Verður Leitin að Grenndargralinu endurvakin?

 

Leitin að Grenndargralinu verður valgrein í Menntaskólanum á Akureyri næsta skólaár. Þó er alls óvíst hvort Leitin mun fara fram meðal menntskælinga. Það veltur á vali þeirra seinna á yfirstandandi önn. Ljóst er þó að hér eru um ákveðin tíðindi að ræða í sögu Grenndargralsins, ekki síst í ljósi þess sem Gralið lét hafa eftir sér á upphafsárum Leitarinnar fyrir rúmum áratug síðan.

Vaxandi áhugi er meðal skólafólks nú um mundir að finna leiðir til að rjúfa með einhverjum hætti skil milli skólastiga. Gera námið meira fljótandi þannig að viðbrigðin verði minni þegar farið er af einu skólastigi yfir á annað. Velta má fyrir sér hvort verkefni eins og Leitin að Grenndargralinu sé ákjósanlegur valkostur í þeirri viðleitni. Skotið hafa upp kollinum hugmyndir þess efnis að skoða beri kosti þess að færa verkefnið upp á framhaldsskólastig. Þannig mætti bjóða upp á viðfangsefni sem nemendur grunn- og framhaldsskólans ynnu samtímis og hefðu jafnframt sameiginleg markmið. Allar slíkar vangaveltur eru þó enn á algjöru frumstigi. Tíminn mun leiða í ljós hvort hugmyndir sem þessar teljist raunhæfar.

Leitin að Grenndargralinu fór fram í grunnskólum Akureyrar á árunum 2008 – 2017. Grenndargral fjölskyldunnar var hluti af dagskrá á vegum Akureyrarbæjar árið 2012 í tilefni af því að þá voru 150 ár liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd