main image

Eyfirðingurinn sem setti mark sitt á dægurmenningu heimsins

Kann að vera að Mjallhvít, Elmer Fudd og Kalli kanína eigi ættir að rekja til Íslands? Færa má rök fyrir því að þessar teiknimyndafígúrur og fleiri geti þakkað tilvist sína tveimur Íslendingum sem áttu samleið í Ameríku á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er nóg með að tengslin við Ísland séu sterk heldur má með nokkrum sanni segja að sköpun Kalla kanínu og félaga megi rekja alla leið til Eyjafjarðar.

Hæfileikar koma fram

Við hefjum leiðangurinn að þessu sinni árið 1887. Þá ákváðu hjónin Stefán Þórðarson og Sigríður Þórarinsdóttir að flytja burt úr Biskupstungunum vestur um haf. Þau héldu af stað með vesturfaraskipinu SS Camoens frá Reykjavík, ásamt Jóni þriggja ára syni þeirra, áleiðis til Winnipeg í Kanada. Skipið sigldi reglulega frá Íslandi á þessum árum með fólk í leit að betra lífi í Ameríku. Fór það m.a. þónokkrar ferðir frá Akureyri, þá fyrstu árið 1879. Í Kanada eignuðust hjónin þrjá drengi til viðbótar. Einn þeirra fæddist árið 1890 og var skírður Karl Gústaf. Listrænir hæfileikar Karls komu fljótt í ljós og þóttu hæfileikar hans miklir þegar kom að teikningum. Eftir að myndir hans fóru að birtast opinberlega tók hann sér upp nafnið Charles Thorson. Fyrsta teikning hans á opinberum vettvangi birtist á forsíðu fréttablaðsins Heimskringla árið 1909, þegar hann var 19 ára gamall (sjá mynd). Teikningin sýnir tvo menn standa hlið við hlið. Annar þeirra er maður að nafni Fred Swanson en hann átti síðar eftir að verða tengdafaðir Thorson.

Vinna hjá Disney og Warner Brothers

Árið 1932 hitti Thorson unga íslenska stúlku á kaffihúsi í Winnipeg. Hún hét Kristín Sölvadóttir, fædd á Siglufirði árið 1912. Thorson féll fyrir hinni 22 ára gömlu Kristínu en sjálfur var hann 42 ára. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að heilla hana upp úr skónum skildu leiðir árið 1934 þegar Thorson hélt til Hollywood þar sem hann hóf störf hjá Disney. Eitt af hans aðalverkum var vinna við gerð teiknimyndarinnar Mjallhvít og dvergarnir sjö en hún var frumsýnd árið 1937. Thorson tilheyrði vinnuteymi sem skapaði útlit persóna myndarinnar, þar með talið dverganna og Mjallhvítar. Segir sagan að útlit þeirra, sem hefur allar götur síðan verið notað til að túlka persónurnar í myndum og bókum, sé að mestu eða öllu leyti skapað af Charles Thorson. Fyrirmynd hans að Mjallhvíti var unga stúlkan frá Siglufirði, Kristín Sölvadóttir. Eftir ágreining við stjórann sjálfan, Walt Disney, árið 1937 hætti Thorson störfum hjá fyrirtækinu. Hann réði sig síðar hjá þremur teiknimyndaverum, m.a. Warner Brothers þar sem hann starfaði í tvö ár. Hjá WB var honum fengið það hlutverk að kenna ungum leikstjóra réttu handtökin við gerð teiknimynda. Sá var að hefja sinn feril í heimi teiknimyndanna og hét Chuck Jones. Hann átti eftir að verða eitt stærsta og þekktasta nafn teiknimyndaheimsins. Einhver þekktasta teiknimyndapersóna sem Thorson skapaði árin sem hann vann fyrir Warner Brothers var engin önnur en Bugs Bunny eða Kalli kanína. Á 10 ára starfsferli sínum hjá teiknimyndafyrirtækjum í Ameríku skapaði Charles Thorson meira en 100 teiknimyndapersónur.

Lærimeistarinn Friðrik Sveinsson

Á uppvaxtarárum Thorson í Kanada, þegar listrænir hæfileikar hans voru að koma í ljós, var einn maður sem hann leit sérstaklega á sem fyrirmynd við listsköpun sína. Sá var málari en vann einnig að listsköpun ýmiskonar. Hann var nokkurs konar lærimeistari Thorson og sá einstaklingur sem mótaði hann hvað mest sem listamann. Er hann þannig talinn eiga sinn þátt í að Thorson nýtti hæfileika sína í þágu teiknimynda. Maðurinn sem um er rætt bjó í Aðalstræti á Akureyri um nokkurra ára skeið áður en hann flutti til Kanada. Hér er að sjálfsögðu átt við áðurnefndan Fred Swanson, bróður hins kunna rithöfundar Jóns Sveinssonar (Nonna). Friðrik Sveinsson var sonur hjónanna Sveins Þórarinssonar og Sigríðar Jónsdóttur. Hann fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal en flutti í Aðalstræti 54 eins árs gamall árið 1865. Þar bjó hann í nokkur ár áður en hann var sendur í fóstur að bænum Espihóli í Eyjafirði. Eftir að Friðrik kom til Ameríku tók hann sér upp nafnið Fred Swanson.

Beðið eftir að komast til Ameríku

Talið er að u.þ.b. 15.000 Íslendingar hafi sest að í Norður-Ameríku á árunum 1870 – 1914. Fyrsti stóri Íslendingahópurinn sem fór með skipi vestur um haf frá Akureyri lagði af stað þann 4. ágúst árið 1873.  Þar er því um nokkuð merkilega siglingu að ræða. Skoskt gufuskip, Queen að nafni, en það flutti aðallega hross, hélt úr Akureyrarhöfn með 165 manns innanborðs. Einn af farþegunum var Ólafur Ólafsson bóndi á Espihóli. Hann hafði dreymt lengi um betra líf handa sér og fjölskyldu sinni í Ameríku og ákvað því að freista gæfunnar. Með honum í för var eiginkona hans og tveir fóstursynir. Hópurinn kom til Kanada í lok mánaðarins. Annar fóstursona hjónanna á Espihóli var Friðrik Sveinsson. Til er blaðagrein þar sem Friðrik segir frá því þegar hann, 9 ára gamall, beið eftir komu skipsins sem átti að flytja hann og fósturfjölskyldu hans til Ameríku. Skipið hafði tafist og þurfti fólkið að bíða á Akureyri dögum saman. Krakkarnir í hópnum hlupu daglega upp í brekkuna ofan við Aðalstræti til að horfa út fjörðinn í von um að sjá skipið koma. Á hverjum degi var skimað eftir skipinu. Eg fór oft með öðrum börnum uppá hjallann fyrir ofan bæinn að horfa út fjörðinn eftir skipinu, og loksins, eg held 3. ágúst — sáum við svarta þústu út í fjarðarmynni og kolareyk upp úr. Við þutum niður í bæinn með þennanfagnaðarboðskap. Skipið kom von bráðar inn á höfnina og lagðist þar. — Var þetta skuggalegur breiður kuggur og fanst sumum hann helst líkjast þrælaskipum, sem blámenn voru fluttir á frá Afríku. Skipið hét “Queen” en ekki þótti löndum það drotningarlegt.

