Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa vélarinnar?

ATHUGIÐ. NÝJAR UPPLÝSINGAR HAFA KOMIÐ FRAM EFTIR AÐ EFTIRFARANDI FRÁSÖGN FÓR Í LOFIР SEM SÝNA MEÐ ÓYGGJANDI HÆTTI HVAÐA HLUTVERKI SMELLURNAR GEGNDU. ÞÆR HAFA EKKERT MEÐ SJÚKRAKASSA VÉLARINNAR AÐ GERA. UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ ER VÆNTANLEG.

Grenndargralið hefur fjallað töluvert um John G. Kassos, amerískan orrustuflugmann sem fórst í flugslysi á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1942 og rannsóknir Varðveislumanna minjanna á vettvangi slyssins. Fjöldinn allur af smáhlutum sem tilheyrðu flugmanninum unga og vélinni hans P-39 Airacobra fannst síðastliðið sumar á staðnum þar sem vélin brotlenti. Um suma munina leikur enginn vafi á hvaða hlutverki þeir þjónuðu. Aðrir eru sveipaðir meiri dulúð. Tveir smágerðir málmgripir, sömu gerðar, sem minna á einhvers konar smellur hafa valdið nokkrum heilabrotum.

Varðveislumenn sem hafa stundað athuganir á Melgerðismelum hafa klórað sig nokkuð í höfðinu yfir þessum tveimur litlu málmhlutum. Þeir fundust á sama stað og nokkrir persónulegir munir John Kassos og raunar hluti af flugstjórnarklefa vélarinnar. Ýmsar tilgátur hafa komið fram um eðli og gagnsemi þeirra. Eru þeir hluti af fatnaði flugmannsins? Eða kannski smellur af dúk til að hlífa stjórnbúnaði í flugstjórnarklefa vélarinnar? Hingað til hafa fáar sem engar vísbendingar komið fram sem segja af eða á um notagildið.

Nýjar upplýsingar gætu þó mögulega varpað ljósi á málið. Mynd sem sýnir stjórnklefa P-39 kom Varðveislumönnum á sporið. Myndin varð kveikjan að frekari leit að upplýsingum á netinu. Í kjölfarið hefur komið fram tilgáta um hvaða hlutverk gripirnir tveir höfðu í flugvélinni í hinu afdrifaríka eftirlitsflugi John George Kassos þann 25. ágúst 1942. Ef tilgátan stenst athuganir er hér um festingar að ræða til að festa sjúkrakassa flugvélarinnar á vísum stað, n.t.t. á vinstri hurð vélarinnar.

Margar útgáfur af P-39 voru framleiddar fyrir stríð og á stríðsárunum sem og vélar af gerðinni P-63 Kingcobra sem voru um margt líkar P-39. Breytingar urðu á hönnun og útliti vélanna á milli ára og því ekki á vísan að róa þegar kemur að því að bera saman ólíkar árgerðir. Hlutir úr P-39D-2 geta tekið breytingum frá eldri gerð P-39D-1 svo dæmi sé tekið. Eftir sem áður eru gripirnir tveir á myndinni hér að neðan og sambærilegir gripir á myndinni þar fyrir neðan sláandi líkir og því ekki svo fjarri lagi að velta upp þeirri hugmynd að þeir hafi verið hluti af sjúkrakassa vélarinnar (The First Aid Kit). Sjón er sögu ríkari.

Smágripirnir tveir sem fundust á brotlendingarstaðnum og um er rætt.

Þegar rýnt er í vinstri hurð vélarinnar á myndinni sjást fjórir hlutir standa út úr hliðinni sem líkjast smágripunum tveimur sem fundust á Melgerðismelum.

Tölvugerð mynd af flugstjórnarklefa P-39 Airacobra.

Mynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Skýringarmynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Hér er hægt að hlusta á tvo hlaðvarpsþætti um John Kassos og P-39 Airacobra.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd