main image

Konan sem skuggi föðurins faldi – fyrsti hluti

William þáttur Morris, föðurins og Íslandsvinar 

May var fædd árið 1862. Faðir hennar hét William Morris og var fæddur í Essex í Englandi árið 1834. Hann átti eftir að verða eitt þekktasta skáld Englands á síðari hluta 19. aldar. Sem ungur maður stundaði hann nám við Oxford-háskóla ásamt listamanni að nafni Edward Burne-Jones. Tókst með þeim góð vinátta. Árið 1857 hittu þeir fyrir skáldið og listmálarann Dante Gabriel Rosetti. Bundust listamennirnir Morris, Jones og Rosetti vináttuböndum sem átti eftir að skila sér í farsælu samstarfi á sviði listsköpunar.

Móðir May hét Jane Burden og var fædd í Oxford árið 1839. Nokkru eftir að listamennirnir þrír kynntust, í október 1857, hittu þeir Jones og Rosetti Jane á samkomu. Þeir þekktu ekki þessa fallegu stúlku frá Oxford en fóru þess á leit við hana að þeir fengju að mála andlit hennar á striga. Hún sló til. Rétt eins og Jones og Rosetti, hreifst Morris af hinni 18 ára gömlu Jane. Hrifningin varð ekki endurgoldin en þó fór svo að William Morris og Jane Burden gengu í hjónaband árið 1859. Saman eignuðust þau tvær dætur. Jenny fæddist árið 1861. May kom í heiminn ári síðar, sama ár og ungur Íslendingur var sendur til Englands á vegum Hins íslenska Biblíufélags.

Eiríkur Magnússon hleypti heimdraganum og sigldi til Englands árið 1862. Í fylgd eiginkonu sinnar Sigríðar Einarsdóttur kom hann aftur til Íslands árið 1871, þá nýráðinn bókavörður við Cambridge-háskóla. Hjónin voru í hópi enskra ferðamanna um borð í danska póstskipinu Díönu sem hélt úr höfn í Edinborg í Skotlandi og stefndi á sögueyjuna í norðri. Kannski hefur söknuður verið hinni níu ára gömlu May Morris efst í huga heima á Kelmscott-setrinu í Oxfordshire þegar Díana lagði að bryggju í Reykjavík þann 14. júlí. Um borð var faðir hennar, áhugamaður um Ísland og íslenskar bókmenntir og vinur Eiríks.

Eiríkur og William Morris höfðu kynnst árið 1868. Áhugi Morris og uppruni Eiríks varð til þess að sá íslenski kenndi þeim enska íslensku. Þegar þarna var komið sögu höfðu þeir félagar einnig tekið höndum saman við að þýða íslensk bókmenntaverk yfir á ensku. Samstarf þeirra átti eftir að vara í áratugi og geta m.a. af sér þýðingar á HeimskringluGrettis söguVölsunga sögu og Gunnlaugs sögu ormstungu. Eftir sumardvöl á Íslandi sigldi William Morris aftur til Englands í september 1871. Hann hafði ferðast um Suðurland á hestbaki og hitt meðal annarra Jón Sigurðsson leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar. Á sama tíma dvöldu eiginkonan Jane Morris og dæturnar Jenny og May á setri fjölskyldunnar þar sem Rosetti var þá orðinn húsbóndinn á heimilinu tímabundið. Hann bjó undir sama þaki og mæðgurnar á Kelmscott-setrinu á meðan William Morris reið um íslensk héruð og kynnti sér sögusvið Íslendingasagnanna. Kom þetta sumum spánskt fyrir sjónir.

Sumarið 1873 heimsótti William Morris Ísland öðru sinni. Hann kom til landsins um miðjan júlí og í þetta skiptið ferðaðist hann yfir hálendið, norður í land. Hann dvaldi m.a. næturlangt hjá hjónunum Jóni Jóakimssyni og Herdísi Ásmundsdóttur á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Úr austri birtist William Morris Eyfirðingum ríðandi á hesti yfir Vaðlaheiðina með stefnu inn Eyjafjörðinn. Morris reið svo langt sem inn að Saurbæ áður en hann snéri við og gaf sér tíma til að hripa niður nokkur stikkorð um Akureyri þegar hann kom í bæinn laugardaginn 16. ágúst; annríki, kaupmenn, reynitré, prúttari, hótel, ég að væla, leiðinlegur dagur, kalt, engin rigning [lausl. þýðing höf.]. Frá Möðruvöllum í Hörgárdal hélt hann áfram leið sinni suður yfir heiðar þar sem ferðalagi hans lauk. Síðustu dagbókarfærslu sína skráir hann í Norðurárdal þann 19. ágúst.

William Morris var Íslandsvinur og áhugamaður um Íslendingasögurnar. Hann var einnig hugsjónamaður, skáld og textílhönnuður. Sem slíkur fékk hann innblástur í ferðum sínum um Ísland sem hann nýtti sér við skáldskap og hönnun innréttinga. Hafði listsköpun hans áhrif á listamenn á borð við James Joyce, C.S. Lewis og J.R.R. Tolkien. Sennilega er William Morris þekktastur í dag fyrir veggfóðursmynstur sem hann hannaði, alls 55 ólíkar gerðir. Veggfóðrið hans prýðir húsakynni víða um heim.

William Morris lést 62 ára gamall árið 1896. May syrgði föður sinn. Hún ásetti sér að feta í fótspor hans á sviði listsköpunar sem og hún gerði. Um alllangt skeið var May í skugga föðurins. Í seinni tíð hafa þó komið fram sterkar vísbendingar um að vinsælt veggfóðursmynstur úr fórum William Morris sé í raun komið úr ranni dótturinnar May. En May fetaði ekki aðeins í fótspor föðurins þegar kom að listinni heldur einnig bókstaflega þegar hún fór á slóðir hans á sögueyjunni í norðri, áratugum eftir að hann féll frá. Og rétt eins og faðirinn, heimsótti hún Akureyri þar sem hún eignaðist vini fyrir lífstíð. Konan sem skuggi föðurins faldi var við það að láta ljós sitt skína.

 

Heimildir:

Find A Grave. (2011, 21. desember). Eiríkur Magnússon. Sótt af        https://www.findagrave.com/memorial/82238395

Jane Morris. (2019, 28. nóvember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Morris

Lesbók Morgunblaðsins (15.06. 1996) bls. 10-15

Mackail, J.W. (1970). The life of William Morris. New York: Haskell House Publishers LTD.

Nýja dagblaðið (29.07. 1936) bls. 4

William Morris. (2019, 17. desember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/William_Morris#Kelmscott_Manor_and_Iceland:_1870%E2%80%931875

Þjóðólfur (20.07. 1871) bls. 141