Héraðsfréttir

Grenndargralið og GiljaskólaleiðinGrenndargral.is segir fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Unnið er samkvæmt hugmyndafræði Giljaskólaleiðarinnar. Nemendur á grunnskóla- og framhaldsskólastigi á Akureyri setja sig í spor fréttamanna, fara á stúfana og leita uppi athyglisverð viðfangsefni. Nemendur tjá eigin tilfinningar og skoðanir á nánasta umhverfi og málefnum líðandi stundar. Með skrifum sínum leggja þeir sitt af mörkum til uppbyggingar grenndarsamfélagsins á lýðræðislegan hátt. Nemendum gefst tækifæri til að láta rödd sína heyrast með því að beita rökhugsun og gagnrýninni hugsun. Þannig  fá þeir tækifæri til að vekja athygli á hagsmunamálum sínum. Með skrifunum geta þeir haft áhrif með því að veita þeim aðhald sem annars kunna að brjóta á réttindum þeirra.

 

Út að leika!

Í Giljahverfi er mikið hægt að gera fyrir börn bæði í hverfinu og við skólann. Þar eru margir flottir leikvellir og boltavellir sem krakkar nýta sér mikið. Í hverfinu er einn gervigrasvöllur, einn steypuvöllur og nokkrir grasvellir.

 Það sem mér finnst mega bæta er að slá mætti grasvellina oftar á sumrin og þá eru sum mörkin orðin ónýt. Mér finnst að það mætti laga þetta svo skemmtilegra sé að spila á þeim. Einnig er erfitt að spila fótbolta á grasvellinum hjá fimleikahúsinu, hann er allur í hólum og holum. Ég þekki ekki svo mikið til með gúmmíið á gervigrasvöllum en auðvitað þarf að huga að því að skipta því út reglulega. Ég hef heyrt að það sé kominn tími á að skipta út gúmmíinu hér á vellinum við Giljaskóla og væri því æskilegt að fara að gera það. Mér finnst líka að pússa megi betur spýturnar í girðingunni kringum völlinn. Maður fær of oft flísar af þeim. Á steypuvellinum sunnan við Giljaskóla myndast oft stór pollur sem kannski erfitt er að laga, annars er sá völlur ágætur. Við Giljaskóla var líka að koma pönnuvöllur sem er flottur og skemmtilegur og margir nýta sér hann.

Við Giljaskóla eru nokkrir körfuboltavellir. Þeir hafa verið mikið notaðir hvort sem af krökkunum á skólatíma eða jafnvel eldri krökkum eftir skóla og á kvöldin. Það mætti alveg mála ofan í línurnar sem marka vellina til að gera þær skýrari. Þessir vellir hafa nýst mjög vel á skólatíma t.d. í frímínútum þegar krakkar spila leik sem er kallaður Stinger og einnig eru þeir notaðir í útiíþróttum. Í hverfinu eru einnig margir flottir leikvellir. Stór leikvöllur er við leikskólana tvo og svo margir litlir inn á milli í hverfinu sjálfu. Það sem mér finnst helst vanta eru leiktæki fyrir yngstu krakkana, t.d. barnarólur og minni rennibrautir, annars eru þetta mjög flottir leikvellir fyrir aðeins eldri börn. 

Krakkar í Giljahverfi eru heppnir með aðstæður til að leika sér. Þó mér finnist nokkuð mega bæta þá eru margir flottir vellir í hverfinu og vel hugsað um leikaðstæður fyrir börnin.

Katrín Magnea Finnsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Hreinsum Giljahverfi

Mér finnst margir hlutir í Giljahverfi orðnir svolítið hallærislegir t.d. körfuboltavöllurinn, litir skólans og parkið.

Sumarið 2016 var skólinn málaður grár að utan en hann er ennþá appelsínugulur að innan. Eiginlega allir sem ég hef spurt eru sammála því að Giljaskóli eigi líka að vera grár að innan. Og mála bara allt appelsínugult grátt ! Það má skipta um dúk á gólfinu því gólfið er orðið mjög ójafnt á sumum stöðum sem veldur því að borðin rugga, sérstaklega nýju borðin í ensku-og dönskustofunni. Svo má líka mála eða setja einhverjar hlífar á veggina á íþróttahúsinu. Það er svo hallærislegt að hafa vegginn gráan með línum í því hann lítur út eins og hann sé ókláraður. Þegar íþróttahúsið var nýtt héldu allir að eitthvað yrði gert við veggina en svo varð það aldrei raunin. Svo er það körfuboltavöllurinn. Hann er allur orðinn ónýtur. Það eru sprungur í malbikinu og netin í körfunum eru of lítil og rifin. Stundum þegar maður kastar bolta í körfuna fer boltinn ekki í gegn því netið er of þröngt og lítið. Ég var líka einu sinni að hlaupa á vellinum og datt illa sem rekja má til einnar sprungunnar. Því mætti setja mýkra undirlag á körfuboltavöllinn t.d. gúmmíkurl eins og er á leikvöllum. Þá er einnig mjög mikið rusl á parkinu því það er engin ruslatunna þar. Ein ruslatunna er aðeins fyrir utan parkið en það nennir enginn að ganga að henni því unglingar nú til dags eru latir. Svo það mætti bæta við einni ruslatunnu á parkið. Að lokum er það ljósastaurinn sem lýsir upp fótboltavöllinn og parkið. Það kviknar á honum um klukkan 22:00 þegar það byrjar að dimma klukkan 20:00. Þetta veldur því að krakkar eru seinna úti á kvöldin.

Fyrir utan allt sem ég nefndi hér fyrir ofan er Giljahverfi besta hverfi til að alast upp í. Íþróttahúsið er það besta á Norðurlandi! En það mætti bæta þessa hluti sem ég nefndi.

Arnþór Atli Atlason 8. bekk Giljaskóla

 

Gæði fótboltavalla á lóð Giljaskóla

Ég ætla að skrifa um fótboltavelli á skólalóðinni. Á skólalóðinni eru bæði leiktæki og rólur og fleira fyrir yngri börnin og síðan körfuboltavellir, park og fótboltavellir. Á einum af fótboltavöllunum, svokölluðum gervigrasvelli, er tímanum skipt niður á bekki skólans.

Þrír fótboltavellir eru á lóð Giljaskóla. Af þessum þrem völlum er einn steyptur völlur, einn grasvöllur og einn gervigrasvöllur. Að mínu mati er steypti völlurinn í góðu lagi enda fínn í þeim tilgangi að fara í leikinn „einn á einn“ eða til að spila svo kallað krónumót. Gervigrasvöllurinn er líka mjög góður, þó sérstaklega yfir sumartímann. Við félagarnir úr bekknum notum völlinn mikið á sumrin enda förum við næstum því á hverju kvöldi þangað og erum í fótbolta í um það bil tvo tíma. En það sem mætti bæta, þá er ég mest að tala um yfir vetrartímann, það er snjórinn og klakinn sem safnast á völlinn. Það eru hitalagnir undir honum, en það er mjög sjaldan kveikt á hitanum enda rándýrt að hita völlinn upp. Ég legg nú samt til að það ætti að kveikja á hitanum oftar, þrátt fyrir að það kosti einhverja peninga. Það yrði líklega til þess að börn og unglingar myndu nýta sér þann möguleika meira á veturna að fara út. En svo er það grasvöllurinn sem er alveg skelfilegur. Á vellinum er mikill halli og á honum eru margar holur. Auk þess er grasið líka hálf ónýtt. Það væri nefnilega mjög fínt að æfa sig á honum í lok sumars og jafnvel byrjun vetrar, einfaldlega vegna þess að yfir veturinn spilar maður bara á gervigrasi. Þess vegna er fínt að fá að æfa sig svolítið á grasi með gervigrasinu. Mín skoðun er sú að næst þegar farið verður í viðhald eða endurnýjun á skólalóðinni ætti að lagfæra þær skemmdir sem eru á grasvellinum og gera hann nægjanlega góðan til að hægt sé að spila á honum án þess að einhver meiðist.

Þónokkuð stór hluti krakka í Giljaskóla æfir knattspyrnu og því er mikil aðsókn að spila á þeim völlum sem hægt er að spila á. Því er mikilvægt að hlúa betur að því svæði sem ætlað er til knattspyrnu. Þess vegna er mín skoðun sú að það mætti kynda gervigrasvöllinn oftar og gera grasvöllinn upp.

Viðar Ernir Reimarsson 8. bekk Giljaskóla

 

Leikvellir í Giljahverfi

Í Giljahverfi erum við með nokkra leikvelli. Til dæmis: Skuggaróló, nýi leikvöllurinn milli V-giljanna og F-giljanna og svo leikvöllurinn í Giljaskóla. Í Giljaskóla erum við með körfuboltavöll, kastala, fótboltavöll, pönnuvöllinn og margt fleira.

Það mætti kannski laga ýmislegt til dæmis körfuboltavellina. Við erum með tvo körfuboltavelli. Það mætti mála vellina aftur og laga netin vegna þess að þau eru slitin. Einnig má fara yfir fótboltavöllinn af því það er mjög auðvelt að fá flís af veggjunum og gúmmíið á vellinum litar oft fötin hjá krökkunum. Auk þess er dekkjakurlið sem er notað í gervigrasvellina talið heilsuspillandi og þyrfti því kannski að skipta því út. Nýi leikvöllurinn var byggður 2015-2016 og eru krakkar mikið á honum. Einnig eru margir krakkar sem passa lítil börn og mætti gera meira af leiktækjum fyrir yngri börn, tveggja til fimm ára. Sem dæmi eru engar barnarólur á svæðinu. Í Giljaskóla var að koma nýr kastali sem er bæði fyrir yngri og eldri börn sem getur verið mjög mikill kostur. Kominn er nýr pönnuvöllur sem smíðakennarinn Guðmundur Elías Hákonarson og íþróttakennarinn Einvarður Jóhannsson gerðu með hjálp nemenda. Þessi völlur hefur slegið í gegn. Krakkarnir fóru oft eftir skóla eða kvöldmat og léku sér á vellinum eða á svokallaðri pönnu. Leikurinn virkar þannig að það eru einn til tveir saman í liði og svo þurfa einstaklingarnir að sóla hina til þass að skora í litlu mörkin. Þegar það eru orðnir 3 saman í liði getur það orðið erfiðara vegna þess að pönnuvöllurinn er ekkert rosalega stór. Giljaskóli er eini skólinn á Akureyri sem er með slíkan pönnuvöll og er það mjög skemmtileg viðbót við vellina sem voru fyrir á Giljaskólalóðinni.

Mér finnst nauðsynlegt að hafa leikvelli fyrir krakka í hverfum bæjarins. Hér í Giljahverfi erum við með góða og flotta leikvelli sem eru mikið notaðir.

Elva Ragnheiður Baldursdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Það er gott að búa í Giljahverfi

Ég hef búið í Giljahverfi allt mitt líf og er þetta mjög gott hverfi eða hvað? Giljahverfi er umvafið náttúru og þar er mikið fuglalíf. Það er svo gaman að heyra og sjá fuglana syngja og fljúga þegar labbað er um hverfið. Það er hægt að gera margt í Giljahverfi eins og labba, hlaupa og hjóla.

Giljahverfi er frekar lítið hverfi en það er gott af því að þá er stutt í allt.  Það er stutt í sjoppu, stutt í vini sína og stutt í skólann. Það tekur mig bara fimm mínútur að labba í skólann og ég bý ofarlega í Giljahverfi. Stígar eru greiðir og nokkuð öruggt að labba í skólann. það eru sprungur hér og þar en það pirrar mig ekki. Það er mjög öruggt hér í Giljahverfi og mjög lítið um glæpi og umferðaróhöpp. Allir í Giljahverfi búa í góðum húsum og virðast eiga nóg fyrir sig og sína.  Hér eru kjöraðstæður til þess að eiga gott líf. Ef manni langar að leika úti þá er margt hægt að gera. Til dæmis hjóla, fara í feluleik og fleira. Það snjóar mikið hér í Giljahverfi og það er gaman. Mér finnst mjög gaman að vera úti með vinkonum mínum og þegar vel viðrar eru margir krakkar úti að leika. Hér í Giljahverfi eru allir saman úti og það skiptir engu máli að þú sért yngri eða eldri. Þú mátt alltaf vera með. Í Giljahverfi er ekki allt æðislegt, það eru líka gallar að mínu mati. Mér finnst að það þurfi að vera meiri þjónusta í hverfinu. Til dæmis væri gott að hafa bíó, skauta höll, bíó og Bónus.  Þá gætu allir í hverfinu sparað tíma og mengað minna með minna skutli. Foreldrar eru mikið að menga hverfið með því að skutla krökkunum sínum í skólann.  Þessi akstur er ekki bara að menga heldur skapar hann töluverða slysahættu í hverfinu.  Það væri kannski ráð að láta strætó ganga oftar í Giljahverfi. Það mættu vera fleiri ljósastaurar í hverfinu svo það verði ekki svona dimmt á dimmum vetra morgnum.

Það eru kostir og gallar við það að búa í Giljahverfi.  Mér finnast kostirnir vera mun fleiri en gallarnir. Að mínu mati er Giljahverfi mjög gott hverfi.

 Sonja Marín Aðalsteinsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Hverfið okkar

Giljahverfi er tiltölulega nýtt hverfi á Akureyri en það var var byrjað að byggja þar í kringum árið 2000. Hverfið er mjög eftirsótt fyrir alla aldurshópa og oft á tíðum er slegist um eignir á svæðinu sem eru til sölu.

Það sem er svo heillandi við Giljahverfi er að það er mjög vel skipulagt og snyrtilegt. Það eru margir göngu- og hjólastígar sem hægt er að nýta sér og stutt í náttúruna í kring. Þar má m.a. nefna að hægt að fara í berjamó eða jafnvel fara og klappa hestum ofarlega í hverfinu.  Einnig er hverfið mjög fjölskylduvænt og stutt í alla afþreyingu. Fjölskyldum finnst gott að búa í hverfinu þar sem það eru stuttar vegalengdir, ásamt því að það er skóli, íþróttahús og tveir leikskólar í hverfinu. Giljahverfi iðar af lífi og sjást ungir jafnt sem aldnir í ýmis konar útivist allan ársins hring. Það er eru góð leiksvæði fyrir krakka á öllum aldri þar sem hægt er að fara í körfubolta, fótbolta eða jafnvel æfa sig á hjólabrettapalli. Fyrir yngstu kynslóðina eru leikvellir og róluvellir á mörgum stöðum í hverfinu. Einnig er  ýmislegt sem hægt er að gera saman sem fjölskylda og þar má m.a. nefna að renna sér saman í Vættagilsbrekkunni þar sem hægt er að renna sér á sleða eða jafnvel renna sér á skíðum. En þrátt fyrir að hverfið hafi fleiri kosti en galla þá má alltaf gera betur allsstaðar. Hverfisnefnd eða bæjaryfirvöld mættu fara að huga að því að laga körfuboltavöllinn á skólasvæðinu. Þar mætti t.d. skoða þá tillögu að setja gúmmímottur á völlinn eins og gert var í Lundarskóla og á Sauðarkróki þar sem mikil ánægja er með motturnar. Einnig mætti laga körfurnar þar sem þær eru farnar að síga niður.

Ég hef búið í Giljahverfi alla mína ævi og vil helst hvergi annarsstaðar búa. Ef ég ætti að velja einn stað til að búa á í framtíðinni hér á Akureyri þá yrði Giljahverfi fyrir valinu.

Huldís Marín Gunnarsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Gangstéttin við Krambúðina

Ég ætla að fjalla um Krambúð við Borgarbraut og hvað staðsetningin á gangstéttinni er léleg. Hún má vera miklu nær en ekki úti í endanum.

Hún ætti að vera  á milli blokkanna sem eru á góðum stað etað. Ég bý í síðustu og fyrstu blokkinni og það er svolítið langt í gangbrautina þegar maður er að fara í hana. Til að kaupa eitthvað þarf maður að fara annað hvort yfir götuna eða fara út í enda og fara yfir hana það  er óþægilet. Hún er staðsett úti í enda og er mjög leiðinlegt hvar hún er. Samt er nokkuð gott við hana ef maður er að hjóla því þá er gott að hafa hana þarna til að þurfa ekki að fara í gegnum bílaplanið til að fara áfram yfir á hina gangstéttina sem er hinum megin við búðina. Síðan er strætóstoppistöð þarna. Það vantar gangstétt til að maður verður í ekki blautur í fæturna þú ef maður er að fara á æfingu er slæmt að vera blautur og síðan eru skórnir manns rennandi þegar maður er búinn á æfingu.

Gangstéttin hjá Krambúðinni er stödd á vitlausum stað úti í enda og ætti að vera á milli blokkanna.

Daníel Karles Randversson 8. bekk Giljaskóla

 

Leikaðstaðan í Giljahverfi

Svæðið í kringum Giljaskóla er gott og skemmtilegt svæði. Þar er mjög gott fyrir krakkana að leika sér. Hérna í hverfinu er oft farið í eina krónu og er það mjög gaman. Þegar ég var yngri fór ég nánast á hverju kvöldi út í eina krónu með öllum krökkunum í hverfunum. Það er líka hægt að vera í öðrum leikjum.     

Ég hef búið í Giljahverfi alla mína ævi og mér hefur alltaf líkað við Giljahverfi. Ég fer mjög mikið á fótboltavöllinn í Giljaskóla,þar er geggjuð  aðstaða til að spila fótbolta. Við strákarnir förum ótrúlega oft út á völl að leika okkur í fótbolta. Hérna í Giljahverfi er hellingur af skemmtilegum leikvöllum og mjög gaman fyrir yngri krakkana að leika sér á þeim. Ég myndi segja að Giljahverfi væri með bestu hverfunum á Akureyri og mig langar mest bara að búa hér. Það er alveg nóg hægt að gera hér. Giljaskóli er með einn gervigrasvöll, einn grasvöll og síðan steypuvöll og finnst mér allir þessir vellir skemmtilegir. Í Giljaskóla eru líka körfuboltavellir sem eru mjög fínir og er gaman að vera á í frímínútum að spila körfubolta. Þá spilum við yfirleitt eða förum í stinger sem er geggjaður leikur og við spilum hann mjög mikið. Við höfum nokkrar körfur og er mjög gott að hafa körfuboltavelli.  Síðan erum við líka með hjólabrettapark sem er gaman að leika sér á. Það eru líka kastalar, rólur og ýmislegt fleira til að leika sér í hjá Giljaskóla. Mér finnst samt eitt vanta við grasvöllinn og það eru ljósin. Ljósin við grasvöllinn kveikja á sér um klukkan 8 á kvöldin og það er bara of seint því þegar það er dimmt sér maður ekki boltann. Ég tel að kveikja ætti á þeim aðeins fyrr. Þá yrði miklu betra fyrir krakkana að spila fótbolta. Síðan væri kannski hægt að setja fleiri ljósastaura. Margir krakkar búa í Giljahverfi og er mjög gaman að alast upp hér.

Leikaðstaðan í Giljahverfi er mjög góð. Skemmtilegt er fyrir krakkana að hittast þar og leika sér saman en það vantar betri lýsingu á kvöldin við gervigrasvöllinn. Mér finnst að bæta mætti úr því.

Arnór Ingi Baldursson 8. bekk Giljaskóla

 

Skólahreystibraut í Giljahverfi?

Mér finnst Giljahverfi vera mjög gott hverfi. En mér finnst samt vanta eitthvað íþróttatengt svo maður geti æft sig eða styrkt sig. Ef einhver finnur sér enga íþrótt við sitt hæfi, þá getur hann farið út í skóla eða hvar sem það er og æft sig svo hann fái góða heilsu og komist í gott form. Það væri örugglega lang best að hafa Skólahreystibrautina hér í Giljahverfi eða í Giljaskóla. Til dæmis á grasfletinum norðan við íþróttahúsið  en samt er það fyrir alla í hverfinu.

Skólahreystibrautin er þannig að það eru tveir að keppa á móti hvorum öðrum  svo það er tvennt af öllu. Það eru tveir  bílar sem eru fyrstir, síðan 12 dekk, svo kemur stigi sem maður fer áfram  á höndunum  þannig að maður þarf að sveifla sér í næstu rim og þannig koll af kolli. Þar á eftir er rör sem er mjög þykkt og maður þarf líka að nota bara hendur til að koma sér áfram. Næst er klifurveggur sem maður fer upp og svo yfir en hann þarf samt ekkert að vera mjög langur. Svo er skriðþraut en í henni liggur maður á maganum og skríður undir net sem er mjög lágt. Síðan er þungur bolti sem maður á að lyfta upp á  pall. Einnig er þraut þar sem maður þarf að sippa  en það er erfitt að hafa það því það er hætta á að einhverjir taki sippubandið og skili því aldrei aftur. Næsta þraut er kaðallinn sem þarf ekkert að vera langur. Svo eru þrautirnar armbeygjur, upphýfingar, hreystigreip, dýfur og svo hraðabrautin sem er eiginlega alltaf mest spennandi. Þessi íþrótt var gerð hér á landi og hún virkar þannig að það eru tveir skólar að keppast um að ná betri tíma í öllum greinunum sem er keppt í. Allir stórir skólar á landinu keppa í Skólahreysti en líka eru þar flestir sveitaskólar.

Mér finnst Giljahverfi gott hverfi en mér finnst Giljahverfi þurfi á því að halda að hafa meiri aðstöðu fyrir íþróttir hjá krökkum í dag. Til dæmis að fá Skólahreysti braut til þess að allir geti styrkt sig, haft góða heilsu, kannski meira þol og ef einhverjum langar að fá meiri styrk.

Alma Rós Arnarsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Hvers vegna að búa í Giljahverfi?

Giljahverfi er frábært hverfi þar sem það er mjög aðgengilegt og vel skipulagt.  Fyrstu húsin voru byggð um 1990 í ýmsum stærðum og gerðum og er stór hluti þeirra fjölbýlishús.  Göturnar og húsin eru vönduð og vel skipulögð og er gott pláss á milli húsanna og góðir göngu- og hjólastígar eru um hverfið.  Svo er mjög þægilegt fyrir nemendur og foreldra að leik- og grunnskólinn séu hlið við hlið og hentar það mjög vel fyrir marga.  Mikið er af leikvöllum í Giljahverfi.  Nánast í hverri götu er hægt að finna leikvöll en ef ekki er örstutt í þann næsta.

Mér finnst vanta stað á grænu svæðunum hér í hverfinu og að þau séu nýtt betur t.d. með því að setja þar bekki eða eitthvað slíkt þar sem fólk getur sest niður á vel skipulögðu svæði úti í náttúrunni, sérstaklega þegar maður vill hitta einhvern og setjast niður til að spjalla eða bara hafa það rólegt .  Eins og núna þegar snjórinn er kominn er ekki hægt að nota leikvellina og fleira eins mikið.  Það er samt mjög flott og örugg brekka í hverfinu sem er passlega stór fyrir snjósleða og annað og er hún mikið notuð og kallast Vættagilsbrekkan.  Þar leika og renna krakkar sér mjög mikið um leið og fyrsti snjórinn kemur.  Flestir unglingar eru ekki mikið fyrir að vera á leikvöllum og renna sér í Vættagilsbrekkunni núna en á Giljaskólalóðinni er mikið af afþreyingu og góður staður fyrir unglinga að hittast á.  Krakkar frá mörgum skólum koma á Giljaskólasvæðið á kvöldin vegna félagsskaparins og er oftast mikið fjör.  Það er þó eitt sem mig langar mjög að fá á Giljaskólalóðina eða í kring og það er eitthvað sem líkist helst skólahreystisbraut.  Mér finnst slíkar íþróttabrautir mjög skemmtilegar og góð hreyfing og veit að aðrir hafa sömu skoðun.   Mér finnst mjög þægilegt að hafa Krambúðina í nágrenninu því það hentar vel, sérstaklega ef mann vantar eitthvað á heimilinu skyndilega.

Að lokum vil ég segja að mér finnst gott að búa í Giljahverfi.  Hér er gott pláss á milli húsanna og stígar um allt hverfið sem auðveldar manni að komast sína leið.  Svo finnst mér hentugt að leik- og grunnskólinn séu hlið við hlið á góðum stað í hverfinu og er þar gott fyrir krakka að hittast á Giljaskólalóðinni.

Elín Lind Gautadóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Hvar eru ljósastaurarnir?

Giljahverfi er mjög fínt hverfi. Ég hef búið í hverfinu frá því ég fæddist. Þar er nóg að gera, til dæmis er hægt að fara í fótbolta, körfubolta og allskonar leiki, svo eitthvað sé nefnt.  Búið er að endurnýja leikkastalann við Giljaskóla. Sá gamli var orðinn ansi gamall en þessi nýi er býsna flottur og skemmtilegur. Á heildina litið er Giljahverfi frábært hverfi.

Það er samt allavega eitt sem má bæta og það er að það vantar ljósastaura hjá göngustígunum á milli húsa. Aðallega á þetta við um Snægil. Það nýta margir sér þessa stíga til dæmis nemendur og kennarar Giljaskóla. Ef þið þekkið ekki þessa göngustíga þá getið þið áttað ykkur á því hvað ég er að meina með því að skoða myndina hér til hliðar. 

Á myndinni má sjá einn af þessum stígum. Þrír stígar eru neðan við götuna, í Snægili og allir eins. Það eru um það bil 30-40 metrar á milli þeirra. Á veturna er oft mikil hálka og þess vegna er ekki alltaf auðvelt að ganga í skólann á þeim tíma árs. Alla vega ekki fyrrgreinda göngustíga. Ekki bara vegna hálku heldur líka vegna þess að það eru engir ljósastaurar eða önnur lýsing við stígana. Það getur verið hættulegt, ekki bara fyrir börn og unglinga heldur líka fyrir fullorðna að ganga í hálku þá er eitt sem bjargar manni stundum og það eru jólaseríurnar en þær eru auðvitað bara í gluggunum kringum jólin.

Ég bý í Snægili og mér finnst erfitt að ganga í skólann á veturna. Sérstaklega þegar ég  er að flýta mér. Ég hef dottið mjög oft jafnvel þótt ég sé ekkert að flýta mér. Mér finnst að það ættu að koma ljósastaurar þarna. Þeir þurfa ekki endilega að vera stórir. Betra væri líka að göngustígarnir væru  mokaðir áður en snjórinn frýs og verður að hálku. Í fyrravetur var ég í nemendaráði og spurði hvort ekki væri hægt að moka þessa stíga, ég fékk þau svör að gæfist ekki tími til þess, það væri eingöngu tími fyrir aðalgöturnar nema í undantekningar tilfellum. Þessi skýring finnst mér ekki nógu góð miðað við hættuna og erfiðleikana sem ógreiðfærir göngustígar og myrkur skapa.

Það búa margir krakkar í Giljahverfi og flestir þeirra fara um þessa göngustíga á leið sinni í skólann. Það skiptir mjög miklu að göngustígarnir séu greiðfærir og lýsingin sé næg til þess að maður geti gengið í skólann án þess að eiga á hættu að fljúga á hausinn í niðamyrkri eða festa sig í skafli.  Það þarf því að sinna snjómokstri á gönguleiðum betur og stórbæta lýsinguna.

Helga Viðarsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Næstum því fullkomið hverfi

Ég persónulega elska Giljahverfi. Ég hef samt engan samanburð við önnur hverfi eða annan stað vegna þess að ég hef búið hér allt mitt líf. Giljahverfi er frekar nýtt hverfi en mér finnst það vera mjög skipulagt og þægilegt. Hérna er lítil umferð, mjög gott félagslíf, fínar íþróttaaðstæður og að mínu mati er Giljahverfi öruggt hverfi og gott að búa hér. Ég myndi klárlega mæla með þessu hverfi fyrir fjölskyldufólk vegna þess að hér er auðvelt að rata og stutt að fara á t.d. leikvelli og í skólann.

Eins og með allt annað er hægt að finna einhvern eða einhverja galla við hverfið. Mér finnst að það mætti tala aðeins um lýsingu og snjómokstur á veturna.

Aðalgöturnar í hverfinu eru mokaðar reglulega en minni göngustígar eru ekki eins vel mokaðir. Þegar ég hugsa um vetur þá kemur fyrst upp í hugann á mér mynd af mér að klofa snjóinn upp að hnjám á leiðinni í skólann. Ég fer alltaf sömu leið í skólann og ég veit að margir aðrir krakkar fara þessa leið líka Ég man ekki til þess að öll leiðin hafi verið mokuð. Mér finnst að bærinn ætti að huga meira að þessu þó að ég átti mig alveg á því að það fer mikil vinna í það. Það ætti samt alveg að vera hægt að moka litlu göngustígana allavega einstaka sinnum. Með því að moka þessa göngustíga gæti dregið úr því að foreldrar skutli börnunum sínum í skólann sem væri mikill kostur.

Lýsingin í hverfinu er alveg ágæt. Það eru ljósastaurar á flestum stöðum og ég held að það sé kveikt á þeim nánast alltaf þegar þess er þörf. Það eru hinsvegar ekki ljósastaurar meðfram nýu stígunum á milli Vesturgils og Fannagils og það eru ekki heldur ljósastaurar rétt fyrir ofan hverfið, í kringum hesthúsahverfið og hjá Lögmannshlíð. Frábært væri að fá ljósastaura á þessa tilteknu staði.

Þrátt fyrir þessa “galla” gæti ég samt sem áður varla hugsað mér betra hverfi til að búa í því kostirnir við það eru svo margfalt fleiri og mikilvægari heldur en gallarnir. Ég held að Giljahverfi geti orðið enn betra ef bæjaryfirvöld myndu moka fleiri götur og setja upp fleiri ljósastaura. Þannig yrði hverfið líka öruggara sérstaklega fyrir yngri kynslóðina.

Kolbrá Svanlaugsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Það þarf að bæta og stækka aðstöðu fyrir hlaupahjól

Ég heiti Mikael Viðar Ægisson, kallaður Mikki og er einn af mörgum krökkum sem stunda hlauparhjól, einnig þekkt sem scooter. Ég byrjaði á hlaupahjóli árið 2016, sama ár og ég flutti til Akureyrar. Ég hitti krakka sem voru á hlaupahjólum og ég prufaði. Eftir það fór ég á hverjum degi á hjólabrettarampa, einnig þekkt sem parkið, ég sá stundum eldri stráka vera á parkinu að gera trikk og hugsaði með mér: ,,Svona ætla ég að verða“. Og núna er ég einn af þeim bestu á Akureyri að scoota. Mig dreymir um að vera heimsmeistari á hlaupahjóli og ferðast um heiminn. Ég ætla einnig að keppa í keppnum eins og ISA (International Scooter Accision) og Barcelona Extreme.

Yfir 100 krakkar eru á hjólabrettum og hlauparhjólum á Akureyri og flestir mundu örugglega vilja vera heimsmeistarar. En við búum á Íslandi svo maður getur kannski verið fjóra mánuði á parkinu, hina mánuði ársins bara í bílageymslum. Vegna þess að það er næstum alltaf snjór, rok eða rigning getur maður sjaldan verið á parkinu. Það er hægt að leysa þennan vanda t.d. með því að búa til inniskatepark, láta Giljarpark vera upphitað, gera skjól yfir parkið eða færa parkið á stað þar sem rignir ekki eins og í skjóli. Og þess vegna væru allir sem scoota, bókstaflega allir, til í innipark.

Giljaskólaparkið kom sumarið 2015 eftir að nokkrir krakkar í Giljaskóla báðu um það í greinunum sínum. En veður hefur skemmt parkið því það er mun sleipara að renna sér á því samanborið við innipark. Það þarf einnig að laga skrúfur á Giljaparkinu sem standa upp úr, þar sem þær geta verið hættulegt fyrir þá sem eru að scoota.

Parkið er samt ágætt ef það eru fáir á því, það er hámark  tveir sem geta rennt sér í einu en ef 10 eða fleiri eru að bíða þá er ekki hægt að gera mikið af trikkum vegna plássleysi uppá rampinum. Það væri þess vegna mjög fínt ef parkið yrði stækkað með því að bæta við halfpipe á parkið.

Það er mikilvægt að stækka Giljapark þar sem margir krakkar fara þangað á hlaupahjóli, en vegna þess hve lítið parkið er kemur það í veg fyrir að náist góður árangur þar sem ekki er hægt að eyða eins miklum tíma í að gera hlaupahjólatrikk. En það sem er einnig mikilvægt að hafa innipark á Akureyri svo hægt sé að stunda íþróttina allan ársins hring óháð veðri.

Mikael Viðar Ægisson 8. bekk Giljaskóla

 

Fá park eða trampolínpark í Glerárhverfi

Ég bý í Glerárhverfi (Steinahlíð) en ég er í Giljaskola. Ég er stundum á sumrin á hlaupahjóli og það er frekar pirrandi að fara alltaf upp í Giljahverfi til að fara á hlaupahjól. Þess vegna langar mig að fá park í Gleráhverfi svo það verði styttra að fara og sleppa að fara upp brekku. Það  yrði miklu styttra.

Það eru líka nokkrir sem eru á hlaupahjóli,brettum eða bmxi  sem búa í Gleráhverfi.

Ef það mundi koma park þá væri gott að hafa það innanhúspark svo maður gæti verið

á  veturna á því og það myndi koma halfpipe, píramýdar og það myndi koma gryfja og Rampur og kannski rail út í hana. Þá gæti  maður  æft sig að gera erfið trick  eins og flair (backflip), frontflip, bri flip, 720 eða 2 hringir ,kickless, invard, finger whip, þrefalt tailwhip og fleira út í hana svo ef maður nær að lenda á hlaupahjólinu áður en maður lendir í gryfjunni. Mig langar líka að fá trampolín park því það er ekkert trampolín park á Akureyri  sem er frekar leiðinlegt. Það er í Reykjavík en ég fer svo sjaldan til Reykjavíkur. Næst þegar  ég fer til Reykjavikur þá veit ég ekki einu sinni hvar það er.Ég er ekki viss en ég held að það sé að koma tampolín park eða innanhuspark. Ég er ekki viss hvort þeirra kemur í Naustahverfi sem er alveg fínt því ég bý líka í Naustahverfi. Ég er meiri hlutann hjá mömmu þannig að það yrði betra ef myndi koma trampolín park annað hvort í giljahverfi eða Gleráhverfi en það yrði betra að hafa trampolín parkið i Glérarhverfi svo ég myndi ekki  þurfa að fara upp í giljahverfi svo það væri þægilegra að fara á trampolin parkið. Takk fyrir mig

Sigurður Gísli Ringsted 8. bekk Giljaskóla

 

Skólinn minn Giljaskóli

Þegar að ég var fimm ára og var í leikskólanum Kiðagili kom ég fyrst inn í skólann til að skoða hann með sjötta bekk Giljaskóla. Í honum var bróðir minn sem sýndi mér skólann. Þá var ég rosalega spenntur fyrir því að byrja í skólanum. Núna er ég búinn að vera í Giljaskóla í átta ár og er þar með kominn í áttunda bekk. Giljaskóli er mjög fínn skóli og ég er mjög ánægður með krakkana í skólanum og líka kennarana.

Í fyrsta bekk fannst mér vera rosalega stórir krakkar í öðrum bekk. Núna finnst mér þau auðvitað hvorki vera stór né gömul. Í skólanum er staður sem að heitir Dimmuborgir. Þar eyða unglingarnir eyðum og frímínútum. Þar er mikið horft á Simpsons og Fast and the furious og líka aðrar myndir eða þætti. Nemendur í skólanum eru um fjögur hundruð. Í skólanum er frekar stórt bókasafn með allskonar bókum eins og Harry Potter, Lord of the Rings, Hunger games og Artemis Fowl sem að allt eru frægir bókatitlar. Það eru miklu fleiri bækur, tímarit og blöð eins og til dæmis Andrés Önd og líka fullt af spilum á bókasafninu. Í Giljaskóla er íþróttahús og fimleikahús en það er mjög gaman í fimleikahúsinu. Þar er svampagryfja og flott trampólín, mjög mjúk dýna, hringir, slá og fleira. Íþróttahúsið og fimleikahúsið eru aðskilin frá hvoru öðru með tjaldi sem er hægt að setja upp og niður. Það er hægt að spila tennis, badminton, blak, eltingaleik, fótbolta, handbolta og allskonar íþróttir þar. Giljaskóli er með íþróttir fyrir krakkana. Hafist var handa við hönnun íþróttahússins árið 2007 og var svo skóflustunga tekin fyrir húsinu þann 4. júní 2008. Verklok voru á haustdögum 2010. Ég man enn eftir þegar við þurftum að fara í rútu í Síðuskóla til að komast í íþróttir. Núna er mjög þægilegt að þurfa ekki að fara langt til að komast í íþróttir.  Í fyrsta til fjórða bekk fórum við í sund í Glerárlaug en í fimmta bekk og eldri bekkjum förum við í sund í Akureyrarlaug og þar syndum við í keppnislauginni.

Dimmuborgir er notalegur staður með fullt af sófum, teppum og koddum. Þar er líka skjávarpi til að horfa á myndir eða þætti og nokkur spil eins og fótboltaspil, poolborð og borðtennisborð. Þetta tilheyrir allt Dimmuborgum. Bókasafnið í Giljaskóla er með fullt af áhugaverðum bókum spilum og bæklingum sem gott er að hafa aðgang að. Íþróttahúsið býður upp á fjölbreytta möguleika á íþróttaiðkun og þar er til dæmis hægt að fara í badminton, fótbolta, handbolta og körfubolta.

Ágúst Hlynur Halldórsson 8. bekk Giljaskóla

Heimildir: www.giljaskoli.is

 

 

Skipulag á Giljahverfi

Fyrst þegar þú flytur inn í Giljahverfi sérðu bara hús og götuheiti. En þegar þú kynnist því betur er þetta mjög flott og skipulagt hverfi. Fyrst er Giljahverfi skipað eftir götuheitum. Göturnar eru settar saman eftir fyrsta staf í heiti, til dæmis eru öll V-gilin sett saman, Vesturgil, Vættargil, Víkurgil og svo framvegis. Við erum líka með S-gilin og F-gilin. Síðan eru þrjár götur sem eru einstakar. Þær eru Urðargil, Huldugil og Dvergagil. Samgöngur í Giljahverfi eru mjög góðar. Það er ein stór gata sem gengur í gegnum Giljahverfi, Merkigilsgatan.

Í Giljahverfi eru tíu strætóskýli. Þau eru öll frekar nálægt hvert öðru en samt þannig að allir í hverfinu þurfa ekki að labba langt í næsta strætóskýli. Allir strætóar koma í Giljahverfi þannig að auðvelt er að fara á aðra staði.

Í Giljahverfi eru margir leikvellir. Giljaskóli er með stóran leikvöll sem inniheldur fótboltavelli, körfuboltavelli, leikakastala, rólur og síðan eitt nýtt tæki sem er mjög vinsælt hjá krökkum í dag. Þetta er tæki er lítill fótboltavöllur þar sem tveir spila í einu. Við hliðina á Giljaskóla er leikskóli sem heitir Kiðagil. Við Kiðagil er frábær leikvöllur fyrir krakka, sérstaklega þá yngri. Á Kiðagili eru til dæmis rólur, ungbarnarólur, sandkassi, leikkastali og margt fleira sem er sérstaklega fyrir litla krakka. Síðan er annar leikskóli sem heitir Tröllaborgir. Hann er staðsettur undir Fésta blokk en sú blokk er einugis ætluð háskólanemendum. Tröllaborgir er neðst í Giljahverfi þannig að það styttra að labba í Kiðagil nema fyrir þá sem búa neðst í hverfinu, sem eru ekki margir. Leikvöllurinn þar er stór og flottur. Ég mæli með honum því stundum fer ég út að passa með vinkonu minni og þá tökum smá göngutúr þangað og leikum okkur. Svo tökum við göngutúr til baka. Einnig eru bara venjulegir leikvellir sem tilheyra engum skóla eða leikskóla. Þeir eru dreifðir um hverfið, svo það er aldrei langt í næsta leikvöll.

Núna er ég búin að tala um leikvelli, skipulag á hvefi og samgöngur. En er þetta hverfi ætlað eldri borgurum ? Svarið mitt er já. Giljahvefi er rólegt hverfi og frábært fyrir alla að búa þar. Í Giljahverfi er gaman að labba um og þá sérstaklega upp í móann sem er efst í F-gilunum, en þar er nóg af berjum. Giljahverfi er frábært fyrir alla á öllum aldri. Ég myndi ekki vilja að búa annarsstaðar.

Ingibjörg Aþena Ellertsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Parkið við Giljaskóla, kostir og gallar

Mér finnst flott að parkið sé komið þannig að krakkar þurfa ekki að fara alla leiðina á háskólalóðina eða í Lundaskóla. Mér finnst þó að það þurfi að fylgja reglunum meir. Ég hef oft farið á parkið og komið að nokkrum krökkum hlaupa um á því. Þeir hlýða ekki þó ég segi þeim að fara. 

Mér finnst þetta vera vandamál. Þetta park er alveg frábært en þessir krakkar eru örlítið að eyðileggja upplifunina af því. Til dæmis ef einhver fer niður “ölduna” og þá kemur bara einhver krakki og hleypur fyrir og eyðileggur “trikkið” sem viðkomandi var búinn að peppa sig upp fyrir. Þetta getur búið til slysahættu. 

Sumir krakkar sem eru að hlaupa um sulla líka oft gosi eða henda nammi á parkið. Einu sinni var einhver búinn að henda eggi í tröppurnar og skildi það eftir svo að allt varð klístrað. 

Fyrsta árið sem parkið var hér við skólann losaði einhver skrúfurnar á römpunum þannig að það er ekki erfitt að “raila” á hlaupahjóli á miðjunni. Þegar einhver reynir að raila þá grípur það í skrúfu og maður getur dottið. 

Það voru sett upp spjöld með reglum annað sumarið sem það var uppi en næsta ár var það rifið niður af einhverjum krökkum. Það mætti setja annað spjald sem væri búið að grafa reglurnar í. 

Það mætti líka koma upp betri lýsingu, til dæmis setja upp einfalda ljósastaura sem mætti líka setja eftirlitsmyndavélar á. Það hefur komið fyrir að einhverjir taka hjólabrettin eða hlaupahjólin af parkinu og fara í burtu og skilja það eftir einhversstaðar í kringum skólann, jafnvel í hverfinu. 

Þetta er það sem ég vil sjá breytingu á hjá parkinu hér við skólann. Parkið er frábært en það er bara mikið af fólki sem gengur illa um það. Aðallega má setja upp betri lýsingu og setja upp almennilegar reglur sem sjást vel og setja upp myndavélar. 

Sigmar Ernir Sigrúnar Ketilsson 8. bekk Giljaskóla

 

Giljahverfi er frábært

Giljahverfi er tiltölulega ungt hverfi á Akureyri. Byrjað var að byggja Giljahverfi árið 1990. Hverfið var byggt í kringum Giljaskóla. Merkigil er stofngata hverfisins og út frá því ganga svo göturnar. Þannig að ef Merkigil er trjástofninn þá eru hinar göturnar greinarnar.

Mér finnst Giljahverfi frábært. Það er svo ,,lítið” eða þétt, það er svo stutt fyrir krakka að fara og leika við vini í hverfinu og það er engin stór ,,hættuleg” gata að mér finnst. Það er fínt að vera með yngri krakka hér í hverfinu. Mikið er um leikvelli, allavega 6 leikvellir eru á svæðinu og tveir leikskólar eru í hverfinu líka. Annar leikskólanna er í sama húsnæði og háskólaíbúðir. Mér finnst það mjög sniðugt fyrir fólk með börn og í námi. Svo eru það helstu  íþróttafélög bæjarins á Akureyri. Þau heita Þór og K.A. og þau eru jafn langt í burtu frá Giljahverfi og það er ekki lengra að hjóla þangað heldur  en 5-10 mínútur. Helstu íþróttagreinarnar sem stundaðar eru í íþróttafélögunum eru fótbolti og handbolti. Nokkrar aðrar íþróttir eru svo líka stundaðar þar. Fimleikahús bæjarins er við Giljaskóla og félagið heitir FIMAK sem þýðir Fimleikafélag Akureyrar. Er það hluti af íþróttahúsi Giljaskóla. En stundum finnst mér hverfið vera of langt frá til dæmis helstu verslununum. Mér finnst þetta líka gott hverfi vegna þess að fyrir ofan hverfið er mói og hesthús aðeins fyrir ofan sem er sniðugt fyrir fólk sem hefur áhuga á hestum. Ég á hund og henni finnst miklu skemmtilegra að fara upp í móa með okkur að hlaupa um heldur en að þurfa að labba um í bandi á gangstéttum bæjarins. Því miður er mikið um hundaskít í hverfinu. Þegar fólk fer út að labba með dýrin þarf að hirða upp kúk eftir þau. Mjög ógeðfellt er að halda á kúk alla leiðina heim með hann í poka í hendinni. Því væri gott að fá fleiri ruslatunnur í hverfið fyrir almenning.

Giljahverfi er nokkuð öruggt hverfi og hér er gott að búa. Fín aðstaða er til að vera með börn, það er stutt í skóla og íþróttaiðkun og útivist. Hér vil ég vera.

 

 

Agnes Vala Tryggvadóttir 8. bekk Giljaskóla
 

Heimild: Steindórsson, S. (1993). Akureyri: Höfuðborg hins bjarta norðurs. Örn og Örlygur.

 

 

Íþróttaaðstæður í Giljahverfi

Það er mjög mikilvægt fyrir börn og unglinga að hreyfa sig regulega og eru íþróttaaðstæður í Giljahverfi  mjög fínar. Við höfum flott fimleikahús, sem var tekið í notkun árið 2010.

Fimleikahúsinu er skipt í tvennt. Öðru megin er fimleikasalurinn þar sem FIMAK eða Fimleikafélag Akureyrar æfir fimleika. Hægt er að æfa hópfimleika og áhaldafimleika frá 6 ára aldri. Fimleikahúsið er opið  á laugardögum og krakkar 3ja til 5 ára geta leikið sér í salnum. Hinum megin er íþróttasalur þar sem nemendur í giljaskóla erum í íþróttum. Mér persónulega finnst mjög þægilegt að geta bara labbað niður í fimleikahúsið og farið í íþróttir í staðinn fyrir að fara í rútu til að fara í íþróttir. Svo er þetta mjög flott aðstaða, klefarnir eru flottir, það eru margar sturtur og allt mjög snyrtilegt.

Í Giljahverfi eru líka 5 eða fleiri fótboltavellir. Það er einn gervigrasvöllur, einn steypuvöllur og þrír grasvellir. Grasvellirnir eru slegnir á sumrin en ekki er hægt að spila fótbolta á þeim á veturnar, sama á við um steypuvöllinn. Gervigrasvöllurinn er upphitaður, þannig að það er hægt að spila fótbolta á honum allt árið. Á skólalóðinni eru líka 8 körfuboltakörfur, 6 háar körfur og 2 lágar körfur.

Vorið 2015 kom Park í Giljahverfi og þar er hægt að vera  til dæmis á hlaupahjólum og hjólabrettum. Svo er auðvitað hægt að gera margt fleira tengt íþróttum í Giljahverfi en þetta er svona það helsta.

Það eru 10 strætóskýli i Giljahverfi og eru 6 leiðir sem ganga um Akureyri og fjórar af þeim koma upp í Giljahverfi á klukkutíma fresti, sem þýðir að það er auðvelt að komast á milli staða og þar af leiðandi auðvelt að komast á milli til að æfa íþróttir.

Á sumrin er alls ekki langt að hjóla í Bogann þar sem hægt er að æfa fótbolta með Þór og frjálsar með UFA. Það er heldur ekki langt að hjóla í sund. 

Þannig að það er mjög auðvelt að finna sér eitthvað sem manni finnst skemmtilegt tengt íþróttum í Giljahverfi og á Akureyri. Eins og fram hefur komið eru íþróttaðstæður í Giljahverfi mjög fínar. Þar er stórt og flott fimleikahús,  fimm eða fleiri fótboltavellir og átta körfuboltakörfur. þannig að það er auðvelt að finna  eithvað við sitt hæfi.

Hrönn Kristjánsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Giljahverfið – hverfið okkar

Í Giljahverfi finnst mér einstaklega gott að búa. Ég tel það öruggt og mjög fjölskylduvænt hverfi. Giljahverfi er í raun byggt í hring og því eru ekki margar götur og það er stutt að labba í skóla og leikskóla. Þess vegna þurfa börnin í hvefinu í mesta lagi að fara yfir tvær götur til þess að komast í skólann. 

Foreldrafélag Giljaskóla hefur einnig lagt sitt af mörkum til að gera hverfið öruggara með því að skipuleggja svokallað foreldrarölt. Fyrirkomulagið er þannig að ákveðna daga eru foreldarar nemenda í 7. -10. bekk fengnir til þess að ganga um hverfið í merktum vestum. Að lágmarki fjórir foreldrar ganga um í hvert sinn, tveir og tveir saman eða allir í hóp. Það hefur sýnt sig að í þeim hverfum sem svona fyrirkomulag er, minnka líkurnar  á því að börnin lendi í aðstæðum sem geta verið ógnandi eða valdið hræðslu. Á heimasíðu Giljaskóla geta foreldrar kynnt sér frekar fyrirkomulag foreldraröltsins og skráð sig á vaktir.

Í hverfinu eru nokkrir leikvellir, misstórir, sem henta börnum á öllum aldri og eru þeir talsvert notaðir. Einnig eru sparkvellir á ýmsum stöðum um hverfið og safnast krakkarnir oft saman til þess að spila fótbolta eða fara í leiki. Nýlega var útbúið á skólalóðinni eitthvað sem kallast panna. Þar leika börnin sér samkvæmt ákveðnum reglum. Á þessu eru átta horn og tvö mörk , það geta verið einn á móti einum eða tveir á móti tveimur o.s.frv.

Stórt fimleika- og íþróttahús er tengt við skólann sem er frábært, sérstaklega yfir veturinn því þá þurfum við ekki út til þess að fara í íþróttir.  Þess vegna er stutt fyrir börn sem æfa fimleika eða parkour og eiga heima í Giljahverfinu að fara á æfingar.

Hverfið er í raun efsta hverfið í bænum og það er frábært að geta setið heima í stofu og horft upp í fjöllin og sérstaklega Súlur, sem má segja að sé eitt af kennileitum bæjarins.

Stutt er í hverfisbúðina, Krambúðina, og er yfirleitt mjög mikið að gera þar allan sólahringinn.

Mér finnst mjög þægilegt  að búa í Giljahverfi, það er fallegt, öruggt og fjölskylduvænt hverfi með fullt af flottum leikvöllum fyrir börn og krakka á öllum aldri. Foreldrafélagið stendur sig vel í að auka öryggið í hverfinu og stutt er í tómstundir og ýmsa þjónustu. Að mínu mati hefur því hverfið allt sem til þarf og einkennir vel uppbyggt barnahverfi.

Heimild: http://www.giljaskoli.is/foreldrar/foreldrarolt.

Agnes Birta Eiðsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

Of hraður akstur í íbúðarhverfum

Ég og vinur minn sáum bíl sem ekið var allt of hratt eða á 80-90 km hraða á Hlíðarbraut en þar er hámarkshraði 50 km.  Ég hef líka séð ökumenn sem keyra á 60-70 km hraða í götunni sem ég bý í.  Hún er botnlangagata þar sem hámarks hraði er 30 km.  Í raðhúsinu sem amma býr er maður sem keyrir oft mjög hratt, strax á bílaplaninu.  Einu sinni klessti hann á kyrrstæðan bíl sem hafði verið lagt við raðhúsið hennar ömmu.  Það hefði getað endað með alvarlegu slysi. 

Gera þessir ökumenn sér grein fyrir hættunni sem þeir geta skapað? Þeir gætu slasað einhvern eða jafnvel drepið.  Slíkt er ekki hægt að taka til baka.  Í götunni minni er fullt af krökkum sem eiga það til að fara skyndilega út á götuna og ef ökumaður er á 50-60 km hraða þá nær hann ekki endilega að stoppa og gæti keyrt á lítinn krakka sem væri að leika sér.

En hvað er hægt að gera?  Það mætti til dæmis fjölga hraðahindrunum og setja upp fleiri skilti sem sýna hámarkshraða.  Stundum setja íbúar sjálfir upp hraðahindranir.  Það er til dæmis búið að setja upp tvær hraðahindranir í Huldugili sem íbúarnir ákváðu að gera sjálfir vegna þess að of margir keyrðu of hratt í götunni.  Í Huldugili búa mjög margir krakkar og inni í götunni eru litlir leikvellir sem börnin hlaupa kannski hratt út úr og beint út á götuna.  Þá getur skapast mikil hætta og góð leið til að koma í veg fyrir slys er að setja upp hraðahindranir.  Einnig er hægt að vera með meiri fræðslu, t.d. í sjónvarpi, um það hversu hættulegt það er að keyra á 50 km hraða í þröngum íbúðargötum.  

Það er ljóst að við þurfum að vera með meiri metnað í því að fræða, sérstaklega unga ökumenn.  Einnig að skoða hvort fleiri hraðahindranir í íbúðahverfum gætu gert gagn.  Ef ekkert verður gert er ekki ósennilegt að alvarlegt umferðarslys verði í Giljahverfi þar sem ökumaður keyrir á gangandi vegfaranda.

Guðmundur Ingi Guðmundsson 8. bekk Giljaskóla

 

 

Barnvænt hverfi

Árið 1990 var byrjað að byggja fyrstu húsin í Giljahverfi.  Giljahverfi er nokkurn veginn byggt í hring í kringum Giljaskóla og er Giljaskóli frekar neðarlega í þessum hring. 

Hér á Akureyri er frítt í strætó.  Frá Giljahverfi er mjög létt að taka strætó til dæmis í Naustahverfi, Síðuhverfi eða niður í Miðbæinn.  Ég sjálf hef notað strætó mikið og er þetta frábær leið til að minnka skutlið á æfingarnar. 

Ég flutti í Vættagil, sem er ein gatan í Giljahverfi, fyrir nokkrum árum.  Giljahverfi er frekar skipulagt hverfi.  Hús, götuheiti og númer á húsum er allt mjög vel merkt og ef þú ert nýr í hverfinu ætti ekki að vera mikið mál að finna göturnar.  Í Giljahverfi er ekki svo mikið af gangbrautum sem þú þarft að fara yfir þegar þú ert að fara í skóla eða leikskóla.  Í Giljahverfi eru tveir leikskólar.  Þeir heita Tröllaborgir og Kiðagil.  Giljaskóli eini skólinn í hverfinu.

Í sumar var ég mikið að passa.  Einfalt er að finna afþreyingu fyrir börn hér í hverfinu.  Margir leikvellir eru hérna og ekki langt að labba á þá hvar sem þú býrð í hverfinu.  Leikskólarnir eru mjög góðir til að fara með börn á.  Frá hverfinu er stutt að koma sér út í náttúruna.  Giljaskóli hefur nýtt sér það vel.  Krakkarnir í Giljaskóla sem eru í smíðum hafa verið að endurbyggja rjóðrið sem var eyðilagt í fyrra.  Rjóðrið er að verða eins og nýtt.  Rjóðrið er trjálundur rétt fyrir neðan verslunina Samkaup strax. 

Á kvöldin hittumst við krakkarnir í bekknum mínum og líka krakkar úr öðrum bekkjum.  Þegar við hittumst í Giljaskóla förum við yfirleitt á völlinn en núna er kominn svokallaður pönnuvöllur sem smíðakennarinn okkar og íþróttakennarinn smíðuðu.  Pönnuvöllurinn er mjög vinsæll hjá krökkum á öllum aldri.  Pönnuvöllurinnn er nokkurn veginn átthyrningur.  Þetta eru lítil mörk og tilgangurinn með leiknum er að reyna að „klobba“ einhvern eða skora í mörkin og sá vinnur sem skorar og hinn fer útaf.  Pönnvöllurinn kostar um milljón ef ekki meira.  Skólinn sparaði mikinn pening því kennararnir smíðuðu þennan völl. 

Giljahverfi er frábært hverfi, þægilegt að umgangast það og það er einnig fjölskylduvænt.  Strætóleiðir til og frá hverfinu eru mjög góðar og mikil afþreying fyrir unga krakka.

María Björk Friðriksdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Íþróttaaðstaða í Giljahverfi

Í Giljahverfi er að mínu mati mjög góð íþróttaaðstaða. Það er til dæmis þægilegt að geta labbað í þetta flotta og stóra fimleikahús sem byggt var árið 2008 til 2009.

Á laugardögum fyrir hádegi er opin fimleikaæfing fyrir börn til 6 ára aldurs. Þar geta foreldrar eða eldri systkini komið með börnin og leyft þeim að leika sér í fimleikasalnum. Þannig fá þau góða útrás og þau fá að kynnast fimleikaíþróttinni í leiðinni. FIMAK sem er fimleikafélag Akureyrar er með mjög flott starf ekki bara fyrir börn til 6 ára aldurs heldur líka stelpur og stráka á öllum aldri. Ég sjálf æfði fimleika hjá þeim í um það bil sex ár og hafði ég mjög gaman af því. Í fimleikum eru tveir möguleikar. Þú getur annars vegar æft hópfimleika og hins vegar áhaldafimleika sem er einstaklingsíþrótt. Í Giljahverfi erum við einnig með einn gervigrasvöll, einn steyptan völl og þrjá eða fleiri grasvelli þar sem öllum er velkomið að koma hvenær sem er og spila fótbolta og leika sér. Þetta geta til dæmis fótboltaáhugamenn nýtt sér. Fótboltafélögin á Akureyri Þór og KA eru með mjög flotta fótboltavelli bæði inni og úti fyrir krakka og unglinga sem æfa fótboltaíþróttina. Krakkar í Giljahverfi eru fljótir að hjóla og labba bæði á KA- og Þórsvellina. Mér finnst sniðugt að krakkar nýti sér að það sé svona stutt á æfingar og þannig geta þeir sparað foreldrum sínum mikið skutl. Fyrir þau sem hafa hvorki áhuga á fimleikum né fótbolta geta þau nýtt sér þessar fjölmörgu körfuboltakörfur en í Giljahverfi erum við með að minnsta kosti 9 körfuboltakörfur. Það er eins með körfuboltakörfurnar og fótboltavellina að það mega hverjir sem er koma hvenær sem er. Þeir sem hafa mikinn áhuga á körfubolta geta þá æft körfubolta hjá Þór.

Eins og ég sagði hér í byrjun er íþróttaaðstaða í Giljahverfi mjög góð og margir möguleikar eru á íþróttaiðkun. Fótboltavellirnir eru flottir og margir, körfuboltakörfurnar eru víða og fimleikafélagið er öflugt. Ég sjálf hef prófað margar íþróttir í GIljahverfi og hef haft gaman af því.

Katrín Dóra Jónsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Hverfið sem hefur allt

Byrjað var að byggja fyrstu húsin í Giljahverfi árið 1990. Giljahverfi er mjög gott hverfi. Gervigrasvöllurinn í Giljahverfi er vinsælasti völlurinn í Þorpinu, allavegana hjá krökkunum á mínum aldri sem eru fæddir árið 2004. Minn aldur fer næstum á hverjum degi á völlinn, lang oftast klukkan 19:30 en annað slagið aðeins seinna en það. Mjög margir nota gervigrasvöllinn í Giljahverfi, meira að segja koma stundum nokkrir fullorðnir menn og spila einn eða tvo stutta leiki. Síðan er líka parkið. Margir eru á parkinu ef það er ekki blautt úti. Það er líka körfuboltavöllur við hliðina á gervigrasvellinum og síðan er annar vestan megin við Giljaskóla. Þar eru stundum einhverjir en ekki alltaf. Giljaskóli var að byggja klobbavöll eða tæknivöll en það er mismunandi hvað menn kalla völlinn. Hann er líka vinsæll. Giljahverfi er örugglega bara besta íþróttahverfið.

Krambúðin í Giljahverfi græðir allavegana eitthvað á krökkunum sem eru úti í Giljahverfi á kvöldin, til dæmis pínu á krökkunum sem eru á gervigrasvellinum eða parkinu. Á seinustu tíu árum hefur verið bætt við íþróttahúsi, parki og tæknivelli í Giljahverfi og er verið að setja upp nýjan leikkastala. Giljahverfi er bara að verða betra með hverju ári. Í Giljahverfi búa um það bil 2100 manns samkvæmt manntali Akureyrar. Það er nokkuð mikið miðað við hvað þetta er nýtt hverfi. Í Giljahverfi eru ruslahaugar. Sumir krakkar gera leynistað í litla skóginum fyrir ofan ruslahaugana og ná í fullt af drasli af ruslahaugunum til að skreyta hann. Giljahverfi er Þórsarahverfi þó að það séu einhverjir KA menn og konur í því. Í Giljahverfi er ekkert rosalaga mikil umferð að mínu mati en ég veit ekki alveg hvað öðrum finnst um hana. Giljahverfi er bara tuttugu og níu ára en er samt að verða gróðri vaxið af til dæmis trjám og runnum. Í Giljahverfi eru tveir leikskólar sem heita Kiðagil og Tröllaborgir. Kiðagil er við hliðina á Giljaskóla og Tröllabogir eru í rauðu blokkinni fyrir ofan Krambúðina. Giljahverfi er bara snilldar hverfi sem hefur allt. Eins og kom fram í textanum hér fyrir ofan er Giljahverfi mikið íþróttahverfi. Í Giljahverfi er mikið af fínum aðstæðum til að stunda vinsælar íþróttir t.d. fótbolta og körfubolta.

Bjarni Guðjón Brynjólfsson 8. bekk Giljaskóla

 

 

Frábær aðstaða fyrir unga fótboltaiðkendur í Giljahverfi

Í Giljaskóla á Akureyri er komið nýtt leiktæki  sem finnst hvergi annars staðar á Akureyri. Það var smíðað af smíðakennara Giljaskóla, Guðmundi Elíasi Hákonarsyni  og íþróttakennaranum Einvarði Jóhannssyni. Mætti kalla þetta mini fótboltavöll eða ,,Panna – Skills”. Völlurinn hefur heldur betur slegið í gegn hjá nemendum skólans og er frábær viðbót við aðra fótboltavelli í Giljahverfi.

Leiktækið er staðsett  á skólalóðinni og er opið fyrir alla alltaf. Það eina sem þarf í þetta er fótbolti því þetta er fótboltavöllur sem fáir geta verið í. Fótboltavöllurinn hefur átta horn og lítil mörk á móti hvoru öðru. Tvær festingar eru á hverju horni sem halda vellinum stöðugum. Veggirnir eru úr timbri og eru sirka hálfur meter á hæð. Gert er ráð fyrir því að tveir séu inni á vellinum í einu og spila á móti hvor öðrum. Almenna reglan er að reyna á að skora þrjú mörk og aðilinn sem vinnur heldur vellinum.Leiktækið varð frá upphafi mjög vinsælt og er það lang oftast í notkun á skólatíma en líka eftir skóla og um helgar. Það er hægt að finna kosti og galla við lang flest og þar á meðal þennan fótboltavöll. Íbúar nálægt skólanum, en aðallega í Snægili, hafa kvartað undan þeim hávaða  sem berst frá vellinum langt fram á kvöld.

Þessi fótboltavöllur er bara einn af mörgum fótboltavöllum í Giljahverfi. Til dæmis er Giljaskóli með þrjá velli í viðbót, einn fótboltavöll með gervigrasi, annan grasvöll og sá þriðji er steyptur. Allir vellirnir eru lang oftast í notkun en á skólatíma er notkunin skipulögð og búið að skipta niður hvaða bekkir geta verið á gervigrasvellinum. Frjáls notkun er á hinum tveimur. Fleiri fótboltavelli eru að finna hér og þar um Giljahverfi og eru þeir mjög vel farnir. Mér finnst þessir vellir ekki vera mikið í notkun og er það leiðinlegt því þetta eru rosalega flottir og vel farnir fótboltavellir. Ég  fer sjálf stundum á þessa velli og þá hafa aldrei neinir verið á völlunum. Vellirnir eru slegnir annað slagið og er það gert vel.

Það eru semsagt þrír misstórir fótboltavellir sem tilheyra Giljaskóla, einn af þeim er nýlega smíðaður af kennurum skólans og hefur hann valdið miklum vinsældum hjá nemendum. Hægt er að finna fleiri velli í Giljahverfi sem eru ofboðslega vel farnir. Endilega nýtið tækifærið og notið þessa flottu fótboltavelli.

Jakobína Hjörvarsdóttir 8. bekk Giljaskóla

 

 

Ný viðbót við göngustígakerfi Akureyrar

Síðastliðið vor var byrjað á framkvæmdum á nýjum stíg frá Vættagili að Hlíðarbraut til að tengja saman Brekkuna og Þorpið. Þetta er góður stígur sem tengir þessa tvo bæjarhluta vel saman.

Þessi nýi stígur liggur frá Vættagili í norðri og endar við Hlíðarbraut rétt við brúna yfir Glerá aðeins sunnar. Reyndar er einnig hægt að tengjast stígnum úr Huldugili en um leið og þessi leið var gerð var lagður stígur frá götunni meðfram Vættagilsbrekkunni. Það var hægt að byrja að nota stíginn í  júní en hann var þó ekki alveg tilbúinn þar sem eftir var að malbika og setja ljósastaura til að lýsa veginn upp. Ég notaði stíginn mikið í sumar til þess að fara á fótboltaæfingar en ég æfi fótbolta með fjórða flokki KA og þetta styttir leiðina frekar mikið. Það tekur fimm til tíu mínútur að hjóla að KA heimilinu og um það bil 20 mínútur að ganga. Það tekur aðeins lengri tíma að hjóla að sundlauginni og það sama þegar þú gengur að sundlauginni. Það er líka hægt að beygja inn í Huldugil. Leiðin liggur í gegnum  smá skóg og þar skiptist hann í tvær leiðir. Önnur leiðin liggur niður á Hlíðarbraut og hin upp að Norðurorku. Eini galli stígsins er að hann fer framhjá ruslahaugunum og það er ógeðsleg lykt þar. Ég mæti oft fólki að skokka, labba eða hjóla stíginn. Það er stundum hægt að sjá kanínu en svo eru annars bara fuglar.

Stígurinn er hentugur fyrir alla sem æfa golf, fólk sem æfir með KA og að komast í sund. Nýi göngustígurinn sem tengir Þorpið og Brekkuna saman er góð viðbót við göngustígakerfi Akureyrar. Vonandi verður hann mikið meira notaður af íbúum Giljahverfis sem og öðrum íbúum sem vilja nota göngustíga og fara í gönguferðir (ef þú ferð upp að Norðurorku). Ég vil að fólk noti þennan stíg og það að fólk fari í gönguferðir upp að Norðurorku. Það er fínt að labba þarna og þú getur líka farið út af stígnum og skoðað lífið í skóginum.

Hákon Atli Aðalsteinsson 8. bekk Giljaskóla