main image

Hjálparhellur fögnuðu opnun seturs um sögu berklanna

Sýningin Hælið setur um sögu berklanna opnar sunnudaginn 30. júní kl. 11:00. Sýningin verður opin daglega frá kl. 11-18 samhliða kaffihúsinu. Mikil vinna liggur að baki því að setja upp setrið sem og kaffihús að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit og hafa ófáir sjálfboðaliðar lagt hönd á plóg.

María Pálsdóttir hefur veg og vanda af uppbyggingunni í gömlu starfsmannahúsnæði sem áður tilheyrði Kristneshæli. Í tilefni af opnuninni bauð María til opnunateitis þar sem helstu hjálparhellur komu saman, nutu veitinga og skoðuðu sig um á sýningunni. 

Radio Grenndargral

Gleðilegt ár

Vetrarnótt

Sé eg inn frá Súlutindi

silfurkrýndan fjallahring,

eins og til að verjast vindi

verðir standa fjörðinn kring.

Sína mynd í sænum skoða

svanhvít Vaðlaheiðarlönd,

vestari álinn reifa roða

rjóð í austri skýa-bönd.

Blærinn þegir, blunda vogar.-

Breiða yfir land og sæ

norðurljósa nætur-logar

náttúrunnar helgiblæ.

Friður hvílir foldu yfir,

faðmar nóttin skygðan lög;

að eins heyrir alt sem lifir

andardrátt og hjartaslög.

Dýrðlegt er að sjá á sveimi

segulljósið stilt og rótt:

yfir landi út í geimi

undursýn er skreytir nótt.

Hjartað fyllir himins friður

hylling þegar fyrir ber,

og hinn mikli myndasmiður.

málverk fagurt sýnir þér.

                       B.E.

 

Ljóðið birtist í mánaðarriti sem gefið var út á Akureyri í upphafi síðustu aldar. Ritið hét Nýjar Kvöldvökur, útgefandi var Félag á Akureyri.  Ljóðið birtist í ritinu árið 1909 og því liðin 110 ár um þessar mundir frá birtingu þess. 

100 ára gömul jólahugvekja talar til þín

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Þetta stóð á einu brjefspjaldi, sem mjer var sent um jól. Mjer varð oftar en einusinni starsýnt á þessar línur, aðfangadagskvöldið það. Jeg fór að rifja upp hugsanir mínar og hvernig mjer hefði liðið ýms undanfarin jól. — Jólin geta verið svo margvísleg. — Stundum höfum við þá verið veik, eða staðið við sjúkrabeð eða dánarbeð vina okkar, stundum fjarri ættingjum og heimilum og pínst af heimþrá, stundum verið í miklu fjölmenni, stundum of einmana, — stundum glöð, stundum hrygg.  —

   En altaf höfum við reynt að setja einhvern jólablæ á umhverfið. Altaf hafa komið fram á varir okkar þá daga þessi sömu orð: Gleðileg jól! Hvar, sem menn mætast, er þetta ávarp á allra vörum. Það er skrifað, prentað eða skrautritað á hvert jólakort. Það blasir við okkur í auglýsingum blaðanna.

GLEÐILEG JÓL!

En finst ykkur það ekki stundum varhugavert, þegar sumt það besta, sem mannssálin geymir og fegurstu orðin sem komið geta fram á varir mannanna, þegar það alt verður næstum hljómlaust, bragðlaust, andlaust, — ekkert nema venja. Það verður svo oft, — því miður. Gleðileg jól! Aðeins að við gætum altaf sagt þessi orð þannig, að þau væru þrungin af sál, af andríki og af ástúð. Ef friður og hátíðablær jólanna fylti hug okkar allan, ef sál okkar væri á þeim augnablikum lognblíð lá, ljósanna föður skuggasjá, þá gæti líka hjartnæm ósk um góð og gleðileg jól risið eins og heit bylgja á hyldýpi hugans, liðið sem öflugur, hlýr straumur inn í hugskot vina okkar bæði nær og fjær.

   Það er oft gaman að fá sendibrjef, hamingjuósk, símskeyti, loftskeyti o. s. frv., en alt er það kalt og dautt, ef þessar bylgjur hugans rísa ekki á bak við og gefa því líf. Áreiðanlega verða þau, hugskeytin, tryggustu sambandsskeyti framtíðarinnar, skeytin sem okkur þyrstir mest eftir. Og áreiðanlega eru það hræringarnar í djúpi hugans, sem gefa öllu, sem umhverfis okkur er, sitt gildi. Það eru þær, þær einar, sem geta gert jólin gleðileg jól.              

   Viðhöfnin, skrautið, ljósadýrðin, jólagjafirnar, söngurinn, gleðskapurinn, kræsingarnar, jólasumblið alt, þessa getum við alls notið í ríkum mæli, en þó fari jólin framhjá, án þess að hræra nokkurn viðkvæman streng í hjörtum okkar, án þess að vera sönn jól. Sál okkar er samt ósnortin. Jeg veit það vel, að öll viðhöfnin og hátíðabrigðin á jólunum á að vera vegur til mannshjartans til að leiða þangað sannan jólafögnuð, fagrar jólahugsanir. En tekst það nú æfinlega? Verður það ekki stundum vegur fyrir alt aðrar hugsanir? Vekur það ekki upp ýms áhyggjuefni, margvíslegt umstang, sem stundum skilur lítið eftir, nema þreytu og sljóleika.              

   Einhver mesti kennimaður þessa lands byrjaði einu sinni jólaræðu sína eitthvað á þessa leið: „Ef við ættum vog, sem við gætum mælt með fagnaðartitring mannlegs hjarta, þá fyndum við hversu óumræðanlegan fögnuð boðskapur jólanna hefir vakið í brjóstum mannanna, kynslóð eftir kynslóð, nú í 19 aldir.“              

   Það er þessi fagnaðartitringur mannlegs hjarta, sem er insti kjarni jólanna. Þar sem hann býr, þar eru jól. Hafi hann ekkert snortið okkur höfum við ekki lifað nein jól. Og ef þú hefir glatt einhvern á jólunum þá er það þannig, að þjer hefir tekist að leiða þennan fagnaðartitring inn í sál hans. Á annan hátt er ekki hægt að gleðja á jólunum.              

   „Hvernig hefir þú skemt þjer um jólin?“ spyrja menn venjulega að aflíðandi jólum. En samviskuspurning hvers og eins, til sjálfs sín, ætti að vera eitthvað á þá leið, hvort fagnaðartitringur mannlegs hjarta hefði nokkurntíma gagntekið okkur um jólin. Það er enginn hjegómi. Dýpsta nautnin í lífinu, eina nautnin er þó sú, að geta orðið snortinn, hrifinn.     

         

   Jólahaldið í kaupstöðunum, veislurnar, heimboðin, dansinn, spilin og næturvökurnar á oft svo undarlega litið skilt við sanna jólagleði. Einstaka mönnum tekst þó að halda fullu jafnvægi, mitt í öllu því skvaldri. En stundum eru umræðuefnin valin svo innihaldslaus, ljettúðug og jafnvel spilt og óholl, að það eins og fennir í hug okkar yfir alt það hlýjasta, besta og næmasta, sem við eigum til í eðli okkar. En einmitt það hefði þó átt að geta sprungið út eins og blóm, sprungið út við jólaylinn og jólaljósin.               

   Ef til vill er hátíðahaldið sjálfa jóladagana í raun og veru vottur um takmörkun á okkar andlega þroska. Við erum þar að fjötra jólagleðina við vissa daga. En koma Krists í heiminn ætti að vera minnisstæð lengur en þá daga. Við þurfum altaf að eiga þau jól í sál okkar.              

   Og hvenær sem samúðaröldur frá sálum annara manna snerta okkur, hvenær sem okkur líður vel að einhverju leyti, — hvenær sem hugsunin um Krist, og þá, sem ásamt honum hafa göfgað heiminn, vekur fagnaðartitring í sál okkar, og einhver glampi af  dýrð hinnar helgu nætur leikur um hugskot vort, þá eru jól, hvað sem tímatalinu líður.              

   En hve mikill hátíðablær og viðhöfn, sem er í heimahúsum þínum og alstaðar, ef sál þín er ósnortin, þá eru engin jól. Ef þú vilt gera eitthvað vel, þá verður þú að leggja sál þína inn í það, líka inn í jólagleðina, sem þú veitir sjálfum þjer og öðrum.              

   Nú eru jólin að ganga í garð. 

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Ýmsra jóla, sem hafa auðgað okkur, og annara, sem hafa skilið okkur eftir jafn snauð og við vorum. Jólahaldið í þetta sinn verður eigi síður margvíslegt. Kjörin eru svo margháttuð og hugarþel okkar svo ólíkt. Víða á landi okkar, eigi hvað síst í höfuðstaðnum, eru nú svo mörg opin sár og blæðandi, sem koma jólanna gerir máske enn tilfinnanlegri. Það er svo víða skarð í vinahópinn, sem enn síður getur dulist, þegar búið er að tendra jólaljósin.         

   Og út í ófriðarlöndunum vitum við, að jörðin flýtur í blóði og tárum. Það er eins og við þorum varla að trúa því, að jólin geti, nema í einstöku stað, orðið gleðileg jól. Jú, við vonum að friðarboðskapur jólanna veki hreinna bergmál og fegurra samræmi í veröldinni nú, en þessi síðustu ár. Við vonum að nú loks sje alheimsfriður í nánd. Við vonum, að þessi jól geti í anda og sannleika lýst friði yfir blóði stokkna jörðina. Þessar friðarvonir hljóta að snerta hvert mannshjarta á þessum jólum, fylla okkur þakklæti og öruggri trú á nýja tíma. 

   Þrátt fyrir alt það umliðna og öll ógróin sár, getur það, betur en öll viðhöfn, gert okkur jólin þessi gleðileg jól.

1. B.

Hugvekjan, sem bar yfirskriftina Gleðileg jól!, birtist í Degi þann 23. desember árið 1918.

,,Kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin”

Senn líður að jólum, hátíð ljóss og friðar. Jólin eru einnig tími samverustunda. Ekki búa allir svo vel að geta notið samvista við ástvini á jólum. Í bókinni Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli segja vistmenn frá upplifun sinni af dvöl á Hælinu um jól og áramót, fjarri fjölskyldu og vinum á tímabilinu 1927 – 1960. Ekki verður annað séð af frásögnum og opinberum gögnum um rekstur Hælisins en að ávallt hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum til að hafa ofan af fyrir vistmönnum á tyllidögum. Þannig voru afþreying, dægradvöl og góðar veitingar fastir rekstrarliðir á hátíðum á Kristneshæli allt frá upphafsárinu 1927. Og jólin voru þar engin undantekning. Grípum niður í bókina Í fjarlægð þar sem vistmenn segja frá jólahaldinu á Hælinu á sitt hvoru tímabilinu. Fyrra brotið er úr bréfi frá vistmanni til vinkonu, dagsett 28. desember 1927. Seinna brotið er dagbókarfærsla vistmanns, dagsett í desember 1956.

Ég sendi Diddu minni ögn af gottelsi. Ég hef eignast svo mikið af því um jólin að ég get sent þeim öllum svona kassa, ég veit það gleður þau. Það var talsvert mikið um að vera hér um jólin, fimm stór jólatré, eitt í dagstofunni fyrir okkur fótaferðarsjúklinga og fjögur inná stofum fyrir þá sem ekki máttu eða gátu klætt sig. […] Það var kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin og á meðan lifði á þeim. Það er að segja meðan lifði í dagstofum. Gengum við öll í kringum tréð og allir sungu sem gátu og var spilað undir á orgel. Svo messaði séra Friðrik Rafnar hér á annan og kirkjusöngflokkurinn frá Akureyri kom og söng.

desember 1956 

    Kæra dagbók. 

Að undanförnu hefur verið ófært hingað frameftir vegna snjóa. Erfitt hefur reynst að sækja vörur til Akureyrar. Ófærðin hefur haft áhrif hérna. Óli ber sig illa yfir ástandinu. Hann er umboðsmaður vöruhappdrættis SÍBS svo sennilega hefur snjórinn eitthvað verið að þvælast fyrir honum, blessuðum. Ég heyrði hann á tali við Eirík í dag. Þeir voru að tala um þvottahúseignir hælisins á Akureyri og 40 ára afmæli Framsóknarflokksins. Ég var ekkert að blanda mér í þá umræðu. Skemmtinefndin er dugleg að hafa ofan af fyrir okkur í vetrarríkinu, það er fyrir öllu. Það er alltaf eitthvað við að vera. Við horfðum á skemmtilega dans og söngvamynd í kvöld. Hún hét Ástarglettur og var í litum. Vinur minn á tvistinum skemmti sér vel yfir sýningunni. Ég skil orðið betur af hverju hann gengur undir nafninu Eplakinn. Í gær var skemmtisamkoma með söng og leik. Á miðvikudagskvöld var sýnd mynd með Doris Day. Hún hét Calamity Jane. Frú Guðrún var á vakt en horfði á eins og hún gat. Ég hlakka líka til jólanna en fyllist þó söknuði um leið. Mér finnst erfitt að vera hérna á jólum, í burtu frá fjölskyldunni. Hér er yfirleitt fámennt og rólegt því margir fá leyfi til að fara heim. Allt er gert til að okkur líði sem best á hátíð ljóss og friðar. Við fáum að skreyta salinn með starfsfólkinu og búa til okkar eigið skraut fyrir stofurnar okkar eins og á páskum. Hér er reiknað með að jólin kosti pening og mér skilst að þannig hafi það alla tíð verið. Alltaf reiknað með útgjöldum á jólum. Maturinn er betri og við fáum jólaöl til að skola honum niður. Svo ekki sé nú talað um fallegt jólatréð sem við göngum í kringum og kertaljósin. Hver veit nema við stöllurnar læðumst inn í eldhús á  jólanóttina eins og síðustu jól, hitum okkur kaffi og höldum okkar prívat veislu. 

Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Deila sjúklings við ráðherra endaði með brottrekstri

Eitt af einkennilegri málum sem upp komu á fyrstu árunum eftir að Kristneshæli tók til starfa var deila milli sjúklings á Hælinu og ráðherra. Yfirskyn ágreiningsins var meint ónæði sjúklingsins í garð annarra sjúklinga en í raun var ágreiningurinn af pólitískum toga. Jakob Árnason og Jónas Jónsson deildu nokkuð heiftúðlega á síðum dagblaðanna. Jafnframt mátti skynja þungt andrúmsloftið innan veggja Hælisins á meðan deilu þeirra tveggja stóð þar sem aðrir sjúklingar, starfsfólk og yfirmenn Hælisins komu við sögu. Hér skal gripið niður í bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli sem Grenndargralið gaf út árið 2017.

Í nóvember 1930 stóðu nokkrir heimilismenn [Kristneshælis] að stofnun pólitísks félags á Hælinu, svokallaðs Jafnaðarmannafélags. Félagið hélt nokkra fundi sem fóru friðsamlega fram að sögn forsvarsmanna þess. Meðal þess sem félagið ákvað á fundi á fullveldisdaginn þetta sama ár var að útbúa yfirlýsingu sem fól í sér gagnrýni á störf þingmanns Framsóknarflokksins og þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu. Svo virðist sem óánægja hafi verið með fundahöldin úr röðum hjúkrunarkvenna Hælisins, þó ekki í þeim mæli sem Jafnaðarmannafélagið vildi vera láta. Óánægjan beindist ekki að dagskrá fundanna heldur frekar truflun sem af einum þeirra hlaust þar sem t.a.m. bíósýning fyrir vistmenn féll niður.

Hriflu-Jónas birti harðorða grein í Tímanum fyrir jólin þar sem hann talaði um æsing og læti á fundunum og sakaði „kommúnista um  að draga sjúklingana inn á vígvöll æsinganna“. Ennfremur að æsingurinn hefði framkallað blóðspýting hjá sjúklingi, slík hefði geðshræringin verið á einum fundinum. Og einmitt þarna virðist komin fram helsta átylla ágreinings vistmanns á Hælinu og dómsmálaráðherra eða deilu kommúnista og framsóknarmanna eins og látið var í veðri vaka – deilu sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Svo virðist sem Jónas hafi fært í stílinn svo um munar þegar hann nefndi afleiðingar fundarins. Sá vistmaður í Jafnaðarmannafélaginu sem lét mest af sér kveða í deilunni hét Jakob Árnason. Hann sakaði Jónas um lygar og líkti honum við rómverska keisarann Neró. Jakob átti síðar eftir að stýra skrifum á síðum Verkamannsins, málgagni Verkalýðssambands Norðurlands, þar sem hann fór ófögrum orðum um Jónas og fylgismenn hans í umræddu máli.  

Tvö sjónarmið tókust á í deilu Jakobs og Jónasar. Annars vegar meint hætta sem sjúklingum stafaði af æsingnum sem Jafnaðarmannafélagið stuðlaði að með fundahöldum sínum. Hins vegar meintir einræðistilburðir og afskiptasemi ráðherra af málefnum sem komu honum ekki við. Stjórnarnefnd Kristneshælis greip til þess ráðs að leggja bann við pólitískum félagsskap á Hælinu á þeim forsendum að æsingur sem þess háttar félagsstarfsemi fylgdi gæti spillt fyrir bata. Jakob var sannfærður um að ákvörðun þessa efnis hefði verið tekin einhliða af dómsmálaráðherra og að aðkoma stjórnenda Hælisins væri eingöngu til að hylma yfir einræðistilburði hans. „Þér hafið heft frelsi okkar meira en hvíti dauði,“ lét Jakob hafa eftir sér um Jónas Jónsson frá Hriflu, einn helsta hvatamann að byggingu heilsuhælis á Norðurlandi. Jakob lét bannið ekki stöðva sig heldur stofnaði jafnaðarmannafélag öðru sinni á Kristneshæli í óþökk Jónasar og mögulega stjórnenda Hælisins. 

Meira um deilu Jakobs og Jónasar í bókinni Í fjarlægð. Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Brynjar Karl Óttarsson.

Ó, þvílík fegurð! Ma, che bella ragazza!

Það hefur örugglega verið hvíslað á bæjum í Eyjafirði þegar kvisaðist út að Kristjana Jóhanna dóttir Gunnlaugs Briem kammerráðs á Grund hygði á utanför haustið 1823. Einhverjir hafa vafalaust talið þetta borðleggjandi enda bráðgáfuð stúlka og eðlilegt að hennar líkir vilji skoða sig um í heiminum. Aðrir hafa mögulega hrist laumulega kollinn, fundið til með Gunnlaugi að missa stúlkuna utan, sennilega fyrir fullt og allt. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að einhverjir eyfirskir sveinar hafi misst út úr sér blótsyrði enda var Kristjana Jóhanna sláandi fögur, sú fegursta í öllum firðinum. Á því lék enginn vafi.

Útgáfu á lífshlaupum kvenna byggðri á sagnfræðilegum heimildum hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár, hvort sem um er að ræða alþýðustúlkur eða þær sem tilheyrðu efri stéttum landsins. Enn hallar þó óneitanlega á konur hvað blaðsíðufjölda og útgáfu varðar. Þegar 100 ára árstíðar kosningaréttar kvenna var minnst mátti greina vaxandi áhuga á að skrásetja líf og tilveru kvenna með svokölluðum ömmusögum. Þar fóru karlar og konur í sannkallaða fjársjóðsleit. Með gull og gersemar úr fortíðinni í báðum höndum sögðu afkomendur frá, t.d. í ritröð RIKK sem bar yfirskriftina Margar myndir ömmu. Sama ár var einnig haldin ráðstefnan Ömmur fyrr og nú í Háskólanum á Akureyri.

Enn er af nógu að taka. Sögu Jóhönnu fögru hefur verið gerð eins góð skil og heimildir þá gáfu tilefni til. Saga hennar er þó miklu viðburðaríkari og merkilegri en nægilegt sé að gera henni skil í æviþætti í annars stórgóðri bók Benjamíns Kristjánssonar Eyfirðingabók I.

Jóhanna fagra hét Kristjana Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem. Hún fæddist árið 1805 og ólst upp á Grund í Eyjafirði. Eftir að hafa slitið barnsskónum sigldi hún til Kaupmannahafnar og átti aldrei eftir að búa á Íslandi aftur. Fegurð hennar sló samferðamenn í rot hvar sem hún drap niður fæti. Hún naut þess að búa og nema á heimili aðalsmanna í Danmörku en hélt síðar með fósturforeldrum sínum Birgi og Benedicte Thorlacius til Suður-Evrópu. Áfangastaðurinn var borgin eilífa, Róm.

Á ferðalagi sínu um meginland Evrópu hitti Jóhanna fagra helstu broddborgara þess tíma og  svikahrappa, tefldi við fyrirmenni og steig dans með aðlinum eins og henni einni var lagið. Fósturfjölskyldan fann henni fljótlega heppilegt mannsefni, auðkýfing nokkurn í París. Jóhanna fagra sá þó aðeins einn mann. Það kann kannski að koma á óvart að sá sem hneppti hjarta stúlkunnar var doktor í fornmálum. Hvort hann talaði móðurmál Jóhönnu fögru skal ósagt látið í bili en Carl Wilhelm Shütz og Jóhanna fagra gengu í hjónaband 1831 og bjuggu nær alla sína tíð í Þýskalandi.

Reisubók Jóhönnu fögru spannar spennandi en jafnframt viðsjárverða tíma í Evrópu. Samfélagsgerðin tók stakkaskiptum á 19. öld með hraðri uppbyggingu borga og iðnaðar. Rétt eins og á fyrri öldum voru konur að mestu settar hjá þrátt fyrir að spila lykilhlutverk í samfélaginu. Var Jóhanna kvenskörungur? Varla. En í brjósti hennar bjó dirfska og þor. Hún þráði meira en Ísland gat gefið henni. Ævi hennar er ævintýri líkast þar sem hún hrífur helstu lista- og stjórnmálamenn álfunnar ,,með sínum bláu augum, dásamlega hári og norrænu reisn“. Vínarvalsar og keisarahallir koma samt ekki í stað engjanna á Grund og í erilsömu og háværu borgarlífi hugsaði hún heim í Eyjafjörðinn dag hvern. 

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Á undanförnum fjórum árum hefur bókaútgáfa verið fyrirferðarmikil í starfsemi Gralsins. Nú þegar Grenndargralið stefnir hraðbyri í átt að nýjum áratug er ánægjulegt að segja frá því að vinna við að skoða merkilega sögu Kristjönu Jóhönnu Gunnlaugsdóttur Briem er hafin. Undirrituð grúskar nú í heimildum um þessa merkiskonu og leyfir henni að leiða sig næstu misserin frá hlaðinu á Grund til Bielefeld með viðkomu á ótal dansiböllum. Ekki er útilokað að áhugasamir um Jóhönnu fögru geti lesið sér frekar til í bók um hana að grúskinu loknu.

Framundan er spennandi leit að gersemum innanlands sem utan, brotum héðan og þaðan sem ætlunin er að raða saman í heildstæða mynd – Myndina af Jóhönnu fögru.

Hildur Hauksdóttir

Ætlaði að synda undan skipinu upp á ísjaka

   Aðfaranótt laugardagsins 21. júlí árið 1984 fellur sennilega seint úr minni skipverjanna um borð í togaranum Harðbaki EA 303 frá Akureyri. Togarinn var á veiðum um 47 sjómílur suðvestur af Horni á svokölluðu Strandagrunnshorni. Mikil þoka var á svæðinu, skyggni lítið og hafís allt um kring. Undir miðnætti þegar Harðbakur var að toga sást skip á radarnum nálægt þeim stað sem Harðbakur var að veiðum og virtist sem það stefndi beinustu leið á togarann. Skipið færðist nær þrátt fyrir þokulúðra og aðrar aðvaranir. Skyndilega birtist stefni þess úr þokunni. Nokkrum augnablikum síðar skall sovéska skemmtiferðaskipið Estonia á Harðbak af svo miklu afli að stefnið, merkt hamri og sigð á rauðri stjörnu, gekk á annan metra inn í hlið togarans. Estonia var fimm þúsund tonn að stærð. Sex metra langt gat kom á bakborðshlið Harðbaks en vegna þess hversu ofarlega það var komst sjór ekki um borð í togarann. Höggið var slíkt að Harðbakur skall u.þ.b. 60-70 gráður á hliðina en náði að rétta sig af. Mikil mildi þykir að ekki fór verr. Ekki varð manntjón við áreksturinn en skemmdir á Harðbaki voru miklar. Estonia skemmdist einnig töluvert og eldri borgurum sem voru í meirihluta þeirra sem voru um borð var illa brugðið. Þegar Harðbakur komst á réttan kjöl aftur hífðu skipverjar inn trollið og sigldu til Akureyrar í samfloti með hinu sovéska skemmtiferðaskipi. Þangað komu skipverjar á Harðbaki seinni part laugardagsins, sennilega dauðs lifandi fegnir því að fá fast land undir fótum eftir svaðilfarirnar. Fjallað var um málið í dagblöðum dagana eftir áreksturinn. Síðan þá hefur lítið farið fyrir umfjöllun um áreksturinn og hættuástandið sem skapaðist úti á opnu hafinu. Einn af skipverjunum 24 um borð í Harðbaki hið örlagaríka kvöld var Svanur Zophaníasson. Svanur er giftur, fjögurra barna faðir og starfar í dag sem tölvuumsjónarmaður í grunnskólum Akureyrar. Svanur, sem var 18 ára þegar atburðirnir áttu sér stað, féllst á að rifja upp atburðarásina á Strandagrunnshorni fyrir rúmum 34 árum síðan með Grenndargralinu.

Höfðum ekki grun um hvað við áttum í vændum

Manstu eftir aðdragandanum að árekstrinum, hvar þið eruð að veiðum og hvað þú ert að gera áður en höggið skellur á ykkur?

„Ég man nákvæmlega hvað gerðist þetta föstudagskvöld. Við vorum á Halanum að toga innan um mikinn ís. Við vorum búnir að vera u.þ.b. viku á sjó og vorum komnir með 170 tonn. Aflinn átti eftir að koma sér vel þar sem hann hefur sennilega átt sinn þátt í því að skipið náði að rétta sig af. Það var þoka en alveg blankalogn. Þegar ís er þetta nálægt eins og var í þessu tilfelli og alveg blankalogn þá myndast mistur. Það myndaðist svartaþoka og hún getur orðið mjög þétt. Stundum sást glitta í bláan himin því við aðstæður sem þessar þá er í rauninni heiðskýrt en þokan byrgir manni sýn. Skyggni var því lítið sem ekkert. Fjöldi annarra skipa var að toga í grennd við okkur því veiðin var búin að vera fín þarna á þessum slóðum. Ég man að einhverra hluta vegna náðist sjónvarpsmerkið þetta kvöld. Við náðum RÚV sem var mjög sjaldgæft. Við sem vorum á vakt vorum í borðsalnum að horfa á bíómynd. Hinir voru sofandi. Við höfðum því ekki grun um hvað við áttum í vændum. Skipstjórinn, Sigurður Jóhannsson, var farinn að átta sig á því í hvað stefndi því hann var búinn að vera að fylgjast með þessu skipi í radar. Hann sá þetta allan tímann gerast. Þetta atvikast samt allt svo hratt og aðdragandinn var stuttur. Þegar Sigurður áttaði sig á alvarleika málsins brást hann við með því að bakka alveg á fullu. Fyrir honum vakti að bakka úr aðstæðum og forða þannig árekstri. Þarna áttuðum við hinir okkur á því að ekki væri allt með felldu. Okkur datt reyndar ekki í hug sú sviðsmynd sem síðar átti eftir að blasa við okkur. Við höfðum einfaldlega ekki hugmyndaflug í það. Við héldum að við hefðum fest trollið í botni og þess vegna værum við að bakka. Fyrstu viðbrögð voru þau að við fórum allir að bölva. Lætin eru svo mikil þegar verið er að toga og svo allt í einu er þrykkt í bakk. Það titraði allt og nötraði. Eftir á að hyggja er ljóst að þessi ákvörðun skipstjórans varð til þess að bjarga því að ekki fór verr. Þrátt fyrir hinar ýmsu tilraunir til að vara skipstjóra sovéska skipsins við hélt hann ótrauður áfram í áttina til okkar. Þarna lá ég á bekk, grunlaus um að andartaki síðar ætti skemmtiferðaskip eftir að keyra á okkur og ýta okkur á hliðina.“

Hugsaði um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér.

Geturðu lýst atburðarásinni þegar Estonia keyrir inn í hliðina á Harðbaki?

„Jú sjáðu til, öll lætin sem urðu þegar við bökkuðum var aðeins byrjunin. Í kjölfarið kom feiknarlegt högg. Áreksturinn kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég vissi ekki hver djöfullinn gekk á þegar höggið kom. Það vissi enginn hvað hafði gerst. Fyrsta hugsunin var hvort við hefðum keyrt á ís. Það voru jú stórir borgarísjakar þarna á víð og dreif. Það er svo merkilegt að þrátt fyrir lætin sváfu sumir þau af sér. Þeir vöknuðu þegar skipið byrjaði að halla. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeir áttuðu sig á því að þeir voru komnir upp við vegg. Svo opnuðu þeir dyrnar allir sem einn, gægðust fram á gang og kölluðu í kór; „hvað er í gangi?“ Þá lágu þeir bara á gólfinu, hallinn var svo mikill. Ég sé ennþá fyrir mér kokkinn þar sem hann stóð í dyrunum með bakka fullan af veitingum þegar halli var kominn á skipið. Þetta augnablik situr fast í minningunni. Annað er mér minnisstætt. Um borð var einn maður sem var svo latur að hann nennti ekki fram úr rúminu til þess að athuga hvað hafði gerst og hélt áfram að sofa þó skipið væri byrjað að halla. Hann snéri sér bara á hina hliðina. Hann hefði sennilega sokkið með skipinu vegna þess hversu latur hann var. Á meðan við hinir reyndum að fóta okkur í öllum látunum sagði hann hinn rólegasti „Ég hélt við hefðum keyrt á ísjaka“. Í þessum sérstöku aðstæðum var eitthvað sem sagði mér að henda mér út úr borðsalnum og á nærliggjandi vegg. Þá var hallinn orðinn slíkur að ég hljóp eiginlega á veggnum og náði einhvern veginn að klóra mig áfram eftir ganginum, í gegnum dyr í átt að blóðgunarkörum. Þarna var ekkert sem benti til annars en að skipinu væri að hvolfa. Það var svo gott sem komið á hliðina. Ég hljóp að körunum sem voru á hliðinni rétt eins og annað um borð, stökk upp á stiga sem var þarna fyrir framan mig og náði að klifra á höndunum upp stigann. Þarna hugsaði ég um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér og varð hugsað til ísjakanna. Ég hugsaði leið til að synda undan skipinu og upp á einn ísjakann. Ég ætlaði að bjarga mér. Ég ætlaði ekki að drukkna. Þetta var fyrir tíma flotgallanna svo ég var á peysunni einni og hefði því sennilega drepist fljótlega í ísköldum sjónum.“

Sá alla ævina fyrir mér.

Laskaður togari úti á rúmsjó, hættuástand, engir flotgallar og þú stendur andspænis því að fara niður með skipinu, einn og yfirgefinn.

„Já þarna var ég einn. Ég var ungur ólíkt sumum um borð. Þeir komust ekki eins hratt yfir eins og ég. Ég var langfyrstur þarna upp stigann. Á þessu augnabliki komst aðeins eitt að; hver bjargar sér sjálfur. Það var bara þannig. Í aðstæðum sem þessum er tíminn svo lítill til að bregðast við. Við vissum allir hvað það þýddi ef skipinu myndi hvolfa. Þá þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Sjálfsbjargarviðleitnin var því ofar öllu. Ég upplifði mjög einkennilegt augnablik þarna þar sem ég leitaði að leið út úr þessum ógöngum. Á þessum stutta tíma meðan ég reyndi að bjarga mér, að ég hélt frá sökkvandi skipi, sá ég alla ævina fyrir mér. Þetta er eiginlega svo skrítin lífsreynsla að það er ómögulegt að reyna að útskýra hana með góðu móti. Ég man alveg nákvæmlega hvernig ég hugsaði, 18 ára gamall gutti hlaupandi um á hallandi skipi úti á ballarhafi. Þá varð umsnúningur því í miðjum hamaganginum fór skipið að rétta sig af. Eftir stóð samt spurningin hvort gat var komið á skipið neðan sjólínu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað leið langur tími frá því að skipið fór að halla og þangað til það rétti sig af. Í minningunni finnst mér eins og það gætu hafa verið 5-10 mínútur, ofboðslega hægar mínútur.“

Sjokkið kom eftir á.

Það hlýtur að hafa verið mikill léttir þegar þér verður ljóst að skipið er farið að rétta sig af. Hvað tekur þá við?

„Já, það var vissulega mikill léttir. Við hlupum um allt, niður í lest og fram og aftur. Blessunarlega var ekkert gat fyrir neðan sjólínu svo við hífðum inn trollið. Við tókum til við að gera björgunarbátana klára því við vissum ekki hvert ástand skipsins var og vorum því við öllu búnir. Við nánari eftirgrennslan kom gat í ljós ofan sjólínu og það í tveimur klefum skipsins, hjá skipstjóranum og Steinþóri Ólafssyni vélstjóra. Hann var sofandi inni í klefanum þegar áreksturinn varð. Þegar hann vaknaði var stefnið á Estoniu það fyrsta sem mætti honum þar sem það hafði rifið sig leið inn í klefann hans. Þar sat Steinþór fastur í dágóðan tíma fyrst eftir áreksturinn, komst hvorki lönd né strönd. Hann var í afleysingum sem var kannski heppilegt því sá sem hann leysti af var kominn um sjötugt. Steinþór var ungur og hraustur og því mögulega betur undir þetta búinn. Nokkru seinna, um það leyti sem skipið hafði rétt sig af rölti Steinþór í klefann og kíkti út um gatið. Við honum blasti hópur sovéskra eldri borgara sem störðu á hann gapandi af undrun en þó fyrst og fremst skelfingu lostnir. Rússarnir buðust í framhaldinu til að senda lækni yfir til okkar. Þeir héldu að einhverjir úr okkar hópi hefðu slasast sem var þó ekki raunin. Á meðan öllu þessu stóð gafst enginn tími til að átta sig á áfallinu sem þessu öllu fylgdi. Sjokkið kom eftir á, þegar var orðið ljóst að okkur yrði ekki meint af. Ekki síst þegar manni varð ljóst hvað mátti litlu muna. Alger tilviljun réði því að Harðbakur fékk stefnið á Estoniu þar sem styrkurinn var mestur, á horninu á brúnni. Alveg með ólíkindum. Hefði stefnið komið örlítið framar og ekki lent á brúnni, hefði það haldið áfram og skorið sig í gegn. Hefði það komið aftar væri ég ekki hér til frásgnar frekar en félagar mínir.“

Mikið fjör á leiðinni í land

Skipin tvö sigla svo saman til Akureyrar, ekki satt?

„Jú, þegar við vorum búnir að hífa var ákveðið að við myndum fylgja Estoniu til Akureyrar. Viðbragðsaðilar voru tilbúnir ef ske kynni að við þyrftum aðstoð. Skipin í kringum okkur voru búin að hífa upp trollin og voru í startholunum. Þar sem tjónið var ofan sjólínu var tekin ákvörðun um að við myndum sigla hjálparlaust og Rússarnir lulluðu á eftir okkur. Eftir hálftíma siglingu vorum við komnir út úr þokunni og ísnum. Siglingin til Akureyrar gekk vel en tók auðvitað töluvert lengri tíma en undir eðlilegum kringumstæðum. Það kannski hljómar einkennilega núna en það var mikið fjör hjá okkur á leið í land eftir aðeins vikulangan túr en fínan afla. Við notuðum tímann á leiðinni til að þrífa og ganga frá. Þrátt fyrir óþægilega „náin kynni“ við Estoniu og Rússana um borð, átti ég engin samskipti við þetta fólk, hvorki kvöldið sem áreksturinn varð né á eftir þegar skipin tvö sigldu saman í land. Aldrei nokkurn tímann hef ég heyrt hina hliðina á málinu og ekki veit ég hvað varð um Estoniu. Mér finnst þó eins og ég hafi heyrt um komu skipsins til Akureyrar einhverjum árum síðar. “

Fengum aldrei tjónið bætt

Þegar rykið settist og mönnum gafst tími til að fara yfir atburðarásina, fékkst þá ásættanleg niðurstaða í málinu um hvað raunverulega gerðist þessa nótt?

„Sjópróf fóru fram lögum samkvæmt. Ég hef aldrei séð þau. Það var einhver umfjöllun um þetta í fjölmiðlum fyrst á eftir en svo datt allt í dúnalogn. Ég man ekki eftir að hafa séð nokkrar niðurstöður birtar, engin almennileg málalok að mér fannst. Meira svona þögn. Ef svona lagað myndi eiga sér stað í dag er ég hræddur um að eftirfylgnin yrði meiri og umfjöllunin einnig. Það var aldrei nokkur vafi á því að rétturinn var okkar megin því við vorum með veiðarfærin úti. Ég hef stundum velt því fyrir mér, í ljósi þess að við vorum í 100% rétti, hvers vegna við í áhöfninni fengum aldrei tjónið bætt sem við urðum fyrir. Við vorum jú í landi í 4-5 vikur á meðan skipið var í slipp og urðum fyrir tekjumissi. Við fengum engin laun á meðan skipið var í viðgerð. Ég get ekki ímyndað mér annað en útgerðin hafi fengið greitt alveg upp í topp og fengið veiðitapið bætt sem af þessu hlaust. Þetta óvænta frí varð reyndar til þess að ég komst í Atlavík um verslunarmannahelgina þar sem ég sá Ringo Starr troða upp með Stuðmönnum. Við gerðum ekkert í þessu á sínum tíma, maður var kannski bara svo ungur og vitlaus. Þá finnst mér ég aldrei almennilega hafa fengið svör við því hvað rússneska skipstjóranum gekk til. Áður en áreksturinn verður er togari frá Skagafirði að lóðsa skemmtiferðaskipið út úr ísnum og hafði gert það í einhvern tíma. Svo virðist sem skipstjórinn hafi án nokkurs fyrirvara ákveðið að hætta að þiggja leiðsögn togarans. Hann snéri skipinu við og stefndi beint á okkur! Þetta er svo galið að það nær ekki nokkurri átt. Enginn okkar skildi hvað skipið var að gera svona langt úti. Skipstjórinn hefði ekki þurft annað en sigla örfáar mílur nær landi og þá hefði hann komist út úr þokunni. Þá hefði hann verið á auðum sjó. Þetta var mjög óvenjulegt. Radartæknin sem skip á þessum tíma þurftu að reiða sig á var vissulega með þeim hætti að skip og ísjakar runnu saman í eitt. Það gat því verið erfitt að greina þarna á milli. Það má því hugsa sér að Rússinn hafi haldið að Harðbakur væri ísjaki en ekki skip. Það breytir ekki því að ákvörðunartaka hans er í hæsta máta undarleg því honum á að vera ljóst að einhver fyrirstaða er. Harðbakur var þúsund tonna skip og hefði ekki átt að fara svo auðveldlega framhjá honum. Ég verð þó að segja að þessir atburðir hafa ekki ásótt mig í seinni tíð. Mér finnst hins vegar merkilegt hvað þeir eru fastir í minningunni ennþá og jafnvel smáatriði eins og hvar félagar mínir um borð voru staddir þegar ósköpin dundu yfir.“

Þetta var risastórt slys

Hvernig horfir þessi reynsla við þér í dag nú þegar rúm 34 ár eru liðin?

„Atburðirnir urðu ekki til þess að ég hætti á sjó, ég hélt áfram og við allir sem gengum í gegnum þessa raun. Ég fór í Stýrimannaskólann eftir þetta. Satt best að segja hef ég lítið hugsað um þessa reynslu í rúma þrjá áratugi. Jú, auðvitað þegar ég hugsa til baka sé ég að þetta var risamál. Þetta var risastórt slys og á þessum tíma bauðst manni engin áfallahjálp. Eitthvað sem ég geri ráð fyrir að boðið yrði upp á í dag. Það var bara bitið á jaxlinn og ekki verið að blása hlutina út. Gott dæmi um þetta er hvernig við ungu strákarnir um borð reyndum að slá öllu upp í grín eftir áreksturinn. Við töluðum um að fyrst þetta þurfti að gerast og engum varð meint af þá hefði úr því sem komið var bara verið best að Harðbakur sykki. Við hefðum gúmmíbáta til að koma okkur yfir til Rússanna og þar gætum við þá allavega drukkið okkur fulla á leiðinni í land. Það er svo skrítið hvað getur flogið í gegnum huga manns á ögurstundu sem þessari. En það eina sem skiptir máli í dag er að enginn slasaðist í þessum hildarleik, ekki svo mikið sem marblettur. Það er ekki síst Sigurði skipstjóra að þakka. Ákvörðun hans um að bakka þegar hann sá sovéska skipið nálgast varð okkur til lífs.“

   Sjópróf vegna árekstursins fóru fram eftir að skipin tvö komu í land. Ef marka má blaðaskrif þessa tíma leiddu prófin m.a. í ljós að skipstjóri Estoniu taldi sig ekki hafa komið auga á Harðbak á radar. Þrátt fyrir fullyrðingu skipstjórans þar að lútandi er ekki annað að sjá af umfjöllun blaðanna en að mönnum hafi láðst að kanna ástand radarsins þegar sjópróf fóru fram. Estonia hafði verið á siglingu innan um ís í 12-14 klukkustundir áður en það rakst á togarann. Skipstjóri togarans Skafta frá Sauðárkróki sem var á svæðinu, bauð sovéska skipstjóranum stýrimann sinn til að lóðsa skipið út úr ísnum. Sá sovéski þáði ekki boðið. Þess í stað sendi hann sinn eigin stýrimann um borð í Skafta til að skoða sjókort og þiggja ráðleggingar. Í framhaldinu fylgdi Estonia skagfirska togaranum í einhvern tíma. Við sjópróf bar mönnum ekki saman um hvað gerðist í kjölfarið. Skýring skipstjóra Estoniu var sú að skipið hefði verið að elta Skafta þegar Harðbakur birtist þeim skyndilega og þá hafi árekstur verið óumflýjanlegur. Skipstjóri Harðbaks taldi þessa skýringu ekki halda vatni. Hann taldi víst að Estonia hefði beygt af leið, frá Skafta og í átt að Harðbaki. Ósamræmi málsaðila var því mikið í þessu lykilatriði málsins. Sigurður Eiríksson stjórnandi sjóprófanna lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu þann 25. júlí 1984 að „líklega væri sökin sovéska skipsins.“

Af Ingólfi og hinum gleymdu bræðrunum

Undir lok 19. aldar fæddust bræður á bænum Espihóli í Eyjafirði. Þeir afrekuðu ýmislegt í lifanda lífi en féllu jafnframt nokkuð í gleymskunnar dá eftir dauðann. Saga bræðranna og foreldra þeirra er athyglisverð. Hún er sveipuð ákveðnum ævintýraljóma, ekki síst vegna afdrifa bræðranna, ævintýramanna sem stuðluðu að nýsköpun með því að bjóða ríkjandi hugmyndum í atvinnulífi birginn. Enn liggur margt á huldu í sögu þeirra bræðra, sögu af sigrum, gleði og framsýni en um leið sorgarsögu fjölskyldu sem á einhvern ótilgreindan hátt hefur fennt yfir hin seinni ár. Saga Espholinbræðra er mörgum ýmist gleymd eða hulin. Lítið hefur verið skráð og gefið út um lífsferil bræðranna, ekki síst er snýr að einkalífi þeirra. Jón Hjaltason gerði Espholinbræðrum ágæt skil árið 2004 í bók sinni Saga Akureyrar – Válindir tímar 1919-1940, IV. bindi . Grenndargralið fer hratt yfir sögu Ingólfs Gísla, bræðra hans Jóns, Steingríms, Hjalta og Þórhalls og foreldranna Sigtryggs og Guðnýjar.

Þeir voru fimm. Fjórir voru tæknimenn og uppfinningamenn í upphafi 20. aldar. Þeim fimmta, Steingrími sem var fæddur árið 1890, var snemma komið í fóstur og því ólst hann ekki upp með bræðrum sínum. Espholinbræður voru athafnamenn og brautryðjendur. Meðal þess sem þeir afrekuðu, ýmist einir eða saman, var að auglýsa flugvélar til sölu en þeir urðu fyrstir Íslendinga til að gera það fyrir sléttum 100 árum síðan, árið 1918. Þeir seldu auk þess mótorhjól af Henderson-gerð, bíla, báta og stór skip. Þá hönnuðu þeir sjálfir og framleiddu vélar í báta. Þeir fluttu inn og seldu vörur af ýmsum toga svo sem timbur, málningu, múrsteina og nagla. Þeir ráku bifreiðaverkstæði og tunnuverksmiðju. Hér eru aðeins nokkur atriði nefnd svo glöggt má sjá að framkvæmdagleðin var mikil hjá Espholinbræðrum. Hún var þó mest hjá einum bróðurnum og var hann sennilega sá þeirra sem gerði hvað mest til að breyta íslensku samfélagi.

Faðir þeirra bræðra var Sigtryggur Jónsson trésmíðameistari. Hann var fæddur árið 1862. Sigtryggur stundaði trésmíðanám í Kaupmannahöfn áður en hann flutti að Espihóli þar sem hann bjó um 10 ára skeið. Hann færði sig um set til Akureyrar árið 1900 ásamt konu sinni Guðnýju Þorkelsdóttur og drengjunum. Fjölskyldan flutti inn í nýtt og glæsilegt hús sem Sigtryggur hafði reist við Aðalstræti 16. Sigtryggur kom að byggingu margra húsa á Akureyri. Íbúðarhúsnæðið við Aðalstræti 16 sem og gamla skólahúsnæði Menntaskólans á Akureyri (1904) eru af mörgum álitin tvö hin glæsilegustu sem hann reisti.

Bræðurnir Espholin voru fæddir á 11 ára tímabili. Fjórir þeirra dóu langt fyrir aldur fram, ókvæntir og barnlausir. Elstur var Jón, fæddur 1889. Honum leiddist í skóla. Vélar og rafmagn áttu hug hans allan. Jón giftist danskri konu að nafni Caroline. Þau áttu einn son, John Sigtrygg Espholin en hann var eina barnabarn þeirra Sigtryggs og Guðnýjar. Afkomendur bræðranna frá Espihóli eru því allir danskir. Jón lést í Kaupmannahöfn árið 1962. Næst kom fyrrnefndur Steingrímur. Honum var komið í fóstur á bænum Kollugerði í Glæsibæjarhreppi en Sigtryggur pabbi bræðranna átti jörðina. Steingrímur dó 32 ára. Hjalti var þriðji í röðinni. Hann var ekki síður uppátækjasamur en Jón auk þess sem hann hafði gaman af tónlist og spilaði m.a. á trompet. Hann dó 53 ára gamall. Næstyngstur var Þórhallur. Þórhallur lagði stund á tannlækningar í Kaupmannahöfn þegar spánska veikin dró hann til dauða. Hann var aðeins tvítugur að aldri. Yngstur var Ingólfur Gísli fæddur 1898.

Ætla má að athafnasemi og framkvæmdagleði Sigtryggs hafi erfst til bræðranna. Í það minnsta átti Ingólfur Gísli eftir að láta til sín taka í íslensku atvinnulífi svo um munaði. Hann átti eftir að koma mörgum ævintýralegum hugmyndum sínum í framkvæmd. Sem dæmi átti hann og bjó í einu sögufrægasta húsi landsins um tíma og sigldi um heimsins höf með heimsþekktu skemmtiferðaskipi. Ekki er ólíklegt að einhverjar af hugmyndum hans hafi skotið upp kollinum á uppvaxtarárunum í Aðalstræti. Ingólfur var tveggja ára þegar fjölskyldan flutti inn á hið nýja heimili við Aðalstræti 16. Þar ólst hann upp áður en hann flutti til Kaupmannahafnar árið 1915 til að læra verslun og viðskipti. Hann hafði reyndar búið í nokkra mánuði með móður sinni og bræðrum í Danmörku árið 1907. Tilgangur flutninganna þá var að koma elsta drengnum í tækninám. Jón lærði á kvöldin en vann á vélaverkstæði á daginn. Á meðan sá Guðný um heimilið. Fljótlega veiktist hún af mislingum sem að lokum drógu hana til dauða í desember sama ár. Guðný var aðeins 41 árs þegar hún dó. Þeir Þórhallur og Ingólfur fylgdu líki móður sinnar til Íslands en Jón varð eftir í Danmörku. Þar með lauk fyrri og jafnframt stuttri dvöl Ingólfs í Danmörku. Af Jóni er það að segja að hann kom til Íslands árið 1914 eftir sjö ára vélfræðinám í Danmörku og Þýskalandi. Árið 1921 giftist hann fyrrnefndri Caroline en hún vann við að smíða falskar tennur. Þau fóru af landi brott til Danmerkur árið 1927. Þar stofnaði Jón fyrirtæki sem m.a. framleiddi loftþjöppur.

Eftir þriggja ára dvöl í Kaupmannahöfn flutti Ingólfur aftur heim til Akureyrar haustið 1918.  Næstu árin var hann mjög umsvifamikill og nýjungagjarn. Hann stofnaði ásamt bræðrum sínum fyrirtækið Espholin Co en það auglýsti m.a. flugvélar, dráttarvélar, vörubíla og annars konar bifreiðar til sölu auk mótorhjóla. Ingólfur stofnaði tunnuverksmiðju á Akureyri ásamt Hjalta bróður sínum árið 1920. Hann var frumkvöðull í íslenskum hraðfrystiiðnaði og fékk m.a. einkaleyfi á frystingu skyrs. Árið 1926 stofnuðu þeir Hjalti félag um byggingu og rekstur frystihúss í Reykjavík. Frystihúsið hóf rekstur árið 1930 og var það hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Óhætt er að segja að ævi Ingólfs Espholin hafi verið viðburðarík. Ekki einungis fór hann ótroðnar slóðir við vinnu heldur einnig í einkalífinu. Hann sigldi um Atlantshafið með hinu þekkta skemmtiferðaskipi Queen Elisabeth. Þá átti hann um tíma hið sögufræga hús Höfða í Reykjavík. Hann bjó í húsinu frá 1952 til 1962. Ingólfur Espholin bjó síðustu æviárin í Tjarnargötu 5 í Reykjavík og endaði ævina sem fátækur einstæðingur. Ingólfur dó árið 1973.

 

Grenndargralið á tímamótum

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Upphaf Grenndargralsins má rekja til hugmynda sem ég hafði um merkingarbært nám. Sem nýútskrifuðum grunnskólakennara þótti mér of lítið lagt upp úr því að færa kennslu og nám út fyrir kennslustofuna.  Með hugmyndir í farteskinu og eldmóðinn að vopni hóf ég að þróa tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum á unglingastigi. Tilgangurinn var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Afraksturinn varð 10 vikna ratleikur með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð þar sem lokamarkmiðið var að finna 50 cm háan verðlaunagrip, Grenndargralið.

Leitinni að Grenndargralinu var hleypt af stokkunum haustið 2008. Viðurkenning frá skólanefnd Akureyrarbæjar vorið 2010 sem og styrkur frá Menntamálaráðuneytinu sama ár sannfærðu mig um halda ótrauður áfram. Grenndargralið var komið til að vera. Á meðan Leitinni óx fiskur um hrygg leitaði ég leiða við að víkka starfssvið Grenndargralsins. Árið 2011 hóf Grenndargralið að flytja fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Var það upphafið að samstarfi Grenndargralsins við Akureyri vikublað og síðar Norðurland. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Tilraunir með þróun og sölu á varningi undir merkjum Grenndargralsins fóru af stað á árinu þegar Grenndargralið vann tölvugerða mynd af Akureyri eins og bærinn leit út árið 1862. Myndin var unnin í tilefni af afmæli kaupstaðarins í samvinnu við Akureyrarkaupstað. Vinnan var samstarfsverkefni Grenndargralsins og Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts. Þá urðu þreifingar með varning undir merkjum Grenndargralsins þegar nokkrar krukkur af hinu svokallaða Grenndargralsmúslí voru settar á markað í tilefni af afmæli Akureyrar.

Þegar ég lít um öxl sé ég greinileg skil verða árið 2013. Skrif  tengd sögu og menningu í heimabyggð fara þá að verða meira áberandi í starfi Grenndargralsins. Greinakorn birtust á heimasíðu Gralsins auk þess sem samningar tókust við Akureyri vikublað um regluleg greinaskrif í blaðinu. Árið 2015 hófst mikil ritunar- og útgáfuvinna hjá Grenndargralinu – vinna sem átti eftir að standa yfir sleitulaust í meira en tvö ár. Afraksturinn var þrjár bækur og ein samantekt. Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út árið 2015. Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út ári seinna sem og samantekt um Giljaskólaleiðina. Árið 2017 kom út bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, rétt um það leyti sem síðustu leit grunnskólanemenda að Grenndargralinu lauk – í bili hið minnsta. Þá má ekki gleyma samstarfi Grenndargralsins við norðlenska frétta- og afþreyingarmiðilinn Kaffið.is. Grenndargralið hefur því leitað sífellt meir í skrif af ýmsum toga samhliða öllum handtökunum sem fylgja því að halda úti árlegum ratleik eins og Leitinni. Söfnun á áhugaverðu, sögutengdu efni úr heimabyggð og leiðir til að koma því á framfæri skipar þannig stærri sess í starfsemi Grenndargralsins en nokkru sinni fyrr. Því er kannski við hæfi nú þegar leit grunnskólanemenda liggur í dvala að boða nýja tíma hjá Grenndargralinu – tíma skráningar og miðlunar. Meira um það síðar. Víst er að framundan er spennandi leit að gersemum í sögu og menningu heimabyggðar, skrásetning þeirra og lifandi framsetning. Þó verðlaunagripurinn fari á hilluna góðu mun Leitin að Grenndargralinu halda áfram.

Mér er það sönn ánægja að fagna 10 ára afmæli Grenndargralsins með uppgreftri á gersemum í sögu heimabyggðar og frumbirta í tveimur tölublöðum Norðurlands nú í nóvember. Í seinna tölublaðinu segir af undurfallegri konu úr Eyjafirði sem heillaði Evrópu upp úr skónum á 19. öld og sjávarháska norður af landinu. Grein dagsins er hins vegar merkileg saga manns sem kom til Íslands á millistríðsárunum til að skrifa bók. Hann dvaldi um nokkurt skeið á Akureyri áður en hann flutti á suðrænni slóðir. Þar átti hann eftir að skrá nafn sitt á spjöld bókmenntasögunnar. Góða skemmtun.

Brynjar Karl Óttarsson

Verkefnisstjóri Grenndargralsins