Héraðsfréttir

Grenndargralið og GiljaskólaleiðinGrenndargral.is segir fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Unnið er samkvæmt hugmyndafræði Giljaskólaleiðarinnar. Nemendur á grunnskóla- og framhaldsskólastigi á Akureyri setja sig í spor fréttamanna, fara á stúfana og leita uppi athyglisverð viðfangsefni. Nemendur tjá eigin tilfinningar og skoðanir á nánasta umhverfi og málefnum líðandi stundar. Með skrifum sínum leggja þeir sitt af mörkum til uppbyggingar grenndarsamfélagsins á lýðræðislegan hátt. Nemendum gefst tækifæri til að láta rödd sína heyrast með því að beita rökhugsun og gagnrýninni hugsun. Þannig  fá þeir tækifæri til að vekja athygli á hagsmunamálum sínum. Með skrifunum geta þeir haft áhrif með því að veita þeim aðhald sem annars kunna að brjóta á réttindum þeirra.

 

 

Skólinn minn Giljaskóli

Þegar að ég var fimm ára og var í leikskólanum Kiðagili kom ég fyrst inn í skólann til að skoða hann með sjötta bekk Giljaskóla. Í honum var bróðir minn sem sýndi mér skólann. Þá var ég rosalega spenntur fyrir því að byrja í skólanum. Núna er ég búinn að vera í Giljaskóla í átta ár og er þar með kominn í áttunda bekk. Giljaskóli er mjög fínn skóli og ég er mjög ánægður með krakkana í skólanum og líka kennarana.

Í fyrsta bekk fannst mér vera rosalega stórir krakkar í öðrum bekk. Núna finnst mér þau auðvitað hvorki vera stór né gömul. Í skólanum er staður sem að heitir Dimmuborgir. Þar eyða unglingarnir eyðum og frímínútum. Þar er mikið horft á Simpsons og Fast and the furious og líka aðrar myndir eða þætti. Nemendur í skólanum eru um fjögur hundruð. Í skólanum er frekar stórt bókasafn með allskonar bókum eins og Harry Potter, Lord of the Rings, Hunger games og Artemis Fowl sem að allt eru frægir bókatitlar. Það eru miklu fleiri bækur, tímarit og blöð eins og til dæmis Andrés Önd og líka fullt af spilum á bókasafninu. Í Giljaskóla er íþróttahús og fimleikahús en það er mjög gaman í fimleikahúsinu. Þar er svampagryfja og flott trampólín, mjög mjúk dýna, hringir, slá og fleira. Íþróttahúsið og fimleikahúsið eru aðskilin frá hvoru öðru með tjaldi sem er hægt að setja upp og niður. Það er hægt að spila tennis, badminton, blak, eltingaleik, fótbolta, handbolta og allskonar íþróttir þar. Giljaskóli er með íþróttir fyrir krakkana. Hafist var handa við hönnun íþróttahússins árið 2007 og var svo skóflustunga tekin fyrir húsinu þann 4. júní 2008. Verklok voru á haustdögum 2010. Ég man enn eftir þegar við þurftum að fara í rútu í Síðuskóla til að komast í íþróttir. Núna er mjög þægilegt að þurfa ekki að fara langt til að komast í íþróttir.  Í fyrsta til fjórða bekk fórum við í sund í Glerárlaug en í fimmta bekk og eldri bekkjum förum við í sund í Akureyrarlaug og þar syndum við í keppnislauginni.

Dimmuborgir er notalegur staður með fullt af sófum, teppum og koddum. Þar er líka skjávarpi til að horfa á myndir eða þætti og nokkur spil eins og fótboltaspil, poolborð og borðtennisborð. Þetta tilheyrir allt Dimmuborgum. Bókasafnið í Giljaskóla er með fullt af áhugaverðum bókum spilum og bæklingum sem gott er að hafa aðgang að. Íþróttahúsið býður upp á fjölbreytta möguleika á íþróttaiðkun og þar er til dæmis hægt að fara í badminton, fótbolta, handbolta og körfubolta.

Ágúst Hlynur Halldórsson 8. bekk Giljaskóla

Heimildir: www.giljaskoli.is

 

 

Skipulag á Giljahverfi

Fyrst þegar þú flytur inn í Giljahverfi sérðu bara hús og götuheiti. En þegar þú kynnist því betur er þetta mjög flott og skipulagt hverfi. Fyrst er Giljahverfi skipað eftir götuheitum. Göturnar eru settar saman eftir fyrsta staf í heiti, til dæmis eru öll V-gilin sett saman, Vesturgil, Vættargil, Víkurgil og svo framvegis. Við erum líka með S-gilin og F-gilin. Síðan eru þrjár götur sem eru einstakar. Þær eru Urðargil, Huldugil og Dvergagil. Samgöngur í Giljahverfi eru mjög góðar. Það er ein stór gata sem gengur í gegnum Giljahverfi, Merkigilsgatan.

Í Giljahverfi eru tíu strætóskýli. Þau eru öll frekar nálægt hvert öðru en samt þannig að allir í hverfinu þurfa ekki að labba langt í næsta strætóskýli. Allir strætóar koma í Giljahverfi þannig að auðvelt er að fara á aðra staði.

Í Giljahverfi eru margir leikvellir. Giljaskóli er með stóran leikvöll sem inniheldur fótboltavelli, körfuboltavelli, leikakastala, rólur og síðan eitt nýtt tæki sem er mjög vinsælt hjá krökkum í dag. Þetta er tæki er lítill fótboltavöllur þar sem tveir spila í einu. Við hliðina á Giljaskóla er leikskóli sem heitir Kiðagil. Við Kiðagil er frábær leikvöllur fyrir krakka, sérstaklega þá yngri. Á Kiðagili eru til dæmis rólur, ungbarnarólur, sandkassi, leikkastali og margt fleira sem er sérstaklega fyrir litla krakka. Síðan er annar leikskóli sem heitir Tröllaborgir. Hann er staðsettur undir Fésta blokk en sú blokk er einugis ætluð háskólanemendum. Tröllaborgir er neðst í Giljahverfi þannig að það styttra að labba í Kiðagil nema fyrir þá sem búa neðst í hverfinu, sem eru ekki margir. Leikvöllurinn þar er stór og flottur. Ég mæli með honum því stundum fer ég út að passa með vinkonu minni og þá tökum smá göngutúr þangað og leikum okkur. Svo tökum við göngutúr til baka. Einnig eru bara venjulegir leikvellir sem tilheyra engum skóla eða leikskóla. Þeir eru dreifðir um hverfið, svo það er aldrei langt í næsta leikvöll.

Núna er ég búin að tala um leikvelli, skipulag á hvefi og samgöngur. En er þetta hverfi ætlað eldri borgurum ? Svarið mitt er já. Giljahvefi er rólegt hverfi og frábært fyrir alla að búa þar. Í Giljahverfi er gaman að labba um og þá sérstaklega upp í móann sem er efst í F-gilunum, en þar er nóg af berjum. Giljahverfi er frábært fyrir alla á öllum aldri. Ég myndi ekki vilja að búa annarsstaðar.

Ingibjörg Aþena Ellertsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Parkið við Giljaskóla, kostir og gallar

Mér finnst flott að parkið sé komið þannig að krakkar þurfa ekki að fara alla leiðina á háskólalóðina eða í Lundaskóla. Mér finnst þó að það þurfi að fylgja reglunum meir. Ég hef oft farið á parkið og komið að nokkrum krökkum hlaupa um á því. Þeir hlýða ekki þó ég segi þeim að fara. 

Mér finnst þetta vera vandamál. Þetta park er alveg frábært en þessir krakkar eru örlítið að eyðileggja upplifunina af því. Til dæmis ef einhver fer niður “ölduna” og þá kemur bara einhver krakki og hleypur fyrir og eyðileggur “trikkið” sem viðkomandi var búinn að peppa sig upp fyrir. Þetta getur búið til slysahættu. 

Sumir krakkar sem eru að hlaupa um sulla líka oft gosi eða henda nammi á parkið. Einu sinni var einhver búinn að henda eggi í tröppurnar og skildi það eftir svo að allt varð klístrað. 

Fyrsta árið sem parkið var hér við skólann losaði einhver skrúfurnar á römpunum þannig að það er ekki erfitt að “raila” á hlaupahjóli á miðjunni. Þegar einhver reynir að raila þá grípur það í skrúfu og maður getur dottið. 

Það voru sett upp spjöld með reglum annað sumarið sem það var uppi en næsta ár var það rifið niður af einhverjum krökkum. Það mætti setja annað spjald sem væri búið að grafa reglurnar í. 

Það mætti líka koma upp betri lýsingu, til dæmis setja upp einfalda ljósastaura sem mætti líka setja eftirlitsmyndavélar á. Það hefur komið fyrir að einhverjir taka hjólabrettin eða hlaupahjólin af parkinu og fara í burtu og skilja það eftir einhversstaðar í kringum skólann, jafnvel í hverfinu. 

Þetta er það sem ég vil sjá breytingu á hjá parkinu hér við skólann. Parkið er frábært en það er bara mikið af fólki sem gengur illa um það. Aðallega má setja upp betri lýsingu og setja upp almennilegar reglur sem sjást vel og setja upp myndavélar. 

Sigmar Ernir Sigrúnar Ketilsson 8. bekk Giljaskóla

 

Giljahverfi er frábært

Giljahverfi er tiltölulega ungt hverfi á Akureyri. Byrjað var að byggja Giljahverfi árið 1990. Hverfið var byggt í kringum Giljaskóla. Merkigil er stofngata hverfisins og út frá því ganga svo göturnar. Þannig að ef Merkigil er trjástofninn þá eru hinar göturnar greinarnar.

Mér finnst Giljahverfi frábært. Það er svo ,,lítið” eða þétt, það er svo stutt fyrir krakka að fara og leika við vini í hverfinu og það er engin stór ,,hættuleg” gata að mér finnst. Það er fínt að vera með yngri krakka hér í hverfinu. Mikið er um leikvelli, allavega 6 leikvellir eru á svæðinu og tveir leikskólar eru í hverfinu líka. Annar leikskólanna er í sama húsnæði og háskólaíbúðir. Mér finnst það mjög sniðugt fyrir fólk með börn og í námi. Svo eru það helstu  íþróttafélög bæjarins á Akureyri. Þau heita Þór og K.A. og þau eru jafn langt í burtu frá Giljahverfi og það er ekki lengra að hjóla þangað heldur  en 5-10 mínútur. Helstu íþróttagreinarnar sem stundaðar eru í íþróttafélögunum eru fótbolti og handbolti. Nokkrar aðrar íþróttir eru svo líka stundaðar þar. Fimleikahús bæjarins er við Giljaskóla og félagið heitir FIMAK sem þýðir Fimleikafélag Akureyrar. Er það hluti af íþróttahúsi Giljaskóla. En stundum finnst mér hverfið vera of langt frá til dæmis helstu verslununum. Mér finnst þetta líka gott hverfi vegna þess að fyrir ofan hverfið er mói og hesthús aðeins fyrir ofan sem er sniðugt fyrir fólk sem hefur áhuga á hestum. Ég á hund og henni finnst miklu skemmtilegra að fara upp í móa með okkur að hlaupa um heldur en að þurfa að labba um í bandi á gangstéttum bæjarins. Því miður er mikið um hundaskít í hverfinu. Þegar fólk fer út að labba með dýrin þarf að hirða upp kúk eftir þau. Mjög ógeðfellt er að halda á kúk alla leiðina heim með hann í poka í hendinni. Því væri gott að fá fleiri ruslatunnur í hverfið fyrir almenning.

Giljahverfi er nokkuð öruggt hverfi og hér er gott að búa. Fín aðstaða er til að vera með börn, það er stutt í skóla og íþróttaiðkun og útivist. Hér vil ég vera.

 

 

Agnes Vala Tryggvadóttir 8. bekk Giljaskóla
 

Heimild: Steindórsson, S. (1993). Akureyri: Höfuðborg hins bjarta norðurs. Örn og Örlygur.

 

 

Íþróttaaðstæður í Giljahverfi

Það er mjög mikilvægt fyrir börn og unglinga að hreyfa sig regulega og eru íþróttaaðstæður í Giljahverfi  mjög fínar. Við höfum flott fimleikahús, sem var tekið í notkun árið 2010.

Fimleikahúsinu er skipt í tvennt. Öðru megin er fimleikasalurinn þar sem FIMAK eða Fimleikafélag Akureyrar æfir fimleika. Hægt er að æfa hópfimleika og áhaldafimleika frá 6 ára aldri. Fimleikahúsið er opið  á laugardögum og krakkar 3ja til 5 ára geta leikið sér í salnum. Hinum megin er íþróttasalur þar sem nemendur í giljaskóla erum í íþróttum. Mér persónulega finnst mjög þægilegt að geta bara labbað niður í fimleikahúsið og farið í íþróttir í staðinn fyrir að fara í rútu til að fara í íþróttir. Svo er þetta mjög flott aðstaða, klefarnir eru flottir, það eru margar sturtur og allt mjög snyrtilegt.

Í Giljahverfi eru líka 5 eða fleiri fótboltavellir. Það er einn gervigrasvöllur, einn steypuvöllur og þrír grasvellir. Grasvellirnir eru slegnir á sumrin en ekki er hægt að spila fótbolta á þeim á veturnar, sama á við um steypuvöllinn. Gervigrasvöllurinn er upphitaður, þannig að það er hægt að spila fótbolta á honum allt árið. Á skólalóðinni eru líka 8 körfuboltakörfur, 6 háar körfur og 2 lágar körfur.

Vorið 2015 kom Park í Giljahverfi og þar er hægt að vera  til dæmis á hlaupahjólum og hjólabrettum. Svo er auðvitað hægt að gera margt fleira tengt íþróttum í Giljahverfi en þetta er svona það helsta.

Það eru 10 strætóskýli i Giljahverfi og eru 6 leiðir sem ganga um Akureyri og fjórar af þeim koma upp í Giljahverfi á klukkutíma fresti, sem þýðir að það er auðvelt að komast á milli staða og þar af leiðandi auðvelt að komast á milli til að æfa íþróttir.

Á sumrin er alls ekki langt að hjóla í Bogann þar sem hægt er að æfa fótbolta með Þór og frjálsar með UFA. Það er heldur ekki langt að hjóla í sund. 

Þannig að það er mjög auðvelt að finna sér eitthvað sem manni finnst skemmtilegt tengt íþróttum í Giljahverfi og á Akureyri. Eins og fram hefur komið eru íþróttaðstæður í Giljahverfi mjög fínar. Þar er stórt og flott fimleikahús,  fimm eða fleiri fótboltavellir og átta körfuboltakörfur. þannig að það er auðvelt að finna  eithvað við sitt hæfi.

Hrönn Kristjánsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Giljahverfið – hverfið okkar

Í Giljahverfi finnst mér einstaklega gott að búa. Ég tel það öruggt og mjög fjölskylduvænt hverfi. Giljahverfi er í raun byggt í hring og því eru ekki margar götur og það er stutt að labba í skóla og leikskóla. Þess vegna þurfa börnin í hvefinu í mesta lagi að fara yfir tvær götur til þess að komast í skólann. 

Foreldrafélag Giljaskóla hefur einnig lagt sitt af mörkum til að gera hverfið öruggara með því að skipuleggja svokallað foreldrarölt. Fyrirkomulagið er þannig að ákveðna daga eru foreldarar nemenda í 7. -10. bekk fengnir til þess að ganga um hverfið í merktum vestum. Að lágmarki fjórir foreldrar ganga um í hvert sinn, tveir og tveir saman eða allir í hóp. Það hefur sýnt sig að í þeim hverfum sem svona fyrirkomulag er, minnka líkurnar  á því að börnin lendi í aðstæðum sem geta verið ógnandi eða valdið hræðslu. Á heimasíðu Giljaskóla geta foreldrar kynnt sér frekar fyrirkomulag foreldraröltsins og skráð sig á vaktir.

Í hverfinu eru nokkrir leikvellir, misstórir, sem henta börnum á öllum aldri og eru þeir talsvert notaðir. Einnig eru sparkvellir á ýmsum stöðum um hverfið og safnast krakkarnir oft saman til þess að spila fótbolta eða fara í leiki. Nýlega var útbúið á skólalóðinni eitthvað sem kallast panna. Þar leika börnin sér samkvæmt ákveðnum reglum. Á þessu eru átta horn og tvö mörk , það geta verið einn á móti einum eða tveir á móti tveimur o.s.frv.

Stórt fimleika- og íþróttahús er tengt við skólann sem er frábært, sérstaklega yfir veturinn því þá þurfum við ekki út til þess að fara í íþróttir.  Þess vegna er stutt fyrir börn sem æfa fimleika eða parkour og eiga heima í Giljahverfinu að fara á æfingar.

Hverfið er í raun efsta hverfið í bænum og það er frábært að geta setið heima í stofu og horft upp í fjöllin og sérstaklega Súlur, sem má segja að sé eitt af kennileitum bæjarins.

Stutt er í hverfisbúðina, Krambúðina, og er yfirleitt mjög mikið að gera þar allan sólahringinn.

Mér finnst mjög þægilegt  að búa í Giljahverfi, það er fallegt, öruggt og fjölskylduvænt hverfi með fullt af flottum leikvöllum fyrir börn og krakka á öllum aldri. Foreldrafélagið stendur sig vel í að auka öryggið í hverfinu og stutt er í tómstundir og ýmsa þjónustu. Að mínu mati hefur því hverfið allt sem til þarf og einkennir vel uppbyggt barnahverfi.

Heimild: http://www.giljaskoli.is/foreldrar/foreldrarolt.

Agnes Birta Eiðsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Of hraður akstur í íbúðarhverfum

Ég og vinur minn sáum bíl sem ekið var allt of hratt eða á 80-90 km hraða á Hlíðarbraut en þar er hámarkshraði 50 km.  Ég hef líka séð ökumenn sem keyra á 60-70 km hraða í götunni sem ég bý í.  Hún er botnlangagata þar sem hámarks hraði er 30 km.  Í raðhúsinu sem amma býr er maður sem keyrir oft mjög hratt, strax á bílaplaninu.  Einu sinni klessti hann á kyrrstæðan bíl sem hafði verið lagt við raðhúsið hennar ömmu.  Það hefði getað endað með alvarlegu slysi. 

Gera þessir ökumenn sér grein fyrir hættunni sem þeir geta skapað? Þeir gætu slasað einhvern eða jafnvel drepið.  Slíkt er ekki hægt að taka til baka.  Í götunni minni er fullt af krökkum sem eiga það til að fara skyndilega út á götuna og ef ökumaður er á 50-60 km hraða þá nær hann ekki endilega að stoppa og gæti keyrt á lítinn krakka sem væri að leika sér.

En hvað er hægt að gera?  Það mætti til dæmis fjölga hraðahindrunum og setja upp fleiri skilti sem sýna hámarkshraða.  Stundum setja íbúar sjálfir upp hraðahindranir.  Það er til dæmis búið að setja upp tvær hraðahindranir í Huldugili sem íbúarnir ákváðu að gera sjálfir vegna þess að of margir keyrðu of hratt í götunni.  Í Huldugili búa mjög margir krakkar og inni í götunni eru litlir leikvellir sem börnin hlaupa kannski hratt út úr og beint út á götuna.  Þá getur skapast mikil hætta og góð leið til að koma í veg fyrir slys er að setja upp hraðahindranir.  Einnig er hægt að vera með meiri fræðslu, t.d. í sjónvarpi, um það hversu hættulegt það er að keyra á 50 km hraða í þröngum íbúðargötum.  

Það er ljóst að við þurfum að vera með meiri metnað í því að fræða, sérstaklega unga ökumenn.  Einnig að skoða hvort fleiri hraðahindranir í íbúðahverfum gætu gert gagn.  Ef ekkert verður gert er ekki ósennilegt að alvarlegt umferðarslys verði í Giljahverfi þar sem ökumaður keyrir á gangandi vegfaranda.

Guðmundur Ingi Guðmundsson 8. bekk Giljaskóla

 

 

Barnvænt hverfi

Árið 1990 var byrjað að byggja fyrstu húsin í Giljahverfi.  Giljahverfi er nokkurn veginn byggt í hring í kringum Giljaskóla og er Giljaskóli frekar neðarlega í þessum hring. 

Hér á Akureyri er frítt í strætó.  Frá Giljahverfi er mjög létt að taka strætó til dæmis í Naustahverfi, Síðuhverfi eða niður í Miðbæinn.  Ég sjálf hef notað strætó mikið og er þetta frábær leið til að minnka skutlið á æfingarnar. 

Ég flutti í Vættagil, sem er ein gatan í Giljahverfi, fyrir nokkrum árum.  Giljahverfi er frekar skipulagt hverfi.  Hús, götuheiti og númer á húsum er allt mjög vel merkt og ef þú ert nýr í hverfinu ætti ekki að vera mikið mál að finna göturnar.  Í Giljahverfi er ekki svo mikið af gangbrautum sem þú þarft að fara yfir þegar þú ert að fara í skóla eða leikskóla.  Í Giljahverfi eru tveir leikskólar.  Þeir heita Tröllaborgir og Kiðagil.  Giljaskóli eini skólinn í hverfinu.

Í sumar var ég mikið að passa.  Einfalt er að finna afþreyingu fyrir börn hér í hverfinu.  Margir leikvellir eru hérna og ekki langt að labba á þá hvar sem þú býrð í hverfinu.  Leikskólarnir eru mjög góðir til að fara með börn á.  Frá hverfinu er stutt að koma sér út í náttúruna.  Giljaskóli hefur nýtt sér það vel.  Krakkarnir í Giljaskóla sem eru í smíðum hafa verið að endurbyggja rjóðrið sem var eyðilagt í fyrra.  Rjóðrið er að verða eins og nýtt.  Rjóðrið er trjálundur rétt fyrir neðan verslunina Samkaup strax. 

Á kvöldin hittumst við krakkarnir í bekknum mínum og líka krakkar úr öðrum bekkjum.  Þegar við hittumst í Giljaskóla förum við yfirleitt á völlinn en núna er kominn svokallaður pönnuvöllur sem smíðakennarinn okkar og íþróttakennarinn smíðuðu.  Pönnuvöllurinn er mjög vinsæll hjá krökkum á öllum aldri.  Pönnuvöllurinnn er nokkurn veginn átthyrningur.  Þetta eru lítil mörk og tilgangurinn með leiknum er að reyna að „klobba“ einhvern eða skora í mörkin og sá vinnur sem skorar og hinn fer útaf.  Pönnvöllurinn kostar um milljón ef ekki meira.  Skólinn sparaði mikinn pening því kennararnir smíðuðu þennan völl. 

Giljahverfi er frábært hverfi, þægilegt að umgangast það og það er einnig fjölskylduvænt.  Strætóleiðir til og frá hverfinu eru mjög góðar og mikil afþreying fyrir unga krakka.

María Björk Friðriksdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Íþróttaaðstaða í Giljahverfi

Í Giljahverfi er að mínu mati mjög góð íþróttaaðstaða. Það er til dæmis þægilegt að geta labbað í þetta flotta og stóra fimleikahús sem byggt var árið 2008 til 2009.

Á laugardögum fyrir hádegi er opin fimleikaæfing fyrir börn til 6 ára aldurs. Þar geta foreldrar eða eldri systkini komið með börnin og leyft þeim að leika sér í fimleikasalnum. Þannig fá þau góða útrás og þau fá að kynnast fimleikaíþróttinni í leiðinni. FIMAK sem er fimleikafélag Akureyrar er með mjög flott starf ekki bara fyrir börn til 6 ára aldurs heldur líka stelpur og stráka á öllum aldri. Ég sjálf æfði fimleika hjá þeim í um það bil sex ár og hafði ég mjög gaman af því. Í fimleikum eru tveir möguleikar. Þú getur annars vegar æft hópfimleika og hins vegar áhaldafimleika sem er einstaklingsíþrótt. Í Giljahverfi erum við einnig með einn gervigrasvöll, einn steyptan völl og þrjá eða fleiri grasvelli þar sem öllum er velkomið að koma hvenær sem er og spila fótbolta og leika sér. Þetta geta til dæmis fótboltaáhugamenn nýtt sér. Fótboltafélögin á Akureyri Þór og KA eru með mjög flotta fótboltavelli bæði inni og úti fyrir krakka og unglinga sem æfa fótboltaíþróttina. Krakkar í Giljahverfi eru fljótir að hjóla og labba bæði á KA- og Þórsvellina. Mér finnst sniðugt að krakkar nýti sér að það sé svona stutt á æfingar og þannig geta þeir sparað foreldrum sínum mikið skutl. Fyrir þau sem hafa hvorki áhuga á fimleikum né fótbolta geta þau nýtt sér þessar fjölmörgu körfuboltakörfur en í Giljahverfi erum við með að minnsta kosti 9 körfuboltakörfur. Það er eins með körfuboltakörfurnar og fótboltavellina að það mega hverjir sem er koma hvenær sem er. Þeir sem hafa mikinn áhuga á körfubolta geta þá æft körfubolta hjá Þór.

Eins og ég sagði hér í byrjun er íþróttaaðstaða í Giljahverfi mjög góð og margir möguleikar eru á íþróttaiðkun. Fótboltavellirnir eru flottir og margir, körfuboltakörfurnar eru víða og fimleikafélagið er öflugt. Ég sjálf hef prófað margar íþróttir í GIljahverfi og hef haft gaman af því.

Katrín Dóra Jónsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Hverfið sem hefur allt

Byrjað var að byggja fyrstu húsin í Giljahverfi árið 1990. Giljahverfi er mjög gott hverfi. Gervigrasvöllurinn í Giljahverfi er vinsælasti völlurinn í Þorpinu, allavegana hjá krökkunum á mínum aldri sem eru fæddir árið 2004. Minn aldur fer næstum á hverjum degi á völlinn, lang oftast klukkan 19:30 en annað slagið aðeins seinna en það. Mjög margir nota gervigrasvöllinn í Giljahverfi, meira að segja koma stundum nokkrir fullorðnir menn og spila einn eða tvo stutta leiki. Síðan er líka parkið. Margir eru á parkinu ef það er ekki blautt úti. Það er líka körfuboltavöllur við hliðina á gervigrasvellinum og síðan er annar vestan megin við Giljaskóla. Þar eru stundum einhverjir en ekki alltaf. Giljaskóli var að byggja klobbavöll eða tæknivöll en það er mismunandi hvað menn kalla völlinn. Hann er líka vinsæll. Giljahverfi er örugglega bara besta íþróttahverfið.

Krambúðin í Giljahverfi græðir allavegana eitthvað á krökkunum sem eru úti í Giljahverfi á kvöldin, til dæmis pínu á krökkunum sem eru á gervigrasvellinum eða parkinu. Á seinustu tíu árum hefur verið bætt við íþróttahúsi, parki og tæknivelli í Giljahverfi og er verið að setja upp nýjan leikkastala. Giljahverfi er bara að verða betra með hverju ári. Í Giljahverfi búa um það bil 2100 manns samkvæmt manntali Akureyrar. Það er nokkuð mikið miðað við hvað þetta er nýtt hverfi. Í Giljahverfi eru ruslahaugar. Sumir krakkar gera leynistað í litla skóginum fyrir ofan ruslahaugana og ná í fullt af drasli af ruslahaugunum til að skreyta hann. Giljahverfi er Þórsarahverfi þó að það séu einhverjir KA menn og konur í því. Í Giljahverfi er ekkert rosalaga mikil umferð að mínu mati en ég veit ekki alveg hvað öðrum finnst um hana. Giljahverfi er bara tuttugu og níu ára en er samt að verða gróðri vaxið af til dæmis trjám og runnum. Í Giljahverfi eru tveir leikskólar sem heita Kiðagil og Tröllaborgir. Kiðagil er við hliðina á Giljaskóla og Tröllabogir eru í rauðu blokkinni fyrir ofan Krambúðina. Giljahverfi er bara snilldar hverfi sem hefur allt. Eins og kom fram í textanum hér fyrir ofan er Giljahverfi mikið íþróttahverfi. Í Giljahverfi er mikið af fínum aðstæðum til að stunda vinsælar íþróttir t.d. fótbolta og körfubolta.

Bjarni Guðjón Brynjólfsson 8. bekk Giljaskóla

 

 

Frábær aðstaða fyrir unga fótboltaiðkendur í Giljahverfi

Í Giljaskóla á Akureyri er komið nýtt leiktæki  sem finnst hvergi annars staðar á Akureyri. Það var smíðað af smíðakennara Giljaskóla, Guðmundi Elíasi Hákonarsyni  og íþróttakennaranum Einvarði Jóhannssyni. Mætti kalla þetta mini fótboltavöll eða ,,Panna – Skills”. Völlurinn hefur heldur betur slegið í gegn hjá nemendum skólans og er frábær viðbót við aðra fótboltavelli í Giljahverfi.

Leiktækið er staðsett  á skólalóðinni og er opið fyrir alla alltaf. Það eina sem þarf í þetta er fótbolti því þetta er fótboltavöllur sem fáir geta verið í. Fótboltavöllurinn hefur átta horn og lítil mörk á móti hvoru öðru. Tvær festingar eru á hverju horni sem halda vellinum stöðugum. Veggirnir eru úr timbri og eru sirka hálfur meter á hæð. Gert er ráð fyrir því að tveir séu inni á vellinum í einu og spila á móti hvor öðrum. Almenna reglan er að reyna á að skora þrjú mörk og aðilinn sem vinnur heldur vellinum.Leiktækið varð frá upphafi mjög vinsælt og er það lang oftast í notkun á skólatíma en líka eftir skóla og um helgar. Það er hægt að finna kosti og galla við lang flest og þar á meðal þennan fótboltavöll. Íbúar nálægt skólanum, en aðallega í Snægili, hafa kvartað undan þeim hávaða  sem berst frá vellinum langt fram á kvöld.

Þessi fótboltavöllur er bara einn af mörgum fótboltavöllum í Giljahverfi. Til dæmis er Giljaskóli með þrjá velli í viðbót, einn fótboltavöll með gervigrasi, annan grasvöll og sá þriðji er steyptur. Allir vellirnir eru lang oftast í notkun en á skólatíma er notkunin skipulögð og búið að skipta niður hvaða bekkir geta verið á gervigrasvellinum. Frjáls notkun er á hinum tveimur. Fleiri fótboltavelli eru að finna hér og þar um Giljahverfi og eru þeir mjög vel farnir. Mér finnst þessir vellir ekki vera mikið í notkun og er það leiðinlegt því þetta eru rosalega flottir og vel farnir fótboltavellir. Ég  fer sjálf stundum á þessa velli og þá hafa aldrei neinir verið á völlunum. Vellirnir eru slegnir annað slagið og er það gert vel.

Það eru semsagt þrír misstórir fótboltavellir sem tilheyra Giljaskóla, einn af þeim er nýlega smíðaður af kennurum skólans og hefur hann valdið miklum vinsældum hjá nemendum. Hægt er að finna fleiri velli í Giljahverfi sem eru ofboðslega vel farnir. Endilega nýtið tækifærið og notið þessa flottu fótboltavelli.

Jakobína Hjörvarsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Ný viðbót við göngustígakerfi Akureyrar

Síðastliðið vor var byrjað á framkvæmdum á nýjum stíg frá Vættagili að Hlíðarbraut til að tengja saman Brekkuna og Þorpið. Þetta er góður stígur sem tengir þessa tvo bæjarhluta vel saman.

Þessi nýi stígur liggur frá Vættagili í norðri og endar við Hlíðarbraut rétt við brúna yfir Glerá aðeins sunnar. Reyndar er einnig hægt að tengjast stígnum úr Huldugili en um leið og þessi leið var gerð var lagður stígur frá götunni meðfram Vættagilsbrekkunni. Það var hægt að byrja að nota stíginn í  júní en hann var þó ekki alveg tilbúinn þar sem eftir var að malbika og setja ljósastaura til að lýsa veginn upp. Ég notaði stíginn mikið í sumar til þess að fara á fótboltaæfingar en ég æfi fótbolta með fjórða flokki KA og þetta styttir leiðina frekar mikið. Það tekur fimm til tíu mínútur að hjóla að KA heimilinu og um það bil 20 mínútur að ganga. Það tekur aðeins lengri tíma að hjóla að sundlauginni og það sama þegar þú gengur að sundlauginni. Það er líka hægt að beygja inn í Huldugil. Leiðin liggur í gegnum  smá skóg og þar skiptist hann í tvær leiðir. Önnur leiðin liggur niður á Hlíðarbraut og hin upp að Norðurorku. Eini galli stígsins er að hann fer framhjá ruslahaugunum og það er ógeðsleg lykt þar. Ég mæti oft fólki að skokka, labba eða hjóla stíginn. Það er stundum hægt að sjá kanínu en svo eru annars bara fuglar.

Stígurinn er hentugur fyrir alla sem æfa golf, fólk sem æfir með KA og að komast í sund. Nýi göngustígurinn sem tengir Þorpið og Brekkuna saman er góð viðbót við göngustígakerfi Akureyrar. Vonandi verður hann mikið meira notaður af íbúum Giljahverfis sem og öðrum íbúum sem vilja nota göngustíga og fara í gönguferðir (ef þú ferð upp að Norðurorku). Ég vil að fólk noti þennan stíg og það að fólk fari í gönguferðir upp að Norðurorku. Það er fínt að labba þarna og þú getur líka farið út af stígnum og skoðað lífið í skóginum.

Hákon Atli Aðalsteinsson 8. bekk Giljaskóla