main image

Standa trén sem Vigdís gróðursetti í Lystigarðinum 1981?

Mörg á miðjum aldri og þaðan af eldri muna eftir samkomu í Lystigarðinum á Akureyri um miðjan júlí árið 1981. Samkoman var haldin til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands. Vikulöngu ferðalagi Vigdísar um Norðurland lauk daginn eftir heimsókn hennar í Lystigarðinn.

Úrhellisrigning var þegar samkoman hófst klukkan 18 miðvikudaginn 15. júlí. Þrátt fyrir leiðindaveður gerðu um 2000 manns sér ferð í Lystigarðinn til þess að berja forsetann vinsæla augum. Að loknum ræðuhöldum var gestum og gangandi boðið upp á veitingar sem búið var að stilla upp á 50 metra löngu hlaðborði. Samkomunni lauk með því að frú Vigdís gróðursetti þrjú tré. Forsetinn fékk aðstoð frá Jóhanni Pálssyni þáverandi forstöðumanni Lystigarðs Akureyrar. Þegar Vigdís hafði lokið við að gróðursetja eitt tréð, mælti hún fleyg orð: „Eitt veit ég þó fyrir víst, það þarf ekki að vökva þetta tré“.

Langt er um liðið frá gróðursetningunni í Lystigarðinum sumarið 1981. Ætla má að trén þrjú hafi fyrir margt löngu fest rætur og jafnvel glatt gesti garðsins og veitt þeim skjól fyrir veðri og vindum í rúma fjóra áratugi. Grenndargralið veltir því upp – háð því að hlúð hafi verið að trjánum og þau fengið að lifa og dafna í áranna rás – hvort trén sem frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti í júlí 1981 standi enn. Skyldi einhver búa yfir vitneskju um hvar þau eru staðsett í Lystigarðinum? Ef einhver telur sig hafa svarið skal bent á facebook-síðu Grenndargralsins eða tölvupóst, grenndargral@gmail.com.

Meðfylgjandi mynd er skjáskot. Hún birtist á forsíðu Þjóðviljans daginn eftir samkomuna í Lystigarðinum. Myndina tók Gunnar Elíasson.

Ferðalög forseta íslenska lýðveldisins til Akureyrar eru umfjöllunarefni í tveimur hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna.

Forsetinn náði aldrei heilsu eftir heimsókn til Akureyrar

Í lok september árið 1951 kom Sveinn Björnsson forseti Íslands í heimsókn norður til Akureyrar. Á meðan Sveinn dvaldist fyrir norðan veiktist hann. Töldu læknar rétt að senda forsetann með strandferðaskipinu Heklu til Reykjavíkur. Í fylgd með forsetanum var yfirlæknir sjúkrahússins á Akureyri.

Við komuna suður var Sveinn lagður inn á Landakotsspítala. Ekki liðu nema rúmar tvær vikur þar til forsetanum var ráðlagt af læknum að siglda til Englands til að fara í aðgerð sem og hann gerði. Hann dvaldi á sjúkrahúsi í London í þrjár vikur. Tveimur mánuðum eftir komuna til Englands, þann 10. desember, var Sveinn kominn aftur heim til Íslands og sagður við góða heilsu.

Um miðjan janúar – tæpum fjórum mánuðum eftir að forsetinn kenndi sér meins á ferðalaginu á Akureyri –  var hann lagður inn á sjúkrahús í Reykjavík. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu var hann sagður „enn nokkuð máttfarinn eftir skurðaðgerðina erlendis“. Viku síðar, þann 25. janúar 1952, var Sveinn Björnsson allur. Dánarorsök var hjartaslag. 

Addi og Binni spjalla um heimsóknir forseta Íslands til Akureyrar og nágrennis í nýjasta hlaðvarpþætti af Sagnalist með Adda & Binna – Forsetar á faraldsfæti.

Lítil saga af vináttu setuliðsmanna og fjölskyldu í Hörgársveit

Myndin er tekin á Öxnhóli í Hörgársveit árið 1940. Efri röð til vinstri: Heimilishundurinn Tryggur, breskur hermaður, Elísabet Haraldsdóttir húsfreyja á Öxnhóli, lést 1993 og breskur hermaður. Miðröð: Hulda Aðalsteinsdóttir húsfreyja á Syðri-Bægisá, lést 2020, Hákon Aðalsteinsson fv. skrifstofustjóri Olís á Akureyri og breskur hermaður. Fremsta röð: Hreiðar Aðalsteinsson fv. oddviti og bóndi á Öxnhóli, lést 2021.

Laufey Hreiðarsdóttir skráir upplýsingar um meðfylgjandi mynd, byggðar á frásögn Elísabetar föðurömmu hennar, Hreiðari föður hennar og Hákoni bróður hans.

Breskir hermenn héldu til að Vöglum og Skógum á Þelamörk og einnig í Bægisárgili. Þeir fóru alltaf 3-4 saman í bíl, tvisvar til þrisvar sinnum í viku, ferðuðust um sveitina og fóru á sveitabæina. En aðallega þá bæi þar sem þeim var boðið inn í veitingar.

Þeir hermenn sem tíðastir voru hjá föðurömmu minni Elísabetu og afa Aðalsteini Sigurðssyni bónda á Öxnhóli (lést 1971) komu frá bækistöðvunum að Bægisá og sóttu þeir mikið til heimilisfólksins. Höfðu þau mikla samúð með þessum kornungu hermönnum sem margir hverjir voru einungis um tvítugt og jafnvel yngri. Menn, óravegu frá fjölskyldum sínum og heimahögum í framandi landi.

Gerðu þau alltaf vel við þá í mat og drykk eins og hægt var á þessum tíma og voru þeir alltaf velkomnir inn á þeirra heimili. Hermennirnir fundu það og greinilegt var að þeir nutu samvistanna við heimilisfólkið. Þeir voru oft mættir eldsnemma að sunnudagsmorgni til að eyða deginum með heimilisfólkinu.

Þegar þess þurfti að beiðni hermannanna, létu þau þá alltaf hafa egg, brauð, smurt og ósmurt, kartöflur, kjötafurðir, grænmeti og sultur svo dæmi séu nefnd án endurgjalds. Einnig ullarvettlinga, ullarsokka og ullarhúfur er tók að hausta. Bresku hermennirnir gáfu börnunum súkkulaði og brjóstsykur en ömmu og afa stundum sígarettur sem amma gaf alltaf á tombólur Kvenfélagsins í sveitinni.

Er þeir vissu að vera þeirra var senn á enda var greinilegt að þeir kviðu mjög vistaskiptum enda ekkert skrítið í ljósi sögunnar. Kom það fram og sást glöggt í þeirra síðustu heimsókn og kveðjustund á Öxnhóli.

Fjölmargar sögur eru til af setuliðsmönnum sem fengu ullarvettlinga og ullarsokka að gjöf frá Íslendingum sbr. frásögn Laufeyjar. Ekki alls fyrir löngu fundu Varðveislumenn minjanna ullarvettling ásamt öðrum stríðsminjum í ruslahaug setuliðsins á Akureyri (sjá mynd).

Ákall frá Varðveislumönnum minjanna

Í sumar og haust hafa Varðveislumenn minjanna í Eyjafirði bjargað merkilegum stríðsminjum frá glötun. Gripirnir sem komið hafa í ljós við rannsóknir í Eyjafjarðarsveit, í Hörgársveit og á Akureyri eru viðbót við aðra gripi úr fórum setuliðsins sem VM hafa skotið skjólshúsi yfir undanfarin ár. Í mörgum tilfellum er um kapphlaup við tímann að ræða vegna byggingaframkvæmda á svæðum þar sem setuliðið hafði bækistöðvar á stríðsárunum. Húsgrunnar, gatnagerð og jarðrask ýmis konar getur skaðað viðkvæmar minjar og valdið óafturkræfum skemmdum eins og dæmin sanna. Þá skiptir máli að hafa snör handtök svo bjarga megi því sem bjargað verður. Varðveislumenn hafa átt gott samstarf við verktaka á þeim stöðum þar sem framkvæmdir standa yfir. Fyrir velvilja þeirra hefur merkilegum minjum verið bjargað og þeim komið fyrir í öruggt skjól, í það minnsta tímabundið.

Í „stríðsminjasafni“ Varðveislumanna er margt merkilegra gripa. Meðal þess sem litið hefur dagsins ljós á yfirstandandi vertíð er skotvopn og skotfæri, hermannahjálmur og stálmen (dog tags). Nú í lok vertíðar er staðan hins vegar sú að takmarkað geymslupláss áhugasamra grúskara er farið að sprengja utan af sér. Skortur á aðstöðu til að hreinsa, flokka, skrá og geyma minjar er orðinn tilfinnanlegur, svo mjög að ekki gefst lengur kostur á að bregðast við öllum innsendum ábendingum um stríðsminjar sem mögulega liggja undir skemmdum á Eyjafjarðarsvæðinu. Varðveislumenn minjanna vilja leita á náðir almennings eða bæjaryfirvalda og óska eftir aðstoð svo hægt verði að halda björgunarstarfi áfram. Allar ábendingar um rými til að hreinsa, pakka ofan í kassa og geyma stríðsminjar eru því vel þegnar.

 

Breskur herhjálmur finnst á Lónsbakka

Grenndargralið greindi á síðasta ári frá starfi Varðveislumanna minjanna við að bjarga stríðminjum á Lónsbakka í Hörgársveit. Braggar breskra setuliðsmanna stóðu þar á hernámsárunum. Framkvæmdir hafa staðið yfir á svæðinu í nokkurn tíma en tilheyrandi jarðrask hefur dregið ýmsa áhugaverða smágripi úr fórum setuliðsmanna fram í dagsljósið eftir 80 ár. Varðveislumenn tóku upp þráðinn nú á dögunum þar sem frá var horfið síðastliðið haust. Meðal þess sem þeir hafa fundið í þessari lotu er merkilegur breskur diskur (WW2 British Army Plate) sömu gerðar og breskir hermenn höfðu í bakpoka sínum á ferðalögum.

Nýjasti gripurinn sem VM hafa endurheimt úr jörðu á framkvæmdasvæðinu norðan Akureyrar er breskur herhjálmur. Flestir sem eitthvað þekkja til seinni heimsstyrjaldarinnar kannast við gripinn. Ófáar ljósmyndirnar hafa birst í gegnum tíðina af breskum og bandarískum hermönnum með hjálm sem þennan, bæði í fyrri heimsstyrjöldinni sem þeirri seinni. Eins hafa þeir birst ótal sinnum í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hjálmar af þessari gerð kallast „Brodie Helmets“ en þeir komu fyrst á markað árið 1915 í London. Hönnuður hjálmsins hét John Leopold Brodie.