Forsetinn náði aldrei heilsu eftir heimsókn til Akureyrar

Í lok september árið 1951 kom Sveinn Björnsson forseti Íslands í heimsókn norður til Akureyrar. Á meðan Sveinn dvaldist fyrir norðan veiktist hann. Töldu læknar rétt að senda forsetann með strandferðaskipinu Heklu til Reykjavíkur. Í fylgd með forsetanum var yfirlæknir sjúkrahússins á Akureyri.

Við komuna suður var Sveinn lagður inn á Landakotsspítala. Ekki liðu nema rúmar tvær vikur þar til forsetanum var ráðlagt af læknum að siglda til Englands til að fara í aðgerð sem og hann gerði. Hann dvaldi á sjúkrahúsi í London í þrjár vikur. Tveimur mánuðum eftir komuna til Englands, þann 10. desember, var Sveinn kominn aftur heim til Íslands og sagður við góða heilsu.

Um miðjan janúar – tæpum fjórum mánuðum eftir að forsetinn kenndi sér meins á ferðalaginu á Akureyri –  var hann lagður inn á sjúkrahús í Reykjavík. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu var hann sagður „enn nokkuð máttfarinn eftir skurðaðgerðina erlendis“. Viku síðar, þann 25. janúar 1952, var Sveinn Björnsson allur. Dánarorsök var hjartaslag. 

Addi og Binni spjalla um heimsóknir forseta Íslands til Akureyrar og nágrennis í nýjasta hlaðvarpþætti af Sagnalist með Adda & Binna – Forsetar á faraldsfæti.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd