main image

Lasburða kýr innihélt 26 kg af baggaböndum

Vorið 1981 fundu starfsmenn Sláturhúss KEA stóran köggul í vömb lasburða kýr sem leidd var til slátrunar. Þegar betur var að gáð kom í ljós að baggabönd voru orsakavaldurinn og þau höfðu hlaðið utan á sig steinefnum svo köggullinn var harður sem grjót. Þegar ófögnuðurinn var veginn reyndist hann vera 26 kílógrömm að þyngd. Þar sem mikill vökvi hafði runnið úr honum var talið að hann hefði líklega vegið á þriðja tug þegar mest lét.

„Þetta er nú með því meira sem við höfum séð koma úr kýrvömb og manni verður nú á að hugsa, hvernig skepnunni hafi liðið með allt þetta innan í sér” sagði starfsmaður Sláturhússins í viðtali við Dag. Aðrir starfsmenn tóku undir þetta og sögðu ekki óalgengt að baggabönd væri að finna í vömbum kúa þar sem þær ættu það til að láta ýmsa óæskilega hluti ofan í sig. Nefndu þeir gúmmíslöngu, gúmmívettling og flösku í því sambandi.

Leitað var álits Ágústar Þorleifssonar dýralæknis á sínum tíma vegna málsins. Hann sagði kúna líklega hafa náð í baggaböndin í fóðurgöngunum. Að hans mati væru mál sem þessi ekki algeng því böndin væru að öllu jöfnu fjarlægð úr heyinu við fóðurgjöf. Í þessu tilfelli hefði umræddur köggull verið 2-3 ár að myndast og vegna stærðarinnar hefði starfsemi vambarinnar truflast. Smám saman mynduðust sár, kýrin hætti að nærast og veslaðist upp.

 

Heimild:

Hvorki meira né minna en 26 kg af baggaböndum fundust í kýrvömb! (1981, 9. apríl). Dagur, bls. 8.