main image

Stóri Íslendingurinn með stóru stjörnunum í Hollywood

Ein af hátíðarmyndum kvikmyndahúsanna hér á landi jólin 1953 var stórmyndin Davíð og Batseba. Myndin sækir efnivið í Biblíuna en hún segir frá ástum Davíðs konungs og Batsebu hinnar fögru. Golíat kemur einnig við sögu. Darryl F. Zanuck framleiddi myndina og um tónlist sá Alfred Newman. Með hlutverk Davíðs og Batsebu fóru stórleikararnir Gregory Peck og Susan Hayward. Myndin var sýnd Nýja Bíói í Reykjavík og stóðu sýningar yfir fram í janúar 1954. Hún var tekin til sýninga í Nýja Bíói á Akureyri í mars sama ár.

Tveimur árum áður en Íslendingar sáu þríeykið Davíð, Batsebu og Golíat á hvíta tjaldinu, birtust viðtöl við Jóhann K. Pétursson í tveimur staðarblöðum í Bandaríkjunum. Jóhann Svarfdælingur starfaði á þessum tíma í fjölleikaflokki í Texas og hafði nýlega lokið við að leika í Hollywood-kvikmyndinni Prehistoric Women með lítt þekktum leikurum. Kannski blunduðu draumar í Jóhanni um að vinna með heimsþekktum stjörnum úr draumasmiðjunni í Hollywood. Því ekki? Ef Davíð gat sigrað Golíat, gat þá ekki stóri maðurinn frá litla Íslandi alveg eins sigrað heiminn?

Í viðtali sem blaðamaður tímaritsins El Paso Times tók við Jóhann og birtist í blaðinu 20. nóvember árið 1951, upplýsir Jóhann að búið hafi verið að taka ákvörðun um að hann fengi hlutverk Golíats í kvikmyndinni. Þegar svo í ljós hafi komið að hann þyrfti að ferðast með fjölleikaflokknum til Suður-Ameríku á sama tíma og tökur á myndinni stæðu yfir, hafi hann þurft að gefa hlutverkið frá sér. Til að fylla í skarð Jóhanns var Lithái að nafni Walter Talun fenginn til að leika ofurmennið Golíat.

Í ársbyrjun 1952 birtist annað viðtal við Jóhann í El Paso Herald-Post. Í inngangsorðum segir blaðamaður frá hinum 38 ára hávaxna Íslendingi sem langtímum saman hafi hvergi átt höfði sínu að halla vegna hæðarinnar. Nú væri hann hins vegar kominn með þak yfir höfuðið þar sem búið væri að útvega honum sérútbúið hjólhýsi (trailer). „Þetta er yndislegt. Allavega er ég kominn með dyr sem ég get núna gengið um án þess að meiða mig í höfðinu“ segir Jóhann í viðtalinu við blaðamann El Paso Herald-Post (lausleg þýðing; Grenndargralið).

Vegna skuldbindinga við fjölleikaflokkinn, missti Jóhann af tækifæri til að vinna með hæfileikaríkum Hollywood-leikurum, þeim Gregory Peck og Susan Hayward. Tæpum þremur áratugum síðar fékk Jóhann annað tækifæri til að vinna með þekktum leikurum úr draumasmiðjunni og ekki síður hæfileikaríkum. Í þetta skiptið greip hann tækifærið. Árið 1980, sama ár og Walter Talum lést, lék Jóhann í kvikmyndinni Carny með Jodie Foster og Gary Busey. Golíat var sigraður.

Jóhann Kristinn Pétursson lést á Dalvík árið 1984. Hann var 71 árs að aldri.

 

Heimildir:

Davíð konungur og Batseba í skrautlegri mynd. (1953, 24. desember). Tíminn, bls. 2.

Internet Movie Database. (e.d.). Walter Talun.

https://www.imdb.com/name/nm0848322/?ref_=fn_al_nm_1

Internet Movie Database. (e.d.). Johann Petursson.

https://www.imdb.com/name/nm0678842/?ref_=nv_sr_srsg_1

Tallest man in the world. (1951, 20. nóvember). El Paso Times, bls. 13.

Tall man from carnival gets special high trailer. (1952, 14. janúar). El Paso Herald-Post, bls. 8.