Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon

Séra Hannes Örn Blandon hóf störf sem sóknarprestur í Eyjafjarðarsveit árið 1986. Hann lét af störfum í upphafi árs 2019. Jólahugvekja Hannesar birtist í Morgunblaðinu þann 24. desember árið 1983.

Ég vildi óska, að ég fengi eitt augnablik að verða aftur sem lítið barn, fá að gleðjast með börnum mínum, geta fundið það sama og þau, spenninginn, tilhlökkunina, gleðina. Ég óska þess að ég fengi að gleyma því stundarkorn að ég er fullorðinn maður í heimi angurs ótta og kvíða.

Hugurinn leitar aftur í litla sumarbústaðinn í Kópavogi, sem mamma og pabbi keyptu handa okkur til að dveljast í meðan þau byggðu íbúðarhúsið. Á þeim tíma var Kópavogur varla þorp, það var langt til næstu nágranna og það voru engin götuljós. Þá áttum við drauga, huldufólk og jólasveina og það var auðvelt að komast í stemmningu þegar myrkrið grúfði yfir. Og á jólaföstu þegar æ erfiðara reyndist að koma litlum börnum í háttinn dugði vanalega að benda suður á Reykjanesfjallgarðinn þar sem Keili bar tígulega við næsturhimininn baðaður tunglsljósi og segja: „Nei, sjáiði hverjir þarna eru á ferð.“ Við rýndum suður á fjöllin, sáum ekkert en trúðum samt og drógum sængina upp yfir höfuð pínulítið titrandi i hjartanu.

Þorláksmessa var ægilega erfiður dagur. Hugurinn var blátt áfram að springa af huldufólki, jólasveinum og jólagjöfum svo varla var rúm fyrir jólabarn, við skildum ekki jólin.

Það var einmitt á Þorláksmessu fyrir hartnær 19 árum. Vindurinn nauðaði úti og hangikjötsilm lagði um húsið og það snarkaði vinalega í gömlum kolaofni í stofuhorninu og eitthvað vorum við systkinin hæg í leik okkar. Skyndilega hrukku allir í kút. Einhvers staðar úti í náttmyrkrinu var rekið upp nístandi vein og svo varð dauðakyrrð. Lengi og vel sagði enginn eitt einasta orð fyrr en einhver kvað uppúr: „Hamingjan hjálpi mér, hvað skyldi þetta hafa verið.“ Enn var kyrrt um stund. Þá var sem bankað væri lauslega á útidyrnar eitt eða tvö högg og síðan ekki meir. Pabbi hikaði andartak en gekk svo til dyra og leit út en þar var ekki nokkur sála. Nú var okkur öllum lokið. Skjálfandi af hræðslu skriðum við systkinin undir rúm og æptum: „Það er Kjötkrókur, það er Kjötkrókur, ekki lát’ann tak okkur.“ Og við höfðum ekki fyrr sleppt orðinu þegar enn var bankað eða öllu heldur klórað og nú var það mamma, sem tók af skarið og opnaði dyrnar. Og viti menn, inn stekkur stór grábröndótt kisa og tekur stefnuna beint að kolaofninum og leggst þar niður malandi. Við störðum á dýrið dolfallin. „Það er jólakötturinn,“ hvíslaði systir, og við gripum fastar í pilsfaldinn á mömmu. Nú varð lítill atburður. Kisa fór að baða út öllum öngum, hvæsti og mjálmaði á víxl, lá svo kyrr um stund og mældi á okkur bænaraugum. „Hún hlýtur að vera eitthvað lasin vesalingurinn,“ sagði stóri bróðir og kraup niður að henni. „Snertu hana þá ekki,“ hrópaði mamma. „Nei, sko, hún er kettlingafull,“ sagði stóri bróðir. Hvílík undur og stórmerki í augum barns. Kisa gaut þarna á stofugólfinu sjö fallegum kettlingum og fór að þvo þeim í gríð og erg. Það var seint farið að sofa þessa nótt. En næsta dag, er við vöknuðum, þá skildum við jólin, þegar okkur var sagt frá jólabarninu sem fæddist i Betlehem, sú frásögn birtist okkur í nýju ljósi.

Enn er runninn upp aðfangadagur, dagurinn, er ljósið kom í heiminn. „Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós (Jes. 9:2)“. Ný von hefur kviknað og ný veröld í fæðingu barnsins. En sums staðar ríkir ekki gleði heldur sorg. Einhvers staðar grætur barn móður sína og föður og annars staðar foreldrar börn sín. Myrkur örbirgðar, ofbeldis og einmanaleika leggst að mannkyni og hin illu öfl myrkranna fara hamförum við að slökkva þetta ljós vonarinnar en það mun aldrei takast.. . „Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ Og hann kemur til þín, sem syrgir látinn ástvin og einnig til þín, sem telur dagana sem eftir eru og hann kemur til þín, sem ert einmana og yfirgefinn. Og hann ber þjáningu okkar með gleði, ekkert mannlegt er honum óviðkomandi. Við erum hvött til að gera þessi jól að hátíð friðar og farsældar.

Við erum hvött til að taka höndum saman kristnir menn um víða veröld og efla einingu og sáttfýsi meðal þjóða og það gerum við ekki með sverði í hönd heldur með kærleikann að vopni. Því skulum við taka undir kveðju biskupsins okkar og halda á lifandi ljósi út við glugga í kvöld, sem tákn um vináttu og frið við alla menn nær og fjær.

Ég sendi kveðju mína öllum þeim sem eru fjarri heimilum sínum í dag. Og ég bið Guð að blessa þá, er sinna verða vandastörfum í þágu almenningsheilla, lögreglumönnum og hjúkrunarfólki.

Guð gefi öllum landsmönnum gleðileg jól.

 

Hannes Örn Blandon. (1983, 24. desember). Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon. Morgunblaðið, bls. 7.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd