Stjörnufans í Laugarborg 1962

Á gullaldarárum félagsheimilanna stigu menningarstjörnur gjarnan á stokk í heimabyggð. Sjálfstæðismenn í Eyjafirði og Akureyri efndu til eftirminnilegrar samkomu í félagsheimilinu Laugarborg árið 1962. Landsþekktir listamenn og pólitíkusar komu fram og trekktu að þar sem færri komust að en vildu. Samkoman var sannkölluð stjörnumessa. Hún var haldin 26. ágúst, þremur dögum áður en Akureyri fagnaði því að 100 ár voru liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi.

Gísli Jónsson menntaskólakennari á Akureyri setti samkomuna og stjórnaði. Guðmundur Jónsson óperusöngvari söng við undirleik Fritz Weisshappel píanóleikara. Magnús Jónsson alþingismaður talaði við samkomugesti og Sigurveig Hjaltested óperusöngkona söng einsöng. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra flutti ræðu og fluttur var gamanleikurinn „Heimilisfriður“ eftir Georges Courteline. Með hlutverkin í leiknum fóru leikararnir Rúrik Haraldsson og Guðrún Ásmundsdóttir. Eftir að sýningu lauk sungu Guðmundur og  Sigurveig tvísöng. Fritz Weisshappel spilaði undir. Að lokinni dagskrá var stiginn dans fram á nótt.

Laugarborg var byggð sem félagsheimili fyrir Hrafnagilshrepp árið 1959. Rúmum þremur áratugum síðar, árið 1992, fékk Laugarborg hlutverk tónlistarhúss þar sem ungir tónlistarmenn Tónlistarskóla Eyjafjarðar fá nú m.a. að njóta sín á sviðinu. Þá eimir eftir af upphaflegu hugmyndinni um íverustað fyrir samveru og félagsskap á góðri stundu. Þannig þjónar Laugarborg sínu upphaflega hlutverki eins og hún gerði árið 1962, sem félagsheimili og vettvangur fyrir stjörnur til að skína.

 

Heimildir:

Eyjafjarðarsveit. (2019, 21. ágúst). Laugarborg. https://www.esveit.is/is/mannlif/felagsheimilin/laugarborg

Fjölmennt héraðsmót að Laugaborg. (1962, 29. ágúst). Morgunblaðið, bls. 2.

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd