Þegar Stekkjastaur var stolið og Bjúgnakrækir brotinn

Það eru ekki alltaf jólin hjá kaupmönnum í desember. Allavega var það ekki tilfellið um aldamótin síðustu. Eigendur verslana í miðbæ Akureyrar voru rasandi yfir níðingsverkum sem framin voru í Jólabænum, sem svo var kallaður, eftir næturbrölt skemmtanaglaðra skemmdarvarga á aðventu árið 1999. Kaupmenn þurftu að takast á við síendurtekin skemmdarverk á jólaskrauti þar sem vargarnir eyrðu engu. Stekkjastaur stóð styrkum fótum í Hafnarstræti, stinnur eins og tré en var engu að síður rifinn upp með rótum. Honum var stolið í skjóli nætur. Þrátt fyrir að vera brögðóttur og snar náði Bjúgnakrækir ekki að forða sér undan skemmdarvörgunum sem brutu hann í mél og grýttu líkamspörtunum í nærliggjandi hús.

Dagur Akureyri-Norðurland ræddi við starfsfólk Jólabæjarins og Borgarsölunnar Turninum, þau Ólaf Hilmarsson og Jónu Margréti Sighvatsdóttur um ástandið í miðbænum.

Ólafur lét hafa eftir sér að brottnám vesalings Stekkjastaurs hefði ekki átt að fara framhjá neinum þar sem hann stóð utan gáttar húsnæðis Landssímans í Hafnarstræti. Ekki minna en pallbíl hefði þurft til að fjarlægja Sveinka. „Hann var bara tekinn í heilu lagi. Ef hann hefði verið skemmdur þá hefðu sést þarna flísar og annað. Það er mjög leiðinlegt að fólk skuli ekki geta látið þetta í friði“ sagði Ólafur við blaðamann Dags.

Jóna Margrét kvaðst vera orðin langþreytt á ódæðisverkunum. Raddir þess efnis að Jólabærinn stæði ekki undir nafni vegna fátæklegra jólaskreytinga ætti sér skýringar í skemmdarverkunum. Eftir að endurtekið hafði verið fiktað við jólaseríur utan á Turninum var gripið til þeirra örþrifaráða að taka þær niður. Til að kóróna framgöngu skemmdarvarganna var hönnunarverk myndlistarnema brotið þegar Bjúgnakrækir fékk að finna til tevatnsins. Það var þó lán í óláni að nokkrir úr hópi myndlistarnemanna voru staddir í miðbænum og urðu vitni að því þegar Bjúgnakrækir varð fyrir líkamsárás. Í þetta skiptið náðust skemmdarvargarnir.

Af afdrifum Stekkjastaurs er það að segja að hann fannst eftir mikla leit. Kom í ljós að tveir menn í leit að afmælisgjöf handa sameiginlegri vinkonu höfðu fengið þá hugmynd að gefa henni jólasvein, sem og þeir gerðu – og höfðu býsna mikið fyrir því.

Heimild:

HI. (1999, 7. desember). Stekkjastaur stolið á Akureyri. Dagur Akureyri-Norðurland, bls. 1.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd