main image

Gátan um Akureyrarmeyna í faðmi forsetans er leyst

Grenndargralið hefur síðustu daga reynt að komast að því hver unga stúlkan á myndinni til vinstri er. Myndin birtist í Morgunblaðinu 16. júlí 1981 en frú Vigdís Finnbogadóttir var þá að ljúka nokkurra daga ferðalagi um Norðurland. Sverrir Pálsson fjallaði um heimsókn Vigdísar til Akureyrar í blaðinu. Myndin fylgdi með umfjöllun hans ásamt nokkrum til viðbótar en ekki kemur fram hver myndasmiðurinn er. Í myndatexta segir: „Lítil Akureyrarmær í faðmi forsetans“.

Akureyri er lítill bær og ekki svo langt um liðið. Ætti því ekki að reynast flókið að leysa gátuna. Annað kom á daginn. Málið komst ekki á hreyfingu fyrr en ábending barst frá Ástríði Magnúsdóttur þess efnis að stúlkan sem um ræðir væri að öllum líkindum Hildur Katrín Rafnsdóttir. Í samtali við Grenndargralið staðfesti Hildur að myndin væri af henni og að myndin hefði verið tekin á Ólafsfirði þegar Vigdís kom þar við á fyrrnefndu ferðalagi sínu norðan heiða. Hildur bjó á Ólafsfirði á þeim tíma ásamt foreldrum og systrum. Grenndargralið fékk leyfi Hildar til að birta myndina til hægri en hún er tekin við sama tækifæri eins og glöggir lesendur sjá. Myndirnar tók Svavar Berg Magnússon.

„Foreldrar mínir voru ráðsfólk Vigdísar þegar hún var leikhússtjóri og var mitt fyrsta heimili Aragata 2. Frá því hefur hún alltaf verið auka mamma mín og hjartahlýtt samband okkar á milli. Við göntumst með það og segjum að hún sé „akademíska“ mamma mín…enda kom hún mér í gegnum frönskuna á sínum tíma“ segir Hildur í samtali við Grenndargralið.

Þá er einni ráðgátunni færra að leysa. Nú vitum við hver unga stúlkan í fanginu á Vigdísi er og við vitum einnig að myndin er hvorki tekin á Akureyri né er myndefnið Akureyrarmær í faðmi forsetans. Myndin er tekin af Ólafsfjarðarmey á Ólafsfirði.

Ferðalög forseta íslenska lýðveldisins til Akureyrar eru umfjöllunarefni í tveimur hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna.