main image

Menningarverðmæti fundust í safninu hans pabba

„Ég fann þetta bréf þegar ég fór í gegnum dótið hans pabba og skemmti mér vel yfir lestrinum. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta lenti hjá honum en pabbi var mikið í því að skipta bókum í dánarbúum og fékk yfirleitt greitt í bókum og pésum. Mér finnst ekki ólíklegt að bréfið hafi ratað til hans með þeim hætti þó ég hafi ekki hugmynd um það.

Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að bréfið sé skrifað af Benedikt sjálfum eða er ég kannski með eintak sem einhver annar hefur skrifað upp eftir honum? Hvert var tilefni þessara skrifa? Hver/hverjir áttu að lesa eða var þetta bara skrifað af því bara?

Ég lofaði pabba því að ég skyldi aldrei lána, gefa eða selja nokkuð úr safninu hans. Mér þykir endalaust vænt um það og mun gæta þess vel. Það á ekki síst við um þetta tiltekna bréf sem pabbi hafði merkt sem fágæti.“

Svona hefst tölvupóstur sem Grenndargralinu barst ekki alls fyrir löngu ásamt myndum af gul-lituðu og snjáðu 19. aldar bréfi. Ónefndur einstaklingur í heimabyggð veltir fyrir sér tilgangi skrifanna og hvort Benedikt sá er vísað er til, sé Benedikt Gröndal náttúrfræðingur og skáld (1826-1907), sonur hins þekkta Pereat-rektors Lærða skólans, Sveinbjörns Egilssonar. Bréfið er nokkurs konar vottun eða staðfesting Benedikts á frelsi Vilborgar nokkurrar Sigurðardóttur til að ferðast óhindrað milli landshluta. Þegar bréfið var skrifað hafði Benedikt misst eiginkonu og tvær dætur. Hann lagðist í alvarlegt þunglyndi og sinnti illa starfi sínu sem kennari við Lærða skólann í Reykjavík. Honum var vikið úr starfi árið 1883. Næstu árin vann hann ýmis störf til að hafa í sig og á. Titill bréfsins er Fararbrjef handa stúlku. Árið er 1886.

Hjer með kunngjörist að stúlkan Vilborg Sigurðardóttir ætlar vistferlum hjeðan úr bænum, norður í Húnavatnssýslu, og er hún til þess fullkomlega frjáls, hvort hún vill heldur fara í norður, vestur, austur eða suður og eftir öllum strikum kompássins, hvort hún vill heldur ganga eða hlaupa, stökkva, klifra, skríða, fara á handahlaupum, sigla eða fljúga.

Áminnast hjer með allir karlmenn um að fikta ekkert við Borgu fremur en hún sjálf vill leyfa, og engar hindranir henni að gera, ekki bregða henni hælkrók, nje leggja hana á klofbragði, heldur láta hana fara frjálsa og óhindraða og húrrandi í loftinu, hvert á land sem hún vill, þar eð hún hefur hvorki rænt né drepið mann, ekki logið nje stolið, ekki svikið né neitt gjört, sem á verður haft.

Lýsist hún því hér með frí og frjáls fyrir öllum sýslumönnum og hreppstjórum, böðlum og besefum, kristnum og ókristnum, guðhræddum hundheiðnum, körlum og konum, börnum og blóðtökumönnum.

Heldur áminnast allir og umbiðjast, að hjálpa nefndri Borgu og greiða veg hennar, hvort heldur hún vill láta draga sig, aka sjer, bera sig á háhesti, reiða sig á merum eða múlösnum, trippum eða trússhestum, gæðingum eða graðungum, í hripum eða hverju því sem flutt verður á.

Þetta öllum til þóknanlegrar undirrjettingar, sem sjá kunna passa þennan. Enginn sóknarprestur þarf að skrifa hjer upp á.

Reykjavík 5. maí 1886.

Benedikt Gröndal.

Árið 1913 birtist grein í Verkamannablaðinu undir yfirskriftinni Passi. Þar er bréf Benedikts Gröndal birt í heild ásamt skýringum á hlutverki þess.

Það vóru lög fyrrum, að menn urðu að fá sér vegabréf hjá yfirvaldi til þess að geta ferðast frjálsir inn í annað lögsagnarumdæmi. Slík vegabéf eru enn í góðu gengi á Rússlandi, en munu nú vísast horfin annars staðar um hinn svonefnda siðaða heim. Þetta vegabréf eða passa, sem hér fer á eftir, gaf Ben. Gröndal vinnukonu sinni, sem fluttist vistferlum frá honum og orðar hann auðvitað á sína vísu. Afskrift af passa þessum mun vera í fárra manna höndum, en eftirsjá að hann glatist, svo einkennilegur sem hann er og líkur Gröndal.

Verkamannablaðið svarar þannig ágætlega þeirri spurningu eiganda bréfsins, hver tilgangur skrifanna var. Þá getum við svo gott sem fært til bókar að textinn í bréfinu kemur upphaflega frá umræddum Benedikt Gröndal, náttúrufræðingnum, skáldinu og rithöfundinum. Eftir stendur spurningin hvort þetta tiltekna eintak sem Grenndargralið fékk fyrirspurn um sé „orginall“, skrifað og undirritað af skáldinu sjálfu.

Þó ekki sé hægt að fullyrða nokkuð um það, verður líklega að teljast ólíklegt að svo sé. Til þess eru líkindin ekki nægilega mikil með undirskriftinni á bréfinu og undirskrift sem ótvírætt er runnin undan rifjum Benedikts. Eins getur Verkamannablaðið þess að afrit (ft) af bréfinu hafi verið til sem gefur til kynna mögulega fjölritun og þá ekki endilega frá rithöfundinum sjálfum. Þá er orðalag bréfsins sem hér er til umfjöllunar örlítið frábrugðið textanum sem birtist í Verkamannablaðinu.

Hvað sem öllu líður er ljóst að bréf sem hafði mikið varðveislugildi árið 1913 sökum þess hversu fá eintök voru til, hefur ekki minna gildi nú rúmum 100 árum síðar. Menningarlegt gildi fararbréfs Benedikts Gröndal handa stúlku frá árinu 1886 er þannig ótvírætt. Gott er að vita af þessari gersemi í sögu og menningu heimabyggðar í góðum höndum í safninu hans pabba.

Heimildir:

Lestu ehf. (e.d.). Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal. Lestu.is. https://lestu.is/safn/Benedikt%20Sveinbjarnarson%20Grondal/index.html

Passi. (1913, 1. maí). Verkamannablaðið, bls. 4.