main image

Stóri Íslendingurinn með stóru stjörnunum í Hollywood

Ein af hátíðarmyndum kvikmyndahúsanna hér á landi jólin 1953 var stórmyndin Davíð og Batseba. Myndin sækir efnivið í Biblíuna en hún segir frá ástum Davíðs konungs og Batsebu hinnar fögru. Golíat kemur einnig við sögu. Darryl F. Zanuck framleiddi myndina og um tónlist sá Alfred Newman. Með hlutverk Davíðs og Batsebu fóru stórleikararnir Gregory Peck og Susan Hayward. Myndin var sýnd Nýja Bíói í Reykjavík og stóðu sýningar yfir fram í janúar 1954. Hún var tekin til sýninga í Nýja Bíói á Akureyri í mars sama ár.

Tveimur árum áður en Íslendingar sáu þríeykið Davíð, Batsebu og Golíat á hvíta tjaldinu, birtust viðtöl við Jóhann K. Pétursson í tveimur staðarblöðum í Bandaríkjunum. Jóhann Svarfdælingur starfaði á þessum tíma í fjölleikaflokki í Texas og hafði nýlega lokið við að leika í Hollywood-kvikmyndinni Prehistoric Women með lítt þekktum leikurum. Kannski blunduðu draumar í Jóhanni um að vinna með heimsþekktum stjörnum úr draumasmiðjunni í Hollywood. Því ekki? Ef Davíð gat sigrað Golíat, gat þá ekki stóri maðurinn frá litla Íslandi alveg eins sigrað heiminn?

Í viðtali sem blaðamaður tímaritsins El Paso Times tók við Jóhann og birtist í blaðinu 20. nóvember árið 1951, upplýsir Jóhann að búið hafi verið að taka ákvörðun um að hann fengi hlutverk Golíats í kvikmyndinni. Þegar svo í ljós hafi komið að hann þyrfti að ferðast með fjölleikaflokknum til Suður-Ameríku á sama tíma og tökur á myndinni stæðu yfir, hafi hann þurft að gefa hlutverkið frá sér. Til að fylla í skarð Jóhanns var Lithái að nafni Walter Talun fenginn til að leika ofurmennið Golíat.

Í ársbyrjun 1952 birtist annað viðtal við Jóhann í El Paso Herald-Post. Í inngangsorðum segir blaðamaður frá hinum 38 ára hávaxna Íslendingi sem langtímum saman hafi hvergi átt höfði sínu að halla vegna hæðarinnar. Nú væri hann hins vegar kominn með þak yfir höfuðið þar sem búið væri að útvega honum sérútbúið hjólhýsi (trailer). „Þetta er yndislegt. Allavega er ég kominn með dyr sem ég get núna gengið um án þess að meiða mig í höfðinu“ segir Jóhann í viðtalinu við blaðamann El Paso Herald-Post (lausleg þýðing; Grenndargralið).

Vegna skuldbindinga við fjölleikaflokkinn, missti Jóhann af tækifæri til að vinna með hæfileikaríkum Hollywood-leikurum, þeim Gregory Peck og Susan Hayward. Tæpum þremur áratugum síðar fékk Jóhann annað tækifæri til að vinna með þekktum leikurum úr draumasmiðjunni og ekki síður hæfileikaríkum. Í þetta skiptið greip hann tækifærið. Árið 1980, sama ár og Walter Talum lést, lék Jóhann í kvikmyndinni Carny með Jodie Foster og Gary Busey. Golíat var sigraður.

Jóhann Kristinn Pétursson lést á Dalvík árið 1984. Hann var 71 árs að aldri.

 

Heimildir:

Davíð konungur og Batseba í skrautlegri mynd. (1953, 24. desember). Tíminn, bls. 2.

Internet Movie Database. (e.d.). Walter Talun.

https://www.imdb.com/name/nm0848322/?ref_=fn_al_nm_1

Internet Movie Database. (e.d.). Johann Petursson.

https://www.imdb.com/name/nm0678842/?ref_=nv_sr_srsg_1

Tallest man in the world. (1951, 20. nóvember). El Paso Times, bls. 13.

Tall man from carnival gets special high trailer. (1952, 14. janúar). El Paso Herald-Post, bls. 8.

 

Sagan á bak við fallega jólamynd

Hver skyldi vera eftirminnilegasta íslenska ljósmyndin sem tekin er um jól? Mynd Kristjáns Hallgrímssonar ljósmyndara sem hann tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum kemur líklega upp í huga einhverra. Myndin sýnir mann með hatt sem stendur við bílinn sinn í snævi þaktri göngugötunni. Fáir eru á ferli og jólaljósin lýsa upp skammdegið. Andstæðurnar takast á í ljósmyndinni. Umhverfið er fallegt, mikill friður ríkir og birta jólaljósanna minnir á gleðina sem hátíðinni fylgir. En myndin er einnig sveipuð depurð og einmanaleika. Maðurinn með hattinn er einn á ferð í skammdeginu og það eru jól. Fátt stingur meira í hjartastað en villuráfandi sál á hátíð ljóss og friðar.

Hver ætli sagan sé á bak við ljósmyndina? Grenndargralið leitaði álits Harðar Geirssonar safnvarðar ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri. Að sögn Harðar tók Kristján myndina árið 1962. Ólíkt því sem einhverjir kunna að halda segir Hörður ýmislegt benda til þess að Kristján hafi komið myndavélinni fyrir á þrífæti og að um uppstillingu sé að ræða. Hér sé ekki á ferðinni tækifærismynd heldur myndataka, gerð með vitund og aðstoð mannsins með hattinn og fólksins sem stendur við búðargluggann. Kannski er maðurinn með hattinn ekki svo einsamall eftir allt.

Grenndargralið minnist þess að hafa fyrir margt löngu séð ljósmyndina í gömlu dagblaði. Eftir samtalið við Hörð var forvitnin vakin. Ef myndin er tekin árið 1962, er þá hugsanlegt að hún hafi birst í dagblaði í desember það ár? Og ef svo, geymir dagblaðið þá kannski einhverjar frekari upplýsingar um myndina? Grenndargralið fór á stúfana og fletti í gegnum dagblöð sem gefin voru út á Akureyri á þessum tíma. Fljótlega hljóp á snærið því á forsíðu Íslendings föstudaginn 14. desember 1962 blasti mynd andstæðnanna við með grein sem ber yfirskriftina Fögur jólaskreyting í bænum.

Þar með er ekki öll sagan sögð. Á öðrum stað í blaðinu er mynd sem líkir mjög til ljósmyndarinnar sem hér er til umfjöllunar. Sýnir hún einnig jólaskreytingar í myrkvuðum bænum – Jólaskreyting á Oddeyri. Þegar myndunum tveimur er flett upp á síðunni sarpur.is kemur í ljós að fleiri myndir hafa verið teknar í miðbæ Akureyrar við þetta sama tækifæri. Svo virðist sem Kristján hafi farið milli staða og tekið myndir, fest á filmu nokkurs konar myndaseríu og gert það á þeim tíma sólarhringsins þegar bæjarbúar héldu sig heima við.

Rúsínan í pylsuendanum er myndatextinn sem fylgir Oddeyrar-myndinni en þar segir: „Jólaskreytingar í bænum eru í fullum gangi og hafa aldrei verið meiri en  nú. Kr. Hallgr. tók þessa mynd á Oddeyri í fyrrakvöld.“ Þar með er það skjalfest. Myndin sem Kristján Hallgrímsson ljósmyndari tók í miðbæ Akureyrar að kvöldlagi á sjöunda áratugnum af manninum með hattinn var tekin að kvöldi miðvikudagsins 12. desember árið 1962. Eftir stendur spurningin – hver er maðurinn með hattinn?

Heimildir:

Fögur jólaskreyting í bænum. (1962, 14. desember). Íslendingur, bls. 1.

Jólaskreyting á Oddeyri. (1962, 14. desember). Íslendingur 2, bls. 1

Myndir:

Mynd 1) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Jól í miðbæ Akureyrar. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630317

Mynd 2) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Gatnamót Glerárgötu og Gránufélagsgötu. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630297

Mynd 3) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Ráðhústorg, Brekkugata 1 (Kjörbúð KEA og Sparisjóður Ak.). Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630300

Mynd 4) Hallgrímur Einarsson. (1961-1965). Sýslumannshúsið (Hafnarstræti 107), Matvöruverslun KEA og Sparisjóður Ak. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1630650

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fullveldisdagurinn fyrir 100 árum

Grenndargralið sendir góðar kveðjur til lesenda í tilefni fullveldisdagsins. Eftirtaldar fréttir og tilkynningar birtust í Degi, fullveldisdaginn 1. desember árið 1920.

Fullveldisdagurinn er í dag. Búðum lokað og almennur frídagur. Hálsbrot eiga þeir í vændum, sem ganga um götur bæjarins. Í fyrrakvöld steyptust margir fram af bakkanum utan við gamla pósthúsið. Kona datt á brunahana og skaðaði sig. Myrkrið á götunum er háskalegt bænum og stjórn hans til skammar. Á ekki bærinn eða getur veitt sér ódýrar olíuluktir, sem hægt væri að hengja á staura, svo hægt væri að gizka á rétta stefnu á götunum í Höfuðstað Norðurlands?

Veikindi eru allmikil hér í bænum. Inflúenzan gengur um með sömu hægð og tekur einn og einn. Stefán skólameistari hefir legið mjög þungt haldinn, en er nú í afturbata. V. Steffensen læknir hefir sömuleiðis verið mjög veikur af völdum inflúenzu og fleiri eru veikir.

Þeir, sem hugsa sér að gefa kransa á kistu Matthíasar Jochumssonar, eru beðnir að gefa heldur minningargjafir í Matthíasarsjóðinn (til styrktar ungum skáldum og listamönnum) eða Heilsuhælissjóð Norðurlands. Upplýsingar á skrifstofu Ragnars Ólafssonar kaupm. og hjá Hallgr. Davíðssyni kaupm. Þetta hafa þeir, sem standa fyrir útförinni, beðið blaðið að birta.

Frá bæjarstjórnarfundi 23. f. m. Ágreiningur varð um það, hvort kirkjan væri eign bæjarins eða safnaðarins, og er óútkljáð. Tillaga kom fram, um að hækka sóknargjöld og er það sömuleiðis óútkljáð.

Gáta. Bændur kvarta um það, að háa kaupið lami landbúnaðinn stórlega. Sjávarútvegsmenn kvarta um það, að atvinnuvegur þeirra þoli ekki háa kaupið. Verkalýðurinn kvartar um það, að atvinna sé þrotin og sumarkaupið komist ekki í hálfkvisti við greipilega dýrtíð. Allir hafa satt að mæla. Hver er ráðningin? Sendið blaðinu ráðningar skýrar, en svo stuttar sem unt er.

Þjófnaði linnir ekki í Reykjavík. Nýlega var stolið frá manni fjárhæð nokkurri og hann gerði lögreglunni aðvart. Þjófurinn var gripinn og var það þá sonur mannsins. Sunnan blöð herma, að til og frá sé stolið um allan bæ ýmsu smávegis. Eru þetta ein af sporum dýrtíðarinnar og peningagræðginnar, sem hún hefir magnað. Guðm. Friðjónsson segir í »Austurlandi« að fólk streymi nú suður í menninguna þá, sem vanti einn lið á hálsinn, en hafi einni kjúku ofaukið í fingrunum, og er það vel sagt.

Heimild: Dagur, 32. tölublað, 1. desember 1920.