Konan sem skuggi föðurins faldi – lokaorð

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Morris-grúsk Grenndargralsins hófst eftir sprengilægð í aðdraganda síðustu jóla. Síðan þá hafa vondar fréttir dunið yfir okkur, lægðir á lægðir ofan, loðnubrestur og kórónaveira svo eitthvað sé nefnt. May Morris – konan sem skuggi föðurins faldi hefur staðið allar slíkar hræringar af sér og fylgt Gralinu og lesendum Vikudags undanfarnar vikur eins og leiðarljós. En nú er hins vegar komið að leiðarlokum. Í bili.

May Morris var merkileg kona fyrir ýmissa hluta sakir. Saga hennar teygir anga sína víða, m.a. hingað í heimabyggð sem öðru fremur skýrir áhuga Grenndargralsins. May fæddist árið 1862, sama ár og Akureyri fékk kaupstaðaréttindi og rúmum áratug síðar ferðaðist faðir hennar, hinn kunni William Morris um Eyjafjörð. Tíðar ferðir May til Íslands og Akureyrar á þriðja og fjórða áratugnum vöktu sérstaka eftirtekt þegar Grenndargralið hóf grúskið. Hitt sem vekur þó meiri athygli Gralsins er að því er virðist mikil og góð vinátta hennar og hjónanna Sigurjóns Sumarliðasonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur og bréfaskipti þeirra á tímabilinu 1926-1938. Bjó May á heimili þeirra, fyrst á Ásláksstöðum og síðar í Munkaþverárstræti, á meðan hún dvaldist á Akureyri og ferðaðist um  Norðurland.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Eins og gjarnan vill verða þegar farið er af stað í þeirri viðleitni að finna svör, vakna fleiri spurningar. Að mati Grenndargralsins telst saga May Morris og tengsl hennar við Akureyri og nágrenni til gleymdra gersema í sögu og menningu heimabyggðar – saga sem verðskuldar umfjöllun. Grenndargralið hefur vissulega gert sögunni skil síðustu vikur en betur má ef duga skal. Mörgum spurningum er enn ósvarað. Eru bækur þær sem May Morris gaf sýslubókasafni á Húsavík ennþá til? Hafa bréf, myndir og bókakassar sem hún sendi vinum sínum á Akureyri varðveist? Eru bækur úr fórum May, sem Vivian Lobb gaf Amtsbókasafninu á Akureyri að May látinni, glataðar? Grenndargralið ber þá von í brjósti að einhver grípi boltann á lofti og varpi ljósi á málið.

Vinkona vor May Morris fer á hilluna góðu um stundarsakir. Grenndargralið heldur áfram að grafa upp gersemar úr sögu og menningu heimabyggðar.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd