Standa trén sem Vigdís gróðursetti í Lystigarðinum 1981?
Mörg á miðjum aldri og þaðan af eldri muna eftir samkomu í Lystigarðinum á Akureyri um miðjan júlí árið 1981. Samkoman var haldin til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands. Vikulöngu ferðalagi Vigdísar um Norðurland lauk daginn eftir heimsókn hennar í Lystigarðinn.
Úrhellisrigning var þegar samkoman hófst klukkan 18 miðvikudaginn 15. júlí. Þrátt fyrir leiðindaveður gerðu um 2000 manns sér ferð í Lystigarðinn til þess að berja forsetann vinsæla augum. Að loknum ræðuhöldum var gestum og gangandi boðið upp á veitingar sem búið var að stilla upp á 50 metra löngu hlaðborði. Samkomunni lauk með því að frú Vigdís gróðursetti þrjú tré. Forsetinn fékk aðstoð frá Jóhanni Pálssyni þáverandi forstöðumanni Lystigarðs Akureyrar. Þegar Vigdís hafði lokið við að gróðursetja eitt tréð, mælti hún fleyg orð: „Eitt veit ég þó fyrir víst, það þarf ekki að vökva þetta tré“.
Langt er um liðið frá gróðursetningunni í Lystigarðinum sumarið 1981. Ætla má að trén þrjú hafi fyrir margt löngu fest rætur og jafnvel glatt gesti garðsins og veitt þeim skjól fyrir veðri og vindum í rúma fjóra áratugi. Grenndargralið veltir því upp – háð því að hlúð hafi verið að trjánum og þau fengið að lifa og dafna í áranna rás – hvort trén sem frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti í júlí 1981 standi enn. Skyldi einhver búa yfir vitneskju um hvar þau eru staðsett í Lystigarðinum? Ef einhver telur sig hafa svarið skal bent á facebook-síðu Grenndargralsins eða tölvupóst, grenndargral@gmail.com.
Meðfylgjandi mynd er skjáskot. Hún birtist á forsíðu Þjóðviljans daginn eftir samkomuna í Lystigarðinum. Myndina tók Gunnar Elíasson.
Ferðalög forseta íslenska lýðveldisins til Akureyrar eru umfjöllunarefni í tveimur hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna.
Hildur Salína
Góðan dag
Ég er nú ekki með vitneskju um það hvort þessi tré standi ennþá, en mig langar að vita fyrir hvað þessi þrjú tré voru gróðursett. Hún gróðursetti þrjú tré að ég held á öllum stöðum sem hún heimsótti. Mér finnst eins og að hún hafi gróðursett eitt fyrir drengi annað fyrir stúlkur ( kannski er þetta ekki rétt hjá mér) en ég er að velta því fyrir mér fyrir hvað var þá það þriðja gróðursett.
Vitið þið það ? 🙂
Mbk Hildur
Comment — November 30, 2022 @ 07:47
admin
Sæl Hildur. Mér finnst eins og ég hafi einhvern tímann heyrt að þriðja tréð væri fyrir öll ófædd börn. Getur það verið? Ég skal ekki segja.
Comment — March 5, 2023 @ 19:41