D´Eyncourt tók myndirnar í Lögmannshlíð í ágúst 1940

Walter Tennyson D´Eyncourt (1899-1994) var breskur kvikmyndatökumaður og ljósmyndari í seinni heimsstyrjöldinni. Auk þess að festa atburði styrjaldarinnar á filmu í heimalandinu, vann hann fyrir breska herinn í Frakklandi, Egyptalandi, Þýskalandi og á Íslandi á árunum 1939-1945.

Tennyson D´Eyncourt dvaldist á Íslandi um mánaðarskeið árið 1940 og tók þá mikið af myndum. Hann hafði bæði ljósmyndavél með sér hingað til lands sem og kvikmyndavél. Myndirnar sem sýna veru setuliðsins hér á landi er einhver besta heimild sem til er um stríðsárin á Íslandi og margar hverjar hafa birst á opinberum vettvangi við hin ýmsu tækifæri síðustu 80 árin.

Grenndargralið hefur upp á síðkastið fjallað um myndband og ljósmyndir sem breski herinn lét gera/taka sumarið eða haustið 1940 þar sem fjölskylda í Lögmannshlíð ofan Akureyrar kemur við sögu. Nú liggur fyrir að Walter Tennyson D´Eyncourt er maðurinn á bak við vélarnar í Lögmannshlíð og því jafnframt ljóst að myndirnar eru teknar í ágúst 1940.

Við frekari uppgröft á heimildum í tengslum við málið gróf Grenndargralið upp enn eina myndina úr myndaseríunni frá Lögmannshlíð. Á henni má, meðal annarra, sjá Torfa Guðmundsson með Málfríði dóttur sína í fanginu. Torfi lést þegar Málfríður var 10 ára, árið 1949. Samkvæmt heimildum Grenndargralsins er myndin ein sinnar tegundar þar sem Torfi heldur á dóttur sinni og mögulega sú eina sem til er af þeim feðginum saman.

Á bakhlið myndarinnar má lesa eftirfarandi texta: „Menn úr Lincoln-herdeildinni í veislu sem haldin var fyrir þá á sveitabæ á Akureyri. Tekin af kapt. Tennyson D´Eyncourt árið 1940.“

Í viðtali frá árinu 1978 segir Tennyson D´Eyncourt stuttlega frá veru sinni á Íslandi. Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir neðan. Frásögnin af Íslandsdvölinni byrjar á 15:38 og endar á 16:40.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd