main image

Sprengjusérfræðingar við hættumat í Hlíðarfjalli

30. 09. 2019. Í gær fann Grenndargralið torkennilegan hlut í hlíðinni ofan skíðahótelsins í Hlíðarfjalli sem minnti á framhluta sprengju. Myndir voru teknar á vettvangi en hluturinn látinn afskiptalaus með öllu ef ske kynni að um virka sprengju væri að ræða.

Herði Geirssyni, sérlegum ráðgjafa Grenndargralsins um stríðsminjar, var tilkynnt um fundinn. Eftir að hafa skoðað mynd af hlutnum hafði Hörður samband við sprengjusérfræðing hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem var staddur á Akureyri. Ekki var hægt að meta aðstæður á staðnum hættulausar og var því mat hans að rétt væri að kanna vettvanginn nánar.

Í dag héldu tveir sprengjusérfræðingar frá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar upp fjallið í fylgd Grenndargralsins og Lögreglunnar til móts við hinn dularfulla hlut. Eftir að sérfræðingarnir höfðu grafið varlega frá hlutnum og ráðið ráðum sínum lá niðurstaða fyrir. Kveikibúnaður fyrir sprengikúlu úr loftvarnarbyssu frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar, óvirkur og engin hætta á ferð.

Mat sprengjusérfræðinganna var að líklegast væri sjálf sprengikúlan í grennd við þann stað þar sem kveikibúnaðurinn fannst. Hún gæti þó hafa grafið sig niður í jörðina þegar hún skall niður. Að sögn sérfræðinganna voru sprengjur sem þessar með tímastilli. Hægt var að reikna út tímann sem það tók sprengjuna að svífa og stilla hana þannig að hún springi á ákveðnum tíma eftir flugtak.

 

Sprengjusérfræðingarnir gerðu kveikibúnaðinn upptækan en þeir munu hafa hann með sér suður yfir heiðar. Þar munu þeir yfirfara hann frekar áður en „varðveislumenn minjanna“ fá hann í safn stríðsminjanna sem þeir hafa safnað saman í sumar við rætur Hlíðarfjalls.

Á leið niður hlíðina komu sprengjusérfræðingarnir auga á gýg sem þeir töldu af ummerkjum að dæma að væri eftir sprengju frá seinni heimsstyrjöldinni. Þeir skoðuðu hann og töldu að áhugavert gæti orðið að renna yfir hann með málmleitartæki. Sennilega myndi þó tækið væla meira og minna allan tímann í hlíðunum ofan skíðahótelsins vegna fjölda mögulegra sprengjubrota á víð og dreif á svæðinu eftir setuliðið. Mest eru það hættulausir gripir sem engum stafar hætta af. Ljóst er þó að fara skal að öllu með gát þegar gengið er á slóðum setuliðsmanna þar sem sprengju- og skotæfingar fóru fram og torkennilegir hlutir finnast á göngunni. Virkar sprengjur finnast enn í jörðu vítt og breitt um landið.