main image

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – leirtau

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga og haft hátt á fjórða hundrað manns í vinnu. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Hvít postulínsbrot merkt breska og ameríska hernum hafa fundist í töluverðu magni á Hrafnagili. Fyrst skal nefna þau bresku til sögunnar. Merkingar á þeim gefa til kynna að breski herinn hafi útvegað borðbúnað frá fleiri en einum aðila. Hvort starfsfólk allt og sjúklingar hafi snætt af og drukkið úr svo fagurlega skreyttum diskum og bollum skal ósagt látið. Hvað sem því líður þá er ljóst að á Hrafnagili hafa einhverjir borðað af diskum merktum fyrirtækjunum „Ashworth & Bros.“ og „Salisbury Crown China Co“. Bæði fyrirtækin koma frá borginni Stoke í Englandi en þar liggja rætur leirkeragerðar í Englandi og gengur Stoke því oft undir nafninu The Potteries. Ashworth & Bros. hefur frá árinu 1862 framleitt diska, bolla og fleira í þeim dúr. Samningur milli fyrirtækisins og breska ríkisins um framleiðslu og sérmerkingar á vörum fyrir breska herinn var í gildi á stríðsárunum. Til aðgreiningar frá vörum á almennum markaði var sérstakt merki stimplað á borðbúnaðinn ásamt ártali – bókstafurinn W inn í tígli. Annað og enn skemmtilegra merki sem greina má á bresku postulínsbrotunum á Hrafnagili er fangamark (Royal cypher) Georgs 6. Bretakonungs (ríkisár 1936-1952). Allt frá tímum Hinriks 8. hafa drottningar og konungar Bretlands skartað þeirra eigin konunglega fangamarki. Fangamark Georgs 6. er Tudor kórónan með skrautstafina G (George) og R (Rex (latína fyrir king / ruler)) og rómversku tölustafina VI á milli þeirra. Fangamark Elísabetar heitinnar Bretadrottningar inniheldur St. Edward´s kórónuna. Til gamans má geta þess að fangamark Karls 3. Bretakonungs var afhjúpað fyrir ekki svo löngu. Þar birtist Tudor kórónan aftur. Gárungarnir segja að Karl sé þarna vísvitandi að vísa til afa síns og áranna sem hann ríkti sem konungur.

Postulínsbrotin frá borðbúnaði ameríska hersins eru töluvert fleiri en þau bresku á Hrafnagili. Kannski var notkun hans þar almennari en þess breska. Ólíkt bresku brotunum þá hafa þau amerísku öll sömu merkingarnar – enn sem komið er; „Shenango China Newcastle. PA. U.S. Army Medical Dept. 1941.“ Shenango China var stofnað árið 1901 í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum en sameinaðist öðru fyrirtæki, New Castle Pottery Company árið 1912. Árið 1936 óskaði hinn frægi franski postulínsframleiðandi Haviland & Co. eftir samstarfi við Shenango China Newcastle. Samstarfið skilaði sér m.a. í framleiðslu á leirtaui fyrir Hvíta húsið í forsetatíð Franklin D. Roosevelt og Harry S. Truman sem og minjagripum vegna komu Georgs 6. Bretakonungs og konu hans Elísabetar drottningar á heimssýninguna í New York árið 1939. Amerísku brotin á Hrafnagili eru með tveimur misbreiðum borðum og merki sjúkradeildar ameríska hersins, allt í rauðum lit. Merkið er tekið úr grískri goðafræði, tveir snákar sem vefja sig utan um vængjaðan sprota, The Caduceus. Bandaríski herinn hefur notað merkið sem tákn fyrir sjúkradeild hersins frá árinu 1902. Utan um merkið er hringur með áletruninni UNITED STATES ARMY MEDICAL DEPARTMENT. Amerísku brotin eru ýmist af diskum, bollum eða skálum.

 

Myndir: Varðveislumenn minjanna og Daily Mail.