Vissi Hergé af myndinni þegar hann skrifaði Dularfullu stjörnuna?

Knud Rasmussen fór fyrir rannsóknarleiðangri til Grænlands árið 1933. Leiðangurinn var sá sjöundi í röðinni og gekk hann undir nafninu Thule-leiðangurinn. Sá fyrsti var farinn árið 1912. Þessi sjöundi leiðangur Rasmussen hófst í Reykjavík þegar hann kom þar að landi á rannsóknarskipi sínu Nordstjernen. Nokkru fyrr hafði snekkja sem einnig tilheyrði leiðangrinum komið til hafnar í Reykjavík. Henni var ætlað að sigla í samfloti með rannsóknarskipinu til Grænlands. Rasmussen kom sér fyrir í snekkjunni. Ef marka má grein sem birtist í Fálkanum stuttu eftir að leiðangurinn lagði úr höfn í Reykjavík, var flugvél komið fyrir um borð í Nordstjernen á Íslandi áður en skipið hélt til Grænlands. Til er mynd á Þjóðminjasafninu í Kaupamannahöfn sem sýnir Nordstjernen við bryggju á Akureyri. Ef rýnt er í myndina má sjá flugvél af gerðinni Heinkel á skuti skipsins. Í lýsingu með myndinni segir að skipið tilheyri sjöunda Thule-leiðangri Knud Rasmussen (Skibet er sansynligvis et af fire, der deltog i den syvende Thuleekspedition ledet af Knud Rasmussen). Ekki fylgja með upplýsingar hvort myndin er tekin áður en lagt var af stað til Grænlands eða eftir Grænlandsförina.

Rannsóknarskipið Aurora kom við á Akureyri í vísindaleiðangri sem einnig var farinn á fyrri hluta 20. aldar. Ætlunin var að rannsaka loftstein sem lenti í Norður-Íshafi. Um borð í Auroru var ekki ómerkari maður en sjálfur Tinni, félagi hans Kolbeinn kafteinn og hundurinn Tobbi. Þeir félagar komu til Akureyrar til að ná í olíu. Á Akureyri hittu þeir Runólf, gamlan félaga Kolbeins en saman fóru þeir á ónefnt kaffihús í bænum og pöntuðu sér sódavatn og whiskí. Eftir stutta viðdvöl á Akureyri héldu þeir för sinni áfram. Heimsókn Tinna og félaga til Akureyrar birtist í tíundu Tinnabókinni Dularfulla stjarnan sem kom út árið 1942. Hún var jafnframt fyrsta Tinnabókin sem gefin var út í lit. Sagan hafði reyndar birst í víðlesnu barnablaði í Belgíu sem framhaldssaga árin 1941-1942. Teiknimyndapersónan Tinni var búin til af belgíska myndasöguhöfundinum Georges Prosper Remi, betur þekktur sem Hergé.

Gaman er að bera þessar tvær sögur saman. Ekki síst vegna þess að Akureyri er sögusvið þeirra beggja en önnur er byggð á sönnum atburðum á meðan hin er skáldskapur frá upphafi til enda. Eða…? Rannsóknarskip Rasmussen (Norðurstjarnan) sigldi til Grænlands árið 1933. Rannsóknarskip Tinna Aurora (Norðurljós) hélt af stað áleiðis til Grænlands í skrifum Hergé árið 1941. Bæði komu skipin til Akureyrar og um borð beggja skipanna voru sjóflugvélar. Um borð í Norðurstjörnunni var þýsk flugvél af gerðinni Heinkel. Um borð í Auroru var þýsk flugvél af gerðinni Arado Ar 196. Svo skemmtilega vill til að þessar tvær gerðir flugvéla eiga ýmislegt sameiginlegt. Sem dæmi voru þær báðar hugsaðar til flutninga með skipum eins og tilfelli Nordstjernen og Aurora sýna glöggt. Arado-vélin leysti Heinkel-vélina af sem aðal sjóvélin hjá þýska flotanum við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar um það leyti sem Hergé skrifaði Dularfullu stjörnuna.

 

Arado Ar 196. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Arado_Ar_196

Dr. Knud Rasmussen. (1933, 22. júlí). Fálkinn, bls. 3.

Heinkel He 60. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Heinkel_He_60

Knud Rasmussen. (1933, 8. júlí). Vísir, bls. bls. 3.

Knud Rasmussen. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Knud_Rasmussen

Nationalmuseet. (e.d.). Skib i havn på Island med luftfartøj(Heinkel). Sótt af https://samlinger.natmus.dk/THM/asset/15916

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd