Konan sem skuggi föðurins faldi – fjórði hluti

„Þetta er móðir mín“ mælti May

Dömurnar voru eins ólíkar og tvær manneskjur geta verið. Önnur frekar lítil, grannvaxin og gráhærð. Hún skipti um föt fyrir kvöldverð, klæddist pilsi, peysu og treyju og setti um hálsinn glitrandi gulgræna perlufesti. Hún talaði lágum rómi, hló ekki en brosti blíðlega, sat og málaði blóm í vatnslitum og skrifaði hitt og þetta í minnisbókina sína. Nafn hennar var ungfrú May Morris. Hin daman var hávaxin og frekar feitlagin með stutt, svart hár og krullað sem rammaði inn þriflegt andlit hennar. Hún skipti ekki um föt fyrir kvöldverð nema hún fór í aðrar buxur. Hún talaði frekar hátt og hló mikið. Nafn hennar var ungfrú Lobb. [Þýðing úr ensku]

Þannig lýsti Guðrún Jónsdóttir þeim stöllum May Morris og Vivian Lobb í grein árið 1981. Þá voru liðin tæp 60 ár frá heimsókn May og Lobb til foreldra Guðrúnar á ferðalagi þeirra tveggja um Ísland. May og Lobb dvöldu á heimilinu í nokkra daga áður en þær fóru ríðandi til Reykjavíkur. Líkast til er þarna um fyrstu ferð May Morris til Íslands að ræða. Og víst er að áhugi May á að feta í fótspor föður hennar hafði lengi látið á sér kræla áður en hún lét það eftir sér að koma hingað til Íslands. May var komin með aðstoðarkonu upp á arminn og mögulega hefur það átt sinn þátt í því að hún lét verða af því að sigla yfir hafið sumarið 1922. May og Lobb komu aftur til Íslands árið 1924. Um sumarið ferðuðust þær um Austfirði, skruppu vestur í Dali og skoðuðu Breiðafjörð. Áður en May yfirgaf landið og steig um borð í Gullfoss í lok ágúst gaf hún 600 krónur í Landspítalasjóð en hornsteinn að spítalanum hafði verið lagður um það leyti sem May og Lobb komu til landsins í júní. May hélt áfram að láta gott af sér leiða, í það minnsta voru uppi sögusagnir um að hún hefði látið senda tunnu af eplum frá Kanada til Reykjavíkur í lok árs 1925. Engum sögum fer af viðtakandanum þó Vísir hafi gert tilraun til að auglýsa eftir honum undir fyrirsögninni Hver á eplin? Siglingarnar til Íslands áttu eftir að verða fleiri næstu árin sem og heimsóknir í höfuðstað Norðurlands. Á Akureyri eignuðust þær May og Lobb vini, vináttu sem átti eftir að vara allt þar til May féll frá árið 1938.

Mary Frances Vivian Lobb var fædd árið 1878. Hún var næstelst af fimm systkinum. Þrettán ára var Lobb send í fámennan einkaskóla fyrir stúlkur en samkvæmt manntölum bjó hún hjá foreldrum sínum árið 1911. Árið 1917 skráði hún sig í nýstofnuð samtök kvenna sem gengu í hefðbundin karlastörf þess tíma í Bretlandi (Women´s Land Army) meðan þeir börðust á vígvellinum. Seinna sama ár hætti hún störfum fyrir samtökin og réði sig sem garðyrkjukona hjá May Morris. Hún flutti inn á Kelmscott-setrið þar sem þær áttu eftir að búa saman næstu tvo áratugina. Fljótlega varð Lobb annað og meira en hjálparhella við garðyrkjustörfin. Auk þess sem hún  gegndi stöðu aðstoðarkonu May var hún þó fyrst og fremst vinkona og lífsförunautur hennar um tveggja áratuga skeið. Þær nutu þess að rækta garðinn saman á Kelmscott, fóru á samkomur og ferðuðust mikið innan lands sem utan. Þær fóru gjarnan á milli staða á hestbaki og höfðust við í tjöldum þegar þess var kostur. Þessi mikla samvera þeirra tveggja vakti upp spurningar meðal vina May og voru skiptar skoðanir um ágæti aðstoðarkonunnar. George Bernard Shaw gekk svo langt að lýsa henni sem „hræðilegri veru“ (terrifying creature).

May og Lobb komu til Íslands í júní 1926, hið þriðja sinn á fimm árum. Þær leigðu herbergi í Reykjavík þar sem þær dvöldust fyrstu daga ferðarinnar. Hugur þeirra stefndi þó út fyrir borgarmörkin, þær hugðust m.a. skoða Dettifoss og Ásbyrgi með viðkomu á Akureyri. Þær komu til Akureyrar um miðjan júní. Leiðsögumaður þeirra á ferðalaginu norðan heiða var Sigurjón Sumarliðason (1867-1954), póstur og bóndi á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð ofan Akureyrar. Kona hans var Guðrún Sigríður Jóhannsdóttir (1878-1960). Þeim varð ekki barna auðið en ólu upp dreng, Vigni Guðmundsson (1926-1974). Guðrúnu var brugðið þegar Sigurjón tilkynnti henni að tvær enskar hefðarfrúr, sem hann hefði aðstoðað á ferð þeirra um landið, væru staddar á Akureyri og að von væri á þeim í Ásláksstaði til dvalar í nokkra daga. Guðrúnu fannst sem hún væri ekki í stakk búin að taka á móti svo virðulegum og ríkum konum. Allur ótti í garð Þeirra May og Lobb hvarf þegar Guðrún tók í höndina á ensku ferðalöngunum. Þessi fyrstu kynni urðu upphafið að áralangri vináttu Sigurjóns Sumarliðasonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur annars vegar og May Morris og Vivian Lobb hins vegar.

Við komuna í Kræklingahlíð buðu hjónin Sigurjón og Guðrún May og Lobb að ganga í bæinn. Þær gengu milli lítilla herbergjanna á Ásláksstöðum og skoðuðu sig um. Í einu herberginu staldraði May við fyrir framan mynd sem hékk á einum veggnum. Myndin var af fallegri konu sem var umvafin trjágróðri. „Þetta er móðir mín“ mælti May furðu lostin yfir því að rekast á móður sína, Jane Morris á mynd af þekktu málverki Dante Gabriel Rosetti, The Day Dream, í húsi á norðanverðu Íslandi. Myndina hafði Guðrún klippt út úr ensku tímariti til að glæða stofuna lífi. Þegar May kvaddi heimilisfólkið á Ásláksstöðum áður en hún hélt för sinni áfram mælti hún svo við Guðrúnu; „Seint gleymi ég litlu, fallegu stofunum þínum með rósailminum“. May og Lobb sigldu til Reykjavíkur um miðjan ágúst og viku síðar með skipinu Tjaldi til Englands. Getgátur um að May hafi komið til Íslands árið 1929 hafa sprottið fram. Heimildir þess efnis eru þó af skornum skammti.

Engum blöðum er hins vegar um það að flétta að May kom til Akureyrar árið 1931. Hún dvaldi um tíma í húsi á Akureyri en auk Lobb voru tvær amerískar konur með í för. Mörgum spurningum er ósvarað í tengslum við May Morris og samband hennar við heimabyggð okkar síðustu æviár hennar. Hverjar voru konurnar tvær sem ferðuðust með henni sumarið 1931? Er gjöfin sem Þingeyingar fengu frá May ennþá til? Hafa bréf, myndir og bókakassar sem hún sendi vinum sínum á Akureyri varðveist? Er tilviljun að eitt síðasta verk Lobb áður en hún dó var að senda Amtsbókasafninu á Akureyri veglega gjöf úr dánarbúi May?

Framundan er lokahluti sögunnar um May Morris – konunnar sem skuggi föðurins faldi.

 

Heimildir:

Dagur (16.07. 1931) bls. 140

Gudrún Jónsdottir. (e.d.). May Morris and Miss Lobb in Iceland. Sótt af http://www.morrissociety.org/JWMS/07.1Autumn1986/AU86.7.1.Jonsdottir.pdf

Íslendingur (16.07. 1926) bls. 3

Jón Guðnason tók saman. (1976). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965. Reykjavík: Hið ízlenska bókmenntafélag.

Lesbók Morgunblaðsins (23.12. 1968) bls. 52-53

Simon Evans. (e.d.) The Eclectic Collection Of Miss M.F.V. Lobb. Sótt af https://www.yumpu.com/en/document/read/56900023/the-eclectic-collection-of-miss-mfv-lobb

Vísir (28.08. 1924) bls. 3

Vísir (03.09. 1924) bls.3

Vísir (12.12. 1925) bls. 3

Vísir (07.06. 1926) bls. 3

Vísir (18.08. 1926) bls. 3

Vísir (25.08. 1926) bls. 3

Vísir (29.07. 1936) bls. 4

Örn Gíslason. (e.d.). With May Morris in Iceland. Sótt af http://morrisedition.lib.uiowa.edu/icelandicdiariesgislason.html

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd