main image

Leyndardómar Hlíðarfjalls

 

Smelltu á myndina hér að ofan

Byssukúla úr seinni heimsstyrjöldinni fannst í Hlíðarfjalli

Á dögunum fóru starfsmenn Sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar upp í Hlíðarfjall vegna fjölda sprengjubrota sem þar fundust. Vinna við gerð hlaðvarpsþátta sem segja sögu setuliðsmanna í fjallinu á hernámsárunum er nú á lokametrunum. Ýmsir merkilegir gripir hafa fundist í fjallinu í tengslum við þáttagerðina m.a. áðurnefnd sprengjubrot.

Brynjar Karl Óttarsson höfundur þáttanna var í lokaleiðangri sínum í fjallinu áður en þættirnir fara í loftið þegar hann fann byssukúlu nálægt þeim stað þar sem sprengjubrotin fundust. Áður hafa á þriðja hundruð skothylki (patrónur) fundist við rætur fjallsins. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem byssukúla finnst. Hér er því um tímamótafund að ræða á æfingasvæði setuliðsmanna í Hlíðarfjalli í seinni heimsstyrjöldinni.

Fyrsti þáttur af Leyndardómum Hlíðarfjalls fer í loftið fimmtudaginn 27. ágúst.

Von á stafsmönnum sprengjudeildar eftir helgi

Við fluttum fréttir af því á dögunum að mikið af sprengjuleifum hefðu fundist í Hlíðarfjalli við gerð hlaðvarpsþátta um fjallið á stríðsárunum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Landhelgisgæslan komst á snoðir um fundinn í gegnum fréttamiðla. Í kjölfarið hafði hún samband við Brynjar Karl Óttarsson sem fann sprengjubrotin og tjáði honum að rétt væri að hafa vaðið fyrir neðan sig og rannsaka svæðið. Von er á tveimur starfsmönnum sprengjudeildar Gæslunnar eftir helgi til að fara yfir æfingasvæði setuliðsins í Hlíðarfjalli í því skyni að ganga úr skugga um að ekki leynist virkar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni við rætur fjallsins.

Hlaðvarpsþættirnir Leyndardómar Hlíðarfjalls verða sendir út á hlaðvarpssíðu Grenndargralsins afmælishelgi Akureyrarbæjar, dagana 27. – 30. ágúst.

Dagskrárgerðarmaður gekk yfir sprengjusvæði í Hlíðarfjalli

Mikið magn sprengjuleifa fannst á dögunum á litlu svæði í Hlíðarfjalli á meðan heimildaöflun stóð vegna hlaðvarpsþáttaraðar um dvöl setuliðsins í fjallinu á hernámsárunum. Í sumum tilfellum er erfitt að greina hvort einungis er um sprengjubrot að ræða eða ósprungnar sprengjur. Breskar sprengjur af gerðinni mortar eru áberandi á svæðinu, hólkur sem inniheldur sprengiefni og stél. Engin hætta stafar af stélunum einum og sér en ef hólkurinn er fastur á hefur sprengjan ekki sprungið. Virkar sprengjur frá stríðsárunum finnast reglulega. Ef þær lenda á mjúku undirlagi t.d. mosa, eiga þær það til að springa ekki. Það flækir málið að umhverfið í kringum sprengjuleifarnar er þannig að erfitt getur reynst að sjá hvort hólkurinn er sprunginn eða ekki því gras og mosi getur hulið hluta sprengjunnar. Á svæðinu er berg í bland við gras og mosa og því varasamt að ganga þar um. Staðurinn er ekki í alfaraleið, hann er við rætur fjallsins, norðan við skíðasvæðið í svokallaðri Hrappstaðaskál. Alltaf er möguleiki á mannaferðum – svo vinsamlegast farið varlega á ferðum ykkar um svæðið. Ekki taka upp torkennilega hluti, takið mynd ef þið teljið að mögulega sé um sprengju að ræða og hafið samband við lögregluna.