main image

Konan sem skuggi föðurins faldi – annar hluti

Ferðalangur á tímamótum

Árið 1862 markar tímamót. Meðan Eiríkur Magnússon og samlandar hans sigldu til Englands þá um vorið til að freista gæfunnar, voru Akureyringar að leggja lokahönd á aðskilnað frá Hrafnagilshreppi. „Sjálfstæðisbarátta“ Akureyringa var að ná hámarki. Allt var í lukkunnar standi hinum megin við hafið hjá hinum 28 ára gamla William Morris. Yngri dóttirin May kom í heiminn í marsmánuði og fyrsta veggfóðursmynstur hinnar rísandi stjörnu enskrar menningar Trellis hafði nýlega litið dagsins ljós. Á meðan öllu þessu stóð var annar 28 ára gamall Englendingur að gera sig kláran fyrir langa siglingu. Hann skyldi ferðast til Íslands og einn af áfangastöðunum var lítill bær á norðanverðri eyjunni, Akureyri. Maðurinn hét Sabine Baring-Gould.

Sabine Baring-Gould sigldi frá Skotlandi þann 10. júní áleiðis til Íslands. Skipið hét Arcturus, var smíðað 1857 og var í eigu dansks skipafélags. Arcturus kom til Reykjavíkur 16. júní. Til Akureyrar kom Sabine Baring-Gould þann 5. júlí þar sem hann dvaldist næstu tvo daga. Þaðan hélt hann áleiðis til Mývatnssveitar en kom svo aftur við á Akureyri um miðjan mánuðinn. Á meðan ferðalaginu stóð skráði Gould það sem fyrir augu bar. Afraksturinn kom út árið 1863 í bókinni Iceland: Its scenes and sagas. Í bókinnni  segir hann nokkuð ítarlega frá kynnum sínum af Akureyringum og bænum sjálfum. Hann nefnir kirkjuleysi bæjarbúa. Þegar hann kemur til Akureyrar blasir við honum vísir að fyrstu kirkju bæjarins og gefur hann lítið fyrir arkitektúrinn – segir Íslendinga ekki átta sig á möguleikunum sem timbur hafi þegar kemur að fagurfræði byggingarlistar. Hann talar um afþreyingu bæjarbúa yfir vetrartímann sem sé helst sú að spila á spil og dansa við gítarundirspil og að einn stærsti viðburðurinn í bæjarlífinu sé fyrsta skipakoma ársins frá Kaupmannahöfn. Skipið flytji langþráða vor- og sumarkjóla, húsgögn og annað sem bæjarbúar hafi beðið eftir mánuðum saman.

Sabine Baring-Gould lýsir húsnæði kaupmannanna á Akureyri og segir þau notaleg þar sem myndir af Kaupmannahöfn og danska kónginum hangi á veggjum. Hann segir af kynnum sínum af kaupmanninum Jóhann G. Havsteen sem tók á móti honum þegar hann kom í bæinn laugardaginn 5. júlí. Havsteen sýndi af sér mikla gestrisni, bauð Gould velkominn og boðið var upp á kaffi og kökur að hætti danskra kaupmanna. Eftir kaffidrykkju hjá Havsteen heimsótti Gould prentara tímaritsins Norðra í litla trékofann hans eins og Gould orðar það (small wooden cottage). Eftir heimsóknina beið hans vel útilátinn kvöldverður hjá Havsteen kaupmanni. Á borðum var m.a. reyktur lax, bjúgu, skinka, kindakjöt með bláberjasósu og kartöflum, hákarl, hvalur og selur. Þá var Bavarian öl, þýskt vín og koníak til að skola öllu niður með. Gould virðist nokkuð undrandi yfir borðvenjum Akureyringa. Ekki tíðkist að fara með borðbæn fyrir eða eftir málsverð. Hins vegar takist fólk í hendur eða kyssist eftir matinn og segi; „Tak for mad“.

Gould minnist á tré í garðinum hjá Havsteen og segir það vera stærsta tré landsins. Á heitum sumardögum snæði fjölskyldan undir trénu og líki þannig eftir dönskum garðveislum. Þá nefnir hann annað tré fyrir utan annað hús í bænum (gera má því skóna að umrætt hús sé Laxdalshús). Þessi tvö tré séu eitthvað það allra merkilegasta sem bærinn bjóði upp á! Líklega er hér um sömu reynitré að ræða og vöktu athygli William Morris á ferð hans um Akureyri sumarið 1873 og hann hripaði athugasemd um í dagbókina sína. Eftir kvöldverðinn gekk Gould um fjöruna þar sem hann rakst á enskt skipsflak í flæðarmálinu sem hann segir Akureyringa endurnýta sem byggingarefni.  Gould eyddi sunnudagsmorgninum í sólbaði við kirkjubygginguna áður en hann heimsótti Svein Skúlason, ritstjóra Norðra. Sveinn sýndi honum nokkur fornhandrit þ.á.m. Sturlunga sögu.

Mánudaginn 7. júlí yfirgaf Sabine Baring-Gould Akureyri en staldraði við í bænum að nýju um miðjan mánuðinn. Kurteisi bæjarbúa er honum ofarlega í huga. Í seinni heimsókninni til Akureyrar keypti hann fornhandrit af fátækum manni í bænum. Maðurinn sá sér þann kost vænstan að selja þau til að eiga fyrir salti í grautinn.  Gould lét það ekki aftra sér þrátt fyrir að maðurinn skyldi afhenda honum handritin með tárin í augunum. Mánudaginn 14. júlí yfirgaf Gould Akureyri öðru sinni og hélt ferð sinni áfram um landið. Þegar þarna var komið sögu var May tæplega fjögurra mánaða gömul og því áratugabið eftir að hún ferðaðist um landið og gengi um götur Akureyrar. Þann 9. ágús var Sabine Baring-Gould kominn til Liverpool, tveimur mánuðum eftir að hann lagði af stað frá Skotlandi til Íslands. Tuttugu dögum síðar, þann 29. ágúst 1862, fengu Akureyringar kaupstaðarréttindi:  „Hingað til amtsins er komið brjef frá stjórninni um, að Akureyrar bær sje aðskilinn frá Hrafnagilshrepp og jafnframt því öðlast kaupstaðarjettindi, sem Reykjavík.  Það eru þá orðnir 2 heilir kaupstaðir á landinu.“ (Norðanfari bls. 77).

En hver var maðurinn sem spígsporaði um götur Akureyrar síðustu dagana áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi? Sabine Baring-Gould fæddist 28. janúar 1834 og fékkst hann við hin og þessi störf um ævina. Hann var kennari, prestur, þjóðminjavörður og rithöfundur. Ógrynni af textum ýmiskonar liggja eftir Gould en hann var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma í Englandi. Þekktastur er hann sennilega fyrir tvo sálma sem hann orti árið 1865, þremur árum eftir að hann var staddur á  Akureyri. Þetta eru hinir kunnu sálmar Now The Day Is Over og Onward, Christian Soldiers (Áfram Kristsmenn, krossmenn í íslenskri þýðingu séra Friðriks Friðrikssonar). Þá kannast margir við jólasálminn Gabriel´s message en sálminn þýddi Gould úr basknesku yfir á ensku. Tengsl þessa ferðalangs á tímamótum við May Morris umfram dvöl í höfuðstað Norðurlands á sitt hvorri öldinni? Jú, sjáðu til. Sabine Baring-Gould og faðir May, William Morris voru af sömu kynslóð enskra skálda sem nutu mikillar virðingar samtímamanna. Ekki er ólíklegt að Gould hafi haft eitthvað saman við Morris að sælda. Og þó ekki liggi fyrir hvort eða hversu mikil kynni þeirra Sabine Baring-Gould og Morris-fjölskyldunnar voru í raunveruleikanum öðluðust Baring-Gould og Morris eilíft líf hjá enn einu stórskáldinu í einni af perlum bókmenntasögu 20. aldar, ef kenningar sem settar hafa verið fram þess efnis halda vatni. Skáldið sem um ræðir var persónulegur vinur Sabine Baring-Gould árin eftir Íslandsförina 1862 og síðar elskhugi May Morris. Skyldi litli bærinn á norðanverðri eyjunni hafa borið á góma yfir kaffibolla eða rómantískum kvöldverði?

 

Heimildir:

Baring Gould, Sabine. (1863). Iceland: Its Scenes and Sagas. London: Smith, Elder & co.

Norðanfari (01.10. 1862) bls 77.

Sabine Baring-Gould. (2019, 30. desember). Wikipedia. Sótt 30. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Sabine_Baring-Gould

Mynd fengin af churctimes.co.uk

Konan sem skuggi föðurins faldi – fyrsti hluti

William þáttur Morris, föðurins og Íslandsvinar 

May var fædd árið 1862. Faðir hennar hét William Morris og var fæddur í Essex í Englandi árið 1834. Hann átti eftir að verða eitt þekktasta skáld Englands á síðari hluta 19. aldar. Sem ungur maður stundaði hann nám við Oxford-háskóla ásamt listamanni að nafni Edward Burne-Jones. Tókst með þeim góð vinátta. Árið 1857 hittu þeir fyrir skáldið og listmálarann Dante Gabriel Rosetti. Bundust listamennirnir Morris, Jones og Rosetti vináttuböndum sem átti eftir að skila sér í farsælu samstarfi á sviði listsköpunar.

Móðir May hét Jane Burden og var fædd í Oxford árið 1839. Nokkru eftir að listamennirnir þrír kynntust, í október 1857, hittu þeir Jones og Rosetti Jane á samkomu. Þeir þekktu ekki þessa fallegu stúlku frá Oxford en fóru þess á leit við hana að þeir fengju að mála andlit hennar á striga. Hún sló til. Rétt eins og Jones og Rosetti, hreifst Morris af hinni 18 ára gömlu Jane. Hrifningin varð ekki endurgoldin en þó fór svo að William Morris og Jane Burden gengu í hjónaband árið 1859. Saman eignuðust þau tvær dætur. Jenny fæddist árið 1861. May kom í heiminn ári síðar, sama ár og ungur Íslendingur var sendur til Englands á vegum Hins íslenska Biblíufélags.

Eiríkur Magnússon hleypti heimdraganum og sigldi til Englands árið 1862. Í fylgd eiginkonu sinnar Sigríðar Einarsdóttur kom hann aftur til Íslands árið 1871, þá nýráðinn bókavörður við Cambridge-háskóla. Hjónin voru í hópi enskra ferðamanna um borð í danska póstskipinu Díönu sem hélt úr höfn í Edinborg í Skotlandi og stefndi á sögueyjuna í norðri. Kannski hefur söknuður verið hinni níu ára gömlu May Morris efst í huga heima á Kelmscott-setrinu í Oxfordshire þegar Díana lagði að bryggju í Reykjavík þann 14. júlí. Um borð var faðir hennar, áhugamaður um Ísland og íslenskar bókmenntir og vinur Eiríks.

Eiríkur og William Morris höfðu kynnst árið 1868. Áhugi Morris og uppruni Eiríks varð til þess að sá íslenski kenndi þeim enska íslensku. Þegar þarna var komið sögu höfðu þeir félagar einnig tekið höndum saman við að þýða íslensk bókmenntaverk yfir á ensku. Samstarf þeirra átti eftir að vara í áratugi og geta m.a. af sér þýðingar á HeimskringluGrettis söguVölsunga sögu og Gunnlaugs sögu ormstungu. Eftir sumardvöl á Íslandi sigldi William Morris aftur til Englands í september 1871. Hann hafði ferðast um Suðurland á hestbaki og hitt meðal annarra Jón Sigurðsson leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar. Á sama tíma dvöldu eiginkonan Jane Morris og dæturnar Jenny og May á setri fjölskyldunnar þar sem Rosetti var þá orðinn húsbóndinn á heimilinu tímabundið. Hann bjó undir sama þaki og mæðgurnar á Kelmscott-setrinu á meðan William Morris reið um íslensk héruð og kynnti sér sögusvið Íslendingasagnanna. Kom þetta sumum spánskt fyrir sjónir.

Sumarið 1873 heimsótti William Morris Ísland öðru sinni. Hann kom til landsins um miðjan júlí og í þetta skiptið ferðaðist hann yfir hálendið, norður í land. Hann dvaldi m.a. næturlangt hjá hjónunum Jóni Jóakimssyni og Herdísi Ásmundsdóttur á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Úr austri birtist William Morris Eyfirðingum ríðandi á hesti yfir Vaðlaheiðina með stefnu inn Eyjafjörðinn. Morris reið svo langt sem inn að Saurbæ áður en hann snéri við og gaf sér tíma til að hripa niður nokkur stikkorð um Akureyri þegar hann kom í bæinn laugardaginn 16. ágúst; annríki, kaupmenn, reynitré, prúttari, hótel, ég að væla, leiðinlegur dagur, kalt, engin rigning [lausl. þýðing höf.]. Frá Möðruvöllum í Hörgárdal hélt hann áfram leið sinni suður yfir heiðar þar sem ferðalagi hans lauk. Síðustu dagbókarfærslu sína skráir hann í Norðurárdal þann 19. ágúst.

William Morris var Íslandsvinur og áhugamaður um Íslendingasögurnar. Hann var einnig hugsjónamaður, skáld og textílhönnuður. Sem slíkur fékk hann innblástur í ferðum sínum um Ísland sem hann nýtti sér við skáldskap og hönnun innréttinga. Hafði listsköpun hans áhrif á listamenn á borð við James Joyce, C.S. Lewis og J.R.R. Tolkien. Sennilega er William Morris þekktastur í dag fyrir veggfóðursmynstur sem hann hannaði, alls 55 ólíkar gerðir. Veggfóðrið hans prýðir húsakynni víða um heim.

William Morris lést 62 ára gamall árið 1896. May syrgði föður sinn. Hún ásetti sér að feta í fótspor hans á sviði listsköpunar sem og hún gerði. Um alllangt skeið var May í skugga föðurins. Í seinni tíð hafa þó komið fram sterkar vísbendingar um að vinsælt veggfóðursmynstur úr fórum William Morris sé í raun komið úr ranni dótturinnar May. En May fetaði ekki aðeins í fótspor föðurins þegar kom að listinni heldur einnig bókstaflega þegar hún fór á slóðir hans á sögueyjunni í norðri, áratugum eftir að hann féll frá. Og rétt eins og faðirinn, heimsótti hún Akureyri þar sem hún eignaðist vini fyrir lífstíð. Konan sem skuggi föðurins faldi var við það að láta ljós sitt skína.

 

Heimildir:

Find A Grave. (2011, 21. desember). Eiríkur Magnússon. Sótt af        https://www.findagrave.com/memorial/82238395

Jane Morris. (2019, 28. nóvember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Morris

Lesbók Morgunblaðsins (15.06. 1996) bls. 10-15

Mackail, J.W. (1970). The life of William Morris. New York: Haskell House Publishers LTD.

Nýja dagblaðið (29.07. 1936) bls. 4

William Morris. (2019, 17. desember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/William_Morris#Kelmscott_Manor_and_Iceland:_1870%E2%80%931875

Þjóðólfur (20.07. 1871) bls. 141

 

 

Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon

Séra Hannes Örn Blandon hóf störf sem sóknarprestur í Eyjafjarðarsveit árið 1986. Hann lét af störfum í upphafi árs 2019. Jólahugvekja Hannesar birtist í Morgunblaðinu þann 24. desember árið 1983.

Ég vildi óska, að ég fengi eitt augnablik að verða aftur sem lítið barn, fá að gleðjast með börnum mínum, geta fundið það sama og þau, spenninginn, tilhlökkunina, gleðina. Ég óska þess að ég fengi að gleyma því stundarkorn að ég er fullorðinn maður í heimi angurs ótta og kvíða.

Hugurinn leitar aftur í litla sumarbústaðinn í Kópavogi, sem mamma og pabbi keyptu handa okkur til að dveljast í meðan þau byggðu íbúðarhúsið. Á þeim tíma var Kópavogur varla þorp, það var langt til næstu nágranna og það voru engin götuljós. Þá áttum við drauga, huldufólk og jólasveina og það var auðvelt að komast í stemmningu þegar myrkrið grúfði yfir. Og á jólaföstu þegar æ erfiðara reyndist að koma litlum börnum í háttinn dugði vanalega að benda suður á Reykjanesfjallgarðinn þar sem Keili bar tígulega við næsturhimininn baðaður tunglsljósi og segja: „Nei, sjáiði hverjir þarna eru á ferð.“ Við rýndum suður á fjöllin, sáum ekkert en trúðum samt og drógum sængina upp yfir höfuð pínulítið titrandi i hjartanu.

Þorláksmessa var ægilega erfiður dagur. Hugurinn var blátt áfram að springa af huldufólki, jólasveinum og jólagjöfum svo varla var rúm fyrir jólabarn, við skildum ekki jólin.

Það var einmitt á Þorláksmessu fyrir hartnær 19 árum. Vindurinn nauðaði úti og hangikjötsilm lagði um húsið og það snarkaði vinalega í gömlum kolaofni í stofuhorninu og eitthvað vorum við systkinin hæg í leik okkar. Skyndilega hrukku allir í kút. Einhvers staðar úti í náttmyrkrinu var rekið upp nístandi vein og svo varð dauðakyrrð. Lengi og vel sagði enginn eitt einasta orð fyrr en einhver kvað uppúr: „Hamingjan hjálpi mér, hvað skyldi þetta hafa verið.“ Enn var kyrrt um stund. Þá var sem bankað væri lauslega á útidyrnar eitt eða tvö högg og síðan ekki meir. Pabbi hikaði andartak en gekk svo til dyra og leit út en þar var ekki nokkur sála. Nú var okkur öllum lokið. Skjálfandi af hræðslu skriðum við systkinin undir rúm og æptum: „Það er Kjötkrókur, það er Kjötkrókur, ekki lát’ann tak okkur.“ Og við höfðum ekki fyrr sleppt orðinu þegar enn var bankað eða öllu heldur klórað og nú var það mamma, sem tók af skarið og opnaði dyrnar. Og viti menn, inn stekkur stór grábröndótt kisa og tekur stefnuna beint að kolaofninum og leggst þar niður malandi. Við störðum á dýrið dolfallin. „Það er jólakötturinn,“ hvíslaði systir, og við gripum fastar í pilsfaldinn á mömmu. Nú varð lítill atburður. Kisa fór að baða út öllum öngum, hvæsti og mjálmaði á víxl, lá svo kyrr um stund og mældi á okkur bænaraugum. „Hún hlýtur að vera eitthvað lasin vesalingurinn,“ sagði stóri bróðir og kraup niður að henni. „Snertu hana þá ekki,“ hrópaði mamma. „Nei, sko, hún er kettlingafull,“ sagði stóri bróðir. Hvílík undur og stórmerki í augum barns. Kisa gaut þarna á stofugólfinu sjö fallegum kettlingum og fór að þvo þeim í gríð og erg. Það var seint farið að sofa þessa nótt. En næsta dag, er við vöknuðum, þá skildum við jólin, þegar okkur var sagt frá jólabarninu sem fæddist i Betlehem, sú frásögn birtist okkur í nýju ljósi.

Enn er runninn upp aðfangadagur, dagurinn, er ljósið kom í heiminn. „Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós (Jes. 9:2)“. Ný von hefur kviknað og ný veröld í fæðingu barnsins. En sums staðar ríkir ekki gleði heldur sorg. Einhvers staðar grætur barn móður sína og föður og annars staðar foreldrar börn sín. Myrkur örbirgðar, ofbeldis og einmanaleika leggst að mannkyni og hin illu öfl myrkranna fara hamförum við að slökkva þetta ljós vonarinnar en það mun aldrei takast.. . „Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ Og hann kemur til þín, sem syrgir látinn ástvin og einnig til þín, sem telur dagana sem eftir eru og hann kemur til þín, sem ert einmana og yfirgefinn. Og hann ber þjáningu okkar með gleði, ekkert mannlegt er honum óviðkomandi. Við erum hvött til að gera þessi jól að hátíð friðar og farsældar.

Við erum hvött til að taka höndum saman kristnir menn um víða veröld og efla einingu og sáttfýsi meðal þjóða og það gerum við ekki með sverði í hönd heldur með kærleikann að vopni. Því skulum við taka undir kveðju biskupsins okkar og halda á lifandi ljósi út við glugga í kvöld, sem tákn um vináttu og frið við alla menn nær og fjær.

Ég sendi kveðju mína öllum þeim sem eru fjarri heimilum sínum í dag. Og ég bið Guð að blessa þá, er sinna verða vandastörfum í þágu almenningsheilla, lögreglumönnum og hjúkrunarfólki.

Guð gefi öllum landsmönnum gleðileg jól.

 

Hannes Örn Blandon. (1983, 24. desember). Hugvekja eftir sr. Hannes Örn Blandon. Morgunblaðið, bls. 7.

Konan sem skuggi föðurins faldi – inngangsorð

Aðsend grein frá Ameríku 

„Vegna snjóþyngsla höfum við verið innilokuð í fimm daga. Okkar stutta blindgata bíður á meðan stærri götur eru hreinsaðar. Þetta hefur sína kosti, t.d. vilja nágrannar ólmir hjálpa hver öðrum og inni er notalegt og nógur tími til að lesa og hlusta á tónlist. Áðan hljómaði Vor (Thrush of Spring) eftir Sinding af geisladiski en einmitt það lag minnir mig á, þegar það með kátínu ruddist út um opna glugga verkamannabústaðanna á góðviðrisdögum þegar ég flýtti mér heim eftir Ásvallagötunni til að borða hádegismat. Elsta minning mín er þegar ég horfði á marga karlmannsfætur sparka logandi kleinupotti út dimm göng og út í snjó. Sú næstelsta er að ég horfði á konu í aðskornum, ljósköflóttum reiðfötum tala hratt og ákveðið skrítið mál við sína fylgdarmenn, sem lögðu á marga hesta í tröðunum á Hallgeirseyjarhjáleigu.“

Svo skrifar hálfáttræð kona í aðsendri grein í víðlesnu dagblaði í lok 20. aldar. Greinina skrifaði hún á heimili sínu í Bandaríkjunum þar sem hún hafði búið frá árinu 1949 þegar hún flutti frá Íslandi með eiginmanni sínum. Hafði hann gegnt herþjónustu hér á landi, þau fellt hugi saman og gengið í hjónaband á stríðsárunum.

Í greininni hugsar Adda, eins og hún var kölluð í vinahópi sínum í Ameríku, hlýlega til heimahaganna á Suðurlandi og uppvaxtaráranna þar. Í niðurlagi greinarinnar víkur hún aftur að minningunni um konuna í aðskornu, ljósköflóttu reiðfötunum sem talaði framandi tungumál. Konan, sem var erlendur ferðamaður, hafði dvalist næturlangt hjá fjölskyldu Öddu á ferðalagi sínu um Ísland á þriðja áratugnum. Þrátt fyrir ungan aldur mundi Adda eftir kynnum sínum af konunni sem hún gat nafngreint en vissi þó lengi vel engin frekari deili á.

Um það bil 74 árum síðar komst Adda yfir ævisögu „eins af merkilegustu Englendingum síðustu aldar“. Nafn mannsins (sem var hið sama og „huldukonunnar“ á Suðurlandi) og vitneskjan um að dóttir hans hafði sótt Ísland heim á millistríðsárunum vakti forvitni Öddu. Forvitninni var svalað á bls. 679. „Nú er ég þakklát fyrir að hafa lesið þessa prýðilegu bók og um leið uppgötvað að ég sá Miss Morris 1924, 62 ára gamla.“

Grenndargralið heldur áfram að grafa upp sögu konunnar sem um langt skeið féll í skuggann á föður sínum en hefur hin seinni ár öðlast þá athygli á heimsvísu sem hún á skilið. Um tíma dvaldist hún á Akureyri, á heimili hjóna sem héldu sambandi við hana allt til dauðadags. Sagan er spennandi eins og margar gleymdar gersemar í sögu heimabyggðar. Adda, eða Hallfríður Guðbrandsdóttir Schneider eins og hún hét fullu nafni, kom Grenndargralinu á sporið. Hún lést á jólanótt 2009. Greinina endar hún á þessum orðum.

„Það bólar ekkert á snjóýtum, svo nú hlusta ég á diskinn Vikivaki og byrja á nýrri bók.“

Snjómoksturstækin eru komin í Þorpið. Allt horfir til betri vegar á götunum og rétt að byrja á fyrsta kafla um konuna sem skuggi föðurins faldi.