main image

Von á stafsmönnum sprengjudeildar eftir helgi

Við fluttum fréttir af því á dögunum að mikið af sprengjuleifum hefðu fundist í Hlíðarfjalli við gerð hlaðvarpsþátta um fjallið á stríðsárunum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Landhelgisgæslan komst á snoðir um fundinn í gegnum fréttamiðla. Í kjölfarið hafði hún samband við Brynjar Karl Óttarsson sem fann sprengjubrotin og tjáði honum að rétt væri að hafa vaðið fyrir neðan sig og rannsaka svæðið. Von er á tveimur starfsmönnum sprengjudeildar Gæslunnar eftir helgi til að fara yfir æfingasvæði setuliðsins í Hlíðarfjalli í því skyni að ganga úr skugga um að ekki leynist virkar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni við rætur fjallsins.

Hlaðvarpsþættirnir Leyndardómar Hlíðarfjalls verða sendir út á hlaðvarpssíðu Grenndargralsins afmælishelgi Akureyrarbæjar, dagana 27. – 30. ágúst.

Dagskrárgerðarmaður gekk yfir sprengjusvæði í Hlíðarfjalli

Mikið magn sprengjuleifa fannst á dögunum á litlu svæði í Hlíðarfjalli á meðan heimildaöflun stóð vegna hlaðvarpsþáttaraðar um dvöl setuliðsins í fjallinu á hernámsárunum. Í sumum tilfellum er erfitt að greina hvort einungis er um sprengjubrot að ræða eða ósprungnar sprengjur. Breskar sprengjur af gerðinni mortar eru áberandi á svæðinu, hólkur sem inniheldur sprengiefni og stél. Engin hætta stafar af stélunum einum og sér en ef hólkurinn er fastur á hefur sprengjan ekki sprungið. Virkar sprengjur frá stríðsárunum finnast reglulega. Ef þær lenda á mjúku undirlagi t.d. mosa, eiga þær það til að springa ekki. Það flækir málið að umhverfið í kringum sprengjuleifarnar er þannig að erfitt getur reynst að sjá hvort hólkurinn er sprunginn eða ekki því gras og mosi getur hulið hluta sprengjunnar. Á svæðinu er berg í bland við gras og mosa og því varasamt að ganga þar um. Staðurinn er ekki í alfaraleið, hann er við rætur fjallsins, norðan við skíðasvæðið í svokallaðri Hrappstaðaskál. Alltaf er möguleiki á mannaferðum – svo vinsamlegast farið varlega á ferðum ykkar um svæðið. Ekki taka upp torkennilega hluti, takið mynd ef þið teljið að mögulega sé um sprengju að ræða og hafið samband við lögregluna.

Hlaðvarpsþættir um leyndardóma Hlíðarfjalls

Grenndargralið vinnur þessa dagana að þáttagerð í samstarfi við Sagnalist fyrir hlaðvarp / podcast. Um er að ræða fjóra þætti, hver um sig 35-45 mínútur að lengd, með áherslu á veru setuliðsins í Hlíðarfjalli á hernámsárunum. Í þáttunum verður m.a. rætt við sérfræðinga og fólk sem þekkir til sögunnar af eigin raun, rýnt í stríðsminjar sem fundist hafa í fjallinu og sagt frá Varðveislumönnum minjanna sem hafa farið fjölmarga leiðangra upp til fjalla á slóðir setuliðsins. Brynjar Karl Óttarsson er höfundur þáttanna.

„Ég tala stundum um gersemar í sögu og menningu heimabyggðar. Gersemar sem bíða þess að verða grafnar upp – munir og sögur. Eitthvað sem gerðist fyrir langa löngu á stað sem við höfum jafnvel fyrir augunum á hverjum einasta degi? Kannski mannvistaleifar sem leynast ofan í jörðinni – eða á yfirborðinu – og bíða þess að koma fram í dagsljósið, kannski eftir áratugi – eða jafnvel lengri tíma? Eitthvað sem var allan tímann nánast í túnjaðrinum heima. Eða vísbendingar um mannaferðir sem enginn núlifandi maður kann skil á og engar prentaðar heimildir eru til sem styðja við það hvað nákvæmlega fór fram. Þetta finnst mér allt spennandi pælingar sem urðu kveikjan að þáttunum um gersemarnar í Hlíðarfjalli“

Þættirnir Leyndardómar Hlíðarfjalls fara í loftið á hlaðvarpssíðu Grenndargralsins í ágúst næstkomandi.

Þegar Focke-Wulf var skotin niður við Grímsey

Fimmtudaginn 5. ágúst 1943 voru sjómenn á nokkrum bátum að veiðum við Grímsey þegar þeir urðu vitni að orrustu í háloftunum milli tveggja amerískra flugvéla af gerðinni P-38 og þýskrar vélar af gerðinni Focke-Wulf.

Veður var með besta móti þennan fimmtudagseftirmiðdag fyrir 77 árum síðan. Þýska vélin flaug lágt þegar hún sveif framhjá trillunum en hækkaði flugið þegar hún nálgaðist Grímsey. Tvær amerískar orrustuflugvélar birtust, veittu þeirri þýsku eftirför og hófu skothríð. Þýska vélin svaraði í sömu mynt og hæfði aðra P-38 vélina svo hún varð að snúa til baka og lenda á Melgerðismelum í Eyjafirði. Flugmenn vélarinnar sem varð eftir, þeir William E. Bethea og Richard M. Holly, héldu skothríðinni áfram. Fór svo að þýska vélin hrapaði í sjóinn ekki svo langt frá þeim stað sem sjómennirnir voru að draga björg í bú.

Í ævisögu sinni Einu sinni var sem kom út árið 1971 segir Sæmundur Dúason frá því þegar hann var staddur í Grímsey þegar flugorrustan yfir Grímsey átti sér stað. Sæmundur var ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum að þurrka töðu á túninu en hafði skroppið inn í kaffi þegar miklar drunur heyrðust utan frá, líkt og þrumuhljóð:

„…Hver þruman kvað við eftir aðra úr hríðskotabyssum flugvélanna. Og það leið ekki á löngu, þar til þýzka vélin hrapaði.[…] Áhöfnin, sex eða sjö manns, komst í gúmmíbát. Nokkrir fiskibátar úr Grímsey voru þarna nærri, sem vélin kom niður. Grímseyinga fýsti að bjarga skipbrotsmönnunum. En þeim var varnað þess.[…] Hvert skipti sem Grímseyingar gerðu sig líklega til að leggja að gúmmíbátnum, helltu þeir í flugvélinni úr vélbyssum sínum rétt fyrir framan stefni bátanna. Tveir amerískir setuliðsmenn voru í eyjunni. Þeir fengu skeyti um að bjarga Þjóðverjunum. Þeir brugðu auðvitað við af skyndingu, fengu léðan bát og menn til að fara með sér. En áður en þeir höfðu lagt frá, fengu þeir annað skeyti: „Farið ekki, þeir eru vopnaðir.“[…] Að sögn Grímseyinga, sem sáu þá í gúmmíbátnum, voru þetta allt menn, sem meira minntu í útliti á saklausa æskumenn an aldnar stríðshetjur…“

Ameríska flugvélin sveimaði yfir gúmmíbátnum fram eftir degi, þar til skip kom með setuliðsmenn innanborðs sem handsömuðu Þjóðverjana og fluttu þá í land. Flugmennirnir Bethea og Holly voru heiðraðir fyrir afrek sín. Áhöfn þýsku Focke-Wulf vélarinnar, þeir Holtrup, Karte, Richter, Lehn, Teufel, Klinkman og Brand lifðu hildarleikinn af. Frá Íslandi voru þeir sendir í fangabúðir í Englandi.

„…Þó að loftorustan, sem hér var frá sagt, yrði sú eina að Grímseyingum ásjáandi, svo að mér væri kunnugt, var langt frá því, að hún yrði hið eina, sem minnti þá á styrjöldina. Oft voru herflugvélar á flugi nálægt eyjunni. Ekki sjaldan heyrðust drunur í fjarska. Má vera að nokkrum sinnum hafi verið um náttúrulegt þrumhljóð að ræða. En ég ætla, að oftar hafi þessi hávaði verið skotdrunur eða dunur frá sprengjum…“

 

 

 

 

 

 

Heimildir:

Sæmundur Dúason. (1971). Einu sinni var. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/109-fw-200-condor-north-of-grimsey-august-5-1943

Morgunblaðið, 11. ágúst 1943

Íslendingur, 13. ágúst 1943

Bréf kirkjusmiðsins fannst undir gólfinu 80 árum síðar

Í ár eru 80 ár liðin frá vígslu Akureyrarkirkju. Fyrsta kirkja Akureyringa var hins vegar vígð árið 1863. Hún stóð þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú, í einum elsta bæjarhluta Akureyrar. Kirkjusmiður var Jón Chr. Stephánsson. Við vígslu Akureyrarkirkju árið 1940 var gamla kirkjan afhelguð. Breski herinn tók hana til umráða og nýtti sem geymslu á hernámsárunum. Þegar gamla kirkjan var rifin veturinn 1942-43, fannst blikkhólkur undir gólfi í altari kirkjunnar. Þegar hólkurinn var opnaður kom í ljós að hann hafði að geyma bréf, skrifað af yfirsmiðnum sjálfum, dagsett 24. apríl 1863. Kirkjan var vígð tveimur mánuðum eftir að Jón skrifaði bréfið sem nú er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Í inngangi bréfsins skýrir Jón Chr. frá erfiðleikum við að reisa kirkjuna sökum fjárskorts.

Árið 1862, 26 dag maímánaðar var byrjað á að reisa kirkju, í fyrsta sinn á Akureyri, og höfðu bæjarmenn lengi þráð að fá hana setta á þann stað, sem hún nú stendur á, því margt hefir hamlað að koma því í verk, þó að einkum megi telja efnaleysi, og hafa bæjarmenn styrkt bygginguna með góðum vilja og talsverðum gjöfum, þar Hrafnagilskirkja og eigur hennar hrukku ekki meir en fyrir liðlegum þriðjaparti af kostnaðinum. Mitt í ágúst s.l. ár mátti hætta við smíðið, og var þá lokið utanbyggingunni. Síðan var byrjað á henni aftur 25. febrúar 1863, og byrjaði ég þá á innan smíðum, sem eiga að vera loknar 6. júní 1863, því þá hefi ég lofað að hún skuli messufær.

Sjálfsagt hafa þeir sem rifu gömlu kirkjuna og fundu bréfið á sínum tíma skemmt sér yfir lestrinum. Bréfritarinn sendir þeim nefnilega skilaboð þar sem hann biður þá um að dæma sig ekki fyrir hversu „ófullkomin“ kirkjan sé. Það skýrist af erfiðum efnahag. Svo er einnig að sjá að Jón Chr. hafi við ritun bréfsins allt eins gert ráð fyrir umbótum á kirkjunni vegna þessa. Hann biðlar og til þeirra sem munu koma að endurgerð hennar, komi til þess. Ekki liðu nema 16 ár þar til breytingar voru gerðar á kirkjunni. Grundvallarbreyting var gerð þegar turn kirkjunnar var færður frá austurhlið hennar yfir á vesturhliðina.

Margt er miður en ég hefði óskað við kirkjuna, því efnin hafa orðið að ráða. Ég hefi unnið að henni eftir kröftum, og af góðum vilja, og vona því að þessi ófullkomnu verk mín vel lukkist. Þeir sem verða til að rífa hana eða breyta og kynnu að sjá þennan miða mega ekki leggja harðan dóm á mig, þar ég hefi orðið að taka af litlum efnum.

Þeir smiðir, sem hafa unnið að henni, eru þessir: Timburmeistari Jón Christinn Stephánsson, sem yfirsmiður. Snikkari Guðjón Jónsson. Timburmaður Sveinbjörn Ólafsson. Smíðalærisveinn Þorlákur Þorláksson. Timburmaður Bjarni Jónsson. Timburmaður Pétur Thorlacius. Timburmaður Árni Hallgrímsson. Timburmaður Björn Benjamínsson. Timburmaður Jón Jónsson. Snikkari Sigfús Jónsson. Snikkari Jón Pálmason. Járnsmiður Friðrik Jafetsson. Þessir menn hafa unnið mest að smíðum kirkjunnar, þó til skiptis. Þó hafa þessir verið alla tíð; ég, sá fyrst taldi, sá þriðji og sá fjórði.

Það er líklegt að bein mín liggi fyrir löngu fúin, (Guð veit hvar) þegar Akureyrarkirkja verður byggð aftur upp; en það gleður mig að vita af því að reynt muni til að gjöra hana betur úr garði en nú var hægt. Og ég vona að ég verði ekki sakfelldur fyrir mín verk að henni, því fullkominn vilja hefi ég til að fá breytingu á byggingarmáta hér, sem að undanförnu hefir verið mjög einfaldur, og ætlast ég til að kirkjan og apotekið sýni að ég hefi breytt út af gamla vananum að svo miklu leyti sem ég hefi getað.

Eftir að hafa ítrekað gefið í skyn í bréfinu að kirkjan hefði verið byggð af vanefnum með tilheyrandi „göllum“ tekur Jón Chr. engu að síður fram að ekki skuli taka það sem stendur í bréfinu of alvarlega. Hann sendir jafnframt þeim skilaboð sem koma til með að reisa hina nýju Akureyrarkirkju sem og aðrar kirkjur í framtíðinni. Jón Christinn Stephánsson lést þann 18. desember árið 1910. 

Þessar línur mínar skrifa ég mér til gamans, og vona ég að þær verði teknar eins. Og ég óska að endingu að þeir, sem að kirkju vinna á eftir mér, geti gert það sér til gagns og gleði, og þeirri nýju kirkju til góðra nota.

Að endingu óska ég kirkjunni allrar blessunar, og öllum yfir höfuð sem sjá kynnu þennan miða, og kveð þá sem kæra vini.

 

Akureyri, dag 24. apríl 1863.
J. C. Stephánsson.

 

Heimild: Íslendingur, 19. mars 1943

Skólaheimsókn kennslukonu á Akureyri til Svíþjóðar 1935

Kristbjörg Jónatansdóttir. Mynd: Minjasafnið á Akureyri

Eftirfarandi viðtal við Kristbjörgu Jónatansdóttur, kennsluskonu á Akureyri, birtist í tveimur tölublöðum Dags í september árið 1935 undir heitinu Kennaramótið í Stokkhólmi. Viðtal við Kristbörgu Jónatansdóttur kennslukonu.

 

 

Kristbjörg Jónatansdóttir kennslukona við barnaskóla Akureyrar er nýlega heim komin af norræna kennaramótinu, sem haldið var í Stokkhólmi dagana 6. — 9. ágúst sl. [1935] Dagur sneri sér til Kristbjargar og bað hana að segja sér hið helzta af förinni og kennaramótinu. Varð hún vel við þeirri málaleitun.

Hvernig gekk ferðin yfirleitt?

   Ágætlega. Sólin hló við okkur frá heiðum himni, vindarnir voru í felum og Ægis dætur stigu léttfættan dans og hjöluðu við skip okkar á leiðinni yfir hafið. Aðeins einn dag hossuðu þær okkur full hátt, en þá vorum við orðin svo vön leik þeirra, að við tókum okkur það ekki nærri. Ég var mjög heppin með ferðafélaga, enda snúa menn sjaldan út á sér ranghverfunni, þegar veðrið leikur við mann, eins og það gerði við okkur.

Hve margir tóku þátt í mótinu og frá hvaða löndum?

   Talið var að á mótinu hefðu verið saman komnir milli 5 og 6 þúsund kennarar. Yoru þeir frá Norðurlöndunum 5 og auk þess einhverjir fulltrúar frá Eystrasaltslöndunum 3, Estlandi, Lettlandi og Lithaugalandi. Auðvitað voru Svíarnir þarna lang fjölmennastir.

Hvað voru margir íslenzkir kennarar á mótinu?

   Við íslenzku kennararnir vorum víst eitthvað um 30.

Fenguð þið, íslensku kennararnir, dálítinn ferðastyrk frá ríkinu?

   Já. Síðasta Alþingi veitti kennurum 5000 kr. ferðastyrk, sem fræðslumálastjórnin skifti svo á milli þeirra, er um það sóttu. Flestir fengu 200 kr. styrk.

Viðtökurnar munu hafa verið góðar, því Svíar eru sagðir mjög gestrisnir?

   Já, viðtökurnar voru ágætar, en það var nú ekki allt Svíunum að þakka. Fræðslumálastjórnin okkar hafði kosið 5 af íslenzku kennurunum í einskonar forstöðunefnd, eins og tíðkast á slíkum mótum, og tilkynnt móttökunefnd Svíanna, hve margir íslenzkir kennarar óskuðu eftir bústað í borginni, á meðan á mótinu stæði. Við, sem fórum yfir Danmörku, fórum held ég öll sunnudaginn 4. ágúst yfir til Svíþjóðar og var forstöðunefndinni kunnugt um það. Og það var ekki eingöngu tekið á móti okkur tveim höndum heldur mörgum höndum, þegar við komum á járnbrautarstöðina um kvöldið. Þegar lokið var tollskoðun og öðrum athugunum, sem nauðsynlegar þykja á þeim stöðum, var okkur ekið heim á Pensionat Windsor, Skepparegatan 32, þar sem flestir Íslendingarnir bjuggu á meðan þeir dvöldu í Stokkhólmi. Þarna var eins og ofurlítil Íslendinga nýlenda þessa daga, þarna héldu Íslendingarnir einkafundi sína og réðu ráðum sínum, þetta var á ágætum stað í borginni, og þar fór prýðilega um okkur, og svo var það líka fremur ódýrt, og ekki veitti nú af að halda í aurana, því ekki hafði útflutnings- og gjaldeyrisnefnd verið örlát á erlenda gjaldeyrinn við okkur, þegar við vorum að hefja förina.

Var ekki þröngt um húsnæði fyrir allan þennan aðkomumannafjölda?

   Aldrei urðum við neitt vör við þrengsli í borginni, hvorki úti né inni, nema morguninn, sem mótið var sett, og að kvöldi þess sama dags, er Stokkhólmsbær hafði móttökuhátíð fyrir kennarana í Stadshuset, einhverju fegursta samkomuhúsi á Norðurlöndum, og máske þó víðar sé leitað. Þangað komst ekki nema lítill hluti aðkomukennaranna, enda ekki fleirum boðið. En Íslendingarnir voru allir í því boði. (Það er ekki alltaf verst að vera minstur).

Hvernig hófst mótið?

   Mótið hófst þriðjud. 6. ágúst, kl. 10 árdegis á hátíðlegri samkomu í Blasieholms kirkjunni. Í því húsi er talið að mæzt geti flestir menn undir einu og sama þaki í Stokkhólmsborg, og þó er þar í mesta lagi hægt að troða inn 4000 manns. Margir urðu því frá að hverfa við dyrnar, og þótti þeim, sem að líkindum lætur, súrt í broti að hafa komið svo langa vegu, en fá svo ekki að sjá neitt af dýrðinni. Nokkur bót var það í máli, að athöfninni allri var útvarpað, og hátölurum mörgum fyrir komið í húsi því, er skólasýningin var í. Þangað fóru margir af þeim, sem útilokaðir voru. Í kirkjunni hófst samkoman á hljómleikum. Þá talaði fyrstur formaður skólamótsnefndarinnar sænsku B. J:son Bergqvist. Bauð hann gestina velkomna með ræðu. Þá voru hljómleikar aftur. Að því búnu talaði kennslumálaráðherra Svía og svo hver af öðrum, einn fulltrúi fyrir hvert land, sem gesti átti á fundinum. Á eftir hverri ræðu var jafnan sunginn og leikinn þjóðsöngur þess lands, er ræðumanninn átti. Að endingu voru svo hljómleikar. Öll athöfnin stóð yfir um 2 klukkustundir.

Hverjir töluðu af hendi Íslendinga?

   Af hendi Íslendinga talaði þarna Arngrímur Kristjánsson kennari í Rvík, núverandi formaður S. í. B. Á lokahátíðinni talaði Guðjón Guðjónsson, skólastjóri í Hafnarfirði, og erindi á fundinum fluttu þeir Guðjón Guðjónsson, er mælti á sænska tungu og Sigurður Einarsson, kennari við Kennaraskóla Íslands. Hann talaði á dönsku.

Hvernig rómur var gerður að máli Íslendinganna?

   Ekki var Ég annars vör en gott þætti að heyra til Íslendinganna, enda fannst mér þeir koma þarna fram sjálfum sér og okkur öllum Íslendingunum til sóma, og Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að sama hafi verið álit hinna landa minna, sem þarna voru. Erindi Sigurðar Einarssonar var útvarpað, en til þess var jafnan valið eitt erindi á dag. Mér er kunnugt um, að sama dag og Sigurður flutti erindið, var hann beðinn um það til birtingar, og bendir það til, að eigi hafi þótt alllítið til þess koma. Erindið fjallaði um íslenzkt uppeldi að fornu og nýju. Guðjón Guðjónsson talaði aftur um íslenzka vinnuskólanm.

Hvað er að segja um fyrirkomulagið?

   Að lokinni setningu mótsins hófust fyrirlestrar kl. 2 s.d. þennan fyrsta dag, en hina 2 dagana hófust þeir kl. 9 árdegis. Fyrirlestrarnir voru fluttir á 6, og stundum 7 stöðum samtímis, um ólík efni. Sumir fyrirlestrarnir voru fluttir með það fyrir augum, að umræður yrðu á eftir. En jafnvel þó svo væri ekki ráð fyrir gert, var leyfilegt að hafa umræður, ef þess var óskað og fundarstjóri áleit tíma til vera. AIls voru haldnir um 60 fyrirlestrar. Í tilhögunarskrá mótsins var skrá yfir öll erindin, og varð því hver og einn að gera það upp við sjálfan sig á hvað eða hvern hann helzt vildi hlusta í hvert sinn. Erindi áttu að jafnaði ekki að vera lengur en hálfa stund, jafnvel þó ekki væri ætlast til að umræður færu fram á eftir.

Aðalefni erinda og umræða hefir vitanlega verið skóla- og uppeldismál. Var ekki svo?

   Jú auðvitað, en frá ýmsum hliðum og sjónarmiðum. Þau snerust um kennslufyrirkomulag og kennsluaðferðir í flestum námsgreinum allt neðan frá smábarnaskólanum og upp til sambandsins milli barnaskólanna og hinna æðri skóla, um heilsuvernd, líkamlega og sálarlega, um bókasöfn, um blöðin og skólana, um útvarp og skóla, um borgaralegar skyldur og ábyrgð þjóða á milli, um uppeldi kennara, um próf o.s.frv. o.s.frv.

Voru nokkur ferðalög í sambandi við kennaramótið?

   Já, nokkur. Annan dag mótsins stóðu fyrirlestrar aðeins til hádegis. Síðari hluti dagsins var mönnum ætlaður til ferðalaga. Var það sænska ferðamannafélagið, sem hafði stofnað til þeirra og sá um fyrirkomulag á þeim. Var um 4 ferðir að ræða. 1. Til Uppsala og Gamla Uppsala. Þangað gátu komist mest 800 manns. 2. Til Sigtuna, 175 manns, en gert ráð fyrir 2 hópum. 3. Til Mariefred og Gripsholmhallar, 300 manns. 4. Að skoða hið markverðasta í Stokkhólmsborg og umhverfi, 300 manns. Ferðir þessar kostuðu 6 kr. á mann (7 til Uppsala), og var í því innifalinn sameiginlegur miðdegisverður fyrir þátttakendur. Ennfremur voru menn til að leiðbeina og skýra það, sem skoðað var. Mönnum var skipt í hópa, og hafði hver hópur sinn leiðsögumann. Auk þess var fargjald á járnbrautum sænska ríkisins lækkað um 25 prc. fyrir kennarana frá 1. til 17. ágúst hvar í landinu, sem þeir vildu ferðast. Vissi ég að margir notuðu sér það og ferðuðust eitthvað að mótinu loknu, Íslendingarnir ekki síður en aðrir. Ef einhver Frónbúi var spurður hvenær hann ætlaði heim, var svarið venjulega á þessa leið: Ja, ég veit það nú ekki. Ég fer ekki fyr en ég má til, ég verð hér í landinu á meðan peningarnir endast.

Var ekki skólasýning í sambandi við kennaramótið? Hvað er um hana að segja?

   Jú, skólasýningin var í sambandi við mótið. Um hana er svo margt að segja, að um hana mætti skrifa heila stóra bók. Um hana er það fyrst og fremst að segja, að enginn tími vannst til að skoða hana, nema að mjög litlu leyti. Hún var opin einungis 4 daga, dagana 3, sem mótið stóð og næsta dag á eftir. Sá ég eftir, að menn skyldu ekki geta betur notið allrar þeirrar miklu vinnu, sem í þá sýningu var lögð. Sýningin var í 80 herbergjum, á 5 hæðum, í einum barnaskóla borgarinnar. Þar var sýnishorn af allri handavinnu, sem kennd er í skólum Svíþjóðar, í barna- og unglinga-, gagnfræða- og hússtjórnar- og kennaraskólum, blindrask., heyrnar og málleysingjask. o.s.frv., reikningar og vinnubækur, allskonar. Sérskólar eins og t.d. Nääs-skólinn hafði þarna sýnishorn af sinni handavinnu frá 1870—1935. Þarna var læknisskoðunarstofa, tannlækningastofa, fyrirmyndir af skólabyggingum, skólaborð og öll hugsanleg kennslutæki í öllum námsgreinum, bókasöfn, útvarpstæki, kvikmynda- og skuggamyndavélar og saumavélar og sýning á notkun ýmsra þessara tækja, allt í sambandi við kennslu í skólum.

Hvern telurðu helzta ávinning kennaramótsins og hver er varanlegasta endurminning þess?

   Ávinningur kennaramótsins er, auðvitað mikill og margháttaður, og sjálfsagt nokkuð sérstakur fyrir hvern einstaklinginn. Fyrst og fremst má nú telja sjálft ferðalagið. Leiðin frá Íslandi til Stokkhólms er æði löng, og þangað er venjulega farið bæði á skipum og járnbrautum. Á slíkri ferð ber því margt nýstárlegt fyrir augu og eyru Íslendingsins. Breytt umhverfi, ólík tungumál, nýir siðir, sem hann verður að laga sig eftir og tileinka sér, svo hann verði ekki eins og álfur út úr hól. Allt þetta þjálfar og þroskar margvíslega. En svo er ferðalagið öðrum þræði hvíld og nautn. Ef þú hefir undirbúið ferð þína réttilega, þá er séð fyrir öllum þínum þörfum, þú getur verið áhyggjulaus. Þú getur legið í rúmi þínu í skipinu og sofið, látið þig dreyma, lesið eða masað við félaga þinn. Skipið ber þig áfram til ókunna landsins þrátt fyrir það. Þú getur setið við gluggann í járnbrautarvagninum og horft á hinar óteljandi lifandi myndir, sem bera fyrir augu þín, notið fegurðarinnar og dásamað skaparann, og á meðan þýtur eimvagninn óðfluga með þig í áttina til borgarinnar. Þú ert staddur í dimmum jarðgöngum, en áður en þú færð áttað þig á, hve ægilegt myrkrið er, ertu kominn út á sólbjarta völlu við spegilslétt, beiðblátt fjallavatn, og skógurinn kinkar til þín kollinum úr hlíðinni hinum megin. Og áður en þú hefir fengið tíma til að dást að allri þessari fegurð, hefirðu borist út á brúna stóru, sem liggur yfir fljótið, sem freyðir úr vatninu og flýtir för sinni í faðm sjávarins, en handan við fljótið eygir þú grænt engi, og þar liggja Skrauta, Rauðka, Skjalda og hún Surtla og jórtra alveg eins og kýrnar heima á Íslandi. Og þarna er þá húsið bóndans og nú koma börnin hans hlaupandi, veifa og brosa til þín alveg eins og börnin í skólanum þínum heima. Og þó vita þau ekkert hver þú ert. Þú ert bara þar sem þau vildu vera komin, í vagninum, sem ber þig eitthvað út í blánn. — Já, þetta voru aðeins örfáar af þeim margvíslegu myndum, sem fyrir bera á ferðalaginu. Og þá er nú stórborgin með öllum sínum ys og þys, skrölti og skarkala, ljósum, mannfjölda, götum og byggingum, trjám og blómskrúði. Og við kynnumst nýjum mönnum, nýjum hugmyndum, eignumst nýja vini. Og við sitjum við fætur fræðimannanna og nemum nýja speki, fáum nýtt viðhorf, sjáum í nýju ljósi. Allt þetta auðgar andann á ýmsan hátt. Skólasýningin mikla var auðvitað lang fljótteknasta leiðin til að kynnast skólafyrirkomulagi Svía og kennsluaðferðum, en jafnvel þótt tíminn til að skoða sýninguna væri svona stuttur (eða máske að það hafi líka verið vegna þess að hann var svona stuttur) þóttist ég þó ganga úr skugga um það, eins og mér reyndar alltaf hefir fundist ég gera á utanlandsferðum mínum, að Íslendingar standa frændum sínum á Norðurlöndum furðu lítið á baki, þegar öllu er á botninn hvolft, meira að segja í skólamálum. Ég sá t.d. ekkert þarna á sýningunni, sem kom mér á óvart eða ég hafði ekki heyrt getið um áður, og flest af því, sem þarna var sýnt, hefir verið reynt í íslenzkum skólum. Munurinn er aðallega sá, að kennslutækin eru margfallt betri og fullkomnari, en það er ekki af því að íslenzkir kennarar viti ekki að þessi tæki eru til, að þau eru ekki notuð í íslenzkum skólum, heldur vantar peninga til að fá þau þangað. Og ég efast um að nokkrir kennarar hafi gert eins mikið með litlum tækjum eins og einmitt íslenzku kennararnir. Hverjar verði varanlegastar endurminningar mótsins, því er ekki svo gott að svara. Tíminn einn getur leitt það í Ijós. En sem stendur finnst mér það kannske hafa haft einna dýpst áhrif á mig, að sjá allar þessar mörgu þúsundir manna, komna frá svo margvíslegu umhverfi, svo ólíka að útliti og talandi ýms tungumál, en hafa þó svo að segja eina sál, eina leitandi sál, sem þráir að finna þær leiðir, sem farsælastar verði til göngu hinni uppvaxandi kynslóð Norðurlanda. Þrátt fyrir allan ytri mismun, skoðanamun og einstaklingseðli, hittast þó hugir allra þessara starfssystkina í einum miðdepli, í samúðinn í hvert með öðru og með ungviðinu, sem þeim er falið að gæta. Það er ylur frá þessum arni, sem við berum með okkur heim til vetrarstarfsins, það eru geislar frá því ljósi, sem lýsa inn í framtíðina og gefa okkur þá trú, að þrátt fyrir öll misstigin spor og sundurlyndi og öfugstreymi í lífi þjóðanna, þá muni þó hin komandi kynslóð eiga bjartari og farsælli daga í vændum, einmitt af því að við höfum lifað á undan henni og rutt henni braut. Það er tilfinningin fyrir þessu, sem mér finnst að muni vara lengst í endurminningunni um 14. norræna kennaramótið. — Að lokum þakkar Dagur kennslukonunni fyrir samtalið og hinar skýru og ánægjulegu upplýsingar um kennaramótið.

Fljúgandi furðuhlutur eða njósnaflugvél yfir Akureyri árið 1934?

Eftirfarandi grein birtist í Degi fimmtudaginn 9. ágúst árið 1934 undir heitinu Er undraflugvél á ferðinni?

Fimmtudaginn 2. ágúst s.l. ., um kl. 4 síðd., sást til flugvélar frá bænum Meyjarhóli á Svalbarðsströnd. Bar hana þá fyrir ofan Krossanes, og flaug hún miðhlíðis, með jafnri en fremur hægri ferð, þráðbeina stefnu til suðausturs. Veðurfar var þannig: Úrkomulaust, norðan hægur stormur, og þokubelti um miðjar hlíðar. Sást flugvélin ýmist fyrir neðan þokubeltið eða í því, en það undarlegasta var, að ekkert heyrðist til hreyfilsins, allan þennan tíma, á meðan sást til flugunnar.

Er flugvélin fór yfir Akureyrarbæ, bar hana frá Meyjarhóli, sem stendur all hátt frá sjó, skammt fyrir neðan húsið Fálkafell; en það mun miðja vegu milli Akureyrarkaupstaðar og Súlutinda; segja sjónarvottar, sem eru Tryggvi Kristjánsson, bóndinn á Meyjarhóli og dætur hans tvær, Laufey og Friðrika, að sézt hafi til flugvélarinnar í nálega 5 mínútur, frá því hún var fyrir ofan Krossanes og þar til hún hvarf í þoku, yfir Mjaðmárdal í Eyjafirði. Sá Laufey flugvélina fyrst, og hafði ekki augu af henni, fyrr en hún hvarf, þar sem fyrr greinir. Skýra sjónarvottar þannig frá flugvélinni: „Við sáum ekki greinilega lit hennar, en okkur sýndist hún vera gráleit. Hún var fjarska löng og mjó, og jafnbreið frá hliðarstýri að vængjum, er sátu nær fremst á henni. Engir bátar eða hjól voru sýnileg, er flugvélin gæti lent á“.

Sjónarvottar töldu víst, að hér væri um einhverja skemmtiferðaflugvél að ræða, og að annarstaðar frá mundi hafa sézt til ferða hennar. Átti það von á að heyra eitthvað af ferðum flugvélarinnar í útvarpinu það sama kvöld, því á Meyjarhóli eru móttökutæki. Þótti því undarlegt, að svo var eigi. Fór fólkið þá að grennslast eftir því, hvort ekki hefði sézt til hennar frá Akureyri, en blaðinu er eigi kunnugt um, að svo hafi verið. Þess skal ennfremur getið til skýringar, að hér getur ekki verið um neina missýningu að ræða, því að á meðan Flugfélag íslands hafði flugvélar í förum á undanförnum árum, segja sjónarvottar, að aldrei hafi flugvél komið eða farið frá Akureyri, svo að ekki hafi greinilega heyrzt og sézt til hennar. Allar framangreindar upplýsingar hefir blaðið fengið frá sjónarvottum.

Tveimur dögum síðar, laugardaginn 11. ágúst birtist greinarstúfurinn hér að neðan.

Við lestur greinarinnar um hina dularfullu flugvél í blaðinu á fimmtudaginn, rifjaðist það upp fyrir manni einum utan úr sveit vestan Eyjafjarðar, að hann ásamt fleira fólki hafi heyrt til flugvélar þennan sama dag, að hann hyggur, er hann starfaði að heyvinnu. Nánari fregnir mun blaðið flytja um þetta bráðlega, og einskis láta ófreistað, til að útvega upplýsingar um þetta einkennilega mál. Væri blaðinu þökk á því, ef fleiri hefðu orðið varir við umrædda flugvél, að þeir tilkynntu því það hið fyrsta.

Grenndargralinu er ekki kunnugt um frekari fréttir af meintu loftfari yfir Akureyri í ágústmánuði árið 1934.

Lokahönd lögð á Kristnesþátt

Sagnalist – skráning og miðlun sf. leggur þessa dagana lokahönd á gerð útvarpsþáttar sem byggður er á bók Brynjars Karls Óttarssonar Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli. Grenndargralið gaf bókina út árið 2017 í tilefni af 90 ára afmæli Kristnesspítala. Þátturinn er unninn í samvinnu við RÚV og Hælið-setur um sögu berklanna.

Á annan tug starfsmanna koma að gerð þáttarins, leikarar, sögumenn og stjórnendur. Allir leikarar hafa nú skilað sínu. Dagskrárgerðarfólk notar næstu daga til að klippa, fínpússa og ganga frá lausum endum svo senda megi þáttinn út þann 21. maí næstkomandi. Umsjón með þættinum hefur Brynjar Karl. Gígja Hólmgeirsdóttir aðstoðar við dagskrárgerð.

Kristneshæli – musteri lífs og dauða er á dagskrá Rásar 1 á uppstigningardag.

Leikarar, sögumenn og stjórnendur þáttarins Kristneshæli – musteri lífs og dauða

Konan sem skuggi föðurins faldi – lokaorð

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Morris-grúsk Grenndargralsins hófst eftir sprengilægð í aðdraganda síðustu jóla. Síðan þá hafa vondar fréttir dunið yfir okkur, lægðir á lægðir ofan, loðnubrestur og kórónaveira svo eitthvað sé nefnt. May Morris – konan sem skuggi föðurins faldi hefur staðið allar slíkar hræringar af sér og fylgt Gralinu og lesendum Vikudags undanfarnar vikur eins og leiðarljós. En nú er hins vegar komið að leiðarlokum. Í bili.

May Morris var merkileg kona fyrir ýmissa hluta sakir. Saga hennar teygir anga sína víða, m.a. hingað í heimabyggð sem öðru fremur skýrir áhuga Grenndargralsins. May fæddist árið 1862, sama ár og Akureyri fékk kaupstaðaréttindi og rúmum áratug síðar ferðaðist faðir hennar, hinn kunni William Morris um Eyjafjörð. Tíðar ferðir May til Íslands og Akureyrar á þriðja og fjórða áratugnum vöktu sérstaka eftirtekt þegar Grenndargralið hóf grúskið. Hitt sem vekur þó meiri athygli Gralsins er að því er virðist mikil og góð vinátta hennar og hjónanna Sigurjóns Sumarliðasonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur og bréfaskipti þeirra á tímabilinu 1926-1938. Bjó May á heimili þeirra, fyrst á Ásláksstöðum og síðar í Munkaþverárstræti, á meðan hún dvaldist á Akureyri og ferðaðist um  Norðurland.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Eins og gjarnan vill verða þegar farið er af stað í þeirri viðleitni að finna svör, vakna fleiri spurningar. Að mati Grenndargralsins telst saga May Morris og tengsl hennar við Akureyri og nágrenni til gleymdra gersema í sögu og menningu heimabyggðar – saga sem verðskuldar umfjöllun. Grenndargralið hefur vissulega gert sögunni skil síðustu vikur en betur má ef duga skal. Mörgum spurningum er enn ósvarað. Eru bækur þær sem May Morris gaf sýslubókasafni á Húsavík ennþá til? Hafa bréf, myndir og bókakassar sem hún sendi vinum sínum á Akureyri varðveist? Eru bækur úr fórum May, sem Vivian Lobb gaf Amtsbókasafninu á Akureyri að May látinni, glataðar? Grenndargralið ber þá von í brjósti að einhver grípi boltann á lofti og varpi ljósi á málið.

Vinkona vor May Morris fer á hilluna góðu um stundarsakir. Grenndargralið heldur áfram að grafa upp gersemar úr sögu og menningu heimabyggðar.

Grenndargralið og Vikudagur í samstarf

Eins og glöggum lesendum þessarar síðu er kunnugt hefur Grenndargralið undanfarin misseri birt greinaflokk um listakonuna May Morris og tengsl hennar við Akureyri. Brynjar Karl Óttarsson hjá Grenndargralinu og ritstjóri Vikudags, Þröstur Ernir Viðarsson, hafa komist að samkomulagi um samstarf er snýr að birtingu á greinaflokknum á síðum blaðsins.

Saga May Morris mun birtast í nokkrum hlutum í Vikudegi á fimmtudögum næstu vikurnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Grenndargralið birtir greinar og pistla í samstarfi við fjölmiðil í heimabyggð. Áður hefur Gralið unnið með dagblöðunum Akureyri vikublað og Norðurland og vefmiðlinum Kaffið.is.

Að sögn Brynjars Karls er ánægja innan Grenndargralsins með samstarfið. Hann segir síðu Gralsins vera lítinn vettvang fyrir stóra sögu og því ánægjulegt að geta náð til stærri lesendahóps á síðum Vikudags. Inngangur að sögu May Morris – konunnar sem skuggi föðurins faldi birtist í næsta tölublaði Vikudags, fimmtudaginn 23. janúar. Fyrsti hluti sögunnar birtist viku síðar.