Þjóðverjinn sem þjálfaði ÍBA og FC Schalke 04

Í blaðagrein sem birtist í Vísi árið 1964 segir að hann hafi tekið þátt í orrustunni í Argonne-skógi í fyrri heimsstyrjöldinni og verið sæmdur Járnkrossinum. Hann er kynntur sem fyrrverandi forstjóri Salamander, frægasta skófyrirtækis Þýskalands. Í viðtali við Dag sama ár segir hann frá því þegar hann dæmdi knattspyrnuleik á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928. Harry Rosenthal flúði Þýskaland nasismans áður en seinni heimsstyrjöldin braust út. Hann settist að á Akureyri og tók sér upp nafnið Höskuldur Markússon. Tveimur áratugum eftir að hann kom í bæinn hafði hann milligöngu um ráðningu menntaðs knattspyrnuþjálfara til að þjálfa knattspyrnumenn á Akureyri en slíkt var nýlunda á þeim tíma. Nokkrum árum síðar átti umræddur þjálfari eftir að stýra liði Schalke í þýsku Bundesligunni.

Áhrifamaður í þýsku íþróttalífi sest að í bænum

Sem ungur drengur í Þýskalandi iðkaði Höskuldur knattspyrnu. Hann hafði dálæti á íþróttum og sat í íþróttaráði Berlínar til margra ára. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk náði hann sér í dómararéttindi. Auk þess að dæma á Ólympíuleikum, rifjar Höskuldur upp í fyrrnefndu viðtali þegar hann dæmdi úrslitaleik um þýska meistaratitilinn á þriðja áratugnum fyrir framan 86 þúsund manns.

Þegar Höskuldur kom til landsins frá Þýskalandi árið 1938 höfðu öldruð móðir hans, systir og mágur komist úr landi, til Íslands og sest að í Reykjavík. Ekki voru allir í stórfjölskyldunni eins lánsamir. Bróðir hans og fjölskylda enduðu ævina í útrýmingabúðum nasista. Höskuldur bjó hjá systur sinni og móður fyrsta árið, varð sér úti um jarðarskika og ræktaði grænmeti. Ári síðar flutti hann til Akureyrar ásamt unnustu sinni Hildegard Heller sem var þá nýkomin til landsins. Þau giftu sig og fengu íslenskan ríkisborgararétt. Hildegard tók upp nafnið Hildigerður. Fyrstu árin á Akureyri starfaði Höskuldur á saumastofu en árið 1946 réði hann sig í vinnu sem skrifstofustjóri hjá Skarphéðni Ásgrímssyni í Amaro. Þar starfaði hann til dauðadags.

Tímamót í knattspyrnuþjálfun á Akureyri

Í aprílbyrjun 1957 boðaði Knattspyrnuráð Akureyrar (KRA) til blaðamannafundar á Hótel KEA þar sem nýr þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍBA var kynntur. Höskuldur var kominn í stjórn KRA þegar kom að ráðningu hins nýja þjálfara. Formaður ÍBA, Ármann Dalmannsson skýrði blaðamönnum frá áformum um að hefja knattspyrnu í bænum á hærri stall. Þegar þarna var komið sögu hafði ÍBA ekki haft þjálfara til að halda uppi reglulegum æfingum fyrir knattspyrnumenn félagsins. Landsliðsþjálfarinn Karl Guðmundsson hafði reyndar komið í nokkrar ferðir norður á sumrin til að leiðabeina iðkendum, annað ekki. Nú skyldi láta sverfa til stáls með metnað að leiðarljósi og freista þess að ná árangri meðal bestu liða í efstu deild sumarið 1957.

Haraldur M. Sigurðsson, formaður Knattspyrnuráðs tók næstur til máls á fundinum. Hann sagði „nauðsynlegt að hafa kennara, sem gæti fylgst daglega með knattspyrnumönnunum og byggt starfsemina upp fyrir sumarið.“ Því næst var nýr þjálfari kynntur til sögunnar en sá hinn sami hafði dvalist hér í mánuð þegar kom að fundinum. Haraldur sagði félagið vera heppið að fá að njóta þjónustu hins þýska Heinz Marotzke  og þakkaði Höskuldi fyrir að hafa fengið hann til starfa. Marotzke var nýútskrifaður frá Íþróttaháskólanum í Köln þegar hann kom til Akureyrar. Þar hafði hann stundað nám í þrjú ár með knattspyrnu sem aðalnámsgrein með sjálfan Sepp Herberger sem aðalkennara. Herberger stýrði Þjóðverjum til sigurs á HM í Sviss árið 1954. Marotzke hafði einnig nokkra reynslu af knattspyrnuþjálfun eftir að hafa þjálfað lið í Köln með prýðilegum árangri.

„Ég nota sama kerfi og núverandi Evrópumeistarar nota“

Æfingar hjá ÍBA hófust vorið 1957 undir stjórn Heinz Marotzke. Fyrstu fjórar vikurnar fóru þær fram innanhúss en færðust með hækkandi sól út á mölina á gamla Þórsvellinum á Oddeyri. Blaðamaður Íslendings lagði nokkrar léttar spurningar fyrir  Marotzke í lok apríl um dvölina og æfingarnar þessar fyrstu vikur á Akureyri.

Hvernig er æfingum hagað?

Við æfum daglega, þó með nokkrum undantekningum. Við leggjum fyrst og fremst áherzlu á þjálfun undir Íslandsmótið í knattspyrnu, sem hefst 17. maí með leik Akureyringa við Hafnfirðinga, en tveim dögum síðar eiga Akureyringar að leika á móti Akranesliðinu.

Hvaða stíl eða kerfi notið þér við æfingar?

Ég nota sama kerfi og nú er notað í Englandi og Þýzkalandi og núverandi Evrópumeistarar í knattspyrnu nota. Það mætti kalla það WM-kerfi eftir uppstillingu liðsins á leikvelli. En þetta kerfi kemur því aðeins að fullu gagni, að leikmenn mæti stöðugt og reglulega á æfingum. Auk þess, sem ég þjálfa liðið undir Íslandsmótið er ég að byrja æfingar með unglingum, sem nú eru að hætta daglegri skólagöngu. Mig langar til að finna í hópi þessara ungu manna einhvern, er gæti gerst „undirþjálfari“ og tekið við af mér, þegar ráðningartíma mínum lýkur.

Hvað með áhugann?

Hann er mikill og kannski meiri nú, af því Íslandsmótið er svo skammt undan. En gallinn er sá, að margir piltanna eru í ýmsum öðrum félagsskap, svo sem karlakórum, bridgeklúbbum, skákfélögum eða þ. u. l. og allt krefst þetta síns tíma og dregur frá einbeitingu að knattspyrnunni. En hvað sem því líður, ég er enginn töframaður í þessari íþrótt, en mun gera allt, sem í mínu valdi stendur til þess að einhver árangur verði af dvöl minni hér, en til þess þurfa leikmennirnir að leggja fram sinn hlut á móti.

Og hvernig líkar yður lífið hér hjá okkur?

Prýðilega. Ég hef fengið hér ótrúlega góðar viðtökur, ekki aðeins hjá knattspyrnumönnunum, heldur öllum, sem ég hef hitt hér í bænum. Ég átti kost á því að fara til Eþíópíu sem knattspyrnuþjálfari, en mér er víst óhætt að fullyrða, að ég mun ekki sjá eftir að hafa valið Ísland.

Grenndargralið mun halda áfram umfjöllun um Heinz Marotzke.

 

 

Heimildir:

ÁE. (1964, 27. apríl). Frá Salamander til Amaro. Vísir, bls. 7.

Er enginn töframaður en reyni mitt bezta. (1957, 26. apríl). Íslendingur, bls. 1.

Erlingur Davíðsson. (1964, 19. febrúar). Ólympíudómarinn á Akureyri. Dagur, bls. 4-5.

Erlingur Davíðsson. (1968, 10. júlí). Höskuldur Markússon – nokkur minningarorð. Dagur, bls. 5.

Knattspyrnuráð Akureyrar hefir ráðið þýzkan knattspyrnuþjálfara til bæjarins. (1957, 9. apríl). Alþýðumaðurinn, bls. 1.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd