main image

Konan sem skuggi föðurins faldi – annar hluti

Ferðalangur á tímamótum

Árið 1862 markar tímamót. Meðan Eiríkur Magnússon og samlandar hans sigldu til Englands þá um vorið til að freista gæfunnar, voru Akureyringar að leggja lokahönd á aðskilnað frá Hrafnagilshreppi. „Sjálfstæðisbarátta“ Akureyringa var að ná hámarki. Allt var í lukkunnar standi hinum megin við hafið hjá hinum 28 ára gamla William Morris. Yngri dóttirin May kom í heiminn í marsmánuði og fyrsta veggfóðursmynstur hinnar rísandi stjörnu enskrar menningar Trellis hafði nýlega litið dagsins ljós. Á meðan öllu þessu stóð var annar 28 ára gamall Englendingur að gera sig kláran fyrir langa siglingu. Hann skyldi ferðast til Íslands og einn af áfangastöðunum var lítill bær á norðanverðri eyjunni, Akureyri. Maðurinn hét Sabine Baring-Gould.

Sabine Baring-Gould sigldi frá Skotlandi þann 10. júní áleiðis til Íslands. Skipið hét Arcturus, var smíðað 1857 og var í eigu dansks skipafélags. Arcturus kom til Reykjavíkur 16. júní. Til Akureyrar kom Sabine Baring-Gould þann 5. júlí þar sem hann dvaldist næstu tvo daga. Þaðan hélt hann áleiðis til Mývatnssveitar en kom svo aftur við á Akureyri um miðjan mánuðinn. Á meðan ferðalaginu stóð skráði Gould það sem fyrir augu bar. Afraksturinn kom út árið 1863 í bókinni Iceland: Its scenes and sagas. Í bókinnni  segir hann nokkuð ítarlega frá kynnum sínum af Akureyringum og bænum sjálfum. Hann nefnir kirkjuleysi bæjarbúa. Þegar hann kemur til Akureyrar blasir við honum vísir að fyrstu kirkju bæjarins og gefur hann lítið fyrir arkitektúrinn – segir Íslendinga ekki átta sig á möguleikunum sem timbur hafi þegar kemur að fagurfræði byggingarlistar. Hann talar um afþreyingu bæjarbúa yfir vetrartímann sem sé helst sú að spila á spil og dansa við gítarundirspil og að einn stærsti viðburðurinn í bæjarlífinu sé fyrsta skipakoma ársins frá Kaupmannahöfn. Skipið flytji langþráða vor- og sumarkjóla, húsgögn og annað sem bæjarbúar hafi beðið eftir mánuðum saman.

Sabine Baring-Gould lýsir húsnæði kaupmannanna á Akureyri og segir þau notaleg þar sem myndir af Kaupmannahöfn og danska kónginum hangi á veggjum. Hann segir af kynnum sínum af kaupmanninum Jóhann G. Havsteen sem tók á móti honum þegar hann kom í bæinn laugardaginn 5. júlí. Havsteen sýndi af sér mikla gestrisni, bauð Gould velkominn og boðið var upp á kaffi og kökur að hætti danskra kaupmanna. Eftir kaffidrykkju hjá Havsteen heimsótti Gould prentara tímaritsins Norðra í litla trékofann hans eins og Gould orðar það (small wooden cottage). Eftir heimsóknina beið hans vel útilátinn kvöldverður hjá Havsteen kaupmanni. Á borðum var m.a. reyktur lax, bjúgu, skinka, kindakjöt með bláberjasósu og kartöflum, hákarl, hvalur og selur. Þá var Bavarian öl, þýskt vín og koníak til að skola öllu niður með. Gould virðist nokkuð undrandi yfir borðvenjum Akureyringa. Ekki tíðkist að fara með borðbæn fyrir eða eftir málsverð. Hins vegar takist fólk í hendur eða kyssist eftir matinn og segi; „Tak for mad“.

Gould minnist á tré í garðinum hjá Havsteen og segir það vera stærsta tré landsins. Á heitum sumardögum snæði fjölskyldan undir trénu og líki þannig eftir dönskum garðveislum. Þá nefnir hann annað tré fyrir utan annað hús í bænum (gera má því skóna að umrætt hús sé Laxdalshús). Þessi tvö tré séu eitthvað það allra merkilegasta sem bærinn bjóði upp á! Líklega er hér um sömu reynitré að ræða og vöktu athygli William Morris á ferð hans um Akureyri sumarið 1873 og hann hripaði athugasemd um í dagbókina sína. Eftir kvöldverðinn gekk Gould um fjöruna þar sem hann rakst á enskt skipsflak í flæðarmálinu sem hann segir Akureyringa endurnýta sem byggingarefni.  Gould eyddi sunnudagsmorgninum í sólbaði við kirkjubygginguna áður en hann heimsótti Svein Skúlason, ritstjóra Norðra. Sveinn sýndi honum nokkur fornhandrit þ.á.m. Sturlunga sögu.

Mánudaginn 7. júlí yfirgaf Sabine Baring-Gould Akureyri en staldraði við í bænum að nýju um miðjan mánuðinn. Kurteisi bæjarbúa er honum ofarlega í huga. Í seinni heimsókninni til Akureyrar keypti hann fornhandrit af fátækum manni í bænum. Maðurinn sá sér þann kost vænstan að selja þau til að eiga fyrir salti í grautinn.  Gould lét það ekki aftra sér þrátt fyrir að maðurinn skyldi afhenda honum handritin með tárin í augunum. Mánudaginn 14. júlí yfirgaf Gould Akureyri öðru sinni og hélt ferð sinni áfram um landið. Þegar þarna var komið sögu var May tæplega fjögurra mánaða gömul og því áratugabið eftir að hún ferðaðist um landið og gengi um götur Akureyrar. Þann 9. ágús var Sabine Baring-Gould kominn til Liverpool, tveimur mánuðum eftir að hann lagði af stað frá Skotlandi til Íslands. Tuttugu dögum síðar, þann 29. ágúst 1862, fengu Akureyringar kaupstaðarréttindi:  „Hingað til amtsins er komið brjef frá stjórninni um, að Akureyrar bær sje aðskilinn frá Hrafnagilshrepp og jafnframt því öðlast kaupstaðarjettindi, sem Reykjavík.  Það eru þá orðnir 2 heilir kaupstaðir á landinu.“ (Norðanfari bls. 77).

En hver var maðurinn sem spígsporaði um götur Akureyrar síðustu dagana áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi? Sabine Baring-Gould fæddist 28. janúar 1834 og fékkst hann við hin og þessi störf um ævina. Hann var kennari, prestur, þjóðminjavörður og rithöfundur. Ógrynni af textum ýmiskonar liggja eftir Gould en hann var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma í Englandi. Þekktastur er hann sennilega fyrir tvo sálma sem hann orti árið 1865, þremur árum eftir að hann var staddur á  Akureyri. Þetta eru hinir kunnu sálmar Now The Day Is Over og Onward, Christian Soldiers (Áfram Kristsmenn, krossmenn í íslenskri þýðingu séra Friðriks Friðrikssonar). Þá kannast margir við jólasálminn Gabriel´s message en sálminn þýddi Gould úr basknesku yfir á ensku. Tengsl þessa ferðalangs á tímamótum við May Morris umfram dvöl í höfuðstað Norðurlands á sitt hvorri öldinni? Jú, sjáðu til. Sabine Baring-Gould og faðir May, William Morris voru af sömu kynslóð enskra skálda sem nutu mikillar virðingar samtímamanna. Ekki er ólíklegt að Gould hafi haft eitthvað saman við Morris að sælda. Og þó ekki liggi fyrir hvort eða hversu mikil kynni þeirra Sabine Baring-Gould og Morris-fjölskyldunnar voru í raunveruleikanum öðluðust Baring-Gould og Morris eilíft líf hjá enn einu stórskáldinu í einni af perlum bókmenntasögu 20. aldar, ef kenningar sem settar hafa verið fram þess efnis halda vatni. Skáldið sem um ræðir var persónulegur vinur Sabine Baring-Gould árin eftir Íslandsförina 1862 og síðar elskhugi May Morris. Skyldi litli bærinn á norðanverðri eyjunni hafa borið á góma yfir kaffibolla eða rómantískum kvöldverði?

 

Heimildir:

Baring Gould, Sabine. (1863). Iceland: Its Scenes and Sagas. London: Smith, Elder & co.

Norðanfari (01.10. 1862) bls 77.

Sabine Baring-Gould. (2019, 30. desember). Wikipedia. Sótt 30. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Sabine_Baring-Gould

Mynd fengin af churctimes.co.uk