Vörur og þjónusta

Grenndargralið er alhliða vöru- og þjónustusproti á sviði menningarmála í heimabyggð. Rætur Gralsins liggja í þeirri skemmtilegu flóru sögu og menningar sem heimabyggð býr yfir og viðleitni til að matreiða hana á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning. Grenndargralið reynir eftir bestu getu að hafa þessi atriði til hliðsjónar í öllum verkefnum á sínum vegum, stórum sem smáum. Tvö meginviðfangsefni Grenndargralsins eru þjónusta og varningur undir nafni Grenndargralsins.

~~~~~~

Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli

Bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Vinna við bókina hófst árið 2000 þegar heimildaöflun vegna lokaritgerðar til B.-ed prófs við Kennaraháskóla Íslands fór af stað. Ritgerð var skilað fullunninni vorið 2001 en heimildaöflun hélt áfram til ársins 2004. Þá var gert hlé á vinnunni en unnið áfram með hléum allt til ársins 2016 þegar vinna hófst af fullum krafti aftur. Mikið magn upplýsinga hefur verið safnað saman og er áhersla lögð á sögu sjúklinganna og daglegt líf þeirra.

Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Stuðst er við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin hefur að geyma fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.

Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Grenndargralið gefur út. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Hér má nálgast uppfærða heimildaskrá.

 

~~~~~~

Lífið í Kristnesþorpi

Bókin Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út fyrir jólin 2016. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson. Grenndargralið tekur hér saman sögur af upplifunum fólks sem bjó/býr í starfsmannabústöðunum í Kristnesi og á sveitabæjunum í nánasta nágrenni Kristneshælis. Rakin er 90 ára saga búsetuþróunar, saga fasteigna og umhverfis í bland við daglegt líf þorpsbúa. Bókin byggir á viðtölum við 8 einstaklinga sem búið hafa á Kristnestorfunni á mismunandi tímabilum frá vígslu Kristneshælis árið 1927 til dagsins í dag. Bókin inniheldur eitt og annað sem veitir innsýn í lífið í Kristnesþorpi. Má í því sambandi nefna minningabrot eða nokkurs konar örsögur þar sem íbúar Kristness deila með lesandanum einni minningu eða sögu af skemmtilegu atviki eða eftirminnilegu fólki. Þá hefur bókin að geyma efni úr dagblöðum, tímaritum og bókum auk áður óbirts efnis úr fórum fyrrverandi íbúa svo ekki sé minnst á mikinn fjölda ljósmynda. Gerð er tilraun til að taka saman frásagnir af ýmsu tagi, í máli og myndum og blanda þeim saman þannig að útkoman verði aðgengilegt uppflettirit um viðfangsefnið – bók um upplifanir fólks af lífinu í Kristnesþorpi fyrir íbúa Kristness í fortíð, nútíð og framtíð sem og aðra áhugasama. Ófá ævintýrin leynast í hugum þeirra sem búið hafa í Kristnesi. Hér gefst tækifæri til að skyggnast inn í samfélag sem á sér fáar hliðstæður. Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

~~~~~~

Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt

Bókin Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út fyrir jólin 2015. Höfundur er Hildur Hauksdóttir. Bókin er ígrundun og tilraun til  skilja betur ömmu höfundar, konurnar í lífi hennar og fólkið sem kom fótunum undir þjóðina á 20. öldinni. Helga Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Eyjafirði árið 1927. Hún missti móður sína og seinna fósturmóður ung að árum og var sett í fóstur. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur. Helga Guðrún er rauði þráðurinn í þessari sögu og speglar hún tíðarandann, bæjarbraginn á Akureyri og ekki síst uppvaxtarskilyrði alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun. Sagan er skrifuð fyrir fjölskyldu Helgu Guðrúnar en líka aðra sem vilja setja sig inn í hugarheim þeirra sem fá sjaldan rödd í sögubókum. Síðast en ekki síst er sagan skrifuð af þakklæti og þrá til að skilja betur hvaðan við komum og hvað mótar okkur sem manneskjur. Um umbrot sá Herdís Björk Þórðardóttir. Bókin var prentuð hjá Svansprent í Kópavogi.

~~~~~~

Leitin að Grenndargralinu

Leitin er í boði fyrir elstu nemendur í grunnskólum á Akureyri (8.-10. bekk). Takmark þátttakenda er að finna bikar, hið svokallaða Grenndargral, sem búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Leitin að Gralinu tekur 10 vikur og hún fer þannig fram að nemendur, ýmist einir eða tveir saman, fá eina þraut (verkefni) til lausnar í viku hverri. Þraut sem tengist sögu eða menningu Akureyrar og/eða Eyjafjarðar.Við lausn hverrar þrautar fá nemendur bókstaf. Markmiðið er að safna að lágmarki tíu bókstöfum sem fást við úrlausn þrautanna sem þeir svo nota til að mynda ákveðið orð. Orðið er nokkurs konar lykilorð og er þekkt úr sögu heimabyggðar. Þegar krakkarnir ná að raða saman bókstöfunum og mynda sjálft lykilorðið öðlast þeir rétt til að hefja leit að Grenndargralinu. Til þess fá þeir eina lokavísbendingu sem vísar þeim á fundarstaðinn. Sá eða þeir sem finna Gralið standa uppi sem sigurvegarar. Þeir fá Gralið afhent til varðveislu í eitt ár við hátíðlega athöfn á sal þess skóla sem sigurvegararnir koma úr. Þá fá þeir verðlaunapeninga til eignar. Allir sem klára þrautirnar tíu fá viðurkenningarskjal fyrir góða frammistöðu eftir langa og stranga leit. Myndir og fróðleiksmola má sjá á facebook-síðu Grenndargralsins.

~~~~~~

Giljaskólaleiðin

Undanfarin ár hafa nokkrir íslenskukennarar á unglingastigi í Giljaskóla unnið eftir hugmyndafræði sem gengur undir nafninu Giljaskólaleiðin. Stoðirnar eru þrjár og einkenna þær að miklu leyti þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í íslensku frá 8. bekk og þar til grunnskólagöngu lýkur. Áherslan er á framsögn, lestur og ritun í gegnum raunveruleg, merkingarbær viðfangsefni sem endurspegla veruleikann eins og hann blasir við utan veggja skólans. Reynt er eftir fremsta megni að koma afurðum nemenda, hvort sem þær er í ræðu eða riti, fyrir augu og eyru almennings. Samantektin hefur að geyma áherslur Giljaskólaleiðarinnar. Auk sérstakrar umfjöllunar um stoðirnar þrjár;  framsögn, lestur og ritun er fjallað um samspil þeirra og grunnþátta menntunar eins og þeir birtast í aðalnámskrá.  Boðið er upp á sýnishorn af verkefnislýsingum Giljaskólaleiðarinnar, leiðir skoðaðar við námsmat og vöngum velt yfir hvað framtíðin ber í skauti sér. Grenndargralið gefur út.

 

~~~~~~

Héraðsfréttir

Grenndargralið hefur nokkur undanfarin ár birt greinar á heimasíðu sinni, grenndargral.is, undir heitinu Héraðsfréttir. Greinarnar, sem unnar eru af nemendum í 8. – 10. bekk í Giljaskóla, fjalla með einum eða öðrum hætti um málefni heimabyggðar. Unnið er samkvæmt hugmyndafræði Giljaskólaleiðarinnar en greinaskrifin eru hluti af ritunarhluta í íslenskunámi nemenda. Auk ritunar eru framsögn og lestur þættir sem lögð er sérstök áhersla á. Krakkarnir setja sig í spor fréttamanna, fara á stúfana og leita uppi athyglisverð viðfangsefni. Greinahöfundar tjá eigin tilfinningar og skoðanir á nánasta umhverfi og leggja þannig sitt af mörkum til uppbyggingar grenndarsamfélagsins á lýðræðislegan hátt. Með birtingu greinanna á opinberum vettvangi þjálfast krakkarnir í að láta rödd sína heyrast og ljós sitt skína. Sem dæmi um efnistök má nefna fróðleik úr heimabyggð, frásagnir af sögufrægum stöðum og kynningar á ýmis konar félags- og atvinnustarfsemi. Þá  fá krakkarnir einnig tækifæri til að vekja athygli á hagsmunamálum sínum og mögulega veita þeim æskilegt aðhald sem annars kynnu að  brjóta á réttindum þeirra. Þannig eru álitamál af ýmsu tagi tekin fyrir þar sem gagnrýnin hugsun er höfð að leiðarljósi. Oft og iðulega hafa greinarnar hreyft við þeim sem eldri eru og fengið þá til að bregðast við með skrifum eða aðgerðum.

~~~~~~

Greinaskrif fyrir dagblöð

Grenndargralið  skaffaði staðarblaðinu Akureyri vikublaði efni til birtingar á heilsíðu um rúmlega tveggja ára skeið (2013-2015). Efni frá Gralinu birtist að jafnaði einu sinni í mánuði og afraksturinn var u.þ.b. 20 opnur. Hlé var gert á greinaskrifum til árins 2018 þegar Grenndargralið hóf að birta efni á síðum Norðurlands. Efnistök eru fjölbreytt þar sem einkunnarorð Grenndargralsins eru höfð að leiðarljósi; gersemar í sögu og menningu heimabyggðar. Markmiðið er ávallt að matreiða viðfangsefnið á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning. Meðal efnis sem Grenndargralið hefur birt í blaðinu má nefna Æskuslóðirnar mínar þar sem valinkunnir Eyfirðingar segja frá uppvexti sínum í heimabyggð, Af hverju ekki? þar sem Gralið leggur sitt lóð á vogarskálarnar við að auka fjölbreytni í menningu heimabyggðar og Geymt en ekki gleymt þar sem rifjaðir eru upp eftirminnilegir atburðir í sögu heimabyggðar. Þá hafa fjölmargar ítarlegar greinar birst um hin og þessi skemmtileg viðfangsefni úr sögu heimabyggðar, ráðgátur, sögur af sérvitringum og annað sem vekur athygli lesenda.

~~~~~~

Grenndargralið á Youtube

Grenndargralið hefur opnað rás á Youtube. Þar er meiningin að safna saman myndböndum, glærusýningum, tónlist og öðru sem Grenndargralið útbýr til að koma boðskap sínum á framfæri. Myndir af þátttakendum og sigurvegurum í Leitinni að Grenndargralinu, myndir úr safni Grenndargralsins og stuttar hljóðupptökur úr heimabyggð er meðal þess sem finna má á rás Grenndargralsins nú þegar. Með youtube opnast nýir möguleikar við að miðla áfram gersemum úr sögu og menningu heimabyggðar. Með tíð og tíma, þegar Grenndargralið hefur yfir betri tækjabúnaði að ráða, munu vonandi birtast lifandi myndir í góðum gæðum fyrir heimamenn jafnt sem aðra áhugasama innanlands sem utan. Hér er spennandi vettvangur fyrir Grenndargralið að koma sögu og menningu Eyjafjarðar á framfæri á lifandi hátt. Hér má nálgast rás Grenndargralsins. Sjón er sögu ríkari.

~~~~~~

Grenndargral fjölskyldunnar

Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar var boðið upp á sérstaka afmælisútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu. Umsjónarmenn Leitarinnar stóðu að afmælisútgáfunni í samstarfi við afmælisnefnd Akureyrar og gekk hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar.
Þrjár þrautir voru lagðar til grundvallar á jafnmörgum vikum og sem fyrr tengdust þær sögu og menningu heimabyggðar, með áherslu á Akureyri. Þátttakendur ferðuðust um söguslóðir og lærðu um sögu Akureyrar í gegnum skemmtilegar og krefjandi þrautir. Þeir sem skiluðu inn réttum úrlausnum fyrir tilskilinn tíma fengu eina lokavísbendingu sem vísaði á Gralið. Gralið sem barist var um átti rætur sínar að rekja til Randers, vinabæjar Akureyrar í Danmörku. Ingvar Engilbertsson hannaði Gralið auk þess sem hann smíðaði gripinn. Til þess notaði hann stofn jólatrésins frá Randers sem gladdi Akureyringa og aðra jólin 2011. Sigurliðið  í Grenndargrali fjölskyldunnar var fjölskylda á Akureyri sem kallaði sig The Hólms.

~~~~~~

Grenndargralsmúslí

Grenndargralsmúslí er í senn holl og bragðgóð heilsuvara, búin til úr sjö hráefnistegundum. Með í kaupbæti fylgir stafarugl tengt heimabyggð. Varan nærir þannig bæði líkama og sál. Uppskriftin er afrakstur þrotlausrar þróunarvinnu í eldhúsinu heima. Múslíið er ólíkt öðrum sambærilegum vörum vegna sérstaks framleiðsluferlis. Eitt er að blanda saman hráefninu, annað er að draga fram keim Grenndargralsmúslísins sem á sér engan sinn líkan. Aðferðin er ekki til á prenti, aðeins í höfðum fjögurra grúskara í heimabyggð. Huga þarf að mikilvægum atriðum eins og réttu hitasigi og ferskleika. Á það bæði við um matseldina og þá sem sjá um hana. Þá er rétt hugarfar í eldhúsinu lykilatriði þegar kemur að gæðum Grenndargralsmúslísins.

Grenndargralsmúslíið er í glerkrukkum en hver krukka inniheldur 100 grömm. Í lokinu er gáta. Gátan er í formi stafarugls þar sem neytandi múslísins reynir að raða bókstöfunum þannig að þeir myndi nafn á sveitaabæ í heimabyggð. Í þessu tilfelli nær heimabyggð alla leið frá Ólafsfirði í norðri og til innstu bæja Eyjafjarðar í suðri. Bæirnir eru ýmist í byggð eða komnir í eyði. Spurningin er svo bara hvort gátan leysist áður en innihald krukkunnar klárast.

Grenndargralsmúslíið er dæmi um hágæða heimilisiðnað. Grenndargralið stefnir að því að vera leiðandi á markaði þegar kemur að þróun múslís sem inniheldur stafarugl um sveitabæi í heimabyggð. Til að ná því markmiði er áhrifaríkustu aðferðum beitt í eldhúsinu heima við framleiðslu og gæðaeftirlit. Aukinheldur er múslíið ávallt framleitt í samræmi við ríkjandi staðla meðaleldhúss í raðhúsi. Allt hráefni sem og framleiðsluferlið er rætt reglulega yfir kaffibolla í eldhúsinu heima svo hugsanlega vankanta megi sníða af og mögulegar umbætur komist til framkvæmda. Eins og sjá má er varan umvafin ást og umhyggju fólksins sem býr hana til. Þannig leggjum við okkur fram um að hið notalega andrúmsloft eldhússins heima skili sér í krukkunni til neytandans.

Til að nálgast krukku(r) skal leggja inn pöntun í gegnum tölvupóst (brynjar@akmennt.is eða hildur@ma.is) eða með símtali (821 5948 – Brynjar eða 848 9811 – Hildur).  Afhendingartími miðast við sólarhring að lágmarki þar sem múslíið er útbúið eftir að pöntun er lögð inn. Þannig tryggjum við ferskleika vörunnar þegar hún berst í hendur viðskiptavinarins. Krukkunum er komið á áfangastað samkvæmt samkomulagi milli Grenndargralsins og viðskiptavinarins. Krukkan kostar 700 krónur.

Aðeins 227 krukkur verða á boðstólnum, ein fyrir hvert ár sem liðið er frá því að Akureyri fékk kaupstaðarréttindi í fyrra skiptið.

~~~~~~

Tölvugerð mynd af Akureyri 1862

Tölvugerð mynd af Akureyri 1862 var gerð í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar.

Myndin var unnin í samvinnu við Akureyrarkaupstað en Minjasafnið á Akureyri og Héraðsskjalasafnið á Akureyri aðstoðuðu við heimildaleit.

Hér má sjá nánari upplýsingar um verkefnið.

Veg og vanda af myndinni hafði Arnar Birgir Ólafsson í samstarfi við Grenndargralið.

 

1 Athugasemd »

  1. Sigrún Helga

    Ja það er ekki að spyrja að því.

    Nýfluttir tilbaka verða að eignast svona fínerí.

    Comment — June 11, 2013 @ 08:15

Skrifa athugasemd