main image

„Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949 ljóslifandi á filmu“

Ég tók viðtal við Málfríði Torfadóttur og las ævisögu Dr. Kristins Guðmundssonar í sumar. Þetta gerði ég í tengslum við hlaðvarpsþættina Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fjalla um veru setuliðsins í fjallinu á stríðsárunum. Í báðum þessum tilvikum beindist athyglin að samskiptum Málfríðar, Kristins og fjölskyldu þeirra við setuliðið. Fyrir nokkrum dögum birtust þau mér á góðri stund með breskum hermönnum, í myndbandi sem breski herinn lét gera á stríðsárunum. Aukinheldur sjást aðrir fjölskyldumeðlimir í myndbandinu sem höfðu komið við sögu í spjalli okkar Málfríðar og í ævisögu Dr. Kristins.

Málfríður lýsti fyrir mér hversu Bretarnir hrifust af litlu stúlkunni með ljósu lokkana og hvernig þeir óskuðu eftir því að fá að halda á henni. „Við eigum nefnilega eina svona heima í Englandi“ sagði hún mér að þeir hefðu sagt við heimilisfólkið á bænum. Kristinn lýsir erfiðu hlutskipti foreldranna í ævisögu sinni þegar þeir þurftu að hlúa að köldum og hröktum setuliðsmönnum sem höfðu lent í hrakningum í Hlíðarfjalli. Að vera búinn að heyra og lesa þessar sögur og fleiri til sem gerðust fyrir 80 árum síðan og sjá svo litlu stúlkuna með ljósu lokkana, manninn sem vann náið með breska setuliðinu á Akureyri og gömlu hjónin sem hlúðu að hætt komnum setuliðsmönnum í Hlíðarfjalli – lifna við á tölvuskjánum – þótti mér alveg stórmerkilegt.

Ég hafði samband við Önnu Kristínu Arnarsdóttur. Hún er dóttir Málfríðar og hafði milligöngu um fund okkar Málfríðar í sumar. Ég vildi láta hana og fjölskyldu hennar vita af þessari skemmtilegu uppgötvun. Eftir að hafa horft á myndbandið fékk ég svar frá Önnu Kristínu.

Þúsund þakkir fyrir þetta Brynjar. Ég bara táraðist. Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949, ljóslifandi á filmu. Ég hef aldrei séð hann áður á kvikmynd. Bræður hans afa, Dr. Kristinn og Sigfreður eru þarna líka og ættin hennar mömmu eins og hún leggur sig. Konan sem stendur með arm hermanns um axlir heitir Sigþrúður. Mamma sagði mér að hann hefði verið svolítið skotinn í henni. Ég verð að skjótast í dag til mömmu og pabba og leyfa þeim að sjá.

Eftir að Anna Kristín hafði sýnt foreldrum sínum myndbandið seinna þennan sama dag og rætt við þau um fræga ljósmynd sem minnst var á í greininni á undan, fékk ég skilaboð frá henni.

Foreldrum mínum þótti virkilega gaman að sjá myndböndin í dag og ekki laust við að pabba vöknaði um augun að sjá mömmu trítla þarna. Honum fannst líkleg kenningin um að þetta hefði verið sett upp þ.e. af Kristni. Mamma sagði að amma hefði ekki viljað tala við Þór Whitehead um ljósmyndina á sínum tíma, þ.e. ekki gefa neitt upp…hún var mjög spes kona og átti erfiðar minningar vegna ótímabærs fráfalls afa míns. Mamma var spennt yfir myndbandinu en setti pínu hljóða. Kannski skrítið að sjá pabba sinn ljóslifandi og aðra nána ættingja. Hún man eftir pabba sínum en hún var 10 ára þegar hún missti hann. Mamma og pabbi voru mikið að velta fyrir sér hvers vegna hin amma hennar hefði verið í Lögmannshlíð (þessi með gleraugun). Kannski bara til að hitta mömmu og Daney ömmu mína. Þeim fannst það reyndar ekki ósennilegt að það hefði verið út af myndatökunum þar sem Torfi var tengdasonur hennar og túlkur hersins og þess vegna hefði fjölskyldunni verið hóað saman.

Sagan af áróðursmyndbandi breska hersins er dæmi um eina af mörgum spennandi hliðarsögum sem skutu upp kollinum við gerð fyrrnefndra hlaðvarpsþátta. Hliðarsögur sem mér finnst að eigi erindi. Margt áhugavert kemur í ljós í sögugrúskinu, nú síðast myndin í upphafi greinarinnar af setuliðsmönnunum á hertrukknum framan við Lögmannshlíðarkirkju. Hún er greinilega tekin við sama tækifæri og myndbandið. Það fer ekki framhjá neinum sem ber þetta tvennt saman. Myndina fann ég í netheimum klukkustund áður en ég kláraði þennan greinarstúf. Hana hef ég aldrei séð áður svo ég velti því fyrir mér hvort fleiri myndir frá samkomunni í Lögmannshlíð á stríðsárunum leynist á safni í London.

Sagan um myndbandið er líka gott dæmi um hvernig ólíkir sögulegir atburðir geta tengst -atburðir sem við fyrstu sýn virðast eiga lítið sameiginlegt. Frægur hershöfðingi sem stýrði atburðarásinni í Dunkirk í Frakklandi í maí og júní 1940. Hvaða erindi á hann til Akureyrar og í Hörgárdal í október sama ár? Er tilviljun að hann er sögumaður í myndbandi sem ætlað er að skapa jákvætt viðhorf gagnvart dvöl breska hersins á Íslandi? Myndbandi sem gefið er út tveimur mánuðum eftir veru hans hér á landi. Við nánari athugun kemur í ljós að fjölskylda í nágrenni Akureyrar spilar stóra rullu í myndbandinu án hennar vitundar þar til nú. Það eru stóru tíðindin í þessu öllu saman. Fólk og athafnir þeirra sem horfið var í gleymskunnar dá, lifnar við áratugum síðar. Sagan er ekki „history“, hún er hluti af samtímanum, hún skiptir fólk máli og hún er lifandi. Myndbandið af fjölskyldunni í Lögmannshlíð er skýrt dæmi um það.

Fjölskylda í Lögmannshlíð birtist í myndbandi breska hersins

Í lok september árið 1940 birtu staðarblöð á Akureyri tilkynningu þess efnis að breska setuliðið væri búið að opna skrifstofu á Ráðhústorgi 7. Skrifstofan bar heitið Hirings and Complaints Office – Northern Iceland. Þangað áttu þeir að leita sem vildu kvarta undan setuliðinu svo sem vegna skemmda á eigum, skaðabótakrafna og annars konar deilumála.

Þriggja manna nefnd var fengið að skera úr um mál sem skrifstofunni bárust. Í nefndinni sátu tveir yfirmenn í breska herliðinu og Dr. Kristinn Guðmundsson síðar utanríkisráðherra og ambassador. Gera má því skóna að Kristinn hafi þannig verið í aðstöðu til að eiga í nánari samskiptum við yfirmenn breska setuliðsins en tíðkaðist hjá hinum almenna bæjarbúa þess tíma.

Dr. Kristinn kom nokkuð við sögu í hlaðvarpsþáttunum Leyndardómar Hlíðarfjalls sem Sagnalist gaf út í sumar. Einn af viðmælendum í þáttunum er Málfríður Torfadóttir, fædd í apríl 1939. Og það er hérna sem málið tekur óvænta en afar skemmtilega stefnu.

Títtnefndur Kristinn var föðurbróðir Málfríðar. Stjórnanda hlaðvarpsþáttanna, þeim hinum sama og þessi orð ritar, var kunnugt um skyldleika þeirra á meðan vinnu við gerð þáttanna stóð vegna ljósmyndar sem tekin er í hlíðinni ofan Akureyrar og margir þekkja frá fyrri tíð. Myndin sýnir Málfríði í fangi móður sinnar þar sem þær eru umvafnar fjölskyldumeðlimum og tveimur setuliðsmönnum. Myndin hefur víða birst opinberlega í gegnum tíðina, bæði í bókum og blöðum. Kristinn er ekki á myndinni en hún varð engu að síður tilefni samtals okkar Málfríðar um hann þegar við hittumst vegna þáttagerðarinnar. Þannig fékk ég vitneskju um fjölskyldutengsl þeirra tveggja.

Fyrir tilviljun horfði ég núna um nýliðna helgi á gamalt áróðursmyndband á youtube sem breski herinn lét gera árið 1940 um veru setuliðsins hér á landi. Myndbandið sem um ræðir er hið sama og Grenndargralið hefur áður fjallað um í tengslum við heimsókn Gort lávarðar til Akureyrar. Ég kunni engin deili á fólkinu eða umhverfinu á meðan ég horfði á myndbandið en fannst þó sem ég kannaðist við eitthvað. Ég áttaði mig samt ekki á því hvað það var. Í myndbandinu má sjá setuliðsmenn blanda geði við íslenskt sveitafólk á öllum aldri á bæjarhlaði úti í sveit. En hvar? Og hvaða fólk var þetta?

Eitt augnablik fannst mér sem ákveðin líkindi væru með myndbandinu og ljósmyndinni án þess að átta mig á í hverju þau fælust. Ég sótti bók með myndinni í og bar saman til að taka af allan vafa. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Sama fólk var á myndinni og í myndbandinu sem tekið var í Lögmannshlíð ofan Akureyrar og sýnir heimilisfólkið á bænum. Greina má Lögmannshlíðarkirkju í bakgrunni. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru Málfríður og Kristinn föðurbróðir hennar auk fleiri fjölskyldumeðlima. Kristinn átti Lögmannshlíð sem líklega skýrir staðsetninguna en bróðir hans Sigfreður rak búið. Foreldrar þeirra bræðra bjuggu hjá Sigfreði og eiginkonu hans Sigþrúði.

Stórfjölskyldan er meira og minna öll spígsporandi í myndbandinu, fáeinum metrum austan og ofan við kirkjuna og í sínu fínasta pússi. Ekki er óvarlegt að álykta sem svo að henni hafi þarna verið hóað saman vegna myndatökunnar. Kannski fyrir tilstuðlan Kristins vegna tengsla hans við breska setuliðið og/eða vegna Torfa, föður Málfríðar sem einnig bregður fyrir í myndbandinu og starfs hans sem túlkur hjá hernum. Ekki er þó hægt að fullyrða nokkuð um það. Gort lávarður og föruneyti hans var statt á Akureyri 21. október 1940, u.þ.b. mánuði eftir að Kristinn tók til starfa í nefndinni sem áður var nefnd.

Vegna þess að Málfríður birtist í myndbandinu er hægt með góðu móti að tímasetja það. Myndbandið er tekið sumarið eða haustið 1940 og því ekki útilokað að það hafi gerst á meðan Gort dvaldist á Akureyri. Ef ekki, þá er í það minnsta víst að það er tekið skömmu áður en hann kom til landsins og engum vafa undirorpið að það var notað í áróðursskyni. Vafalítið hefur það komið fyrir augu fjölmargra Breta á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Smelltu á myndina hér að neðan til að horfa á aðra útgáfuna af myndbandinu. Fjölskyldan í Lögmannshlíð birtist á 1:15.

Smelltu á myndina hér að neðan til að horfa á hina útgáfuna af myndbandinu. Fjölskyldan í Lögmannshlíð birtist á 0:24.

Ég hafði samband við dóttur Málfríðar til að láta hana og hennar fólk vita af tilvist myndbandsins. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Segir af því síðar.

 

Framhald…

 

 

Hvað var tígurinn í Dunkirk að gera á Akureyri?

Árið 1940 kom breskur herforingi í eftirlitsferð til Íslands. John Standish Surtees Prendergast Verekerv gekk jafnan undir nafninu Gort lávarður (Lord Gort), stundum kallaður „Tiger“ Gort af óbreyttum hermönnum. Hann varð æðsti maður breska heraflans í Evrópu í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar eftir að Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta skipaði hann til starfans.

Gort fór ásamt herliði sínu til Frakklands í september árið 1939 til stuðnings franska hernum ef til innrásar Þjóðverja kæmi sem svo varð raunin í maí 1940. Bretarnir áttu við ofurefli að etja í Frakklandi. Að ráði Gort dró breska herliðið sig til baka, til Dunkirk á norðurströnd Frakklands þaðan sem breskir hermenn voru fluttir á fjölmörgum smábátum og skipum til Englands.

Æ síðan hefur Gort lávarður ýmist verið gagnrýndur eða hylltur fyrir ákvörðun sína um að hörfa og koma mönnum sínum heim. Að öðrum kosti hefðu um 340 þúsund breskir hermenn líkast til verið stráfelldir af vígreifum nasistum.

 

Tæpum fimm mánuðum eftir atburðarásina í Dunkirk steig Gort á land í Reykjavík. Hann dvaldist hér á landi um tveggja vikna skeið í lok október og hafði aðsetur á Hótel Borg. Þó er vitað að hann ferðaðist út fyrir borgarmörkin á meðan dvöl hans stóð. Fréttatilkynningar í íslenskum blöðum voru á einn veg – ástæður heimsóknar hans til Íslands voru ókunnar.

Skjalfest er að Gort kom til Akureyrar mánudaginn 21. október. Í dagblaðinu Íslendingi sem kom út 25. október segir; Gort lávarður sem var yfirhershöfðingi Breta í Frakklandi s.l. vor, er kominn hingað til lands. Til Akureyrar kom hann á mánudaginn var, og hafði brezka setuliðið ýmsan viðbúnað til að gera móttökur hans sem virðulegastar.

Grenndargralið komst á snoðir um heimild í netheimum sem sýnir að Gort heimsótti herbúðir Breta í Hörgárdal. Í herdagbók Hallamshire-herdeildarinnar bresku sem staðsett var á Djúpárbakka segir;  General The Viscount Gort V.C. Inspector General of Training visits area (October 1940). Gort lauk Íslandsferð sinni þegar hann kom heim til Englands í byrjun nóvember.

Í desember 1940 kom út kynningar- og /eða áróðursmyndband á vegum breska hersins um Ísland og veru hersins hér á landi. Í upphafi myndbandsins situr sjálfur Gort lávarður við skrifborð og tilkynnir að hann sé nýkominn frá Íslandi. Í myndbandinu má sjá setuliðsmenn við leik og störf á Íslandi og samskipti þeirra við innfædda.

Gaman er að velta fyrir sér hvort föruneyti Gort hafi tekið kvikmyndavélar með sér til Íslands. Í það minnsta má greina myndbrot í myndbandinu sem tekið er í Hörgárdal. Hvort það er tekið upp á meðan heimsókn hans í búðunum í dalnum stóð skal ósagt látið. Hvað heimsókn hans til Akureyrar varðar, þá er ekki ósennilegt að hann hafi heilsað upp á setuliðsmenn í herbúðunum við Rangárvelli og/eða Lónsá í Kræklingahlíð. Svo skemmtilega vill til að Kræklingahlíð skartar sínu fegursta í umræddu myndbandi.

Kann að vera að tilgangur ferðalags Gort lávarðar hingað til lands hafi öðrum þræði verið að útbúa áróðursmyndband um dvöl breska hersins á Íslandi fyrir almenning í Bretlandi? Var ætlunin með myndatöku af íslenskri stórfjölskyldu í Kræklingahlíð í sparifötunum sú að sýna fram á góð samskipti Íslendinga við breska herinn? Erfitt er að segja til um það. Vísbendingar eru þó um að myndatakan í Kræklingahlíð gæti hafa farið fram á sama tíma og Gort lávarður var staddur á Akureyri.

Framhald…

Brennsluofnar setuliðsins fundnir í Hlíðarfjalli?

Síðasti leiðangur Varðveislumanna minjanna á þessu ári á slóðir setuliðsins í Hlíðarfjalli var farinn í dag. Á nokkrum stöðum í fjallinu má finna gjallklumpa og kolamola í hrúgum á yfirborði jarðar. Tilgáta hefur komið fram í kjölfar leiðangra Varðveislumanna minjanna þess efnis að setuliðsmenn sem voru við heræfingar í fjallinu hafi komið sér upp sérstökum brennsluofnum til að losa sig við ýmiskonar hergögn.

Grafin var tilraunauhola í dag á einum af þessum stöðum. Skemmst er frá því að segja að prufuuppgröfturinn skilaði ýmsu áhugaverðu upp á yfirborðið eftir 80 ára veru í jörðinni. Meðal þess sem leit dagsins ljós var postulínsbrot af diski sem og skósóli og aðrir hlutar af því sem ætla má að hafi verið hermannastígvél. Þá fundu Varðveislumenn tuttugu og eina byssukúlu í dag en svo margar kúlur hafa ekki áður fundist í einum og sama leiðangrinum.

Svo virðist sem umsvif hermanna í Hlíðarfjalli í seinni heimsstyrjöldinni hafi verið umtalsverð og margfalt meiri en áður var talið. Varðveislumenn minjanna munu halda áfram að freista þess að svipta hulunni af leyndardómum Hlíðarfjalls að ári liðnu. Allir áhugasamir eru boðnir velkomnir í hóp Varðveislumanna minjanna.

Bresk skothylki finnast í mýrarpolli

Hlíðarfjall heldur áfram að afhjúpa leyndardóma sína. Varðveislumenn minjanna fundu fjölmörg bresk skothylki í dag á kafi í mýrarpolli á sama stað og fjölmargir aðrir gripir úr fórum setuliðsins hafa fundist síðustu ár við rætur fjallsins. Ástand hylkjanna er misjafnt eftir að hafa legið í mýrinni í 80 ár eða frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Nokkuð ljóst þykir að setuliðsmenn sem voru við æfingar í fjallinu hafi safnað saman skothylkjum og komið þeim fyrir í mýrinni. Spurningin er hins vegar hver tilgangurinn með því var. Ef hann var þá einhver.

Byssurnar frá Hlíðarfjalli – Guns of mountain Hlidarfjall

Hér að neðan getur að líta myndir af skotfærum þeim sem fundist hafa í Hlíðarfjalli og vopnunum sem þau tilheyra og talið er að setuliðið hafi notað við æfingar þar.

Ný gerð skotfæra úr Hlíðarfjalli kemur í ljós við tiltekt

Varðveislumenn minjanna hafa í leiðöngrum sínum í Hlíðarfjalli undanfarin sumur fundið tvær gerðir riffilskota og byssukúlur úr skammbyssu eða hríðskotabyssu. Við yfirferð og flokkun á munum úr fórum setuliðsins sem fundist hafa í fjallinu og Varðveislumenn minjanna hafa tekið í sína vörslu, kom óvænt lítil patróna í leitirnar. Patrónan fannst í fjallinu ásamt öðrum smámunum sumarið 2019 og fór í geymslu eins og aðrir munir úr þeim leiðangri, án þess að leiðangursmönnum væri ljóst að þarna væri um skotfæri að ræða.

Eftir að grunur kom upp um að hér væri enn ein gerðin af skotfærum á ferðinni var hafist handa við að greina litla járnhólkinn. Svo virðist sem um svokallað rimfire skothylki sé að ræða af gerðinni .22 Long. Skothylkin voru fyrst framleidd árið 1871 í Bandaríkjunum og eru enn í framleiðslu. Á sínum tíma voru þau bæði notuð í riffla og skammbyssur. Patrónan litla sem er aðeins 15 mm að lengd er fjórða tegundin af skotfærum sem finnst í æfingabúðum setuliðsins við rætur Hlíðarfjalls.

Ný gerð af byssukúlum fundust í Hlíðarfjalli

Varðveislumenn minjanna fundu nýja tegund af byssukúlum í leiðangri sínum upp í Hlíðarfjalli í dag. Á dögunum fundust byssukúlur eins og kúlurnar tvær til vinstri á myndinni. Í dag komu styttri byssukúlur í leitirnar og sverari en þær má sjá til hægri á myndinni. Verið er að rannsaka uppruna þeirra en ekki er ólíklegt að þarna sé um að ræða kúlur úr skammbyssu eða M1A1 Thompson hríðskotabyssu. Þrjár kúlur af þessari gerð fundust í leiðangrinum í dag.

Leyndardómar Hlíðarfjalls

 

Smelltu á myndina hér að ofan

Byssukúla úr seinni heimsstyrjöldinni fannst í Hlíðarfjalli

Á dögunum fóru starfsmenn Sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar upp í Hlíðarfjall vegna fjölda sprengjubrota sem þar fundust. Vinna við gerð hlaðvarpsþátta sem segja sögu setuliðsmanna í fjallinu á hernámsárunum er nú á lokametrunum. Ýmsir merkilegir gripir hafa fundist í fjallinu í tengslum við þáttagerðina m.a. áðurnefnd sprengjubrot.

Brynjar Karl Óttarsson höfundur þáttanna var í lokaleiðangri sínum í fjallinu áður en þættirnir fara í loftið þegar hann fann byssukúlu nálægt þeim stað þar sem sprengjubrotin fundust. Áður hafa á þriðja hundruð skothylki (patrónur) fundist við rætur fjallsins. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem byssukúla finnst. Hér er því um tímamótafund að ræða á æfingasvæði setuliðsmanna í Hlíðarfjalli í seinni heimsstyrjöldinni.

Fyrsti þáttur af Leyndardómum Hlíðarfjalls fer í loftið fimmtudaginn 27. ágúst.