main image

Kopargripurinn verður varðveittur á Þjóðminjasafninu

Haustið 2021 sögðum við frá fundi kopargrips á Melgerðismelum í Eyjafirði. Frumrannsókn benti til að um handsmíðaðan eyrnaádrátt væri að ræða. Eftir vettvangsferð starfsmanns Minjastofnunar og Varðveislumanna minjanna á Melana þá um haustið var tekin ákvörðun um að senda gripinn til Reykjavíkur til að fá álit málsmetandi fólks á mögulegum aldri hans.  

Sérfræðingur í fornminjum á Þjóðminjasafninu hefur nú lokið athugun á gripnum. Í stuttu máli er niðurstaða hans sú að erfitt sé að aldursgreina grip sem þennan, fornfræðilegt samhengi hans geri greininguna erfiða þar sem um lausafund hafi verið að ræða. Því sé einungis við svokallaða gerðfræði að styðjast sem sé öflugt tæki til aldursgreiningar en þá frekar á hlutum sem sýna mikinn gerðfræðilegan breytileika yfir tíma. Látlausir hlutir sem breytast minna yfir tíma verði alltaf erfiðara að greina.

Í ljósi þess sem að ofan greinir er mat sérfræðingsins að rétt sé að láta gripinn á Melunum njóta vafans. Reikna skuli með að hann sé eldri en 100 ára og teljist hann því forngripur í lagalegum skilningi. Á þeim grundvelli óskar Þjóðminjasafnið eftir því að taka eyrnaádráttinn á Melgerðismelum inn í Safnið í samræmi við lög um menningarminjar.