Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – Coca Cola
Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga með hátt á fjórða hundrað manns við störf. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.
Ófáar eru glerflöskur setuliðsmanna sem fundist hafa í Eyjafirði á undanförnum árum. Með áhugaverðari gripum sem fundist hafa á Hrafnagili eru heilar Coca cola flöskur. Fyrir utan tvö eða þrjú glerbrot af Coca Cola flöskum sem höfðu komið í leitirnar, var fátt sem benti til þess að hermenn á Akureyri og í nágrenni hefðu drukkið gosdrykkinn að einhverju marki. Eftir að fyrsta flaskan leit dagsins ljós á Hrafnagili fyrir nokkrum dögum síðan, brutu þær sér leið fram í dagsbirtuna hver af annarri, allar á sama blettinum. Þegar upp var staðið voru Coca Cola flöskurnar sex talsins.
Upphaf Coca Cola drykkjarins nær aftur til seinni hluta 19. aldar. Flaskan, eins og við þekkjum hana í dag með sínu svokallaða Hobbleskirt design, kom fyrst á markað árið 1916. Fyrsta „týpa“ Coke-flöskunnar er merkt „NOV.16. 1915“ sem vísar í daginn sem einkaleyfi fékkst fyrir Hobbleskirt design. Frumgerðin var í framleiðslu til ársins 1928 þegar önnur útgáfa var sett í umferð. Sú gengur undir nafninu „jólaflaskan“ (Christmas Bottle) og var hún í framleiðslu til ársins 1938. Nafnið er tilkomið vegna endurnýjunar einkaleyfis á jóladag, þann 25. desember 1923. Framleiðslan hófst þó ekki fyrr en fimm árum seinna. Coca Cola flöskur sem framleiddar eru á þessu tíu ára tímabili eru þannig auðþekktar á merkingunni „DEC.25. 1923“. Ári áður en seinni heimsstyrjöldin braust út, var einkaleyfið endurnýjað í annað sinn og þriðja útgáfan sett í umferð. Sú fékk merkinguna „PAT.D-105529“ (D-Patent Bottle) og var hún framleidd þar til einkaleyfið fyrir hana rann út árið 1951. Að undanskildum merkingunum líta Coke-flöskurnar frá þessum þremur tímabilum eins út. Það var svo árið 1957 sem fyrst var gerð breyting á útliti Coke-flöskunnar þegar stafirnir á henni voru málaðir hvítir.
Ef marka má timarit.is birtust fyrstu Coca Cola auglýsingarnar í blöðum sem gefin voru út á íslensku, í tímaritum Íslendinga í Norður-Ameríku á árunum 1918 og 1919. Auglýsing í Lögbergi á fullveldisárinu var á ensku, ári síðar birtist önnur í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar með mynd af fyrstu týpu Hobbleskirt design-flöskunnar. Fyrstu fréttir af sölu á Coke á Íslandi fyrir Íslendinga komu fyrir sjónir landsmanna í dagblöðum sumarið 1942. Mikil blaðaskrif urðu um hvernig að málum var staðið þegar veitt var umboð fyrir drykkinn á Íslandi. Svo virðist sem einhverjum hafi fundist málið lykta af pólitískri ívilnun og spillingu. Ekki verður annað sagt en að sumar af þeim greinum sem skrifaðar voru í íslenskum dagblöðum og tímaritum um Coca Cola það sem eftir lifði stríðsáranna, laði fram bros á vör. Í greinunum er m.a. velt upp hvort þessi nýi drykkur frá Ameríku innihaldi kókaín og hvort hann sé áfengur.
Coca Cola var vinsæll drykkur á meðal bandarískra hermanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hvort sem um var að ræða átakasvæði í Frakklandi og Japan eða á rólegri slóðum Nýja-Sjálands og Íslands, alls staðar mátti sjá hermenn með Coca Cola flöskur. Mikil neysla og útbreiðsla á stríðsárunum er þó einnig tilkomin vegna ákvörðunar forstjóra fyrirtækisins að bjóða hverjum amerískum dáta Kók á kostakjörum á kostnað fyrirtækisins, hvar sem var í heiminum á meðan stríð geisaði – “every man in uniform gets a bottle of Coca-Cola for five cents, wherever he is and whatever it costs the company”. Auglýsingaskilti fyrir Coca Cola spruttu fram á hverju götuhorni. Jafnvel sjálfur Eisenhower hershöfðingi kallaði sérstaklega eftir samstarfi við Coca-Cola Company árið 1943. Honum varð ljóst að drykkurinn létti lundina og gæti með því lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að efla baráttuandann. Styrjöldin átti þannig stóran þátt í að kynna Kók fyrir heimsbyggðinni. Flöskurnar á Hrafnagili eru á meðal fimm milljarða Kók-flaskna sem amerískir hermenn og annað starfsfólk hersins um allan heim drakk úr á stríðsárunum. Sex flöskur í liði „flöskunnar sem fór af stað í stríð árið 1941 og endaði með því að sigra heiminn“.
Eitt sem einkennir Kók-flöskurnar frá árunum í kringum seinna stríð er græni liturinn á glerinu, svokallaður Georgia-grænn. Hann er nefndur eftir ríkinu þar sem Coca Cola Company var stofnað. Á fyrri hluta 20. aldar var hráefni til að vinna glerið sótt í tiltekna námu sem fyrirtækið hafði á snærum sínum. Náman var rík af kopar og skýrir það græna litinn. Annað sem einkennir flöskurnar er botninn. Ólíkt flestum flöskum er botninn merktur borg eða bæ í Bandaríkjunum sem gefur til kynna hvert viðkomandi flaska fór í sölu. Fjórar af flöskunum frá Hrafnagili eru af gerðinni PAT.D-105529. Þær eru framleiddar á árunum 1938-1951 í Chattanooga Glass Company í Tennessee. Tvær eru merktar NEW YORK á botninum, ein er merkt BOSTON MASS[ACHUSETTS] og loks ein merkt HARTFORD CONN[ECTICUT]. Hinar tvær eru eldri, svokallaðar „jólaflöskur“ með merkinguna DEC.25. 1923 sem segir okkur að þær hafi verið framleiddar á árunum 1928-1938. Önnur er framleidd í Owens-Illinois Glass Company. Báðar eru þær frá árinu 1935. NEW YORK er skráð á botni annarrar. Botninn á hinni er merktur PROVIDENCE R.I. ( RHODE ISLAND).
Græni liturinn á Kók-flöskunum gefur jafnframt til kynna að þær hafi verið hugsaðar til almennrar notkunar en ekki framleiddar sérstaklega fyrir bandaríska hermenn. Coca Cola lét útbúa coke-flöskur sérstaklega fyrir bandaríska herinn í seinni heimsstyrjöldinni. Þær eru glærar og án merkinga á botninum. Þannig hafa flöskurnar Á Hrafnagili líklega verið sendar í verslanir í fyrrnefndum borgum áður en Bandaríkin urðu þátttakendur í stríðinu en í krafti endurnýtingar og skilagjalds, dúkkað upp í nágrenni Akureyrar á stríðsárunum og lokið hlutverki sínu þar með. Ekki aldeilis. Endurnýtingin er enn í fullu gildi. Nú hefst nýtt líf Kók-flasknanna sex frá Hrafnagilsspítala.
Leikarinn Rami Malek fær sér sopa af Coca Cola í þáttunum The Pacific frá árinu 2010. Flaskan er glær og án merkinga á botninum.
Leikarinn James Badge Dale í The Pacific með græna Coce-flösku.
The Pacific.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd