Konan sem skuggi föðurins faldi – þriðji hluti
Ástir og örlög
William Morris stofnaði hönnunarfyrirtækið Morris, Marshall, Faulkner & CO. árið 1861, ári áður en May kom í heiminn. Fyrirtækið stofnaði hann með sex vinum sínum, þ.á.m. þeim Edward Burne-Jones og Dante Gabriel Rosetti. Eftir að hafa sinnt ljóðagerð og málaralist, einbeitti William Morris sér í síauknum mæli að hönnun mynstra fyrir veggfóður. Handbragð hans vakti athygli og á næstu árum féll það honum í skaut að hanna veggfóður fyrir sumar af sögufrægustu byggingum Londonborgar. Hin unga May fór ekki varhluta af ástríðu föðurins. Sjálf lærði hún útsaum af móður sinni og frænku en móðursystir hennar hafði áður numið listina að sauma út hjá William Morris. Fyrirtækinu gekk vel og samband feðginanna var gott. Hjónaband þeirra William og Jane Morris virtist þó standa höllum fæti. Fljótlega eftir að Morris, Marshall, Faulkner & CO. hóf rekstur fór að bera á nánum samskiptum Jane og Rosetti innan vinahóps Morris-hjónanna. Eftir því sem leið á áratuginn fór sífellt oftar að sjást til þeirra tveggja saman þar sem þau létu vel að hvoru öðru. Sjö ára hefur May því líkast til verið farin að heyra orðróminn sem gekk um London, um samband móður hennar við fjölskylduvininn Rosetti.
William Morris hafði nýlega komið sér og fjölskyldu sinni fyrir á setri í Vestur-Oxfordskíri þegar hann lagði af stað í ferðalag til Íslands sumarið 1871. Kelmscott-setrið varð helsta athvarf William Morris þar til hann lést árið 1896 og heimili May næstu áratugina. Ætla má að Morris gamli hafi sagt sögur af Íslandsferðunum í áheyrn dætranna og mögulega sáð einhverjum fræjum. Þrátt fyrir meint náin samskipti Jane við Rosetti, fékk William Morris hann í lið með sér við að innrétta hin nýju heimkynni. Rosetti bjó með Jane og dætrunum tveimur meðan William var á Íslandi. Rosetti átti eftir að dveljast þar langdvölum næstu árin við að yrkja ljóð og mála. Ekki síst var hann duglegur að mála Jane Morris. Árið 1872 fékk Rosetti taugaáfall og tveimur árum síðar slitnaði upp úr vináttu hans og William Morris. Rosetti yfirgaf Kelmscott-setrið og kom aldrei þangað aftur eftir það. Þau Jane héldu þó kunningsskap áfram. Ári síðar keypti Morris félaga sína út og stofnaði eigið fyrirtæki; Morris % Co. Þegar þarna var komið sögu höfðu William Morris og Georgiana Burne-Jones, eiginkona Edward Burne-Jones, þróað með sér náið samband. Engir hjónaskilnaðir spruttu þó upp úr þessum hrókeringum innan vinahópsins, Willam og Jane Morris héldu heit sín þrátt fyrir þriðja hjólið sem og Edward og Georgina Burne-Jones.
Jarðvegur fyrir Íslandsáhuga hafði verið lagður þegar May sleit barnsskónum og um tvítugsaldurinn var hún farin að láta að sér kveða innan listasamfélagsins í Englandi. Hróður William Morris sem hönnuður hélt áfram að berast innan lands sem utan og ekki áttu mörg ár eftir að líða þar til May tæki við stjórnunarstöðu hjá Morris & Co. Lífið fór ekki jafn mjúkum höndum um Dante Gabriel Rosetti. Hann barðist við lyfjafíkn og einangraði sig frá vinum og vandamönnum. Þrátt fyrir erfitt hlutskipti síðustu æviárin málaði Rosetti einhverja fallegustu mynd sína á ferlinum, að eigin sögn, árið 1880. Málverkið The Day Dream sýnir fallega konu umvafna trjágróðri. Fyrirmyndin var Jane Morris. Tveimur árum síðar var Dante Gabriel Rosetti allur. Jane átti áratugum síðar eftir að verða fyrirmynd að öðru en annars konar meistaraverki í listasögunni.
Komin á þrítugsaldurinn hitti May með reglulegu millibili marga af helstu listamönnum borgarinnar þess tíma. Árum saman hópaðist listaelítan saman vikulega á heimili William Morris til skrafs og ráðagerða. Um miðjan níunda áratuginn bættist þrítugur Íri að nafni George Bernard Shaw í hópinn. Hann hafði komið til London árið 1876 til að koma sér á framfæri sem skáld og til að framfleyta sér starfaði hann sem blaðamaður. Ein helsta fyrirmynd hins unga vonarskálds var William Morris. George Bernard Shaw heillaðist af dóttur hans. Hann varð ástfanginn af May og tilfinningar hennar voru af sama toga í hans garð. Mál tóku hins vegar að flækjast þegar hún kynntist aðstoðarmanni föður síns, Henry Halliday Sparling. Rómantíkin tók völd og þau giftu sig árið 1890. Eftir sat hin rísandi írska stjarna með sárt ennið. Í hárri elli lét George Bernard Shaw hafa eftir sér að hann hefði verið of feiminn og uppburðarlítill til að bera upp bónorðið áður en Henry Halliday kom til sögunnar og þannig misst May úr greipum sér. Því hefði hann séð eftir alla ævi.
George Bernard Shaw giftist Charlotte Payne-Townsend í júní árið 1898, aðeins nokkrum vikum eftir að May og Henry skildu að borði og sæng. Reyndar hafði slitnað upp úr hjónabandinu nokkrum árum fyrr. Ástæðan var leynilegt ástarsamband May og Shaw sem upp komst um árið 1894. Sama ár kom fyrsta verk Shaw út sem fangaði athygli almennings, leikritið Arms and the Man. George Bernard Shaw var við það að leggja heiminn að fótum sér meðan veröld hins mannsins í lífi May var að hruni komin. „May’s position is this, she has been seeing a good deal of a former lover [Shaw], and made her husband’s life a burden to him, he refuses to bear it any longer.“ (Úr bréfi frá Jane, móður May, dags. 26. maí 1894)
Ný öld gekk í garð. Þó William Morris væri horfinn af sjónarsviðinu var May ennþá í skugganum af föður sínum. Hún var þó farin að skapa sér nafn sem hönnuður þar sem nám í útsaumi á uppvaxtarárunum sem og reynsla af stjórnunarstarfi í fyrirtæki föðurins kom sér vel. Hún kenndi útsaum við nokkra skóla, var virk í félagsstörfum listamanna og var frumkvöðull þegar kom að hagsmunamálum kvenna í listgreinum. Þá hannaði hún og framleiddi skartgripi. May var upptekin kona og með mörg járn í eldinum. Í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar réðist May t.a.m. í það stórvirki að gefa út rit föður síns, alls 24 bindi. Ekki svo ýkja langt frá var annað afrek í bókmenntasögunni í bígerð. Fyrrverandi elskhugi May, sá er sat eftir með sárt ennið, skrifaði leikrit árið 1912 sem kom fyrir almenningssjónir ári síðar. Í leikritinu segir af ungri stúlku sem sækir kennslustundir hjá prófessor nokkrum. Komið hafa fram kenningar þess efnis að innblástur að leikritinu hafi Shaw sótt til vinar síns Sabine Baring-Gould sem heimsótti Akureyri 1862 og ennfremur að fyrirmynd annarrar aðalpersónunnar, Elizu Doolittle, sé Jane Morris móðir May. Leikritið hét Pygmalion. Síðar áttu Hollywood-leikararnir Audrey Hepburn og Rex Harrison eftir að gera persónunum góð skil á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni My Fair Lady sem byggð var á leikritinu. Leikritið var sett á svið í London árið 1914.
Jane Morris lést árið 1914. Nokkrum mánuðum áður hafði hún ánafnað dætrum sínum, May og Jenny, Kelmscott-setrið í því skyni að tryggja afkomu þeirra. Jenny hafði greinst með flogaveiki á barnsaldri sem ágerðist með árunum og var þannig háð umönnun. Eftir fráfall Jane sá May til þess að Jenny fengi þá aðstoð sem hún þurfti. Mitt í öllu annríkinu gaf May sér tíma til að stunda nám í íslensku hjá Dr. Jóni Stefánssyni. Hann var íslenskur ævintýramaður og vinur William Morris, búsettur í London. Ef til vill voru Íslandsfræin farin að skila árangri sem sáð hafði verið á Kelmscott setrinu og Íslandsheimsókn fyrirhuguð hjá frú Morris. Eftir ástarsamband sem slitnaði upp úr og hálf misheppnað hjónaband bauð May vinkonu sína velkomna inn á Kelmscott-setrið árið 1917. Sú átti eftir að verða lífsförunautur og aðstoðarkona May þann tíma sem hún átti eftir ólifaðan. Framundan voru ferðalög þeirra May og Lobb til Íslands þar sem fetað var í fótspor föðurins og vinir sóttir heim í smábænum Akureyri.
Heimildir:
BBC. (2008, 30. janúar). Famous Devonians – Sabine Baring-Gould. Sótt af http://www.bbc.co.uk/devon/discovering/famous/sabine_baring_gould.shtml
Biography.com Editors. (2019, 11. október). George Bernard Shaw Biography. Sótt af https://www.biography.com/writer/george-bernard-shaw
Cohen, R. (2017, 21. september). May Morris: A Remarkable Woman. Sótt af https://thamesandhudson.com/news/may-morris-a-remarkable-woman/
Dante Gabriel Rosetti. (2020, 7. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af
https://en.wikipedia.org/wiki/Dante_Gabriel_Rossetti
Edward Burne-Jones. (2020, 1. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Edward_Burne-Jones
George Bernard Shaw. (2019, 31. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/George_Bernard_Shaw
Georgiana Burne-Jones. (2019, 27. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Georgiana_Burne-Jones
Jane Alice Morris. (2019, 19. nóvember). Wikipedia. Sótt 7. janúar af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Alice_Morris
Jane Morris. (2019, 28. nóvember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Morris
Kennedy, M. (2017, 14. febrúar). A handsome Valentine’: May Morris’s love letter to George Bernard Shaw. Sótt af https://www.theguardian.com/culture/2017/feb/14/a-handsome-valentine-may-morriss-love-letter-to-george-bernard-shaw
Marsh, J. (2017, 20. september). Feminist, socialist, embroiderer: the untold story of May Morris. Sótt af https://www.royalacademy.org.uk/article/may-morris-art-and-life-william-morris-gallery
Morgunblaðið (04.11. 1950) bls. 11
Pygmalion. (2020, 6. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Pygmalion_(play)
Salmon, N.(e.d.) The William Morris Internet Archive : Chronology. Sótt af https://www.marxists.org/archive/morris/works/chrono.htm
William Morris. (2019, 28. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/William_Morris
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd