Konan sem skuggi föðurins faldi – inngangsorð

Aðsend grein frá Ameríku 

„Vegna snjóþyngsla höfum við verið innilokuð í fimm daga. Okkar stutta blindgata bíður á meðan stærri götur eru hreinsaðar. Þetta hefur sína kosti, t.d. vilja nágrannar ólmir hjálpa hver öðrum og inni er notalegt og nógur tími til að lesa og hlusta á tónlist. Áðan hljómaði Vor (Thrush of Spring) eftir Sinding af geisladiski en einmitt það lag minnir mig á, þegar það með kátínu ruddist út um opna glugga verkamannabústaðanna á góðviðrisdögum þegar ég flýtti mér heim eftir Ásvallagötunni til að borða hádegismat. Elsta minning mín er þegar ég horfði á marga karlmannsfætur sparka logandi kleinupotti út dimm göng og út í snjó. Sú næstelsta er að ég horfði á konu í aðskornum, ljósköflóttum reiðfötum tala hratt og ákveðið skrítið mál við sína fylgdarmenn, sem lögðu á marga hesta í tröðunum á Hallgeirseyjarhjáleigu.“

Svo skrifar hálfáttræð kona í aðsendri grein í víðlesnu dagblaði í lok 20. aldar. Greinina skrifaði hún á heimili sínu í Bandaríkjunum þar sem hún hafði búið frá árinu 1949 þegar hún flutti frá Íslandi með eiginmanni sínum. Hafði hann gegnt herþjónustu hér á landi, þau fellt hugi saman og gengið í hjónaband á stríðsárunum.

Í greininni hugsar Adda, eins og hún var kölluð í vinahópi sínum í Ameríku, hlýlega til heimahaganna á Suðurlandi og uppvaxtaráranna þar. Í niðurlagi greinarinnar víkur hún aftur að minningunni um konuna í aðskornu, ljósköflóttu reiðfötunum sem talaði framandi tungumál. Konan, sem var erlendur ferðamaður, hafði dvalist næturlangt hjá fjölskyldu Öddu á ferðalagi sínu um Ísland á þriðja áratugnum. Þrátt fyrir ungan aldur mundi Adda eftir kynnum sínum af konunni sem hún gat nafngreint en vissi þó lengi vel engin frekari deili á.

Um það bil 74 árum síðar komst Adda yfir ævisögu „eins af merkilegustu Englendingum síðustu aldar“. Nafn mannsins (sem var hið sama og „huldukonunnar“ á Suðurlandi) og vitneskjan um að dóttir hans hafði sótt Ísland heim á millistríðsárunum vakti forvitni Öddu. Forvitninni var svalað á bls. 679. „Nú er ég þakklát fyrir að hafa lesið þessa prýðilegu bók og um leið uppgötvað að ég sá Miss Morris 1924, 62 ára gamla.“

Grenndargralið heldur áfram að grafa upp sögu konunnar sem um langt skeið féll í skuggann á föður sínum en hefur hin seinni ár öðlast þá athygli á heimsvísu sem hún á skilið. Um tíma dvaldist hún á Akureyri, á heimili hjóna sem héldu sambandi við hana allt til dauðadags. Sagan er spennandi eins og margar gleymdar gersemar í sögu heimabyggðar. Adda, eða Hallfríður Guðbrandsdóttir Schneider eins og hún hét fullu nafni, kom Grenndargralinu á sporið. Hún lést á jólanótt 2009. Greinina endar hún á þessum orðum.

„Það bólar ekkert á snjóýtum, svo nú hlusta ég á diskinn Vikivaki og byrja á nýrri bók.“

Snjómoksturstækin eru komin í Þorpið. Allt horfir til betri vegar á götunum og rétt að byrja á fyrsta kafla um konuna sem skuggi föðurins faldi.

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd