main image

Grenndargralið á tímamótum

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Upphaf Grenndargralsins má rekja til hugmynda sem ég hafði um merkingarbært nám. Sem nýútskrifuðum grunnskólakennara þótti mér of lítið lagt upp úr því að færa kennslu og nám út fyrir kennslustofuna.  Með hugmyndir í farteskinu og eldmóðinn að vopni hóf ég að þróa tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum á unglingastigi. Tilgangurinn var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Afraksturinn varð 10 vikna ratleikur með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð þar sem lokamarkmiðið var að finna 50 cm háan verðlaunagrip, Grenndargralið.

Leitinni að Grenndargralinu var hleypt af stokkunum haustið 2008. Viðurkenning frá skólanefnd Akureyrarbæjar vorið 2010 sem og styrkur frá Menntamálaráðuneytinu sama ár sannfærðu mig um halda ótrauður áfram. Grenndargralið var komið til að vera. Á meðan Leitinni óx fiskur um hrygg leitaði ég leiða við að víkka starfssvið Grenndargralsins. Árið 2011 hóf Grenndargralið að flytja fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Var það upphafið að samstarfi Grenndargralsins við Akureyri vikublað og síðar Norðurland. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Tilraunir með þróun og sölu á varningi undir merkjum Grenndargralsins fóru af stað á árinu þegar Grenndargralið vann tölvugerða mynd af Akureyri eins og bærinn leit út árið 1862. Myndin var unnin í tilefni af afmæli kaupstaðarins í samvinnu við Akureyrarkaupstað. Vinnan var samstarfsverkefni Grenndargralsins og Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts. Þá urðu þreifingar með varning undir merkjum Grenndargralsins þegar nokkrar krukkur af hinu svokallaða Grenndargralsmúslí voru settar á markað í tilefni af afmæli Akureyrar.

Þegar ég lít um öxl sé ég greinileg skil verða árið 2013. Skrif  tengd sögu og menningu í heimabyggð fara þá að verða meira áberandi í starfi Grenndargralsins. Greinakorn birtust á heimasíðu Gralsins auk þess sem samningar tókust við Akureyri vikublað um regluleg greinaskrif í blaðinu. Árið 2015 hófst mikil ritunar- og útgáfuvinna hjá Grenndargralinu – vinna sem átti eftir að standa yfir sleitulaust í meira en tvö ár. Afraksturinn var þrjár bækur og ein samantekt. Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út árið 2015. Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út ári seinna sem og samantekt um Giljaskólaleiðina. Árið 2017 kom út bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, rétt um það leyti sem síðustu leit grunnskólanemenda að Grenndargralinu lauk – í bili hið minnsta. Þá má ekki gleyma samstarfi Grenndargralsins við norðlenska frétta- og afþreyingarmiðilinn Kaffið.is. Grenndargralið hefur því leitað sífellt meir í skrif af ýmsum toga samhliða öllum handtökunum sem fylgja því að halda úti árlegum ratleik eins og Leitinni. Söfnun á áhugaverðu, sögutengdu efni úr heimabyggð og leiðir til að koma því á framfæri skipar þannig stærri sess í starfsemi Grenndargralsins en nokkru sinni fyrr. Því er kannski við hæfi nú þegar leit grunnskólanemenda liggur í dvala að boða nýja tíma hjá Grenndargralinu – tíma skráningar og miðlunar. Meira um það síðar. Víst er að framundan er spennandi leit að gersemum í sögu og menningu heimabyggðar, skrásetning þeirra og lifandi framsetning. Þó verðlaunagripurinn fari á hilluna góðu mun Leitin að Grenndargralinu halda áfram.

Mér er það sönn ánægja að fagna 10 ára afmæli Grenndargralsins með uppgreftri á gersemum í sögu heimabyggðar og frumbirta í tveimur tölublöðum Norðurlands nú í nóvember. Í seinna tölublaðinu segir af undurfallegri konu úr Eyjafirði sem heillaði Evrópu upp úr skónum á 19. öld og sjávarháska norður af landinu. Grein dagsins er hins vegar merkileg saga manns sem kom til Íslands á millistríðsárunum til að skrifa bók. Hann dvaldi um nokkurt skeið á Akureyri áður en hann flutti á suðrænni slóðir. Þar átti hann eftir að skrá nafn sitt á spjöld bókmenntasögunnar. Góða skemmtun.

Brynjar Karl Óttarsson

Verkefnisstjóri Grenndargralsins

Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra

Hann dvaldi á Íslandi í tæpt ár á millistríðsárunum í því skyni að skrifa bók um köldu eyjuna í Atlantshafi og íbúa hennar. Á meðan dvölinni stóð náði hann sér í mikinn efnivið fyrir bókina. Hann kynnti sér sögulega atburði við lestur Íslendingasagnanna og skrifaði niður eitt og annað um eyjuna í norðri. Lungann úr tímanum dvaldi hann á Akureyri þar sem hann sat við skriftir, skráði niður upplifun sína af bæjarbragnum og kynnum sínum af íbúum bæjarins. Bókin um Ísland kom aldrei út en hugleiðingar höfundarins um dvölina á Akureyri eru til á prenti. Áratug síðar kom upp keimlík staða þegar hann bjó á hitabeltiseyju í Suður-Kyrrahafi og vann að ritun annarrar bókar. Sögusviðið var eyjan og nágrenni hennar sem og sögulegir atburðir sem áttu sér stað á þeim slóðum árið 1789. Í þetta skiptið kom bókin út. Hún átti síðar eftir að skipa sér á sess meðal þekktustu skáldsagna bókmenntasögunnar. Umfjöllun Grenndargralsins um hinn þekkta rithöfund og ferðalag hans um Ísland beinist að mestu leyti að dvöl hans á Akureyri. Sá hluti ferðasögunnar birtist að hluta til í Harper´s Magazine árið 1924. Prófessor Sigurður Þórarinsson skrifaði grein um ferðalag rithöfundarins til Akureyrar í tímaritinu Andvara árið 1976. Greinina byggði hann aðallega á tveimur bókum: My Island Home og In Search of Paradise — The Nordhoff-Hall Story. Hér verður stuðst við þessar heimildir. Þýðingar á beinum tilvitnunum eru úr grein Sigurðar. 

James Norman Hall var fæddur í apríl árið 1887. Eftir að hafa gengið menntaveginn á æskuslóðunum í Iowa og víðar ferðaðist hann til Englands sumarið 1914 þar sem hann var staddur þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út. Hann skráði sig í breska herinn og barðist á vesturvígstöðvunum sem vélbyssuskytta. Eftir að hafa fengið leyfi til að yfirgefa vígstöðvarnar fór James aftur til Bandaríkjanna þar sem hann skrifaði og gaf út sína fystu bók, Kitchener’s Mob, árið 1916. Bókin fékk góðar viðtökur. Áður en styrjöldinni lauk réði hann sig sem blaðamann hjá tímaritinu Atlantic Monthly. Þar var honum gert að hverfa aftur til átakasvæðanna í Evrópu til að flytja fréttir af gangi mála í stríðinu. Hann fór til Frakklands en minnst þó til að segja fréttir, þess í stað gekk hann í franska flugherinn. Þegar Bandaríkin drógust inn í styrjaldarátökin árið 1917 var James gerður að foringja í bandaríska hernum. James barðist þannig fyrir þrjú ríki og þrisvar var hann skotinn niður með flugvélum sínum. Hann hafnaði í þýskum fangabúðum eftir síðustu brotlendinguna en lifði prísundina af. Eftir að styrjaldarátökunum lauk árið 1918 hlaut James æðstu heiðursmerki fyrir hugrekki. Eftir stríð var hann fenginn til að skrifa bók um franska herinn í samstarfi við annan Bandaríkjamann að nafni Charles Nordhoff (1887-1947). Þar með hófst samvinna sem átti eftir að vara í mörg ár og skila sér í einhverju farsælasta samstarfi tveggja rithöfunda í sögu nútímabókmennta. James lagði upp í sjóferð til Suðurhafseyja þar sem hann hugðist skrifa ferðabók fyrir bandaríska tímaritið Harper´s Magazine. Hann kom til Tahítí árið 1920 en Suður-Kyrrahafseyjan átti eftir að verða aðaldvalarstaður hans næstu þrjá áratugina. Næstu 30 árin skrifaði James á þriðja tug bóka sem margar hverjar vöktu mikla athygli. Ekki síst sýndu leikstjórar í Hollywood bókum hans áhuga. Fyrrnefnd bók úr smiðju James Norman Hall um atburðina í Kyrrahafi árið 1789 sló í gegn þegar hún kom út. Bókin Mutiny on the Bounty (Uppreisnin á Bounty) kom út árið 1932.  

Á vordögum 1922 rakst James fyrir tilviljun á umfjöllun um ferðabók hins skoska Ebenezer Henderson en hún segir frá ferðalagi hans um Ísland á árunum 1814-1815. Áhugi James var vakinn. Hann bar hugmyndina um að fara til Íslands og skrifa ferðabók undir útgefanda sinn hjá Harper´s Magazine sem lýsti sig samþykkan hugmyndinni. Sömdu þeir um tæplega 100 þúsund orða sögu sem yrði fyrst birt í tímaritinu í áföngum og svo í bókarformi. James fékk 5000 dollara í fyrirframgreiðslu frá forlaginu. Frá Tahítí lagði James í langt ferðalag til Íslands með viðkomu í Bandaríkjunum, Danmörku og Færeyjum. Hann steig á íslenska grund í ágúst 1922 og hér átti hann eftir að dveljast fram á næsta ár. Eftir að hafa staldrað við í Reykjavík í fáeinar vikur lagði hann af stað landleiðina til Akureyrar, þangað sem hann kom í lok mánaðarins. Hann hreiðraði um sig á hóteli í bænum. Sennilega var þar um Hótel Oddeyri að ræða þar sem Kristín nokkur Eggertsdóttir (1877-1924) réði ríkjum. Kristín var sléttum 10 árum eldri en James, fædd á bænum Kroppi í Eyjafirði. Kristín kemur þónokkuð við sögu í skrifum James. Þegar þarna er komið sögu hefur þessi 45 ára gamla hótelstýra átt viðburðaríkari ævi en flestar kynsystur hennar á Akureyri þess tíma. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði, vann sem kennslukona í nokkur ár áður en hún settist aftur á skólabekk í Reykjavík upp úr aldamótunum. Hún menntaði sig enn frekar í Noregi en kom heim til Akureyrar árið 1907 til að taka við starfi forstöðukonu Sjúkrahússins á Akureyri, starfi sem hún gegndi til ársins 1912. Kristín sat þrjú ár í bæjarstjórn Akureyrar, fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu. Rétt eins og James, dvaldi hún um tíma í Englandi í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar sem og í Danmörku. Árið 1915 hóf hún rekstur á Hótel Oddeyri og var því orðin veraldarvön í því starfi þegar hinn nýja gest bar að garði. Gefum James Norman Hall orðið. 

„Það er farið að síga á seinni hluta september. Meir en mánuður er liðinn síðan ég kom til Íslands, og nú dvelst ég á Akureyri, hinum fámenna höfuðstað Norðurlands. Ég hef setzt að fyrst um sinn á hóteli, tveggja hæða timburhúsi á eyri, sem teygir sig langt út í fjörðinn. Herbergisgluggar mínir vita mót suðri, og sér þaðan yfir fjarðarbotninn til fjalla, hvítra hið efra af fyrsta haustsnjónum. Hér hef ég setið marga stund og horft á skýin speglast í vatnsfletinum, á fjallsvegginn mikla í austri í síbreytilegri birtu og á skuggana í giljum og gljúfrum, sem verða æ dimmblárri og falla fyrr á með degi hverjum, eftir því sem líður á haustið og dagarnir styttast. Eflaust ætti ég að vinna meira mér að gagni. Ég hef meðmælabréf til fólks í bænum, sem ég hefði átt að vera búinn að sýna, og í stað þess að leita uppi tungumálakennara, hef ég verið einn að berjast vonlausri baráttu við flækjur íslenzkrar málfræði. En það er erfitt að slíta sig frá þessari einveru, þessari dásamlegu nautn einsemdar, sem er eitt af því fyrsta og bezta, sem maður verður aðnjótandi á ferðalagi í framandi landi. Hingað til hef ég aðeins eignazt tvo kunningja á Íslandi, hótelstýruna og konuna sem rekur tóbaksbúð við götuendann. Að utan séð hefur hótelið auðnarsvip strandhótels að loknum ferðamannatímanum. Vindutjöld eru dregin fyrir alla glugga nema á mínu herbergi, því að hér eru engir aðrir gestir og verða ekki fyrr en næsta sumar, segir hótelstýran mér. Ferðamenn koma ekki til Íslands svo seint á árinu, og síðan heimsstyrjöldinni lauk, hafa þeir verið mjög fáir, einnig að sumarlagi. Augljóst er, að ég mun hafa landið fyrir mig einan til könnunar á komandi vetri. Hótelstýran mín er fámálug, alvarleg kona. Þótt hún sé ágæt í ensku, opnar hún sjaldan munn nema til þess að svara spurningum. Þegar hún hefur reitt fram matinn handa mér á matmálstímanum, sezt hún við saumaskap sinn við gluggann og er svo hljóð, að ég heyri þegar saumnálin snertir fingurbjörgina, og ég fyrirverð mig fyrir glamrið í diskunum, þar sem ég sit einn að snæðingi. Þegar ég er búinn að borða, kinkar hún til mín kolli til merkis um, að ég eigi að ganga út, og ég fer í gegnum manntóma dagstofuna, upp stigann og inn í herbergið mitt eins hljóðlega og mér er unnt, svo að ég trufli ekki — ég veit raunar ekki hvern, eða hvað. Þögnin ræður ekki aðeins í þessu herbergi, heldur einnig í húsinu, á götunni, í bænum, í landinu sjálfu. Ég hef fundið þetta frá fyrsta degi Íslandsdvalar minnar. Hún er eins og eitthvað í nálægð manns, eitthvað, sem maður hálft í hverju býst við að sjá, jafnframt því að finna það og heyra það, ef svo má segja. Þegar ég er að lesa í herberginu mínu, hætti ég stundum í miðri málsgrein og fer að hlusta. Á rölti úti hrekk ég stundum upp við krunk í hrafni langt úti í móum að bæjarbaki, eða við rollujarm frá fjallshlíðinni handan fjarðar. Ég hef heyrt sömu hljóð annars staðar án þess að veita þeim sérstaka eftirtekt. En hér virðast þau, með einhverjum hætti, krefjast eftirtektar, og maður miðar þögnina við þau með sama hætti og maður miðar víðerni óendanlegrar sléttu við örsmæð reiðmanns á ferð yfir hana.“

Sigurður Þórarinsson getur sér til að hin konan sem James nefnir til sögunnar, sú er rak tóbaksbúðina, sé Lára Ólafsdóttir (1867-1932). Lára var fædd á Skagaströnd. Hún lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn í lok 19. aldar en settist að á Akureyri í upphafi þeirrar tuttugustu. Þar sá hún um rekstur verslunarinnar Sápuhússins á Oddeyri frá árinu 1911. Árið 1924, ári eftir að James hélt af landi brott, var kvenmannsnafnið Lára á allra vörum. Þórbergur Þórðarson gaf þá út sína fyrstu stóru bók; Bréf til Láru. Sé tilgáta Sigurðar rétt er hér um einu og sömu konuna að ræða. Þó James nefni einungis Kristínu og Láru til sögunnar við upphaf dvalarinnar hér, átti hann eftir að kynnast fleiri Akureyringum og Eyfirðingum eftir því sem líða tók á dvölina. Honum var umhugað um að læra tungumál innfæddra. Hann hafði stundað íslenskunám þann stutta tíma sem hann var í Reykjavík og hélt því áfram eftir að hann kom til Akureyrar. Í skrifum sínum talar hann um íslenskukennarann sinn Mr. Thorsteinsson. Ekki er ósennilegt að Vernharður Þorsteinsson (1884-1959) sé umræddur kennari. Vernharður var fæddur á Oddeyri. Hann tók stúdentspróf árið 1906 og nam heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla til ársins 1914. Hann stundaði blaðamennsku og ritstörf um nokkurra ára skeið í hinum ýmsu Evrópulöndum áður en hann flutti til Akureyrar árið 1921. Hann kenndi við Gagnfræðaskólann og síðar Menntaskólann, aðallega dönsku og frönsku.

„Hótelstýran mín sat við gluggann, þegar ég gekk framhjá gegnum dagstofuna á leið minni út. Hún svaraði kveðju minni á íslenzku, og ég skildi ekki aðalorðið. „Þú verður að þýða eins og vant er,” svaraði ég dálítið stúrinn. „Ég er hræddur um, að mér hafi ekki sótzt vel íslenzkunámið síðustu viku, en nú er ég á leið til kennarans.“ „Gleður mig,“ svaraði hún alvarleg. „Þú ættir vissulega að leggja hart að þér til að læra mál okkar, úr því að þú ætlar þér að vera hér í allan vetur.  Það sem ég sagði var, að nú væri dúnalogn.“ „Dúnalogn, er það calm?“ „Það er meira en calm. Hvernig á ég að orða það? Það er svo mikið logn,  að  það  bærir  ekki  dúnhnoðra.“ Eg mun ávallt minnast þessarar athugasemdar með þakklæti. Það var eitthvað töfrandi við þetta orð, og ég fann hið innra með mér, hve lygnt raunverulega var og hve fallegur þessi litli bær var á slíkum degi. Göturnar voru mannlausar og búðirnar lokaðar eins og vant var á mánudagsmorgnum fram undir hádegi. Hús og búðir sýndust svo lítil sem væru þau í gluggum leikfangabúðar og biðu eftir einhverju barni til þess að koma litauðugu lífi í gang. Úti á Pollinum hallaði sjómaður sér út yfir borðstokkinn á skektu sinni og virtist sem í sælum svefni, og skektan virtist svífa í loftinu, því að vatnsflöturinn var sem spegill, en fjöllin sveipuð bjartri móðu, og manni fannst maður vera umluktur óendanlegu ljóshafi. Tveir hrafnar, sem virtust óvenju svartir, flugu til vesturs sem væru þeir síðustu leifar næturmyrkursins, sem sólin hafði splundrað og dreift. Ég horfði á eftir þeim, þar til þeir hurfu líka út í sólskinið, og dúnalognið ómaði í eyrum sem hljómur klukku, sem er nýlega hætt að hringja. Ég rölti áfram og hugsaði um dúnalogn og önnur falleg, íslenzk orð, og þegar þar að kom, að ég var farinn að velta fyrir mér beygingum þeirra, var ég kominn út úr bænum. Það virtist bjánalegt að snúa nú við og fara í tíma til Mr. Thorsteinssons — hreinn glæpur að halda sig innanhúss í slíku veðri — svo að ég hélt áfram hátt upp í hlíð með útsýn yfir bæinn og Eyjafjörð endilangan. Þar sat ég sem eftir var dags og las þýðingu Dasents á Brennu-Njáls sögu, eða Njálu eins og Íslendingar segja.“

Á þessum tímapunkti má álykta sem svo að James sé staddur í landi Hlíðarenda ofan Akureyrar eða þar í grennd. Þar sat hann úti í guðsgrænni náttúrunni og las á meðan bæjarbúar urðu vitni að einhverjum mesta tímamótaviðburði í sögu bæjarins. Aukinheldur fangaði hann augnablikið, skráði það niður og tryggði þar með aðgengi komandi kynslóða að mikilvægri heimild, samtímafrásögn, séð með augum aðkomumanns. Akureyringa hafði lengi dreymt um rafvæðingu bæjarins. Hugmyndir um að virkja Glerá voru ekki nýjar af nálinni og má rekja þær að nokkru leyti aftur til loka 19. aldar. Draumurinn varð að veruleika þann 30. september 1922 þegar Glerárvirkjun var tekin í notkun. Þrátt fyrir einhverja hnökra til að byrja með og óánægju þeirra sem af einhverjum ástæðum fengu ekki notið rafmagnsins, var hér um mikilvægt framfaraskref að ræða í þágu bæjarbúa.

„Þegar ég sneri aftur heim til Akureyrar þetta kvöld, hafði himinninn hulizt hálfgagnsæjum skýjafellingum, sem virtust verða til úr engu. Fyrstu stjörnurnar lýstu gegnum þær, en áður en ég var kominn hálfa leið í bæinn, var farið að snjóa, fyrsta snjó haustsins á láglendi, stórum flygsum, og enn var enginn andvari, er bærði þær. Þeim fjölgaði æ hraðar, jörðin huldist hvítu lagi eins til tveggja þumlunga þykku. Síðast svifu niður gagnsæjar, flipóttar flögur. Það var dásamlegt að sjá fjallatindana koma fram, er élinu létti, skýrt teiknaða og ennþá sveipaða daufri aftanglóð. Ég hélt niður móana og niður á veginn, er lá til bæjarins. Rökkrið var orðið að myrkri, áður en ég komst niður á hjallann upp af bænum. Þaðan sá ég, að merkileg breyting hafði á orðið. Öll hús í bænum voru uppljómuð innan frá og ekki til sá gluggi, að ekki varpaði hann mynd sinni á snjóinn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér, að það átti að ræsa vatnsrafstöðina þetta kvöld. Það var búið að tala um þetta í marga daga. Hótelstýran mín, rakarinn, bóksalinn, póstmeistarinn, allir höfðu í hverju samtali komið inn á þetta: ,,En þegar við fáum nýju raflýsinguna . . .“ Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, hversu mikils virði þetta var fólki svo nærri heimskautsbaug. Hingað til hafði verið mjög dimmt í bænum um nætur. Steinolía er dýr hér, því að hún er langt að flutt og olíulampaljós varð að spara. Nú gátu allir notið ljóssins, náðargjafar vatns, er féll af fjöllum ofan. Ég leit inn í tóbaksbúðina, sem var böðuð í ljósi. Gamla sölukonan var ekki langt frá því að verða málug í gleði sinni. „Að hugsa sér,“ sagði hún, „að við skulum hafa lifað í myrkri allar þessar löngu vetrarnætur. Sjáðu, það þarf aðeins að hreyfa þennan hnapp,“ og hún sýndi mér, hvernig þetta gekk til. Öll börn í bænum höfðu safnazt saman fyrir framan járnvöruverzlun, þar sem mörgum gerðum af ljósakrónum, sem kveikt hafði verið á, var stillt út til sölu. Feður og mæður gengu fram og til baka framan við hús sín og virtust vart trúa því, að þetta væru þeirra eigin hús. Í stað daufa olíulampans, sem verið hafði í bókabúðarglugganum, var nú komið rafljós, svo að auðvelt var að lesa bókatitlana. Auk íslenzkra bóka — sögubóka, ævisagna, Ijóðabóka — var þarna eintak af Danasögu Saxa, esperantó málfræði, iðnsaga á þýzku, Bleak House Dickens á dönsku, nokkrar af sögum Robert Louis Stevensons, einnig á dönsku. Af bókum á ensku sá ég sögu siðbótarinnar, útgáfu af ljóðum Swinburnes og verk Francis Bacon’s: Essays, Civill and Morall. Óneitanlega mikil fjölbreytni í litlum bæ á norðurströnd Íslands, og þetta voru aðeins bækurnar í glugganum. Bókin eftir Bacon virtist komast í vasa, svo að ég keypti hana, því að ég hafði aldrei lesið allar ritgerðir hans.“

James lagði land undir fót síðustu dagana í október og hélt upp á hálendið. Goshrina hófst í Öskju í Dyngjufjöllum árið 1921 með tilheyrandi smágosum næstu mánuðina. Hvort James hafi hugsað sér gott til glóðarinnar með því að viða að sér áhugaverðu efni fyrir Íslandsbókina er erfitt að segja. Eitthvað rak hann þó áfram í að rannsaka upptök eldgoss sem hófst á þessum slóðum í byrjun mánaðarins. Hann fékk Sigurð Sumarliðason (1863-1958) frá Bitrugerði Kræklingahlíð í lið með sér. Sigurður var þaulvanur ferðalögum upp á öræfin og leiðsagði gjarnan erlendum ferðamönnum. Sigurður varð t.a.m. fyrstur manna, ásamt þýskum jarðvísindamanni að nafni Hans Reck, til að klífa Herðubreið árið 1908. Frá Akureyri héldu þeir James og Sigurður af stað til Snæbjörns Þórðarsonar bónda í Svartárkoti í Bárðardal. Hann hafði nokkrum dögum fyrir brottför þeirra félaga skrifað stuttan pistil sem birtist í Degi þar sem hann lýsti upplifun heimilisfólks í Svartárkoti á eldgosinu. Frá Svartárkoti héldu þeir út í óbyggðirnar. Þegar þeir komu að Trölladyngju var veður tekið að versna svo þeir snéru við. Þeir komu til Akureyrar 8 dögum eftir að þeir lögðu af stað þaðan. James var hinn kátasti með ferðalagið og hældi Sigurði í hástert fyrir dugnað og áræði. Dagblaðið Íslendingur fjallaði um leiðangurinn þar sem kom m.a. fram að sennilega væri þarna um að ræða fyrstu mannaferðir suður undir Vatnajökul á þessuum árstíma. Niðurlagið var stutt og laggott; „í sannleika glæfraför“.

Sunnudagskvöldið 10. desember 1922 sat James að snæðingi á Hótel Oddeyri. Hann var eini gesturinn á hótelinu og var farinn að átta sig á erfiðu rekstrarumhverfi Kristínar hótelstýru. Hún var og farin að gefa til kynna að hún hefði ekki efni á að halda hótelinu opnu allan veturinn fyrir hann einan. Þegar hann var við það að klára skyrið sitt heyrði hann í skipaflautu á Pollinum. Hann sá flutningaskip nálgast bæinn og velti því fyrir sér hvort nú væri rétt að hugsa sér til hreyfings og kveðja Akureyri. Hann talaði við skipstjórann sem bauð honum pláss um borð í skipinu. Skipið var á leið til Spánar með saltfisk frá Íslandi. James hafði ekki ætlað sér að yfirgefa landið heldur færa sig um set með von um að skipið kæmi við í annarri norðlenskri höfn áður en það héldi út á opið hafið. Hann ákvað engu að síður að þiggja boðið og sigla rakleitt til Spánar og koma þess í stað aftur til Íslands að nokkrum mánuðum liðnum. Einhverja bakþanka hefur hann þó fengið þegar siglt var úr höfn en létti jafnframt stórum þegar skipstjórinn tjáði honum að skipið þyrfti að koma við á Siglufirði. Þar kvaddi James skipstjórann og gekk frá borði. Líður nú alllangur tími þar sem lítið er vitað um ferðir James Norman Hall á Íslandi. Sjálfur skráði hann brottför sína frá landinu „snemma sumars 1923“.

Þegar James kom til Bandaríkjanna hitti hann mann að nafni Sedgwick sem hann hafði unnið með hjá tímaritinu Atlantic Monthly. Þeir tóku tal saman. Sedgwick spurði hann hvernig gengi með Íslandsbókina. „Ég varð að segja honum að ég hefði ekki lokið henni. Sedgwick var áhyggjufullur út af þessu en hann hefði ekki getað ímyndað sér, hversu mjög ég fyrirvarð mig fyrir að þurfa að gera þessa játningu. „Þú hefðir átt að dvelja á Íslandi, þar til bókinni var lokið,“ sagði hann. „Líkaði þér ekki landið?“ Ég sagði honum, að það væri einmitt meinið, ég væri svo hrifinn af Íslandi, að ekkert, sem ég hefði skrifað um það, fyndist mér vera því samboðið.“ James setti sér markmið um að gera allt sem í hans valdi stæði til að klára bókina og gefa hana út. Hann lét jafnframt hafa eftir sér á efri árum að hann hefði aldrei liðið slíkar sálarkvalir við gerð einnar bókar og við Íslandsbókina. Enda fór það svo að hún kom aldrei út. Í árslok 1923 endurgreiddi James bókaforlaginu þá 5000 dali sem hann hafði fengið í fyrirframgreiðslu með vöxtum. Nokkrum vikum síðar hélt James á heimaslóðir á Tahítí þar sem hann hafði búið sér heimili áður en hann ferðaðist til Íslands.  

Hagur James Norman Hall sem rithöfundur fór batnandi á næstu árum. Hér verður stiklað á stóru í lífi þessa góðkunningja Akureyrar eftir að Íslandsdvöl hans lauk. Árið 1925 giftist hann Söruh Winchester. Ári síðar fæddist frumburður þeirra, Conrad Hall og árið 1930 fæddist þeim dóttirin Nancy Hall-Rutgers. Conrad gat sér gott orð sem kvikmyndatökumaður í Hollywood. Hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferlinum fyrir kvikmyndirnar Butch Cassidy and the Sundance Kid árið 1969, American Beauty árið 1999 og Road to Perdition árið 2002. Nancy spreytti sig einnig í Hollywood þegar hún lék í kvikmyndinni Hurricane árið 1979 með leikkonunni Miu Farrow. Myndin var endurgerð sígildrar kvikmyndar frá árinu 1937 sem byggð var á skáldsögu eftir föður hennar og Charles Nordhoff. Fleiri kvikmyndir í Hollywood voru gerðar eftir bókum James Norman Hall með frægum kvikmyndastjörnum innanborðs svo sem Passage to Marseille árið 1944 með Humphrey Bogart í aðalhlutverki og Botany Bay frá árinu 1953 með leikaranum Alan Ladd. Þekktastur er James fyrir bókina Mutiny on the Bounty eins og fyrr er getið. Hið minnsta þrjár Hollywood-kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögunni. Sú nýjasta er frá árinu 1984 og skartar þeim Mel Gibson og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum. Árið 1962 fóru Marlon Brando og Richard Harris með aðalhlutverkin. Clark Gable lék í upprunalegu útgáfunni frá árinu 1935. Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem besta myndin árið 1936. Árið 1934 komu út bækurnar Men Against the Sea og Pitcairn Island eftir James og Charles. Þar með var Bounty-trílógínan fullkomnuð og nöfn höfundanna James Norman Hall og Charles Nordhoff meitluð í stein um aldur og ævi. James lést á Tahítí árið 1951 úr hjartasjúkdómi, 64 ára að aldri. Jarðaförin fór fram á hæð ofan við heimili hans á eyjunni suðrænu.  

James Norman Hall hvílir hátt upp í hlíð með útsýni yfir bæinn…

 

 

 

 

Eyfirðingurinn sem setti mark sitt á dægurmenningu heimsins

Kann að vera að Mjallhvít, Elmer Fudd og Kalli kanína eigi ættir að rekja til Íslands? Færa má rök fyrir því að þessar teiknimyndafígúrur og fleiri geti þakkað tilvist sína tveimur Íslendingum sem áttu samleið í Ameríku á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er nóg með að tengslin við Ísland séu sterk heldur má með nokkrum sanni segja að sköpun Kalla kanínu og félaga megi rekja alla leið til Eyjafjarðar.

Hæfileikar koma fram

Við hefjum leiðangurinn að þessu sinni árið 1887. Þá ákváðu hjónin Stefán Þórðarson og Sigríður Þórarinsdóttir að flytja burt úr Biskupstungunum vestur um haf. Þau héldu af stað með vesturfaraskipinu SS Camoens frá Reykjavík, ásamt Jóni þriggja ára syni þeirra, áleiðis til Winnipeg í Kanada. Skipið sigldi reglulega frá Íslandi á þessum árum með fólk í leit að betra lífi í Ameríku. Fór það m.a. þónokkrar ferðir frá Akureyri, þá fyrstu árið 1879. Í Kanada eignuðust hjónin þrjá drengi til viðbótar. Einn þeirra fæddist árið 1890 og var skírður Karl Gústaf. Listrænir hæfileikar Karls komu fljótt í ljós og þóttu hæfileikar hans miklir þegar kom að teikningum. Eftir að myndir hans fóru að birtast opinberlega tók hann sér upp nafnið Charles Thorson. Fyrsta teikning hans á opinberum vettvangi birtist á forsíðu fréttablaðsins Heimskringla árið 1909, þegar hann var 19 ára gamall (sjá mynd). Teikningin sýnir tvo menn standa hlið við hlið. Annar þeirra er maður að nafni Fred Swanson en hann átti síðar eftir að verða tengdafaðir Thorson.

Vinna hjá Disney og Warner Brothers

Árið 1932 hitti Thorson unga íslenska stúlku á kaffihúsi í Winnipeg. Hún hét Kristín Sölvadóttir, fædd á Siglufirði árið 1912. Thorson féll fyrir hinni 22 ára gömlu Kristínu en sjálfur var hann 42 ára. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að heilla hana upp úr skónum skildu leiðir árið 1934 þegar Thorson hélt til Hollywood þar sem hann hóf störf hjá Disney. Eitt af hans aðalverkum var vinna við gerð teiknimyndarinnar Mjallhvít og dvergarnir sjö en hún var frumsýnd árið 1937. Thorson tilheyrði vinnuteymi sem skapaði útlit persóna myndarinnar, þar með talið dverganna og Mjallhvítar. Segir sagan að útlit þeirra, sem hefur allar götur síðan verið notað til að túlka persónurnar í myndum og bókum, sé að mestu eða öllu leyti skapað af Charles Thorson. Fyrirmynd hans að Mjallhvíti var unga stúlkan frá Siglufirði, Kristín Sölvadóttir. Eftir ágreining við stjórann sjálfan, Walt Disney, árið 1937 hætti Thorson störfum hjá fyrirtækinu. Hann réði sig síðar hjá þremur teiknimyndaverum, m.a. Warner Brothers þar sem hann starfaði í tvö ár. Hjá WB var honum fengið það hlutverk að kenna ungum leikstjóra réttu handtökin við gerð teiknimynda. Sá var að hefja sinn feril í heimi teiknimyndanna og hét Chuck Jones. Hann átti eftir að verða eitt stærsta og þekktasta nafn teiknimyndaheimsins. Einhver þekktasta teiknimyndapersóna sem Thorson skapaði árin sem hann vann fyrir Warner Brothers var engin önnur en Bugs Bunny eða Kalli kanína. Á 10 ára starfsferli sínum hjá teiknimyndafyrirtækjum í Ameríku skapaði Charles Thorson meira en 100 teiknimyndapersónur.

Lærimeistarinn Friðrik Sveinsson

Á uppvaxtarárum Thorson í Kanada, þegar listrænir hæfileikar hans voru að koma í ljós, var einn maður sem hann leit sérstaklega á sem fyrirmynd við listsköpun sína. Sá var málari en vann einnig að listsköpun ýmiskonar. Hann var nokkurs konar lærimeistari Thorson og sá einstaklingur sem mótaði hann hvað mest sem listamann. Er hann þannig talinn eiga sinn þátt í að Thorson nýtti hæfileika sína í þágu teiknimynda. Maðurinn sem um er rætt bjó í Aðalstræti á Akureyri um nokkurra ára skeið áður en hann flutti til Kanada. Hér er að sjálfsögðu átt við áðurnefndan Fred Swanson, bróður hins kunna rithöfundar Jóns Sveinssonar (Nonna). Friðrik Sveinsson var sonur hjónanna Sveins Þórarinssonar og Sigríðar Jónsdóttur. Hann fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal en flutti í Aðalstræti 54 eins árs gamall árið 1865. Þar bjó hann í nokkur ár áður en hann var sendur í fóstur að bænum Espihóli í Eyjafirði. Eftir að Friðrik kom til Ameríku tók hann sér upp nafnið Fred Swanson.

Beðið eftir að komast til Ameríku

Talið er að u.þ.b. 15.000 Íslendingar hafi sest að í Norður-Ameríku á árunum 1870 – 1914. Fyrsti stóri Íslendingahópurinn sem fór með skipi vestur um haf frá Akureyri lagði af stað þann 4. ágúst árið 1873.  Þar er því um nokkuð merkilega siglingu að ræða. Skoskt gufuskip, Queen að nafni, en það flutti aðallega hross, hélt úr Akureyrarhöfn með 165 manns innanborðs. Einn af farþegunum var Ólafur Ólafsson bóndi á Espihóli. Hann hafði dreymt lengi um betra líf handa sér og fjölskyldu sinni í Ameríku og ákvað því að freista gæfunnar. Með honum í för var eiginkona hans og tveir fóstursynir. Hópurinn kom til Kanada í lok mánaðarins. Annar fóstursona hjónanna á Espihóli var Friðrik Sveinsson. Til er blaðagrein þar sem Friðrik segir frá því þegar hann, 9 ára gamall, beið eftir komu skipsins sem átti að flytja hann og fósturfjölskyldu hans til Ameríku. Skipið hafði tafist og þurfti fólkið að bíða á Akureyri dögum saman. Krakkarnir í hópnum hlupu daglega upp í brekkuna ofan við Aðalstræti til að horfa út fjörðinn í von um að sjá skipið koma. Á hverjum degi var skimað eftir skipinu. Eg fór oft með öðrum börnum uppá hjallann fyrir ofan bæinn að horfa út fjörðinn eftir skipinu, og loksins, eg held 3. ágúst — sáum við svarta þústu út í fjarðarmynni og kolareyk upp úr. Við þutum niður í bæinn með þennanfagnaðarboðskap. Skipið kom von bráðar inn á höfnina og lagðist þar. — Var þetta skuggalegur breiður kuggur og fanst sumum hann helst líkjast þrælaskipum, sem blámenn voru fluttir á frá Afríku. Skipið hét “Queen” en ekki þótti löndum það drotningarlegt.

Róstusamt líf skaparans

Ekki var nóg með að Karl Gústaf Stefánsson liti á Friðrik Sveinsson sem lærimeistara sinn  heldur tengdust þeir einnig fjölskylduböndum. Í október árið 1914 giftist Karl dóttur Friðriks. Hún hét Rannveig en var oftast kölluð Ranka. Þau eignuðust son sem fæddist í ágúst sama ár. Hann var skírður í höfuðið á pabba sínum, Karl en var kallaður Charlie. Sorgin knúði dyra árið 1916 þegar Rannveig dó úr berklum og aftur árið 1917 þegar Charlie litli dó úr barnaveiki. Árið 1922 giftist Karl öðru sinni, konu að nafni Ada Teslock. Hjónabandið stóð yfir í 10 ár. Þau eignuðust tvo syni. Sá eldri, Charlie, dó aðeins þriggja daga gamall. Hinn yngri, Stephen, komst á legg og eignaðist þrjú börn. Karl Gústaf Stefánsson lést úr krabbameini í Vancouver í Kanada árið 1966.

Friðrik og Nonni

Aðalstræti 54 hefur að geyma forvitnilega sögu þegar kemur að barnamenningu. Allir þekkja sögu Nonna og bókanna hans. Sögu Friðriks þekkja færri. Hún er þó ekki síður athyglisverð. Hvor á sinn hátt áttu þeir bræður þátt í að gleðja börn um víða veröld eftir að þeir fluttu erlendis. Annar með því að skrifa barnabækur. Hinn með því að veita innblástur og kenna réttu handtökin við sköpun frægra teiknimyndafígúra. Friðrik hitti Nonna tvisvar eftir að þeir voru aðskildir í æsku. Fyrra skiptið var 60 árum eftir aðskilnaðinn, á Alþingishátíðinni árið 1930. Seinna skiptið var árið 1936 þegar Nonni heimsótti bróður sinn í Kanada á ferð sinni um heiminn. Friðrik Sveinsson giftist Sigríði Laxdal og átti með henni fjórar dætur auk Rannveigar. Auk hefðbundinnar málningarvinnu vann hann m.a. við að útbúa steinda glugga í kirkjur.  Friðrik Sveinsson dó í Winnipeg í Kanada árið 1942.

Engin leit að Grenndargralinu 2018

Allt frá árinu 2008 hafa grunnskólanemendur á Akureyri farið af stað um þetta leyti árs í 10 vikna leiðangur í heimabyggð í því skyni að leita uppi Grenndargralið. Leitin að Grenndargralinu hefur þannig staðið nemendum til boða sem valgrein í áratug með þátttöku sjö skóla.

Vegna fyrirspurna um Leitina nú í haust skal áréttað að ekki verður um leit að Grenndagralinu að ræða haustið 2018. Leitin hefur farið fram í síðasta skipti, í bili hið minnsta. Gralið verður því falið um óákveðinn tíma á vel völdum stað í heimabyggð.

Grenndargralið mun áfram fjalla um sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna.

Þegar Phostle, Braun og „The Coctail shaker“ sigldu inn Eyjafjörð

Komum skipa af ýmsum stærðum og gerðum til Akureyrar, ekki síst yfir sumartímann, hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Ákveðin stemning ríkir í bænum þegar risastór skemmtiferðaskip á borð við Azamara Pursuit liggja við bryggju. Glæsisnekkjur auðmanna sem lúra á Pollinun sem og ísbrjótar og rannsóknarskip vekja einnig athygli bæjarbúa. Mörg merkileg skip með mikla sögu á bakinu hafa siglt inn Eyjafjörðinn í gegnum tíðina, lagst við bryggju eða einfaldlega legið makindalega á Pollinum. Í einhverjum tilfellum hafa heimsþekktir einstaklingar stigið frá borði og gengið um Akureyri – einstaklingar sem hafa á einn eða annan hátt sett mark sitt á mannkynssöguna.

Skemmtiferðaskipið S.S. Victoria Luise var smíðað í Þýskalandi árið 1900. Skipið tók rúmlega 2000 farþega. Upphaflega hét skipið Deutschland en nafninu var breytt árið 1910. Victoria Luise var eitt stærsta skip síns tíma og jafnframt það hraðskreiðasta í heimi á árunum 1900-1906. Við smíði skipsins var mikið lagt upp úr krafti og hraða á kostnað þæginda fyrir farþega. Hraðinn hafði þær hliðarverkanir að skipið átti það til að hristast töluvert. Gekk það gjarnan undir nafninu The Cocktail Shaker (Hanastélshristarinn). Í mars árið 2010 birti írski blaðamaðurinn Senan Molony niðurstöður rannsóknar sinnar á síðustu samskiptum sem áhöfn skemmtiferðaskipsins Titanic átti við önnur skip á Atlantshafinu síðustu dagana áður en það sökk þann 15. apríl 1912. Samkvæmt Molony sendi Victoria Luise skeyti til áhafnar Titanic laugardaginn 13. apríl á meðan það var á siglingu á sömu slóðum og „hið feiga“ skemmtiferðaskip. Var Victoria Luise þar með eitt síðasta skipið á Atlantshafinu til að senda Titanic skeyti áður en það sökk. Athyglisvert er að aðeins voru smíðuð 14 skemmtiferðaskip með fjórum reykháfum og þrjú þeirra voru á siglingu í grennd við hvert annað um það leyti sem Titanic sökk; RMS Lusitania, RMS Titanic og Victoria Luise. Þremur mánuðum síðar, í júlí 1912, lúrði Victoria Luise á Pollinum við Akureyri. Bærinn var á þessum tíma hvorki fjölmennur né stór. Án efa hefur Victoria Luise sett svip sinn á bæjarlífið vegna stærðar sinnar og fjölda farþega. Af endalokum skipsins er það að segja að Þjóðverjar notuðu það til stríðsrekstrar í fyrri heimsstyrjöldinni. Með friðarsamningunum 1919 var Þjóðverjum gert að afhenda allan sinn flota. Victoria Luise var eina skipið í flotanum sem bandamenn kærðu sig ekki um vegna slæms ástands þess. Árið 1921 var nafni skipsins aftur breytt og nú fékk það nafnið Hansa. Victoria Luise endaði sem brotajárn í Hamborg í Þýskalandi árið 1925.

 

Árið 1939 kom þýska skemmtiferðaskipið MS Milwaukee í dagsferð til Akureyrar. Skipið var smíðað árið 1929 fyrir sama skipafélag og átti og gerði út Victoria Luise. Skipið þjónaði sem skemmtiferðaskip fyrir ríkt jafnt sem efnaminna fólk til ársins 1936. Þá var því breytt í lúxusskip fyrir 559 farþega. Þegar MS Milwaukee kom til Akureyrar mánudaginn 17. júlí 1939 var Eva nokkur Braun um borð. Hún átti þá í ástarsambandi við kanslara Þýskalands og leiðtoga nasista þar í landi, Adolf Hitler. Samband þeirra var ekki orðið opinbert á meðan dvöl hennar stóð hér svo hún gat gengið óáreitt um bæinn. Með í för voru systur hennar og móðir. Eva Braun var áhugamanneskja um ljósmyndun og tók hún myndir á Akureyri. Ekki eru mörg ár síðan þessar ljósmyndir birtust almenningi. MS Milwaukee var ekki eina skemmtiferðaskipið sem kom til Akureyrar þennan júlídag. Þýska skipið Steuben lá einnig á Pollinum. Steuben átti eftir að koma við sögu í einni af umtöluðustu aðgerðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni; Operation Hannibal. Steuben var skotið niður af sovéskum kafbáti undir lok stríðsins. Með skipinu fórust á fjórða þúsund manns. Örlög MS Milwaukee urðu hins vegar þau að skipið var notað sem gistiaðstaða fyrir þýska hermenn í seinni heimsstyrjöldinni. Árið 1946 lenti skipið í höndum Breta og nokkru síðar skemmdist það illa í eldi við bryggju í Liverpool. Ári síðar var það rifið í brotajárn.

Rannsóknarskipið Aurora kom við á Akureyri í vísindaleiðangri sem farinn var á fyrri hluta 20. aldar. Ætlunin var að rannsaka loftstein sem lenti í Norður-Íshafi. Prófessor að nafni Decimus Phostle hafði spáð því að smástirni myndi skella á jörðinni með hræðilegum afleiðingum. Sem betur fer skall það ekki á jörðinni heldur sveigði framhjá henni. Hins vegar skall brot af smástirninu í hafið með tilheyrandi jarðskjálftum. Herra Postle og leiðangursmenn um borð í skipinu töldu líklegt að í brotinu væri að finna nýja tegund af málmi og héldu því í rannsóknarleiðangur á Norður-Íshafið með viðkomu á Akureyri. Um borð í Auroru var ekki ómerkari maður en sjálfur Tinni, félagi hans Kolbeinn kafteinn og hundurinn Tobbi. Þeir félagar komu til Akureyrar til að ná í olíu. Á Akureyri hittu þeir Runólf, gamlan félaga Kolbeins en saman fóru þeir á ónefnt kaffihús í bænum og pöntuðu sér sódavatn og whiskí. Eftir stutta viðdvöl á Akureyri héldu þeir för sinni áfram. Heimsókn Tinna og félaga til Akureyrar birtist í tíundu Tinnabókinni Dularfulla stjarnan sem kom út árið 1942. Hún var jafnframt fyrsta Tinnabókin sem gefin var út í lit. Sagan hafði reyndar birst í víðlesnu barnablaði í Belgíu sem framhaldssaga árin 1941-1942. Teiknimyndapersónan Tinni var búin til af belgíska myndasöguhöfundinum Georges Prosper Remi, betur þekktur sem Hergé.

Þegar skoðuð er saga þeirra skipa sem heimsótt hafa Akureyri á undanförnum áratugum kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós. Hver veit nema grúskarar framtíðarinnar eigi eftir að grafa upp spennandi fróðleik um heimsþekkta ferðamenn sem komu með Azamara Pursuit til Akureyrar sumarið 2018 og tóku myndir af bænum eða fengu sér gos á Bláu Könnunni?

Greinin er uppfærð. Upphaflega birtist  hún í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í október 2013.

Hrollvekja Lagerlöf heillaði ritstjóra á Akureyri

Í janúar árið 1924 var sænska kvikmyndin Körkarlen, Ökusveinninn upp á ástkæra ylhýra (ensk þýð. The Phantom Carriage), sýnd í nýju bíóhúsi við Hafnarstræti 73 á Akureyri. Kvikmyndin var gerð eftir sögu Nóbelskáldsins Selmu Lagerlöf (1858-1940) og leikstýrð af Victor Sjöström (1879-1960). Myndin var frumsýnd í Svíþjóð árið 1922. Fjórum árum áður var önnur mynd í leikstjórn Sjöström frumsýnd í sænskum kvikmyndahúsum. Hún var byggð á leikriti eftir íslenskt leikritaskáld. Ári síðar heimsótti skáldið Akureyri og hafði jafnvel uppi áform um að setjast þar að!

Árið 1912 skrifaði Selma Lagerlöf sögu um framliðinn ökusvein sérstaks dauðavagns. Hann ekur um á vagninum og hirðir upp sálir þeirra sem eru um það bil að hverfa á vit feðra sinna. Hér er byggt á þekktu minni úr evrópskum þjóðsögum þar sem sá eða sú sem síðast lætur lífið áður en nýtt ár gengur í garð skal aka dauðavagninum í eitt ár. Sagan segir frá óþokkanum David Holm sem hlýtur það vafasama hlutverk að aka vagninum þegar hann deyr seint á gamlárskvöld. Á meðan akstrinum stendur gefst honum tækifæri til að gera upp lífshlaupið og horfast í augu við allar syndirnar í lifanda lífi. Ástæðuna fyrir því að Lagerlöf skrifaði söguna má rekja til þess að hún var ráðin af sænskum samtökum til að uppfræða almenning um berkla, smitleiðir og varnir gegn þeim. Hún hafði sjálf reynslu af sjúkdómnum því systir hennar og aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu smitast af hvíta dauða. Þar sem henni þótti auðveldara að koma boðskapnum á framfæri í gegnum skáldskap frekar en að setja saman fræðilegan texta um sjúkdóminn, skrifaði hún skáldsögu sem fékk heitið Körkarlen (ensk þýð. Thy Soul Shall Bear Witness!) rétt eins og kvikmyndin.

Victor Sjöström leikstýrði myndinni, skrifaði handritið ásamt Selmu Lagerlöf og lék aðalhlutverkið. Myndin varð alþjóðlegur smellur, ekki síst vakti hún athygli fyrir framúrstefnulegar tæknibrellur. Hún tryggði honum samning við kvikmyndarisann Metro-Goldwyn-Meyer í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði við kvikmyndagerð næstu árin áður en hann snéri aftur til Svíþjóðar. Sjöström er án nokkurs vafa einn áhrifamesti leikstjóri sænskrar kvikmyndasögu. Leikstjórar eins og Ingmar Bergmann og Stanley Kubrick hafa vísað í verk hans í myndum sínum. Áður en frægðarsól hans skein sem hæst hafði hann leikstýrt myndum í tugatali í heimalandinu. Ein þeirra var gerð eftir leikriti Jóhanns Sigurjónssonar frá árinu 1911; Fjalla-Eyvindur.

Á fullveldisárinu 1918 var myndin Berg-Ejvind och hans hustfru frumsýnd í Svíþjóð (ensk þýð. The Outlaw and His Wife). Sem fyrr leikstýrði Sjöström, skrifaði handritið ásamt Jóhanni og lék aðalhlutverkið. Myndin var tekin upp vorið og sumarið 1917 í Lapplandi þar sem reynt var að líkja eftir hálendi Íslands. Skáldinu Jóhanni og leikstjóranum Sjöström var vel til vina og gladdi það Íslendinginn þegar sá sænski lýsti yfir áhuga á að færa leikritið yfir á hvíta tjaldið. Til stóð að taka myndina upp á Íslandi en vegna heimsstyrjaldarinnar var það ekki mögulegt. Jóhann var staddur á Akureyri um það leyti sem myndin var frumsýnd á Íslandi vorið 1919. Gengu þær sögur fjöllunum hærra að hann ætlaði sér að flytja til Akureyrar og að búferlaflutningarnir tengdust atvinnustarfsemi í sjávarútvegi. Heilsu hans hafði hrakað á meðan Íslandsdvölinni stóð. Ekkert varð af flutningunum til Akureyrar og í júní var hann kominn heim til Danmerkur. Var hann þá orðinn fárveikur, svo mjög að hann var lagður inn á sjúkrahús um leið og hann steig á danska grund. Jóhann náði sér aldrei eftir þetta. Hann lést að heimili sínu í Kaupmannahöfn 31. ágúst 1919 í faðmi eiginkonu sinnar Ingeborg. Minni úr evrópskum þjóðsögum komu ekki við sögu á dánarbeði Jóhanns svo vitað sé, engir ökusveinar eða vagnar, aðeins gömul íslensk þjóðtrú. Inbegorg lýsir síðustu andartökum skáldsins svo í endurminningum sínum:

Svo var það einu sinni með morgunsárinu að Jóhann bað mig að opna alla glugga að gömlum íslenskum sið svo að sálin gæti flogið leiðar sinnar. Við höfðum horft ástaraugum hvort á annað og talað saman í hálfum hljóðum alla nóttina. Svo kom dauðinn í allri sinni óbilgirni en Jóhanni mínum þó svo líknsamur að ekkert þjáningarkast var honum samfara. Ég bað mennina tvo, sem kistulögðu Jóhann, um að mega hafa hann hjá mér nóttina eftir. Alla þá nótt sat ég við kistuna og horfði á undurfagra andlitið hans þar sem sérhver þjáningarhrukka var nú horfin. Það var svo ótal margt sem ég þurfti að segja við Jóhann þessar síðustu klukkustundir áður en þeir komu að sækja ástvin minn.

Kvikmyndahúsið í Hafnarstræti 73 var tekið í notkun hálfu ári fyrir sýningu Körkarlen. Þótti mörgum mikið til hússins koma vegna stærðar þess og útlits. Bíógestir á Akureyri hafa því sjálfsagt notið þess að horfa á sænsku hrollvekjuna á stóru tjaldi í glæsilegum húsakynnum þess tíma fyrir hartnær öld síðan. Í dag er myndin löngu orðin klassísk og af mörgum talin eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Jónas Þorbergsson ritstjóri Dags hélt ekki vatni yfir myndinni eins og lesa mátti um í Degi í janúar 1924. Hver veit nema boðskapur Selmu hafi snert ritstjórann? Hann var á þessum tíma einn helsti talsmaður þess að heilsuhæli fyrir berklasjúklinga yrði reist á Norðurlandi.

Hér má sjá stiklu (trailer) úr Körkarlen. Kemur þú auga á atriði sem veitti leikstjóranum Stanley Kubrick innblástur við gerð kvikmyndarinnar The Shining árið 1980?

 

Þegar Laddi spilaði fótbolta í rigningunni á Melgerðismelum

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Laddi spilaði fótbolta á Melgerðismelum. Reyndar var tilefnið annað og meira. Stór fjölskylduhátíð sem Ungmennasamband Eyjafjarðar stóð fyrir í Saurbæjarhreppi í samstarfi við ungmennafélög í hreppnum. Hátíðin bar heitið Ein með öllu og stóð yfir helgina 30. – 2. júlí. Aðstandendur hátíðarinnar gerðu sér vonir um að hún gæti orðið fjölmennasta útisamkoma sem haldin hefði verið Norðanlands. Reiknað var með allt að 5000 gestum með möguleika á að hýsa mun fleiri ef til þess kæmi. Þó höfðað væri til fjölskyldufólks og vínbann auglýst var samkoman ekki kynnt sem bindindismót. Gerðu menn því ráð fyrir að áfengi yrði haft um hönd í einhverjum mæli en Lögreglan fékk það hlutverk að vega og meta hvort eftirlit yrði haft með vínflutningum gesta inn á svæðið. Vegna þessa var erfitt að segja fyrir um aldursskiptingu og hversu mikil eða lítil ölvun yrði meðal samkomugesta. Mikil vinna var lögð í undirbúning og allt lagt í sölurnar til að gera samkomuna að áhugaverðum valkosti fyrir Íslendinga á faraldsfæti sumarið 1978. Tveir dansleikjapallar voru reistir. Auglýsingar og fréttatilkynningar um hátíðina birtust í öllum helstu dagblöðum dagana og vikurnar fyrir setningu hennar föstudaginn 30. júní.

Meðal þess sem var auglýst var veitingasala á svæðinu, næg tjaldstæði, góð aðstaða fyrir hjólhýsi og fyrirmyndar hreinlætisaðstaða. Læknir var sagður á svæðinu sem og slysavakt allan sólarhringinn í umsjá Hjálparsveitar skáta, svo ekki sé minnst á Lögregluna sem hafði töluverðan viðbúnað. Til að tryggja þeim sem vildu rólegheit umfram hávaða og læti voru útbúnar sérstakar „fjölskyldubúðir“ á afmörkuðu svæði á Melunum með leiktækjum fyrir börnin. Reglulegar sætaferðir voru í boði til og frá Akureyri alla þrjá dagana. Auglýstir voru dansleikir öll þrjú kvöldin og diskótek alla dagana frá morgni til kvölds. Ýmis konar skemmtiatriði voru í boði allan daginn, bæði laugardag og sunnudag og voru þau ekki af verri endanum. Meðal skemmtikrafta má nefna Halla og Ladda, Ruth Reginalds, Baldur Brjánsson, Bjarka Tryggvason og Jörund Guðmundsson. Eflaust hafa margir verið spenntir fyrir norðlenskum harmonikkuleikurum og aðrir fyrir módelflugi yfir Melunum sem og varðeldi sem ætlað var að kveikja upp að loknum dansleikjum. Íþróttir skipuðu einnig nokkurn sess. Ný bílaíþrótt, svokallað Bílaskrallý, reiptog yfir Eyjafjarðará milli Eyfirðinga og Þingeyinga og knattspyrnuleikur milli skemmtikrafta og úrvalsliðs Baldurs Brjánssonar töframanns. Kynnir hátíðarinnar var Magnús Kjartansson Brunaliðsstjóri.

Hljómsveitirnar þrjár sem auglýstar voru, Brunaliðið, Mannakorn og Akureyrarsveitin Hver voru stærstu númerin á hátíðinni. Brunaliðið var nýstofnað, „funheitt“ band sem hafði í maí gefið út plötuna Úr öskunni í eldinn. Platan innihélt m.a. smellina Sandalar, Einskonar ást og eitt vinsælasta dægurlag síðari tíma, Ég er á leiðinni. Hljómsveitin var því stór á þessum tíma og í raun sama hvernig á það var litið. Meðlimir hennar óskuðu eftir 120 fermetra stóru sviði á Melunum til að spila á sem og þeir fengu.

Hljómsveitin Mannakorn hafði örlítið meiri reynslu en Brunaliðið en hún var stofnuð þremur árum áður. Hún var þó ekki reynslumeiri en svo að í kynningum um sveitina í aðdraganda hátíðarinnar var flutningur hennar á Melgerðismelum sagður verða frumraun hljómsveitarinnar á opinberum vettvangi.

Hljómsveitin Hver var á allra vörum sumarið 1978 eftir að hafa komið fram í sjónvarpsþættinum Menntaskólarnir mætast. Flutningur hljómsveitarinnar í þættinum var með slíkum glæsibrag að hann var nefndur í sömu andrá og flutningur Hljóma í Háskólabíói á Bítlaárunum þegar sú ágæta sveit sló rækilega í gegn. Auk hljóðfæraleikara skipuðu hljómsveitina þrjár ungar stúlkur sem voru þá nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Þær áttu síðar eftir að geta sér gott orð sem flytjendur undir nafninu Erna, Eva og Erna.

Allt var til reiðu fyrir einhverja metnaðarfyllstu útisamkomu í sögu heimabyggðar og þótt víðar væri leitað. Aðeins veðrið gat mögulega sett strik í reikninginn. „Við kvíðum veðrinu ekkert“ sögðu aðstandendur samkomunnar við blaðamenn á meðan undirbúningi stóð. „Við fögnum nú hverjum rigningardeginum fyrir norðan því að dæmin sanna að á eftir mikilli rigningartíð kemur langur þurrkakafli.“ Takmarkaðar áhyggjur aðstandenda hátíðarinnar breyttu ekki því að veðrið varð sá örlagavaldur sem oft vill verða á útisamkomum á Íslandi. Rok, rigning og kuldi setti sitt mark á hátíðina alla þrjá dagana. Aðsóknin varð minni af þeim sökum en gert hafði verið ráð fyrir og meira af unglingum á kostnað fjölskyldufólks sem sennilega hefur kosið að halda sér heima vegna tíðarfarsins.

Lögreglan hafði í nógu að snúast. Þónokkuð var um slys og óhöpp í umdæmi hennar þessa helgi, óhöpp sem sum hver mátti rekja til hátíðarinnar á Melgerðismelum. Talsvert áfengi var gert upptækt sem kom þó ekki í veg fyrir ölvun hjá hluta hátíðargesta.

Leitað var í bílum sem komu á svæðið og fundust t.a.m. 12 vínflöskur í einum og sama bílnum. Gestir fundu þó ýmsar leiðir til að koma áfengi inn á svæðið. Sögur þess efnis að einhverjir hefðu grafið vínflöskur í jörðu á Melunum áður en hátíðin hófst gengu milli manna og þá reyndi einn hátíðargestanna að synda með flösku í beltinu yfir Eyjafjarðarána. Hann missti flöskuna og komst við illan leik yfir ána. Þá þurftu laganna verðir einnig að hlúa að nokkrum köldum og blautum unglingum sem hafði láðst að klæðast eftir veðri.

Leiðinlegt veður kom ekki í veg fyrir að rúmlega 2000 hátíðargestir borguðu sig inn á svæðið og voru þeir mættir til að skemmta sér. Þrátt fyrir veðrið og einhver óhöpp bar mönnum almennt saman um að samkomuhald hefði tekist með miklum ágætum, þökk sé góðum undirbúningi og skipulagi stjórnenda og rúmlega hundrað manna starfsliði hátíðarinnar.

Fjölskylduhátíðin sumarið 1978 var fyrsta og eina sinnar tegundar á vegum Ungmennasambands Eyjafjarðar sem haldin var á Melgerðismelum. Aðstandendur hennar voru fullir bjartsýni um að leikurinn yrði endurtekinn að ári. Af því varð ekki. Hins vegar markaði hátíðin upphafið að samstarfi þriggja menntaskólastúlkna á Akureyri annars vegar og einnar vinsælustu dægurlagahljómsveitar landsins hins vegar. Erna Gunnarsdóttir, Eva Albertsdóttir og Erna Þórarinsdóttir gengu til liðs við Brunaliðið eftir samkomuna á Melunum. Komu þær m.a. við sögu á plötu sveitarinnar Útkall sem kom út árið 1979.

Sótti Akureyri heim og gull í Amsterdam

Liðin eru 110 ár frá heimsókn franskrar konu og föruneytis hennar til Akureyrar. Í júlí 1908 lagðist franska snekkjan El Salvador að bryggju á Akureyri. Um borð var hin 18 ára Virginie Hériot ásamt móður hennar og öðrum meðlimum úr fjölskyldunni og fjölskylduvinum, samtals átta einstaklingum. Hópurinn ferðaðist um Norðurland í um vikutíma, fór m.a. að Dettifossi, í Ásbyrgi og í Mývatnssveit. Túlkur hópsins var Friðrik Rafnar Jónasson frá Hrafnagili en auk þess voru fylgdarmenn með í för og um 50 hross þar að auki.

Hériot átti síðar eftir að verða þekkt kona í Frakklandi og reyndar víðar vegna frammistöðu hennar í siglingum. Í nokkur ár áður en hún kom til Akureyrar hafði hún siglt um heimsins höf á snekkjunni sem var í eigu móður hennar. Á þeim tíma bar snekkjan nafnið Katoomba áður en því var breytt í El Salvador árið 1904. Hériot eignaðist El Salvador árið 1910 þegar móðir hennar gaf henni fleyið í brúðkaupsgjöf . Eftir að hún og eiginmaður hennar skildu árið 1921 eyddi hún flestum stundum á sjónum og í raun allt til æviloka. Hún keppti í siglingum um víða veröld og vann flest þau verðlaun sem hægt var að vinna á hinum ýmsu skútum. Hápunkti íþróttaferilsins náði hún fyrir 90 árum. Hún varð heimsmeistari í siglingum árið 1928 og Ólýmpíumeistari á leikunum í Amsterdam sama ár.

