Hver urðu örlög sýslumannssonarins?

Áður hefur Grenndargralið greint frá myndum sem málaðar voru í leiðangri Joseph Paul Gaimard til Íslands árið 1836. Stór hluti myndanna var málaður af listamanninum Auguste Mayer. Mayer var í fylgdarliði Gaimard og málaði fjölmargar myndir sem lengi hafa talist til þjóðargersema á Íslandi.

Ein af nokkrum andlitsmyndum í safni Gaimard og leiðangursmanna hans er af Kristjáni Gunnlaugi Briem, syni Gunnlaugs Briem sýslumanns á Grund og Valgerðar Árnadóttur Briem. Óljóst er hver málaði myndina en nafn málarans Auguste Mayer er hvergi sjáanlegt. Fleira er á huldu þegar kemur að myndinni af sýslumannssyninum á Grund.

Heimildir herma að Gaimard hafi að lokinni Íslandsdvöl sumrin 1835 og 1836, boðið tveimur ungum Íslendingum að fylgja sér yfir hafið til Frakklands til að stunda þar nám. Vitað er að Guðmundur Sívertsen var annar þeirra og þáði hann boðið. Hinn er sagður hafa verið Gunnlaugur Briem yngri. Svo virðist þó sem það sé á misskilningi byggð. Mögulega hefur sagan sprottið fram vegna myndarinnar af honum og þeirra staðreyndar að sömu listamenn gerðu sambærilega mynd af Guðmundi um svipað leyti. En hvar og við hvaða tækifæri lágu leiðir þeirra saman, Gunnlaugs Briem yngri og frönsku leiðangursmannanna, sem varð til þess að myndin af Gunnlaugi var máluð?

Kristján Gunnlaugur Briem var fæddur árið 1802. Hann fór ungur til Danmerkur í trésmíðanám en ferðaðist jafnframt um Evrópu. Árið 1828 kom hann til Parísar þar sem hann átti eftir að dveljast næstu árin. Það er þarna sem mál fara að flækjast. Lítið er vitað um afdrif hans í Frakklandi og er sem nafn hans týnist hreinlega í heimildum um 1840. Ekki er vitað hvort hann átti afkomendur og þá ber heimildum ekki saman um hvar og hvenær hann lést. Heimildir eru samróma um að hann hafi látist einhvern tímann á árunum 1834 til 1840.

Myndin af Gunnlaugi ber þess vitni að hann og Gaimard og hans teymi hafi átt í einhvers konar samskiptum. Hvort Gunnlaugur var staddur á Íslandi þegar Frakkarnir spígsporuðu hér um slóðir 1835 eða 1836 skal ósagt látið. Líklega verður að teljast sennilegra að leiðir þeirra hafi legið saman í Frakklandi.

Til að auka flækjustigið enn frekar, skal nefnd til sögunnar tilgáta Kai Erik Ebbesen (1892-1959), langafabarns Jóhanns Gunnlaugs Briem sem var bróðir Gunnlaugs Briem yngri. Á sínum tíma taldi hann sig vita um örlög Gunnlaugs. Ef tilgáta hans er rétt, féll Kristján Gunnlaugur Briem í tilræði við Lúðvík Filippus Frakklandskonung í París þann 28. júlí 1835. Lúðvík Filippus er hinn sami og kom að þeirri ákvörðun Frakka ári síðar að kanna Ísland. Konungurinn lifði tilræðið af en átján féllu í valinn, þar af fjórtán úr fylgdarliði konungsins og eru þeir nafngreindir í heimildum. Fórnarlömb tilræðisins sem ekki hafa verið nafngreind eru fullorðin kona, ung stúlka og tveir fullorðnir menn.

Geyma kannski gömul skjöl á safni í Frakklandi svör við rágátunni um hver afdrif Kristjáns Gunnlaugs Briem urðu?

Grenndargralið rekur sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar konu hans, afkomenda og samferðamanna í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Fundin bréf til Gaimard. (1997, 26. október). Morgunblaðið B – Sunnudagur, bls. 2-4.

Louis Philippev I. (2021, 12. júní). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Louis_Philippe_I

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd