Sagnalist segir sögu John G. Kassos
Sagnalist – skráning og miðlun hefur lokið við gerð tveggja nýrra þátta í hlaðvarpsþáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls. Í þáttaröðinni er fylgst með rannsóknum Varðveislumanna minjanna á dvöl setuliðsins í Eyjafirði á stríðsárunum. Í nýju þáttunum tveimur segir frá John G. Kassos, bandarískum flugmanni sem dvaldist á Melgerðismelum sumarið 1942 og orrustuvélinni hans sem var af gerðinni P-39 Airacobra. Í dag, þann 25. ágúst, eru 80 ár liðin frá því að Kassos fórst með vélinni á Melunum.
Sagan um flugslysið hörmulega í Eyjafirði í ágúst 1942 hefur alla tíð verið sveipuð mikilli leynd. Smám saman gleymist sagan og sífellt færri kannast við John Kassos og flugslysið. Sagnalist, í samstarfi við Grenndargralið,hefur rannsakað málið um nokkurt skeið. Þættirnir eru að miklu leyti byggðir á áður óbirtum heimildum. Rannsóknir Varðveislumanna á Melgerðismelum varpa þannig nýju ljósi á málið auk þess sem Sagnalist styðst við heimildir frá fjölskyldu John Kassos í Bandaríkjunum.
Hægt er að hlusta á afraksturinn í Leyndardómum Hlíðarfjalls – Kassos með því að smella hér að neðan.