main image

Eignaðist sorgmæddi kirkjusmiðurinn gral sýslumanns?

Ólafur Briem var fæddur árið 1808. Faðir hans Gunnlaugur Briem sýslumaður á Grund – eigandi Grundargralisins – sá alltaf fyrir sér að sonurinn myndi taka við búskapnum á Grund og því lærði hann ekki til bókar eins og bræður hans. Ólafur hóf nám í húsasmíði í Kaupmannahöfn árið 1825. Hann lauk náminu með stæl og dvaldi næstu árin í Kaupmannahöfn þar sem hann smíðaði hús og naut trausts og vinsælda samverkamanna. Ólafur kom heim til Íslands árið 1831. Hann bjó með foreldrum sínum á Grund þar sem hann var með smíðaverkstæði. Hann vann við smíðar ásamt lærlingum hans hvar sem meiri háttar byggingar voru reistar í nærliggjandi sveitum eða þorpum.

Þegar Ólafur snéri aftur heim, fékk hann nóg að gera í sýslunni. Hann var yfirsmiður við allmargar kirkjur. Má þar nefna Hvanneyrarkirkju á Siglufirði, kirkju á Draflastöðum í Fnjóskadal og Þóroddstað í Kinn. Ennfremur kirkjur í heimasveit hans, Hrafngilskirkju, Grundarkirkju, Miklagarðskirkju, Hólakirkju og Saurbæjarkirkju sem jafnframt var hans seinasta húsasmíði síðasta vorið sem hann lifði.

Eftir lát Gunnlaugs var Ólafur talinn fyrir búinu þó hann hafi aðallega unnið við smíðar áfram. Árið 1838 giftist hann Dómhildi Þorsteinsdóttur frá Stokkahlöðum og saman tóku þau við búinu að fullu árið 1844. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið svo kærleiksríkt og fagurt að naumast hafi þau mátt hvort af öðru sjá. Þau eignuðust fjórtán börn.

Hjónin ungu á Grund féllu sviplega frá á besta aldri. Dómhildur andaðist af barnsförum fertug að aldri árið 1858. „það er í fréttum að í fyrradag varð ég ekkjumaður. Kona mín deyði þá, strax af afstöðnum burði andvana barns“ skrifaði Ólafur í bréfi til vinar. Söknuðurinn var sár. Hinn ungi timburmeistari var nú orðinn einstæður faðir, yfirbugaður af sorg og með stóran hóp barna til að sjá fyrir. Hann vildi vera til staðar fyrir börnin en óskaði þess jafnframt að fá að flýta för sinni á fund nýlátinnar eiginkonu sem hann elskaði meira en lífið sjálft. Guð mundi í eilífri miskunn sinni greiða veg barnanna þeirra. Ólafur lést í ársbyrjun 1859 eftir stutt en erfið veikindi.

Ólafur tók við búinu á Grund þegar hann kom heim frá Danmörku. Eftir það liðu þrjú ár áður en faðir hans andaðist. Ólafur og Dómhildur bjuggu á Grund þar til þau létust árin 1858 og 1859 og Valgerður, móðir Ólafs, bjó undir sama þaki áfram næstu árin eftir að Gunnlaugur lést. Er hugsanlegt að hún hafi setið í óskiptu búi og að eignir hennar og Gunnlaugs sýslumanns þ.m.t. Grundargralið hafi verið áfram á Grund eftir fráfall hans, á búskaparárum Ólafs Briem og Dómhildar?

Ólafur Briem og Dómhildur koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Útskýringar með mynd: Efri tvær kirkjurnar eru Draflastaðarkirkja í Fnjóskadal, byggð árið 1926 og Þóroddsstaðarkirkja í Köldukinn, vígð árið 1988. Neðri tvær eru Hólakirkja (1853) og Saurbæjarkirkja (1858) í Eyjafirði. Legsteinn Ólafs og Dómhildar er í Grundarkirkjugarði.