Róstusamt líf skaparans

Ekki var nóg með að Karl Gústaf Stefánsson liti á Friðrik Sveinsson sem lærimeistara sinn  heldur tengdust þeir einnig fjölskylduböndum. Í október árið 1914 giftist Karl dóttur Friðriks. Hún hét Rannveig en var oftast kölluð Ranka. Þau eignuðust son sem fæddist í ágúst sama ár. Hann var skírður í höfuðið á pabba sínum, Karl en var kallaður Charlie. Sorgin knúði dyra árið 1916 þegar Rannveig dó úr berklum og aftur árið 1917 þegar Charlie litli dó úr barnaveiki. Árið 1922 giftist Karl öðru sinni, konu að nafni Ada Teslock. Hjónabandið stóð yfir í 10 ár. Þau eignuðust tvo syni. Sá eldri, Charlie, dó aðeins þriggja daga gamall. Hinn yngri, Stephen, komst á legg og eignaðist þrjú börn. Karl Gústaf Stefánsson lést úr krabbameini í Vancouver í Kanada árið 1966.

Friðrik og Nonni

Aðalstræti 54 hefur að geyma forvitnilega sögu þegar kemur að barnamenningu. Allir þekkja sögu Nonna og bókanna hans. Sögu Friðriks þekkja færri. Hún er þó ekki síður athyglisverð. Hvor á sinn hátt áttu þeir bræður þátt í að gleðja börn um víða veröld eftir að þeir fluttu erlendis. Annar með því að skrifa barnabækur. Hinn með því að veita innblástur og kenna réttu handtökin við sköpun frægra teiknimyndafígúra. Friðrik hitti Nonna tvisvar eftir að þeir voru aðskildir í æsku. Fyrra skiptið var 60 árum eftir aðskilnaðinn, á Alþingishátíðinni árið 1930. Seinna skiptið var árið 1936 þegar Nonni heimsótti bróður sinn í Kanada á ferð sinni um heiminn. Friðrik Sveinsson giftist Sigríði Laxdal og átti með henni fjórar dætur auk Rannveigar. Auk hefðbundinnar málningarvinnu vann hann m.a. við að útbúa steinda glugga í kirkjur.  Friðrik Sveinsson dó í Winnipeg í Kanada árið 1942.

Engin leit að Grenndargralinu 2018

Allt frá árinu 2008 hafa grunnskólanemendur á Akureyri farið af stað um þetta leyti árs í 10 vikna leiðangur í heimabyggð í því skyni að leita uppi Grenndargralið. Leitin að Grenndargralinu hefur þannig staðið nemendum til boða sem valgrein í áratug með þátttöku sjö skóla.

Vegna fyrirspurna um Leitina nú í haust skal áréttað að ekki verður um leit að Grenndagralinu að ræða haustið 2018. Leitin hefur farið fram í síðasta skipti, í bili hið minnsta. Gralið verður því falið um óákveðinn tíma á vel völdum stað í heimabyggð.

Grenndargralið mun áfram fjalla um sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna.

Þegar Phostle, Braun og „The Coctail shaker“ sigldu inn Eyjafjörð

Komum skipa af ýmsum stærðum og gerðum til Akureyrar, ekki síst yfir sumartímann, hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Ákveðin stemning ríkir í bænum þegar risastór skemmtiferðaskip á borð við Azamara Pursuit liggja við bryggju. Glæsisnekkjur auðmanna sem lúra á Pollinun sem og ísbrjótar og rannsóknarskip vekja einnig athygli bæjarbúa. Mörg merkileg skip með mikla sögu á bakinu hafa siglt inn Eyjafjörðinn í gegnum tíðina, lagst við bryggju eða einfaldlega legið makindalega á Pollinum. Í einhverjum tilfellum hafa heimsþekktir einstaklingar stigið frá borði og gengið um Akureyri – einstaklingar sem hafa á einn eða annan hátt sett mark sitt á mannkynssöguna.

Skemmtiferðaskipið S.S. Victoria Luise var smíðað í Þýskalandi árið 1900. Skipið tók rúmlega 2000 farþega. Upphaflega hét skipið Deutschland en nafninu var breytt árið 1910. Victoria Luise var eitt stærsta skip síns tíma og jafnframt það hraðskreiðasta í heimi á árunum 1900-1906. Við smíði skipsins var mikið lagt upp úr krafti og hraða á kostnað þæginda fyrir farþega. Hraðinn hafði þær hliðarverkanir að skipið átti það til að hristast töluvert. Gekk það gjarnan undir nafninu The Cocktail Shaker (Hanastélshristarinn). Í mars árið 2010 birti írski blaðamaðurinn Senan Molony niðurstöður rannsóknar sinnar á síðustu samskiptum sem áhöfn skemmtiferðaskipsins Titanic átti við önnur skip á Atlantshafinu síðustu dagana áður en það sökk þann 15. apríl 1912. Samkvæmt Molony sendi Victoria Luise skeyti til áhafnar Titanic laugardaginn 13. apríl á meðan það var á siglingu á sömu slóðum og „hið feiga“ skemmtiferðaskip. Var Victoria Luise þar með eitt síðasta skipið á Atlantshafinu til að senda Titanic skeyti áður en það sökk. Athyglisvert er að aðeins voru smíðuð 14 skemmtiferðaskip með fjórum reykháfum og þrjú þeirra voru á siglingu í grennd við hvert annað um það leyti sem Titanic sökk; RMS Lusitania, RMS Titanic og Victoria Luise. Þremur mánuðum síðar, í júlí 1912, lúrði Victoria Luise á Pollinum við Akureyri. Bærinn var á þessum tíma hvorki fjölmennur né stór. Án efa hefur Victoria Luise sett svip sinn á bæjarlífið vegna stærðar sinnar og fjölda farþega. Af endalokum skipsins er það að segja að Þjóðverjar notuðu það til stríðsrekstrar í fyrri heimsstyrjöldinni. Með friðarsamningunum 1919 var Þjóðverjum gert að afhenda allan sinn flota. Victoria Luise var eina skipið í flotanum sem bandamenn kærðu sig ekki um vegna slæms ástands þess. Árið 1921 var nafni skipsins aftur breytt og nú fékk það nafnið Hansa. Victoria Luise endaði sem brotajárn í Hamborg í Þýskalandi árið 1925.

 

Árið 1939 kom þýska skemmtiferðaskipið MS Milwaukee í dagsferð til Akureyrar. Skipið var smíðað árið 1929 fyrir sama skipafélag og átti og gerði út Victoria Luise. Skipið þjónaði sem skemmtiferðaskip fyrir ríkt jafnt sem efnaminna fólk til ársins 1936. Þá var því breytt í lúxusskip fyrir 559 farþega. Þegar MS Milwaukee kom til Akureyrar mánudaginn 17. júlí 1939 var Eva nokkur Braun um borð. Hún átti þá í ástarsambandi við kanslara Þýskalands og leiðtoga nasista þar í landi, Adolf Hitler. Samband þeirra var ekki orðið opinbert á meðan dvöl hennar stóð hér svo hún gat gengið óáreitt um bæinn. Með í för voru systur hennar og móðir. Eva Braun var áhugamanneskja um ljósmyndun og tók hún myndir á Akureyri. Ekki eru mörg ár síðan þessar ljósmyndir birtust almenningi. MS Milwaukee var ekki eina skemmtiferðaskipið sem kom til Akureyrar þennan júlídag. Þýska skipið Steuben lá einnig á Pollinum. Steuben átti eftir að koma við sögu í einni af umtöluðustu aðgerðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni; Operation Hannibal. Steuben var skotið niður af sovéskum kafbáti undir lok stríðsins. Með skipinu fórust á fjórða þúsund manns. Örlög MS Milwaukee urðu hins vegar þau að skipið var notað sem gistiaðstaða fyrir þýska hermenn í seinni heimsstyrjöldinni. Árið 1946 lenti skipið í höndum Breta og nokkru síðar skemmdist það illa í eldi við bryggju í Liverpool. Ári síðar var það rifið í brotajárn.

Rannsóknarskipið Aurora kom við á Akureyri í vísindaleiðangri sem farinn var á fyrri hluta 20. aldar. Ætlunin var að rannsaka loftstein sem lenti í Norður-Íshafi. Prófessor að nafni Decimus Phostle hafði spáð því að smástirni myndi skella á jörðinni með hræðilegum afleiðingum. Sem betur fer skall það ekki á jörðinni heldur sveigði framhjá henni. Hins vegar skall brot af smástirninu í hafið með tilheyrandi jarðskjálftum. Herra Postle og leiðangursmenn um borð í skipinu töldu líklegt að í brotinu væri að finna nýja tegund af málmi og héldu því í rannsóknarleiðangur á Norður-Íshafið með viðkomu á Akureyri. Um borð í Auroru var ekki ómerkari maður en sjálfur Tinni, félagi hans Kolbeinn kafteinn og hundurinn Tobbi. Þeir félagar komu til Akureyrar til að ná í olíu. Á Akureyri hittu þeir Runólf, gamlan félaga Kolbeins en saman fóru þeir á ónefnt kaffihús í bænum og pöntuðu sér sódavatn og whiskí. Eftir stutta viðdvöl á Akureyri héldu þeir för sinni áfram. Heimsókn Tinna og félaga til Akureyrar birtist í tíundu Tinnabókinni Dularfulla stjarnan sem kom út árið 1942. Hún var jafnframt fyrsta Tinnabókin sem gefin var út í lit. Sagan hafði reyndar birst í víðlesnu barnablaði í Belgíu sem framhaldssaga árin 1941-1942. Teiknimyndapersónan Tinni var búin til af belgíska myndasöguhöfundinum Georges Prosper Remi, betur þekktur sem Hergé.

Þegar skoðuð er saga þeirra skipa sem heimsótt hafa Akureyri á undanförnum áratugum kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós. Hver veit nema grúskarar framtíðarinnar eigi eftir að grafa upp spennandi fróðleik um heimsþekkta ferðamenn sem komu með Azamara Pursuit til Akureyrar sumarið 2018 og tóku myndir af bænum eða fengu sér gos á Bláu Könnunni?

Greinin er uppfærð. Upphaflega birtist  hún í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í október 2013.

Hrollvekja Lagerlöf heillaði ritstjóra á Akureyri

Í janúar árið 1924 var sænska kvikmyndin Körkarlen, Ökusveinninn upp á ástkæra ylhýra (ensk þýð. The Phantom Carriage), sýnd í nýju bíóhúsi við Hafnarstræti 73 á Akureyri. Kvikmyndin var gerð eftir sögu Nóbelskáldsins Selmu Lagerlöf (1858-1940) og leikstýrð af Victor Sjöström (1879-1960). Myndin var frumsýnd í Svíþjóð árið 1922. Fjórum árum áður var önnur mynd í leikstjórn Sjöström frumsýnd í sænskum kvikmyndahúsum. Hún var byggð á leikriti eftir íslenskt leikritaskáld. Ári síðar heimsótti skáldið Akureyri og hafði jafnvel uppi áform um að setjast þar að!

Árið 1912 skrifaði Selma Lagerlöf sögu um framliðinn ökusvein sérstaks dauðavagns. Hann ekur um á vagninum og hirðir upp sálir þeirra sem eru um það bil að hverfa á vit feðra sinna. Hér er byggt á þekktu minni úr evrópskum þjóðsögum þar sem sá eða sú sem síðast lætur lífið áður en nýtt ár gengur í garð skal aka dauðavagninum í eitt ár. Sagan segir frá óþokkanum David Holm sem hlýtur það vafasama hlutverk að aka vagninum þegar hann deyr seint á gamlárskvöld. Á meðan akstrinum stendur gefst honum tækifæri til að gera upp lífshlaupið og horfast í augu við allar syndirnar í lifanda lífi. Ástæðuna fyrir því að Lagerlöf skrifaði söguna má rekja til þess að hún var ráðin af sænskum samtökum til að uppfræða almenning um berkla, smitleiðir og varnir gegn þeim. Hún hafði sjálf reynslu af sjúkdómnum því systir hennar og aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu smitast af hvíta dauða. Þar sem henni þótti auðveldara að koma boðskapnum á framfæri í gegnum skáldskap frekar en að setja saman fræðilegan texta um sjúkdóminn, skrifaði hún skáldsögu sem fékk heitið Körkarlen (ensk þýð. Thy Soul Shall Bear Witness!) rétt eins og kvikmyndin.

Victor Sjöström leikstýrði myndinni, skrifaði handritið ásamt Selmu Lagerlöf og lék aðalhlutverkið. Myndin varð alþjóðlegur smellur, ekki síst vakti hún athygli fyrir framúrstefnulegar tæknibrellur. Hún tryggði honum samning við kvikmyndarisann Metro-Goldwyn-Meyer í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði við kvikmyndagerð næstu árin áður en hann snéri aftur til Svíþjóðar. Sjöström er án nokkurs vafa einn áhrifamesti leikstjóri sænskrar kvikmyndasögu. Leikstjórar eins og Ingmar Bergmann og Stanley Kubrick hafa vísað í verk hans í myndum sínum. Áður en frægðarsól hans skein sem hæst hafði hann leikstýrt myndum í tugatali í heimalandinu. Ein þeirra var gerð eftir leikriti Jóhanns Sigurjónssonar frá árinu 1911; Fjalla-Eyvindur.

Á fullveldisárinu 1918 var myndin Berg-Ejvind och hans hustfru frumsýnd í Svíþjóð (ensk þýð. The Outlaw and His Wife). Sem fyrr leikstýrði Sjöström, skrifaði handritið ásamt Jóhanni og lék aðalhlutverkið. Myndin var tekin upp vorið og sumarið 1917 í Lapplandi þar sem reynt var að líkja eftir hálendi Íslands. Skáldinu Jóhanni og leikstjóranum Sjöström var vel til vina og gladdi það Íslendinginn þegar sá sænski lýsti yfir áhuga á að færa leikritið yfir á hvíta tjaldið. Til stóð að taka myndina upp á Íslandi en vegna heimsstyrjaldarinnar var það ekki mögulegt. Jóhann var staddur á Akureyri um það leyti sem myndin var frumsýnd á Íslandi vorið 1919. Gengu þær sögur fjöllunum hærra að hann ætlaði sér að flytja til Akureyrar og að búferlaflutningarnir tengdust atvinnustarfsemi í sjávarútvegi. Heilsu hans hafði hrakað á meðan Íslandsdvölinni stóð. Ekkert varð af flutningunum til Akureyrar og í júní var hann kominn heim til Danmerkur. Var hann þá orðinn fárveikur, svo mjög að hann var lagður inn á sjúkrahús um leið og hann steig á danska grund. Jóhann náði sér aldrei eftir þetta. Hann lést að heimili sínu í Kaupmannahöfn 31. ágúst 1919 í faðmi eiginkonu sinnar Ingeborg. Minni úr evrópskum þjóðsögum komu ekki við sögu á dánarbeði Jóhanns svo vitað sé, engir ökusveinar eða vagnar, aðeins gömul íslensk þjóðtrú. Inbegorg lýsir síðustu andartökum skáldsins svo í endurminningum sínum:

Svo var það einu sinni með morgunsárinu að Jóhann bað mig að opna alla glugga að gömlum íslenskum sið svo að sálin gæti flogið leiðar sinnar. Við höfðum horft ástaraugum hvort á annað og talað saman í hálfum hljóðum alla nóttina. Svo kom dauðinn í allri sinni óbilgirni en Jóhanni mínum þó svo líknsamur að ekkert þjáningarkast var honum samfara. Ég bað mennina tvo, sem kistulögðu Jóhann, um að mega hafa hann hjá mér nóttina eftir. Alla þá nótt sat ég við kistuna og horfði á undurfagra andlitið hans þar sem sérhver þjáningarhrukka var nú horfin. Það var svo ótal margt sem ég þurfti að segja við Jóhann þessar síðustu klukkustundir áður en þeir komu að sækja ástvin minn.

Kvikmyndahúsið í Hafnarstræti 73 var tekið í notkun hálfu ári fyrir sýningu Körkarlen. Þótti mörgum mikið til hússins koma vegna stærðar þess og útlits. Bíógestir á Akureyri hafa því sjálfsagt notið þess að horfa á sænsku hrollvekjuna á stóru tjaldi í glæsilegum húsakynnum þess tíma fyrir hartnær öld síðan. Í dag er myndin löngu orðin klassísk og af mörgum talin eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Jónas Þorbergsson ritstjóri Dags hélt ekki vatni yfir myndinni eins og lesa mátti um í Degi í janúar 1924. Hver veit nema boðskapur Selmu hafi snert ritstjórann? Hann var á þessum tíma einn helsti talsmaður þess að heilsuhæli fyrir berklasjúklinga yrði reist á Norðurlandi.

Hér má sjá stiklu (trailer) úr Körkarlen. Kemur þú auga á atriði sem veitti leikstjóranum Stanley Kubrick innblástur við gerð kvikmyndarinnar The Shining árið 1980?

 

Þegar Laddi spilaði fótbolta í rigningunni á Melgerðismelum

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Laddi spilaði fótbolta á Melgerðismelum. Reyndar var tilefnið annað og meira. Stór fjölskylduhátíð sem Ungmennasamband Eyjafjarðar stóð fyrir í Saurbæjarhreppi í samstarfi við ungmennafélög í hreppnum. Hátíðin bar heitið Ein með öllu og stóð yfir helgina 30. – 2. júlí. Aðstandendur hátíðarinnar gerðu sér vonir um að hún gæti orðið fjölmennasta útisamkoma sem haldin hefði verið Norðanlands. Reiknað var með allt að 5000 gestum með möguleika á að hýsa mun fleiri ef til þess kæmi. Þó höfðað væri til fjölskyldufólks og vínbann auglýst var samkoman ekki kynnt sem bindindismót. Gerðu menn því ráð fyrir að áfengi yrði haft um hönd í einhverjum mæli en Lögreglan fékk það hlutverk að vega og meta hvort eftirlit yrði haft með vínflutningum gesta inn á svæðið. Vegna þessa var erfitt að segja fyrir um aldursskiptingu og hversu mikil eða lítil ölvun yrði meðal samkomugesta. Mikil vinna var lögð í undirbúning og allt lagt í sölurnar til að gera samkomuna að áhugaverðum valkosti fyrir Íslendinga á faraldsfæti sumarið 1978. Tveir dansleikjapallar voru reistir. Auglýsingar og fréttatilkynningar um hátíðina birtust í öllum helstu dagblöðum dagana og vikurnar fyrir setningu hennar föstudaginn 30. júní.

Meðal þess sem var auglýst var veitingasala á svæðinu, næg tjaldstæði, góð aðstaða fyrir hjólhýsi og fyrirmyndar hreinlætisaðstaða. Læknir var sagður á svæðinu sem og slysavakt allan sólarhringinn í umsjá Hjálparsveitar skáta, svo ekki sé minnst á Lögregluna sem hafði töluverðan viðbúnað. Til að tryggja þeim sem vildu rólegheit umfram hávaða og læti voru útbúnar sérstakar „fjölskyldubúðir“ á afmörkuðu svæði á Melunum með leiktækjum fyrir börnin. Reglulegar sætaferðir voru í boði til og frá Akureyri alla þrjá dagana. Auglýstir voru dansleikir öll þrjú kvöldin og diskótek alla dagana frá morgni til kvölds. Ýmis konar skemmtiatriði voru í boði allan daginn, bæði laugardag og sunnudag og voru þau ekki af verri endanum. Meðal skemmtikrafta má nefna Halla og Ladda, Ruth Reginalds, Baldur Brjánsson, Bjarka Tryggvason og Jörund Guðmundsson. Eflaust hafa margir verið spenntir fyrir norðlenskum harmonikkuleikurum og aðrir fyrir módelflugi yfir Melunum sem og varðeldi sem ætlað var að kveikja upp að loknum dansleikjum. Íþróttir skipuðu einnig nokkurn sess. Ný bílaíþrótt, svokallað Bílaskrallý, reiptog yfir Eyjafjarðará milli Eyfirðinga og Þingeyinga og knattspyrnuleikur milli skemmtikrafta og úrvalsliðs Baldurs Brjánssonar töframanns. Kynnir hátíðarinnar var Magnús Kjartansson Brunaliðsstjóri.

Hljómsveitirnar þrjár sem auglýstar voru, Brunaliðið, Mannakorn og Akureyrarsveitin Hver voru stærstu númerin á hátíðinni. Brunaliðið var nýstofnað, „funheitt“ band sem hafði í maí gefið út plötuna Úr öskunni í eldinn. Platan innihélt m.a. smellina Sandalar, Einskonar ást og eitt vinsælasta dægurlag síðari tíma, Ég er á leiðinni. Hljómsveitin var því stór á þessum tíma og í raun sama hvernig á það var litið. Meðlimir hennar óskuðu eftir 120 fermetra stóru sviði á Melunum til að spila á sem og þeir fengu.

Hljómsveitin Mannakorn hafði örlítið meiri reynslu en Brunaliðið en hún var stofnuð þremur árum áður. Hún var þó ekki reynslumeiri en svo að í kynningum um sveitina í aðdraganda hátíðarinnar var flutningur hennar á Melgerðismelum sagður verða frumraun hljómsveitarinnar á opinberum vettvangi.

Hljómsveitin Hver var á allra vörum sumarið 1978 eftir að hafa komið fram í sjónvarpsþættinum Menntaskólarnir mætast. Flutningur hljómsveitarinnar í þættinum var með slíkum glæsibrag að hann var nefndur í sömu andrá og flutningur Hljóma í Háskólabíói á Bítlaárunum þegar sú ágæta sveit sló rækilega í gegn. Auk hljóðfæraleikara skipuðu hljómsveitina þrjár ungar stúlkur sem voru þá nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Þær áttu síðar eftir að geta sér gott orð sem flytjendur undir nafninu Erna, Eva og Erna.

Allt var til reiðu fyrir einhverja metnaðarfyllstu útisamkomu í sögu heimabyggðar og þótt víðar væri leitað. Aðeins veðrið gat mögulega sett strik í reikninginn. „Við kvíðum veðrinu ekkert“ sögðu aðstandendur samkomunnar við blaðamenn á meðan undirbúningi stóð. „Við fögnum nú hverjum rigningardeginum fyrir norðan því að dæmin sanna að á eftir mikilli rigningartíð kemur langur þurrkakafli.“ Takmarkaðar áhyggjur aðstandenda hátíðarinnar breyttu ekki því að veðrið varð sá örlagavaldur sem oft vill verða á útisamkomum á Íslandi. Rok, rigning og kuldi setti sitt mark á hátíðina alla þrjá dagana. Aðsóknin varð minni af þeim sökum en gert hafði verið ráð fyrir og meira af unglingum á kostnað fjölskyldufólks sem sennilega hefur kosið að halda sér heima vegna tíðarfarsins.

Lögreglan hafði í nógu að snúast. Þónokkuð var um slys og óhöpp í umdæmi hennar þessa helgi, óhöpp sem sum hver mátti rekja til hátíðarinnar á Melgerðismelum. Talsvert áfengi var gert upptækt sem kom þó ekki í veg fyrir ölvun hjá hluta hátíðargesta.

Leitað var í bílum sem komu á svæðið og fundust t.a.m. 12 vínflöskur í einum og sama bílnum. Gestir fundu þó ýmsar leiðir til að koma áfengi inn á svæðið. Sögur þess efnis að einhverjir hefðu grafið vínflöskur í jörðu á Melunum áður en hátíðin hófst gengu milli manna og þá reyndi einn hátíðargestanna að synda með flösku í beltinu yfir Eyjafjarðarána. Hann missti flöskuna og komst við illan leik yfir ána. Þá þurftu laganna verðir einnig að hlúa að nokkrum köldum og blautum unglingum sem hafði láðst að klæðast eftir veðri.

Leiðinlegt veður kom ekki í veg fyrir að rúmlega 2000 hátíðargestir borguðu sig inn á svæðið og voru þeir mættir til að skemmta sér. Þrátt fyrir veðrið og einhver óhöpp bar mönnum almennt saman um að samkomuhald hefði tekist með miklum ágætum, þökk sé góðum undirbúningi og skipulagi stjórnenda og rúmlega hundrað manna starfsliði hátíðarinnar.

Fjölskylduhátíðin sumarið 1978 var fyrsta og eina sinnar tegundar á vegum Ungmennasambands Eyjafjarðar sem haldin var á Melgerðismelum. Aðstandendur hennar voru fullir bjartsýni um að leikurinn yrði endurtekinn að ári. Af því varð ekki. Hins vegar markaði hátíðin upphafið að samstarfi þriggja menntaskólastúlkna á Akureyri annars vegar og einnar vinsælustu dægurlagahljómsveitar landsins hins vegar. Erna Gunnarsdóttir, Eva Albertsdóttir og Erna Þórarinsdóttir gengu til liðs við Brunaliðið eftir samkomuna á Melunum. Komu þær m.a. við sögu á plötu sveitarinnar Útkall sem kom út árið 1979.

Sótti Akureyri heim og gull í Amsterdam

Liðin eru 110 ár frá heimsókn franskrar konu og föruneytis hennar til Akureyrar. Í júlí 1908 lagðist franska snekkjan El Salvador að bryggju á Akureyri. Um borð var hin 18 ára Virginie Hériot ásamt móður hennar og öðrum meðlimum úr fjölskyldunni og fjölskylduvinum, samtals átta einstaklingum. Hópurinn ferðaðist um Norðurland í um vikutíma, fór m.a. að Dettifossi, í Ásbyrgi og í Mývatnssveit. Túlkur hópsins var Friðrik Rafnar Jónasson frá Hrafnagili en auk þess voru fylgdarmenn með í för og um 50 hross þar að auki.

Hériot átti síðar eftir að verða þekkt kona í Frakklandi og reyndar víðar vegna frammistöðu hennar í siglingum. Í nokkur ár áður en hún kom til Akureyrar hafði hún siglt um heimsins höf á snekkjunni sem var í eigu móður hennar. Á þeim tíma bar snekkjan nafnið Katoomba áður en því var breytt í El Salvador árið 1904. Hériot eignaðist El Salvador árið 1910 þegar móðir hennar gaf henni fleyið í brúðkaupsgjöf . Eftir að hún og eiginmaður hennar skildu árið 1921 eyddi hún flestum stundum á sjónum og í raun allt til æviloka. Hún keppti í siglingum um víða veröld og vann flest þau verðlaun sem hægt var að vinna á hinum ýmsu skútum. Hápunkti íþróttaferilsins náði hún fyrir 90 árum. Hún varð heimsmeistari í siglingum árið 1928 og Ólýmpíumeistari á leikunum í Amsterdam sama ár.

Virginie Hériot slasaðist illa í siglingakeppni í ágúst árið 1932 og lést af sárum sínum um borð í skútunni sinni Ailée II. Hún var 42 ára þegar hún lést.

Segir sagan okkur hvernig við sigrum Króata?

Við vitum að við erum ekki í bestu stöðunni í riðlinum en við höfum engu að tapa. Við munum fórna öllu í þessum leik sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali fyrir leikinn stóra gegn Króatíu á HM í Rússlandi. Orð að sönnu hjá þjálfaranum. Spurningin er hins vegar hverju skal fórna, á hvað skal veðja. Sjálfskipaðir „knattspyrnusérfræðingar“ koma nú í hrönnum fram á sjónarsviðið í aðdraganda lokaleiksins í riðlinum og sitt sýnist hverjum um hvernig best sé að mæta hinu ógnarsterka liði Króata. Sumir kjósa hefðbundna liðsuppstillingu og óbreytt leikkerfi, reynslu og þekktar stærðir meðan aðrir benda á nauðsyn þess að koma með eitthvað nýtt og freista þess að koma Króötunum í opna skjöldu. Grenndargralið heldur sig til hlés þegar kemur að taktík íslenska liðsins og leggur allt sitt traust á Heimi og hans teymi í Rússlandi. Þó er rétt að benda á athyglisverða tölfræði úr sögunni sem mögulega felur í sér lykilinn að góðum árangri á þriðjudaginn.

Á landsliðsferli sínum um miðja 20. öldina skoraði Albert Guðmundsson tvö mörk. Fyrra landsliðsmarkið skoraði hann í leik gegn Noregi sumarið 1947. Markið var fyrsta mark íslenska liðsins í leiknum. Sonur Alberts, Ingi Björn skoraði tvö mörk með landsliðinu rétt eins og faðir hans. Ingi Björn skoraði gegn Norður-Írum í júní árið 1977 og rúmum tveimur vikum síðar skoraði hann í leik gegn Norðmönnum. Bæði mörkin voru fyrstu mörk íslenska liðsins í leikjunum tveimur. Tölfræðin er af sama meiði hjá tengdasyni Inga Björns, Guðmundi Benediktssyni. Tvö mörk skoruð fyrir íslenska landsliðið. Viti menn, fyrra landsliðsmark Guðmundar var fyrsta og jafnframt eina mark íslenska landsliðsins þegar liðið bar sigurorð af Sameinuðu arabísku furstadæmunum sumarið 1994.

Með landsliðinu okkar í Rússlandi er ungur og efnilegur leikmaður sem hefur spilað fimm landsleiki. Hann heitir Albert Guðmundsson, 21 árs gamall leikmaður PSV Eindhoven og líkt og forfeður hans veit hann hvar markið er að finna. Að öðrum kosti væri hann ekki hluti af sterkum leikmannahópi Íslands sem eygir nú tækifæri á að komast í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Albert, sem enn hefur ekkert komið við sögu í leikjunum tveimur gegn Argentínu og Nígeríu, jafnar landsleikjafjölda langafa síns og alnafna ef hann kemur við sögu í leiknum gegn Króatíu. Hann á enn lengra í land með að ná afa sínum Inga Birni og föður sínum Guðmundi. Móðir Alberts, Kristbjörg Ingadóttir, spilaði jafnframt á sínum tíma með kvennalandsliðinu. Þegar kemur að markaskorun fyrir landsliðið hefur hann hins vegar vinninginn. Í leikjunum fimm hefur hann skorað þrjú mörk, öll í sama leiknum gegn Indónesíu. Og rétt eins og í tilfelli föðurins, afans og langafans var fyrsta mark hins unga Alberts Guðmundssonar fyrsta mark íslenska landsliðsins í þeim leik. Af þessum fimm landsleikjum sem nefndir hafa verið til sögunnar vannst sigur í fjórum.

Er Albert Guðmundsson trompið sem Heimir á upp í erminni? Er hann óvænta útspilið sem Króatar þekkja ekki frá fyrri viðureignum þjóðanna á knattspyrnuvellinum síðustu ár? Kannski. Við þekkjum mörg dæmi þess að hæfileikar gangi í erfðir. Við vitum jafnframt að sagan á það til að endurtaka sig. Ef við bætum svo líkindum við erum við mögulega komin með baneitraða blöndu sem jafnvel Króatar hafa engin mótefni gegn. Heimir hefur engu að tapa og verður að færa fórnir til að eiga möguleika á sæti í 16 liða úrslitum. Með því að senda soninn inn á völlinn fyrr en síðar í leiknum getur hann aukið líkurnar á íslensku marki á undan króatísku og þar með íslenskum sigri. Svo segir sagan.

Nígeríumenn þoldu illa kuldann – hvað gera Íslendingar í hitanum?

Fyrsti og eini A-landsleikur Íslands og Nígeríu í karlaflokki fór fram á Laugardalsvelli árið 1981. Í byrjun ársins voru Nígeríumenn nr. 32 á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins á meðan Íslendingar voru í sæti nr. 89. Þó knattspyrna í Afríku hafi ekki verið eins hátt skrifuð árið 1981 og seinna varð raunin, voru Nígeríumenn með nokkuð frambærilegt lið. Liðið hafði t.a.m. unnið Afríkubikarinn árið 1980. Leikurinn við Ísland var hluti að röð æfingaleikja í Evrópu en á þessum tíma var Nígería í harðri baráttu heima fyrir um laust sæti á HM á Spáni sumarið 1982. Nokkrum dögum áður en liðið kom til Reykjavíkur hafði það gert jafntefli 2-2 við Norðmenn í Osló og tapað 0-2 fyrir Sheffield Wednesday í Englandi. Leikurinn gegn Nígeríu var liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir mikilvægan leik gegn Tyrkjum í undankeppni HM í september á Laugardalsvelli. Íslendingar höfðu síðast landað sigri á þjóðarleikvanginum árið 1977 þegar kom að leiknum gegn Nígeríu.

Aðstæður voru afar slæmar þegar dómarinn flautaði til leiks laugardaginn 22. ágúst. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi setti veðrið strik í reikninginn. Kuldi, rigning og ekki fluga á ferð, slíkt var hvassviðrið. Elstu menn í bransanum í Laugardalnum sögðu veðrið hið versta í sögu knattspyrnuiðkunar á Laugardalsvelli eins og því var háttað hálftíma fyrir leik. Þá olli fjarvera Nígeríumanna áhyggjum þegar aðeins hálftími var til leiks. Þeim leist svo illa á veðrið að þeir lögðu ekki af stað frá hótelinu fyrr en 25 mínútum fyrir leik. Þrátt fyrir veðrið og óstundvísi gestanna hófst leikurinn á réttum tíma. Skemmst er frá því að segja að Íslendingar fóru með öruggan sigur af hólmi. Lokatölur leiksins 3-0. Mörk Íslendinga skoruðu þeir Árni Sveinsson, Lárus Guðmundsson og Marteinn Geirsson. Nígeríumenn þoldu illa kuldann. Þeim tókst ekki að aðlagast framandi aðstæðum á Laugardalsvelli. Vissulega hafði veðrið áhrif á leik beggja liða en án nokkurs vafa kom það meira niður á gestunum. „Það er ekki hægt að leika knattspyrnu í slíku veðri. Íslensku leikmennirnir kunnu betur að notfæra sér aðstæður og það réði úrslitum“ sagði þjálfari Nígeríumanna eftir leikinn.

Ólíklegt er, að Nígeríumenn hafi nokkurn tíma leikið knattspyrnu í slíku veðri sem á laugardaginn var, og eflaust leika þeir betri knattspyrnu við betri skilyrði. Þó er ljóst að þeir eru eftirbátar okkar í íþróttinni, en hversu lengi það verður skal ósagt látið. Við skulum vona að Nígeríumenn taki úrslitunum ekki of illa, en sumir áhorfendur töldu að skreiðarsamningar okkar við Nígeríu yrðu e.t.v. ekki endurnýjaðir.“                        

                                                                                                                                    Þjóðviljinn, ágúst 1981

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum fyrsta landsleik gegn Nígeríu fyrir 37 árum. Öllum er ljóst að bilið milli liðanna er annað og minna í dag en árið 1981, um það bera tölur frá styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins glöggt vitni. Þjóðirnar mætast nú öðru sinni á föstudaginn kemur í Rússlandi. Rétt eins og 22. ágúst gæti veðrið orðið örlagavaldur 22. júní. Spáð er allt að 35 stiga hita með tilheyrandi flugnageri. Ólíklegt er að Íslendingar hafi nokkurn tímann leikið knattspyrnu í slíku veðri. Hvað gera Íslendingar í hitanum? Munu aðstæður ráða úrslitum? Nú leggjumst við á bæn og vonum að íslenska liðinu takist að aðlaga sig framandi aðstæðum á knattspyrnuvellinum í Volgograd og nái í þrjú stig. Áfram Ísland!

Eins og gjarnan vill verða þegar landslið Íslands eru valin kom heimabyggð við sögu í leiknum á Laugardalsvelli árið 1981. Akureyringur spilaði sinn fyrsta opinbera landsleik þegar Sigurður heitinn Lárusson kom inn á fyrir Ómar Torfason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Markið í Moskvu

Hver man ekki eftir markinu í Moskvu í maí 1989? Markinu sem breytti öllu. Ólafur með langt innkast, Atli skallaði áfram, Sigurður náði ekki til knattarins, Halldór sem var á auðum sjó inni í vítateignum vinstra megin skoraði framhjá markverði Sovétmanna, Rinat Dasayev. Tíu ógleymanlegar sekúndur í knattspyrnuleik. Þjóðin ærðist af gleði meðan hún fylgdist með á sjónvarpsskjánum. Karlalandsliðinu í knattspyrnu hafði tekist hið ómögulega. Að ná í stig í undankeppni stórmóts á erfiðum útivelli, sennilega einhverjum þeim erfiðasta sem um gat á þessum árum. Jafntefli við Dani í Kaupmannahöfn árið 1959 í undankeppni Ólympíuleikanna (1-1) og gegn Wales í Swansea árið 1981 í undankeppninni fyrir HM 1982 (2-2) voru einu stigin sem íslenska landsliðið hafði krækt sér í á útivelli gegn sterkum andstæðingum þegar kom að leiknum gegn Sovétríkjunum.

Til marks um styrkleika Sovétmanna á þessum tíma var frábær árangur liðsins í Evrópukeppninni í Vestur-Þýskalandi sumarið áður þar sem það lék til úrslita gegn Hollendingum. Á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins í upphafi árs 1989 var sovéska liðið í öðru sæti ásamt Brasilíu. Ísland var í 61. sæti, einu sæti neðar en Norður-Kórea. Í liði Sovétmanna voru hetjur frá HM ´86 og EM ´88 – Kuznetsov, Aleinikov, Protasov, Zavarov, Rats og Dobrovolsky svo einhverjir séu nefndir. Ekkert benti til annars en að sovéski björninn færi með öruggan sigur af hólmi. Í íslenska liðinu voru einnig miklar hetjur, þar af þrír leikmenn úr heimabyggð. Auk markaskorarans Halldórs Áskelssonar voru þeir Gunnar Gíslason og Þorvaldur Örlygsson í íslenska leikmannahópnum. Tvær helstu stjörnur liðsins voru fjarri góðu gamni, þeir Ásgeir Sigurvinsson og Arnór Guðjohnsen. Mark í Moskvu var því borin von.

Að kvöldi miðvikudagsins 31. maí gengu 11 leikmenn íslenska liðsins inn á Lenín-leikvanginn í Moskvu. Um 80.000 áhorfendur voru mættir til að sjá feykisterkt lið heimamanna fara með skyldusigur af hólmi gegn örþjóðinni Íslandi í undankeppni fyrir HM á Ítalíu árið eftir. Sovétmenn leiddu riðilinn. Íslendingar, Austur-Þjóðverjar, Tyrkir og Austurríkismenn börðust um annað sætið. Dagskipunin var skýr. Standa vörnina og einbeiting í föstum leikatriðum. Brjóta á bak aftur þunga sókn Sovétmanna og nýta aukaspyrnur og innköst. Skipulagið hélt, staðan í hálfleik var 0-0. Á 65. mínútu leiksins fengu Sovétmenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig íslenska liðsins. Igor Dobrovolsky skaut föstu skoti að markinu sem Bjarni Sigurðsson markvörður náði ekki að verja og staðan því orðin 1-0 fyrir Sovétríkin.

Á þessum tímapunkti áttu margir heima í stofu von á erfiðum 25 mínútum, stórskotahríð sovéska liðsins og nauðvörn Íslendinga. Annað átti eftir að koma á daginn. Heimamenn töldu sigurinn vísan og urðu kærulausir á meðan íslenska liðið neitaði að gefast upp. Þjálfari íslenska liðsins, Siegfried Held, var klókur. Hann setti tvo leikmenn inn á sem báðir komu við sögu í markinu í Moskvu. Rúnar Kristinsson var upphafsmaður að tíu sekúndna leikkaflanum. Hann krækti í innkastið sem Halldór Áskelsson gerði sér mat úr með því að þruma knettinum upp í þaknet sovéska liðsins á 86. mínútu. Þögn sló á áhorfendur á Lenín-leikvanginum. Tíminn var of naumur fyrir Sovétmenn á ná í stigin tvö sem í boði voru. Íslendingar trúðu vart sínum eigin augum þegar finnski dómarinn flautaði til leiksloka. Þó sigur hafi ekki unnist var stærsti sigur íslenska landsliðsins á knattspyrnuvellinum engu að síður staðreynd. 

Mark Halldórs Áskelssonar í Moskvu var fyrsta markið sem Sovétmenn fengu á sig í undankeppni HM á þeirra eigin heimavelli í 24 ár. Liðið hafði spilað vel á annan tug leikja í röð án þess að fá á sig mark þegar íslenska liðið mætti til leiks á Lenín-leikvanginum. Markið í Moskvu var enn fremur fyrsta hindrun Sovétmanna á samfelldri sigurgöngu þeirra á heimavelli í undankeppni HM í 31 ár. Liðið hafði unnið alla heimaleiki sína frá árinu 1958 þar til smáþjóðin kom, sá og „sigraði“. Markið í Moskvu breytti öllu. Mönnum varð nú ljóst að með baráttu, leikgleði  og gott skipulag að leiðarljósi var allt mögulegt, á hvaða leikvelli sem var, hvað sem andstæðingurinn hét. Landsliðsþjálfari Íslands lét hafa eftir sér í viðtali eftir leik að liðið hefði spilað agað og beint frá hjartanu og fyrirliði liðsins, Atli Eðvaldsson, talaði um stórt hjarta Íslendinga en breiðan brjóstkassa Sovétmanna. Kunnugleg stef úr samtímanum. Með jafnteflinu héldu Íslendingar í vonina um sæti á HM á Ítalíu. Þó draumurinn hafi ekki ræst var fræjum sáð. Uppskeran er núna á stóra sviðinu í Rússlandi.

Nú tæpum 30 árum síðar eru Íslendingar aftur mættir til Moskvu og verkefni laugardagsins risavaxið sem fyrr. Líkindin eru því nokkur þegar kemur að hinum ytri aðstæðum. Andstæðingurinn er stjörnum prýtt silfurlið Argentínu frá HM 2014. Argentínska liðið er í 5. sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Messi, Agüero, Di María, Higuaín og Mascherano. Nú er hins vegar spurning hvernig strákarnir okkar ná að mótivera sig áður en þeir ganga inn á leikvanginn. Ef þeir mæta andstæðingnum með hjartað á réttum stað, standa vörnina og nýta aukaspyrnur og innköst er full ástæða til bjartsýni. Rétt eins og í maí 1989 eigum við okkar fulltrúa úr heimabyggð í íslenska landsliðshópnum. Ef sagan endurtekur sig mun einn þeirra skjótast upp á stjörnuhimininn á laugardaginn og skora markið í Moskvu. Markið sem breytti öllu. Áfram Ísland!

Hér má sjá markið fræga í Moskvu.

 

 

 

 

 

Aldargömul ákvörðun eyfirskra kvenna

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að tekin var ákvörðun um að hefja söfnun til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi. Þann 10. júní árið 1918 samþykktu konur í Eyjafirði tillögu Sigurlínu Sigtryggsdóttur um að fara af stað með söfnunina. Þar með hefst stórmerkileg saga Kristneshælis. Seinna á árinu voru sendir út söfnunarlistar um allt land og ávörp birt í blöðum til almennings. Allt gerðist þetta á fullveldisárinu með upphaf sitt í ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni.

Berklar um aldamótin 1900

Um og eftir miðja 19. öldina fór að bera meira á umfjöllun um berkla í skrifum lækna um heilbrigðismál á Íslandi en áður hafði verið. Þó almennt væri álitið að berklarnir væru í sókn leyndust efasemdarmenn í hópi lækna. Með fjölgun héraðslækna á síðustu áratugum aldarinnar og útgáfu heilbrigðisskýrslna, þá fyrstu fyrir árið 1896, fór athyglin að beinast æ meir að sjúkdómnum. Sjúkdómstilfellum fjölgaði jafnt og þétt. Þeim sem fóru með stjórn heilbrigðismála um aldamótin var orðið ljóst að skera yrði upp herör gegn berklasóttinni. Fyrstu lög um berklavarnir voru sett árið 1903. Berklaplágan var orðin að þjóðfélagsmeini og bregðast yrði við henni með einhverjum hætti.

Vífilsstaðir og heilsuhæli á Norðurlandi?

Heilsuhælisfélagið var stofnað árið 1906 í Reykjavík en markmið félagsins var að reisa heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Deildir voru stofnaðar um landið þvert og endilangt til fjársöfnunar fyrirhuguðu heilsuhæli. Stofnfundur deildar í Hrafngilshreppi var haldinn árið 1907 á bænum Grund. Þar kom fram skýr vilji fundarmanna um að stefna ætti að byggingu tveggja heilsuhæla og reisa annað á Norðurlandi. Vegna kostnaðar yrði þó að slá öllum slíkum hugleiðingum á frest. Með samstilltu átaki á landsvísu var fjármögnun heilsuhælis tryggð og og ákvörðun tekin um að hefja framkvæmdir. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og tók það til starfa árið 1910. Fljótlega fór þó að bera á óánægjuröddum í Eyjafirði. Stöðugt peningastreymi úr heimabyggð til Vífilsstaða og erfitt ástand í berklamálum heima fyrir kveikti í gömlum glæðum fundarmanna á Grund um heilsuhæli á Norðurlandi.

Konur í Saurbæjarhreppi hefja söfnun

Konur voru í fremstu víglínu á prestssetrinu í Saurbæ í Saurbæjarhreppi þann 25. október árið 1914 þegar hjúkrunarfélagið Hjálpin var stofnað. Sigurlína Sigtryggsdóttir var kosin í embætti formanns. Eitt helsta hlutverk Hjálparinnar var að veita sjúkum í hreppnum, sem ekki dvöldust á sjúkrahúsum, hjúkrun og aðhlynningu lærðrar hjúkrunarkonu. Vöxtur berklanna og fjarlægð við Vífilsstaði var ekki til að auðvelda störf hjúkrunarfélagsins auk þess sem aðstaða til að sinna berklasjúkum á Sjúkrahúsinu á Akureyri var takmörkuð. Árið 2017 gaf Grenndargralið út bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli eftir Brynjar Karl Óttarsson. Hér skal gripið niður í einn kafla bókarinnar þar sem fjallað er um hinn örlagaríka fund í júní 1918 og vinnuna sem fór af stað í kjölfarið:

Gera má því skóna að miklar frosthörkur og hafís veturinn 1917-18 með tilheyrandi erfiðleikum við samgöngur hafi verið fundarkonum ofarlega í huga á aðalfundi í Saurbæ þann 10. júní 1918. Fundurinn var sögulegur í meira lagi. Tillaga formannsins um að hefja söfnun á Norðurlandi til byggingar heilsuhælis í Norðlendingafjórðungi og fyrir geislalækningastofu á sjúkrahúsinu á Akureyri var samþykkt. Í hugum margra markar fundurinn upphaf aðgerða við að reisa Kristneshæli því þó vangaveltur þess efnis hafi reglulega skotið upp kollinum í aðdraganda hans var það ekki fyrr en hinar eyfirsku valkyrjur tóku af skarið og hrintu hugmyndinni í framkvæmd. Eftir að Samband norðlenskra kvenna tók málið upp á sína arma var ekki aftur snúið. Nefnd á vegum Sambandsins, skipuð níu konum með Önnu Magnúsdóttur ljósmyndara á Akureyri í broddi fylkingar, fékk það hlutverk að veita fjársöfnuninni brautargengi. Síðla árs 1918 var sérstökum söfnunarlistum dreift víða um Norðurland og í nóvember sama ár birtist ávarp þar sem almenningur var hvattur til að leggja söfnuninni lið.

Spennandi tímar á Kristnesi

Ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni og í Sambandi norðlenskra kvenna skilaði sér með vígslu Kristneshælis 11 árum síðar, þann 1. nóvember 1927. Á þeim rúmu 90 árum sem liðin eru frá vígslunni hefur hlutverk staðarins tekið umtalsverðum breytingum. Eftir tímabil stöðnunar lítur nú út fyrir að hans bíði nýtt og spennandi hlutverk. Öld er liðin frá því að konur í Eyjafirði hófu söfnun fyrir stofnuninni og enn koma konur mikið við sögu í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Kristnesi.

Eins og mörgum er kunnugt hefur María Pálsdóttir unnið að því hörðum höndum um nokkurt skeið að opna setur um sögu berklanna á Kristnesi seinna á árinu. Má með nokkrum sanni segja að nýi og gamli tíminn mætist á Kristnesi þessi dægrin. Stór og mikil saga sem nær áratugi aftur í tímann gengur í endurnýjun lífdaga í tveimur nýútgefnum bókum um Kristnes og setri um sögu berklanna. Ljóst er að spennandi tímar eru framundan á þessum fallega og sögufræga stað.