main image

Jóhanna yngri dó í faðmi barna sinna

Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem var fædd árið 1813, yngri dóttir Gunnlaugs Briem sýslumanns á Grund og Valgerðar Árnadóttur. Eldri systir Jóhönnu Kristjönu var Jóhanna fagra en auk þess átti hún fimm bræður. Tvítug að aldri giftist hún Gunnari Gunnarssyni, presti í Laufási. Þau eignuðust fimm börn. Síðar giftist Jóhanna Kristjana, Þorsteini Pálssyni presti á Hálsi í Fnjóskadal. Þeim varð ekki barna auðið.

Eitt barna Jóhönnu Kristjönu og Gunnars var Eggert, fæddur árið 1840. Eggert var 13 ára þegar faðir hans dó. Hann hóf búskap á bænum Espihóli í Eyjafjarðarsveit árið 1866 en brá búi þremur árum síðar þegar eiginkona hans, Elín Sigríður Magnúsdóttur féll frá langt fyrir aldur fram. Eggert var umsvifamikill, hann var kaupstjóri á Akureyri um skeið, sýslumaður í Skagafirði og átti þátt í stofnun kvennaskóla á Laugalandi. Eggert var bróðir Tryggva sem stofnaði Gránufélagið árið 1870 og Katrínar Kristjönu, móður Hannesar Hafstein ráðherra. Árið 1875 var Eggert kosinn á þing. Hann gegndi þingmennsku í fimm ár. Þann tíma bjó hann á Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit.

Eftir fráfall séra Þorsteins 1873, flakkaði Jóhanna Kristjana milli staða þar til hún flutti að Laugalandi til sonar síns 1876. Þar bjó einnig á þeim tíma dóttir hennar og systir Eggerts, amtmannsfrúin Kristjana Katrín. Jóhanna Kristjana andaðist í faðmi barna sinna á Syðra-Laugalandi í október 1878. Séra Daníel Halldórsson prófastur á Hrafnagili hélt húskveðju yfir hinni látnu áður en hún var flutt að Grund þar sem hún var borin til grafar. Þar hvíla foreldrar hennar, bróðir hennar Ólafur Briem timburmeistari og líklega fleiri af Briem-ættinni.

Af Katrínu Kristjönu og Eggerti er það að segja að hún lést í Reykjavík, rúmlega níræð. Þegar hún lést var hún ein elsta konan í bænum. Eggert sigldi til Bretlands sex árum eftir andlát móður sinnar. Það síðasta sem vitað er um afdrif hans nær til fyrri hluta ársins 1886. Þá er eins og jörðin gleypi hann. Engar heimildir eru til sem staðfesta nokkuð um dvalarstað hans eða yfir höfuð hver afdrif hans urðu. 

Tvo „minnisvarða“ um Gunnlaug Briem, Valgerði konu hans og börnin þeirra sjö má skoða þegar gengið er um kirkjugarðinn á Grund í dag. Legsteinar systkinanna Jóhönnu Kristjönu Briem og Ólafs Briem standa hlið við hlið og vekja nokkra athygli. Þeir mega þó muna fífil sinn fegurri.

Þættir sex og sjö af Leitinni að Grundargralinu komnir í loftið

Sá Jóhanna fagra „Krist“ á vinnustofu Thorvaldsen?

Gunnlaugur Briem sýslumaður á Grund og Bertel Thorvaldsen myndhöggvari voru skólafélagar. Þeir stunduðu nám saman í listaháskóla í Kaupmannahöfn í lok 18. aldar. Seinna áttu þeir eftir að skrifast á og virðist sem Bertel Thorvaldsen hafi haft töluvert álit á listamanninum Gunnlaugi Briem. Leiðir skildu eftir nám. Thorvaldsen fór til Ítalíu og varð heimsfrægur listamaður á meðan hugur Gunnlaugs tók að snúast um embættisnám heima á Íslandi.

Árið 1823 sigldi eldri dóttir Gunnlaugs, Kristjana Jóhanna Briem, til Danmerkur. Þremur árum síðar lagði Jóhanna fagra, eins og hún var gjarnan kölluð, af stað í tveggja ára ferðalag með fósturfjölskyldu sinni um Evrópu. Jóhanna var þá rúmlega tvítug. Á Ítalíu hitti hún Thorvaldsen, hvers orðspor sem listamanns hafði þá borist vítt og breitt um heiminn. Leiðir þeirra áttu eftir að liggja saman með nokkuð reglulegu millibili á meðan dvöl hennar á Ítalíu stóð.

Til er bréf sem Jóhanna fagra skrifaði foreldrum sínum frá Róm árið 1827. Þar segir hún af kynnum sínum við Thorvaldsen. Sumarið 1826 ríkti mikil gleði þegar Thorvaldsen hitti dóttur gamals vinar í fyrsta skipti inni á vinnustofu sinni í Rómarborg. Ekki skemmdi fyrir að hún var Íslendingur. Thorvaldsen kvaðst þekkja svip Gunnlaugs á hinu fagra andliti Jóhönnu. Hann hafði sjálfur teiknað mynd af Gunnlaugi á yngri árum.

Fegurð Jóhönnu fögru heillaði Bertel Thorvaldsen. Hann fór þess á leit við hana að fá að gera höggmynd af henni. Ekkert varð þó af því eftir því sem Grenndargralið kemst næst. Hitt er víst að Jóhanna var stödd inni á vinnustofu Thorvaldsen í ársbyrjun 1827 og varð vitni að því þegar hann vann að gerð skírnarfonts sem hann hugðist gefa Dómkirkjunni í Reykjavík.

Það sem vekur athygli í bréfi Jóhönnu er frásögn hennar af því þegar hún staldrar við annað verk í vinnustofu listamannsins. Jóhanna segir svo frá: „Í etasráðs Thorvaldsens húsi hefi ég verið og séð þar ýmislegt af listaverkum hans, þar á meðal líkneskju lausnarans. Hefir listamanninum svo aðdáanlega tekist, eftir því sem mér fannst, að láta andlitið lýsa frelsarans innra manni, að það yfirgekk stórum alla mína ímyndan, á líkneski þetta að standa á altari í nýbyggðri kirkju í Kaupmannahöfn.“

Grenndargralið veltir upp spurningu: Er listaverkið sem Jóhanna kom auga á, hin eina sanna Kristsstytta (Christus) sem Thorvaldsen bjó til úr marmara og er í dag staðsett í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn? Forsagan er sú að kirkja sem stóð þar sem Frúarkirkjan stendur í dag, varð fyrir skemmdum í eldsvoða árið 1807 í stríði Dana og Breta. Um 1820 var Thorvaldsen fengið það hlutverk að búa til styttur af Jesú Kristi og lærisveinunum fyrir hina nýju Frúarkirkju sem áætlað var að reisa í staðinn fyrir þá sem varð eldinum að bráð. Smíði kirkjunnar lauk árið 1829. Við vígslu kirkjunnar var eftirlíking af styttu Thorvaldsen sett við altari hennar en styttunni sjálfri – sem Jóhanna fagra hefur mögulega séð hjá Bertel Thorvaldsen – var komið fyrir þar árið 1833.

Stytta Bertel Thorvaldsen af Kristi með útbreiddan faðminn er án nokkurs vafa eitthvert þekktasta Kristslíkneski sögunnar. Verkið hefur veitt ófáum listamanninum innblástur í gegnum tíðina. Fjölmargar stórar sem smáa afsteypur af verkinu má finna út um allan heim m.a. eina við Fossvogskirkju í Reykjavík.

Jóhanna fagra og Bertel Thorvaldsen koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Christus (statue). (2021, 31. maí). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Christus_(statue)

Dr. Kristján Eldjárn. (1982, 29. ágúst). Thorvaldsen og Ísland. Tíminn, bls. 14-16.

Kort landmælingamannanna af Akureyri hefur varðveist

Til er merkilegt kort af Akureyri frá árinu 1809. Á kortinu er landslagið dregið upp með afar nákvæmum hætti og gerð grein fyrir mannvirkjum af öllu mögulegu tagi.  Þar má sjá hús, girðingar, torfgarða, götuslóðir, vörður, örnefni og allskyns kennileiti í náttúrunni. Heiðurinn að þessum elsta og merkilegasta uppdrætti kaupstaðarins eiga landmælingamennirnir Hans Frisak og Jacob Scheel. Dvöl þeirra á Akureyri var liður í metnaðarfullu verkefni danska hersins í að gera siglingar út af Íslandsströndum hættuminni. Í því skyni var Frisak og Scheel ætlað að ferðast víða um land og halda áfram við strandmælingar landsins sem staðið höfðu yfir í nokkur ár.

Til þess að allar mælingar yrðu sem nákvæmastar slógu þeir saman fjöldamargar vörður úr timbri á brekkubrúnunum ofan kaupstaðarins og víðar til að setja upp mælinet sitt. Efst á kortinu hafa þeir teiknað inn Rögnvaldarhól, hæð eina í Naustahverfi þar sem nú er Klettatún. Í miðjum Rögnvaldarhól teikna þeir þríhyrning með punkt í miðju en þannig voru mælipunktarnir táknaðir. Rétt norðanundir Rögnvaldarhól eru hinar gríðarstóru mógrafir þar sem almenningur sótti eldsneyti sitt um aldir. Á kortinu sést hvernig Búðarlækur rennur inn í miðjar mógrafirnar en hann kemur ofan úr Naustatjörn. Lækurinn heldur síðan áfram í beygjum og sveigjum niður brekkurnar. Á leið sinni sker hann skurði og gil í landslagið og dregur efnið með sér til sjávar.  Á þeim stað þar sem lækurinn rennur í Eyjafjörðinn hefur Akureyrin hlaðist upp með tímanum.  Kortið frá 1809 sýnir þessa landmótun ágætlega og mun betur en við getum lesið úr nýjum kortum enda hefur landslagið á Akureyri umbreyst þó nokkuð á rúmum 200 árum.

Á kortinu sést einnig hvernig Frisak og Scheel hafa dregið upp bæina Eyrarland og Naust með útihúsum sínum og túngörðum, sitt hvoru megin Búðargilsins. Þeir létu heldur ekki nægja að draga upp hús kaupstaðarins heldur gerðu þeir jafnframt grein fyrir efnivið þeirra. Vínrauði liturinn táknar t.d. timburhús en græni torfhús. Þá hafa þeir samviskusamlega dregið upp glænýja kartöflugarða Levers  kaupmanns norðan við Búðarlækinn rétt ofan eyrinnar en strandlínan sem sést á kortinu er hér um bil þar sem Hafnarstræti liggur í dag.

Byggt á samantekt Arnars Birgis Ólafssonar.

Landmælingamennirnir Frisak og Scheel koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Þættir fjögur og fimm af Leitinni að Grundargralinu komnir í loftið

 

Hver urðu örlög sýslumannssonarins?

Áður hefur Grenndargralið greint frá myndum sem málaðar voru í leiðangri Joseph Paul Gaimard til Íslands árið 1836. Stór hluti myndanna var málaður af listamanninum Auguste Mayer. Mayer var í fylgdarliði Gaimard og málaði fjölmargar myndir sem lengi hafa talist til þjóðargersema á Íslandi.

Ein af nokkrum andlitsmyndum í safni Gaimard og leiðangursmanna hans er af Kristjáni Gunnlaugi Briem, syni Gunnlaugs Briem sýslumanns á Grund og Valgerðar Árnadóttur Briem. Óljóst er hver málaði myndina en nafn málarans Auguste Mayer er hvergi sjáanlegt. Fleira er á huldu þegar kemur að myndinni af sýslumannssyninum á Grund.

Heimildir herma að Gaimard hafi að lokinni Íslandsdvöl sumrin 1835 og 1836, boðið tveimur ungum Íslendingum að fylgja sér yfir hafið til Frakklands til að stunda þar nám. Vitað er að Guðmundur Sívertsen var annar þeirra og þáði hann boðið. Hinn er sagður hafa verið Gunnlaugur Briem yngri. Svo virðist þó sem það sé á misskilningi byggð. Mögulega hefur sagan sprottið fram vegna myndarinnar af honum og þeirra staðreyndar að sömu listamenn gerðu sambærilega mynd af Guðmundi um svipað leyti. En hvar og við hvaða tækifæri lágu leiðir þeirra saman, Gunnlaugs Briem yngri og frönsku leiðangursmannanna, sem varð til þess að myndin af Gunnlaugi var máluð?

Kristján Gunnlaugur Briem var fæddur árið 1802. Hann fór ungur til Danmerkur í trésmíðanám en ferðaðist jafnframt um Evrópu. Árið 1828 kom hann til Parísar þar sem hann átti eftir að dveljast næstu árin. Það er þarna sem mál fara að flækjast. Lítið er vitað um afdrif hans í Frakklandi og er sem nafn hans týnist hreinlega í heimildum um 1840. Ekki er vitað hvort hann átti afkomendur og þá ber heimildum ekki saman um hvar og hvenær hann lést. Heimildir eru samróma um að hann hafi látist einhvern tímann á árunum 1834 til 1840.

Myndin af Gunnlaugi ber þess vitni að hann og Gaimard og hans teymi hafi átt í einhvers konar samskiptum. Hvort Gunnlaugur var staddur á Íslandi þegar Frakkarnir spígsporuðu hér um slóðir 1835 eða 1836 skal ósagt látið. Líklega verður að teljast sennilegra að leiðir þeirra hafi legið saman í Frakklandi.

Til að auka flækjustigið enn frekar, skal nefnd til sögunnar tilgáta Kai Erik Ebbesen (1892-1959), langafabarns Jóhanns Gunnlaugs Briem sem var bróðir Gunnlaugs Briem yngri. Á sínum tíma taldi hann sig vita um örlög Gunnlaugs. Ef tilgáta hans er rétt, féll Kristján Gunnlaugur Briem í tilræði við Lúðvík Filippus Frakklandskonung í París þann 28. júlí 1835. Lúðvík Filippus er hinn sami og kom að þeirri ákvörðun Frakka ári síðar að kanna Ísland. Konungurinn lifði tilræðið af en átján féllu í valinn, þar af fjórtán úr fylgdarliði konungsins og eru þeir nafngreindir í heimildum. Fórnarlömb tilræðisins sem ekki hafa verið nafngreind eru fullorðin kona, ung stúlka og tveir fullorðnir menn.

Geyma kannski gömul skjöl á safni í Frakklandi svör við rágátunni um hver afdrif Kristjáns Gunnlaugs Briem urðu?

Grenndargralið rekur sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar konu hans, afkomenda og samferðamanna í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Fundin bréf til Gaimard. (1997, 26. október). Morgunblaðið B – Sunnudagur, bls. 2-4.

Louis Philippev I. (2021, 12. júní). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Louis_Philippe_I

Frægar myndir af Akureyri málaðar í leiðangri Gaimard

Joseph Paul Gaimard var franskur læknir og náttúruvísindamaður. Hann stýrði vísindaleiðangri á Norðurslóðum á fjórða áratug 19. aldar og ferðaðist þá um Ísland. Hann kom tvisvar hingað til lands, sumrin 1835 og 1836 og dvaldist í rúma fjóra mánuði bæði árin. Í fyrri leiðangrinum hafði hann náttúrfræðinginn Eugene Robert sér við hlið. Í þeim seinni kom sjö-manna hópur vísinda-, fræði- og listamanna frá Frakklandi til að rannsaka, skrá og teikna myndir af því sem fyrir augu bar. Leiðangursmennirnir komu við á Akureyri.

Eftir fyrri leiðangurinn tókst Gaimard að vekja athygli samlanda sinna á Íslandi. Komið hefur fram tilgáta um að sjálfur Frakklandskonungur, Lúðvík Filippus, hafi haft bein áhrif á ákvörðun franskra stjórnvalda um að rannsaka þessa ókönnuðu eyju í Norður-Atlantshafi. Miklu fé var kostað í því skyni að tryggja mannafla og fullkominn tækjabúnað í þágu seinni leiðangursins. Konungi hefur sjálfsagt verið kunnugt um gjöful fiskimið við Íslandsstrendur og því talið eftir einhverju að slægjast. Leiðangurinn var þó ekki einstakur, hann var hluti af metnaðarfullri áætlun Frakka um að rannsaka gjörvalla Norður-Evrópu.

Í hópnum sem kom til Akureyrar var landslagsmálari að nafni Auguste Mayer. Í ferðinni hingað norður málaði Mayer myndir sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir, m.a. myndir af elsta hluta Akureyrar, Laxdalshúsi og Möðruvöllum í Hörgárdal. Myndirnar úr leiðangrinum eru fjölmargar og ekki aðeins af landslagi. Einnig er um að ræða myndir af dýrum, kirkjugripum og fólki. Fleiri málarar komu að gerð myndanna en Mayer. Nokkur nöfn eru nefnd til sögunnar en Auguste Mayer er án nokkurs vafa það nafn sem flestir hafa heyrt nefnt.

Leiðangur Joseph Paul Gaimard kemur við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Friðrik Rafnsson. (1985, 13. apríl). Í sálarkompaníi með Páli Gaimard. DV, bls. 22-23.

Grundargralið – Kom eggjasafnari frá Leipzig með gralið?

Árin 1820 og 21 ferðuðust þýskir vísindamenn til Íslands. Þeir hétu Friedrich August Ludwig Thienemann (1793-1858) og Gustaf Biedermann Gunther (1801-1866). Ferð þeirra til Íslands var í þágu vísinda. Hittu þeir m.a. Gunnlaug Briem sýslumann og konu hans Valgerði Árnadóttur að heimili þeirra á Grund í Eyjafirði árið 1820.

Thienemann var fuglafræðingur og læknir. Eftir læknisfræðinám í Leipzig árið 1819 ferðaðist hann um Evrópu í tvö ár, þar af rúmt ár á Íslandi. Gunther var skurðlæknir, fæddur árið 1801. Á meðan hann stundaði nám við Háskólann í Leipzig, ferðaðist hann með Thienemann um Ísland. Félagarnir skráðu það sem fyrir augu bar í Íslandsheimsókninni í bókinni Reise im Norden Europa’s vorzüglich in Island in den Jahren 1820 bis 1821. Bókin kom út árið 1824.

Gunther varð prófessor í skurðlækningum við Háskólann í Kiel árið 1837. Hann starfaði sem slíkur við Háskólann í Leipzig frá árinu 1841 og til dauðadags. Thienemann er þekktastur fyrir störf sín á sviði fuglafræði og þá sérstaklega fyrir rannsóknir á æxlun fugla. Á starfsævi sinni safnaði hann um 2000 fuglahreiðrum og 5000 eggjum frá 1200 fuglategundum.

Skyldu 19. aldar-egg frá Grund í Eyjafirði leynast á safni í Þýskalandi?

Grenndargralið veltir upp spurningunni hvort Thienemann og Gunther hafi fært sýslumanninum silfurgral í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Friedrich August Ludwig Thienemann. (2020, 27. júní). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ludwig_Thienemann

Gustav Biedermann Günther. (2018, 5. september). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Gustav_Biedermann_G%C3%BCnther#cite_note-LO-1

Grundargralið – Hver var Akne Hustergaard?

Valgerður Árnadóttir Briem var fædd árið 1779. Valgerður var eiginkona Gunnlaugs Briem (1773-1834) sýslumanns í Kjarna og á Grund. Til er ljósmynd af Valgerði sem margir þekkja. Myndin er söguleg fyrir þær sakir að barnabarn þeirra hjóna, hinn kunni bankastjóri, þingmaður og kaupstjóri Gránufélagsins, Tryggvi Gunnarsson er álitinn hafa tekið myndina af ömmu sinni. Tryggvi lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn veturinn 1863–1864.

Það sem gerir myndina merkilegri er hversu langt síðan Valgerður fæddist. Þó myndin sé ekki á meðal elstu ljósmynda af Íslendingi, hefur hún hingað til verið talin tekin af þeim Íslendingi sem fæddist fyrst allra þeirra sem ljósmynd hefur verið tekin af á Íslandi. Valgerður lést árið 1872 svo ef rétt reynist er myndin tekin fyrir þann tíma, eðli málsins samkvæmt. En er konan á myndinni mögulega einhver önnur en Valgerður Briem?

Ekki er úr miklu að moða þegar leitað er upplýsinga um ljósmyndina á erlendum vefsíðum. Þó er eitt sammerkt með sumum þeirra sem vekur athygli en það er nafn konunnar á myndinni – Akne Hustergaard(?) Er það kannski til marks um að konan sem um ræðir sé önnur en sýslumannsfrúin á Grund? Þá vekur upp spurningar að  ljósmyndin er til á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn (https://samlinger.natmus.dk/dmr/asset/160020) þar sem hún er sögð úr fórum Daniel Bruun (1856-1931). Bruun var liðsforingi í danska hernum og fornleifafræðingur. Hann kom margoft til Íslands um aldamótin 1900 til að rannsaka kuml. Þó myndin sé eignuð Daniel Bruun í Þjóðminjasafninu í Danmörku, þarf það ekki að þýða að hann hafi tekið myndina. En ef svo, þá er útilokað að myndin sé af Valgerði Briem þar sem Bruun kom í fyrsta skipti til Íslands árið 1896.

Grenndargralið rekur sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar konu hans, afkomenda og samferðamanna í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Fyrstu þættir Leitarinnar að Grundargralinu komnir í loftið