Hulu svipt af tveimur ljósmyndum frá hernámsárunum

Fyrir ári síðan greindi Grenndargralið frá því að Varðveislumenn minjanna væru komnir á slóð herdeildar úr seinni heimsstyrjöldinni í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Forsaga málsins var sú að VM töldu sig þekkja kennileiti á ljósmyndum og í kvikmynd sem sýndu norska skíðaherdeild við æfingar í vetrarhernaði í fjallinu á stríðsárunum.

Í framhaldi af því voru farnir leiðangrar upp fjallið með ljósmyndirnar í farteskinu til að kanna hvort mögulegt væri að finna einhverja af þeim stöðum sem sjást á myndunum og þannig rekja slóð herdeildarinnar. Væntingum var þó stillt í hóf því erfitt var að átta sig á kennileitum í snævi þöktum hlíðunum. Svæðið er víðfeðmt og mörgum stöðum í fjallinu svipar til hvers annars, ekki síst þegar hvítur snjórinn hylur stóran hluta yfirborðsins. Engu að síður fannst samsvörun ekki svo langt frá Skíðahótelinu (sjá hér).

Varðveislumenn fundu nýlega aðra samsvörun (sjá myndir að neðan). Í þetta skiptið eru tjaldbúðirnar mun ofar í hlíðinni eða við rætur fjallsins. Á annarri myndinni má sjá á þriðja tug hermanna með skíðabúnað, ýmist klæddir dökkum fötum eða hvítum felubúningum. Ljósmyndarinn beinir myndavél sinni til norðurs. Á hinni myndinni sjást þrír hundar í fylgd með setuliðsmönnum. Vaðlaheiði er í bakgrunni. Staðsetningin er í samræmi við niðurstöður úr könnunarleiðöngrum Varðveislumanna. Á undanförnum árum hafa þeir fundið mikið magn skotfæra á þessu tiltekna svæði.

Ljósmyndirnar tvær eru í eigu Minjasafnsins á Akureyri. Þær og fleiri myndir af fjallaferðum setuliðsmanna má finna á www.sarpur.is.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd