main image

Fjarskiptabúnaður fyrir flugvél finnst á Melgerðismelum

Býsna merkilegur gripur hérna á ferðinni sem VM fundu á Melgerðismelum í Eyjafirði. Þetta er hluti af fjarskiptabúnaði fyrir flugvél (Aircraft Radio Transmitter control box) af gerðinni Western Electric WW2 CW-23097. Líklega má rekja þennan búnað aftur til áranna fyrir stríð eða upphafs styrjaldarinnar. Ef marka má erlendar vefsíður safnara er erfitt að nálgast „control box“ af þessari gerð nú til dags.

Einum gripnum færra að greina

Sprengjubrot sem orðið hafa á vegi VM hafa nær undantekningarlaust fundist upp til fjalla. Þó er ein undantekning. Þessi botn af handsprengju fannst nýlega á gömlu braggasvæði setuliðsins. Hann er merktur Thomas Glover & Co., Edmunton, London.

Illa farin mortar-askja glædd lífi

Sumt af því sem VM hafa fundið og tekið til handargagns frá setuliðinu er illa farið eftir 80 ára veðrun í íslenskri náttúru. Dæmi um þetta eru hlutar af „öskjum“ fyrir breskar mortar-sprengjur (British 2 Inch Mortar Bomb Carrier). Eftir púsningar og þrif á nokkrum ryðguðum gripum sem tilheyra slíkum mortar-hirslum koma þrjú handföng og tvö lok í ljós. Á öðru lokinu sést glitta í ártalið 1941. Á hinu má enn greina ljósgræna litinn sem prýddi lokin þegar setuliðsmenn spígsporuðu hér um slóðir. Á erlendri sölusíðu þar sem mortar-askja í ágætu ástandi frá 1941 er til sölu segir: „The carrier is nicely dated 1941/1942. This is one of the hardest of the Infantry company accessories to find.“

Smágripirnir hluti af fallhlíf og fluggleraugum John Kassos

Grenndargralið greindi á dögunum frá tilgátu sem snéri að mögulegu notagildi tveggja smágripa sem fundust á Melgerðismelum. Þeir koma úr flugvél sem fórst á stríðsárunum (sjá Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa flugvélarinnar?). P-39 Airacobra orrustuvél bandaríska flughersins brotlenti á Melunum með þeim afleiðingum að flugmaður vélarinnar, John Kassos lét lífið.

Stuttu eftir að tilgátan fór í loftið bárust Grenndargralinu nýjar upplýsingar í málinu. Þær sýna svo ekki verður um villst hvaða hlutverki gripirnir tveir þjónuðu í hinu örlagaríka eftirlitsflugi John Kassos þann 25. ágúst 1942. Og það hefur ekkert með sjúkrakassa vélarinnar að gera eins og tilgátan fól í sér. Upplýsingarnar varpa jafnframt ljósi á hlutverk annarra torkennilegra smágripa frá brotlendingarstaðnum sem hingað til hefur ekki tekist að bera kennsl á. Þar til nú.

Allir gripirnir sem um ræðir, utan einn, eru hluti af fallhlífarbúnaði John Kassos. Líklega er um sætisfallhlíf að ræða (seat parachute) þar sem flugmaðurinn hefur setið á einhvers konar bala fyrir hlífina. Af einhverjum ástæðum hafa þessir smáhlutir sem nú eru að finnast 80 árum síðar orðið eftir þar sem vélin skall niður. Umræddir gripir eru sylgjur, krækja, smellur, kósar og keilulaga smáhlutur með gati sem samkvæmt heimildum Grenndargralsins er fyrir svokallaðan „Rip cord“ streng. Einn hlutur passar ekki inn í „fallhlífarmyndina“ en það er smágerð sylgja. Leiða má líkum að því að hún hafi verið hluti af hlífðargleraugum flugmannsins (WW2 Aviator Goggles) n.t.t. teygjunni sem fer utan um höfuð hans.

Grenndargralið hefur áður greint frá persónulegum smámunum sem fundust á sama stað og þeir sem fyrr eru nefndir svo sem smámyntum, greiðu og lyklum. Allir gripirnir, jafnt fallhlífarbúnaður sem persónulegar eigur, fundust þar sem flugstjórnarklefi vélarinnar hefur líkast til endað för sína eftir brotlendinguna. Allir á sama blettinum. Þar með hafa allir þeir gripir sem fundust „í flugstjórnarklefa“ John George Kassos verið greindir.

Stríðsminjar og dægurmenning

Hér að neðan má sjá gripi sem Varðveislumenn minjanna hafa fundið í heimabyggð og sambærilega gripi sem komið hafa fyrir í frægum bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

Masters of the Air (2024)

Catch-22 (2019)

The Pacific (2010)

Blackadder (1983-1989)

Went the Day well? (1942)

Hart´s War (2002)

The Hasty Heart (1949)

1917 (2019)

Saving Private Ryan (1998)

Masters of the Air (2024)

Dunkirk (1958)

The Longest Day (1962)

Flags of our Fathers (2006)

Band of Brothers (2001)

A Brigde Too Far (1977)

The Brigde on the River Kwai (1957)

The Thin Red Line (1998)

Battle of Britain (1969)

The Heroes of Telemark (1965)

Hacksaw Ridge (2016)

The Monuments Men (2014)

The Big Red One (1980)

Dad´s Army (2016)

Tobruk (2008)

Band of Brothers (2001)

Dunkirk (2017)

The Thin Red Line (1998)

Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa vélarinnar?

ATHUGIÐ. NÝJAR UPPLÝSINGAR HAFA KOMIÐ FRAM EFTIR AÐ EFTIRFARANDI FRÁSÖGN FÓR Í LOFIР SEM SÝNA MEÐ ÓYGGJANDI HÆTTI HVAÐA HLUTVERKI SMELLURNAR GEGNDU. ÞÆR HAFA EKKERT MEÐ SJÚKRAKASSA VÉLARINNAR AÐ GERA. UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ ER VÆNTANLEG.

Grenndargralið hefur fjallað töluvert um John G. Kassos, amerískan orrustuflugmann sem fórst í flugslysi á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1942 og rannsóknir Varðveislumanna minjanna á vettvangi slyssins. Fjöldinn allur af smáhlutum sem tilheyrðu flugmanninum unga og vélinni hans P-39 Airacobra fannst síðastliðið sumar á staðnum þar sem vélin brotlenti. Um suma munina leikur enginn vafi á hvaða hlutverki þeir þjónuðu. Aðrir eru sveipaðir meiri dulúð. Tveir smágerðir málmgripir, sömu gerðar, sem minna á einhvers konar smellur hafa valdið nokkrum heilabrotum.

Varðveislumenn sem hafa stundað athuganir á Melgerðismelum hafa klórað sig nokkuð í höfðinu yfir þessum tveimur litlu málmhlutum. Þeir fundust á sama stað og nokkrir persónulegir munir John Kassos og raunar hluti af flugstjórnarklefa vélarinnar. Ýmsar tilgátur hafa komið fram um eðli og gagnsemi þeirra. Eru þeir hluti af fatnaði flugmannsins? Eða kannski smellur af dúk til að hlífa stjórnbúnaði í flugstjórnarklefa vélarinnar? Hingað til hafa fáar sem engar vísbendingar komið fram sem segja af eða á um notagildið.

Nýjar upplýsingar gætu þó mögulega varpað ljósi á málið. Mynd sem sýnir stjórnklefa P-39 kom Varðveislumönnum á sporið. Myndin varð kveikjan að frekari leit að upplýsingum á netinu. Í kjölfarið hefur komið fram tilgáta um hvaða hlutverk gripirnir tveir höfðu í flugvélinni í hinu afdrifaríka eftirlitsflugi John George Kassos þann 25. ágúst 1942. Ef tilgátan stenst athuganir er hér um festingar að ræða til að festa sjúkrakassa flugvélarinnar á vísum stað, n.t.t. á vinstri hurð vélarinnar.

Margar útgáfur af P-39 voru framleiddar fyrir stríð og á stríðsárunum sem og vélar af gerðinni P-63 Kingcobra sem voru um margt líkar P-39. Breytingar urðu á hönnun og útliti vélanna á milli ára og því ekki á vísan að róa þegar kemur að því að bera saman ólíkar árgerðir. Hlutir úr P-39D-2 geta tekið breytingum frá eldri gerð P-39D-1 svo dæmi sé tekið. Eftir sem áður eru gripirnir tveir á myndinni hér að neðan og sambærilegir gripir á myndinni þar fyrir neðan sláandi líkir og því ekki svo fjarri lagi að velta upp þeirri hugmynd að þeir hafi verið hluti af sjúkrakassa vélarinnar (The First Aid Kit). Sjón er sögu ríkari.

Smágripirnir tveir sem fundust á brotlendingarstaðnum og um er rætt.

Þegar rýnt er í vinstri hurð vélarinnar á myndinni sjást fjórir hlutir standa út úr hliðinni sem líkjast smágripunum tveimur sem fundust á Melgerðismelum.

Tölvugerð mynd af flugstjórnarklefa P-39 Airacobra.

Mynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Skýringarmynd tekin úr leiðarvísi flugmannsins (Pilot´s flight manual for P-39 Airacobra).

Hér er hægt að hlusta á tvo hlaðvarpsþætti um John Kassos og P-39 Airacobra.