjöldi kolamola og grófra hraunmola sem líta út eins og úrgangur úr bræddu málmgrýti vítt og breytt um svæðið upp spurningar.

Aðstæður til leitar voru góðar, talsverður lofthiti, þurrt og bjart. Eftir rúmlega fjögurra klukkustunda leit og kaffipásu var haldið af stað niður hlíðina með stríðsgóssið. Athygli vakti að á niðurleið fannst skothylki steinsnar frá skíðahótelinu.

Nú á aðeins eftir að stilla mununum upp, flokka þá, mynda og skrá áður en þeim verður komið fyrir í geymslu. Hvað verður um þá eftir það getur tíminn einn leitt í ljós.

Er Kristneshæli vettvangur glæpsins?

 

Í október kemur út ný bók eftir rithöfundinn Ragnar Jónasson. Bókin ber nafnið Hvítidauði og fjallar hún um morð á tveimur starfsmönnum á berklahæli rétt innan við Akureyri árið 1983. Þremur áratugum síðar rannsakar ungur afbrotafræðingur málið og kemur þá ýmislegt óvænt í ljós.

Enn sem komið er fást litlar fréttir af bókinni. Gaman verður að fylgjast með framvindunni og heyra frá höfundi hver sé kveikjan að söguþræði og sögusviði bókarinnar.

Morð á Kristneshæli hljómar spennandi lesning yfir heitum kakóbolla á aðventunni.

 

Önnur gömul smámynt finnst í Hlíðarfjalli

Grenndargralið sagði í ágúst frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls. Áhugaverðir munir fundust svo sem skothylki, leifar af sprengjum, flöskur, eldhúsáhöld o.fl.

Einn hlutur skar sig nokkuð úr en það er gömul íslensk mynt sem sennilega er slegin árið 1926. Peningurinn (2 aurar) lá á miðjum sléttum steini, eins og honum hafi verið komið þar haganlega fyrir líklegast fyrir tæpum 80 árum síðan.

Í rannsóknarleiðangri sem farinn var nú á dögunum á slóðir setuliðsins fannst önnur gömul smámynt. Peningurinn er nokkuð minni en sá sem fannst fyrr í sumar. Um er að ræða 10 aura en erfitt er að sjá hvaða ár myntin er slegin vegna þess hversu máð bakhliðin er.

Athyglisvert er að aurarnir tíu fundust aðeins nokkrum sentimetrum frá þeim stað sem fyrri myntin fannst í sumar. Vegna erfiðra veðurskilyrða reyndist ekki mögulegt að rannsaka svæðið nánar þar sem peningarnir tveir fundust. Án nokkurs vafa fer Grenndargralið á stúfana þegar tækifæri gefst. Hver veit nema meira klink eða aðrar gersemar úr eigu setuliðsmanna leynist í hlíðum Hlíðarfjalls?

Grenndargralið á haustráðstefnu KSA og SKAUST

Grenndargralið tók þátt í haustráðstefnu Kennarasambands Austurlands (KSA) og Skólastjórafélags Austurlands (SKAUST) föstudaginn 13. september síðastliðinn. Tilefni heimsóknarinnar var kynning á Leitinni að Grenndargralinu fyrir grunnskólakennara og skólastjóra á Austurlandi.

Mikill fjöldi skólafólks var samankominn í blíðunni á Egilsstöðum en ráðstefnan fór fram í Egilsstaðaskóla. Fyrir hádegi voru aðalerindi í aðalsal skólans og málstofur seinni partinn í kennslustofum.

Undirritaður, sem hafði veg og vanda af Leitinni fyrir grunnskólanemendur á Akureyri á árunum 2008-2017, sagði frá upphafi verkefnisins, þróun þess og möguleikum við grenndarkennslu. Góður rómur var gerður að Leitinni og lýstu kennarar yfir áhuga á að nýta sér fyrirkomulag hennar við grenndarkennslu.

Gaman var að hitta kennara á Austurlandi og finna fyrir áhuga þeirra á hugmyndafræði Leitarinnar að Grenndargralinu. Ekki síst þótti mér gaman að hitta Viðar Jónsson, gamlan félaga frá árunum í Kennaraháskólanum og Baldur Þór Finnsson gamlan umsjónarnemanda úr Giljaskóla sem nú kennir við Grunnskóla Reyðarfjarðar. Kærar þakkir fyrir góðar móttökur Egisstaðaskóli.

Brynjar Karl Óttarsson.