Virginie Hériot slasaðist illa í siglingakeppni í ágúst árið 1932 og lést af sárum sínum um borð í skútunni sinni Ailée II. Hún var 42 ára þegar hún lést.

Segir sagan okkur hvernig við sigrum Króata?

Við vitum að við erum ekki í bestu stöðunni í riðlinum en við höfum engu að tapa. Við munum fórna öllu í þessum leik sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali fyrir leikinn stóra gegn Króatíu á HM í Rússlandi. Orð að sönnu hjá þjálfaranum. Spurningin er hins vegar hverju skal fórna, á hvað skal veðja. Sjálfskipaðir „knattspyrnusérfræðingar“ koma nú í hrönnum fram á sjónarsviðið í aðdraganda lokaleiksins í riðlinum og sitt sýnist hverjum um hvernig best sé að mæta hinu ógnarsterka liði Króata. Sumir kjósa hefðbundna liðsuppstillingu og óbreytt leikkerfi, reynslu og þekktar stærðir meðan aðrir benda á nauðsyn þess að koma með eitthvað nýtt og freista þess að koma Króötunum í opna skjöldu. Grenndargralið heldur sig til hlés þegar kemur að taktík íslenska liðsins og leggur allt sitt traust á Heimi og hans teymi í Rússlandi. Þó er rétt að benda á athyglisverða tölfræði úr sögunni sem mögulega felur í sér lykilinn að góðum árangri á þriðjudaginn.

Á landsliðsferli sínum um miðja 20. öldina skoraði Albert Guðmundsson tvö mörk. Fyrra landsliðsmarkið skoraði hann í leik gegn Noregi sumarið 1947. Markið var fyrsta mark íslenska liðsins í leiknum. Sonur Alberts, Ingi Björn skoraði tvö mörk með landsliðinu rétt eins og faðir hans. Ingi Björn skoraði gegn Norður-Írum í júní árið 1977 og rúmum tveimur vikum síðar skoraði hann í leik gegn Norðmönnum. Bæði mörkin voru fyrstu mörk íslenska liðsins í leikjunum tveimur. Tölfræðin er af sama meiði hjá tengdasyni Inga Björns, Guðmundi Benediktssyni. Tvö mörk skoruð fyrir íslenska landsliðið. Viti menn, fyrra landsliðsmark Guðmundar var fyrsta og jafnframt eina mark íslenska landsliðsins þegar liðið bar sigurorð af Sameinuðu arabísku furstadæmunum sumarið 1994.

Með landsliðinu okkar í Rússlandi er ungur og efnilegur leikmaður sem hefur spilað fimm landsleiki. Hann heitir Albert Guðmundsson, 21 árs gamall leikmaður PSV Eindhoven og líkt og forfeður hans veit hann hvar markið er að finna. Að öðrum kosti væri hann ekki hluti af sterkum leikmannahópi Íslands sem eygir nú tækifæri á að komast í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Albert, sem enn hefur ekkert komið við sögu í leikjunum tveimur gegn Argentínu og Nígeríu, jafnar landsleikjafjölda langafa síns og alnafna ef hann kemur við sögu í leiknum gegn Króatíu. Hann á enn lengra í land með að ná afa sínum Inga Birni og föður sínum Guðmundi. Móðir Alberts, Kristbjörg Ingadóttir, spilaði jafnframt á sínum tíma með kvennalandsliðinu. Þegar kemur að markaskorun fyrir landsliðið hefur hann hins vegar vinninginn. Í leikjunum fimm hefur hann skorað þrjú mörk, öll í sama leiknum gegn Indónesíu. Og rétt eins og í tilfelli föðurins, afans og langafans var fyrsta mark hins unga Alberts Guðmundssonar fyrsta mark íslenska landsliðsins í þeim leik. Af þessum fimm landsleikjum sem nefndir hafa verið til sögunnar vannst sigur í fjórum.

Er Albert Guðmundsson trompið sem Heimir á upp í erminni? Er hann óvænta útspilið sem Króatar þekkja ekki frá fyrri viðureignum þjóðanna á knattspyrnuvellinum síðustu ár? Kannski. Við þekkjum mörg dæmi þess að hæfileikar gangi í erfðir. Við vitum jafnframt að sagan á það til að endurtaka sig. Ef við bætum svo líkindum við erum við mögulega komin með baneitraða blöndu sem jafnvel Króatar hafa engin mótefni gegn. Heimir hefur engu að tapa og verður að færa fórnir til að eiga möguleika á sæti í 16 liða úrslitum. Með því að senda soninn inn á völlinn fyrr en síðar í leiknum getur hann aukið líkurnar á íslensku marki á undan króatísku og þar með íslenskum sigri. Svo segir sagan.

Nígeríumenn þoldu illa kuldann – hvað gera Íslendingar í hitanum?

Fyrsti og eini A-landsleikur Íslands og Nígeríu í karlaflokki fór fram á Laugardalsvelli árið 1981. Í byrjun ársins voru Nígeríumenn nr. 32 á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins á meðan Íslendingar voru í sæti nr. 89. Þó knattspyrna í Afríku hafi ekki verið eins hátt skrifuð árið 1981 og seinna varð raunin, voru Nígeríumenn með nokkuð frambærilegt lið. Liðið hafði t.a.m. unnið Afríkubikarinn árið 1980. Leikurinn við Ísland var hluti að röð æfingaleikja í Evrópu en á þessum tíma var Nígería í harðri baráttu heima fyrir um laust sæti á HM á Spáni sumarið 1982. Nokkrum dögum áður en liðið kom til Reykjavíkur hafði það gert jafntefli 2-2 við Norðmenn í Osló og tapað 0-2 fyrir Sheffield Wednesday í Englandi. Leikurinn gegn Nígeríu var liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir mikilvægan leik gegn Tyrkjum í undankeppni HM í september á Laugardalsvelli. Íslendingar höfðu síðast landað sigri á þjóðarleikvanginum árið 1977 þegar kom að leiknum gegn Nígeríu.

Aðstæður voru afar slæmar þegar dómarinn flautaði til leiks laugardaginn 22. ágúst. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi setti veðrið strik í reikninginn. Kuldi, rigning og ekki fluga á ferð, slíkt var hvassviðrið. Elstu menn í bransanum í Laugardalnum sögðu veðrið hið versta í sögu knattspyrnuiðkunar á Laugardalsvelli eins og því var háttað hálftíma fyrir leik. Þá olli fjarvera Nígeríumanna áhyggjum þegar aðeins hálftími var til leiks. Þeim leist svo illa á veðrið að þeir lögðu ekki af stað frá hótelinu fyrr en 25 mínútum fyrir leik. Þrátt fyrir veðrið og óstundvísi gestanna hófst leikurinn á réttum tíma. Skemmst er frá því að segja að Íslendingar fóru með öruggan sigur af hólmi. Lokatölur leiksins 3-0. Mörk Íslendinga skoruðu þeir Árni Sveinsson, Lárus Guðmundsson og Marteinn Geirsson. Nígeríumenn þoldu illa kuldann. Þeim tókst ekki að aðlagast framandi aðstæðum á Laugardalsvelli. Vissulega hafði veðrið áhrif á leik beggja liða en án nokkurs vafa kom það meira niður á gestunum. „Það er ekki hægt að leika knattspyrnu í slíku veðri. Íslensku leikmennirnir kunnu betur að notfæra sér aðstæður og það réði úrslitum“ sagði þjálfari Nígeríumanna eftir leikinn.

Ólíklegt er, að Nígeríumenn hafi nokkurn tíma leikið knattspyrnu í slíku veðri sem á laugardaginn var, og eflaust leika þeir betri knattspyrnu við betri skilyrði. Þó er ljóst að þeir eru eftirbátar okkar í íþróttinni, en hversu lengi það verður skal ósagt látið. Við skulum vona að Nígeríumenn taki úrslitunum ekki of illa, en sumir áhorfendur töldu að skreiðarsamningar okkar við Nígeríu yrðu e.t.v. ekki endurnýjaðir.“                        

                                                                                                                                    Þjóðviljinn, ágúst 1981

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum fyrsta landsleik gegn Nígeríu fyrir 37 árum. Öllum er ljóst að bilið milli liðanna er annað og minna í dag en árið 1981, um það bera tölur frá styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins glöggt vitni. Þjóðirnar mætast nú öðru sinni á föstudaginn kemur í Rússlandi. Rétt eins og 22. ágúst gæti veðrið orðið örlagavaldur 22. júní. Spáð er allt að 35 stiga hita með tilheyrandi flugnageri. Ólíklegt er að Íslendingar hafi nokkurn tímann leikið knattspyrnu í slíku veðri. Hvað gera Íslendingar í hitanum? Munu aðstæður ráða úrslitum? Nú leggjumst við á bæn og vonum að íslenska liðinu takist að aðlaga sig framandi aðstæðum á knattspyrnuvellinum í Volgograd og nái í þrjú stig. Áfram Ísland!

Eins og gjarnan vill verða þegar landslið Íslands eru valin kom heimabyggð við sögu í leiknum á Laugardalsvelli árið 1981. Akureyringur spilaði sinn fyrsta opinbera landsleik þegar Sigurður heitinn Lárusson kom inn á fyrir Ómar Torfason.