main image

Sá Jóhanna fagra „Krist“ á vinnustofu Thorvaldsen?

Gunnlaugur Briem sýslumaður á Grund og Bertel Thorvaldsen myndhöggvari voru skólafélagar. Þeir stunduðu nám saman í listaháskóla í Kaupmannahöfn í lok 18. aldar. Seinna áttu þeir eftir að skrifast á og virðist sem Bertel Thorvaldsen hafi haft töluvert álit á listamanninum Gunnlaugi Briem. Leiðir skildu eftir nám. Thorvaldsen fór til Ítalíu og varð heimsfrægur listamaður á meðan hugur Gunnlaugs tók að snúast um embættisnám heima á Íslandi.

Árið 1823 sigldi eldri dóttir Gunnlaugs, Kristjana Jóhanna Briem, til Danmerkur. Þremur árum síðar lagði Jóhanna fagra, eins og hún var gjarnan kölluð, af stað í tveggja ára ferðalag með fósturfjölskyldu sinni um Evrópu. Jóhanna var þá rúmlega tvítug. Á Ítalíu hitti hún Thorvaldsen, hvers orðspor sem listamanns hafði þá borist vítt og breitt um heiminn. Leiðir þeirra áttu eftir að liggja saman með nokkuð reglulegu millibili á meðan dvöl hennar á Ítalíu stóð.

Til er bréf sem Jóhanna fagra skrifaði foreldrum sínum frá Róm árið 1827. Þar segir hún af kynnum sínum við Thorvaldsen. Sumarið 1826 ríkti mikil gleði þegar Thorvaldsen hitti dóttur gamals vinar í fyrsta skipti inni á vinnustofu sinni í Rómarborg. Ekki skemmdi fyrir að hún var Íslendingur. Thorvaldsen kvaðst þekkja svip Gunnlaugs á hinu fagra andliti Jóhönnu. Hann hafði sjálfur teiknað mynd af Gunnlaugi á yngri árum.

Fegurð Jóhönnu fögru heillaði Bertel Thorvaldsen. Hann fór þess á leit við hana að fá að gera höggmynd af henni. Ekkert varð þó af því eftir því sem Grenndargralið kemst næst. Hitt er víst að Jóhanna var stödd inni á vinnustofu Thorvaldsen í ársbyrjun 1827 og varð vitni að því þegar hann vann að gerð skírnarfonts sem hann hugðist gefa Dómkirkjunni í Reykjavík.

Það sem vekur athygli í bréfi Jóhönnu er frásögn hennar af því þegar hún staldrar við annað verk í vinnustofu listamannsins. Jóhanna segir svo frá: „Í etasráðs Thorvaldsens húsi hefi ég verið og séð þar ýmislegt af listaverkum hans, þar á meðal líkneskju lausnarans. Hefir listamanninum svo aðdáanlega tekist, eftir því sem mér fannst, að láta andlitið lýsa frelsarans innra manni, að það yfirgekk stórum alla mína ímyndan, á líkneski þetta að standa á altari í nýbyggðri kirkju í Kaupmannahöfn.“

Grenndargralið veltir upp spurningu: Er listaverkið sem Jóhanna kom auga á, hin eina sanna Kristsstytta (Christus) sem Thorvaldsen bjó til úr marmara og er í dag staðsett í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn? Forsagan er sú að kirkja sem stóð þar sem Frúarkirkjan stendur í dag, varð fyrir skemmdum í eldsvoða árið 1807 í stríði Dana og Breta. Um 1820 var Thorvaldsen fengið það hlutverk að búa til styttur af Jesú Kristi og lærisveinunum fyrir hina nýju Frúarkirkju sem áætlað var að reisa í staðinn fyrir þá sem varð eldinum að bráð. Smíði kirkjunnar lauk árið 1829. Við vígslu kirkjunnar var eftirlíking af styttu Thorvaldsen sett við altari hennar en styttunni sjálfri – sem Jóhanna fagra hefur mögulega séð hjá Bertel Thorvaldsen – var komið fyrir þar árið 1833.

Stytta Bertel Thorvaldsen af Kristi með útbreiddan faðminn er án nokkurs vafa eitthvert þekktasta Kristslíkneski sögunnar. Verkið hefur veitt ófáum listamanninum innblástur í gegnum tíðina. Fjölmargar stórar sem smáa afsteypur af verkinu má finna út um allan heim m.a. eina við Fossvogskirkju í Reykjavík.

Jóhanna fagra og Bertel Thorvaldsen koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Christus (statue). (2021, 31. maí). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Christus_(statue)

Dr. Kristján Eldjárn. (1982, 29. ágúst). Thorvaldsen og Ísland. Tíminn, bls. 14-16.