Bók merkt þjóðskáldi fannst í kassa

Við skoðun á bókakössum sem árum saman hafa verið í geymslurými á Akureyri kom áhugaverð gömul skrudda í ljós. Bók með nafni Matthíasar Jochumssonar, ritað með penna. Bókin heitir Supplement til Islandske Ordbøger gefin út á síðasta áratug 19. aldar. Höfundur bókarinnar er Jón Þorkelsson. Jón var um tíma kennari við Lærða skólann og síðar rektor hans. Á Þjóðminjasafninu er til gömul ljósmynd sem sýnir þessa tvo heiðursmenn saman í fremstu röð kennara skólans með nemendur að baki sér. Myndin er tekin nokkrum árum áður en bókin kom út. Óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort Matthías hafi átt bókina. Handskrifað nafn hans á saurblaði bókarinnar bendir til þess. Ef skrift þess er skrifaði nafnið er borin saman við undirskrift Matthíasar frá árinu 1917 verður ekki annað séð en bókin hafi verið í eigu þjóðskáldsins.

Jón Þorkelsson (til vinstri) og Matthías Jochumsson (til hægri). 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd